Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2013

Þriðjudaginn 21. apríl 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. febrúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 4. mars 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. mars 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. mars 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1971 og 1964. KærandiB á dóttur sem hann greiðir meðlag með en kærandi A á tvo syni fædda 1992 og 1994 sem báðir stunda nám. Kærendur búa í eigin 226,8 fermetra raðhúsi að C götu nr. 49 í sveitarfélaginu D ásamt sonum A. Kærandi A er kennari að mennt en kærandi B er með sveinspróf í prentiðn og hefur lokið diplómanámi í vörustjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 31. maí 2012 eru 48.678.985 krónur en þar af falla 5.334.541 króna námslán utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005-2009.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til fasteignakaupa og forsendubrests á húsnæðislánum.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 9. október 2012 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Í bréfi umsjónarmanns kom enn fremur fram að samkvæmt upplýsingum um tekjur og framfærslu kærenda á 14 mánaða tímabili, júlí 2011 til ágúst 2012, hefði  sparnaður þeirra átt að nema 6.057.725 krónum. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hefðu þau lagt fyrir 360.000 krónur á tímabilinu. Eftir að umsjónarmaður leitaði skýringa skiluðu kærendur gögnum 9. október 2012 þar sem gerð var grein fyrir óvæntum kostnaði að fjárhæð 937.637 krónur þar á meðal vegna tannlækna, tannsérfræðinga og gleraugnakaupa samtals að fjárhæð 406.138 krónur. Annar kostnaður alls að fjárhæð 531.499 krónur var meðal annars vegna flugferða og skiptinemadvalar sonar kæranda A á Spáni.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 30. október 2012 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara barst svar kærenda með bréfi 5. nóvember 2012.

Með bréfi til kærenda 11. febrúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærendur kveða málsatvik vera þau að á fundi með umsjónarmanni 27. september 2012 hafi þau fyrst verið upplýst um skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Þann dag höfðu þau lagt fyrir um 360.000 krónur af tekjum sínum. Í kjölfarið og án þess að skoða málið frekar hafi umsjónarmaður sent umboðsmanni skuldara bréf 9. október 2012 þar sem lagt hafi verið til að greiðsluaðlögunarumleitandir kærenda yrðu felldar niður, enda hefðu þau ekki sparað nægilega á þeim tíma sem liðinn var frá því að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt. Umboðsmaður skuldara hafi síðan farið að þessari tillögu umsjónarmanns og tekið ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til þeirra forsendna sem umsjónarmaðurinn hafði byggt á í bréfi sínu 9. október 2012. Um svipað leyti í október/nóvember 2012 hafi kærendur fengið almennt dreifibréf frá embætti umboðsmanns skuldara þar sem ítarlega hafi verið rakið hvernig umsækjendur skyldu haga sér á greiðsluaðlögunartímabilinu, þ.e. hvað þeim væri heimilt að greiða og hvað ekki. Einnig hafi skylda þeirra til að halda eftir mögulegum sparnaði í þágu kröfuhafa um hver mánaðarmót verið tilgreind.

Kærendur gera athugasemdir við starfsaðferðir embættis umboðsmanns skuldara. Liðið hafi 12 mánuðir frá því að þau sendu inn umsókn um greiðsluaðlögun þar til þeim hafi verið skipaður umsjónarmaður. Sú skipun hafi verið afturkölluð af óútskýrðum ástæðum og nýr umsjónarmaður skipaður í kjölfarið. Þá hafi liðið þrír mánuðir til viðbótar þar til kærendur voru fyrst boðuð á fund umsjónarmanns. Á fyrsta fundi hafi verið farið yfir meintar reglur um sparnað á greiðsluaðlögunartímanum.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé reynt að gera mikið úr ástæðum þess að kærendur hefðu átt að vita um skilyrði 12. gr. lge. Sannleikurinn sé þó sá að þeim hafi aldrei verið kynnt nein tiltekin skylda í þessu efni, hvað þá að skilyrðin væru svo ófrávíkjanleg að það gæti varðað niðurfellingu greiðsluaðlögunar­umleitana. Umboðsmaður skuldara hefði viðurkennt í verki mikinn misbrest á störfum embættisins að þessu leyti með því að senda almennt viðvörunarbréf til allra þeirra sem höfðu fengið heimild til greiðsluaðlögunar hjá embættinu. Kærendur undrist hvers vegna þeim hafi ekki verið kunngjört þetta fyrr en á fundi umsjónarmanns í lok september 2012, sérstaklega í ljósi þess að þá hafi verið liðnir 15 mánuðir frá því að þau sóttu um greiðsluaðlögun. Umboðsmanni skuldara hafi verið í lófa lagið að tilkynna kærendum strax í upphafi hver skylda þeirra var samkvæmt 12. gr. lge., enda hafi kærendur strax skilað samviskusamlega öllum upplýsingum um sig og sína persónuhagi til embættisins. Einfalt hefði verið að upplýsa kærendur um reiknaðan framfærslukostnað fjölskyldunnar og tilgreina í framhaldinu að því sem umfram væri af tekjum, skyldi haldið til hliðar fyrir kröfuhafa, enda væri það forsenda úrræðisins. Það hafi ekki verið gert. Með framgöngu embættisins telji kærendur sig hafa verið svikin um mikilsverðar upplýsingar sem nú leiði til þess að þau verði að lýsa sig gjaldþrota, enda sé ekkert annað í stöðunni verði ákvörðun umboðsmanns skuldara ekki breytt.

Kærendur telja að í samræmi við góða stjórnsýsluhætti sé ekki hægt að taka jafn afdrifaríka ákvörðun í persónulegum málum þeirra, án þess að stjórnvöld hafi með sannanlegum hætti tilkynnt þeim um skyldur þeirra. Sérstaklega verði að horfa til þeirrar staðreyndar að kærendur séu í sárum eftir efnahagshrunið. Í raun séu flestir sem leiti skjóls hjá embættinu búnir að fá nóg og því sé enn ríkari skylda á þeim sem þar starfi að upplýsa skjólstæðingana með sannanlegum og fullnægjandi hætti um skyldur þeirra á greiðsluaðlögunartímanum.

Þá haldi umboðsmaður skuldara því fram að kærendur hafi orðið missaga um leigu á kjallaraaðstöðu í húsi þeirra en það sé ekki rétt. Rýmið sé leigt fyrir 50.000 krónur á mánuði en innifalið í því sé rafmagn, hiti og sameiginlegur kostnaður. Af ummælum starfsmanna umboðsmanns skuldara að dæma virtust þeir ekki skilja að skatttekjur af húsaleigutekjum ársins 2012 hafi ekki verið taldar fram fyrr en í skattframtali 2013. Það sé skýringin á því að fjármagnstekjur séu ekki taldar fram í skattframtali vegna ársins 2011, en rýmið hafi verið leigt út frá því í apríl 2012. Öllum hugleiðingum um meint skattsvik sé vísað á bug, enda séu þau meiðandi, ósæmileg og fullkomlega ómálefnaleg.

Kærendur telja að sá óútskýrði dráttur sem hafi orðið á máli þeirra hafi orðið til þess að staða málsins sé nú þessi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 29. júní 2011 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 17 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 30. nóvember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011 til 30. nóvember 2012 að frádregnum skatti 13.069.343
Vaxtabætur 2011 553.256
Meðlagsgreiðslur 406.996
Samtals 14.029.595
Mánaðarlegar meðaltekjur 825.270
Framfærslukostnaður á mánuði 422.851
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 402.419
Samtals greiðslugeta í 17 mánuði 6.841.123

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 825.270 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 17 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 422.851 króna á mánuði á tímabili greiðsluskjóls og hafi þá einnig verið gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað janúarmánaðar 2013 fyrir hjón með tvö börn á fullu framfæri og eitt barn á hálfu framfæri, auk kostnaðar vegna rafmagns, hita, fasteignagjalda og trygginga samkvæmt upplýsingum frá kærendum sjálfum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 6.841.123 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu sem nemi 402.419 krónum á mánuði í 17 mánuði.

Á fundi með umsjónarmanni 27. september 2012 hafi kærendur verið spurðir um þá einstaklinga sem hafi átt lögheimili á heimili þeirra. Hafi þá komið í ljós að kærendur leigðu út hluta húsnæðis síns á 50.000 krónur á mánuði. Kváðust kærendur hafa haft þessar leigutekjur frá apríl 2012. Í bréfi kærenda 5. nóvember 2012 til umboðsmanns skuldara hafi kærendur þó sagt að leigutekjurnar væru lægri, eða á bilinu 30.000 til 40.000 krónur. Umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið tillit til hugsanlegra leigutekna í greiðsluáætlun þar sem óljóst hafi verið hvort leigutekjur væru fyrir hendi og þá hverjar þær væru. Þá hafi ekki sést af skattframtölum að kærendur hefðu gefið leigutekjur upp til skatts. Þrátt fyrir að ekki hafi legið ljóst fyrir hvort kærendur hefðu fengið leigutekjur sé mögulegt að svo hafi verið. Megi því leiða líkur að því að kærendur hefðu haft hærri ráðstöfunartekjur en gögn málsins sýndu.

Kærendur hafi lagt fram reikninga og önnur gögn til umsjónarmanns sem gefið hafi til kynna óvænt fjárútlát í krónum:

 

Tannlæknakostnaður 426.130
Gleraugu 103.900
Flugfargjöld 125.912
Bankamillifærsla til barnsmóður kæranda 56.150
Reiðhjól 32.000
Strætókort og miðar 41.550
Kostnaður vegna skiptinemadvalar sonar kærenda 277.148
Samtals 1.062.790

 

Jafnframt hafi kærendur greint frá því að á tímabili greiðslufrestunar hafi þau greitt upp lán sem ættingjar þeirra hafi veitt þeim, en þau hafi ekki tilgreint hversu háa fjárhæð þau hafi endurgreitt. Í bréfi kærenda til umboðsmanns skuldara 5. nóvember 2012 kveðist kærendur hafa lagt til hliðar rúmlega 750.000 krónur á tímabili greiðslufrestunar en hafi á hinn bóginn lagt fram bankayfirlit sem sýndi innstæðu að fjárhæð 522.902 krónur.

Umboðsmaður skuldara hafi ekki fallist á öll þau útgjöld sem kærendur hafi lagt fram reikninga fyrir og talið til óvæntra og nauðsynlegra útgjalda til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Þegar hafi verið gert ráð fyrir kostnaði vegna samgangna miðað við fjölskyldustærð í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Í tilviki kærenda hafi þegar verið gert ráð fyrir 61.064 krónum á mánuði vegna reksturs bifreiðar og/eða almenningssamgangna. Því hafi ekki verið tekið tillit til viðbótarkostnaðar vegna kaupa á strætókorti og farmiðum. Þá hafi umboðsmaður skuldara talið að kostnaður við skiptinemadvöl sonar kæranda A geti ekki talist til nauðsynlegs framfærslukostnaðar kærenda.

Í bréfi kærenda 5. nóvember 2012 hafi komið fram að þau hafi verið komin í vanskil gagnvart ættingjum og öðrum kröfuhöfum. Þau hafi síðan reynt að greiða inn á vanskilin sem skert hafi getu þeirra til að leggja til hliðar fé samkvæmt skyldum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli umsækjendur ekki láta af hendi eignir og verðmæti, þ.m.t. fjármuni sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Þá segir í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að umsækjendur skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað geti hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingar séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Kærendur hafi ekki lagt fram gögn sem varpað hafi ljósi á og skýrt hvers eðlis umræddar skuldir séu eða hversu háar þær séu. Þá hafi ekki legið fyrir hvenær til þeirra var stofnað. Framangreindar skýringar kærenda gætu ekki réttlætt skort á hjálögðu fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem kærendur hefðu þá ýmist látið af hendi fé, mismunað kröfuhöfum eða stofnað til nýrra skulda á meðan frestun greiðslna stóð. Háttsemin bryti því í bága við skyldur kærenda samkvæmt c- og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þrátt fyrir að tekið væri tillit til allra þeirra útgjalda sem kærendur hafi gert grein fyrir og þeirrar peningaupphæðar sem þau segist hafa lagt til hliðar á meðan greiðsluskjól hefur varað, hafi kærendur ekki lagt fram gögn sem varpað gætu ljósi á hvers vegna þeim hafi ekki verið unnt að leggja fyrir 5.028.338 krónur. Þá fjárhæð hefði þeim með hliðsjón af greiðslugetu átt að vera unnt að leggja til hliðar frá því að frestun greiðslna hófst 29. júní 2011. Kærendur hafi því aðeins gert grein fyrir um 27% af þeirri fjárhæð sem þeim hefði átt að vera unnt að leggja til hliðar á tímabilinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telji að kærendum hafi mátt vera ljóst að leggja bæri til hliðar það fé sem var umfram framfærslu. Leggja beri sérstaka áherslu á að kærendur hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun hjá embætti umboðsmanns skuldara af fúsum og frjálsum vilja í júní 2011 eða á þeim tíma er hið svokallaða greiðsluskjól hófst við móttöku umsóknar. Kærendum hafi hvenær sem er verið í lófa lagið að afla sér upplýsinga um réttaráhrif greiðsluskjólsins og skyldur sínar hvort sem var símleiðis, rafrænt eða með komu á starfsstöð embættisins. Á meðan á greiðsluaðlögunar­umleitunum standi greiði umsækjendur ekki af skuldum sínum. Þar sem kærendur hefðu haft verulega greiðslugetu á tímabilinu, eða að meðaltali um 400.000 krónur á mánuði, sé með öllu óraunhæft að ætla að kærendur hafi staðið grandalausir í þeirri trú að sú upphæð sem annars hefði farið til greiðslu skulda hefði verið til aukinnar neyslu og framfærslukostnaðar fyrir kærendur á tímabilinu. Jafnvel þótt kærendur hafi verið í óvissu um stöðu sína á fyrstu dögum og mánuðum greiðsluskjólsins verði að gera þær kröfur til þeirra að bregðast við óvissunni með ábyrgum hætti. Kærendum hefði þannig borið að setja sig í samband við embættið sem hefði þá leiðbeint þeim um stöðu þeirra og afleiðingar af brotum á skyldum. Þá sé jafnframt ástæða til að benda á að frá umsóknardegi, undir vinnslu málsins og áður en ákvörðun um hvort heimild til greiðsluaðlögunar sé veitt, geti umsækjendur aldrei gengið að því sem vísu að fá umsókn samþykkta. Á umræddu tímabili ríki því óvissa um lyktir umsóknar, sem varað geti um marga mánaða skeið. Undir slíkum kringumstæðum megi ætla að umsækjendur leiði hugann að þeim afleiðingum sem synjun eða mikill dráttur á meðferð málsins geti haft í för með sér þegar komi að uppgjöri við lánardrottna. Af þessum sökum verði að leggja enn ríkari skyldur á umsækjendur að afla sér upplýsinga um stöðu sína og að sama skapi bera hallann af tómlæti sínu hvað varði öflun upplýsinga sem ávallt hafi verið aðgengilegar af hálfu embættisins og innan seilingar. Embætti umboðsmanns skuldara beri sem stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem starfssvið þess nái til, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hversu ítarlegar leiðbeiningar þurfi að vera geti meðal annars ráðist af mikilvægi máls og möguleikum stjórnvalds til að leiðbeina að teknu tilliti til fjölda mála og annarra aðstæðna. Embætti umboðsmanns skuldara hafi tekið á móti tæpum 800 umsóknum í júní 2011 og hafi ekki verið stætt á, undir neinum kringumstæðum, að neita að taka við fullbúinni umsókn samkvæmt lögum af þeim sem ekki þáðu viðtal hjá ráðgjafa. Af þessum sökum hafi embættið meðal annars haldið úti öflugum vef með nauðsynlegum upplýsingum, öllum umsækjendum til handa, ásamt því að halda úti símaþjónustu og rafrænni þjónustuveitu alla virka daga, allan ársins hring.

Umboðsmaður skuldara telur tilefni til að leggja áherslu á að jafnvel þótt kærendur hafi ekki fengið vitneskju um skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. fyrr en með samþykki umsóknar 7. júní 2012 hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar rúmlega 2.400.000 krónur frá þeim tíma og þar til í nóvember 2012, er þeim barst bréf embættisins vegna mögulegrar niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana. Embættið harmi langan málsmeðferðartíma en málsmeðferðartími kærenda hafi þó ekki verið lengri en almennt hafi verið með umsóknir sem bárust í júní 2011. Þá sé embættið bundið af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og eigi að sjá til þess að hvert mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og upplýst kærendur um skyldur þeirra við greiðsluaðlögunarumleitanir þegar sótt var um heimild til greiðsluaðlögunar 29. júní 2011. Nánar tiltekið telja kærendur að þau hafi ekki verið upplýst um skyldur þeirra til að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fyrr en á fundi með umsjónarmanni 27. september 2012.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með setningu laga nr. 128/2010 15. október 2010 tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge.  hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunarumleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint í umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir framfærslu tiltekin 442.385 krónur.

Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefst frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin þegar frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 29. júní 2011.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 9. október 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 11. febrúar 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 6.841.123 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. júlí 2011 til 30. nóvember 2012. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 402.419 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur kveðast hafa lagt til hliðar 750.000 krónur á tímabilinu og þau hafa lagt fram gögn um kostnað sem nam 1.062.790 krónum.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur B 2.403.193
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 400.532
Nettótekjur A 2.148.270
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 358.045
Nettótekjur alls 4.551.463
Mánaðartekjur alls að meðaltali 758.577

 

Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur B 4.944.153
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 412.013
Nettótekjur A 4.432.328
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 369.361
Nettótekjur alls 9.376.481
Mánaðartekjur alls að meðaltali 781.373

 

Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2013: Einn mánuður
NettótekjurB 411.757
Nettótekjur A 449.535
Nettótekjur alls 861.292

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. janúar 2013: 19 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 13.927.944
Bótagreiðslur og meðlagsgreiðslur 960.252
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 14.888.196
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 783.589
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 422.851
Greiðslugeta kærenda á mánuði 360.738
Alls sparnaður í 19 mánuði greiðsluskjóli x 360.738 6.854.027

 

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 618.180 króna sem telja verði að hafi verið nauðsynlegur til framfærslu kærenda og fjölskyldu þeirra. Kærunefndin telur að kostnaður sem nam 403.060 krónum vegna flugfargjalda og skiptinemadvalar sonar kærenda hafi ekki verið nauðsynlegur til framfærslu í skilningi 12. gr. lge. Þá telur kærunefndin að kostnaði kærenda vegna samgangna sem nam 41.050 krónum hafi þegar verið gert ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmann skuldara. Er þetta í samræmi við fyrirliggjandi gögn og verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Þá sýndu kærendur fram á 522.902 króna inneign á bankareikningi.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í umsóknareyðublaði, á vefsíðu embættisins og fylgiskjala sem þau fengu í hendur með ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda og sparnaðar samtals að fjárhæð 1.141.082 króna hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 5.712.945 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærendur hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt framangreindu verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum