Hoppa yfir valmynd
22. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 12/2013

Föstudagurinn 22. mars 2013

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 17. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi, 7. janúar 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 

I. Málsatvik

Þann 23. júlí 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda og þann 13. nóvember 2012 var frumvarp sent til kröfuhafa, sbr. 1. mgr. 17. gr. lge.

Andmæli bárust frá embætti tollstjóra þann 15. nóvember 2012. Lutu andmælin í fyrsta lagi að því að frumvarp skuldara uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 16. gr. lge. þar sem ekki hafði komið fram tillaga um hvernig fara skyldi með kröfur í samræmi við 3. og 21. gr. laganna. Ekki hafi komið fram hvernig kröfur utan greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 21. gr. lge., skyldu greiðast heldur einungis tiltekið að skuldari hefði ekki tök á því að greiða kröfurnar að svo stöddu. Þá lutu andmælin í öðru lagi að því að skuldir kæranda hefðu aukist verulega eftir að hún fór í greiðsluskjól þann 8. júní 2012. Ekki hafi verið staðið skil á álagningu þing- og sveitarsjóðsgjalda, gjaldfallinna launatengdra gjalda eða virðisaukaskatti og væri staða framangreindra gjalda 627.480 krónur.

Umsjónarmaður kallaði eftir gögnum frá tollstjóra og við nánari skoðun hafi komið í ljós gjaldfallin launatengd gjöld að fjárhæð 45.950 krónur og virðisaukaskattur sem var að fjárhæð 199.479 krónur, vangoldin opinber gjöld voru því samtals 245.429 krónur. Þá hafi ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld verið 384.005 krónur.

Umsjónarmaður upplýsti kæranda um framkomin mótmæli og að samningar myndu ekki takast í samræmi við IV. kafla lge. Lýsti kærandi því yfir við umsjónarmann að hún vildi leita nauðasamnings. Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 7. janúar 2013, ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.

 

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur fram að samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. lge. skuli skuldari, á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar, ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Fram komi í athugasemdum við ákvæðið að skuldari skuli ekki grípa til umfangsmikilla rástafana og víkja þar með augljóslega frá skyldum sínum með vísvitandi hætti. Slíkt geti leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður.

Þau ógreiddu þing- og sveitarsjóðsgjöld sem kærandi hafi stofnað til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt séu lögboðin gjöld sem lögð séu á einstaklinga ár hvert á nánar tilteknum gjalddögum. Um sé að ræða gjöld sem falla utan greiðsluaðlögunar og ber að greiða að fullu, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. og b-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Ljóst sé að einstaklingar sem sækja um greiðsluaðlögun geta engu ráðið um það hversu lengi umsókn þeirra sé til meðferðar hjá embætti umboðsmanns skuldara áður en hún er samþykkt, en eins og áður hefur komið fram féllu framangreind gjöld til eftir að umsókn skuldara var samþykkt af umboðsmanni skuldara þann 8. júní 2012. Með vísan til framangreinds og þess að um óverulega fjárhæð var að ræða miðað við heildarskuldir kæranda taldi umsjónarmaður að kærandi hafi ekki stofnað til nýrra skulda að því er þing- og sveitarsjóðsgjöld varðar.

Að því er ógreiddan virðisaukaskatt og tryggingagjald varðar, eftir að kærandi fékk samþykki um að leita heimildar til greiðsluaðlögunar og frestun greiðslna hófst þann 8. júní 2012, lúta að mati umsjónarmanns önnur sjónarmið. Framangreind gjöld séu að fjárhæð 245.429 krónur, af þeirri upphæð nemur ógreiddur virðisaukaskattur 199.479 krónum sem falli utan greiðsluaðlögunar og ber að greiða að fullu, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. og b-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Um framangreind gjöld gilda lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988 (vskl.) og komi fram í 24. gr. laganna að skráningarskyldir skuli eftir lok hvers uppgjörstímabils greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt þann sem þeim ber að standa skil á.

Einnig benti umsjónarmaður kæranda á að af gögnum málsins megi ráða að þau gjöld sem um ræðir í máli kæranda hafi fallið til 5. ágúst 2012 og 5. október 2012 og séu byggð á álagningu, þ.e. gögnum frá kæranda. Um sé því að ræða fjármuni sem kærandi hafi þegar innheimt í rekstri sínum og bar að greiða til ríkissjóðs, að viðlagðri refsingu. Um tryggingagjald gilda lög nr. 113/1990 og falla slík gjöld innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 3. gr. lge. Um greiðslu gjaldsins til ríkissjóðs gilda lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og sé kveðið á um afleiðingar þess að gjaldið sé ekki greitt í 30. gr. laganna. Af gögnum málsins megi ráða að vangreidd gjöld vegna tryggingagjalds séu 45.950 krónur og hafi fallið til 1. júlí 2012, 1. ágúst 2012 og 1. september 2012 og séu byggð á álagningu. Um sé að ræða gjöld sem kæranda bar að greiða, sbr. 1. gr. laga um 113/1990, sbr. einnig lög nr. 45/1987, að viðlagðri refsingu.

Með vísan til framangreinds sé það mat umsjónarmanns að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. með því að standa ekki skil á framangreindum gjöldum þegar þau féllu í gjalddaga. Þrátt fyrir að um óverulega fjárhæð sé að ræða verði ekki hjá því litið að um sé að ræða gjöld sem kveðið er á um í lögum að standa skuli skil á.

Þá kemur fram í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns að í 6. gr. lge. séu tilteknar ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á slíku skuli taka tillit til ýmissa atvika sem rakin eru í stafliðum a–g ákvæðisins. Fram komi í d-lið að líta skuli til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í athugasemdum við ákvæði 6. gr. laganna komi fram að þau atriði sem rakin eru í 2. mgr. 6. gr. lge. séu að hluta til miðuð við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (gþl.), enda hafi verið komin nokkur reynsla og dómvenja á beitingu þeirra. Fram kemur að d-liður 2. mgr. 6. gr. sé samhljóða þágildandi 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gþl. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009, frá 20. janúar 2009, hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að vangreiddur virðisaukaskattur hefði numið 8,3% af heildarskuldum skuldara og taldi að þar væri fyrir hendi allhá skuld miðað við heildarskuldir. Því hafi verið fallist á með kröfuhafa þeirrar skuldbindingar að synja hefði átt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar í öndverðu. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X-606/2012 frá 4. desember 2012 námu skuldir sem féllu undir ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. 5,4% af heildarskuldum skuldara. Í úrskurðinum hafi verið vísað til dóms Hæstaréttar auk þess sem orðrétt sagði:

 „Af forsendum hins tilvitnaða dóms Hæstaréttar er ljóst að leggja ber strangan mælikvarða á hvenær skuldbindingar sem stofnast vegna háttsemi er varðar refsingu eða skaðabótaskyldu nema einhverju miðað við fjárhag skuldara.“

Hafi það verið niðurstaða dómsins að framangreint hlutfall færi í bága við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að synja hefði átt skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar í öndverðu með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 57. gr. gþl., 1. tölul. 1. mgr. 38. gr. gþl. og 6. gr. lge. Kröfu skuldara um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar var því hafnað.

Lýstar kröfur embættis tollstjóra vegna vangoldins virðisaukaskatts kæranda séu 1.096.195 krónur og vegna vangoldinnar staðgreiðslu reiknaðra launa 217 krónur. Samtals nemi skuld vegna framangreindra gjalda 1.096.412 krónum. Af gögnum málsins megi ráða að fjárhagur kæranda sé afar bágur. Þannig samanstanda tekjur hennar af greiðslum frá X og Z samtals að fjárhæð um 140.000 krónur mánaðarlega þegar tekið hafi verið tillit til skatta og annarra gjalda. Þá fái kærandi greiddar barnabætur, meðlag og húsaleigubætur samtals að fjárhæð 257.662 krónur mánaðarlega. Útborgaðar mánaðarlegar tekjur kæranda séu því alls um 397.662 krónur. Skuld vegna vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu reiknaðra launa nemi 7,66% af heildarskuldum kæranda.

Með vísan til framangreinds, dóms Hæstaréttar frá 20. janúar 2009 í máli nr. 721/2009 og úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. desember 2012 í máli nr. X-606/2012, hafi umsjónarmaður ekki séð annað fært en að mæla gegn því að nauðarsamningar kæmist á með vísan til 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi vilji gera greiðslusamkomulag en svo virðist sem greiðsluaðlögun strandi á því að embætti tollstjóra sé ekki viljugt til samninga. Hingað til hafi samskipti við starfsfólk tollstjóra alltaf verið góð og ekki staðið á þeim að semja við kæranda um mánaðarlegar greiðslur. Það sé því hulin ráðgáta hvers vegna samningar séu ekki í myndinni þegar kærandi hafi loks leitað á náðir umboðsmanns skuldara. Engir kröfuhafar hafi mótmælt nema embætti tollstjóra. Af heildarkröfum að fjárhæð 14.000.000 krónur hafi málinu verið synjað vegna rúmlega 300.000 króna skuldar hjá embætti tollstjóra. Þetta sé ótrúleg en sorgleg staðreynd fyrir kæranda og börn hennar.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka. Í athugasemdum við ákvæðið segir meðal annars að umsjónarmaður skuli horfa til þess hver rökstuðningur lánardrottna var fyrir því að leggjast gegn frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun en ljóst sé að hann getur ekki einvörðungu staðið í vegi fyrir því að umsjónarmaður mæli gegn nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og þurfa ríkar ástæður að vera fyrir afstöðu lánardrottna.

Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun kemur fram að fjárhagsstaða kæranda sé afar bág og greiðslugeta hennar neikvæð sem nemur 111.365 krónum á mánuði. Ekki verði því um greiðslur til kröfuhafa að ræða á tímabili greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður lagði til í frumvarpi 100% niðurfellingu samningskrafna sem nema 9.088.044 krónum en eftir standa þá kröfur utan greiðsluaðlögunar að fjárhæð 5.185.162 krónur. Þar af eru kröfur embættis tollstjóra vegna virðisaukaskatts 1.129.754 krónur og vegna staðgreiðslu reiknaðra launa 445 krónur, samtals að fjárhæð 1.130.199 krónur.

Umrætt frumvarp var sent kröfuhöfum þann 13. nóvember 2012 og lagðist embætti tollstjóra gegn frumvarpinu þar sem ekki hafi komið fram í frumvarpinu með vísan til b-liðar 1. mgr. 21. gr. lge., sbr. 3. gr. lge., hvernig kröfur tollstjóra vegna virðisaukaskatts skyldu greiddar að fullu. Þá lutu andmælin einnig að því að skuldir kæranda hefðu aukist verulega í greiðsluskjóli.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á byggist á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda, þ.e. tryggingagjalds 45.950 krónur og virðisaukaskatts 199.479 krónur, samtals að fjárhæð 245.429 krónur. Þessi nýja skuldsetning hefði verið brot á 1. mgr. 12. gr. lge., nánar tiltekið d-lið þar sem skuldari hafði ekki sinnt skyldu sinni við greiðsluaðlögun og stofnað til nýrra skulda. Umsjónarmaður taldi hins vegar að ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 384.005 krónur sem lögð voru á kæranda í greiðsluskjóli teldust ekki vera nýjar skuldir með vísan til þess að um óverulega fjárhæð væri að ræða miðað við heildarskuldir og umrædd gjöld væru lögboðin gjöld sem lögð væru á einstaklinga ár hvert.

Að mati kærunefndar greiðsluaðlögunarmála verður að skoða hvort skattar sem lagðir eru á skuldara í greiðsluskjóli teljast til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Tryggingagjald er gjald sem launagreiðendur, þ.m.t. sjálfstætt starfandi, greiða vegna launakostnaðar við atvinnurekstur. Þing- og sveitarsjóðsgjöld eru ýmis lögboðin gjöld sem launagreiðendur innheimta með launaafdrætti en aðrir greiða á tilteknum gjalddögum. Ólíkt framangreindum gjöldum er virðisaukaskattur fjárhæð sem sá sem stendur í atvinnurekstri hefur þegar fengið greitt og ber að greiða til ríkissjóðs með tilteknum hætti. Með því að ráðstafa virðisaukaskatti sem þegar er í hendi með öðrum hætti en að framan greinir er skuldari að mati kærunefndarinnar að stofna til nýrrar skuldar í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að aðrir skattar en virðisaukaskattur sem lagðir hafa verið á kæranda séu ekki nýjar skuldir í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og ber því að líta svo á að nýjar skuldir á tímabili greiðsluaðlögunar sem falla undir ákvæðið séu að fjárhæð 199.479 krónur.

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er það skylda skuldara við greiðsluaðlögun að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að framangreind undanþága sé sett til að tryggt sé að námsmönnum sé heimilt að sækja um fyrirgreiðslu til banka vegna framfærslu. Ákvæðið sé ekki einskorðað við námsmenn en því sé þó ætlað að hafa þröngt gildissvið. Undir það falla til að mynda skuldbindingar vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem eru nauðsynleg heilsu og velferð fjölskyldunnar. Samkvæmt ákvæðinu er skuldara því heimilt að stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem skaðað geta hagsmuni kröfuhafa hafi honum verið nauðsynlegt að stofna til þeirra til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Engar upplýsingar er að finna meðal gagna málsins sem benda til þess að umsjónarmaður hafi krafið kæranda skýringa og kannað hvort kærandi hafi stofnað til umræddra skattaskulda í því skyni sem d-liður 1. mgr. 12. gr. lge. heimilar. Þó þykir ljóst að mati kærunefndarinnar að þeir skattar séu tilkomnir vegna atvinnustarfsemi í eigin nafni enda starfar kærandi sem verktaki í hlutastarfi. Að mati kærunefndarinnar þykir ljóst að stofnað var til fyrrgreindra skulda þegar kærandi aflaði sér tekna sem ætlaðar hafi verið til að sjá kæranda og fjölskyldu hennar farborða. Verður því ekki fallist á að ný virðisaukaskattsskuld kæranda að fjárhæð 199.479 krónur hafi verið brot á skyldum hennar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umsjónarmanns á því að nokkuð sé fram komið sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar og vísar þar til 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar. Umsjónarmaður taldi að talsverður hluti skulda kæranda sé tilkominn með háttsemi sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu, en í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að hafna umsókn um greiðsluaðlögun ef þannig stendur á. Umsjónarmaður vísaði í þessu sambandi meðal annars til vangoldins virðisaukaskatts að fjárhæð 1.096.195 krónur.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 4. júní 2012, þar sem umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar var samþykkt, kemur fram að meðal skulda kæranda sé ógreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 950.410 krónur. Þá segir orðrétt í ákvörðun umboðsmanns skuldara:

 „Á það skal bent að á umsækjanda hvíla kröfur vegna vangoldinna opinberra gjalda en það er mat embættisins að ekki sé um að ræða fjárhæð sem nægi til þess að til álita komi að synja umsókn hennar, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laganna.“

Niðurstaða umboðsmanns skuldara var því að ógreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 950.410 krónur hafi ekki verið grundvöllur synjunar. Umsjónarmaður komst hins vegar að annarri niðurstöðu vegna ógreidds virðisaukaskatts að fjárhæð 1.096.195 krónur.

Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafnar því að umsjónarmaður geti almennt byggt ákvörðun, um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á, á því að óhæfilegt hafi verið að veita greiðsluaðlögun í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmanni skuldara er heimilað en ekki gert skylt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli heildstæðs mats, með sérstöku tilliti til atriða sem tilgreind eru í stafliðum a–g. Niðurstaða þess mats umboðsmanns getur ekki sætt endurskoðun umsjónarmanns sem er ekki æðra stjórnvald. Orðalag 1. mgr. 18. gr. um að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar vísar til þess að nýjar upplýsingar liggi fyrir sem ekki voru ljósar þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun sína. Þrátt fyrir að ógreiddur virðisaukaskattur hafi aukist lítillega, verður því að líta svo á að umboðsmaður skuldara hafi þegar tekið afstöðu til skattskulda kæranda. Gefur þessi óverulega hækkun virðisaukaskattsskuldar því ekki tilefni til að umsjónarmaður byggi ákvörðun, um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á, á 2. mgr. 6. gr. lge.

Við mat umsjónarmanns á því hvort mæla eigi með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar skal byggja á þeim atriðum sem fram koma í 1. mgr. 18. gr. lge. Í fyrsta lagi skal umsjónarmaður við mat því hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Í öðru lagi skal umsjónarmaður líta til þess hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Í þriðja lagi hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Í fjórða lagi hvort raunhæft sé að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og í fimmta lagi hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í málinu liggur fyrir að heildarskuldir kæranda sem falla utan samnings eru allháar miðað við tekjur og greiðslugetu hennar. Ljóst er að ómögulegt er að hún geti staðið í skilum með þær þrátt fyrir að allar hennar skuldir yrðu felldar niður með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Í ljósi þess verður að telja að það sé ekki raunhæft að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Með vísan til þess er ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi kæranda staðfest með vísan til 1. mgr. 18. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum