Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2012

Mánudaginn 20. janúar 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 14. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað. Í kæru var tekið fram að rökstuðningur og málsástæður yrðu sendar nefndinni „í næstu viku“.

Með bréfi 11. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. júlí 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 23. júlí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Boðuð greinargerð með kæru barst kærunefndinni loks 7. ágúst 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 47 ára, giftur og býr ásamt eiginkonu og tveimur börnum þeirra á fasteign eiginkonunnar að B götu nr. 7 í sveitarfélaginu C. Kærandi starfar sem sölufulltrúi fasteigna og kveðst mánaðarlega fá útborgaðar um 60.182 krónur. Hann fær einnig barnabætur að fjárhæð 11.929 krónur á mánuði. Samkvæmt því nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda að meðaltali 72.111 krónum.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til hruns á fasteignamarkaði í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Hann hafi starfað á fasteignamarkaði um nokkurt skeið og komið að rekstri þriggja félaga á þeim markaði en þau hafi öll verið úrskurðuð gjaldþrota. Þetta hafi haft mikil áhrif á heilsu kæranda og hann hafi ekki getað tekist á við þessar breyttu aðstæður. Hann hafi nýlega hafði störf aftur og nú hjá X fasteignasölu.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 31.765.911 krónur og falla þar af 31.715.911 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga sinna á árinu 2008. Einnig hefur kærandi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 101.299.411 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 5. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Jafnframt er þess krafist að kærandi fái greiddan málskostnað samkvæmt mati kærunefndarinnar.

Að mati kæranda byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara annars vegar á huglægri afstöðu umboðsmanns skuldara til þess hvað teljist að fara offari í skuldsetningu og hins vegar á hugsanlegri ábyrgð á hugsanlegum brotum tiltekinna einkahlutafélaga.

Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 hafi verið sett til að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft væri að skuldari gæti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð. Kærandi eigi í verulegum greiðsluerfiðleikum.

Horfa verði til þess hvernig skuldir kæranda hafi orðið til. Hann hafi verið nokkuð umsvifamikill í fasteignasölu á árunum fyrir hrun. Um tíma hafi þau fyrirtæki sem kærandi kom að haft um 30 starfsmenn í vinnu. Til þess að umboðsmaður skuldara hefði íhugað að veita honum greiðsluaðlögun hefði hann þurft að taka ákvörðun um að hætta rekstri og segja öllum 30 starfsmönnum sínum upp. Á þeim tíma sem kærandi hafi staðið frammi fyrir þeirri ákvörðun hafi það verið mat hans, þeirra fjármálastofnana sem fyrirtæki hans hafi verið í viðskiptum við, stjórnvalda og almennt allra, að best væri að berjast til þrautar. Það hafi kærandi einmitt gert. Á þessum tíma hafi ekki verið búið að setja lög um greiðsluaðlögun.

Í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga felist að þegar stjórnvald taki matskennda ákvörðun sé í fyrsta lagi gerð krafa um að efni ákvörðunar sé til þess fallið að ná því markmiði sem stefnt sé að en í þessu tilviki sé markmiðið að laga greiðslubyrði kæranda að greiðslugetu hans. Í öðru lagi skuli velja vægasta úrræðið sem völ sé á og í þriðja lagi sé gerð krafa um hóf í beitingu þess úrræðis sem fyrir valinu verði.

Vandséð sé hvernig embætti umboðsmanns skuldara teljist hafa gætt hófs við beitingu lge. í máli þessu enda byggi ákvörðunin algerlega á huglægu mati sem fram fari nokkrum árum eftir á og í ljósi nýrra upplýsinga um stöðu málsins. Kærandi hefði eflaust ekki tekið sömu ákvarðanir hefði hann vitað það sem nú liggi fyrir í málinu. Hann hafi þó ekki vitað betur en aðrir í hvað stefndi.

Þær skuldbindingar sem kærandi hafi undirgengist á árunum 2008 og 2009 hafi ekki allar verið nýjar skuldbindingar líkt og umboðsmaður skuldara láti í veðri vaka. Þvert á móti hafi hann í allnokkrum tilvikum verið að skuldbreyta og endurskipuleggja.

Til þess sé einnig að líta að fjöldinn allur af stórum fyrirtækjum hafi fengið verulegar afskriftir hjá fjármálafyrirtækjum án þess að nokkur einstaklingur sem komið hafi að rekstri þeirra hafi verið gerður gjaldþrota eins og umboðsmaður skuldara sé raunverulega að fara fram á gagnvart kæranda. Þá telji kærandi að það þarfnist mun betri rökstuðnings en umboðsmaður hafi fært fram að velja kæranda einan úr og halda því fram að hann hafi tekið óábyrgar og ámælisverðar fjármálalegar ákvarðanir.

Kærandi kveður það rétt að fyrirtæki sín hafi orðið gjaldþrota og látið hjá líða að skila skattframtölum og ársreikningum undir lokin. En það sé einmitt ástæða þess að kærandi sé í núverandi vanda. Það sé nánast regla en ekki undantekning að þau félög sem verði gjaldþrota hafi ekki staðið skil á nýjustu skattframtölum og ársreikningum. Kærandi fullyrðir að ekki sé um að ræða neinar ógreiddar opinberar skuldir sem hann beri ábyrgð á.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar 5. júlí 2012 kemur fram að kæranda hafi verið synjað um heimild til greiðsluaðlögunar 31. janúar 2012. Í 4. mgr. 7. gr. lge. komi fram að skuldari geti kært synjun umboðsmanns skuldara innan tveggja vikna frá því að honum berist tilkynning um ákvörðun umboðsmanns. Umboðsmaður kæranda hafi sent kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæru 14. febrúar 2012 en þar komi fram að hann kæri ákvörðun umboðsmanns skuldara sem honum hafi verið send með ábyrgðarbréfi 31. janúar 2012. Einnig komi þar fram að rökstuðningur og málsástæður verði sendar kærunefndinni í næstu viku. Nú séu liðnir fjórir og hálfur mánuður frá því að umboðsmaður kæranda boðaði framlagningu frekari gagna vegna kærunnar án þess að þau hafi borist. Verði að telja að umboðsmanni kæranda hafi verið gefinn meira en nægur tími til að leggja fram greinargerð í málinu. Því hafi umboðsmaður skuldara tekið ákvörðun um að ekki væri rétt að bíða lengur með greinargerð sína til kærunefndarinnar.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. sé það tekið fram að ástæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Kærandi hafi gegnt stöðu stjórnarformanns í Fasteignasölunni Y ehf. og stöðu meðstjórnanda í Z ehf. en í málinu liggi fyrir að töluverðar virðisaukaskattskuldir hvíli á félögunum. Af gögnum frá tollstjóra verði ráðið að Fasteignasalan Y ehf. skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 1.932.900 krónur og sé fjárhæðin byggð á þeim virðisaukaskattskýrslum sem félagið hafi sjálft lagt fram. Z ehf. skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 885.620 krónur en sú fjárhæð sé byggð á áætlunum skattyfirvalda. Samanlagt nemi virðisaukaskattskuldir félaganna 2.818.520 krónum. Sé einungis miðað við þær skuldir sem byggi á álagningu nemi þær 1.932.900 krónum. Hafi kærandi stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 vegna vanskila á umræddum sköttum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi skuldir kæranda 31.765.911 krónum. Eignir kæranda séu hlutir í framangreindum félögum að fjárhæð 833.350 krónur en félögin hafi öll verið úrskurðuð gjaldþrota án þess að skiptum sé lokið. Samkvæmt því sé eignastaða kæranda neikvæð um 30.932.561 krónu. Ekki verði því séð að eignir kæranda séu slíkar að hinn vangreiddi virðisaukaskattur sé smávægilegur með hliðsjón af þeim.

Með tilliti til gagna málsins og þess sem að framan sé rakið sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju nái kröfur kæranda fram að ganga í málinu. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi stjórnarmaður og prókúruhafi Fasteignasölunnar Y ehf. en enginn framkvæmdastjóri var skráður í félaginu. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt gögnum málsins er vörsluskattskuld Fasteignasölunnar Y ehf. 1.932.900 krónur. Kærandi fullyrðir að ekki sé um neinar opinberar skuldir að ræða sem hann beri ábyrgð á. Kærandi hefur hvorki stutt þessa fullyrðingu sína rökum né gögnum og telur kærunefndin því ekki unnt að taka hana til greina.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu kæranda. Að mati kærunefndarinnar er kærandi eignalaus þar sem einu eignir hans eru hlutir í gjaldþrota einkahlutafélögum. Samkvæmt því er eignastaða hans neikvæð um ríflega 31.000.000 króna. Ráðstöfunartekjur kæranda samkvæmt launaseðlum sem hann hefur sjálfur vísað fram eru 60.182 krónur en að auki fær hann barnabætur sem nema að meðaltali 11.929 krónum á mánuði. Ráðstöfunartekjur hans eru því að meðaltali 72.111 krónur á mánuði. Skuldir sem til hafa orðið vegna háttsemi kæranda, þ.e. ógreiddir vörsluskattar Fasteignasölunnar Y ehf., nema alls 1.932.900 krónum sem telja verður allháa fjárhæð bæði í ljósi greiðslugetu og eignastöðu kæranda. Skuldir þessar nema 6% af heildarskuldum kæranda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan og verður almennt að telja slíka háttsemi þess valdandi að óhæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem kærandi hefur stofnað til sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins og falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. samkvæmt því sem að framan greinir séu svo verulegar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Ekki er fallist á að jafnræðis- eða meðalhófsregla hafi verið brotnar, eins og kærandi heldur fram, enda hefur kærunefndin staðfest sambærilegar ákvarðanir umboðsmanns skuldara í fjölmörgum málum. 

Kröfuna um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir hann gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálfur að bera þann kostnað sem hann kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum