Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2012

Mánudaginn 20. janúar 2014


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 9. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 20. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. mars 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. mars 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 38 ára og býr ásamt eiginkonu og þremur börnum í eigin 280 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 7 í sveitarfélaginu C. Hann er menntaður vélfræðingur, rafvirki og skipstjóri.

Kærandi starfaði síðast hjá félaginu X ehf. en það fyrirtæki stofnaði hann 2006 og rak upp frá því. Að sögn kæranda hefur félagið hætt starfsemi og kveðst hann ekki hafa greitt sér laun frá því í janúar 2011. Hann sé því tekjulaus.

Að mati kæranda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hans til almennra efnahagsþrenginga á alþjóðavísu sem hafi haft í för með sér hækkandi fjármagnskostnað og rýrnun eigna. Að sögn kæranda hafi hann verið nokkuð vel stæður fyrir efnahagshrunið 2008. Hann hafi farið geyst í fjárfestingum, fjárfest í fasteignum og fyrirtækjum, en hafi nú tapað mestu. Hann hafi tekið lán í erlendri mynt en lánin hafi þrefaldast á stuttum tíma. Nú sé svo komið að kærandi sjái sér ekki fært að standa við skuldbindingar sínar og við blasi ekki annað en gjaldþrot.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 123.390.256 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2009.

Samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara hefur kærandi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar samtals að fjárhæð 204.380.584 krónur. Vanskil eru 74.144.493 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 22. október 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst ekki hafa hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt. Umsvif hans hafi verið nokkur á árunum fyrir efnahagshrun. Hann hafi þá stofnað til fjárskuldbindinga sem hafi átt að leiða til nægra tekna til að geta staðið undir sér. Við hrunið hafi allar forsendur brostið, lán og aðrar skuldbindingar hafi hækkað og tekjur lækkað.

Að því er varði skattskuldir sé ljóst að kærandi sé ekki einn ábyrgur fyrir greiðslu þeirra. Í reynd hafi hvorki reynt á það hver beri ábyrgð á þessum skuldum né hvort greiðsla fáist upp í þær við gjaldþrot viðkomandi félaga.

Framangreindan málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi þó að það komi ekki berum orðum fram í kæru.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt ákvæðinu þurfi skuldbinding sem stofnað hafi verið til með umræddri háttsemi að vera nokkuð stór hluti af heildarskuldbindingum skuldarans en við mat á heildarskuldbindingum sé einkum horft til fjárhags skuldarans, þ.e. tekna og eigna.

Samkvæmt hlutafélagaskrá 10. nóvember 2011 hafi kærandi verið skráður meðstjórnandi og framkvæmdastjóri Y ehf., stjórnarmaður og prókúruhafi Stalla ehf. og framkvæmdastjóri X ehf. Því hafi hvílt á honum sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skuli fyrirsvarsmaður félags hlutast til um að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að viðlögðum sektum eða refsingu, sbr. 1., 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Vörslusköttum, virðisaukaskattskýrslum og skilagreinum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila í samræmi við ákvæði framangreindra laga. Kærandi sé því ábyrgur fyrir skilum á umræddum sköttum og gögnum.

Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.

Á yfirlitum tollstjóra frá 8. og 10. nóvember 2011 komi fram að X ehf. hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 5.188.967 krónur vegna áranna 2010 og 2011. Þar af séu 3.631.295 krónur vegna álagningar á grundvelli gagna frá félaginu sjálfu en 1.631.379 krónur samkvæmt áætlun ríkisskattstjóra. Einnig komi þar fram að vangoldinn virðisaukaskattur vegna áranna 2010 og 2011 nemi samtals 11.597.494 krónum en þar af séu 2.362.532 krónur byggðar á álagningu og 9.234.962 krónur byggðar á áætlun. Alls byggist því skuld vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu að fjárhæð 5.993.827 krónur að öllu leyti á gögnum frá félaginu sjálfu. Skuld vegna vanskila á staðgreiðslu tryggingagjalds nemi 1.495.497 krónum og byggi sú fjárhæð að öllu leyti á gögnum frá félaginu sjálfu. Samanlagðar skuldir sem kærandi beri stöðu sinnar vegna ábyrgð á og tilkomnar séu vegna vanskila á vörslusköttum í starfsemi X ehf. nemi þannig 7.489.324 krónum.

Samkvæmt þessu séu vanskil kæranda á vörslusköttum mikil og vörsluskattskuldir sem hann beri ábyrgð á vegna þeirra þyki verulegar. Þá sé til þess að líta að eignastaða kæranda sé neikvæð, hann sé tekjulaus og þyki þannig ljóst að um skuld sé að ræða sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans.

Við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar á þessum grundvelli sé að mati umboðsmanns skuldara nauðsynlegt að líta til eldri úrlausna dómstóla í sambærilegum málum. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 447/2009 hafi rétturinn tekið til umfjöllunar ábyrgð framkvæmdastjóra og prókúruhafa einkahlutafélags á skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda. Háttaði svo til að ákærði í málinu hafði ekki komið nálægt bókhaldi félagsins. Hafði hann því enga vitneskju um vanskil á staðgreiðslu. Þrátt fyrir þetta hafi rétturinn talið að ákærði hafi tekið á sig þær skyldur sem á framkvæmdastjóra hvíli samkvæmt 2. mgr. 44. gr. hlutafélagalaga. Ein þeirra skyldna hafi verið að annast daglegan rekstur félagsins og þar með að sjá til þess að staðin væru skil á afdreginni staðgreiðslu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 hafi rétturinn meðal annars tekið til umfjöllunar 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Niðurstaða dómsins hafi verið sú að synja hefði átt skuldara um greiðsluaðlögun í öndverðu þar sem hann hafi skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðaði refsingu eða skaðabótaskyldu. Þótti virðisaukaskattskuld að fjárhæð 1.780.437 krónur sem numið hafi 8,3% af heildarskuldum skuldarans allhá miðað við fjárhag hans. Því bæri að synja skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011 hafi nefndin fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem umsækjandi, sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélags, hefði ekki staðið skil á vörslusköttum sem numið hafi 44% af heildarskuldum umsækjandans. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotalaganna hafi í framkvæmd verið skilið svo „að skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei“.

Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Á yfirliti tollstjóra vegna framangreindra félaga komi fram að vangoldin opinber gjöld séu eftirfarandi:

Félag Ár Tegund gjalda Fjárhæð kr.
Y ehf. 2007‒2011 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 8.994.279
    Fésekt ársreikningaskrár 251.840
    Vanskil alls: 9.246.119
Z ehf. 2008‒2011 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 1.084.997
    Fésekt ársreikningaskrár 251.840
    Vanskil alls: 1.336.837
X ehf. 2009‒2010 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 980.945
    Staðgreiðsla tryggingagjalds 1.495.497
    Aðflutningsgjöld í tolli 1.060.786
    Vanskil alls: 3.537.228

Vangoldin opinber gjöld, svo sem að ofan greinir, falli undir ákvæði g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 komi fram að slíkar kröfur séu „ýmist opinber gjöld eða greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar“.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé tekið fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þegar skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að heimilt sé að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Telja verði þá háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs almennt ámælisverða, enda um lögbrot að ræða sem varði refsingu. Enn fremur þyki ljóst að vangreiddir vörsluskattar og sektir sem tengist þeim séu skuldir sem séu þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Umboðsmaður vísi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Þar sé sérstaklega tiltekið að opinber gjöld, greiðsla í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar, sektir og endurkröfur ríkis vegna bóta sem greiddar séu vegna refsiverðrar háttsemi séu á meðal skulda sem falli undir lýsingu í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Af úrskurðinum verði einnig ráðið að það eigi ekki að ráða úrslitum um hvort skuldir falli innan samnings um greiðsluaðlögun hvort skuldirnar girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður rekur einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt þessu sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar þegar ráðist sé í samningaumleitanir um greiðsluaðlögun. Telja verði að almennt ríki nokkur óvissa um fjárhag þeirra aðila sem hafi sem forsvarsmenn einkahlutafélaga látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því að vanskil hefjist og þar til sök sé fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskila félags á vörslusköttum. Í flestum tilvikum bresti þá forsendur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi, ekki síst þegar skuldir vörsluskatta séu miklar. Slíkar sektir yrði skuldari að greiða að fullu en telja verði svigrúm innheimtumanna ríkissjóðs til að semja um þær fremur takmarkað.

Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið sem og til úrlausna dómstóla og úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála þyki óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag, sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Því verði ekki hjá því komist að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á d- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í g-lið 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarmaður í Y ehf., stjórnarmaður og prókúruhafi Stalla ehf. og framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á því tímabili sem hér skiptir máli. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem fyrirsvarsmann viðkomandi félaga.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um ríflega 96.000.000 króna. Skuldir sem kærandi er ábyrgur fyrir sem fyrirsvarsmaður vegna ógreiddra vörsluskatta X ehf. og byggjast á gögnum frá félaginu sjálfu nema alls 5.993.827 krónum sem út af fyrir sig verður að telja afar háa fjárhæð. Skuldir þessar eru 4,8% af heildarskuldum kæranda utan ábyrgðarskuldbindinga. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag kæranda að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum