Almannatryggingar

28.6.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 31/2017

Miðvikudaginn 28. júní 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 20. janúar 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. október 2016 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur og fyrra mat um örorkustyrk var látið standa óbreytt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 1. september 2016. Með örorkumati, dags. 27. október 2016, var umsókn kæranda synjað og fyrra mat um örorkustyrk látið standa óbreytt. Þann 22. nóvember 2016 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir mati Tryggingastofnunar og var hann veittur með bréfi, dags. 28. nóvember 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. janúar 2017. Með bréfi, dags. 30. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. mars 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski eftir að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á 75% örorku verði felld úr gildi og að umsókn hennar um örorkulífeyri verði samþykkt.

Í kæru kemur fram að kærandi sé óvinnufær og hafi ekki treyst sér til að vinna síðan X 2016. Hún sé stöðugt með slæma verki og þá hafi henni versnað mikið upp á síðkastið og eigi nú erfitt með að sinna heimilisverkum. Hún glími einnig við aflleysi í handleggjum sem lýsi sér í því að þegar hún taki á þá fái hún mikinn seyðingsverk niður í handleggi og missi hluti. Hún vinni við [...] og það sé erfitt að fást við verk sem krefjist krafta þar sem þeir hafi farið minnkandi hjá henni. Þá hellist óvænt magnleysi yfir hana og hún sé oft með lágan blóðþrýsting. Kærandi telji sig þurfa að fá góðan tíma til að reyna að byggja sig upp en ekki að hafa áhyggjur eða samviskubit vegna fjarvista úr vinnu, því að öll streita og vanmáttur auki á verkina. Hún sé með beinþynningu og grun um slitgigt í mjöðmum, mikið exem/kláða á mjaðmasvæði, hrygg og höfði og þá sé melting ekki góð. Hún sé orkulítil, nái ekki almennilegri hvíld þær fjórar til sex klukkustundir sem hún nái að sofa og það taki hana all nokkurn tíma til að koma sér í gang á morgnana. Hún sé með stanslausa taugaverki niðri í mjóhrygg sem leiði niður í vinstri fótlegg og síðan oftast til dofa/verks niður í tær. Þegar hún sé sem verst þá treysti hún ekki fætinum. Þrátt fyrir þetta reyni hún þó hvað hún geti að vera dugleg, hún hreyfi sig og geri léttar æfingar eftir getu hvers dags. 

Kærandi segir að komið hafi í ljós við myndatökur á hrygg/mjaðmasvæði að liðir og taugaendar séu slitnir. Hún verði lúin á mjög stuttum tíma við stöður, hún verði þá viðþolslaus af verkjum og þá geti það tekið hana allt að tvo daga að verða aftur þolanleg. Hún sé með verki alla daga og venjuleg verkjalyf virki ekki. Verkirnir skáni aðeins ef hún leggi sig stundarkorn áður en verkurinn sé kominn út í logandi sviða/dofa. Hún notist ekki mikið við sterk verkjalyf því hún vilji ekki venja sig á þau. Það hafi reynst henni mjög erfitt í upphafi að sækja um örorku og viðurkenna veikleika sinn, til að byrja með hafi hún verið í afneitun um sitt raunverulega ástand. Nú sé svo komið að hún geri sér grein fyrir ástandinu með umsókn um örorku. Hún reyni þó að bera höfuðið hátt, en nú leggi hún allt á borðið með von um að hún geti rólega byggt sig upp að einhverju marki aftur og átt einhver lífsgæði. Hún sé kannski ekki í auðveldu starfi fyrir veikt stoðkerfi og hún gæti að sjálfsögðu hætt að vinna en hún geti ekki verið launalaus með öllu. Þá segir kærandi að eftir að hún hafi látið vinnuveitendur sína vita að hún gæti ekki unnið næstu tvo til þrjá mánuðina þá hafi komið aðeins ró yfir líkamann og hún hafi haft gott af því að geta stjórnað tíma sínum eftir getu hverju sinni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar sem fram fór þann 27. október 2016. Í örorkumatinu hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en hins vegar verið talið að kærandi uppfyllti skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga þeim sem skortir að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi hafi sótt um endurmat á örorku með umsókn þann 1. september 2016 en hún hafi áður verið metin til örorkustyrks þann 13. mars 2015. Örorkumat hafi farið fram aftur þann 27. október 2016. Niðurstaða örorkumatsins hafi verið sú að kæranda var synjað að nýju um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. almannatryggingalaga en hafi hins vegar áfram verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Fyrra matið gilti frá 1. febrúar 2015 til 31. mars 2018 og stóð því áfram. Kærandi hafi óskaði eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 22. nóvember 2016. Svarað var með bréfi, dags. 28. nóvember 2016, þar sem farið var yfir ástæður þess að synjað hafi verið um örorkulífeyri en örorkustyrkur þess í stað talinn hafa verið rétt metinn í fyrri ákvörðun, með tilliti til staðals í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við mat á örorku hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 27. október 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 25. ágúst 2016, svör við spurningalista, dags. 1. september 2016, skoðunarskýrsla læknis, dags. 11. október 2016, ásamt umsókn kæranda, dags. 1. september 2016.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins hafi komið fram að kærandi hafi strítt við stoðkerfisvanda í áratug og verið greind með vefjagigt, en engin gigtarmerki hafi fundust í blóði. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið talin uppfyllt. Kærandi hafi fengið þrettán stig í líkamlega hlutanum en ekkert í þeim andlega, en færni kæranda til almennra starfa hafi áfram verið talin skert að hluta og henni hafi því verið metinn örorkustyrkur (50% örorka) frá 1. febrúar 2015 til 31. mars 2018.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins og viðbótargögn sem fylgdu kæru. Farið hafi verið sérstaklega yfir hvort niðurstaða skoðunarskýrslu læknis og örorkumats væri í samræmi við gögn málsins. Einnig hafi verið skoðað erindi læknis kæranda þar sem stutt hafi verið við ósk kæranda um örorkustyrk sem sent hafi verið kærunefndinni þann 21. janúar 2017. Að öllum þessum gögnum virtum telji stofnunin ekki að um ósamræmi sé að ræða eða að ný gögn um versnandi heilsufar kæranda hafi komið fram.

Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi til dæmis benda á að það sé mat skoðunarlæknis að kærandi hafi ekki getað setið nema í tíu mínútur án þess að ganga um og að kærandi geti ekki gengið upp og niður stiga á milli hæða án þess að halda sér og þetta hafi gefið þrettán stig í líkamlega þættinum.

Jafnframt bendi Tryggingastofnun á að kærandi hafi merkt við í fyrra svari sínu við spurningalista um færniskerðingu, dags. 29. janúar 2015, að engin geðræn vandamál væru til staðar. En á spurningalista, dags. 5. september 2016, vegna endurmats á örorku var spurningunni um geðræn vandamál svarað játandi án þess að það hafi verið útskýrt nánar. Skoðunarlæknir Tryggingastofnunar hafi framkvæmt endurmat vegna örorku þann 27. október 2016. Þar segi að samkvæmt upplýsingum úr viðtali við kæranda og með tilliti til fyrri sögu þá sé engin geðsaga til staðar og því til nánari rökstuðnings sé bent á að kærandi noti engin geðlyf og af því leiði að andlegi hluti örorkumatsins hafi ekki gefið nein stig.

Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að ákvörðunin sem kærð var í þessu máli byggðist á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2016, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en fyrra mat um örorkustyrk látið standa. Ágreiningur snýst um hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri fylgdi læknisvottorð B, dags. 25. ágúst 2016, þar sem fram kemur að sjúkdómgreining kæranda séu eftirfarandi:

„Beinþynning, ótilgreind

Fibromyalgia

Kvíði

Chronic obstructive pulmonary disease, unspecified

Verkir“

Þá er sjúkrasögu hennar lýst svo:

„Veikindi A má rekja aftur til 1991. Þá fór að bera á vöðvabólgu í herðum og hálsi. Í kringum 2000 fór að bera á bakverkjum. Á sama tíma byrjaði hún að vinna við [...]. 2005 greip hún [...]. Daginn eftir var hún með læsingu í baki og var fr[á] vinnu í 6 vikur. Í framhaldi af þessu neyddist hún til að minnka við sig vinnu vegna bakverkja. Hún þoldi minna og minna álag á bakið og fjarvistir frá vinnu jukust mikið. Á sama tíma fór að bera á orkuleysi og þreytu. Hún var svo greind með vefjagikt fyrir um ári síðan af C giktarlækni. Í X 2014 fór hún til D bæklunarlæknis vegna rótareinkenna og gruns um brjósklos. Hann taldi ekki rök fyrir skurðaðgerð en deyfði hana í framhaldinu í bogalið. Þetta hafði engin áhrif.

A er með verki hvern dag þrátt fyrir verkjalyfjagjöf. Hún á þó stöku góða daga inn á milli. Hún er verst eftir álag s.s. í vinnu. Hún fær sviðaverk vinstra megin í mjóhrygg með leiðni niður vinstri ganglim. Hún á erfitt með að bera sig um í hálku en reynir annars að vera dugleg að hreyfa sig. Lýsir magnleysi sem hellist yfir hana í tíma og ótíma. Fékk nýlega deyfisprautu í facettulið í baki en það hjálpaði ekki.

Heima fyrir gengur henni seint að sinna heimilisstörfum. Hún á erfitt með ýmsar hreyfingar s.s. að beygja sig til að setja í þvottavél. Stirðnar fljótt upp í baki við að sitja og fár sáran verk í mjóhrygg og niður vinstri ganglim þegar hún stendur upp úr stól. Nýlega greind með beinþynningu.

[…]“

Um skoðun á kæranda X 2016 segir í vottorðinu:

„Grannvaxin kona með eðlilegan litarhátt. Gefur skýra og greinargóða sögu. Blóðþrýstingur mælist 129/96, púls 88/mín. Hjarta og lungnahlustun eðlileg. Skjaldirtill lítið eitt stækkaður. Kviður mjúkur og án fyrirferða. Laseque próf eðlilegt en patellar reflexar óvenju líflegir. Reflexar annars eins hægra og vinstra megin. Hún hreyfir sig eðlilega að því undanskildu að það tekur greinilega í hjá henni að rísa upp af skoðunarbekk. Vöðvar aftan í hálsi og herðum hvellaumir.“

Samkvæmt vottorðinu er kærandi metin óvinnufær.

Með kæru fylgdi læknabréf B, dags. 21. janúar 2017. Þar segir meðal annars svo:

„Staðan hjá A amk. sl. 7 ár hefur verið á þá leið að hún er langtímum saman frá vinnu vegna verkjavandamála. Þá hefur hún prófað sig aftur í vinnu þá gjarnan í minna starfshlutfalli og sífellt styttist tíminn í vinnu þar til hún þarf að fara aftur í veikindaleyfi. Kemur svo aftur eftir einhverjar vikur þá gjarnan í enn minna starfshlutfall en hún var í fyrir.[…]“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 5. september 2016, sem hún skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að sitja á stól með baki og án arma þannig að hún eigi ekki í erfiðleikum með það en ef verkir séu miklir, þá sé betra að sitja, því máttleysið í vöðvum geti orðið talsvert. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að það geti verið mjög erfitt að standa upp, hún þurfi að fara gætilega og þurfi að beita sér rétt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að beygja sig eða krjúpa þannig að verkir í baki valdi því að það geti verið erfitt fyrir hana að rétta sig við. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að það sé ekki erfitt í smástund en hún fái mikla verki í bak og niður vinstri fótlegg ef hún standi lengi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu neitandi. Hún segir að ekki sé erfitt að ganga en hún sé með mikið máttleysi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga neitandi en segir að hún sé með mikið máttleysi. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að beita höndunum þannig að vinstri hendin sé kraftlítil og hafi verið það undanfarin ár og því hafi hún lært að nota hana meira til stuðnings. Undanfarna mánuði hafi hægri hendi byrjað á sama hátt, þ.e. það komi lamandi verkir niður hendina og hún missi við það aflið og gripkraftinn. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum að svo sé vegna ástands handleggja og vísar í svör við spurningu varðandi beitingu handa. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera hluti þannig að vegna kraftleysis í höndum sé orðið mjög erfitt að lyfta hlutum og meðal annars barnabörnunum. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi án frekari lýsingar.

Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hún átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 11. október 2016. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki setið nema eina klukkustund án þess að standa upp. Kærandi geti ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Kærandi geti ekki gengið upp og niður stiga á milli hæða án þess að halda sér. Samkvæmt mati skoðunarlæknis var ekki þörf að meta andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir geðheilsu kæranda svo:

„Engin geðsaga. Hún notar engin geðlyf. Hún er í andlegu jafnvægi í viðtali, gefur góðan kontakt og góða sögu. Eðlilegt geðslag. Engar ranghugmyndir.“

Þá lýsir skoðunarlæknir líkamsskoðun með eftirfarandi hætti:

„X ára kona, útlit svarar til aldurs, litarháttur er eðlilegur. Var X cm á yngri árum, en hefur gengið saman og er nú X cm, er grannvaxin, X kg, BMI X. Göngulag er eðlilegt. Hreyfigeta og kraftar eru eðlileg. Hún er aum í mjóbaki, og stirð, en leggur samt auðveldlega lófa í gólf í frambeygju með bein hné. Enginn Laseque. Hún er aum víða við þreyfingu á vöðvum og vöðvafestum, einkum í hálsi, herðum og yfir mjóbaki.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur sjö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki gengið upp og niður stiga á milli hæða án þess að halda sér. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing metin til þrettán stiga samtals. Að mati skoðunarlæknis var ekki þörf á að skoða geðheilsu kæranda nánar þar sem fyrri saga og þær upplýsingar sem komu fram í viðtali bentu ekki til þess að um væri að ræða geðræna erfiðleika.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Skoðunarlæknir ákvað að meta ekki geðheilsu kæranda og rökstuddi þá ákvörðun með vísan til þess að engin saga væri um geðræn vandamál og að kærandi noti engin geðlyf nema svefnlyf. Í fyrrgreindu læknisvottorði B kemur hins vegar fram að kvíði sé ein af sjúkdómsgreiningum kæranda. Einnig kemur fram í skoðunarskýrslu að kærandi taki svefnlyf og hafi sögu um alvarleg áföll. Þá svarar kærandi játandi spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamála að stríða í fyrrgreindum spurningarlista vegna færniskerðingar. Að mati úrskurðarnefndar gefa framangreindar upplýsingar tilefni til að meta andlega færni kæranda samkvæmt örorkustaðli. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfyllir skilyrði örorkulífeyris.

Af framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til framkvæmdar á nýju örorkumati.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til framkvæmdar á nýju örorkumati.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir