Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2013

Fimmtudaginn 9. apríl 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 31. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. janúar 2013 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

 

Með bréfi 14. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 4. mars 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 20. september 2013. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 30. október 2013.

Með bréfi 5. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1961. Hún er fráskilin og býr ásamt uppkomnum syni sínum í eigin 84 fermetra íbúð að B götu nr. 84 í sveitarfélaginu C. Kærandi er F-fræðingur og starfar á X. Útborguð laun hennar samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra eru að meðaltali 418.355 krónur á mánuði.

Kærandi stundar einnig eigin atvinnurekstur með útleigu fjögurra fasteigna að D götu nr. 27 sem eru að hluta til í hennar eigu. Af skattframtölum verður ráðið að eignastaða í atvinnurekstrinum sé neikvæð auk þess sem tap hafi verið á rekstrinum undanfarin ár ef undan er skilið árið 2011.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til vankunnáttu í fjármálum og hækkunar á afbogunum lána. Fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi stundað fasteignabrask en þegar fór að halla undan fæti í rekstri hans hafi hún tekið við eignum og áhvílandi skuldum til að forða þeim frá aðför.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda alls 99.713.826 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) nema skuld vegna námslána að fjárhæð 675.189 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2008.

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 16. maí 2011. Umsókninni var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. janúar 2012 með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umsókn hennar um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara verði samþykkt og tekin til efnismeðferðar.

Kærandi kveðst hafa leitað til umboðsmanns skuldara vegna stöðu áhvílandi lána á íbúðum við D götu nr. 27 í lok árs 2010. Hafi þessar skuldir að mestu leyti verið tilkomnar vegna viðskipta fyrrum eiginmanns kæranda og viðskiptafélaga hans en eignirnar hafi verið í útleigu.

Leigugreiðslum vegna íbúðanna við D götu hafi verið ráðstafað til rekstrar og afborgana af lánum. Húsaleigutekjur af eigninni hafi dugað til greiðslu afborgana, fasteignagjalda, trygginga, orkureikninga og viðhalds. Fram til loka árs 2010 hafi lánin verið í skilum en það ár hafi heildarafborganir af lánum verið yfir 6.000.000 króna.

Kærandi hafi tekið við fasteignunum að D götu nr. 27 og tilheyrandi skuldum árið 2001. Þetta hafi hún gert í þeirri trú að rekstur fyrrum eiginmanns hennar væri í lagi en svo hafi ekki verið. Þegar kærandi hafi skilið við eiginmann sinn hafi hann skuldbundið sig til þess að aflétta tilteknu veðláni af eigninni en það hafi verið ein aðalforsenda þess að lánin vegna eignarinnar væru viðráðanleg miðað við leigutekjur.

Telur kærandi aðstöðu sína óvenjulega að því leyti að hún hafi tekist á hendur fjárhagsskuldbindingar í góðri trú um að meginhluta þeirra yrði aflétt. Umboðsmaður skuldara telji lántökur kæranda á árunum 2005 til 2007 áhættusamar. Fyrir liggi þó að kærandi hafi sjálf engin lán tekið á þessum tíma heldur hafi hún veitt veðleyfi í sínum hluta fasteignanna að D götu nr. 27 annars vegar til að eignirnar yrðu ekki seldar á uppboði og hins vegar til að eiginmaður kæranda gæti endurfjármagnað sín lán. Hafi hann talið kæranda trú um að endurfjármögnunin myndi bjarga eignunum, standa undir sér og að veðum yrði aflétt þegar viðskipti glæddust. Kærandi hafi ekki komið að rekstri fasteignanna eða fjármálum tengdum þeim en hún hafi í blindni treyst fyrrum eiginmanni sínum.

Á árunum 2004 til 2010 hafi tekjur kæranda verið ágætar og því hafi hún á þessum tíma getað staðið straum af fjárhagsskuldbindingum sínum. Haustið 2010 hafi kærandi orðið atvinnulaus en það hafi haft í för með sér að hún hafi ekki getað staðið undir afborgunum. Hún hafi nýtt viðbótarlífeyrissparnað sinn til framfærslu þangað til í janúar 2012.

Kærandi sé sjálf ekki aðalskuldari þeirra lána sem þyngst hvíli á atvinnurekstrinum vegna D götu nr. 27. Segja megi að vankunnátta hennar í fjármálum og traust á fyrrum eiginmanni hafi komið kæranda í þann vanda sem hún glími nú við. Málið þurfi að skoða í heild sinni og með tilliti til þeirra aðstæðna sem uppi hafi verið á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað, meðal annars þess að aðgangur að fjármagni á þessum tíma hafi verið nánast óheftur.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. Þar séu í sjö stafliðum rakin atriði sem leitt geta til þess að synjað verði um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Umboðsmaður skuldara telur að atvinnurekstri, lántöku og ábyrgðarskuldbindingum honum tengdum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Það sé matsatriði í hverju tilviki hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Í máli þessu stafi aðeins lítill hluti skulda kæranda frá húsnæðiskaupum vegna húsnæðis til eigin nota. Stærstur hluti skuldbindinga kæranda sé vegna atvinnurekstrar, þ.e. kaupa á fasteignum til útleigu. Ýmsir áhættuþættir tengist viðskiptum sem felist í skuldsettum kaupum á fasteignum til útleigu, svo sem eftir atvikum hvernig lán þróist vegna gengissveiflna eða verðbólgu, sveiflur á húsnæðis- og leigumörkuðum og innheimta leigu. Telja verði að áhættan sé meiri þegar fjárhæðir skuldbindinganna séu háar. Einnig sé til þess að líta að mikil útgjöld fylgi mikilli fasteignaeign, svo sem skattar, iðgjöld vegna trygginga og viðhaldskostnaður. Þá verði ekki séð að eignastaða kæranda hafi verið sérstaklega sterk en helsta eign hennar undanfarin ár að undanskildum rekstrinum hafi verið íbúð hennar að B götu nr. 84.

Telja verði að kærandi hafi með yfirtöku skuldbindinga vegna atvinnurekstrar tekið verulega fjárhagslega áhættu en fyrir liggi að greiðsluerfiðleikar hennar séu fyrst og fremst vegna þessara skuldbindinga.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 sé fjallað um þýðingu þess að hátt hlutfall skuldbindinga kæranda sé vegna atvinnurekstrar við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til að leita greiðslualögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. Í málsatvikalýsingu sé eftirfarandi lýsing á skuldastöðu kæranda í málinu: „Heildarskuldir kæranda eru samkvæmt gögnum málsins 80.203.528 krónur en að auki eru ábyrgðarskuldbindingar sem fallnar eru á hana sem nema 175.651.016 krónum. Ábyrgðarskuldbindingarnar eru allar vegna reksturs kæranda á eigin félögum og eru þær um 68,65% af heildarskuldum hennar.“

Í niðurstöðukafla úrskurðarins taki kærunefndin til sérstakrar skoðunar þýðingu á hlutfalli atvinnuskuldbindinga en þar segi meðal annars: „Þá er þess enn fremur að gæta að tæplega 70% af skuldbindingum kæranda stafa frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.“

Af fyrrgreindum úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 svo og úrskurði kærunefndarinnar í máli nr. 26/2011 verði ráðið að taka beri til skoðunar til hvaða þátta fjárhagsvandræði kæranda verði fyrst og fremst rakin, þ.e. hvort þau verði að stærstum hluta rakin til skuldbindinga sem tengist atvinnurekstri. Í frumvarpi til lge. megi víða lesa vilja löggjafans til að takmarka gildissviðið við heimilisrekstur. Þannig segi til að mynda í fimmta kafla greinargerðar með frumvarpinu að lagt sé til að fylgst verði náið með þróun þessa úrræðis til að tryggja að löggjöfin þjóni því markmiði að gera einstaklingum en ekki atvinnurekstri kleift að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í máli þessu leggi umboðsmaður skuldara áherslu á að skuldir kæranda vegna eigin íbúðarhúsnæðis nemi 21.613.539 krónum. Aðrar samningskröfur hennar séu óverulegar. Samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara ætti kærandi að vera vel fær um að standa við þessar skuldir.

Í niðurstöðukafla úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 81/2011 sé að finna eftirfarandi: „Þá verður ekki séð hvort eða hvernig umboðsmaður hefur lagt mat á það hvaða áhrif það hefur á niðurstöðuna hversu mikill hluti skulda kæranda stafar frá atvinnurekstri.“

Heildarfjárhæð skuldbindinga sem tengist atvinnurekstri kæranda í máli þessu, þ.e. skuldbindingar vegna lántöku, ábyrgðarskuldbindinga og ógreiddra gjalda vegna umræddra fasteigna, sé 118.068.374 krónur en þannig tengist um 77% skulda kæranda atvinnurekstri hennar.

Af greinargerð kæranda til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála verði ráðið að leigugreiðslum vegna umræddra fasteigna hafi verið ráðstafað til að greiða af lánum og til rekstrar. Þá segi að húsleigutekjur af fasteigninni að D götu nr. 27 hafi dugað fyrir afborgunum lána og öðrum tengdum kostnaði fram að árinu 2010. Skattframtöl liðinna ára beri ekki með sér að nefndar leigutekjur hafi á nokkrum tíma verið slíkar að þær gætu réttlætt lántökur á árinum 2005 til 2007 eða staðið undir þeim kostnaði sem af þessum skuldsettu kaupum hafi hlotist. Samkvæmt skattframtali ársins 2006 séu engar leigutekjur tilgreindar á tekjurárinu 2005. Skattstofn heildartekna tekjuársins 2006 samkvæmt skattframtali ársins 2007 hafi verið 700.000 krónur en það hafi vart dugað fyrir fasteignagjöldum, hita og rafmagni á því ári. Samkvæmt rekstrarskýrslu skattframtals ársins 2008 vegna tekjuársins 2007 verði ekki annað séð en að tap á starfseminni hafi verið 710.018 krónur. Þá sjáist glöggt af sömu rekstrarskýrslu hversu skuldsettur reksturinn hafi verið í lok árs 2007 en skuldir hafi numið tæpum 97% af fasteignamati eignanna. Þrátt fyrir bága stöðu rekstrarins hafi kærandi gefið út tryggingabréf til dóttur sinnar að fjárhæð 9.500.000 krónur í júlí 2008 en það hafi að mati umboðsmanns skuldara ýtt enn frekar undir þá áhættu sem embættið telji kæranda hafa tekið og ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma.

Telja verði af því sem rakið hafi verið að greiðsluerfiðleikar kæranda verði fyrst og fremst raktir til skuldsetningar hennar í tengslum við atvinnurekstur. Þegar þetta sé virt, ásamt skuldasöfnun kæranda á árunum 2005 til 2007, sé það heildstætt mat umboðs­manns skuldara að óhæfilegt hafi verið að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að umsókn hennar um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara verði samþykkt og tekin til efnismeðferðar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Felli kærunefndin synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi leiðir af því að umboðsmanni skuldara ber að taka ákvörðun að nýju enda er það hlutverk umboðsmanns skuldara að veita heimild til greiðsluaðlögunar en ekki kærunefndarinnar. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt lagaákvæðinu er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum og fyrirliggjandi tekjuupplýsingum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2005 til 2011 í krónum:

 

  2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* á mánuði (nettó) 292.940 377.804 353.354 401.912 427.701 529.868 268.153
Eignir alls 88.741.851 116.906.491 119.830.207 83.583.745 21.324.133 19.179.631 20.497.653
· B gata nr. 84 15.445.000 16.990.000 34.370.000 18.940.000 19.100.000 17.450.000 18.950.000
· E gata nr. 4 5.970.000 6.965.000 15.560.000        
· D gata nr. 27 50.687.500 64.582.312 38.960.000 61.690.000      
· Ökutæki 3.530.000 2.448.000 2.203.200 1.982.880 1.784.592 1.606.132 1.445.518
· Hlutir í Y sf. 13.000.000 25.792.323 25.792.323        
· Hrein eign samkvæmt efnahagsreikningi     2.944.684        
· Bankainnstæður o.fl. 109.351 128.856   970.865 439.541 123.499 102.135
Skuldir 35.876.562 62.631.002 18.376.551 32.721.214 32.262.258 47.001.211 32.417.156
Nettóeignastaða 52.865.289 54.275.489 101.453.656 50.862.531 -10.938.125 -27.821.580 -11.919.503

*Tekjur kæranda, þ.m.t. fjármagnstekjur.

 

Af gögnum málsins má ráða að skattframtöl kæranda gefa ekki að öllu leyti rétta mynd af fjárhag hennar á árunum 2007 og 2008. Á árinu 2007 færir kærandi fasteignirnar að D götu til eigna en hún færir ekki skuldir á móti. Þá færir hún einnig hreina eign í atvinnurekstri vegna sömu eigna. Á árinu 2008 færir kærandi fasteignirnar að D götu til eigna, tiltekur ekki skuldir vegna þeirra en færir nettóskuldir umfram eignir í atvinnurekstri vegna þessara sömu eigna. Leiðir þetta til þess að eignir kæranda virðast á þessum tíma töluvert meiri en skuldir en það samrýmist ekki að öllu leyti fyrirliggjandi gögnum um eignastöðu kæranda eins og sjá má af neðangreindri töflu en fjárhæðir eru tilgreindar í krónum:

 

  2007 2008
Eignir 80.870.207 21.893.745
· B gata nr. 84 34.370.000 18.940.000
· E gata nr. 4 15.560.000  
· Ökutæki 2.203.200 1.982.880
· Hlutir í Y sf. 25.792.323  
· Hrein eign samkvæmt efnahagsreikningi* 2.944.684  
· Bankainnstæður o.fl.   970.865
Skuldir 18.376.551 32.721.214
Nettóeignastaða 62.493.656 -10.827.469

* D gata nr. 27 að fráfregnum skuldum myndar hreina eign samkvæmt efnahagsreikningi.

Helstu skuldir kæranda stafa frá árunum 2005 til 2008 en í neðangreindri töflu má sjá skuldir kæranda samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Lánstími Tryggingar Upphafleg Staða Vanskil
      Ár   fjárhæð 2012 frá
Íbúðalánasjóður 2005 Veðskuldabréf 25 B gata nr. 84 13.600.000 19.924.913 ?
Íbúðalánasjóður 2005 Veðskuldabréf 25 D gata nr. 27 2.000.000 3.557.716 2010
LÍN 2005 Námslán       675.189 2012
Tryggingamiðstöðin 2005 Veðskuldabréf 7 Mercedes Benz 2.789.744 725.565 2012
Íbúðalánasjóður 2006 Veðskuldabréf 40 D gata nr. 27 7.000.000 12.933.350 2010
Íbúðalánasjóður 2006 Veðskuldabréf 25 D gata nr. 27 5.000.000 8.487.725 2010
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Veðskuldabréf 40 D gata nr. 27 19.200.000 33.491.015 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Veðskuldabréf 40 D gata nr.27 5.311.000 8.095.782 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Veðskuldabréf 30 D gata nr. 27 2.389.000 4.397.410 2010
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Veðskuldabréf 30 D gata nr. 27 3.090.000 5.773.612 2010
Orkuveita Reykjavíkur 2011 Reikningar     151.371 202.583 2011
Reykjavíkurborg 2011–2012 Fasteignagjöld     1.131.300 1.177.177 2011–2012
Arion banki   Greiðslukort       134.430 2011
Tollstjóri 2012 Opinber gjöld     15.000 15.000 2012
Tryggingamiðstöðin 2011–2013 Iðgjöld     50.086 122.359 2011–2013
        Alls 61.727.501 99.713.826  

 

Á árunum 2005, 2007 og 2008 veðsetti kærandi fasteignir sínar sem hér segir á grundvelli tryggingarbréfa en fjárhæðir eru tilgreindar í krónum:

 

Skuldari Útgefið Kröfuhafi Veðandlag Upphafleg
        fjárhæð
G 2005 Arion banki D gata nr. 27 21.000.000
A 2007 Arion banki D gata nr. 27 1.000.000
A 2008 H B gata nr. 84 9.500.000
    Alls   31.500.000

 

Ekki liggur fyrir hvaða skuldir standa að baki tryggingarbréfi útgefnu 2008 en kröfuhafi þess er dóttir kæranda.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. kemur fram að séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Við sérstakt mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skulda á því tímabili sem til skoðunar er.

Mat á áhættu verður að fara fram á þeim tíma sem til skuldbindinga var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Á árinu 2008 veðsetti kærandi fasteign sína að B götu með tryggingarbréfi að fjárhæð 9.500.000 krónur. Ekki liggur fyrir hvaða skuldir var verið að tryggja með útgáfu tryggingarbréfsins en tilurð þess ein og sér bendir til þess að kærandi hafi með bréfinu verið að veita veðtryggingu vegna nýrra skuldbindinga. Á þessum tíma var raunveruleg eignastaða kæranda neikvæð og skuldir hennar miklar samkvæmt því sem áður hefur verið rakið. Verður því hvorki séð að fjárhagsstaða hennar hafi gefið henni tilefni til að takast á hendur frekari skuldbindingar né veðsetja eignir sínar með þessu móti. Verður samkvæmt þessu að telja að með útgáfu tryggingabréfsins hafi kærandi hagað fjármálum sínum í andstöðu við ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í málinu liggur fyrir að kærandi var launþegi hjá hjúkrunarheimili á árunum 2005 til 2010. Auk þess leigði hún út fasteignir sem hún átti að hluta til með fyrrum tengdamóður sinni. Útleiga fasteignanna var talinn fram til skatts sem sjálfstæður atvinnurekstur kæranda en kærandi greiddi sér ekki laun úr rekstrinum. Eins og högum kæranda var háttað er ekki unnt að líta á útleigu hennar á fasteignunum með öðrum hætti en að um sjálfstæða atvinnustarfsemi hafi verið að ræða. Kærandi átti ekki heimili á neinni þessara eigna en samkvæmt fyrirliggjandi veðbókavottorðum eignaðist hún fasteignirnar árið 2001. Þau skuldabréfalán sem eru á nafni kæranda og hvíla á eignunum voru tekin á árunum 2005 til 2007. Ekki verður því séð að lánin hafi verið tekin til að kaupa eignirnar. Kærandi hefur greint frá því að nefnd lán tengist viðskiptum fyrrum eiginmanns hennar en í málinu liggur ekkert fyrir sem varpað getur frekara ljósi á það.

Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum fyrir húsaleigustarfsemina voru lykiltölur rekstrarins þessar á árunum 2007 til 2009 í krónum:

 

  Árs-reikningur
  Árs-reikningur     Árs-reikningur
  2007
  2008     2009
Húsaleigutekjur 5.140.173
Húsaleigutekjur 5.477.000   Húsaleigutekjur 5.408.963
Hagnaður/tap -710.018
Hagnaður/tap -2.206.397   Hagnaður/tap -6.519.457
Eignir 89.157.170
Eignir 92.559.461   Eignir 104.149.461
Skuldir 86.212.486
Skuldir 105.150.522   Skuldir 119.636.689
Eigið fé 2.944.684
Eigið fé -12.591.061   Eigið fé -15.487.228

 

Á rekstrinum varð tap öll ofangreind ár og var eigið fé hans uppurið á árinu 2008. Árlegar rekstrartekjur voru svipaðar öll ofangreind ár eða frá rúmum 5.100.000 krónum upp í tæpar 5.500.000 krónur. Benda skattframtöl til þess að rekstrartekjur hafi að töluverðu leyti verið notaðar til að greiða af þeim skuldabréfalánum sem á fasteignunum hvíldu.

Þegar framanritað er virt er ekki unnt að líta öðruvísi á en að þær skuldir kæranda sem hvíla á fasteignunum að D götu séu skuldir vegna atvinnurekstrar en ekki skuldir sem kærandi hefur gengist í sér til framfærslu eða til að halda heimili. Nema þessar skuldir tæpum 77% af heildarskuldum kæranda. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnu­rekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Þegar framanritað er virt telur kærunefndin að fjárhagserfiðleika kæranda megi aðallega rekja til áhvílandi lána á fasteignunum við D götu. Kærandi vísar sjálf til þess að hún hafi veðsett sinn hluta fasteignanna að D götu nr. 27, annars vegar til að eignirnar yrðu ekki seldar á uppboði og hins vegar til að eiginmaður kæranda gæti endurfjármagnað sín lán. Verður því að líta svo á að vanda kæranda sé fyrst og fremst að rekja til þessara atvika sem hún ber sjálf ábyrgð á með framgöngu sinni. Með þessari háttsemi telur kærunefndin að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt þessu telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum