Hoppa yfir valmynd
2. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 169/2012

Fimmtudaginn 2. október 2014

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 7. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. ágúst 2012 þar sem heimild til greiðsluaðlögunarumleitana var felld niður.

Með bréfi 18. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. nóvember 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. nóvember 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 28. nóvember 2012. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 3. desember 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru bæði fædd 1954. Þau eru gift og búa ásamt uppkomnum syni sínum í eigin 200 fermetra íbúð að C götu nr. 2 í sveitarfélaginu D.

Kærandi B starfaði áður sem fasteignasali en vinnur núna í verslun. Meðaltekjur hennar eru 88.332 krónur á mánuði eftir frádrátt skatta. Kærandi A er húsasmiður og eru mánaðartekjur hans 96.000 krónur eftir frádrátt skatta. Að sögn kærenda hafa þau einnig haft um 70.000 krónur á mánuði í tekjur af sölu á F vörum og húsaleigutekjur að fjárhæð 109.250 krónur eftir frádrátt skatts. Aðrar tekjur kærenda eru barnabætur að fjárhæð 12.694 krónur á mánuði, áætlaðar vaxtabætur að fjárhæð 34.031 króna á mánuði og sérstök vaxtaniðurgreiðsla að fjárhæð 25.000 krónur að mánuði. Samtals eru þetta tekjur að fjárhæð 435.307 krónur á mánuði.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra allt til ársins 2002 en þá hafi þau orðið fyrir tjóni. Á árinu 2008 hafi samningar náðst við kröfuhafa og eignir verið seldar. Þá hafi góð verkefni verið fyrirsjáanleg en við efnahagshrunið 2008 hafi ekkert orðið af þeim. Á þessum tíma hafi kærandi B starfað sem fasteignasali og sala eigna hafi stöðvast. Þá hafi kærandi A orðið atvinnulaus. Vanskil hafi aftur hlaðist upp en tekjur hafi engar verið.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 166.628.420 krónur og falla 145.504.213 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru meðal annars námslán að fjárhæð 14.797.928 krónur, virðisaukaskattur að fjárhæð 3.837.186 krónur og skattsekt að fjárhæð 1.765.250 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2006 og 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 12. desember 2011. Athugasemdir bárust frá Tollstjóra vegna skulda kærenda á opinberum gjöldum. Kom þar fram að það væri mat Tollstjóra að kærendur þyrftu að greiða að fullu þær skuldir sem ekki féllu undir samning um greiðsluaðlögun.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. febrúar 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem báðir kærendur skulduðu þing- og sveitarsjóðsgjöld, virðisaukaskatt og kærandi A skuldaði einnig skattsekt og staðgreiðslu launagreiðanda. Næmu þessar skuldir rúmum 5.000.000 króna og væru utan greiðsluaðlögunar samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Ekki væri hægt að semja um greiðslu á þessum kröfum en umsjónarmaður hafi haft samband við Tollstjóra og fengið þau svör að ekki væri samið um greiðsludreifingu á vörsluskattskuld sem væri hærri en 1.000.000 króna. Teldi umsjónarmaður því að kærendur uppfylltu ekki lengur skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. og því væri rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 27. mars 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr . lge. Kærendur hafi svarað 9. maí en í svarinu komi fram að kærandi B hafi fengið hluta virðisaukaskattskulda leiðréttan. Engin gögn bárust umboðsmanni með svarinu.

Með bréfi til kærenda 24. ágúst 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 8. júlí 2011 um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. d- og g-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

 II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki eiginlegar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærð er niðurstaða Byrs um að staða láns til kærenda sé 35.175.882 krónur. Þess sé krafist að umboðsmaður skuldara fái rétta stöðu þessa láns og vinni út frá því. Einnig kæri þau fjárhæð láns hjá Byr að fjárhæð 8.000.000 króna. Þeir fjármunir hafi aldrei komið til kærenda en þau hafi gert munnlegan samning um uppgreiðslu skulda þeirra við Tollstjóra með þessum peningum. Loks kæri þau það álit umboðsmanns skuldara að þau standi í ábyrgðum fyrir aðra að fjárhæð 107.989.465 krónur en kærendur telji þessar ábyrgðir ekki til staðar.

Kærendur óska eftir endurmati frá umboðsmanni skuldara hvort í sínu lagi.

Kærendur hafi lagt sig eftir að komast í fasta vinnu og hafi það gengið ágætlega en tekjur séu þó ekki nægar til að borga niður allar skuldir sem vaxið hafi gríðarlega á nokkrum árum vegna aðstæðna er flestir þekki. Haldreipi þeirra í þessu ástandi hafi verið embætti umboðsmanns skuldara sem þau hafi sett allt sitt traust á. Telji kærendur að umboðsmaður hafi reynt að gera sitt besta til að leysa vanda þeirra þó að þeim finnist ekki hafa verið tekið tillit til þeirra meginþátta sem talað hafi verið um við stofnun embættisins, þ.e. að embættið ætti að leysa vanda fólks til að það gæti orðið nýtir þjóðfélagsþegnar á ný.

Ekki verði séð fyrir endann á því hvernig tekið verði á flestum skuldum kærenda fyrir dómstólum vegna endanlegrar stöðu lána og þeirra eigna sem legið hafi að baki. Finnist kærendum því ekki rétt að miða við stöðu lána fyrr en hún liggi fyrir.

Kærendur telji forsendubrest hafa orðið á samningum þeirra við hrun bankanna andstætt því sem umboðsmaður skuldara haldi fram. Í því samhengi bendi þau á að þessi sami forsendubrestur sé ein meginorsökin fyrir stofnun embættis umboðsmanns skuldara. Sé það mat kærenda að embættið hafi ekki skoðað mál þeirra í samhengi við það sem gerst hafi á Íslandi við hrunið. Viðskiptavextir lánastofnana hafi étið upp verðgildi þeirra verksamninga sem þau hafi verið með í vinnslu og hafi gert væntanlegar tekjur að engu. Síauknar kröfur banka um veðtryggingar hafi ekki bætt stöðu kærenda en kærendur hafi misst fasteignir, sem þau hafi lagt fram sem veð, á nauðungarsölu.

Kærendur hafi gert samning við Tollstjóra um greiðslu eldri skulda og hafi þau staðið við hann framan af. Því miður hafi þau hætt að geta staðið við samninginn í aðdraganda hringiðu að hruni viðskipta, fasteigna og banka. Samningur þeirra hafi að engu orðið við síauknar vaxtahækkanir. Engin lækkun hafi orðið á skuldunum við greiðslur þótt kærendur hafi greitt allt sem þau hafi getað.

Kærendur vilji nú láta reyna á hvort mögulegt sé að leysa málið án þess að þau verði gjaldþrota. Telja þau að fresta eigi ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunar þar til niðurstaða liggi fyrir um kæruefni þeirra og lögmæti vaxta og verðtryggingar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara bendir á að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. beri umsjónarmanni að tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í ákvæðinu sé það tekið fram að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til atvika sem þar séu talin upp í stafliðum a–g. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Umsjónarmaður hafi sent kröfuhöfum frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun til yfirlestrar 12. desember 2011. Með bréfi 3. janúar 2012 hafi Tollstjóri sent bréf til umsjónarmanns þar sem bent hafi verið á að stór hluti skulda beggja kærenda við Tollstjóra væri vegna ógreiddra gjalda sem féllu utan greiðsluaðlögunar samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge., þ.e. virðisaukaskatts, staðgreiðslu launagreiðanda, þing- og sveitarsjóðsgjalda.

Með bréfi 23. febrúar 2012 hafi umsjónarmaður tilkynnt umboðsmanni skuldara að þar sem fyrir lægi að kærendur uppfylltu ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., væri rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Taldi umsjónarmaður ljóst að kærendur gætu ekki greitt þessar skuldir þar sem um veruleg vanskil væri að ræða.

Tollstjóri hafi ekki fallist á að semja um greiðsludreifingu þar sem skuldir vegna vörsluskatta námu hærri fjárhæð en 1.000.000 króna. Hafi embættið krafist þess að fá skuldina greidda í einu lagi.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kærendum bréf 27. mars 2012 þar sem þeim hafi verið gefinn kostur á að veita skýringar og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni hafi borist svar kærenda 9. maí s.á. þar sem kærandi A hafi greint frá því að kærandi B hefði fengið hluta virðisaukaskattskuldar sinnar leiðréttan. Kærandi A hafi síðan lýst yfir vilja sínum símleiðis til að afturkalla umsókn sína til að gera kæranda B kleift að gera upp virðisaukaskattskuldir hennar að fjárhæð 1.092.086 krónur við Tollstjóra að því marki að henni yrði gert kleift að ljúka samningi um greiðsluaðlögun. Kærandi A hafi þó ekki upplýst nánar um hvernig kærendur hafi ætlað að gera þetta. Hafi kærendum verið tilkynnt með tölvupósti þennan sama dag að kærandi A þyrfti að undirrita sérstakt eyðublað um afturköllun greiðsluaðlögunarumleitana ef hann vildi afturkalla umsókn sína. Hafi kærendum verið sent eyðublaðið með tölvupósti 6. júní s.á. þar sem þau hafi verið hvött til að gera upp hug sinn varðandi afturköllun kærða A. Í sama tölvupósti hafi verið kallað eftir gögnum um uppgjör kæranda B á skattskuldum. Beiðni þess efnis hafi verið ítrekuð símleiðis sama dag. Kærendur hafi lagt fram viðskiptareikning kæranda B hjá Tollstjóra 24. maí 2012 en þau gögn hafi borist umboðsmanni skuldara 25. júní s.á. Byggi ákvörðun umboðsmanns á þeim gögnum. Kærandi A hafi ekki afturkallað umsókn sína um greiðsluaðlögun og því hafi ákvörðun umboðsmanns tekið til þeirra beggja.

Í málinu liggi fyrir að kærendur beri persónulega ábyrgð á greiðslu vangoldinna skatta. Þá gætu þau þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskilanna. Hafi nú komið í ljós að kærendur skuldi alls 3.143.766 krónur vegna virðisaukaskatts. Þar fyrir utan sé fjárhæð ógreiddra skulda kæranda A vegna vangoldinnar staðgreiðslu launagreiðanda 107.895 krónur og vegna staðgreiðslu tryggingagjalds 108.051 króna. Að auki liggi fyrir að kærandi A hafi ekki greitt skattsekt að fjárhæð 1.763.550 krónur samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 255/2008.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi nefndin fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem kærandinn hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 hafi verið skilið svo að „skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei“.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 17/2011 segi meðal annars: „Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild um greiðsluaðlögun [svo] vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losnar þar með undan greiðslu slíkra skuldbindinga eða ekki.“

Greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lge. sé tiltölulega nýtt úrræði og því hafi ýmsir þættir þess skýrst eftir því sem meðferð mála hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmönnum með greiðsluaðlögunarumleitunum vindi fram. Þannig þyki nú ljóst að Tollstjóri telji sér að mestu óheimilt að semja um eftirgjöf virðisaukaskattskulda í tengslum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Þessi afstaða Tollstjóra hafi ekki legið fyrir með jafn skýrum hætti við meðferð umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun. Við töku ákvörðunar um heimild til greiðsluaðlögunar hafi heldur ekki legið fyrir ofangreindur skilningur kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sbr. úrskurð í máli nr. 17/2011 um samspil f-liðar 3. gr. lge. og d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. við mat á því hvort óhæfilegt þætti að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Af orðalagi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði ráðið að við beitingu þess eigi að fara fram samanburður á fjárhæðum þeirra skulda sem varði refsingu og fjárhag skuldara. Að mati umboðsmanns skuldara ráði hátt hlutfall refsinæmra eða skaðabótaskyldra skulda ekki eitt og sér úrslitum við mat á því hvort þær komi í veg fyrir heimild til greiðsluaðlögunarumleitana.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi skuldara verið synjað um greiðsluauðlögun samkvæmt samhljóða ákvæði eldri laga vegna virðisaukaskattskuldar að fjárhæð 1.780.437 krónur. Í dómi Hæstaréttar hafi farið fram heildarmat á aðstæðum skuldara þar sem fjárhæð vörsluskattskuldarinnar hafi verið borin saman við eigna- og skuldastöðu skuldarans. Í niðurstöðukafla dómsins sé meðal annars vísað til þess að skuldin nemi 8,3% af heildarskuldum skuldarans en ekki verði þó séð að það atriði eitt og sér hafi ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins. Hæstiréttur vísi einnig til þess að vörsluskattskuldin hafi ein og sér verið allhá auk þess sem fjárhagur skuldara hafi ekki verið talinn slíkur að skuldin gæti talist smávægileg með hliðsjón af honum.

Ljóst sé að kærandi A hafi látið undir höfuð leggjast að greiða skattsekt frá árinu 2004 vegna úrskurðar yfirskattanefndar að fjárhæð 1.765.250 krónur. Skuli lagt til grundvallar, jafnvel þótt vararefsing liggi ekki við sektum yfirskattanefndar, að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir um sektarfjárhæðir sem jafna megi til þeirra atvika sem kveðið sé á um í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hér beri einnig að vísa til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 59/2011 þar sem segi meðal annars að fyrrnefnt ákvæði sé samhljóða eldra ákvæði 4. tölul. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi.

Af skuldayfirliti og greinargerð kærenda megi ráða að fjárhagur þeirra sé erfiður vegna mikilla skulda en heildarskuldir þeirra séu 166.628.420 krónur. Eignir kærenda séu fasteign að C götu nr. 2 í sveitarfélaginu D og tveir sumarbústaðir í sveitarfélaginu E. Verðmæti þessara eigna sé talið 38.093.000 krónur. Það sé heildstætt mat umboðsmanns skuldara á stöðu kærenda, sé tekið mið af fyrirliggjandi gögnum, eignum þeirra, tekjum og greiðsluerfiðleikum, að ekki sé unnt að telja skuldir vegna opinberra gjalda smávægilegar.

Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra nemi heildarskuldir kærenda samanlagðar vegna opinberra gjalda alls 11.932.081 krónu sem sundurliðist svo í krónum:

Gjöld Fjárhæð
Þing- og sveitarsjóðsgjöld 5.232.646
Staðgreiðsla tryggingagjalds 108.051
Staðgreiðsla reiknaðra launa 107.895
Tryggingagjald 1.574.473
Virðisaukaskattur 3.143.766
Skattsekt 1.765.250
Samtals 11.932.081

Í sérstökum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til lge. segi að álagning skatta á slík viðskipti sé dæmi um skuldsetningu sem ekki sé þess eðlis að sanngjarnt sé að ákvæði greiðsluaðlögunar nái til, enda sé álagningunni sannanlega ætlað að afla samfélaginu sanngjarns endurgjalds fyrir þá aðstöðu sem kærendur hafi notið. Að mati umboðsmanns séu skuldir vegna opinberra gjalda óhóflegar í máli þessu. Því sé talið að uppruni skuldasöfnunar kærenda sé af þeim toga að það þyki samfélagslega óásættanlegt að greiðsluaðlögun taki til þeirra, sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 hafi skuldir kærenda numið 63.971.263 krónum og skuldir vegna opinberra gjalda og dómsekta 5.338.956 krónum. Taldi kærunefndin að líta yrði „til sjónarmiða að baki ákvæða g-liðar 2. mgr. 6. gr. þar sem segi að synja megi um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra“, en kærendum hafði verið synjað með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Af rökstuðningi kærenda verði ráðið að þau bindi vonir við að úrlausnir dómstóla muni leiða til þess að fjárhagsstaða þeirra batni enda muni það leiða til lækkunar á skuldum. Þó til lækkunar kæmi á samningsbundnum kröfum kærenda, til dæmis vegna úrlausna dómstóla, myndi það hafa óveruleg áhrif á forsendur hinnar kærðu ákvörðunar. Þar sé fyrst og fremst litið til þess að þau skuldi verulegar fjárhæðir í opinber gjöld og þetta séu miklar skuldir miðað við fjárhag kærenda. Ekki verði séð að lækkun samningsbundinna skulda kærenda geti leitt til þess að þau yrðu betur í stakk búin til að koma opinberum gjöldum í skil miðað við fjárhagsstöðu þeirra að öðru leyti.

Af því sem fram komi hjá kærendum verði ráðið að þau telji tilteknar kröfur á skuldayfirliti umboðsmanns skuldara of háar. Rétt sé að taka fram að umboðsmaður skuldara skeri ekki úr um lögmæti krafna eða stöðu þeirra en það sé fyrst og fremst hlutverk dómstóla. Af þessum sökum sé meðal annars gert ráð fyrir sérstakri meðferð umdeildra krafna í 22. gr. lge. Ekki verði séð að athugasemdir kærenda við einstakar kröfur geti leitt til þess að umboðsmaður skuldara komist að því að d- og g-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við í málinu.

Kærendur geri athugasemdir við tiltekna ábyrgðarskuldbindingu sem komi fram í ábyrgðaryfirliti og málsgögnum. Ábyrgðarskuldbinding þessi sé ekki hluti af mati umboðsmanns skuldara á fjárhagsstöðu kærenda en samkvæmt gögnum málsins er kærandi A aðeins ábyrgur fyrir hluta af skuldbindingunni eða 1.200.000 krónum.

Að mati umsjónarmanns hafi átt að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. við meðferð umsóknar samkvæmt 7. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d- og g-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 1. mgr. 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d- og g-liða.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í sambandi við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru vörsluskattskuldir, þ.e. skuldir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda og skattsekt vegna vanskila á afdreginni staðgreiðslu. Þær fjárhæðir sem umboðsmaður skuldara miði við í ákvörðun sinni voru leiðréttar í maí 2012 samkvæmt gögnum frá kærendum og voru samanlagðar skuldir kærenda neðangreindar eftir það í krónum:

Gjöld Ár Höfuðstóll Fjárhæð alls 2012
Virðisaukaskattur 2002 150.357 629.616
Virðisaukaskattur 2003 391.017 1.422.064
Virðisaukaskattur 2007 217.985 322.523
Virðisaukaskattur 2008 401.863 734.700
Staðgreiðsla launagreiðanda 2002 30.927 107.895
Skattsekt 2004 1.763.550 1.765.250
  Samtals 2.955.699 4.982.048

Skattskyldur aðili skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kærendur sem skattskylda aðila.

Samkvæmt fyrirliggjandi úrskurði yfirskattanefndar frá 22. október 2008 var kæranda A gert að greiða sekt að fjárhæð 2.100.000 krónur vegna vanskila á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda í sjálfstæðri starfsemi hans á árunum 2001 til 2003. Samkvæmt gögnum málsins nema eftirstöðvar sektarinnar 1.765.189 krónum.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hafa kærendur bakað sér skuldbindingu í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. ákvæði 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort nefndar skattskuldir nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um liðlega 128.000.000 króna og tekjur þeirra lágar með tilliti til skulda. Samanlagðar skuldir sem kærendur hafa stofnað til með framangreindri háttsemi nema alls 4.982.048 krónum eða 2,99% af heildarskuldum þeirra. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærendur hafa stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að þau hafi heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Breytir þá að mati kærunefndarinnar engu þótt kærendur telji stöðu nánar tilgreindra lána ekki rétta, en jafnvel þó að þau lán teldust ekki meðal skulda kærenda væri fjárhagsstaða þeirra neikvæð um ríflega 85.000.000 króna.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum