Hoppa yfir valmynd
12. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2011

Mánudaginn 12. mars 2012

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 30. maí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. maí 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun einstaklinga var hafnað. Kærendur fengu tilkynninguna þann 18. maí s.á.

Með bréfi, dags. 15. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 29. júní 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. júlí 2011, og kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Var beiðni um athugasemdir ítrekuð með bréfi, dags. 9. september 2011. Þann 22. september 2011 barst bréf frá lögmanni kærenda þar sem kom fram að kærendur myndu ekki leggja fram frekari athugasemdir í málinu.

 

I.

Málsatvik

Í ákvörðun umboðsmanns kemur fram að kærendur séu gift og búi ásamt tveimur sonum A, sem séu 16 og 19 ára, í eigin húsnæði en um sé að ræða 134 fm íbúð í Reykjavík. A starfi sem matráður hjá X og B sé landslagsarkitekt og hafi starfað sem einyrki frá árinu 1980. Hann fái nú atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Samanlagðar tekjur heimilisins nemi 337.776 krónum á mánuði að viðbættum vaxtabótum, barnabótum, meðlagi og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess að verkefni B hafi dregist mikið saman í kjölfar hrunsins auk þess sem hann hafi á undanförnum árum átt við langvarandi veikindi að stríða. Hafi veikindin einnig leitt til þess að hann hafi ekki leitað annarra starfa. A hafi verið heimavinnandi en farið út á vinnumarkaðinn í kjölfar atvinnumissis B. Hún hafi þó ekki náð að afla nægilegra tekna til að standa undir heimilisrekstri eða afborgunum af skuldum þeirra.

Heildarskuldir kærenda eru 77.265.274 krónur og þarf af falla 65.732.644 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun. Að sögn kærenda eru beinar skuldbindingar vegna atvinnurekstrar B 28.236.205 krónur. Stofnað var til helstu skuldbindinganna á árunum 2000–2010. Er um að ræða verðtryggt lán hjá Landsbankanum, nú að fjárhæð 25.516.209 krónur og erlent lán hjá Landsbankanum, eftirstöðvar þess eru nú í 14.754.377 krónur. Bæði lánin eru skráð á A. Aðrar skuldir er kreditkortaskuld að fjárhæð 1.780.720 krónur, yfirdrættir á þremur reikningum, samtals að fjárhæð 1.927.097 krónur og skuld við Y ehf. að fjárhæð 51.033 krónur. Þá skuldar B lífeyrissjóðsiðgjöld að fjárhæð 1.566.649 krónur, þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 16.724.858 krónur, ógreidd staðgreiðsla tryggingargjalds nemur 21.029.978 krónum, vangreiddur tekjuskattur af reiknuðu endurgjaldi nemur 105.835 krónum og vangreitt tryggingagjald nemur 1.308.723 krónum. Þá eru 8.605.357 krónur í vanskilum vegna virðisaukaskatts og 721.438 krónur vegna vanskila launagreiðanda.

Tekjur kærenda hafa undanfarin ár verið eftirfarandi: Árið 2006 voru samanlagaðar tekjur þeirra eftir skatta og gjöld að meðaltali 353.476 krónur á mánuði, árið 2007 voru þær 457.217 krónur, árið 2008 voru þær 868.005 krónur og árið 2009 243.167 krónur. Eignir kærenda eru fasteign þeirra sem metin er á 27.000.000 króna og bifreið sem metin er á 500.000 krónur.

Með ákvörðun umboðsmanns, dags. 10. maí 2011, var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess óhæfilegt þætti að veita hana með vísan til c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 

II.

Sjónarmið kærenda

Kærendur telja að ákvörðun umboðsmanns um að synja umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi verið ólögmæt.

Í fyrsta lagi telja kærendur að ekki hafi verið gætt að andmælarétti þeirra en hvorki hafi verið haft samband við þau né umboðsmann þeirra meðan umsókn þeirra var til skoðunar. Kærendur hafi því ekki getað tjáð sig um einstök skjöl sem lágu til grundvallar ákvörðun umboðsmanns og afstaða þeirra ekki legið fyrir í gögnum málsins. Telja kærendur því að umboðsmaður hafi brotið gegn andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 (ssl.). Því sé ákvörðunin haldin verulegum annmarka er varði ógildingu hennar.

Í öðru lagi telja kærendur að umboðsmaður hafi byggt ákvörðun sína á röngum forsendum. Umboðsmaður hafi byggt niðurstöðu sína meðal annars á því að óhæfilegt sé að samþykkja umsókn annars kæranda, A, á þeim grundvelli að fjárhagsleg staða hennar hafi verið sem segi í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Þannig hafi umboðsmaður sagt að þegar tekið sé mið af tekjum annars kæranda, A, samkvæmt skattframtölum áranna 2007–2010, fyrir tekjuárin 2006–2009, hafi henni átt að vera ljóst að hún var á engan hátt fær um að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Kærendur telja að umboðsmaður hafi byggt ákvörðun sína á röngum forsendum með því að hafa eingöngu horft til tekna A á tímabilinu þegar hann lagði mat á fjárhagslega áhættu skuldbindinga hennar. Af gögnum málsins sé deginum ljósara að þrátt fyrir að A sé skuldari tiltekinna lána þá bjuggu hjónin við sameiginlegan fjárhag og að greiðandi og fyrirvinna heimilisins var á þeim tíma sá sem stofnaði til flestra skuldbindinga, þ.e. B. Eignir þær sem standa að baki umræddum skuldbindingum séu auk þess hjúskapareign þeirra hjóna en ekki séreign A. Umboðsmaður skuldara geti því ekki aðskilið fjárhag kærenda með þeim hætti sem gert sé í umræddri ákvörðun heldur þurfi hann að horfa á fjárhagslega skuldbindingargetu þeirra heilstætt þegar fjárhagsleg áhætta skuldbindinga þeirra er metin.

Í þriðja lagi telja kærendur að ákvörðun umboðsmanns sé byggð á rangri túlkun lagaákvæða. Umboðsmaður hafi talið að á grundvelli heimildar í c- og d-lið sé óhæfilegt að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ákvörðun sinni til stuðnings hafi hann vísað til orðalags þágildandi 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sem feli í sér þá meginreglu að skuldari skuli ekki eiga kost á greiðsluaðlögun ef vanda hans verði að einhverju eða öllu leyti rakinn til atriða sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Kærendur benda á að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 3/2010 komi fram að þótt 2. mgr. 6. gr. lge sé að mestu samhljóða framangreindu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti sé ekki sjálfgefið að merking þeirra þurfi að vera með sama hætti sökum þess að markmið hinna nýju laga, sem komi fram í 1. gr. lge. og almennum athugasemdum með frumvarpinu, sé annars eðlis og vegna þess að orðalag ákvæðisins er breytt. Því beri að skýra ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. á þann veg að mat umboðsmanns skuldara geti, eftir atvikum, orðið annað vægara en leiða má af fordæmum Hæstaréttar í málum sem varða beitingu ákvæðis 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Þá segi í framangreindum úrskurði kærunefndarinnar að þegar um matskennda synjunarheimild eins og 2. mgr. 6. gr. lge. sé að ræða sé ekki nægjanlegt að heimfæra háttsemi umsækjenda undir eitt eða fleiri tilvik sem talin eru upp í greininni til þess að heimildinni sé beitt heldur leggi það þá skyldu á herðar umboðsmanns skuldara að meta sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig hvort aðstæður séu með þeim hætti að talið verði óhæfilegt að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Í athugasemdum við ákvæði 6. gr. sem koma fram í greinargerð með lögum nr. 101/2010 er að finna leiðbeiningarreglu um þau sjónarmið sem ber að hafa í huga þegar umboðsmaður metur hvort tilvik falli undir 2. mgr. 6. gr. Þar segir að ekki sé gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni séu til. Miða skuli eftir atvikum við þá framkvæmd sem komin er á og dómvenju en jafnframt hafa í huga ,,að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hljóti vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun, enda falli háttsemi hans ekki undir þau tilvik þar sem umboðsmanni er skylt að synja um slíka heimild skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010“.

Að teknu tilliti til framangreindrar niðurstöðu telja kærendur að þau lögskýringarsjónarmið sem þar sé byggt á hafi ekki verið höfð að leiðarljósi við það heildarmat sem umboðsmanni er ætlað að beita þegar ákvörðun um heimild til greiðsluaðlögunar er tekin. Umboðsmaður hafi þvert á móti túlkað umrædd lagaákvæði með bókstaflegum, íþyngjandi og fram úr hófi þröngum hætti, einkum hvað varðar fjárhagsskuldbindingar A, en hafi umboðsmaður eingöngu lagt launaseðla hennar til grundvallar þeirri ákvörðun að fjármálum hafi verið hagað með þeim hætti sem lýst sé í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður hafi vísað til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. um heimild til að synja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þannig hefðu kærendur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Um sé að ræða skattaskuldir kærandans B. Í engu sé tekið tillit til þeirrar staðreyndar að atvinnugrein hans er sveiflukennd og að verkefni hafi skort í kjölfar efnahagshruns eða þess að B hafi átt við alvarleg og langvinn veikindi að stríða frá árinu 2003 og að hugsanlega hafi þau samfara verkefnaleysi haft neikvæð áhrif á dómgreind hans. Að þessu leyti hafi umboðsmaður túlkað umrætt lagaákvæði með bókstaflegum, íþyngjandi og of þröngum hætti og taki ekki mið af framangreindum mildandi sjónarmiðum sem honum sé þó ætlað að horfa til við ákvörðun sína.

Í fjórða lagi sé í 5. gr. lge. kveðið á um rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara. Sjálfstætt mat umboðsmanns krefjist þess að forsendur ákvarðana skuldara séu ljósar og glöggar sem og fjárhagur þeirra á þeim tíma sem stofnað var til skuldanna. Hvergi sé að finna upplýsingar um laun B á þeim tíma sem stofnað var til fjárhagsskuldbindinga þeirra sem A sé skráð fyrir. Þá sé ekki að finna upplýsingar um umsamda eða raunverulega greiðslubyrði lána þannig að sjá megi á þeim hvenær þau sem hjón hafi orðið ófær um að standa skil á greiðslum þeim sem A sé skuldari að. Ákvörðun umboðsmanns beri þess merki að ekki hafi verið gætt að rannsóknarskyldu þannig að óskað sé staðfestingar eða umsagnar læknis á hugsanlegum áhrifum veikinda B á dómgreind hans eða líkamlegt og andlegt þrek og þar af leiðandi mögulegum mildandi sjónarmiðum þegar metið hafi verið hvort háttsemi hans félli undir d-lið 2. mgr. 6. gr.

Er það skoðun kærenda að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. ssl. sem hafi það í för með sér að ákvörðun umboðsmanns skuli felld úr gildi.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri honum að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að heimilt sé að synja umsókn ef óhæfilegt þyki að veita greiðsluaðlögun og eru í sjö stafliðum atriði sem taka beri sérstakt tillit til við mat á því.

Í c-lið 2. mgr. 6. gr. kemur fram það sjónarmið að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana og skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Á skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 megi ráða að launatekjur A, að frádreginni staðgreiðslu að og teknu tilliti til vaxtabóta hafi verið að meðaltali 56.769 krónur á mánuði. Af skattframtali 2008 vegna tekjuársins 2007 megi ráða að tekjur A að frádreginni staðgreiðslu og að teknu tilliti til vaxtabóta hafi verið að meðaltali 64.694 krónur á mánuði. Af skattframtali 2009 vegna tekjuársins 2008 megi ráða að tekjur A að frádreginni staðgreiðslu og að teknu tilliti til vaxtabóta hafi verið að meðaltali 50.696 krónur á mánuði. Af skattframtali 2010 vegna tekjuársins 2009 megi ráða að tekjur A að frádreginni staðgreiðslu og að teknu tilliti til vaxtabóta hafi verið að meðaltali 32.486 krónur á mánuði.

Farið hafi að bera á vanskilum á skuldbindingum A árið 2009. Nefna megi kröfu Landsbankans vegna erlends láns nr. Z en þar séu elstu vanskil frá því í nóvember 2009. Í vanskilum séu 1.199.271 króna en heildarfjárhæð kröfunnar sé nú 14.754.377 krónur. Þá hafi hún hætt að greiða af láni Z hjá Landsbankanum í mars 2010. Enn fremur hafi hún látið undir höfuð leggjast að greiða af yfirdráttarheimildum og skuldum vegna greiðslukortanotkunar hjá Landsbankanum frá mars til október 2010. Samanlögð heildarvanskil framangreindra skulda nemur 3.707.817 krónum.

Þegar litið sé til þeirra skuldbindinga sem A stofnaði til og þær bornar saman við eignastöðu, tekjur og þáverandi skuldastöðu var það mat umboðsmanns að hún hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna.

Í greinargerð umboðsmanns er bent á að hvort hjóna beri ábyrgð á þeim skuldum sem á því hvíla, hvort sem þær hafi stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar, sbr. meginregluna sem birtist í 67. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Þó svo fjárhagsleg samstaða geti verið með þeim leiði það ekki til þess að þau verði látin bera persónulega ábyrgð á skuldum hvors annars. Hafi ætlunin verið að kærendur bæru sameiginlega ábyrgð á þeim skuldbindingum sem litið var til í málinu hefði legið beinast við að til þeirra hefði verið stofnað í nafni þeirra beggja. Því verði ekki séð að byggt hafi verið á röngum forsendum við mat á því hvort kærandinn A hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt.

B hafi einnig bakað sér verulegar skuldbindingar sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hann hafi ekki staðið í skilum við greiðslu virðisaukaskatts frá árinu 2000, auk þess hafi hann ekki staðið í skilum með staðgreiðslu af reiknuðum launum frá árinu 2010. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheim eða borið að innheimta. Þá hafi hann ekki greitt lífeyrissjóðsiðgjöld vegna tekjuáranna 2006 og 2008 og nemi fjárhæð þeirra krafna 1.566.649 krónum.

Í greinargerð svarar umboðsmaður því sem fram kemur af hálfu kærenda. Í fyrsta lagi mótmælir umboðsmaður þeirri staðhæfingu að andmælaréttur kærenda hafi ekki verið virtur, sbr. 13. gr. ssl. Meðal gagna málsins sé að finna nokkur tölvubréf frá umboðsmanni til kærenda þar sem þeim hafi verið gefinn kostur á að veita frekari upplýsingar um málið. Í málinu liggja einnig fyrir svör kærenda við einhverjum þessara erinda.

Í öðru lagi sé því borið við að umboðsmaður hafi byggt ákvörðun sína á röngum forsendum. Í ákvörðun umboðsmanns komi fram mat hans á því að óhæfilegt þyki að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar þar sem A hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað og hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Lögmaður kærenda hafi byggt á því að af gögnum málsins megi ráða að þrátt fyrir að kærandinn A væri skuldari tiltekinna lána hafi hjónin búið við sameiginlegan fjárhag og að greiðandinn og fyrirvinnan hafi verið sá sem stofnaði til flestra skuldbindinga, þ.e. B. Ekki verði séð af gögnum málsins að B hafi stofnað til umtalsverðra skuldbindinga á tímabilinu ef frá er talið að hann hafi ekki sinnt því að standa skil á vörslusköttum og öðrum opinberum gjöldum. Frekari röksemdir umboðsmanns varðandi þennan lið eru raktar hér að framan.

Í þriðja lagi hafi rökstuðningur lögmanns kærenda byggt á rangri lagatúlkun umboðsmanns skuldara á ákvæðum lge. Umboðsmaður skuldara sé sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 3/2011 sem lögmaður kærenda vísi til. Í ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. felast fyrirmæli löggjafans um sjónarmið sem taka ber sérstakt tillit til þegar meta á hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Þau viðmið, sem birst höfðu í fordæmum Hæstaréttar um beitingu sambærilegra ákvæða í lögum nr. 21/1991 fyrir gildistöku laga nr. 101/2010, telur umboðsmaður skuldara veita mikilvæga leiðsögn um beitingu ákvæða 2. mgr. 6. gr. lge.

Þannig hafi rétturinn talið, í dómi sínum frá 16. júní 2010 í máli nr. 345/2010, að staðfesta bæri synjun héraðsdóms á beiðni um greiðsluaðlögun samkvæmt þágildandi lögum nr. 21/1991 með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laganna. Í því máli hafði umsækjandi keypt húsnæði að verðmæti 27,9 milljónir króna og skuldsett sig umtalsvert í því sambandi. Á sama tíma hafi tekjur hans verið lágar og skuldir numið þá þegar tæplega 19 milljónum króna. Af samanburði á málsatvikum í því máli og þágildandi ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991 og málsatvikum í hinni kærðu ákvörðun og ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði að telja ljóst að skuldasöfnun kærandans A geti talist fjárhagsleg áhætta sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Í dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 2010 í máli nr. 721/2009 hafnaði rétturinn kröfu skuldara um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt þágildandi X. kafla a laga nr. 21/1991. Þar taldi rétturinn að hafna hefði átt beiðni um heimild til greiðsluaðlögunar og byggði þá niðurstöðu á því að virðisaukaskattskrafa á hendur skuldara nam 1,8 milljónum króna eða 8,3% af heildarskuldum hans. Það væri skuldbinding sem einhverju næmi miðað við fjárhag hans og að hann hefði bakað sér hana með refsiverðri háttsemi. Af samanburði á málsatvikum í framangreindu dómafordæmi og málsatvikum í máli þessu verði að telja ljóst að þær kröfur sem ræði í tilviki kærandans B, þ.e. vangoldinn virðisaukaskattur, vangoldin afdregin staðgreiðsla og vangoldnar lífeyrisgreiðslur, geti talist skuldbindingar sem einhverju nemi sem stofnað hafi verið til með refsiverðri háttsemi. Ekki verði séð að það skipti máli í þessu samhengi að atvinnugrein hans sé sveiflukennd og að verkefni hafi skort í kjölfar efnahagshrunsins. Virðisaukaskattskuld hans hafi safnast upp frá árinu 2000, en fram hefur komið að kærandinn hefur unnið sem einyrki frá árinu 1980. Honum hljóti því að hafa verið kunnar þær árstíðarbundnu sveiflur sem vísað sé til í rökstuðningi með kærunni. Sömuleiðis hafi honum átt að vera kunnar þær reglur sem giltu um virðisaukaskatt og aðra vörsluskatta. Þá verði ekki séð að fyrirliggjandi gögn um veikindi kærandans skýri það á einhvern hátt það að hann hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Í fjórða lagi ber lögmaður kæranda því við að umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 5. gr. lge. og 10. gr. ssl. Við ákvarðanatöku hafi legið fyrir skattframtöl kærenda síðastliðin fjögur ár og með ákvörðun hafi fylgt yfirlit yfir tekjur kærenda byggt á þeim. Þannig hafi augljóslega verið tekið tillit til tekna B í málinu. Við vinnslu málsins hafi verið aflað gagna hjá kröfuhöfum um greiðslubyrði lána á þeim tíma sem til frekari skuldbindinga var stofnað. Hjá embættinu fóru fram útreikningar til að meta það hvort greiðslubyrði A hafi verið umfram greiðslugetu. Þá telur umboðsmaður að ekki hafi verið tilefni til að kalla eftir frekari gögnum um það hvort veikindi kærandans B hafi haft áhrif á dómgreind og líkamlegt og andlegt þrek þegar meta átti hvort háttsemi hans teldist falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Kærendur hafi lagt fram læknabréf, dags. 2. mars 2011, þar sem hjartaveikindi hans séu rakin. Ekki hafi verið minnst á andleg áhrif veikindanna í bréfinu. Í ljósi atvika málsins, sérstaklega þess hvernig skuldbindingarnar byrjuðu að vinda upp á sig og að skuldin hélt áfram að aukast eftir þann tíma sem læknabréfið tilgreinir að heilsufar kærandans hafi batnað, taldi umboðsmaður óþarft að leita frekari gagna um málið.

Í 10. gr. ssl. segi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst til þess að hægt sé að taka ákvörðun í því. Þannig á stjórnvald ekki að kanna allt sem málið varðar heldur takmarkast rannsóknarskyldan við það sem nauðsynlegt getur talist til að taka ákvörðun í málinu. Í ákvæðum 5. gr. lge. felist ekki víðtækari rannsóknarskylda á umboðsmanni en öðrum stjórnvöldum að þessu leyti. Telur umboðsmaður því málið hafa verið nægjanlega upplýst áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

 

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. er hjónum heimilt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Samkvæmt greinargerð kemur fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvers annars. Eigi hjón eða sambýlisfólk veðtryggða fasteign í óskiptri sameign er eðlilegt að þau leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu enda úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti er slíkt heimilt.

Af framangreindu og orðalagi ákvæðisins er ljóst að hér er um heimild að ræða. Ef umboðsmaður metur aðstæður skuldara þannig, sem sótt hafa um í sameiginlega um heimild til greiðsluaðlögunar, að ekki sé hægt að líta sameiginlega á fjárhag þeirra, til dæmis vegna þess að þau búa við aðgreindan fjárhag eða hreint séreignafyrirkomulag, verður umboðsmaður að hafna sameiginlegri umsókn þeirra eða aðskilja hana í upphafi. Fallist umboðsmaður hins vegar á sameiginlega umsókn, þrátt fyrir séreignarfyrirkomulag skuldara, verður að líta sameiginlega á fjárhag þeirra þegar metið er hvort skilyrði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar sé uppfyllt.

Heildarskuldir kærenda nema nú 77.265.274 krónum. Verðmæti eigna þeirra í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara, dags. 9. febrúar sl., er sagt 27.500.000 krónur. Verðmæti fasteignar kærenda er hins vegar talið vera um 30 milljónir króna samkvæmt mati sýslumanns við fjárnám sem gert var í mars 2010 og þar er fasteignamat eignarinnar sagt 32.000.000 króna. Ekki liggur fyrir hvaða verðmat er lagt til grundvallar í greiðsluáætlun umboðsmanns en miðað við þessi gögn er það að líkum heldur vanmetið.

Samkvæmt tekjuyfirliti umboðsmanns skuldara voru mánaðarlegar tekjur kærenda á árunum 2006–2009 eftirfarandi: 353.476 krónur árið 2006, 457.217 krónur árið 2007, 868.005 krónur árið 2008 og 243.167 krónur árið 2009. Tekjur þeirra síðustu þriggja mánaða áður en umsókn um greiðsluaðlögun var lögð fram voru að meðaltali 227.832 krónur samkvæmt greiðsluáætlun, dags. 10. maí sl. Er þar um að ræða tekjur annars kæranda. Samkvæmt öðrum gögnum málsins má ráða að þar sé um að ræða launatekjur A en B hafi ekki haft neinar tekjur á umræddu tímabili. Framangreindar upplýsingar um tekjuþróun kærenda styður þá skýringu á fjárhagserfiðleikum þeirra að um skyndilegt tekjufall hafi verið að ræða í kjölfar efnahagshrunsins.

Á framangreindu tímabili tóku kærendur eitt nýtt lán. Það er skuldabréf í erlendri mynt, gefið út af A í október 2007 að fjárhæð 6.000.000 króna, tryggt með veði í fasteign hennar að C-         götu nr. 22. Áður höfðu þau tekið lán að fjárhæð 18.130.000 krónur samkvæmt skuldabréfi útgefnu af kærendum báðum árið 2004 með veði í fasteign A. Mánaðarlegar afborganir samkvæmt fylgiskjali með skuldabréfinu eru 95.745 krónur á mánuði, án tillits til verðbóta. Ekki liggja fyrir upplýsingar í málinu um mánaðarlegar afborganir síðara lánsins. Ekki liggja heldur fyrir upplýsingar um það hvaða breytingar hafa orðið á mánaðarlegum afborgunum þessara lána frá því að þau voru tekin.

Ef mið er tekið af upphaflegri fjárhæð þessara lána, verðmæti fasteignarinnar og annarra eigna sem kærendur áttu og tekjum þeirra á því tímabili sem lánin voru tekin verður ekki dregin sú ályktun að þessar lántökur hafi falið í sér fjárhaglega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinga var stofnað.

Árið 2010 stofnuðu kærendur til verulegra skammtímaskulda en skuldir þeirra vegna yfirdráttarlána og ógreiddra greiðslukortaskulda námu í árslok 2010 rúmlega 3.700.000 krónum.

Langstærstur hluti skulda kærenda nú og það sem úrslitum ræður um þá alvarlegu fjárhagsstöðu sem þau eru komin í, stafar hins vegar af vanskilum á opinberum gjöldum. Skuldir þessar nema samtals 31.670.189 krónum og samanstanda af ógreiddum þing- og sveitarsjóðsgjöldum, tryggingagjaldi, virðisaukaskatti og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi. Vanskil þessi stafa allt frá árinu 2000 og aukast jafnt og þétt öll árin. Þannig nema vanskil opinberra gjalda kærenda árið 2006 þegar yfir 26 milljónum króna og halda áfram að aukast fram til ársins 2010. Sem dæmi má taka að árið 2008, þegar hreinar tekjur kærenda voru um 868.000 krónur á mánuði, stóðu þau ekki skil á liðlega 3.200.000 krónum í opinber gjöld. Kærendur hafa gefið þá skýringu á þessum skattskuldum að þær stafi af því að atvinnurekstur B hafi verið árstíðarbundinn og upphaf vanskila gjalda á árinu 2001 megi rekja til tekjulækkunar það ár. Þau telja enn fremur að þau hafi skort yfirsýn yfir fjárhag sinn og sýnt kæruleysi í fjármálum og tengja slaka fjármálastjórn sína auk þess við veikindi B en hann gekkst undir hjartaaðgerð árið 2004. Fyrir liggur læknisvottorð þar að lútandi þar sem jafnframt kemur fram að hann var óvinnufær í hálft ár eftir aðgerð og með skerta starfsorku um lengri tíma bæði fyrir og eftir aðgerð.

Á hinn bóginn verður heldur ekki framhjá því litið að þegar fjárhagsráðstafanir kærenda eru virtar í heild og einkum horft til óhóflegrar skuldasöfnunar vegna opinberra gjalda þeim tíma þegar tekjur kærenda eru þokkalegar og jafnvel góðar, svo sem eins og á árinu 2008, þá verður að líta til sjónarmiða að baki f- og g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem segir að synja megi um heimild til greiðsluaðlögunar þegar skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að ósanngjarnt sé að greiðsluaðlögun nái til þeirra. Það er mat kærunefndar að eðli skuldbindinga kærenda í þessu tilfelli og umfang þeirra sé þannig að umboðsmanni hafi verið rétt að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar. Það verður heldur ekki annað séð, þótt tekjuupplýsingar liggi ekki fyrir á öllu skuldasöfnunartímabilinu, en kærendur hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim framast var unnt. Er hér einkum horft til vangreiddra opinberra gjalda á árunum 2006–2008 þegar tekjur kærenda voru ágætar en ekkert lát á skuldasöfnun og engin sýnileg viðleitni til að gera skil á eldri vangreiddum opinberum gjöldum.

Með vísan til þess sem að framan greinir er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum