Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 17 - Skertar bætur

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 9. janúar 2006 til úrskurðarnefndar almannatrygginga kærir A afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á bótagreiðslum ársins 2003.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir að kærandi lét af störfum 31. júlí 2003. Hann naut greiðslna ellilífeyris frá 1. janúar 2003 en tekjutrygging hans og maka var skert það ár vegna launatekna sem kærandi aflaði á árinu, þ.e. frá 1. janúar til 31. júlí 2003. Kærandi taldi slíkt óheimilt og óskaði skýringa Tryggingastofnunar á skerðingunni með bréfi dags. 10. október 2005. Gerði hann einnig athugasemdir við að tekjur maka hans hefðu skert tekjutryggingu þeirra beggja með sama hætti á árinu 2005 en maki kæranda lét af störfum 15. apríl 2005. Í svari Tryggingastofnunar dags. 19. desember s.á. kemur m.a. eftirfarandi fram:


„Þegar mál þitt er skoðað í greiðslukerfi lífeyristrygginga kemur í ljós að þú ert með ákvörðun um ellilífeyri allt frá árinu 2000. Árið 2003 var þér greiddur grunnlífeyrir allt árið, þ.e. skráð eru réttindi til greiðslna alla mánuði ársins þótt um eingreiðslu þeirra hafi verið að ræða í ágúst/september, fyrir liðna mánuði.


[...]


Það sama og að ofan greinir gildir um meðferð tekna eiginkonu þinnar á árinu 2005, þær skerða bætur allra mánuða ársins jafnt. Athygli er vakin á því að tekjutrygging ársins var greidd á grundvelli tekjuáætlunar frá ykkur hjónum. Þegar upplýsingar bárust um að tekjubreytingar hefðu orðið var skráð ný tekjuáætlun og bætur alls ársins endurreiknaðar á grundvelli hennar. Þetta hafði það í för með sér að í júní var greidd út inneign til þín fyrri hluta ársins, þ.e. þá mánuði sem áður voru skertir vegna þeirrar háu tekjuáætlunar sem þá var í gildi.“

Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Forsaga málsins er eftirfarandi: Þann 31.júli 2003, lét ég af störfum hjá B. Tryggingarstofnun ríkisins skerti tekjutryggingu mína og konu minnar, til áramóta 2003/2004, vegna launa sem ég hafði frá 1.1.2003 til 31.7.2003. Með því að jafna launatekjum mínum sem ég hafði haft frá 1.1.2003 til 31.7.2003. á alla mánuði til áramóta.


Sama hátt hafði Tryggingarstofnun á þegar kona mín lét af störfum þann 15.apríl 2005 þ.e. jafnaði launatekjur sem hún hafði frá 1.1.2005 til 15.4.2005, á alla mánuði til áramóta 2005, og skerti tekjutryggingu okkar beggja til áramóta 2005/2006.


Með þessu fyrihögun Tryggingarstofnunar,verður lífeyrisþegi að bíða eftir fullum bótum til áramóta þess árs sem hann hættir störfum,vegna launatekna sem hafði áður en hann hætti störfum. Tökum dæmi: Ef lífeyrisþegi hættir störfum 1. febrúar það ár, þarf hann að láta sér nægja launatekjur sínar til næstu áramóta sér og maka sínum til framfærslu. Ekki lætur Tryggingarstofnun sér nægja að skerða tekjutryggingu þess sem hættir störfum, heldur skerðir hún ennig tekjutryggingu hjá maka, fyrir launatekjur sem maki hans hafði áður en hann hætti störfum. Komið hefur fram að sum tryggingarumboð túlka lög og reglugerðir ekki á þennan hátt. Samkvæmt fyrirspurnum til Tryggingarstofnunar bæði bréflega og símlega virðast þær vera misvísandi. Þegar ég spurðist fyrir um þennan gjörning símleiðis,var mér bent á 5. og 6.gr.reglugerðar um Breytingar á bótagreiðsluársins. En samkvæmt svari ds. 19.12. síðastliðum frá Tryggingarstofnun við bréfi mínu d. s. 10.10. síðastliðnum, vísa Tryggingarstofnun í 5.mgr. 10.gr. laga um almannatryggingar,nr.117/1993. Sérstaklega verð ég að benda á grein í svari Tryggingarstofnunar, þar sem segir:

Ef um er að ræða nýja umsókn um lífeyrir komaþær tekjur sem aflað er áður en sótt er um greiðslur ekki til skerðingar þegar fjárhæð lífeyris er reiknað út fyrir það ár. ?? Ef hér er verið að ýja að því ef viðkomandi verði að hefja töku á lífeyrir (grunnlífeyrir)um leið og hann hættir störfum til þess að ekki skerðist tekjutrygging hans, á því ári? Verð ég að benda á að Tryggingarstofnun hlýtur að vera skylt að benda lífeyrisþega á slíkt, um leið og hann hefur töku á grunnlífeyrir, ef hún túlkar lögin þannig. Skal ég upplýsa að Tryggingarstofnun hvatti mig til þess að hefja töku grunnlífeyris við 67 ára aldurs.“


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 18. janúar 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 30. janúar 2006. Þar segir:

„Í kæru kemur fram að þann 31. júlí 2003 hafi kærandi látið af störfum. Tryggingastofnun hafi þá skert tekjutryggingu sína og eiginkonu sinnar til áramóta 2003/2004 vegna launa kæranda á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2003, þ.e. með því að jafna launatekjum hans á því tímabili á alla mánuði til áramóta. Það sama hafi verið gert þegar eiginkona kæranda lét af störfum 15. apríl 2005, þ.e. Tryggingastofnun hafi jafnað launatekjum hennar á tímabilinu 1. janúar til 15. apríl 2005 á alla mánuði til áramóta 2005 og skert tekjutryggingu beggja til áramóta 2005/2006. Gerir kærandi athugasemdir við þetta fyrirkomulag bótagreiðslna.


Eins og fram kemur í hjálögðu greiðsluyfirliti kæranda vegna ársins 2003 var honum greiddur grunnlífeyrir allt það ár þar sem hann fékk eingreiðslu í ágúst/september vegna þeirra mánuða sem þá voru liðnir af árinu. Samkvæmt því fyrirkomulagi sem nú er mælt fyrir um í 5. mgr. 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, eru bætur nú greiddar á ársgrundvelli á grundvelli áætlunar um tekjur þess árs. Þegar lífeyrisþegi hefur bótarétt allt árið, eins og hér um ræðir, skiptir það því ekki máli í hvaða mánuðum ársins hann aflar tekna þar sem tekjurnar skerða greiðslur allra mánuða með jöfnum hætti. Þetta fyrirkomulag bótagreiðslna byggir á skýrum fyrirmælum 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga sem hljóðar svo:


“Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 2. mgr. 47. gr. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða. Komi í ljós að bætur hafa verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem upp á vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum.”


Fyrirkomulag bótagreiðslna til kæranda á árinu 2003 byggðist á fyrirmælum tilvitnaðs lagaákvæðis. Þá var sami háttur hafður á varðandi meðferð tekna eiginkonu hans á árinu 2005. Með sama hætti var kæranda og eiginkonu hans greidd inneign í júní 2005 sem myndaðist vegna vangreiddrar tekjutryggingar þá mánuði sem þegar voru liðnir af árinu, þegar þau skiluðu leiðréttri tekjuáætlun í maí það ár.


Tryggingastofnun telur því, samkvæmt framansögðu, að fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna til kæranda og eiginkonu hans hafi að öllu leyti farið fram í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga.“


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 31. janúar 2006 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir kæranda bárust þann 13. febrúar 2006 og hafa þær verið kynntar Tryggingastofnun. Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 1. mars 2006. Var þá ákveðið að fresta afgreiðslu málsins og óska eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun. Svar stofnunarinnar barst þann 9. mars 2006 og var það kynnt kæranda. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 29. mars 2006 en afgreiðslu málsins var frestað. Málið var svo tekið fyrir á fundi nefndarinnar 19. apríl 2006.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar lífeyrisgreiðslur til kæranda á árinu 2003 og áhrif launatekna sem kærandi aflaði frá 1. janúar til 31. júlí það ár á bætur frá og með 1. ágúst til ársloka 2003 en kærandi lét af störfum 31. júlí 2003.


Í rökstuðningi fyrir kæru kemur fram að kærandi gerir athugasemdir við að launatekjur hans á árinu 2003, frá 1. janúar til 31. júlí það ár, hafi skert tekjutryggingu hans og maka frá því að hann lét af störfum 31. júlí 2003 og til loka þess árs. Sami háttur hafi verið hafður á þegar maki kæranda lét af störfum 15. apríl 2005, þ.e. að launatekjum hennar sem hún hafði frá áramótum hafi verið jafnaði á alla mánuði ársins og skert tekjutryggingu þeirra beggja til áramóta 2005/2006.


Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið greiddur grunnlífeyrir allt árið 2003. Hann hafi fengið eingreiðslu í ágúst/september vegna þeirra mánuða sem þá hafi verið liðnir af árinu. Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 skuli bætur greiddar á grundvelli áætlunar um tekjur þess árs. Þegar lífeyrisþegi hafi bótarétt allt árið, eins og eigi við um kæranda, skipti ekki máli hvaða mánuði ársins hann afli tekna þar sem tekjurnar skerði greiðslur allra mánuða með jöfnum hætti. Kemur fram að sami háttur hafi verið hafður á vegna tekna maka kæranda. Segir loks í greinargerðinni að Tryggingastofnun telji að fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna til kæranda og maka hans hafi verið að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 10. gr.


Úrskurðarnefndin kannar sérstaklega kærufrest en kæran varðar bætur sem greiddar voru á árinu 2003. Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um hvernig stjórnvald skuli bregðast við því þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Segir orðrétt:


Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.


Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.


Telur nefndin að þrátt fyrir að kærandi hafi, að því er virðist, tekið athugasemdalaust við fyrstu greiðslum frá Tryggingastofnun þá verði ekki litið svo á að kærufrestur sé liðinn. Úrskurðarnefndin hefur óformlega óskað eftir upplýsingum um tilkynningar til kæranda vegna greiðslna og endurreiknings ársins 2003 en ekki virðist skráð hvenær kæranda var kynntur endurreikningur. Verður því ekki séð við hvaða tímamörk skuli miða við útreikning kærufrests. Liggur einnig fyrir að endanlegar afgreiðslur Tryggingastofnunar í fjölda mála vegna endurreiknings 2003 lágu ekki fyrir fyrr en á fyrstu mánuðum ársins 2005. Kæra barst úrskurðarnefnd 9. janúar 2006 og telur nefndin að með vísan til framangreinds verði að ætla að hún sé borin fram innan árs frá því að tilkynnt var um ákvörðun. Að mati nefndarinnar mæla veigamiklar ástæður með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Málið varðar framkvæmd Tryggingastofnunar þegar lífeyrisþegar sækja um eða fá bætur í fyrsta skipti og leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar.


Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins, til grundvallar við útreikning bóta hvers mánaðar. Í 6. mgr. segir svo að ef um nýja umsókn um bætur sé að ræða skuli tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið sé um í 2. mgr. 47. gr. laganna (lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það eigi við). Tekjur síðastliðins árs og þess sem af sé yfirstandandi ári fram að þeim tíma er umsókn barst skuli hafðar til hliðsjónar.


Í reglugerð nr. 939/2003 er mælt fyrir um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar segir í 4. gr. að um almenn skilyrði og útreikning bótagreiðslna fari samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í þeim. Segir svo að Tryggingastofnun beri að áætla væntanlegar tekjur umsækjanda eða bótaþega og maka á bótagreiðsluári.


Með reglugerð nr. 860/2004 um breytingu á reglugerð nr. 939/2003 bættust þrjár nýjar málsgreinar við 4. gr. síðarnefndu reglugerðarinnar. Kom þá inn ákvæði í reglugerðina um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem aflað væri eftir að bótaréttur stofnast þegar um nýja umsókn væri að ræða. Umsókn kæranda og fyrstu greiðslur til hans vegna bótaréttar hjá Tryggingastofnun fóru fram fyrir gildistöku breytingarreglugerðar.


Í 8. gr. reglugerðar nr. 939/2003, eins og hún var fyrir breytingu þá sem gerð var með reglugerð nr. 860/2004, sagði að við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári gilti um staðgreiðsluskyldar tekjur að eingöngu bæri að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur hefði verið fyrir hendi í. Ákvæðinu er því beitt í þeim tilvikum þegar umsókn og bótaréttur fer saman í tíma. Ef um er að ræða einstakling sem verður 67 ára á miðju ári, hættir störfum og sækir þá um bætur hafa launatekjur sem féllu til fyrir þann tíma ekki áhrif á bætur til loka þess árs. Bótaréttur er þá hins vegar ekki til staðar nema hluta úr ári og kemur því hvorki til greiðslu grunnlífeyris né tengdra bóta fyrri hluta ársins, þ.e. þá mánuði ársins áður en viðkomandi uppfyllir aldursskilyrði.


Í svari Tryggingastofnunar við fyrirspurn úrskurðarnefndar í máli þessu kemur fram að stofnunin hafi beitt ákvæði 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 860/2004 (um breytingu á reglugerð nr. 939/2003), þannig að ef um nýja umsókn væri að ræða og bótaréttur ekki fyrir hendi allt árið, væri litið framhjá þeim tekjum sem umsækjandi um bætur hefði haft fram að umsóknardegi og bætur til hans áætlaðar á grundvelli áætlaðra tekna sem féllu til frá umsóknardegi til loka bótagreiðsluárs. Á það því við um þá aðstöðu þegar viðkomandi verður 67 ára á miðju ári.


Í fyrirspurn úrskurðarnefndar til Tryggingastofnunar var ekki sérstaklega vikið að því að þegar einstaklingur sækir ekki um ellilífeyri fyrr en t.d. um sjötugt þegar látið er af störfum, að þá er með vísan til 47. og 48. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar uppi sú staða að bótaréttur viðkomandi er kannaður aftur í tímann. Í tilviki kæranda var aðstaðan sú að honum var synjað um bótagreiðslur vegna tekna þegar hann lagði inn umsókn á árinu 2001. Var hann þá jafnframt hvattur til að koma upplýsingum um breytingar á tekjum á framfæri við Tryggingastofnun. Þegar kærandi skilaði inn tekjuyfirlýsingu í ágúst 2003 var bótaréttur hans kannaður á ársgrundvelli í samræmi við 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 og leiddi það, eins og áður segir, til þess að hann taldist eiga rétt á bótum frá og með janúar 2003. Var það kæranda í hag að bætur skyldu kannaðar frá áramótum í stað þess að bótaréttur hans hefði eingöngu verið kannaður frá og með ágúst 2003, þ.e. þegar hann hafði látið af störfum. Hefði hann í síðarnefnda tilvikinu eingöngu fengið greiddan grunnlífeyri og tengdar bætur frá og með ágúst til og með desember. Tekjutrygging hans þá mánuði hefði þó verið skert vegna launatekna maka og lífeyrissjóðstekna og bætur orðið lægri en þær eru miðað við þann útreikning sem viðhafður var þ.e. að miða við tekjur frá áramótum og deila þeim á alla mánuði ársins og gera ráð fyrir grunnlífeyri og tengdum bótum allt árið. Byggist þetta á því að við útreikning bóta hvers mánaðar ber í samræmi við ákvæði 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, að leggja til grundvallar 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluárs. 1. -2. málsl. 5. mgr. eru svohljóðandi:


Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár.


Sé um að ræða bótarétt allt árið eru allar tekjur ársins lagðar saman og deilt niður á alla mánuði ársins. Kærandi átti rétt á bótum frá og með janúar 2003 þó svo að til útborgunar bóta hafi ekki komið fyrr en í september sama ár. Liggur því fyrir að kærandi var bótaþegi allt árið og skyldu því allar tekjur hans deilast á alla mánuði ársins.


Þegar kærandi lét af störfum kom hann upplýsingum um það á framfæri við Tryggingastofnun, m.a. með tekjuyfirlýsingu. Kærandi átti óumdeilanlega bótarétt allt árið 2003 þar sem hann uppfyllti aldursskilyrði þegar hann lagði inn umsókn til Tryggingastofnunar í september 2001. Hins vegar kom ekki til greiðslna fyrr en á árinu 2003 vegna tekna kæranda. Þegar áætlaðar tekjur ársins lágu fyrir varð niðurstaðan sú að kærandi átti því bótarétt frá og með janúar 2003. Af þeirri ástæðu fékk hann eingreiðslu í ágúst/september þar sem tekjuviðmið leiddu til þess að grunnlífeyrir var greiddur honum og tekjutrygging að því leyti sem tekjur kæranda og maka skertu hana ekki. Framangreint er í samræmi við áðurnefnda 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga.


Kærandi gerir ekki athugasemdir við að hafa fengið greiddan grunnlífeyri frá og með janúar 2003, þ.e. það ár sem hann lét af störfum. Hins vegar gerir hann athugasemdir við að tekjutrygging hans hafi verið skert vegna tekna sem hann aflaði áður en hann lét af störfum. Tekjutrygging greiðist þeim sem eiga rétt á elli-, örorku- og slysalífeyri, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, séu tekjur innan þeirra marka að tekjutrygging falli ekki niður vegna þeirra. Tekjutrygging stendur alltaf í tengslum við rétt til grunnlífeyris eins og fram kemur í 17. gr. laganna. Sá sem ekki á rétt á grunnlífeyri getur ekki átt rétt til tekjutryggingar. Eigi bótaþegi rétt á grunnlífeyri allt árið er réttur hans til tengdra bóta kannaður á sama tímabili og miðast hvort tveggja þá við 1/12 þeirra tekna sem tilheyra almanaksárinu, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993.

Í samræmi við það sem að framan er rakið er afgreiðsla Tryggingastofnunar á bótum til kæranda árið 2003 staðfest.


Í kæru er bæði vikið að meðferð launatekna kæranda á árinu 2003 þegar hann lét af störfum og hjá maka hans við starfslok á árinu 2005. Maki kæranda er ekki aðili að kærumáli þessu en þess skal þó getið að sömu forsendur gilda um bætur til hennar á árinu 2005 og um hefur verið fjallað í tilviki kæranda.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á bótum til A árið 2003 er staðfest.



F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum