Hoppa yfir valmynd
13. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 67/2012

Fimmtudaginn 13. mars 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 13. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. febrúar 2012 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 21. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. apríl 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 9. maí 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust kærunefndinni.

 

I. Málsatvik

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 20. júní 2011. Kærandi var þá giftur og hann á eina dóttur. Hann hefur búið ásamt fjölskyldu sinni í Noregi í fasteign sem er eign eiginkonu hans. Kærandi sækir einn um greiðsluaðlögun.

Kærandi starfar sem miðlari hjá X í Osló og kona hans starfar hjá T sem verkefnastjóri. Þau hafa búið í Noregi frá árinu 2003 en þá hóf kærandi meistaranám. Kærandi er skráður sem stjórnarmaður í þremur starfandi félögum, V ehf., Z ehf. og S ehf. Meðalráðstöfunartekjur kæranda eru 25.000 NOK eða um 356.000 krónur samkvæmt launaseðli.

Að mati kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hans til eigin fyrirtækjareksturs bæði á Íslandi og í Noregi. Reksturinn hafi gengið illa og mörg þessara fyrirtækja hafi orðið gjaldþrota. Kærandi lýsir því að hann hafi verið launalaus á árunum 2006 og 2007 vegna gjaldþrots eins af fyrirtækjum hans. Hann hafi safnað miklum skuldum í Noregi á þessum tíma. Kæranda hafi gengið illa að fá vinnu í Noregi og á árunum 2008 og 2009 hafi hann fengið lítil sem engin laun. Í ársbyrjun 2010 hafi fjárhagsstaða hans verið orðin mjög erfið og kveðst kærandi hafa þurft að leita til sveitarfélagsins eftir fjárhagsaðstoð.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 76.864.460 krónur og þar af falla 4.074.415 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru vegna námslána. Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru 102.760.096 krónur.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2012 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað með vísan til þess að hann uppfyllti ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Að sögn kæranda sé það ekki rétt að hann sé giftur. Kærandi hafi sent umboðsmanni skuldara tölvupóst 15. ágúst 2011 þar sem fram komi að hann sé að skilja og sé á leiðinni til Íslands. Það sé rangt sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns að hann hafi verið beðinn um að senda gögn sem styddu að hann væri að flytja til Íslands. Kærandi hafi verið að sækja um vinnu á Íslandi síðan í ágúst 2011 og ávallt hafi legið skýrt fyrir að hann myndi flytja aftur til Íslands um leið og vinna fengist. Kærandi hafi sótt um vinnu hjá fjölmörgum fyrirtækjum á Íslandi.

Að mati kæranda standist það ekki að synja umsókn hans þar sem hann sé að flytja til Íslands.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi flust búferlum til Noregs með breytingu á lögheimili 23. júní 2003. Í greinargerð kæranda með umsókn hans til greiðsluaðlögunar komi fram að kærandi og kona hans hafi bæði verið í vinnu í Noregi og eigi saman eina dóttur. Þau geri ráð fyrir að búa í Noregi í einhver ár til að grynnka á skuldum en eiginkona kæranda sé eigandi að fasteign í Noregi.

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.“

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn til frekari stuðnings því að búseta hans í Noregi sé tímabundin. Þá hafi ekki verið lögð fram gögn sem sýni fram á að kærandi ætli að sækja nám í Noregi og ekki virðist vera um tímabundna búsetu að ræða vegna veikinda eða læknismeðferðar. Þar sem 4. mgr. 2. gr. lge. sé undantekning frá meginreglunni verði að gera þær kröfur til kæranda að hann skýri með fullnægjandi hætti aðstæður tímabundinnar búsetu erlendis og leggi fram viðeigandi gögn því til stuðnings.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat umboðsmanns að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

Í viðbótargreinargerð umboðsmanns skuldara 30. apríl 2012 kemur fram að það hafi ekki áhrif á ákvörðun umboðsmanns skuldara að kærandi sé nú skilinn, þar sem ákvæði 3. mgr. 2. gr. lge. kveði á um að hjónum sé heimilt, en ekki skylt, að sækja saman um greiðsluaðlögun. Kærandi hafi sótt einn um greiðsluaðlögun og við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi eingöngu verið tekið mið af skuldum kæranda, en ekki skuldum þáverandi eiginkonu hans.

Varðandi fullyrðingar kæranda um að hann sé á leiðinni til Íslands og hafi í því skyni sótt um fjölda starfa hér á landi, tekur umboðsmaður skuldara fram að þessar fullyrðingar gangi þvert gegn því sem kærandi hafi haldið fram í greinargerð sinni með umsókn um greiðsluaðlögun. Þar komi fram að það muni taka kæranda fimm ár að ná tökum á skuldum sínum í Noregi. Kærandi hafi ekki lagt fram nein haldbær gögn til stuðnings því að hann sé að leið til Íslands. Frá því að kærandi flutti til Noregs árið 2003 hafi hann ýmist verið í námi, í vinnu eða atvinnulaus. Sé tekið tillit til afstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sé ómögulegt að líta svo á að kærandi sé tímabundið búsettur í Noregi.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi sé búsettur erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hans sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað.

Í máli þessu liggur fyrir að þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin var kærandi búsettur og átti lögheimili í Noregi. Samkvæmt athugun kærunefndar greiðsluaðlögunarmála flutti kærandi lögheimili sitt að B götu nr.6 í sveitarfélaginu C 1. febrúar 2014 og er nú búsettur hér á landi.

Endurskoðun æðra stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Breyttar aðstæður eftir að umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun kunna því eftir atvikum að vera tilefni til þess að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sé á annan veg en ákvörðun umboðsmanns skuldara. Í máli þessu er synjun í hinni kærðu ákvörðun byggð á því að búseta og lögheimili kæranda hafi ekki verið á Íslandi þegar ákvörðunin var tekin og kærandi hafði ekki sýnt fram á að undantekningar 4. mgr. 2. gr. lge. ættu við í máli hans. Fyrir liggur að kærandi er nú búsettur og er með lögheimili á Íslandi. Hann uppfyllir því skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge.

Í ljósi þess að kærandi er nú búsettur á Íslandi og hefur skráð lögheimili hér á landi, er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að fella beri úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um greiðsluaðlögun á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum