Hoppa yfir valmynd
4. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 142/2012

Fimmtudaginn 4. september 2014

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 20. júlí 2012 barst kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. ágúst 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 24. ágúst 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 24. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1953 og 1957. Þau búa ásamt uppkominni dóttur sinni í eigin 232,3 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 13 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A starfar hjá X og er þar í 85% starfi. Útborguð laun hennar eru um 175.218 krónur á mánuði. Kærandi B er bifvélavirki. Hann var áður með rekstur í eigin nafni en hefur verið öryrki frá 2009. Hann fær greiddar 122.297 krónur á mánuði í örorkubætur. Einnig fá kærendur leigutekjur að fjárhæð 249.400 krónur á mánuði að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda eru því um 587.515 krónur á mánuði.

Að mati kærenda má einkum rekja fjárhagsvanda þeirra til atvinnuleysis og veikinda. Árið 2009 hafi fjárhagserfiðleikar þeirra byrjað þar sem kærandi B hafi verið mikið frá vinnu vegna veikinda. Hann hafi þurft að fara í margar aðgerðir og hafi þær haft í för með sér tekjutap og mikinn kostnað. Þá hafi kærendur verið að byggja iðnaðarhúsnæði við E götu en Spron hafi ætlað að fjármagna bygginguna. Þegar Spron hafi fallið hafi Arion banki tekið yfir fjármögnunina og krafist þess að kærandi B greiddi upp tilteknar skuldir. Vegna heilsubrests hans hafi synir kærenda tekið yfir bygginguna en eignir kærenda séu þó enn veðsettar vegna hennar.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 81.590.612 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru 53.663.058 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003 og 2007 til 2009.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. júlí 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og e-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi synjun umboðsmanns skuldara og úrskurði að embættinu sé skylt að samþykkja beiðni þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Af ummælum í greinargerð með frumvarpi til lge. segi að um sé að ræða eitt af úrræðum löggjafans til að leita leiða til að takast á við og leysa úr greiðsluvanda einstaklinga. Markmið lge. séu meðal annars að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Grundvallarhugsun laganna sé að reynt verði að greiða úr skuldavanda einstaklinga með greiðsluaðlögun en lögaðilar verði frekar gerðir gjaldþrota. Mikill munur sé á einstaklingum annars vegar og fyrirtækjum hins vegar þar sem kennitala fyrirtækja hætti að vera til við gjaldþrot andstætt því sem gildi um einstaklinga. Að mati kærenda þurfi mikið til að koma ef hafna eigi einstaklingum um tækifæri til uppgjörs á skuldum sínum samkvæmt ákvæðum lge.

Meginforsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé einstaklingur og ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Greiðsluerfiðleikar verði að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Því meti kærendur það svo að þau fullnægi þessum meginforsendum.

Með hliðsjón af tilgangi lge. og ummælum í greinargerð með 2. mgr. 6. gr. lge. sé ljóst að þau matskenndu atriði sem kunni að takmarka rétt aðila sem fullnægi meginskilyrðum laganna verði ekki túlkuð rýmra en efni standi til. Miða skuli eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar sé komin á en hafa í huga að þegar skuldari glími við fjárhagsvanda hljóti eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess að atriði sem lýst sé í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við.

Í 1. mgr. 6. gr. lge. sé mælt fyrir um tilvik sem leiði fortakslaust til synjunar á beiðni um greiðsluaðlögun en í 2. mgr. 6. gr. séu talin upp atriði sem kunni að heimila synjun á heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Þá segi að við mat á slíku skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinga hafi verið stofnað, eða skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Kærendur gera athugasemdir við þær röksemdir sem umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á. Skuldasöfnun kærenda megi fyrst og fremst rekja til atvinnuleysis og veikinda. Árið 2009 hafi kærandi B þurft að vera mikið frá vinnu vegna veikinda en hann sé nú öryrki. Þær læknisaðgerðir sem hann hafi þurft að gangast undir vegna veikindanna hafi, auk tekjutaps, leitt af sér mikinn kostnað, en bótaréttur hans hafi þó ekki verið viðurkenndur fyrr en 2012. Veikindin hafi einnig leitt til þess að kæranda hafi reynst ókleift að sjá um rekstur á verkstæði sínu og rekstur á félaginu Y ehf. og hafi hann því falið sonum sínum að yfirtaka reksturinn. Fyrrnefnt félag hafi verið stofnað vegna kaupa og framkvæmda á lóð fyrir verkstæðið en Spron hafi gefið vilyrði fyrir fjármögnun. Hafi það því verið verulegt áfall þegar ekki hafi verið staðið við fjármögnunarloforð enda hafi forsendur Y ehf. fyrir framkvæmdunum brostið við það. Einnig hafi vanefnd Spron haft bein áhrif á kærendur sem veitt höfðu tímabundnar tryggingar í eigin eignum vegna framkvæmdanna.

Umboðsmaður skuldara hafi vísað til tveggja tilgreindra skuldbindinga kærenda frá árinu 2007 í tengslum við tilvísun til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sem eigi við ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Annars vegar sé um að ræða 15.000.000 króna lán og hins vegar 14.900.000 króna lán. Kærendur telja óeðlilegt að dæma fjárfestingar þeirra með þeim hætti sem umboðsmaður skuldara hafi gert. Telji þau að meta verði skuldbindingar þeirra út frá þeim forsendum sem uppi voru á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Einnig telji þau rétt að líta til skuldbindinganna í ljósi þess að þær séu að mestu leyti tilkomnar vegna ráðstafana til að halda tekjum og íbúðarhúsnæði en ekki vegna áhættusamra eða óhóflegra viðskipta.

Fyrrnefnt 15.000.000 króna lán sé vegna kaupa á lóð við E götu árið 2007. Sveitarfélagið D hafi tilkynnt að breyta ætti skipulagi fyrir F götu en þar hafi kærandi B verið með bifreiðaverkstæði sitt. Í skipulagsbreytingunni hafi falist að svæðið skyldi skipulagt fyrir íbúðabyggð. Af því hafi leitt að nauðsynlegt hafi verið að fá nýja lóð og nýtt húsnæði fyrir verkstæðið enda hafi afkoma kærenda verið komin undir áframhaldandi rekstri þess. Upphaflega hafi staðið til að taka lán og gefa út tryggingarbréf með veði í nýju lóðinni en það hafi ekki verið mögulegt fyrr en framkvæmdir hafi verið lengra komnar. Því hafi kærendur veitt tímabundið veð í eign sinni að F götu en flytja hafi átt veðið yfir á E götu um leið og hægt væri. Hafi þá legið fyrir lánsloforð frá Spron fyrir alls 70.000.000 króna yfirdráttarláni sem nýta hafi átt til framkvæmdanna. Því hafi verið gefið út 35.000.000 króna tryggingarbréf með veði í fasteigninni við F götu gegn hluta af yfirdráttarláninu. Framkvæmdir hafi farið af stað í samræmi við áætlanir en við fall Spron hafi lánafyrirgreiðslan stöðvast og þar með framkvæmdir á lóðinni. Af þessum ástæðum hafi ekki verið mögulegt að flytja veðbönd af F götu og forsendur fyrir framkvæmdum hafi verið brostnar. Aldrei hafi staðið til að kærendur tækjust á hendur frekari persónulegar skuldbindingar vegna kaupa á hinni nýju lóð.

Skilningur kærenda hafi alltaf verið sá að veðsetning eignarinnar að F götu hafi verið til vara enda hafi lánardrottnar átt að geta leitað fullnustu í eigum lántaka sjálfs, Y ehf., en eignir félagsins hafi fyrst og fremst verið lóðin við E götu. Tilboð hafi borist í lóðina fyrir 120.000.000 króna sem sýni að skuldir vegna hennar hafi ekki verið óhóflegar með tilliti til þeirrar eignamyndunar sem fyrirhuguð hafi verið með framkvæmdum á lóðinni. Síðan hafi markaður fyrir sölu fasteigna og lóða hrunið og því ómögulegt að losa um fjármunina þegar þess hafi verið þörf.

Kærendur bendi á þá mismunun sem verið hafi við lánveitingar til atvinnurekstrar hér á landi síðustu áratugi. Í lögum um hlutafélög nr. 2/1995 og lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 sé mælt fyrir um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum félaga. Þar liggi þau sjónarmið að baki að einstaklingar geti stundað atvinnurekstur án þess að verða sjálfir persónulega ábyrgir fyrir skuldum félags. Í framkvæmd hafi fjármálafyrirtæki svipt minni aðila þessari vernd með því að óska eftir því að hluthafar minni félaga gangist persónulega í ábyrgðir fyrir skuldbindingum félaga á meðan þess sé almennt ekki krafist þegar lánað sé til stærri félaga. Því megi í raun jafna stöðu kærenda við stöðu einstaklings sem beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldum atvinnurekstrar.

Umboðsmaður skuldara hafi einnig vísað til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sem eigi við þegar skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárskuldbindinganna var stofnað. Kærendur vekja athygli á því að fjárfestingar þeirra hafi einungis verið í fasteignum sem hafi verið lítið veðsettar eða óveðsettar og verði þau viðskipti vart talin til áhættusamra viðskipta í eðli sínu.

Kærendum hafi verið fyrirmunað að sjá fyrir efnahagshrunið árið 2008. Hafni þau því mati umboðsmanns skuldara að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinga var stofnað. Á þeim tíma er máli skipti hafi greiðslugeta kærenda verið mjög nálægt núlli. Þau hafi haft væntingar um auknar tekjur til leiðréttingar á því tekjutapi sem orðið hafi vegna veikinda kæranda B en sú tekjuaukning hefði orðið til þess að greiðslugeta kærenda hefði orðið jákvæð. Varla verði það talin ámælisverð hegðun eða mistök við áhættumat að hafa ekki reiknað með hinni gífurlegu eignarýrnum sem orðið hafi eða þeirri hækkun lána sem gengisfall krónunnar hafi valdið. Áður en kærendur hafi stofnað til nefndra skuldbindinga hafi lánveitandi gert áhættumat. Kærendur hafi sjálf ekki stofnað til neinna skuldbindinga sem þau hafi ekki talið sig geta staðið undir þrátt fyrir einhverja lækkun krónunnar og eðlilegar sveiflur á markaði.

Að því er varði skuld að fjárhæð 14.900.000 krónur hafi hún verið tekin vegna íbúðarhúsnæðis kærenda. Hafi þau selt fyrri fasteign og keypt lóð til að reisa á nýtt hús. Hafi lánið verið tekið til að ljúka uppsetningu einingahúss á lóðinni. Telji kærendur rétt að skoða skuldbindinguna út frá þeim forsendum sem uppi hafi verið á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Í fyrsta lagi hafi kærendur talið lágar tekjur sínar tímabundnar og að tekjur þeirra myndu hækka í fyrirsjáanlegri framtíð þar sem þau hafi vænst þess að kærandi B næði fyrra aflahæfi eða að réttur hans til bóta yrði viðurkenndur. Í öðru lagi hafi skuldin verið í samræmi við þá fjárfestingu er farið hafi fram við lántöku. Veðhlutfall fasteignarinnar hafi verið mjög lágt en hún hafi verið á öðrum veðrétti á eftir láni að fjárhæð 9.500.000 krónur vegna kaupa á lóðinni.

Kærendur telji að fjárhæðir umræddra skulda beri að skoða í því ljósi að þær hafi verið teknar til að fjármagna kaup á lóð og uppsetningu einbýlishúss. Eðli málsins samkvæmt séu fjárhæðir tengdar kaupum af þessu tagi nokkuð háar en kærendur telji að lántökur þeirra séu í raun lágar í því samhengi. Einnig þurfi að taka eðlilegt tillit til þess að fjárhæðirnar hafi upphaflega aðeins verið brotabrot af fjárhæð krafnanna eins og þær urðu síðar. Fullnægjandi tryggingarréttindi hafi verið fyrir báðum lánunum þegar til þeirra hafi verið stofnað. Að baki ákvörðun kærenda um þessar lántökur hafi annars vegar verið leit að öryggi í starfi eða rekstri og hins vegar leit að því öryggi sem fælist í því að eiga fast heimili. Það hafi verið mat kærenda að örðugt væri að finna traustari fjárfestingar en lítið veðsettar eða óveðsettar fasteignir.

Umboðsmaður skuldara hafi jafnframt vísað til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kærendur hafi gefið út skuldabréf til handhafa 1. apríl 2010 og þinglýst því á fasteign sína við C götu. Umboðsmaður hafi talið þessa ráðstöfun ámælisverða þar sem hún hafi takmarkað möguleika kröfuhafa til að ganga að eignum kærenda. Á þeim tíma er kærendur hafi gert þessa ráðstöfun hafi héraðsdómur synjað þeim um greiðsluskjól og því lítið annað framundan en að bíða gjaldþrotaskipta. Þau hafi þó ekki verið tilbúin til að játa sig sigruð og hafi því brugðið á það ráð að þinglýsa skuldabréfinu á eignina í þeim tilgangi að hafa meiri tíma til að endurskipuleggja fjármál sín enda hafi þeim verið ljóst að lífsstarf þeirra væri í uppnámi.

Rétt sé að hafa hliðsjón af því að á þessum tíma hafi lge. ekki tekið gildi en mikil umræða hafi verið í þjóðfélaginu um þörf á lögfestingu nýrra úrræða og fyrirhugaðar áætlanir þess efnis. Þær ráðstafanir sem kærendur hafi gripið til hafi einungis verið til þess að þau gætu fullreynt þau fábrotnu úrræði sem þá hafi staðið til boða fyrir einstaklinga í skuldavanda og gefið þeim kost á að skoða hvort ný úrræði sem þeim gætu nýst yrðu sett fram. Sérstaklega hafi verið gætt að því að ráðstafanirnar myndu koma jafnt niður á kröfuhöfum auk þess sem kærendur hafi ekki stofnað til nýrra skulda. Kærendur séu reiðubúin til að aflýsa handhafaskuldabréfinu af eigninni standi það í vegi fyrir að fallist verði á beiðni þeirra um greiðsluaðlögun og aflýsing þess leiddi til þess að þau fengju samþykki kærunefndarinnar til að leita samninga við kröfuhafa á grundvelli reglna um greiðsluaðlögun.

Þá hafi umboðsmaður skuldara vísað til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem afsal kærenda á sumarbústaðalandi að fjárhæð 581.000 krónur til dóttur sinnar árið 2009 hafi verið ráðstöfun sem myndi teljast riftanlegur gjafagerningur í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.). Umrædd ráðstöfun hafi verið fyrirframgreiðsla á arfi til að gæta jafnræðis milli barna kærenda. Greiddur hafi verið erfðafjárskattur vegna fyrirframgreiðslunnar. Kærendur hafi gefið öllum börnum sínum sambærilegar landspildur undir sumarbústaði en dóttir þeirra hafi verið síðust að fá sína spildu. Því hafi nefnd ráðstöfun ekki verið tilraun til undanskots heldur lágu þar sjónarmið jafnræðis að baki. Hafi kærendur talið að fyrirframgreiðsla arfs til lögerfingja í samræmi við fyrirmæli erfðalaga félli utan þeirra ráðstafana sem taldar væru riftanlegar samkvæmt gþl. Telji kærendur ótækt að þessi gerningur verði látinn standa í vegi fyrir því að fallist verði á beiðni þeirra um greiðsluaðlögun. Taka verði tillit til þess að hagsmunir þeirra af því að komast í greiðsluaðlögun séu verulegir og margfaldir fjárhagslegir hagsmunir sé miðað við landspilduna. Þá hafi dóttir kærenda lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að afsala sér landspildunni komi fyrrnefnd ráðstöfun í veg fyrir að fallist verði á beiðni kærenda um greiðsluaðlögun. Kærendur geri ekki athugasemdir við að ákvörðun kærunefndarinnar yrði skilyrt við úrbætur á afsali sumarbústaðalands og aflýsingu skuldabréfsins.

Samkvæmt því sem rakið hafi verið geti kærendur ekki annað en hafnað sjónarmiðum umboðsmanns skuldara fyrir synjun umsóknar. Kærendur hafi mikla hagsmuni af því að fá samþykki umboðsmanns fyrir því að fá að leita frjálsra samninga við kröfuhafa um uppgjör skulda. Verulegur munur sé á möguleikum þeirra til tekjuöflunar í framtíðinni eftir því hvort þau fái að gera frjálsa samninga við kröfuhafa eða þurfi að sæta því að vera gerð upp eftir harðsvíruðustu reglum skuldaskilaréttarins. Erfitt sé að sjá að það þjóni hagsmunum kærenda, kröfuhafa og samfélagsins í heild verði þeim meinað að endurskipuleggja fjármál sín með greiðsluaðlögun. Verði kærendur þvinguð til gjaldþrots muni það að öllum líkindum leiða til meiri afskrifta krafna. Geti það því vart talist skynsamleg, sanngjörn eða eðlileg niðurstaða að þvinga fram skuldaskil þegar vilji kærenda standi til þess að vinna að niðurgreiðslu skulda sinna á næstu árum. Telji kærendur slíkt ekki í samræmi við tilgang og markmið lge.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Skal í því sambandi taka sérstakt tillit til nánar tilgreindra aðstæðna í a–g-liðum ákvæðisins.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun hafi umsækjandi gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti. Í 1. mgr. 131. gr. gþl. sé kveðið á um að krefjast megi riftunar á gjöfum til nákominna ef gjöfin var afhent sex til fjörutíu og átta mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þeir sem skyldir eru skuldara í beinan legg teljast vera nákomnir aðila samkvæmt 2. tölul. 3. gr. gþl. Frestdagur í tilviki kærenda sé sá dagur er umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara eða 6. janúar 2011.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið tilkynnt með ábyrgðarbréfi 18. apríl 2012 um hugsanlega synjun á umsókn þeirra á grundvelli b-, c- og e-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi kærendum verið veittur 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá sig skriflega og styðja sjónarmið sín með gögnum. Kærendur hafi komið til fundar vegna bréfsins 24. apríl 2012 og veitt skýringar á þeim atriðum er varðað gætu synjun.

Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2007 var eigna- og skuldastaða kærenda þessi í lok árs í krónum:

Tekjuár 2007
Meðaltekjur* alls á mánuði 411.066
Framfærslukostnaður á mánuði** 180.968
Áætluð greiðslugeta á mánuði 230.098
Nýjar skuldir á árinu 29.900.000
Aukin greiðslubyrði v/nýrra skulda 117.852
Greiðslubyrði vegna eldri skulda 154.318
Greiðslubyrði alls 272.170
Greiðslugeta -42.072
Nettóeignastaða -471.920

*Þar með taldar fjármagnstekjur og leigutekjur.

**Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður og önnur mánaðarleg útgjöld miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir hjón með eitt barn, upplýsingar frá kærendum og vísitölu neysluverðs.

Kærendur hafi skuldsett sig um alls 29.900.000 krónur árið 2007 og kveði lántökurnar hafa verið nauðsynlegar þrátt fyrir að hafa samkvæmt ofangreindu verið ófær um að standa við afborganir þessara lána. Vegna ráðstafana sveitarfélagsins hafi kærendur ákveðið að kaupa lóð til að byggja iðnaðarhúsnæði á nýjum stað og 15.000.000 króna fjárskuldbinding á árinu 2007 hafi verið vegna þessa. Nauðsynlegt hafi verið að veðsetja íbúðarhúsnæði þeirra þar sem bygging hins nýja iðnaðarhúsnæðis að E götu hafi ekki verið komin nógu langt til að unnt væri að veðsetja það. Þá hafi kærendur einnig veðsett íbúðarhúsnæði sitt vegna 14.900.000 króna skuldar á árinu 2007 en það hafi verið vegna byggingar íbúðarhúsnæðisins.

Þrátt fyrir neikvæða eignastöðu kærenda á árinu 2007 hafi kærandi B einnig veðsett fasteign sína að F götu nr. 8 með tryggingarbréfi til tryggingar skuldum Y ehf. Hafi þessi veðsetning verið til að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins sem hafi verið í eigu sona þeirra.

Samkvæmt ofangreindu hafi greiðslugeta kærenda verið neikvæð um 42.072 krónur eftir að þau höfðu tekist á hendur nýjar skuldbindingar á árinu 2007. Eignastaða þeirra hafi sömuleiðis verið neikvæð. Skýringar kærenda þess efnis að þau hafi ætlað að nota lán að fjárhæð 15.000.000 króna til byggingar iðnaðarhúsnæðis til atvinnurekstrar hafi legið fyrir við töku ákvarðana í málinu. Hið sama eigi við um lán að fjárhæð 14.900.000 krónur sem tekið hafi verið vegna íbúðarhúsnæðis þeirra. Með því að taka svo há lán í eigin nafni hafi kærendur tekið áhættu sem ekki sé unnt að líta fram hjá við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Jafnvel þótt fasteign hafi staðið til tryggingar skuldunum breyti það ekki þeirri áhættu sem kærendur hafi tekið með lántökunum. Þannig sé ekki unnt að taka mið af fyrirhugaðri eignamyndun vegna lánanna enda hafi hún verið bundin mikilli óvissu. Það verði að teljast veruleg áhætta að gangast undir skuldbindingar í trausti þess að allt fari á besta veg.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna og heilstæðs mats á fjárhag kærenda verði að telja að þau hafi stofnað til skuldbindinga á árinu 2007 þegar þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Að auki verði að telja að veðsetning kæranda B á eign sinni að F götu fyrir 35.000.000 króna á sama ári teljist fjárhagsleg áhætta sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtali 2009 hafi kærendur átt sumarbústaðaland en 21. apríl 2009 hafi landið verið skráð á dóttur kærenda án þess að greiðsla kæmi fyrir. Kærendur hafi skýrt þetta þannig að um hafi verið að ræða fyrirframgreiddan arf. Synir kærenda hafi áður fengið arf og því hafi dóttir þeirra fengið þessa lóð. Ráðgjafar hjá Z hafi á sínum tíma ráðlagt þeim þetta og ekkert hafi staðið því í vegi. Umboðsmaður bendi á að dóttir kærenda teljist nákomin í skilningi 131. gr. gþl. og ljóst sé að sumarbústaðalandinu hafi verið ráðstafað til dóttur kærenda innan frests samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum gþl. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kærenda 2009 hafi fasteignamat landsins verið 581.000 krónur í lok árs 2008 og engin veðbönd hafi hvílt á landinu.

Einnig verði að taka mið af neðangreindum upplýsingum úr skattframtali fyrir árið 2009 í krónum:

Tekjuár 2009
Meðaltekjur* alls á mánuði 229.296
Heildargreiðslur ársins af húsnæðislánum 2.140.049
Mánaðarlegar meðalgreiðslur af húsnæðislánum 178.337
Vaxtagjöld ársins af öðrum lánum 679.847
Mánaðarleg vaxtagjöld af öðrum lánum að meðaltali 56.654

Greiðslur af húsnæðislánum og vaxtagjöld

af öðrum lánum alls á mánuði

234.991

Greiðslur af húsnæðislánum og vaxtagjöld af öðrum

lánum alls á mánuði umfram tekjur

5.695

Fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að kærendur hafi verið ógjaldfær á þeim tíma er ráðstöfun sumarbústaðalandsins hafi átt sér stað. Kærendur hafi ekki fært nein gögn því til stuðnings að afhending lóðarinnar hafi verið fyrirframgreiddur arfur, svo sem gögn er sýni fram á að erfðafjárskattur hafi verið greiddur. Því verði að telja að aðstæður e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. séu uppi í málinu.

Kærendur hafi greint frá því að þau hafi ekki haft ásetning til að skjóta sumarbústaðalandinu undan. Þau hafi verið að jafna hlut lögerfingja sinna í samræmi við fyrirmæli erfðalaga. Hvorki sé áskilnaður um að ráðstöfun þurfi að byggjast á annarlegum sjónarmiðum né að ásetningur til undanskots sé fyrir hendi til að hún sé riftanleg samkvæmt ákvæðum 131. gr. gþl. Ekki skipti máli hvernig gjöfin sé sett fram, þ.e. sem fyrirframgreiddur arfur eða annars konar gjöf. Þyki ljóst að gjafagerningurinn hafi skert eignir kærenda og að hann hafi leitt til eignaaukningar hjá móttakanda gjafarinnar enda hafi eignin verið óveðsett. Ekki sé þó hægt að fullyrða að gjafagerningurinn hefði einn og sér leitt til synjunar á umsókn kærenda í ljósi fjárhags þeirra og stærðar gjafarinnar. Þrátt fyrir það sé gjafagerningurinn eitt þeirra atriða sem áhrif hafi á mat umboðsmanns samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. þótt það hafi mögulega ekki ráðið úrslitum. Ekki verði séð að það muni að svo stöddu hafa áhrif þótt dóttir kærenda afsali eigninni aftur til kærenda enda breyti það því ekki að hin upphaflega ráðstöfun hafi fallið undir e-lið 2. mgr. 6. gr.

Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að á fasteign kæranda A við C götu hvíli handhafaskuldabréf að fjárhæð 40.000.000 króna, útgefið 1. apríl 2010. Í fyrrnefndu bréfi embættisins til kærenda hafi þess verið óskað að þau veittu upplýsingar um tilkomu skuldabréfsins, hver væri skuldari, hver væri handhafi, hver staða bréfsins væri og loks að þau framvísuðu gögnum þessu til stuðnings. Á fundi með kærendum 24. apríl 2012 hafi komið fram að um væri að ræða svokallaðan „veðtappa“ sem kærendur hafi sjálf látið þinglýsa á eignina til að reyna að forða fjárnámum. Þá hafi komið fram í rökstuðningi kærenda að á þeim tíma er gripið hafi verið til ráðstafana hafði héraðsdómur synjað þeim um greiðsluskjól og því hafi lítið annað verið fram undan hjá þeim en að bíða gjaldþrotaskipta. Á þessum tíma hafi þau ekki verið tilbúin til að játa sig sigruð og því hafi þau brugðið á það ráð að láta þinglýsa veðskuldabréfi á fasteign sína í þeim tilgangi að kaupa meiri tíma til að endurskipuleggja fjármál sín enda hafi þeim þá verið orðið ljóst að allt þeirra ævistarf hafi verið í uppnámi.

Umboðsmaður skuldara telur gjörning þennan ámælisverðan í ljósi þess að með honum hafi kærendur skert möguleika kröfuhafa til að ganga að fasteigninni vegna ógreiddra krafna. En mat embættisins hafi ekki verið hreint huglægt mat. Megi því til stuðnings vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 33/2001 þar sem staðfest hafi verið að handhafaskuldabréf hafi verið gefið út til málamynda og því gæti handhafi þess ekki gert ráð fyrir að fá úthlutun af söluverði hinnar veðsettu eignar. Einnig bendi umboðsmaður á að í ljósi þess að engin krafa standi að baki skuldabréfinu sé ljóst að um málamyndagerning sé að ræða. Með því að þinglýsa handhafaskuldabréfi á eignina í þeim tilgangi að hindra að kröfuhafar gætu öðlast fullnustu krafna sinna hafi kærendur framið refsiverða háttsemi í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Háttsemin teljist skilasvik og liggi við henni allt að sex ára fangelsi. Skýrt skuli þó tekið fram að í þessu mati umboðsmanns felist ekki niðurstaða um hvort kærendur hafi gerst sek um refsiverða háttsemi enda þótt lýsing kærenda á atvikum samsvari lýsingu á refsiverðri háttsemi.

Að því er varðar athugasemdir kærenda vegna þeirra lána sem þau hafi stofnað til árið 2007, annars vegar láns að fjárhæð 15.000.000 króna og hins vegar láns að fjárhæð 14.900.000 krónur eða alls lána að fjárhæð 29.900.000 krónur, telji umboðsmaður rétt að benda á að kærandi B hafi verið skuldari lánanna og því verði ekki gengið út frá öðru en að kærendum hafi verið ætlað að standa undir afborgunum af þeim. Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán voru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.

Lykilatriði við matið samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. sé, í tilviki kærenda, greiðslugeta þeirra þegar til skuldanna hafi verið stofnað. Greiðslugetan hafi ekki verið nægileg til að standa undir afborgunum af þeim. Í þessu samhengi skipti ekki öllu máli þótt eignir kærenda hafi ekki verið mikið veðsettar þegar til skuldbindinganna hafi verið stofnað enda hafi áhættan fyrst og fremst falist í því að kærendur gætu ekki staðið undir afborgunum. Kærendur hafi greint frá því að greiðslugeta kæranda B hafi verið lægri um það leyti sem kærendur hafi tekið lánin en þau hafi treyst því að hún myndi aukast aftur. Að mati umboðsmanns bendi þetta ekki til þess að áhættan af stofnun skuldbindinganna hafi verið minni en rakið sé í ákvörðun embættisins.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. komi fram að ef þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Með vísan til þess sem komið hefur fram er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og e-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi synjun umboðsmanns skuldara og úrskurði að embættinu sé skylt að samþykkja beiðni þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c- og e-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til atriða sem talin eru upp í töluliðum a–g. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kærenda eftirfarandi árin 2006 til 2010 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 142.226 366.897 186.481 229.296 386.918
Eignir alls 62.826.031 24.031.973 74.055.787 64.553.329 78.825.865
· Sumarbústaðalóð 539.000 646.000 581.000    
· F gata nr. 8 21.710.000       21.570.000
· C gata nr. 13 16.350.000 21.820.000 67.570.000 63.800.000 56.000.000
· G gata nr. 6 23.920.000        
· Ökutæki 230.000 212.000 210.800 251.220 196.098
· Hrein eign skv. efnahagsreikn.   1.228.973 5.274.334    
· Hlutir í félögum 77.031 125.000 125.000 125.000 125.000
· Bankainnstæður     294.653 377.109 934.767
Skuldir 15.070.303 24.503.893 46.630.314 60.413.240 76.717.200
Nettóeignastaða 47.755.728 -471.920 27.425.473 4.140.089 2.108.665

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Trygging Staða Vanskil
      fjárhæð   2011 frá
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2003 Veðskuldabréf 9.500.000 F gata nr. 8 17.786.527 2009
Arion banki 2005 Veðskuldabréf 11.307.043 C gata nr. 13 13.389.617 2010
Arion banki 2007 Veðskuldabréf 14.900.000 F gata nr. 8 25.902.067 2009
Arion banki 2007 Veðskuldabréf 15.000.000 C gata nr. 13 20.331.653 2010
Arion banki 2009 Yfirdráttur     2.344.590 2009
Arion banki 2010 Yfirdráttur     1.190.771 2010
Arion banki 2011 Greiðslukort     565.225 2011
Arion banki 2011 Greiðslukort     80.162 2011
Alls 50.707.043 81.590.612

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. grundvallast öll á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Á meðal þeirra eru b-, c- og e-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Á árinu 2007 tókust kærendur á hendur nýjar skuldbindingar að fjárhæð 29.900.000 krónur. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu var mánaðarleg greiðslubyrði hinna nýju skuldbindinga að meðaltali um 231.000 krónur sé miðað við fyrstu afborgun hvors láns um sig. Meðal greiðslubyrði eldri skulda þeirra var á sama tíma um 154.000 krónur á mánuði. Alls var greiðslubyrðin því að meðaltali um 385.000 krónur á mánuði á sama tíma og ráðstöfunartekjur kærenda voru að meðaltali rúmar 366.000 krónur á mánuði. Má af þessu ráða að kærendur voru greinilega ófær um að standa við hinar nýju skuldbindingar þegar þau stofnuðu til þeirra. Skiptir þá ekki máli hverjar væntingar þeirra voru um auknar tekjur á næstu árum. Ekki verður heldur séð af fyrirliggjandi skattframtölum að eignastaða kærenda á árinu 2007 hafi gefið þeim tilefni til að ætla að þau gætu staðið undir hinum nýju skuldum. Af þessu leiðir að hér verður ekki talið skipta máli þótt kærendur telji að þau hafi tekið þessi lán til að halda tekjum og eignum eða að forsendur hafi brostið þar sem ekki hafi gengið eftir að flytja tímabundna veðskuld af fasteign þeirra í F götu á byggingalóðina við E götu, eins og þau lýsa. Telur kærunefndin því að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í málinu liggur fyrir að kærendur gáfu út handhafaskuldabréf að fjárhæð 40.000.000 króna 1. apríl 2010 og létu þinglýsa því á fasteign sína að C götu nr. 13. Í máli kærenda hefur komið fram að um málamyndagerning var að ræða; engin krafa var að baki skuldabréfinu heldur var því ætlað að koma í veg fyrir að unnt væri að ganga að fasteigninni. Leiddi þessi ráðstöfun til þess að eignir kærenda voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eins og ella hefði orðið. Er það mat kærunefndarinnar að með þessari ráðstöfun hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt þar sem þau skertu með henni rétt kröfuhafa með ótilhlýðilegum og ámælisverðum hætti. Þannig hafi kærendur sýnt af sér háttsemi sem falli undir c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í málatilbúnaði kærenda fyrir kærunefndinni kemur fram að þau séu reiðubúin til að aflýsa handhafaskuldabréfinu af eigninni standi það í vegi fyrir að fallist verði á beiðni þeirra um greiðsluaðlögun og aflýsing þess leiddi til þess að þau fengju samþykki kærunefndarinnar til að leita samninga við kröfuhafa á grundvelli reglna um greiðsluaðlögun. Eins og þegar hefur komið fram er það ekki á færi kærunefndarinnar að veita heimild til greiðsluaðlögunar og kemur þetta atriði því þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar fyrir kærunefndinni.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla gþl. Varða þau sjónarmið sem þar eru að baki jafnræði kröfuhafa en eitt af þeim skilyrðum sem eru fyrir riftun er að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi (hér kröfuhöfum kærenda) til tjóns.

Að því er varðar mál þetta kemur 131. gr. gþl. til skoðunar, en hún varðar gjafagerninga. Riftunar má krefjast á ráðstöfunum sem gerðar voru allt að 24 mánuðum fyrir frestdag þegar um er að ræða menn nákomna skuldaranum. Í þessu tilviki verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram.

Almennt er frjálst að gefa verðmæti í sinni eigu. Löggjafinn hefur þó sett því takmarkanir þegar gjöf er að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Ein þessara takmarkana er 131. gr. gþl. Meðal þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt til að ráðstöfun sé riftanleg er að gjöfin skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Einnig skiptir máli á hvaða tíma ráðstöfunin er gerð og er þá einkum miðað við gjaldfærni skuldarans á þeim tíma er verðmæti er afhent.

Í máli þessu liggur fyrir að kærendur afsöluðu dóttur sinni sumarbústaðalóð 21. apríl 2009 en kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. janúar 2011. Afsalið fór því fram rúmum 20 mánuðum áður en kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar. Fyrir liggur að ekkert endurgjald kom fyrir lóðina enda var afsal hennar sett fram sem fyrirframgreiðsla arfs. Fasteignamat lóðarinnar var 581.000 krónur í árslok 2008 en verðmat var ekki gert. Sé litið til gagna málsins hefur ekki verið leitt í ljós að kærendur hafi verið ógjaldfær á þeim tíma er afsalið fór fram, þ.e. að eignir þeirra hrykkju ekki fyrir skuldum. Með vísan til þess telur kærunefndin að ráðstöfun lóðarinnar falli ekki undir e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Er þá, auk þess sem að framan er rakið, horft til þess tíma er leið frá afsali lóðarinnar og þar til kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að kærendur hafi tekið lán á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og einnig hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Því telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum