Almannatryggingar

8.3.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 348/2016

Miðvikudaginn 8. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. ágúst 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júní 2016 um uppbót til kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með umsókn, dags. 26. ágúst 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. september 2015, var samþykkt  uppbót til kaupa á bifreið. Í bréfinu voru tilgreind ýmis skilyrði fyrir veitingu uppbótarinnar, þ.á m. um að stofnunin þurfi að samþykkja val á bifreið. Með yfirlýsingu kæranda til stofnunarinnar vegna kaupa á bifreið greindi hann frá kaupum á B bifreið með númerinu X. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júní 2016, var kærandi upplýstur um að samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu væri umrædd bifreið skráð í eigu fyrirtækis sem væri í eigu kæranda og því liti stofnunin svo á að um málamyndargerning væri að ræða. Þegar af þeirri ástæðu var honum tilkynnt um að ekki kæmi til greiðslu uppbótar. Með bréfi, dags. 27. júní 2016, gerði kærandi athugasemdir við þá ákvörðun og með bréfi stofnunarinnar, dags. 6. júlí 2016, voru veittar nánari skýringar vegna hennar. Með umsókn, dags. 15. september 2016, sótti kærandi á ný um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. september 2016, var umsóknin samþykkt með sömu skilyrðum og fram komu í fyrra bréfi stofnunarinnar frá 22. september 2015.    

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. september 2016. Með bréfi, dags. 12. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. september 2016, óskaði stofnunin frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærandi hefði lagt fram nýja umsókn um uppbót/styrk til kaupa á bifreið hjá stofnuninni. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. október 2016, var kæranda send greinargerðin til kynningar. Með bréfi, dags. 11. október 2016, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2016. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2016, óskaði  úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins þar sem tekin hafi verið ákvörðun um að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Með bréfi, dags. 14. desember 2016, barst umbeðin greinargerð og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 27. desember 2016, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. desember 2016. Athugasemdir bárust úrskurðarnefnd símleiðis frá kæranda 14. febrúar 2016 þar sem hann óskaði eftir að Tryggingastofnun ríkisins myndi leggja fram bréf velferðarráðuneytisins, dags. 6. október 2016, vegna máls hans. Með tölvupósti 14. febrúar 2017 sendi stofnunin úrskurðarnefnd afrit af umræddu bréfi samkvæmt beiðni nefndarinnar þar um. Þar að auki barst viðbótargreinargerð frá stofnuninni, dags. 15. febrúar 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að honum verði veitt uppbót vegna kaupa á bifreiðinni X. Ef ekki verður fallist á það gerir kærandi þá varakröfu að hann fái greidda uppbót vegna reksturs bifreiðar frá því að slíkar greiðslur voru stöðvaðar árið 2014.

Í kæru eru gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd úthlutunar Tryggingastofnunar ríkisins á þegar samþykktum bifreiðastyrk. Því hafi verið hafnað að kærandi kaupi bifreiðina X af fyrirtæki í eigu hans og þar að auki sé sagt að hann hafi gert málamyndargjörning við kaup á umræddri bifreið. Kærandi telji að hann hafi staðið rétt að þessum kaupum samkvæmt lögum og reglum.

Stofnunin telji að um einhvers konar gjafagjörning sé að ræða. Það sé ekki rétt. Það sé verið að greiða og yfirtaka skuldir á bifreiðinni. Þrátt fyrir að fyrirtækið, sem selji bifreiðina sé að stærstum hluta í eigu kæranda, sé um tvo lögaðila að ræða með tvær kennitölur. Það komi skýrt fram í afsali hvernig skuli greiða fyrir bifreiðina. Þegar stofnunin hafi tekið hina kærðu ákvörðun hafði hún ekki leitað nánari skýringa sem þætti sjálfsagt þegar svona ákvarðanir séu teknar. Stofnunin hafi vísað til 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 en kærandi sjái ekki að þar sé fjallað um þessa hluti. Sannleikurinn sé sá að fyrirtæki kæranda þurfi að selja bifreiðina því að það geti ekki greitt lán af henni þar sem rekstur þess sé lítill sem enginn. Kærandi telji engan galla á því að hann kaupi bifreiðina og yfirtaki skuldir sem hvíli á henni. Þar með eignist hann bifreið sem hann þekki til og honum sé kunnugt um ástand hennar. Verðið sé sanngjarnt  miðað við árgerð bifreiðarinnar, akstur hennar og ástand. Það líti út fyrir að stofnunin vilji að bifreiðin verði seld öðrum sem kærandi kaupi hana síðan af. Kærandi telji að verið sé að flækja einfalt mál og búa til óþarfa hringavitleysu sem þjóni engum tilgangi. Skuldir á bifreiðinni séu um 2.000.000 kr., sem sé kaupverð hennar, en skuldirnar fari ekkert án þess að þær séu greiddar. Þá veltir kærandi því upp hvort raunin sé sú að öryrki megi ekki kaupa bifreið og yfirtaka lán sem hvíli á henni eða taka lán með veði í bifreið. Slíkar ákvarðanir geti haft slæm áhrif á einstaklinga með takmörkuð fjárráð.

Líti stofnunin svo á að kærandi eigi og hafi haft umráð yfir bifreiðinni allan tímann telji hann liggja í hlutarins eðli að hann fái greiddan bensínstyrk frá þeim tíma er eldri bifreið hans var afskráð á árinu 2014 og styrkurinn tekinn af honum. Samkvæmt niðurstöðu stofnunarinnar telji kærandi svarið vera neikvætt þar sem þetta séu tveir lögaðilar. Það gangi ekki að nota sömu rök og fá mismunandi niðurstöðu eftir því sem stofnuninni henti hverju sinni.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að hann telji rökin fyrir því að hann fái ekki uppbótina, þ.e. skyldleiki við seljanda bifreiðarinnar, vera aðallega til þess fallin að gera honum erfitt fyrir að kaupa hana. Þrátt fyrir að skyldleiki sé þarna á milli sé ekki vafi um að það sé verið að taka yfir og greiða áhvílandi lán af bifreiðinni sem hafi verið komin í vanskil. Kærandi veltir því fyrir sér hvort það sé bannað að öryrki kaupi bifreið með lánum og yfirtaki þau og/eða greiði þau. Einnig veltir hann því fyrir sér hvort þeim sé bannað að kaupa bifreiðar af bönkum og fá að vera með lán frá þeim á bifreiðum sínum. Aðalatriðið sé að styrknum sé varið til greiðslu vegna kaupa á bifreið sem kærandi hafi áður sýnt fram á. Væri þessi styrkur verulegur og raunveruleg aðstoð við öryrkja telji kærandi að það þyrfti verulegt aðhald frá þeim sem sé það skylt, þrátt fyrir að hann vilji ekki gera lítið úr styrknum. Styrkurinn geti verið mikil hjálp til að klára að greiða það sem hvíli á bifreiðinni.

Það sé rétt að stofnunin hafi skyldur til að sannreyna réttmæti bóta samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 41. gr. laganna standi: „Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.“

Það sé nokkuð harkaleg framkvæmd að hafna kæranda þegar stofnunin hafi ekki reifað umsókn hans að fullu og sent honum höfnun á hálfunnu verki sem hafi bæði verið gallað að formi og efni til. Stofnunin hefði átt að óska eftir nánari skýringum frá kæranda. Að stofnunin eigi að njóta vafans í þessu máli telji kærandi óásættanlegt þar sem stjórnsýslan sé ekki minni máttar. Stofnunin hafi fullan rétt til að endurskoða ákvörðun sína samkvæmt 2. mgr. 45. gr. framangreindra laga. Líti stofnunin svo á að hann eigi og hafi haft umráð yfir bifreiðinni X allan tímann telji hann liggja í hlutarins eðli að hann fái greiddan bensínstyrk frá þeim tíma þegar eldri bifreið hans hafi verið afskráð á árinu 2014 og styrkurinn tekinn af honum. Hann telji að hann eigi fullan rétt á þessum bifreiðastyrk og greiðslu vaxta frá 6. júní 2016.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar sé sýnt fram á að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Heimild til að greiða uppbót vegna kaupa á bifreið sé nánar útfærð í 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum.

Í V. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé fjallað um eftirlitsheimildir stofnunarinnar.

Kærandi hafi sótt um uppbót til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 26. ágúst 2015. Umsóknin hafi verið samþykkt með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. september 2015.

Í byrjun júní 2016 hafi stofnuninni borist yfirlýsing vegna kaupa á bifreið þar sem fram hafi komið að kærandi óskaði uppbótar vegna kaupa á bifreiðinni TB X og hann hafi skilað inn gögnum þar sem fram hafi komið að fyrri eigandi bifreiðarinnar væri C ehf. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar sé kærandi eigandi hlutafélagsins. Stofnunin hafi synjað um afgreiðslu uppbótarinnar með bréfi, dags. 9. júní 2016.

Kærandi hafi óskað frekari skýringa með erindum, dags. 16. og 27. júní 2016. Þeim hafi verið svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 6. júlí 2016.  

Samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi stofnunin umsjón og eftirlit með greiðslu uppbótar og styrkja, í tilfelli kæranda uppbótar samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar, vegna kaupa á bifreið. Það hafi meðal annars falist í því að stofnunin óski eftir gögnum sem sýni fram á fyrir hvaða fjárhæð bifreið hafi verið keypt og af hverjum hún hafi verið keypt, sbr. 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þessi eftirlitsskylda stofnunarinnar byggi á V. kafla laga um almannatryggingar og þá fyrst og fremst 45. gr. laganna þar sem kveðið sé á um að stofnunin skuli sannreyna réttmæti bóta og greiðslna.

Beri gögn málsins með sér að kaupandi og seljandi séu mjög tengdir aðilar sé málið skoðað sérstaklega til að tryggja að um raunveruleg kaup sé að ræða. Í þeim tilfellum þar sem umsækjandi sé að kaupa bifreið af lögaðila sem sé í eigu hans, eða að miklu leyti í eigu hans sjálfs, sé umsækjanda synjað um greiðslu uppbótar/styrks.

Ástæðan fyrir þessu verklagi sé sú að þegar umsækjandi eigi lögaðila sem selji honum bifreið þá sitji umsækjandi beggja vegna borðsins og stofnunin geti ekki haft eftirlit með því hvort um raunveruleg kaup á bifreiðinni hafi verið að ræða og hvort umsamdar greiðslur fari í raun fram.

Samkvæmt gögnum málsins hafi fyrri eigandi bifreiðarinnar X verið fyrirtækið C ehf. Þar sem fyrirtækið sé í eigu kæranda hafi umsókn hans verið synjað.

Stofnunin vilji að lokum vekja athygli á því að hin kærða ákvörðun hafi fyrir mistök verið send hálfunnin og hafi hún bæði verið gölluð að formi og efni til. Þegar kærandi hafi óskað frekari skýringa hafi stofnunin uppgötvað annmarkana. Stofnunin taldi ekki ástæðu til að taka málið upp á nýjan leik en með bréfi, dags. 6. júlí 2016, hafi ákvörðunin verið útskýrð fyrir kæranda og honum leiðbeint um kæruheimildir.

Stofnunin telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun og standi við synjun sína.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu uppbótar til kæranda vegna kaupa hans á bifreið.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. lagagreinarinnar setur ráðherra reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu og er gildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.  

Í 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 segir að áður en uppbót sé greidd skuli lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar. 

Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins samþykkti umsókn kæranda um uppbót til kaupa á bifreið að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þar á meðal um að stofnunin þurfi að samþykkja val á bifreið. Kærandi sendi stofnuninni yfirlýsingu vegna kaupa á bifreið þar sem fram komu nánari upplýsingar um þá bifreið sem hann hugðist kaupa. Fram kom að um væri að ræða bifreið með númerinu X. Þar að auki lagði kærandi fram kaupsamning og afsal á milli kaupanda og seljanda bifreiðarinnar þar sem fram kom að seljandi væri C ehf. og kaupverð væri 2.000.000 kr. Óumdeilt er að seljandi er fyrirtæki sem er að mestu leyti í eigu kæranda.

Tryggingastofnun ríkisins synjaði kæranda um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupanna. Kærandi sótti um uppbót/styrk til bifreiðakaupa á ný undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni. Tryggingastofnun gerði kröfu um að málinu yrði vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim grundvelli að sama mál gæti ekki verið til meðferðar í tveimur stjórnsýslumálum í einu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að ágreiningur málsins lýtur að þeirri ákvörðun Tryggingastofnunar að samþykkja ekki að greiða uppbót vegna þeirrar bifreiðar sem kærandi keypti, enda er óumdeilt að kærandi uppfyllir læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu uppbótar til bifreiðakaupa. Þar sem ekki hefur verið leyst úr þeim ágreiningi féllst úrskurðarnefndin ekki á að vísa málinu frá.

Í greinargerð stofnunarinnar segir að í þeim tilfellum sem viðkomandi sé að kaupa bifreið af lögaðila sem sé í eigu, eða að miklu leyti í eigu, hans sjálfs sé synjað um greiðslu uppbótar. Ástæða þessa verklags sé sú að þegar umsækjandi eigi lögaðilann sem selji honum bifreiðina sitji hann beggja vegna borðsins og stofnunin geti ekki haft eftirlit með því hvort um raunveruleg kaup á bifreiðinni sé að ræða og hvort umsamdar greiðslur fari í raun fram. Með hinni kærðu ákvörðun synjaði stofnunin um greiðslu uppbótar á þeirri forsendu að hún teldi að um málamyndargerning væri að ræða.

Málamyndargerningur er löggerningur sem ekki er ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Út frá gögnum þessa máls er að mati úrskurðarnefndar ekki unnt að fullyrða að um málamyndargerning sé að ræða. Þá er hvorki kveðið á um það í lögum um félagslega aðstoð né reglugerð nr. 170/2009 að óheimilt sé að greiða uppbót vegna kaupa á bifreið sé bifreið keypt af lögaðila sem er í eigu, eða að miklu leyti í eigu, umsækjanda. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála var Tryggingastofnun því ekki heimilt að synja kæranda um greiðslu uppbótar þegar af þeirri ástæðu að seljandinn væri fyrirtæki í eigu kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu uppbótar til bifreiðakaupa felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót til kaupa á bifreið er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir