Almannatryggingar

29.3.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 394/2016

Miðvikudaginn 29. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 12. október 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. september 2016 um milligöngu meðlagsgreiðslna til hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn 28. september 2016 óskaði kærandi eftir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. september 2016, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 hafi stofnunin einungis milligöngu um meðlagsgreiðslur til þeirra sem séu búsettir á Íslandi. Þar sem kærandi og sonur hennar hafi flutt úr landi X 2016 samkvæmt skráningu Þjóðskrár sé ekki heimilt að greiða meðlag.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. október 2016. Með bréfi, dags. 13. október 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með tölvupósti 2. nóvember 2016. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu meðlagsgreiðslna til hennar verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi og sonur hennar séu búsett í B. Upphaflega hafi það verið vegna náms kæranda en nú vegna starfs hennar að loknu námi sem […]. Við breytingu á lögheimili kæranda hafi réttur hennar til greiðslu meðlags fallið niður hjá Tryggingastofnun og henni verið ráðlagt að leita réttar síns í því landi sem hún sé búsett í.

Kærandi hafi fyrst leitað til C í byrjun X 2016. Þar hafi hún fengið upplýsingar um að stofnunin innheimti meðlag á milli landa en síðan hafi hún fengið tölvupóst þar sem fram hafi komið að það væri enginn samningur á milli B og Íslands og því væri ekki hægt að aðstoða hana og henni bent á að leita til ráðuneytis. Kærandi hafi sent barnsföður sínum tölvupóst og óskað eftir að þau gætu leyst þetta sín á milli án milligöngu B yfirvalda. Á þeim tíma sem hún hafi sent honum tölvupóst hafi hún verið búin að fá upplýsingar um að B yfirvöld myndu sinna milligöngunni. Því miður hafi barnsfaðir hennar ekki svarað tölvupóstinum.

Í starfi kæranda hjá D veiti hún […]. Hún vinni með […] og einnig öðrum stofnunum sem starfi í þessum málaflokki […] og veiti starfsfólki þeirra […]. Hún sé ekki með háar tekjur eins og meðfylgjandi launaseðill sýni.

Barnsfaðir kæranda hafi aldrei komið að kostnaði vegna sonar þeirra að neinu leyti sem henni finnist miður og muni miklu fyrir sig fjárhagslega. Lögmaður hennar, sem hafi aðstoðað hana við innheimtu skuldar frá barnsföður hennar í kjölfar forsjárdeilu þeirra, hafi upplýst hana um að þar sem gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá honum áður og hann ekki sinnt innheimtum frá lögmanni myndi það aldrei takast. Að endingu hafi það farið svo að barnsfaðir hennar hafi fengið allar skuldir felldar niður hjá umboðsmanni skuldara. Þar á meðal þá skuld sem hann hafði verið dæmdur til að greiða kæranda af héraðsdómi. Það sé mikil synd að hann taki ekki ábyrgð og greiði það lágmark sem honum beri að gera og firri sig allri ábyrgð sem lög kveði á um að hann eigi að sinna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, segi að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Þá segi í 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga að stofnuninni sé aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsetur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Í 2. mgr. greinarinnar segi að stofnuninni sé heimilt, samkvæmt umsókn, að hafa milligöngu um meðlag í þeim tilvikum þar sem staðfest sé að meðlagsmóttakandi teljist falla áfram undir lög um almannatryggingar samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga, enda séu önnur skilyrði reglugerðarinnar uppfyllt.

Kærandi hafi sótt um milligöngu stofnunarinnar um meðlag með syni sínum með umsókn móttekinni 28. september 2016. Kærandi sé með skráð lögheimili í B samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár.

Stofnuninni sé einungis heimilt að hafa milligöngu um meðlag til þeirra sem séu búsettir hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Þá gildi undanþága 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 ekki um kæranda þar sem hún falli ekki lengur undir lög um almannatryggingar samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga.

Stofnunin hafi því ekki heimild til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda með syni hennar á meðan hún sé búsett og með lögheimili í B.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlag með umsókn, dags. 28. september 2016. Stofnunin synjaði þeirri umsókn vegna búsetu kæranda og sonar hennar í B. Fyrir liggur samkvæmt yfirliti Þjóðskrár um skráningu lögheimilis kæranda að það er skráð í B frá X 2016. Þá greinir kærandi frá því í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála að hún sé búsett þar.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildi þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Í 6. mgr. sömu lagagreinar segir að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd greinarinnar þar sem meðal annars sé kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn séu búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun inni af hendi.

Með framangreindri lagastoð hefur reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga verið sett. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir að stofnuninni sé aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Í 2. mgr. sömu greinar segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli stofnunin hafa milligöngu um meðlag til meðlagsmóttakanda sem búsettur sé utan Íslands, mæli ákvæði milliríkjasamninga fyrir um það.

Með hliðsjón af framangreindu er meginreglan sú að Tryggingastofnun hefur eingöngu milligöngu um greiðslu meðlags til meðlagsmóttakenda sem eru búsettir hér á landi. Þó er stofnuninni heimilt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til meðlagsmóttakanda sem búsettur er utan Íslands ef ákvæði milliríkjasamninga mæla fyrir um það.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags á milli samningsríkja, sbr. 63. gr., eins og um bætur almannatrygginga sé að ræða. Enginn  slíkur samningur er í gildi á milli Íslands og B.

Í kæru koma fram upplýsingar um að ómögulegt hafi reynst að fá barnsföður kæranda til að greiða henni meðlag án milligöngu stofnunarinnar. Þá hefur kærandi lagt fram gögn sem sýna fram á að yfirvöld í B hafi jafnframt synjað um milligöngu meðlagsgreiðslna. Úrskurðarnefnd telur að hvorki lögin né lögskýringargögn gefi tilefni til að ætla að unnt sé að taka tillit til slíkra aðstæðna við úrlausn þessa máls.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi eigi ekki rétt á að Tryggingastofnun hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur til hennar. Sú niðurstaða hefur þó engin áhrif á skyldu meðlagsgreiðanda til greiðslu meðlagsins beint til kæranda.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um milligöngu meðlagsgreiðslna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir