Úrskurðir um matvæli og landbúnað

8.11.2017

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur þann 8. nóvember 2017 kveðið upp svohljóðandi:

 

Ú R S K U R Ð

Stjórnsýslukæra

Með stjórnsýslukæru dags. 18. júlí 2017 kærði stjórn Villikatta kt. 710314-1790, hér eftir nefnd kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 5. júlí 2017, um að krefjast þess að félagið skili kettlingum til móður sinnar.

Kröfugerð og kæruheimild

Kærandi gerir ekki skýra kröfu, en af efni kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ráðuneytið viðurkenni að kæranda hafi verið heimilt að fjarlægja kettlingana frá móður sinni og færa til aðhlynningar á dýraspítala, á grundvelli hjálparskyldu í ákvæði 7. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Kærandi telur ákvörðun Matvælastofnunar byggja á rangri lagatúlkun og telur Matvælastofnun ekki hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.

Um kæruheimild gildir almenn kæruheimild samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst fyrir lok kærufrests samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. 

 

Málsatvik og málsmeðferð

Með hliðsjón af málsgögnum voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Þann 1. júlí 2017 barst kæranda ábending um fjölda katta, kettlingafullra læða og kettlinga, við húsvegg á minkabúi á suðurlandi. Tveir sjálfboðaliðar á vegum kæranda fóru á staðinn þann 4. júlí 2017 og fundu um 70 ketti. Með leyfi bóndans tóku sjálfboðaliðarnir þrjá 2-3 vikna kettlinga og þrjá ca. 5 vikna kettlinga, sem þeir töldu sýnilega veika og farið með á dýraspítalann í Garðabæ.

Dýralæknirinn skoðaði kettlingana og skrifaði um þá heilsufarsskýrslu. Hann tók ákvörðun um að aflífa einn kettlinganna vegna mikillar bólgu í útlimum. Sjálfboðaliðar kæranda, ásamt tveimur stjórnarmeðlimum félagsins, útskýrðu aðkomu sína að málinu fyrir dýralækninum sem bað þá að senda sér tölvupóst með tillögum um hvernig félagsmenn sæu fyrir sér að geta komið að málinu og hjálpað. Kvaðst hann myndu tala við Matvælastofnun morguninn eftir.

Kærandi sendi dýralækninum tölvupóst að kvöldi 4. júlí, og daginn eftir, 5. júlí, fékk fyrirsvarsmaður kæranda símtal frá lækninum þar sem upplýst er um að Matvælastofnun hafi gefið fyrirmæli um að kettlingunum skyldi skilað á sinn stað þegar í stað, þar sem ekki mætti skilja kettlinga undir átta vikna aldri frá mæðrum sínum.

Skömmu síðar sama dag, þann 5. júlí, hringdi starfsmaður Matvælastofnunar í fyrirsvarsmann kæranda og ítrekaði að félaginu væri skylt að skila kettlingunum aftur til mæðra sinna fyrir kl. 15:30 samdægurs. Hann sendi tölvupóst með kröfunni að beiðni kæranda og um klukkustund eftir það barst ákvörðun Matvælastofnunar í tölvupósti.

Einn stjórnarmaður kæranda mælti sér mót við dýraeftirlitsmann Matvælastofnunar þann 5. júlí, á búinu þar sem kettlingarnir fundust, svo hann gæti vottað að dýrunum hefði verið skilað. Á staðnum varð stjórnarmaður kæranda var við kettling með slæma augnsýkingu, benti dýraeftirlitsmanninum á hann og kvaðst vilja fara með hann til læknis. Dýraeftirlitsmaðurinn hringdi í fyrrgreindan starfsmann Matvælastofnunar til að fá leyfi til þess og var leyfið veitt.

 

Málsástæður og lagarök

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi telur sig hafa haft lagaskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, til að veita köttunum aðstoð. Kærandi segir kettlingana flesta hafa verið sýnilega veika og með verulega mikla augnsýkingu. Þeir hafi virst vera nokkurra vikna gamlir. Augljóst hafi verið að þeir kveldust þar sem flestir þeirra hafi verið með kattakvef, alvarlega augnsýkingu, bólgu í útlimum, niðurgang, orma og illa nærðir. Því hafi verið um bráðatilvik að ræða.

Kærandi kveður bóndann á búinu hafi ekki kannast við að vera umráðamaður dýranna en ætti lóðina sem þeir héldu til á.

Telur kærandi heilsufarsskýrslu dýralæknisins sýna glögglega að um undantekningartilfelli í skilningi 26. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra hafi verið að ræða. Telur kærandi enn fremur að aðgerðarleysi hefði falið í sér brot á hjálparskylduákvæðis 7. gr. laga um velferð dýra. 

Þá segi í 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra að í undantekningartilvikum sé heimilt að skilja kettling frá læðu áður en hann hefur náð átta vikna aldri, þó aðeins krefjist aðstæður þess. Kærandi segir ástand kettlinganna hafa verið grafalvarlegt. Ekki hafi verið mögulegt að finna móður kettlinganna þar sem um 70 kettir hafi haldið sig við minkabúið, flestir nauðalíkir. Telur kærandi þrönga túlkun Matvælastofnunar á undantekningum í skilningi 26. gr. reglugerðarinnar lífshættulega dýrum.

Kærandi bendir á að hann taldi sig hafa uppfyllt tilkynningaskyldu til Matvælastofnunar í gegnum dýralækninn. Kærandi kveðst hafa komið að búinu á milli kl. 16 og 17 þann 4. júlí, en móttaka Matvælastofnunar loki kl. 16. Kettlingarnir hafi verið komnir á dýraspítalann í Garðabæ upp úr kl. 18. Dýralæknirinn hafi heitið kæranda að tilkynna um ástand kettlinganna og aflífun eins þeirra, strax daginn eftir. Dýralæknirinn hafi þannig tilkynnt um grun um brot á lögum um velferð dýra fyrir hönd kæranda, en lög nr. 55/2013 geri ekki sérstakar formkröfur til tilkynninga af þessu tagi. Þá hafi tilkynningin borist „svo fljótt sem auðið er“ í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laganna, eða um leið og móttaka Matvælastofnunar opnaði.

Kærandi telur Matvælastofnun ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en enginn frá stofnuninni hafi komið á vettvang né kannað ástand kattanna.

Starfsmaður Matvælastofnunar hafi hringt í starfsmann kæranda, í kjölfar tilkynningar dýralæknisins, og talað við hann í um tíu mínútur.

Þá hafi fyrrgreindur starfsmaður Matvælastofnunar sent stjórn kæranda tilkynningu í tölvupósti kl. 14:58 þann 5. júlí um að þeim yrði gert að skila kettlingunum til móður sinnar, eða innan 32 mínútna. Ákvörðunarbréf stofnunarinnar hafi verið sent stjórn kæranda kl. 15:50, eða 20 mínútum eftir að frestur kæranda til að skila kettlingunum var liðinn. Kærandi segir starfsmann Matvælastofnunar hafa sagt að sá póstur hafi verið sendur kl. 14:58.

Kærandi segir Matvælastofnun ekki geta gert athugasemd við að ekki hafi verið tilkynnt um málið til eða verið í samvinnu við sveitarfélagið, þar sem lög nr. 55/2013 tilgreini sveitarfélög hvergi sem móttakanda tilkynninga um slæman aðbúnað dýra.

Þá telur kærandi ákvörðunarbréf Matvælastofnunar bera þess skýr merki að stuðst hafi verið við frásögn sjálfboðaliða Villikatta. Bréfið hafi verið sent án þess að nokkur starfsmaður Matvælastofnunar hafi farið á svæðið þar sem kettlingarnir fundust eða hafa skoðað hina sjúku kettlinga af eigin raun. Kæranda hafi verið gert að skila kettlingunum að viðlögðum viðurlögum áður en nokkur á vegum Matvælastofnunar hefði rannsakað málið.

Dýraeftirlitsmaður Matvælastofnunar hafi litið við í skemmunni einungis til að ganga úr skugga um að kærandi skilaði kettlingunum, ekki til að skoða aðbúnað kattanna.

Þá komi fram að Matvælastofnun hafi gert athugasemdir við velferð og aðbúnað dýra á svæðinu í febrúar sama ár, en augljóst sé að engin eftirfylgni hafi verið.

Fullnægjandi rannsókn hefði leitt í ljós að kettlingarnir væru fársjúkir, þyrftu læknisaðstoð hið snarasta og að ekki væri nokkur leið til að finna mæður þeirra.

 

Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar

Matvælastofnun bendir á að ákvæði 7. gr. laga nr. 55/2013 um hjálparskyldu, réttlæti ekki að kettlingar yngri en átta vikna séu teknir frá mjólkandi læðum líkt og kærandi gerði. Í þessu tilviki hafi eingöngu einn af sex kettlingum, sem teknir voru, verið metinn í slæmu ástandi af dýralækninum. Tveir kettlinganna hafi verið í mun betra ástandi. Loks hafi þrír kettlingar á aldrinum 4-6 vikna verið metnir í góðu ásigkomulagi og því ljóst að ekki sé hægt að vísa til hjálparskyldu sem ástæðu fyrir brottnámi þeirra.

Matvælastofnun bendir á að ákvæði 26. gr. reglugerðar nr. 80/2016 heimili undantekningu „vegna aðstæðna sem krefjast þess“, en telur að það hafi ekki átt við í þessu tilfelli.

 

Matvælastofnun bendir á að kærandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni samkvæmt 8. gr. laga um velferð dýra, sem kveður á um að tilkynna skuli grun um að meðferð dýra brjóti gegn lögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, til Matvælastofnunar eða lögreglu, svo fljótt sem auðið er. Þess í stað hafi kærandi tekið málin í eigin hendur og tekið sex kettlinga, 2-6 vikna, frá mæðrum sínum, þó með samþykki umráðamanns. Matvælastofnun bendir á að það sé mikilvægur liður í því að stofnunin geti sinnt eftirlitsskyldu sinni, að tilkynningaskyldan sé virt.

 

Matvælastofnun hafnar því að hafa brotið gegn rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.

 

Matvælastofnun kveðst hafa fengið upplýsingar milliliðalaust frá dýralækninum á dýraspítalanum í Garðabæ, sem skoðaði kettlingana og skrifaði um þá heilsufarsskýrslu sem var tilkynnt til stofnunarinnar.

 

Þá hafi stofnunin brugðist við sama dag og ábending barst. Dýraeftirlitsmaður hafi farið á staðinn til að kanna aðstæður 5. júlí, daginn sem starfsmenn Matvælastofnunar fengu fyrst upplýsingar um málið. Gerði hann kröfu um að veikum dýrum yrði komið til dýralæknis og gefinn var ákveðinn frestur til þess. Þetta hafi gerst daginn eftir að kærandi fjarlægði kettlingana af staðnum og fimm dögum eftir að kæranda barst fyrst ábending um aðbúnað kattanna. Því sé ekki rétt að starfsmenn Matvælastofnunar hafi ekki rannsakað aðstæður og heilsu kettlinganna.

 

Þá bendir Matvælastofnun á að kærandi hafi ekki verið í sambandi eða í samvinnu við sveitarfélagið um ráðstöfun kattanna, sbr. 2. mgr. 7. gr., líkt og eðlilegt hefði verið, væri talið að kettirnir ættu engan umráðamann líkt og greinir í kæru.

 

Matvælastofnun bendir á að samkvæmt 36. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra er stofnuninni heimilt að gera kröfur um úrbætur vegna brota á lögunum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

 

Telur Matvælastofnun rannsóknarskyldu sína hafa verið uppfyllta og málið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin. Krafa um að kettlingum yrði skilað hafi verið tekin út frá sjónarmiðum um velferð læða og kettlinga. Unnið hafi verið að bættum aðbúnaði kattanna frá því í sumar og umráðamaður hafi m.a. verið í samstarfi við kæranda. 

 

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Málið lýtur að því að þann 4. júlí 2017 fjarlægði kærandi samtals 6 kettlinga á aldrinum 2-6 vikna frá mæðrum sínum og færðu á dýraspítala til aðhlynningar. Dýralæknir tók ákvörðun um að aflífa einn kettlinganna sökum veikinda. Þann 5. júlí sendi Matvælastofnun ákvörðun um að kæranda bæri að skila kettlingunum samdægurs til mæðra sinna.

Ákvæði 8. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra kveður á um tilkynningarskyldu til lögreglu eða Matvælastofnunar, leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn ákvæðum laganna eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá gerir ákvæði 9. gr. þeim aðilum sem hafa afskipti af málum dýra, ríka kröfu um tilkynningarskyldu til Matvælastofnunar, verði þeir varir við aðstæður sem lýst er í 1. mgr. 8. gr. 

Ákvæði 7. gr. laganna kveður á um skyldu til að veita m.a. sjúku dýri umönnun eftir föngum. Ákvæðið heimilar aflífun dýrs, sé fyrirsjáanlegt að ekki verði hægt að koma dýrinu til hjálpar innan hæfilegs tíma og augljóst að sjúkdómur er banvænn. Skylt er að tilkynna slíka aflífun til Matvælastofnunar sé um búfé eða gæludýr að ræða.  Sé umráðamaður ekki til staðar ber að tilkynna atvik til lögreglu, sem kallar til dýralækni telji hún ástæðu til. Ákvæði 2. mgr. kveður á um skyldu sveitarfélags til að sjá til þess að gripið sé til aðgerða skv. 1. mgr. sé um hálfvillt eða villt dýr að ræða.

Ákvæði 26. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra kveður á um umönnun kettlingafullrar eða mjólkandi læðu og ungviðis. Í 3. mgr. segir að aðeins sé heimilt að skilja kettling yngri en 8 vikna frá læðu í undantekningartilfellum, og þá aðeins vegna aðstæðna sem krefjast þess. 

Ekki er skilgreint nákvæmlega hvað hjálparskylda skv. 7. gr. laga um velferð dýra felur í sér. Eðli málsins samkvæmt þarf að taka mið af aðstæðum hverju sinni. Í þessu tilfelli var um 2-6 vikna kettlinga að ræða, sem óheimilt er að aðskilja frá móður sinni nema í undantekningartilfellum. Því er nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort unnt sé að beita vægari aðgerðum, áður en ákvörðun er tekin um að fjarlægja svo unga kettlinga frá móður sinni. 

Kærandi kom á staðinn eftir að skrifstofutíma Matvælastofnunar lauk og bendir á að af þeim sökum hafi ekki verið unnt að ná í stofnunina. Á vefsíðu Matvælastofnunar er að finna símanúmer sjálfstætt starfandi dýralækna sem sinna bakvakt á skilgreindum vaktsvæðum á landinu. Eru þar gefin upp þrjú símanúmer í Suðurumdæmi.

Með tilliti til þess hve ungir kettlingarnir voru, hefði verið rétt að reyna að fá dýralækni á staðinn, til að meta aðstæður og taka ákvörðun um hvort nauðsynlegt væri að fjarlægja kettlingana.

Líkt og Matvælastofnun bendir á fer stofnunin með framkvæmd stjórnsýslu samkvæmt lögum um velferð dýra og er tilkynningarskyldan mikilvægur liður í því að stofnunin geti sinnt eftirliti samkvæmt lögunum. 

Kærandi kveðst hafa fengið ábendingu um kettina þann 1. júlí 2017 en hafi farið á staðinn þann 4. júlí. Af þessu að dæma hafði kærandi nægan tíma til að tilkynna Matvælastofnun um málið áður en farið var á staðinn, í samræmi við 8. gr. laganna, þrátt fyrir að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um ástand kattanna. Þá hefði kærandi jafnframt getað farið þess á leit við Matvælastofnun, að starfsmaður hennar væri viðstaddur þegar kærandi mætti á staðinn, til að meta aðstæður.

Hvað rannsóknarskyldu Matvælastofnunar varðar, liggur fyrir að dýralæknirinn á dýraspítalanum í Garðabæ tilkynnti stofnuninni um kettlingana og aflífun eins þeirra að morgni 5. júlí 2017. Matvælastofnun fékk þá upplýsingar frá dýralækninum sem framkvæmdi heilsufarsskoðunina, um heilsufar og áætlaðan aldur kettlinganna. Síðar sama dag sendi Matvælastofnun bréf með þeim fyrirmælum að skila kettlingunum til mæðra sinna. Síðar sama dag hitti dýraeftirlitsmaður Matvælastofnunar sjálfboðaliða kæranda, á þeim stað sem kettlingarnir höfðu verið fjarlægðir, og kannaði aðstæður. Fylgir sú skoðunarskýrsla, ásamt myndum, í málsgögnum.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að Matvælastofnun hafði upplýsingar um heilsufar kettlinganna áður en ákvörðun var tekin um að þeim skyldi skilað. Í kjölfar skoðunar dýraeftirlitsmanns Matvælastofnunar, hefur verið unnið að bættum aðbúnaði kattanna í samráði við umráðamann þeirra.

Við eftirlit í febrúar 2017 upplýsti bóndinn um ketti sem hefði aðstöðu í ónotuðu minkahúsi. Var bóndanum ráðlagt að fyrirbyggja offjölgun þeirra en engin frávik voru skráð varðandi ástand þeirra á þeim tíma. 

Kærandi kveðst hafa fengið knappan tíma til að skila kettlingunum til mæðra sinna. Tölvupóstur starfsmanns Matvælastofnunar hafi borist um þrjátíu mínútum áður en fresturinn rann út og ákvörðunarbréf Matvælastofnunar hafi borist tuttugu mínútum eftir að sá frestur rann út. Í kæru kemur fram að kærandi fékk upplýsingar um þessa ákvörðun munnlega og var tilkynnt að skrifleg ákvörðun yrði send bæði í tölvupósti og bréfpósti. Þá óskaði kærandi eftir því í tölvupósti til Matvælastofnunar, sem sendur var kl. 13:53, að hún sendi skriflega kröfu um að kettlingunum verði skilað. Verður því að telja ljóst að kæranda var kynnt ákvörðunin munnlega með nægilegum fyrirvara. Með tilliti til kettlinganna og mæðra þeirra, var brýnt að þeim yrði skilað sem fyrst, sbr. fyrrgreint ákvæði 26. gr. reglugerðar um velferð gæludýra. 

Með vísan til alls framangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun Matvælastofnunar um að skila sex kettlingum á aldrinum 2-6 vikna til mæðra sinna, á grundvelli 26. gr. reglugerðar nr. 80/2016. Þá telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðunin var tekin. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 5. júlí 2017, um að skylda kæranda, Villikettir, kt. 710314-1790, til að skila sex kettlingum á aldrinum 2-6 vikna til mæðra sinna, er staðfest.

 

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Ólafur Friðriksson

Birgitta Kristjánsdóttir