Hoppa yfir valmynd
1. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 331/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 331/2015

Miðvikudaginn 1. júní 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 13. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. september 2015 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 9. apríl 2015. Með örorkumati, dags. 22. september 2015, var umsókn kæranda synjað en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur frá 1. júní 2015 til 30. september 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 17. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2015, óskaði nefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 30. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar almannatrygginga, dagsettri sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fram fari endurmat á örorku hennar. Hún sé með öllu óvinnufær og eigi að vera með 100% örorkumat en ekki 50%.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 9. apríl 2015, og hún hafi verið metin til örorku þann 22. september 2015. Niðurstaða matsins hafi verið sú að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. almannatryggingalaga en hún hafi verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna frá 1. júní 2015 til 30. september 2017.

Örorkulífeyrir samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar greiðist þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga sé greiddur þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við mat á örorku hafi legið fyrir umsókn kæranda, dags. 9. apríl 2015, læknisvottorð B, dags. X, svör við spurningalista, dags. X, starfsgetumat frá VIRK, dags. X, og skoðunarskýrsla, dags. X, auk eldri gagna.

Fram hafi komið að kærandi stríði við geðrænan vanda auk stoðkerfiseinkenna, andlitsverkja og fleira. Kæranda hafi verið metið endurhæfingartímabil frá 1. desember 2013 til 31. maí 2015. Frekari endurhæfing hafi ekki þótt líkleg til að skila aukinni vinnufærni að sinni og því hafi komið til örorkumats.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður, geðsveiflur valdi henni óþægindum einhvern hluta dagsins, kærandi verði oft hrædd eða felmtruð án tilefnis, hún forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi, kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna, hugaræsing vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi eða truflandi hegðunar og kærandi kjósi að vera ein sex tíma á dag eða lengur.

Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt en færni kæranda til almennra starfa hafi talist skert að hluta og henni hafi verið metinn örorkustyrkur frá 1. júní 2015 til 30. september 2017. Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að ákvörðun hennar um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar bætur en veita henni örorkustyrk þess í stað hafi verið rétt.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. september 2015, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. júní 2015 til 30. september 2017. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn  a.m.k. 75% öryrki, nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. X, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu sem hér greinir:

„Anxiety depression (mild or not persistent)

Fibromyalgia

Migren

Trigeminal neuralgia

Submucous leiomyoma of uterus“

Í læknisvottorðinu segir svo um fyrra heilsufar og sjúkrasögu kæranda:

„Menntuð [...], X dætra móðir, býr í eigin húsnæði sem hún er að fara að selja til minnka við sig. Býr ein. Er með slæma Fibromyalgiu, migreni og trigeminal neuralgiu til margra ár og bryjar þetta allt í raun upp úr X. Er með dofa í höndum báðu megin sem. Illa hefur gengið að ná almennilega tökum á hennar einkennu. Undirlögð af stoðkerfisverkjum. Verkir í hnakka og með bólgnar hnakkafestur. Gríðarlegar myosur í herðum og verkir í öxlum. Slæmur járnskortur. Hypertension arterialis. Leyomyoma of uterus. Depressio mentis sem og hefur verið að fá kvíðaköst. Hefur verið með þekktan B12 og járnskort. Verið á endurhæfingarlífeyri og endurhæfingu via VIRK. Verið í sjúkraþjálfun. Í ÞRAUT. Osteopati sem og sálfræðingi í gegnum VIRK. Gigtarleikfimi. Öll hennar endurhæfing dugði afar lítið.

[…]

Stoðkerfisverkir og lífsskerðandi höfuð- og andlitsverkir. Einnig afar slæmir verkir í aftanverðum hálsi. Sjóntruflanir í verstu köstunum. Búið að reyna alla mögulega endurhæfingu og nú svo komið að ekki verður reynt meir og því sótt um örorku fyrir þessa ágætu konu.“

Um skoðun á kæranda þann 16. mars 2015 segir svo í vottorðinu:

„Skýr og greinargóð. Vel til höfð kona. Multiple triggerpunktar í raun um allan skrokk en þó primert í hálsi, herðum og total baki. A tekur engin lyf í dag nbema stöku verkjalyf um tíma var hún þó á afar miklum lyfjum en hreinsaði sig sjálf upp af þeim.“

Í athugasemdum vottorðsins segir svo:

„X ára kona sem að hefur reynt allt til að ná vinnugetu á ný. Nú hinsvegar orðið fullreynt og ljóst er að A muni ekki ná starfsgetu að nýju.“

Í starfsgetumati VIRK segir meðal annars svo:

 „X ára gömul kona með samfellda vinnusögu sem [...] og síðan sem [...]. Vann síðast sumarið X en gafst þá upp vegna kvíða og stoðkerfisverkja. Hefur farið í sjúkraþjálfun í X skipti á vegum VIRK auk þátttöku í gigtarhóp, vefjagigtarhóp, sálfræðimeðferð hjá D í X skipti og fór á námskeiðið [...]. Verið á eigin vegum margoft í sjúkraþjálfun. Lauk 3 fögum í Fjölbrautarskóla E með frjálsri mætingu. Fór í X og hjálpaði það henni nokkuð, einkum andlega.

Í dag er hún enn þjökuð af höfuðverkjum, kvíða og verkjum um allan líkama vegna vefjagigtar. Segist ekki betri eftir úrræðin en hefur betri skilning á þeim. Viðvarandi sljóleiki og minnisleysi. Notar alprazolam við kvíða og þunglyndislyf sem hún man ekki nafnið á. Hún er úrkula vonar um að hún komist aftur á vinnumarkaðinn. Læknir hennar hefur sótt um örorku fyrir hana.

Í greinargerð sjúkraþjálfara stendur: Útbreiddir stoðkerfisverkir og slæmir höfuðverkir, vefjagigt. Tel að hún eigi ekki afturkvæmt á vinnumarkað á næstu mánuðum.

Í greinargerð sálfræðings stendur: Andleg líðan er ekki að koma í veg fyrir að A geti stundað vinnu og viðhorf til vinnu er mjög gott. Líkamleg heilsa er hins vegar slæm og telur undirrituð óraunhæft að stefna á vinnumarkað sem stendur.

[…]

Klínískar niðurstöður: X ára gömul fráskilin kona sem á X börn. Hefur alltaf unnið og er menntaður [...]. Varð að hætta störfum vegna kvíða, vefjagigtar og verkjavandamála. Hefur nýtt sér fjölmörg úrræði á vegum VIRK, Þrautar og á eigin vegum og er bati lítill og starfsgeta hefur ekki aukist. Legg til að þjónustu VIRK verði hætt.“

Við örorkumat kæranda lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 9. apríl 2015, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með miklar höfuðkvalir. Háls og herðar séu mjög veikar og hún sé með vefjagigt út um allan skrokkinn. Einnig sé hún með minnisleysi og sjóntruflanir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún eigi erfitt með að sitja lengi vegna hálsins og mjóbaksins. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól svarar hún þannig að hún eigi erfitt með það ef hún sé búin að sitja lengi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún eigi erfitt með að krjúpa vegna bólgu í hnjám en vinstra hnéð sé verra. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa svarar hún þannig að hún geti átt í erfiðleikum með að standa lengi því mjóbakið gefi sig. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún eigi erfitt með það vegna mæði og hjartsláttar sem sé upp í koki. Ef hún þurfi að ganga þrjár hæðir þá stoppi hún á milli hæða. Dagarnir séu þó misjafnir. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að beita höndunum svarar hún þannig að axlir séu stundum ekki að virka vegna verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að það fari eftir því hvort hlutirnir séu nálægt eða ekki. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera hluti svarar hún þannig að hún eigi erfitt með að lyfta þungu. Hún hafi ekki þrek til þess. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að sjónin sé mjög misjöfn. Hún eigi mjög oft erfitt með að fókusera vegna höfuðverkja. Stundum geti hún ekki notað gleraugun sín en hún eigi orðið nokkuð mörg. Spurningu um það hvort heyrnin bagi kæranda svarar hún þannig að það fari eftir því hversu mikill höfuðverkurinn sé. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún hafi misst meðvitund þannig að þegar hún fái mikil höfuðverkjaköst þá verði hún mjög sljó. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að stjórna hægðum svarar hún þannig að hægðir hafi verið vandamál, þær séu miklar. Hún hafi reynt ansi mikið. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að stjórna þvaglátum þannig að hún hafi misst þvag í mikilli þreytu en þó ekki oft. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að etja játandi.  

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hún átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún missi þvag stöku sinnum. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Kærandi sé oft hrædd eða felmtruð án tilefnis. Hún forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Hugaræsing vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi eða truflandi hegðunar kæranda. Þá kjósi kærandi að vera ein sex tíma á dag eða lengur.  

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„X ára kona, útlit svarar til aldurs, litarháttur er eðlilegur. Hún er X cm, X kg, BMI X. Göngulag er eðlilegt. Fer með hendur 10 cm frá gólf í frambeygju með bein hné. Hreyfigeta og kraftar er eðlilegt. Hún er aum við þreyfingu á vöðvum og vöðvafestum víða, einkum í hálsi og herðum.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Löng saga er um þunglyndi, kvíða og vaxandi félagsfælni. Hún hefur dregið sig mikið í hlé félagslega. Hún er á þunglyndislyfjum, og notar róandi pn. Í viðtali er hún vel áttuð, er í andlegu jafnvægi, gefur góðan kontakt og sögu. Engar ranghugmyndir.“

Í athugasemdum skoðunarskýrslunnar segir svo:

„X ára [...] kona, [...] að mennt og hún starfaði við iðn sína í X ár. Hún gafst upp á iðn sinni vegna vöðvagigtar X og starfaði síðan í [...], en var sagt upp X. Hún hefur lengi verið með þunglyndi, kvíða og kvíðaköst. Hún tekur þunglyndislyf, og róandi lyf pn. Hún hefur verið bæði í X og Virk og fengið margháttaða meðferð. Hún svaf illa, en betur eftir meðferð hjá X. Hún hefur verið slæm af vöðvabólgum í hálsi, herðum og hnakka, og hefur verið í sjúkraþjálfun, líkamsrækt og ýmissi meðferð í X, en ekki orðið mikið betri. Hún fær tíð, slæm migraine köst og er með verki í andliti, trigeminal neuralgiu. Hún var metin 25% vinnufær af Virk.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi missi þvag stöku sinnum. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi sé oft hrædd eða felmtruð án tilefnis. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar muni versna fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að hugaræsing vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi eða truflandi hegðunar kæranda. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Þá metur skoðunarlæknir það svo að kærandi kjósi að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til níu stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar hefur ekkert komið fram sem bendir til að það eigi við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að nokkurs misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á líkamlegri og andlegri færni kæranda. Þannig virðist vera nokkur munur á læknisvottorði, starfsgetumati VIRK og mati í skoðunarskýrslu. Samkvæmt læknisvottorði B, dags. X, og starfsgetumati VIRK, dags. X, virðast það helst vera líkamleg einkenni sem hrjá kæranda. Í greinargerð sálfræðings í starfsgetumati VIRK segir meðal annars að andleg líðan komi ekki í veg fyrir að kærandi geti stundað vinnu og viðhorf hennar til vinnu sé mjög gott. Líkamleg heilsa sé hins vegar slæm og sálfræðingur telji óraunhæft að stefna á vinnumarkað sem standi. Samkvæmt skoðunarskýrslu læknis skorar kærandi hins vegar aðeins stig á andlega þættinum.

Þá er það mat skoðunarlæknis að andlegt álag hafi ekki átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Í rökstuðningi fyrir því svari kemur fram að henni hafi verið sagt upp í síðasta starfi. Hins vegar segir í niðurstöðum í starfsgetumati VIRK að kærandi hafi þurft að hætta störfum vegna kvíða, vefjagigtar og verkjavandamála. Úrskurðarnefnd telur að gögnin gefi til kynna að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hætti að vinna. Ef fallist yrði á að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hætti að vinna fengi kærandi tvö stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Kærandi fengi því samtals ellefu stig vegna andlegrar færniskerðingar og uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris.

Með hliðsjón af framangreindu misræmi er það mat  úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfylli skilyrði örorkulífeyris. Af framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi.  Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum