Hoppa yfir valmynd
7. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2011

Grein

Greiðsluaðlögun.

Þriðjudaginn 7. júní 2011

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 17. janúar 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. janúar 2011, þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara og barst hún með bréfi, dags. 4. febrúar 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 7. febrúar 2011, og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupósti, dags. 23. febrúar 2011.

Nefndin óskaði frekari skýringa frá umboðsmanni skuldara með bréfi 24. mars 2011 og bárust svör frá umboðsmanni skuldara 15. apríl 2011. Var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um svör umboðsmanns og bárust athugasemdir þeirra með tölvupósti þann 16. maí 2011.

I.

Málsatvik

Kærendur lýsa atvikum málsins þannig að fjárhagsörðugleika þeirra sé að rekja til þess að A, sem hefur starfað sem múrari undanfarin ár, stofnaði árið 2007 verktakafyrirtækið X ehf. Umsvif fyrirtækisins hafi verið umtalsverð en tíu manns hafi starfað hjá fyrirtækinu þegar mest var. Flestir starfsmanna fyrirtækisins hafi verið erlendir farandverkamenn og hafi það komið í hlut kærenda að útvega þeim húsnæði. Því hafi þau keypt íbúðina að C-götu nr 6 í sveitarfélaginu D í þeim tilgangi auk þess sem kærendur hafi keypt bíla til afnota í rekstri fyrirtækisins. Kærendur áttu fyrir íbúðarhús í sveitarfélaginu E, sem þau festu kaup á árið 2006, þar sem þau bjuggu ásamt börnum sínum þremur.

Haustið 2008 hafi hins vegar allar framkvæmdir stöðvast og farið að halla undan fæti en fjárfest hafi verið í rekstrinum með myntkörfulánum sem snarhækkuðu og reyndist ómögulegt fyrir kærendur að greiða af þeim skuldbindingum. Bílarnir hafi verið seldir eða þeim skilað aftur til fjármögnunarfyrirtækjanna en endurútreikningum þeirra lána sé ekki að fullu lokið. Reynt hafi verið að selja fasteignina að C-götu en ekkert gengið og að lokum hafi hún verið leigð út. Þau hafi nú flutt í íbúðina en kærendur gera ekki ráð fyrir að geta selt eða leigt út íbúðarhús sitt í sveitarfélaginu E en auð hús standi beggja vegna við það.

Af hálfu kærenda kemur fram að bú A hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2008 og að skiptum hafi verið lokið sama ár. Í september 2009 hafi A síðan farið til Noregs til að vinna en lítið var um verkefni hér á landi en komið aftur til Íslands í maí 2010. Honum hafi ekki tekist að fá vinnu og hafi verið á atvinnuleysisbótum síðan hann kom heim. B sé 75% öryrki eftir bílslys og sjái hún ekki fram á að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Um samspil tekna og skuldbindinga kærenda segir í ákvörðun umboðsmanns skuldara að á árinu 2006 hafi ráðstöfunartekjur kærenda verið samtals 255.272 krónur á mánuði. Á því ári hafi kærendur stofnað til fjögurra skuldbindinga, sem upphaflega námu samtals 41.840.000 króna, vegna kaupa á íbúðarhúsi þeirra í sveitarfélaginu E og íbúðar að C-götu í sveitarfélaginu D. Þá hafi umsamdar afborganir af þeim skuldbindingum numið 242.824 krónum á mánuði. Samkvæmt skattframtölum hafi fjögur af börnum kærenda verið búsett hjá þeim í lok árs 2006 og miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara hafi umsækjendur því vantað 139.753 krónur á mánuði til að standa undir lágmarksframfærslu fjölskyldunnar eftir að tekið hefur verið tillit til afborgana allra skulda.

Árið 2007 hafi kærendur stofnað til þriggja nýrra skuldbindinga, þar af tveggja bílasamninga, auk þess sem þau hafi tekið framkvæmdalán að fjárhæð 4.500.000 krónur vegna endurbóta á fasteigninni í sveitarfélaginu E. Ráðstöfunartekjur kærenda samkvæmt skattframtölum sama ár hafi verið 311.466 krónur á mánuði en greiðslubyrði skuldbindinga þeirra numið 402.191 krónu á mánuði. Samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara, miðað við vísitölu í desember 2007, hafi því mánaðarleg greiðslugeta kærenda verið neikvæð um 251.846 krónur í lok árs 2007.

Samkvæmt greinargerð sem fylgdi umsókn kærenda og fylgigögnum með henni voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda 464.632 krónur árið 2008, 304.455 krónur árið 2009 og 472.069 krónur árið 2010. Stofnuðu þau ekki til frekar skuldbindinga á þessum árum utan yfirdráttar- og kreditkortaskulda.

Þann 6. janúar 2011 var kærendum synjað um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem fyrirliggjandi gögn í málinu voru ekki talin gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Kemur fram í ákvörðun umboðsmanns að ekki sé ljóst hvernig kærendur hafi staðið í skilum með skuldbindingar sínar á árunum 2006 og 2007 þegar tekið sé tillit til greiðslubyrði skuldbindinga þeirra miðað við tekjur á þeim tíma, en þau hafi þrátt fyrir það staðið í skilum út árið 2008 en kröfur hafi ekki fallið í vanskil hjá kærendum fyrr en á árinu 2009.

 

II.

Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að máli þeirra verði vísað aftur til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara svo þau geti varpað ljósi á þá þætti sem enn eru taldir óskýrir. Telja kærendur sig þegar hafa útskýrt óljósa þætti varðandi tekjuöflun þeirra á árunum 2006 og 2007. Telja þau því að um misskilning sé að ræða og krefjast þess að máli þeirra verði vísað aftur til umboðsmanns skuldara svo þeim gefist tækifæri til þess að leiðrétta þann misskilning.

Kærendur segja frá því að í lok árs 2006 hafi þau tekið lán að fjárhæð 4.500.000 krónur sem þau hafi ætlað að nota til þess að gera endurbætur á íbúðarhúsi sínu í sveitarfélaginu E. Hluti þess láns hafi verið notaður til þess að greiða af skuldbindingum kærenda og skýri það að hluta til hvernig þeim tókst að standa í skilum eins lengi og raun ber vitni. Auk þess hafi verið nýttur til þess stighækkandi yfirdráttur í viðskiptabanka kærenda auk þess sem B hafi selt varning sem hún átti eftir úr fyrri rekstri sínum og hafði verið afskrifaður.

Ástæður lágra tekna A á þessum tíma hafi verið þær að hann hafi verið að byggja upp félagið X ehf. og hafi mikið af innkomu þess farið aftur í rekstrarkostnað.

Í athugasemdum kærenda, við viðbótarupplýsingar þær sem kærunefndin óskaði eftir frá umboðsmanni skuldara, kom fram að þau geti ekki gefið nákvæmar skýringar á því hvernig hver og ein króna er til komin sem þau nýttu til að standa við skuldbindingar þeirra á árunum 2006 og 2007. Ítreka þau fyrri skýringar sínar að þau hafi nýtt þá fjármuni sem þau komu höndum yfir hverju sinni til að standa skil á skuldbindingum sínum.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara krefst þess að synjun hans á heimild til að leita greiðsluaðlögunar frá 6. janúar 2011 verði staðfest.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara segir að gögn málsins beri með sér að kærendur hafi stofnað til umtalsverðra skulda á árunum 2007–2009 eða á þeim tíma sem A rak eigið verktakafyrirtæki. Á sama tíma hafi uppgefnar tekjur kærenda ekki verið í neinu samræmi við skuldbindingar þeirra. Kærendur hafi hvorki gefið nánari skýringar né lagt fram frekari gögn sem varpað geti ljósi á fjárhag þeirra á umræddum tíma, þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað. Hafi því umboðsmanni borið lagaleg skylda til þess að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ritaði umboðsmanni skuldara bréf, dags. 24. mars 2011, þar sem óskað var eftir því að umboðsmaður skuldara gerði nánari grein fyrir áhrifum gjaldþrotaskipta X ehf. og gjaldþrots A á ákvörðun umboðsmanns um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Óskaði nefndin eftir því að umboðsmaður gerði grein fyrir því hvaða gagna hafi verið aflað í sambandi við framangreint og mati umboðsmanns á áhrifum mögulegrar sektargerðar, eða refsidóms sem A á yfir höfði sér, á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Þá var óskað eftir afstöðu umboðsmanns til skýringa kærenda á því hvernig þau fóru að því að standa við skuldbindingar sínar á árunum 2006 og 2007.

Í svari umboðsmanns við bréfi nefndarinnar kemur fram að umboðsmaður hafi skorað á kærendur að skýra nánar og leggja fram frekari gögn um það hvernig þau stóðu í skilum á þessum tíma. Kærendur hafi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að til þess hafi verið nýttur yfirdráttur eða framkvæmdalán eins og þau halda fram. Þar sem gögn voru ekki fullnægjandi að mati umboðsmanns hafi ekki komið til þess að áhrif gjaldþrots X ehf. og A á umsókn kærenda hafi verið metin.

 

IV.

Niðurstaða

Niðurstaða umboðsmanns skuldara byggir sem fyrr segir á b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), en þar er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynda af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2010 segir um þetta ákvæði:

Skv. b-lið skal umsókn hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvæðið er samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar er þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning en í frumvarpinu er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpi þessu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Af framangreindu sést að ekki er skýrt frekar um hvaða tímamark er átt við varðandi fjárhag skuldara í þessum ákvæðum. Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns virðist sá skilningur lagður í ákvæðið að fyrir þurfi að liggja glöggar upplýsingar um fjárhag skuldara á þeim tíma sem hann leggur inn umsókn um greiðsluaðlögun, þróun fjárhags hans á greiðsluaðlögunartímanum, sem og hvernig fjárhag skuldara var háttað á því tímabili sem stofnað var til þeirra fjárskuldbindinga sem valda þeim greiðsluerfiðleikum sem hann er í nú.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara er rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. er talið upp í ellefu liðum hvað eigi að koma fram í umsókn um greiðsluaðlögun, auk þess sem henni skulu fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og skattframtöl síðustu fjögurra ára. Skal í umsókn meðal annars greina sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara, upplýsingar um fjárhæð skulda, tekjur og mánaðarleg útgjöld. Einnig er gerð krafa um að umsókn fylgi lýsing skuldara á því hvað hafi valdið skuldastöðu hans og af hverju hann telji sér ekki fært að standa að fullu við skuldbindingar sínar. Af ákvæðinu verður ekki ráðið að umsókn þurfi að fylgja nákvæmar upplýsingar um þróun fjárhags skuldara síðustu árin áður en hann leggur inn umsókn um greiðsluaðlögun. Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum.

Rannsókn á fjárhagssögu skuldara hefur þýðingu bæði við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar. Þó að eitthvað sé óskýrt um það hvernig skuldari fór að því að standa í skilum með skuldbindingar sínar áður en hann lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun, verður ekki séð að það eitt og sér geti leitt til þess að umsókn hans verði hafnað á grundvelli 4. og 6. gr. lge. Eins og hér háttar hefur það út af fyrir sig litla þýðingu að sannreyna hvernig skuldari fór að því að standa í skilum á tilteknu tímabili áður en hann leitaði heimildar til greiðsluaðlögunar nema að því leyti sem háttsemi hans kann að hafa áhrif á núverandi fjárhagsstöðu hans eða þróun hennar til framtíðar. Ef umboðsmaður hefur til dæmis grun um að tekjur hafi verið vantaldar á skattframtali á ákveðnu tímabili eða að meðferð fjármuna X ehf. hafi verið með þeim hætti að þrotabúið geti átt kröfu á kærendur þá getur hann eftir atvikum aflað gagna þar að lútandi eða krafist þess að skuldari geri það.

Í þessu máli er fyrst og fremst óskýrt hvaða áhrif gjaldþrot X ehf. og kærandans A hafa á fjárhag kærenda. Í gögnum málsins er ekkert að finna um hvort og þá að hvaða marki skuldir fyrirtækisins koma til með að falla á kærendur eða hvort skiptum sé lokið. Í gögnum málsins kemur enn fremur fram að A bíði dóms vegna bókhaldsóreiðu í fyrirtækinu en ekkert er frekar að finna í gögnum málsins um þetta atriði. Er ljóst að slík gögn hefðu mun meiri þýðingu þegar kemur að því að meta fjárhagsstöðu kærenda og væntanlega þróun hennar án þess að umboðsmaður hafi gert frekari könnun á þeim þætti eða kallað eftir gögnum þar að lútandi, en það hvernig þau fóru að því að standa í skilum með skuldbindingar sínar á síðastliðnum árum.

Umboðsmaður skuldara segir í svarbréfi sínu, dags. 15. apríl 2011, að ekki hafi verið reynt að sýna fram á með fullnægjandi hætti að yfirdrættir og framkvæmdalán hafi verið notuð til að standa við skuldbindingar skuldara eins og greint sé frá í fylgiskjali með kæru þeirra. Verður að telja að umboðsmaður geri hér of ríkar kröfur til kærenda varðandi gagnaöflun enda vandséð hvaða gögn kærendur gætu lagt fram til að styðja þessa fullyrðingu sína og ekki að sjá að umboðsmaður hafi veitt neinar leiðbeiningar um það atriði.

Í ljósi alls framangreinds er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna umsókn A og B um heimild til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum