Hoppa yfir valmynd
2. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 104/2012

Mánudaginn 2. júní 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. júní 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 14. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. júlí 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi sama dag og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1953 og 1956. Þau eru gift og búa í eigin 211,6 fermetra einbýlishúsi að D götu nr. 1 í sveitarfélaginu C.

Kærandi A er heimavinnandi. Kærandi B er byggingafræðingur að mennt en er atvinnulaus. Kærendur hafa fengið framfærslustyrk frá sveitarfélaginu C að fjárhæð 203.404 krónur á mánuði. Þau hafa ekki aðrar tekjur.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis. Hafi kærandi B unnið fyrir fyrirtæki sem borguðu honum með veðskuldabréfum. Hafi kærendur fengið lánafyrirgreiðslu út á þessi bréf. Vanskil hafi orðið á bréfunum og þess vegna hafi vanskil hrannast upp hjá kærendum. Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafi dregið úr verkefnum kæranda B og hafi hann að lokum orðið alveg án atvinnu. Að auki hafi hann ekki fengið greitt fyrir verkefni sem hann hafði þegar unnið.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 71.410.076 krónur. Innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), falla skuldir að fjárhæð 61.981.071 króna en utan samnings falla skuldir að fjárhæð 9.429.005 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2005 og 2007 vegna fasteignakaupa og endurfjármögnunar á húsnæðisláni.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru 8.046.025 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 26. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. maí 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ógildi ákvörðun umboðsmanns skuldara og heimili þeim greiðsluaðlögun.

Að mati kærenda er ákvörðun umboðsmanns skuldara byggð á vafasömum hugleiðingum. Staða kæranda A sé látin ráða úrslitum um niðurstöðu í máli kæranda B án röksemda.

Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar sé vísað til þess að X ehf., sem kærandi A sé í forsvari fyrir, standi í skuld við ríkissjóð vegna ógreiddrar staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Báðum kærendum sé synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þótt kærandi B sé ekki með neina stöðu í nefndu félagi. Ekki sé heldur litið til þess að félagið hafi unnið að gerð samkomulags við tollstjórann í Reykjavík um greiðslu umræddra skattskulda. Þess vegna reyni ekki á ábyrgð kæranda A vegna skattskuldanna og því eigi ekki að synja báðum kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Í ákvörðun umboðsmanns komi fram að samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé að finna heimild til að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef stofnað hefur verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindinga sínar. Í c-lið 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Á þessum grundvelli taki umboðsmaður skuldara fram að kærendur hafi skuldbreytt húsnæðislánum sínum í júní 2007. Hafi skuldbreytingin verið gerð með nýju láni að fjárhæð 25.000.000 króna í erlendri mynt en samkvæmt skattframtölum hafi kærandi A verið launalaus árið 2007 og ráðstöfunartekjur kæranda B 40.830 krónur á mánuði það ár. Á þessum grundvelli gefi umboðsmaður skuldara í skyn að kærendur hafi farið óvarlega í fjármálum án þess að kanna málið nánar. Rétt sé að fram komi þær staðreyndir að á umræddum tíma hafi kærendur átt 4.500.000 krónur í reiðufé og bifreið sem metin hafi verið á um 10.000.000 króna. Þau hafi því verið vel í stakk búin til að greiða af skuldum sínum. Hugleiðingar umboðsmanns skuldara um annað séu fjarstæðukenndar.

Umboðsmaður rökstyðji einnig ákvörðun sína með því að tiltaka tvær kröfur frá árinu 2000. Þessar kröfur séu í fyrsta lagi fyrndar samkvæmt almennum fyrningarreglum og lögum og í öðru lagi hafi verið um að ræða umdeildar kröfur sem kærandi B hafi gert athugasemdir við og ágreiningur hafi verið um. Almennt sé veruleikinn sá að fólk greiði ekki skuldir ef ágreiningur sé um réttmæti þeirra.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í gögnum málsins komi fram að kærendur hafi skuldbreytt húsnæðislánum sínum í júní 2007. Skuldbreytingin hafi verið gerð með nýju láni að fjárhæð 25.000.000 króna í erlendri mynt. Samkvæmt skattframtölum hafi kærandi A verið launalaus árið 2007 og mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda B hafi verið 40.830 krónur. Því sé ljóst að á þeim tíma er kærendur hafi tekið lánið hafi þau greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Þessu til stuðnings vísi embættið einnig til þess að kærendur hafi á þeim tíma verið í vanskilum með símreikninga frá árinu 2000 og vanskil á láni frá SJ Eignarhaldsfélagi ehf. hafi staðið síðan í febrúar 2000.

Kærendur telji kröfur frá árinu 2000 sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun fyrndar. Umboðsmaður telji það ekki eiga við um kröfu SJ Eignarhaldsfélags ehf. sem byggist á skuldabréfi. Um afborganir sé að ræða og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu yngstu vanskilin frá janúar 2006. Kröfur samkvæmt skuldabréfi fyrnist á tíu árum, sbr. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, en þau lög gildi um kröfurnar. Fyrningu hafi verið slitið með fjárnámi í janúar 2005 og munu þær kröfur sem falli undir fjárnámsgerðina fyrnast í fyrsta lagi í janúar 2015. Yngri vanskil fyrnist síðan tíu árum eftir gjalddaga og munu því nýjustu vanskilin samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fyrnast í fyrsta lagi í janúar 2016. Ákvörðun verði heldur ekki byggð á því að krafan sé umdeild enda hafi engar skýringar verið gefnar á því hvers vegna hún ætti að vera umdeild né lögð fram gögn sem styðji þá staðhæfingu. Vegna þessa verði þó að hafa í huga að ekki skipti máli hvort umræddar kröfur séu nú fyrndar enda hafi ákvörðun umboðsmanns skuldara miðað við fjárhag kærenda þegar þau hafi stofnað til frekari skuldbindinga á árinu 2007. Af úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011 verði ráðið að við mat samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. sé miðað við hátterni og stöðu skuldara á þeim tíma er til skuldanna hafi verið stofnað. Því verði ekki séð að meint fyrning krafnanna hafi áhrif á þennan þátt hins heildstæða mats samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við geti girt fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Þessi skilningur hafi verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 en þar hafi kærunefndin vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 geti meðal annars verið lögð refsing við því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti eða afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sé kærandi A stjórnarmaður og prókúruhafi í X ehf. Á grundvelli 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 beri hún stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu vörsluskatta og annarra opinberra gjalda.

Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra hvíli á X ehf. skuldir vegna vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu. Virðisaukaskattskuldin byggist á álagningu og nemi 2.211.175 krónum, þar af sé höfuðstóll 1.643.326 krónur. Ógreidd staðgreiðsla sé að fjárhæð 548.534 krónur en þar af sé höfuðstóll 490.000 krónur. Byggist þessi skuld einnig á álagningu.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið tilkynnt um hugsanlega synjun umsóknar um greiðsluaðlögun á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vegna nefndra skattskulda. Hafi skuldirnar þá numið 10.126.968 krónum en þar af hafi 7.998.561 króna verið vegna virðisaukaskatts. Skorað hafi verið á kærendur að fara fram á það við ríkisskattstjóra að álagning yrði leiðrétt og hafi þau gert það. Þrátt fyrir leiðréttinguna nemi skuldir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu 2.759.709 krónum en höfuðstóll skuldanna sé 2.133.236 krónur.

Hvað varði áhrif skulda félaga er kærendur séu í fyrirsvari fyrir og stofnað sé til með refsiverðri háttsemi megi vísa til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 59/2011. Þar sé staðfest að við mat samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. beri að líta til slíkra skulda. Fyrir liggi að félag sem kærandi A sé í fyrirsvari fyrir hafi ekki staðið í skilum með virðisaukaskatt og staðgreiðslu tryggingagjalds samtals að fjárhæð 2.759.709 krónur. Þessi fjárhæð sé í sjálfu sér nokkuð há og miðað við tekjur og eignastöðu kæranda A verði að telja d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eiga við í málinu.

Verði ekki komist hjá því að líta til ábyrgðar sem hvíli á kæranda A sem stjórnarmanns og prókúruhafa X ehf. til að standa skil á umræddum sköttum og þeim sektum sem hún gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða kærunefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem stofnað sé til skuldbindinga og ef ljóst þyki að skuldari hafi ekki getað staðið við skuldbindingarnar þegar til þeirra hafi verið stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Fullyrðingar kærenda um að þau hafi átt bifreið að verðmæti 10.000.000 króna auk 4.500.000 króna í reiðufé á árinu 2007 eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Af skattframtölum verði ráðið að tekjur kærenda hafi verið mjög lágar á þessum tíma. Umboðsmaður skuldara verði að miða við tekju- og eignastöðu kærenda samkvæmt skattframtölum og mat samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. verði almennt ekki byggt á öðrum upplýsingum. Að mati umboðsmanns hafi kærendur stofnað til skuldbindinga á árinu 2007 sem þau hafi ekki getað staðið undir samkvæmt þeim upplýsingum sem umboðsmanni skuldara beri að miða við. Ekki skipti máli hvort kærendur hafi staðið við skuldbindingar sínar þrátt fyrir lágar uppgefnar tekjur enda verði að telja útilokað fyrir umboðsmann að sannreyna fullyrðingar kærenda um tekjur eða eignir sem ekki hafi verið tilgreindar á skattframtölum. Þá yrði að telja samfélagslega óásættanlegt að það sé háð tilviljun eða eigin hagsmunum borgarans hverju sinni hvaða tekjur hann kveðist hafa eða hvaða eignir hann kveðst hafa átt og gefi þannig upp lægri tekjur við stjórnvald sem leggi á hann gjöld og skatta en hærri tekjur þegar það skipti máli varðandi ívilnandi úrræði hjá öðru stjórnvaldi, svo sem vegna þess mats sem fram fari samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. hjá umboðsmanni skuldara.

Við meðferð umsókna um greiðsluaðlögun þar sem hjón eða sambýlingar sæki um saman verði að meta fjárhag umsækjendanna heildstætt. Í slíkum tilvikum verði að telja ógerning að meta einstaklingana hvort í sínu lagi við ákvarðanatöku. Í máli þessu verði að hafa sérstaklega í huga að þeir þættir þess er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu hluti af heildstæðu mati og þeir þættir er varði b- og c-liði málsgreinarinnar hafi ekki síður haft vægi. Því sé ekki hægt að fullyrða að kærandanum B hafi eingöngu verið synjað vegna skuldar félags sem hann hafi ekki verið í fyrirsvari fyrir og beri enga lagalega ábyrgð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ógildi ákvörðun umboðsmanns skuldara og heimili kærendum greiðsluaðlögun. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr. en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á sameiginlegri umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Kærendur telja að staða kæranda A sé látin ráða úrslitum um niðurstöðu í máli kæranda B án röksemda. Kærendur leituðu sameiginlega greiðsluaðlögunar, eins og þeim er heimilt að gera samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge., en virðast þrátt fyrir það telja að afgreiða eigi mál þeirra sérstaklega og óháð stöðu meðumsækjanda. Í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að heimildin til að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvors annars. Séu til að mynda horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti er slíkt heimilt. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem hjón og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda B kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda A nema hann leiti greiðsluaðlögunar sem einstaklingur.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b-, c- og d-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í lagaákvæðinu eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars á grundvelli þess ákvæðis.

Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til að því er varða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru vangoldnir vörsluskattar X ehf.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá er kærandi B varamaður í stjórn X ehf. og einnig prókúruhafi. Kærandi A er á hinn bóginn stjórnarmaður og prókúruhafi í félaginu. Enginn framkvæmdastjóri er skráður í félaginu. Samkvæmt því hvíldi á kæranda A sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda A sem fyrirsvarsmann X ehf.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Samkvæmt gögnum málsins er virðisaukaskattskuld X ehf. 2.211.175 krónur og vanskil á staðgreiðsluskatti 548.534 krónur. Alls nema því vörsluskattskuldir félagsins 2.759.709 krónum og byggjast samkvæmt gögnum málsins á álagningu. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi A bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samanlagðar tekjur kærenda nema samkvæmt gögnum málsins 203.404 krónum á mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er eignastaða kærenda neikvæð um ríflega 55.000.000 króna. Skuldir vegna ógreiddra vörsluskatta X ehf. nema alls 2.759.709 krónum sem telja verður allháa fjárhæð. Skuldir þessar eru 3,19% af heildarskuldum kærenda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi A hefur sem fyrirsvarsmaður X ehf. stofnað til þessara skulda með framangreindri háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag kærenda að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum