Hoppa yfir valmynd
B. Vinnumarkaður – Launajafnrétti kynja

Lýsing á aðgerð

Jafnrétti í stjórnun fyrirtækja.

Unnið verði að því að meta framkvæmd á ákvæðum laga um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja sem var bætt við lög um hlutafélög, nr. 2/1995, og lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með sérstökum breytingalögum, nr. 13/2010, og tóku gildi 2013. Verkefnið felur m.a. í sér eftirfarandi:

Skoðað verði hvort markmiðunum með setningu ákvæðanna hafi verið náð.
Löggjöfin verði rýnd og skoðað hver sé raunverulegur ávinningur m.t.t. markmiða jafnréttislaga um jöfn áhrif kvenna og karla í samfélaginu.
Leiðir til úrbóta verði greindar ef þörf þykir.

Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: Allt að 3 millj. kr.
Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (nú menningar- og viðskiptaráðuneytið).

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.5, 5.c, 10.2, 10.3 og 10.5.

Staða verkefnis

Verkefninu lauk samhliða skilum á greinargerð sem byggir á lýsingu verkefnisins. Með greinargerðinni var farið yfir aðdraganda að setningu kynjakvótaákvæða 1. mgr. 63. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, auk þess sem framkvæmdin hérlendis var sett í samanburð við nokkur Evrópuríki sem hafa innleitt sambærileg lagaákvæði um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja. Á grundvelli tölfræðiupplýsinga frá Hagstofu Íslands var farið yfir kynjahlutföll í stjórnum félaga og þróun hérlendis frá árinu 2008 til dagsins í dag. Í samræmi við lýsingu verkefnisins voru ákvæði um kynjakvóta rýnd og varpað ljósi á þá óvissu sem virðist vera uppi, hvað varðar skýrleika viðurlagaákvæða vegna brota á fyrrnefndum kynjakvótaákvæðum.  Fjallað um ávinning kynjakvótaákvæðanna með tilliti til markmiða jafnréttislaga um jöfn áhrif kvenna og karla í samfélaginu. Loks voru gerðar tillögur til úrbóta.

Í eftirfarandi töflum má finna upplýsingar um samanburð á kröfu kynjakvótaákvæðanna um kynjahlutföll eftir fjölda stjórnarmanna og núverandi hlutfalli kvenna í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga:

Fjöldi stjórnarmanna í félögum með 50+ launamenn

Krafa um kynjahlutfall skv. lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994

Tölur Hagstofunnar, um hlutfall kvenna, birtar 2023

2

50,0%

21,0%

3

33,3%

33,6%

4+

40,0%

38,3%

 

Fjöldi stjórnarmanna í félögum með 50+ launamenn

Krafa um kynjahlutfall skv. lögum um hlutafélög nr. 2/1995

Tölur Hagstofunnar, um hlutfall kvenna, birtar 2023

3

33,3%

38,3%

4+

40,0%

41,8%

 

Við mat á því hvort kynjakvótaákvæðin hafi náð markmiði sínu, þarf að hafa í huga, að öllum félögum sem kynjakvótaákvæðin taka til, ber að uppfylla skilyrði ákvæðanna um kynjahlutföll stjórnarmanna. Af því leiðir, að heildarhlutfall kynja í stjórnum félaga, líkt og birtist í töflunum hér að framan, gefur ekki annað en vísbendingu um hvort markmiði laganna hafi verið náð. Á sama tíma er því ekki haldið fram, að ákvæðin geti ekki náð markmiði sínu þrátt fyrir að fáein félög starfi í andstöðu við kynjakvótaákvæðin. En þegar horft er til þess, að tíu ár eru liðin frá gildistöku kynjakvótaákvæðanna, og enn uppfylla 70 af þeim 288 félögum sem kynjakvótaákvæðin ná yfir, ekki lágmarkshlutfall annars kyns stjórnarmanna, er óhætt að slá því föstu að ákvæðin hafi ekki náð markmiði sínu. Að minnsta kosti ekki að öllu leyti.  Nánar tiltekið er um að ræða 11,2% hlutafélaga með 50 eða fleiri starfsmenn sem uppfylla ekki skilyrði kynjakvótaákvæðanna, og 30,2% einkahlutafélaga með 50 eða fleiri starfsmenn.

Í samræmi við lýsingu verkefnisins var ákveðið að gera tillögur til úrbóta, en þær eru sem segir: 

  1. Fengið verði sérfræðiálit, um hvort að orðalag dagsektarákvæða 1. mgr. 152. gr. laga um hlutafélög og 1. mgr. 126. gr. laga um einkahlutafélög, sé nægilega skýrt, í lagalegum skilningi, til að veita hlutafélagaskrá heimild til álagningu dagsekta eða vikusekta á félag sem vanrækir að skipa stjórn fyrirtækis með 50 eða fleiri starfsmenn í samræmi við ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
  2. Skoðað verði hvort önnur úrræði en dagsektir geti leitt til aukinnar fylgni við ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Tekið er undir tillögur sem fram komu í umsögn Samtaka atvinnulífsins við frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög - 56. mál, 56. þskj. 151. löggjafaþing 2020-2021, en þar er lagt til að:
  • Félögum, sem hafa ekki skipt um stjórn frá gildistöku ákvæðanna 2013, verði gert að skipta um stjórn innan tveggja ára.
  • Einkahlutafélög með 50 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli verði gert að hafa a.m.k. þrjá stjórnarmenn líkt og á við um hlutafélög.
    3. Sett verði markmið, um að öll einka- og hlutafélög, með 50 starfsmenn eða fleiri, starfi í samræmi við gildandi ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, eða eftir atvikum 1. mgr. 39. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, að ári liðnu. Á meðan markmiðinu stæði mætti auka vitund         stjórna, s.s. með fræðslu, á fyrrnefndum kynjakvótaákvæðum, markmiðum þeirra og samfélagslegum áhrifum. 

Verkefninu er lokið.

Ábyrgð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Staða verkefnis

Lokið
Til baka

Aðgerðir í jafnréttismálum

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum