Hoppa yfir valmynd
20. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 155 Ofgreiddar bætur

A

gegn


Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi mótt. 30. maí 2006 hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga kærir A endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta ársins 2004.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi dags. 18. janúar 2006 var kæranda tilkynnt að þar sem ekki hefðu borist athugasemdir frá honum við áður kynntan endurreikning Tryggingastofnunar á bótum ársins 2004 stæði niðurstaða endurreikningsins óbreytt sem uppgjör bóta ársins 2004. Samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar voru kæranda ofgreiddar kr. 589.949, að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta, á árinu 2004.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Hefur verið farið yfir beiðni mína hjá samráðsnefnd TR og telur nefndin að ég uppfylli ekki þessa kröfur.. Það get ég enganvegin skilið.

Því mér finst ekki á nokkurn hátt verið tekið tillit aðstæðna minna hvorki fjárhagslega né félagslega. Og greinilegt að þið teljið mig hafa ekki í GÓÐRI TRÚ hafa átt rétt á þessum bótum. Og er það enganvegin rétt

Ég vil enn á ný kæra þennan úrskurð, ég er mjög ósáttur, málið er að ég á fölskyldu sem að ég þarf að sjá fyrir, og skal þó viðurkennast að kanski hafi maður sett sig í of mikla skuldarstöðu en það skulu víst aðrir meta„„„ En svo að ég byrji enn einu sinni lenti ég í vinnuslysi og hlaut 15 % varanlega örorku, ég fór í endurhæfingu á reykjalundi á sínum tíma og stóð til að ég færi aftur en var ekki talið ráðlegt þar sem að ég virtist frekarar versna enn hitt. Fékk ég bætur frá Tr sem að ég amk tel að ég hafi fullan rétt á og tók við þeim í Góðri trú, svo er annað mál að eiginkona mín er öryrki vegna sjúkdóms Lupus,Sjögren og fl fékk blóðtappa 25 ára gömul í h fót og aftur núna á haustdögum. Jæja en því miður þá sá ég að fjölskyldamín gat ekki framfleytt sér á þessum bótum þe að við hjónin bæði bótaþegar , þið ættuð að vita manna best hve háar þær eru, jú ég fékk úr lífeyrisjóð en konan mín á þar lítil réttindi vegna þess hve stutt hún var á vinnumarkaði vegna heilsubrests. Nú auk þess urðu bætur hennar skertar af mínum bótum ( hugsið ykkur) og það stefndi bara í að við gætum ekki borgað okkar skuldbindingar, það var ekki spurning um það hvort að ég GÆTI farið aftur á vinnumarkað heldur VARÐ ég að gera það, það var ekki spurning , málið er að mig langar ekkert til að vera öryrki og tel ég ekki að nokkrum langi til þess, það er mikilvægt að hafa góða heilsu en eftir þetta slys hef ég því miður ekki haft hana, miklir verkir og fl en ég samt sem áður mun halda sjó og reyna að vinna svo lengi sem að ég mun lafa uppi. Ég hef stolt þó svo að heilsa mín sé ekki uppá það best hvorki líkamlega né andlega enn amk mun ég reyna að halda mér og minni fjölskyldu á floti, það er á hreinu.Verð þó að viðurkenn að mér hreinlega langaði til að gefast endanlega upp er ég fékk þessa endurkröfu frá ykkur.“


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 31. maí 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 9. júní 2006. Þar segir m.a.:


„Meginástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2005 vegna tekjuársins 2004 hafði farið fram kom í ljós að launatekjur kæranda á árinu 2004 reyndust hærri en tekjuáætlun vegna 2004 gerði ráð fyrir, og hafði kærandi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um þær tekjur. Samkvæmt tekjuáætlun 2004 var kærandi með 1.908.142 kr. í launatekjur á árinu 2004. Þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali tekjuársins 2004 hafði farið fram kom í ljós að launatekjur hans reyndust nema samtals 4.026.825 kr. á árinu 2004, en ekki hafði verið gert ráð fyrir þeirri hækkun við samtímaútreikning og greiðslu bóta á því ári.


Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. atl. er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar sem verða á tekjum hans á yfirstandandi tekjuári. Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra.


Í þessu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.


Til að auðvelda lífeyrisþegum að fylgjast með bótaútreikningi og meta hvort tilkynna þurfi breytingar hóf Tryggingastofnun í apríl 2004 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðslutilkynninga. Eftir það hefði kærandi því mátt sjá að þær tekjuforsendur sem stofnunin lagði til grundvallar voru ekki alfarið réttar. Ekki liggur fyrir að hann hafi gert neinar ráðstafanir til að koma umræddum tekjuupplýsingum á framfæri.“


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 13. júní 2006 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust 22. júní 2006 og voru þær kynntar Tryggingastofnun.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar endurkröfu ofgreiddra bóta ársins 2004. Var nánar tiltekið um að ræða ofgreiðslu grunnlífeyris, tekjutryggingar og orlofs- og desemberuppbóta til kæranda.


Í kæru kemur fram að kærandi telur tilvik sitt falla undir ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 og segist hafa verið í góðri trú um bótagreiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2004. Kveðst kærandi ekki geta greitt til baka endurkröfu Tryggingastofnunar nú en hann hafi tekið við greiðslum í þeirri trú að hann ætti rétt á þeim, það hafi ekki hvarflað að honum að hann mætti ekki reyna að afla meiri tekna en bætur hafi dugað skammt.


Í greinargerð Tryggingastofnunar er ástæða endurkröfu sögð í aðalatriðum sú að við endurreikning bóta ársins 2004, þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum lá fyrir vegna tekna ársins 2004, hafi komið í ljós að kærandi hafði launatekjur á árinu sem ekki hafi legið til grundvallar við samtímaútreikning bóta. Vísað er til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar sem mæli fyrir um skyldu umsækjanda og bótaþega til að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Ekki liggi fyrir að kærandi hafi gert ráðstafanir til að koma tekjuupplýsingum á framfæri við Tryggingastofnun.


Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis ef við á, svo fremi að samþykki umsækjanda um bætur liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.


Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.


Í 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga kemur fram að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til. Í 2. mgr. 50. gr. er sérregla um tekjutengdar bætur. Þar segir að þær megi eingöngu draga frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við samtímaútreikning og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna.


Við samtímaútreikning og greiðslu bóta á árinu 2004 var lagt til grundvallar að kærandi hefði launatekjur að fjárhæð kr. 1.908.142. Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna ársins 2004 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti þess árs hjá Tryggingastofnun. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda voru launatekjur kæranda á árinu 2004 mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta á því ári, eða kr. 4.026.825. Upplýsingar sem fram komu á framtali kæranda leiddu til þess að kærandi átti engan bótarétt á árinu 2004. Lífeyrir fellur niður þegar tekjur bótaþega ná ákveðnu marki. Á árinu 2004 féll örorkulífeyrir niður þegar tekjur voru kr. 2.768.608 á árinu. Réttur til tengdra bóta, s.s. tekjutryggingar er háður því að réttur til lífeyris sé fyrir hendi. Svo var ekki hjá kæranda og átti hann því ekki neinn bótarétt árið 2004.


Nefndin hefur farið yfir réttindi kæranda á árinu 2004 og er endurreikningur Tryggingastofnunar á bótum kæranda í samræmi við réttindi hans það ár. Úrskurðarnefndin leitaði óformlega eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um fjárhæð endurkröfunnar en hún lækkar ekki þrátt fyrir að tekið sé tillit til staðgreiðslu skatta, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda dags. 18. janúar 2006. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar hafði verið gerð ofgreiðslukrafa á hendur kæranda vegna fyrri mánaða ársins 2005 þegar uppgjör bóta ársins 2004 fór fram, seinni hluta ársins 2005. Hafi staðgreiðsla skatta verið bakfærð vegna þeirra greiðslna og því engin staðgreiðsla staðið eftir til að bakfæra en óheimilt er að bakfæra hærri upphæð staðgreiðslu en greidd hefur verið á því ári sem krafa myndast. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar tekur ríkisskattstjóri upp skattframtal 2005, vegna tekjuársins 2004, án þess að til þurfi að koma beiðni frá Tryggingastofnun. Gæti slíkt leitt til endurgreiðslu á greiddri staðgreiðslu skatta fyrir árið 2004. Kæranda er bent á að fylgjast með því að skattframtal 2005, vegna tekjuársins 2004, verði tekið upp.


Tekjur kæranda reyndust hærri á árinu 2004 en gert hafði verið ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta og var Tryggingastofnun ekki tilkynnt sérstaklega um þessa hækkun tekna innan ársins.


Mál kæranda fékk umfjöllun hjá samráðsnefnd Tryggingastofnunar ríkisins um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna. Var það niðurstaða nefndarinnar að skilyrði niðurfellingar endurkröfu á hendur kæranda væru ekki uppfyllt. Í kæru er þess getið að kæranda hafi ekki verið kunnugt um að hann mætti ekki afla tekna til viðbótar bótagreiðslum frá Tryggingastofnun og hefði hann því ekki tilkynnt um tekjurnar. Kærandi segist þess vegna hafa verið í góðri trú um bótarétt sinn. Kærandi heldur fram vanþekkingu á lögum og reglum og geti hann því ekki talist í vondri trú um bótagreiðslur.


Árlega fá lífeyrisþegar send bréf vegna tekjuáætlana þar sem þeir eru beðnir að áætla tekjur sínar og maka, ef við á, á komandi ári. Ennfremur hóf Tryggingastofnun í apríl 2004 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhliðar mánaðarlegra greiðsluseðla frá stofnuninni. Við mat á því hvort kærandi var í góðri trú er litið til þess hvað hann vissi eða mátti vita um bótarétt sinn. Kærandi mátti vita að bótagreiðslur voru ekki í samræmi við rétt hans þar sem tekjuforsendur á bakhliðum greiðsluseðla voru ekki réttar. Liggur ekki fyrir að kærandi hafi komið leiðréttingum á framfæri við Tryggingastofnun. Úrskurðarnefnd almannatrygginga lítur til þess að það er meginregla samkvæmt almannatryggingalögum að endurkrefja skuli bótaþega hafi honum verið ofgreiddar bætur, sbr. 50. gr. laganna. Undantekningar frá meginreglum skal skýra þröngt. Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins er fjallað um undantekningu frá meginreglunni um endurkröfu ofgreiddra bóta og segir þar orðrétt:


„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“


Að mati nefndarinnar er beiting undantekningarreglunnar ekki heimil nema í sérstökum undantekningartilvikum. Telur nefndin góða trú bótaþega um bótarétt sinn þá ástæðu sem helst veiti svigrúm til að fella niður endurkröfu að hluta eða í heild. Kemur slíkt til skoðunar t.d. þegar mistök verða hjá Tryggingastofnun við útreikning og greiðslu bóta og eins ef bótaþegi glímir við andlega vanheilsu, sé það stutt læknisfræðilegum gögnum að hann hafi, þegar til greiðslu bótanna kom, heilsufars síns vegna verið ófær um að sinna upplýsingaskyldu. Ekki er fram komið í máli þessu að slíkt eigi við um tilvik kæranda. Telur nefndin því ekki annað heimilt en að krefja um ofgreiddar bætur í samræmi við ákvæði almannatryggingalaga um endurgreiðslu ofgreiddra bóta.


Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu á hendur kæranda staðfest.



Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins, að fjárhæð kr. 589.949 á hendur A vegna ofgreiddra bóta ársins 2004 er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum