Hoppa yfir valmynd
12. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 91/2012

Fimmtudaginn 12. júní 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 29. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. júní 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 8. júní 2012 þar sem henni var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Erindið var ítrekað með bréfi 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1962. Hún býr tímabundið í Rúmeníu ásamt eiginmanni sínum en er með lögheimili að B götu nr. 49 í sveitarfélaginu C. Samkvæmt gögnum málsins starfar kærandi í Rúmeníu og eru tekjur hennar að meðaltali 183.551 króna.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ábyrgðarskuldbindinga, offjárfestingar og tekjulækkunar. Á árinu 2010 hafi kærandi og eiginmaður hennar selt íbúð sína og hafið byggingu á fasteigninni að B götu nr.  49 í sveitarfélaginu C. Lán vegna fasteignarinnar hafi hækkað umtalsvert en verðmæti eignarinnar minnkað. Þær ábyrgðarskuldbindingar sem kærandi hafi tekist á hendur séu tilkomnar vegna rekstrar fyrirtækjanna X ehf. og Y ehf. Kærandi hafi átt hluti í X ehf. en gengist í samningsábyrgðir fyrir Y ehf. án þess að eiga hlut í félaginu en félagið hefði ekki getað aflað rekstrarlána nema hún gengist í ábyrgð fyrir þeim.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 146.106.285 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003–2007. Þá hefur kærandi gengist í ábyrgð fyrir skuldbindingar annarra samtals að fjárhæð 160.082.654 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 7. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. maí 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.  

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi mótmælir ákvörðun umboðsmanns skuldara á þeim forsendum að það sé ekki á valdi kæranda að útvega ársreikninga tiltekinna félaga sem umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir. Þó kærandi hafi setið í stjórn þeirra félaga sem um ræði hafi hún engan lagalegan rétt til þess að krefjast þessara upplýsinga frá þriðja aðila, sem sé sjálfstæður lögaðili. Það megi því segja að fyrirfram hafi verið ljóst að kærandi hefði aldrei getað útvegað þær upplýsingar sem umboðsmaður hafi farið fram á. Einnig sé óljóst hvað upplýsingunum hafi verið ætlað að varpa ljósi á. Kærandi bendir á að gerð sé krafa um að hún útvegi ársreikninga þriggja félaga, Z ehf., X ehf. og Y ehf. Samkvæmt ársreikningaskrá á vef RSK heiti félagið Z ehf. nú V ehf. en félagið hafi ekki skilað ársreikningum frá árinu 2004. Ársreikningi X ehf. hafi síðast verið skilað árið 2007 og sömu sögu sé að segja um Y ehf. Hefði umboðsmaður skuldara sinnt rannsóknarskyldu sinni hefði þannig mátt vera ljóst frá upphafi að kærandi hefði aldrei getað útvegað þær upplýsingar sem farið var fram á. Þó hafi verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess af hennar hálfu á þeim stutta tíma sem gefinn hafi verið.

Varðandi þær ábyrgðarskuldbindingar sem tíundaðar séu í rökstuðningi umboðsmanns skuldara segir kærandi það hafa verið algengt að bankar og lánastofnanir krefðust þess að allir stjórnendur (eigendur) gengju í ábyrgð vegna fyrirgreiðslu til fyrirtækja. Þá hafi gjarnan verið um „solidaríska“ ábyrgð þeirra allra að ræða. Nær allir aðilar sama máls hafi fengið niðurfellingu krafna á hendur sér gegn greiðslu mjög lítils hluta. Auk þessa verði að taka tillit til þess að verði kæranda gert að greiða þessar ábyrgðir eigi hún endurkröfurétt á aðra ábyrgðaraðila sömu krafna.

Segir kærandi það vera eðlilegan hluta af ferli greiðsluaðlögunar að skuldara sé í það minnsta leyft að hefja viðræður við kröfuhafa með aðstoð umsjónarmanns. Ekkert sé hægt að fullyrða um þessar kröfur án þess að slíkar viðræður fari fram. Það sé því í hæsta máta óeðlilegt að umboðsmaður skuldara hafni umsókn kæranda vegna þess að hún geti ekki útvegað upplýsingar sem á engan hátt varpi ljósi á fjárhag hennar í nútíð eða framtíð og henni sé ómögulegt að útvega.

Umboðsmaður skuldara hafi áður hafnað umsókn kæranda á forsendum sem ekki hafi átt við rök að styðjast. Sú ákvörðun hafi verið dregin til baka og ný samhljóða ákvörðun tekin á öðrum forsendum. Ætla megi að umboðsmaður skuldara hafi fyrirfram ákveðið að hafna umsókn hennar og verði það að teljast óásættanleg vinnubrögð.

Auk þessa virðist gæta mikillar ónákvæmni í fullyrðingum umboðsmanns skuldara. Í rökstuðningi fyrir nýjustu ákvörðun hans sé til dæmis fullyrt að kærandi og eiginmaður hennar hafi selt íbúð sína og byrjað að byggja í B götu árið 2010. Hið rétta sé að hafist hafi verið handa við að byggja það hús árið 2001. Verði að telja slík vinnubrögð ámælisverð.

Að lokum bendir kærandi á að hún hafi lagt fram umsókn sína 7. janúar 2011. Á annað ár hafi tekið að fá hana afgreidda sem valdið hafi kæranda mikilli óvissu um framtíð sína. Umboðsmaður skuldara hafi ekki á nokkurn hátt útskýrt hvað umbeðnar upplýsingar eigi að skýra og hvort hægt sé að varpa ljósi á þau atriði á annan máta. Einnig verði að teljast ósanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hún geti á einhvern hátt ráðskast með aðra aðila til þess að útvega upplýsingar sem virðast á engan máta varpa ljósi á fjárhag hennar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segir að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tillit til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Fram komi í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. að umboðsmanni skuldara sé skylt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 101/2010 komi fram að ákvæðið sé samhljóða 1. tölul 1. mgr. 63. gr. d X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, en þar sé þó gert ráð fyrir því að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning. Í frumvarpinu sé hins vegar kveðið á um skyldu til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar og að mikilvægt sé að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Þá sé tekið fram að einungis sé um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum sé unnt að afla eða gefa. Í frumvarpinu sé það áréttað að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Túlkun þessi hafi verið staðfest af kærunefnd greiðsluaðlögunarmála með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 5/2011.

Kæranda hafi verið sent bréf í ábyrgðarpósti 15. mars 2012 þar sem henni hafi verið gefinn kostur á að leggja fram gögn ásamt því að gefa skýringar á atriðum sem mikilvægt sé að skýra til þess að unnt sé að leggja mat á það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði lge. til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kæranda hafi verið veittur 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til þess að leggja fram gögn og skýringar. Hinn 30. mars 2012 hafi kærandi farið fram á það við umboðsmann skuldara að fá tveggja til þriggja mánaða frest til þess að leggja fram gögn og skýringar. Hafi kæranda verið veittur frestur til og með 16. apríl 2012 til þess að svara bréfinu. Þar sem engin svör hafi borist hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem henni hafi verið veittur lokafrestur til og með 25. apríl 2012 til þess að svara bréfinu. Umbeðin gögn og skýringar hafi ekki borist embættinu innan þess frests sem veittur var með tölvupóstinum.

Með vísan til þessa og til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 5/2011 taldi umboðsmaður skuldara sér skylt að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara við meðferð málsins hjá kærunefndinni er afstaða embættisins til þeirra athugasemda kæranda sem settar eru fram í kæru rakin. Segir þar að kærandi beini í fyrsta lagi athyglinni að tiltekinni víxlun upplýsinga í bréfi frá embættinu frá 15. mars 2012. Þannig virðist kennitala félagsins Z ehf. hafa víxlast á við kennitölu V ehf. Af gögnum málsins verði ráðið að kærandi hafi gengist í ábyrgðir fyrir bæði þessi félög um svipað leyti og virðist því hafa verið tilefni til að óska eftir gögnum um þau bæði, þó svo að í bréfinu virðist aðeins óskað eftir gögnum um annað þeirra. Ekki verði séð að þessi víxlun í framsetningu geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda sé um atriði að ræða sem kærandi hafi haft rúman frest til þess að koma á framfæri eða óska nánari skýringa á áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærandi vísi til þess að umboðsmaður skuldara hefði í krafti rannsóknarskyldu sinnar átt að vita fyrirfram um hugsanlegan ómöguleika við öflun ganga. Ekki sé unnt að fallast á það, enda sé það reynsla embættisins að umsækjendur um greiðsluaðlögun geti skilað ársreikningum félaga sem þeir tengjast, jafnvel þó ársreikningum hafi ekki verið skilað til ársreikningaskrár við upphaf meðferðar málsins. Umboðsmaður skuldara hafi því ekki gefið sér það fyrirfram að ómögulegt væri fyrir kæranda að útvega þessi gögn. Ekki verði séð að í bréfi embættisins frá 15. mars 2012 hafi loku verið fyrir það skotið að kærandi gæti lagt fram önnur gögn en umrædda ársreikninga til þess að sýna fram á að atvik séu ekki með þeim hætti að b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. lge. sé gerð krafa um að síðustu fjögur skattframtöl umsækjanda fylgi umsókn um greiðsluaðlögun. Ekki hafi þótt fært að byggja á framtölum sem ríkisskattstjóri hefði hafnað og hafi því verið óskað eftir því að skattframtölum yrði skilað að nýju. Þar sem beiðni umboðsmanns skuldara í þeim efnum hafi ekki verið sinnt verði að telja að embættinu hafi verið skylt að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Varðandi mat á áhættunni sem fylgi því að gangast í ábyrgðir vísi kærandi til þess að hún hafi gengist undir „solidaríska“ ábyrgð ásamt öðrum. Kærandi vísi til þess að aðrir ábyrgðarmenn hafi fengið „niðurfellingu krafna á hendur sér gegn greiðslu mjög lítils hluta“. Umboðsmaður skuldara geti ekki við meðferð máls þessa metið á hvaða forsendum kröfuhafar kunni að hafa samþykkt slíka niðurfellingu enda verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en ábyrgðirnar séu að fullu virkar hvað kæranda varðar. Allar þær skuldbindingar sem kærandi hafi gengist í ábyrgðir fyrir séu í vanskilum og ekki að sjá að kærandi hafi tekið minni áhættu en efni þeirra gefi til kynna. Um sé að ræða sjálfskuldarábyrgðir, þar sem hver og einn ábyrgðarmaður ábyrgist greiðslu krafnanna í heild. Hafi ekki tekist samningar um niðurfellingu á ábyrgðum geti ábyrgðarmaður ekki gert ráð fyrir því að fá heimild til greiðsluaðlögunar í þeim tilgangi að knýja kröfuhafa til slíkra samninga þegar svo hátti til að óhæfilegt þyki að veita honum greiðsluaðlögun með vísan til þeirrar áhættu sem hann hafi tekið á sig með stofnun skuldbindinganna, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verði ekki séð að það skipti máli að kærandi kunni að eignast endurkröfurétt á hendur öðrum ábyrgðarmönnum. Í þessu máli hafi þó ekki komið til þess að áhætta samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. yrði metin enda hafi umsókninni verið synjað á þeim grundvelli að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki glögga mynd af fjárhag kæranda.

Í greinargerð kæranda segi að umboðsmaður skuldara hafi áður hafnað umsókn kæranda á forsendum ekki hafi átt við rök að styðjast. Um þetta atriði segir umboðsmaður skuldara að í fyrri ákvörðun embættisins frá 30. desember 2011 hafi synjun verið byggð á því að kærandi hafi ekki átt lögheimili á Íslandi og væri ekki búsett hér á landi. Við meðferð kæru hafi gögn verið lögð fram sem bent hafi til þess að kærandi væri þá búsett á Íslandi og hafi hún verið búin að flytja lögheimili sitt til Íslands. Því hafi ákvörðunin verið afturkölluð með sjálfstæðri ákvörðun, enda hafi verið talið að ný gögn hefðu verið lögð fram á síðari stigum sem réttlættu afturköllun ákvörðunarinnar. Ekki hafi verið um það að ræða að fyrri ákvörðun hefði verið byggð á röngum forsendum.

Þegar umsókn kæranda hafi verið tekin til meðferðar á ný hafi verið farið ítarlega yfir gögn málsins og í ljós hafi komið að nauðsynlegt væri að óska eftir frekari upplýsingum frá kæranda svo hægt væri að taka efnislega afstöðu til umsóknarinnar, og hafi þetta verið gert með bréfi 15. mars 2012. Frestur til að skila upplýsingum til embættisins hafi verið framlengdur tvisvar. Áður en fresturinn rann út hefðu hvorki umbeðnar upplýsingar borist né skýringar á því hvers vegna svo væri. Hafi því þótt ljóst að ekki væru skilyrði til að samþykkja umsókn kæranda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þannig verði að hafna fullyrðingum kæranda um að umboðsmaður skuldara hafi fyrirfram ákveðið að hafna umsókn kæranda.

Kærandi bendi réttilega á innsláttarvillu í ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem skrifað hafi verið 2001 í stað 2010. Ekki verði séð að þetta atriði geti valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Í bréfi embættisins frá 15. mars 2012 sé mjög ítarlega farið yfir hvaða upplýsinga sé óskað og í hvaða tilgangi. Meðal annars hafi verið óskað upplýsinga um tekjur kæranda og maka hennar, þar sem staðfest gögn um þær hafi ekki legið fyrir í málinu, auk annarra upplýsinga sem hafi þótt nauðsynlegar til að meta hvort atvik væru með þeim hætti sem lýst sé í 6. gr. lge. Þá hafi verið óskað eftir upplýsingum um það hvort kærandi hefði leigutekjur af fasteignum sínum á Íslandi. Af þeim gögnum og/eða upplýsingum sem óskað hafi verið eftir virðist kæranda hafa verið ómögulegt að skila einhverjum þeirra ársreikninga sem óskað var eftir, en þó ekki öllum, enda bendi kærandi sjálfur á að ársreikningar X ehf. og Y ehf. fyrir árið 2007 séu aðgengilegir hjá ársreikningaskrá. Ekki verði séð að þessi ómöguleiki geti réttlætt það að engum öðrum upplýsingum og/eða gögnum hafi verið skilað þrátt fyrir ítrekaðan frest til að skila inn gögnum.

Með hliðsjón af málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 18. gr. sömu laga, verði að telja að kæranda hafi verið veittur nægur frestur til að bregðast við beiðni umboðsmanns skuldara frá 15. mars 2012, þ.e. fimm vikur. Þar að auki hafi liðið tvær vikur frá því að fresturinn rann út þar til hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Miðað við þær upplýsingar og gögn sem legið hafi fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin verði ekki séð að nokkur grundvöllur hafi verið fyrir því að samþykkja umsókn kæranda. Engar upplýsingar og/eða gögn hafi komið fram á síðari stigum sem breytt geti forsendum hinnar kærðu ákvörðunar. Af þeim sökum fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðunin verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér um að ræða skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því vísað til þess að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsinga sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í lögunum að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir efni umsóknar um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 liðum um það sem koma skal fram í umsókninni. Upptalning 1. mgr. er ekki tæmandi, enda er gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu. Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Kæranda var sent bréf í ábyrgðarpósti 15. mars 2012 þar sem henni var gefinn kostur á að leggja fram gögn ásamt því að gefa skýringar á atriðum sem mikilvægt er að séu skýrð til þess að unnt sé að leggja mat á það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði lge. til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Til viðbótar við afrit af ársreikningum félaga sem kærandi hafði gengist í ábyrgðir fyrir var meðal annars óskað eftir skattframtölum kæranda fyrir árin 2006–2008 og/eða öðrum upplýsingum um tekjur kæranda á því tímabili, upplýsingum um fjárhag maka, þ.e. tekjur, eignir, skuldir, skattframtöl, upplýsingum um eigin atvinnurekstur, riftanlegar ráðstafanir og ábyrgðir. Þá var óskað eftir upplýsingum um leigutekjur kæranda af fasteignum hennar við B götu nr. 49 í sveitarfélaginu F og K götu nr. 8, upplýsingum um sölu bifreiðar kæranda til dóttur hennar, söluandvirði bifreiðarinnar og ráðstöfun þess, sem og skýringa á því hvers vegna skuldir vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda frá árunum 2006–2008 voru ekki greiddar á sama tíma og kærandi stofnaði til nýrra skulda með veðlánum, bifreiðakaupum og ábyrgðarskuldbindingum. Í bréfinu var skýrt tekið fram hvaða þýðingu upplýsingarnar gætu haft í málinu og var kæranda auk þess boðið að leggja fram hvaða önnur gögn sem sýnt gætu fram á að hún hefði ekki tekið fjárhagslega áhættu eða hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, sbr. ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge.

Kæranda var veittur ítrekaður frestur til þess að leggja fram gögn og skýringar en engar upplýsingar bárust frá henni. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni hefur kærandi hvorki gefið skýringar á því hvers vegna hún hefur ekki lagt fram umbeðin gögn né hefur kærandi bætt úr þessum ágalla á umsókn sinni. Ljóst er að það er ekki á færi annarra en kæranda að veita þær upplýsingar sem óskað var eftir og að þær eru nauðsynlegar til afgreiðslu umsóknar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Með vísan til alls þessa telur kærunefndin að fallast beri á það með umboðsmanni skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar og er ákvörðun umboðsmanns því staðfest með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.  

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum