Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 276/2003 - Vinnuslys

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir   og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi dags. 20. október 2003 kærir X, hdl. f.h. A til Úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um bótaskyldu vegna slyss.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu um slys dags. 26. júní 2003 tilkynnti B hf. um slys sem starfsmaður þess hefði orðið fyrir 21. mars 2002.  Slys hefði orðið utan vinnutíma/í frítíma og kærandi hefði verið á leið í mat. Bíll sem kærandi var farþegi í hefði runnið til í hálku og hafnað á ljósastaur.  Kærandi leitaði læknis strax eftir slysið.

 

Samkvæmt læknisvottorði dags. 1. september 2003 tognaði kærandi á brjósthrygg og hálshrygg.

 

Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu með bréfi dags. 3. október 2003 þar sem segir:

 

„Samkvæmt slysatilkynningu varst þú farþegi í bíl þegar ökumaður missti stjórn á bílnum. Sbr. lögregluskýrslu varst þú á leið að D [skyndibitastað] við E-braut er slysið varð. Ekki verður talið að ferð þín á D verði jafnað við matstað í skilningi almannatryggingalaga , heldur verður að líta svo á að umrædd ferð teljist til einkaerinda sem fellur ekki undir vinnuslysatryggingu almanna­tryggingalaga.”

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

„  Tjónþoli var á leið heim til sín í matartíma á beinni leið frá vinnustað og var alltaf ekið þessa sömu leið heim til tjónþola í C þ.e. fram hjá D og er það venjuleg leið frá B hf.

   Tjónþoli hafði leyfi vinnuveitanda til að fara heim í hádeginu til að borða.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 24. október 2003.  Barst greinargerð dags. 30. október 2003.  Þar segir:

 

„  Þann 18. júlí 2003 barst Tryggingastofnun ríkisins tilkynning um umferðarslys er A varð fyrir 21 mars 2003. Samkvæmt slysatilkynningu var hún á leið í mat. Í gögnum málsins kemur fram að er slys varð hafi A verið á leið að D við E-braut er hún hafi verið í hléi frá vinnu. Umsókninni var því synjað með bréfi slysatryggingadeildar dags. 3. október 2003 á þeirri forsendu að ekki væri um matstað að ræða í skilningi almannatryggingalaga. Sú ákvörðun er nú kærð.

   Launþegar eru slysatryggðir við vinnu sína samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna telst maður vera við vinnu:

a.   þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar og kaffitímum.

b.   í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

 

   Ennfremur er talið að tildrög slyss verði að hafa verið viðkomandi því starfi sem launþegi sinnir og tryggingagjöld eru greidd vegna.

   Slysatrygging skv. 22. gr. nær þannig til nauðsynlegra ferða á milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar og eru því nauðsynlegar vegna vinnunnar. Ákvæðið hefur verið túlkað svo að með matstað sé átt við matstað á vegum vinnunnar eða í eðlilegum tengslum við vinnu eða heimili viðkomandi. Þau erindi og útúrdúrar sem eru umfram það hafa talist vera einkaerindi viðkomandi og falla því ekki undir vinnuslysatryggingu almannatrygginga.

 

Þess skal getið að í kæru er sagt að A hafi verið á leið heim í matartíma en það stangast á við önnur gögn í málinu. Í lögregluskýrslu er haft eftir A að hún hafi verið á leið að D í hléi frá vinnu og var afgreiðsla stofnunarinnar byggð á þeim upplýsingum. Því var talið að ferð A teldist til einkaerinda er félli ekki undir slysatryggingar almannatrygginga.”

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 3. nóvember 2003 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum.  Slíkt barst ekki.

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar 3. desember 2003 var ákveðið að fresta afgreiðslu málsins og gefa kæranda kost á að leggja fram staðfestar upplýsingar vinnuveitanda, B hf. um það hvernig vinnutíma kæranda hafi verið háttað og hvenær hún hafi átt að ljúka störfum daginn sem slysið varð. Ennfremur var óskað upplýsinga um það hvort kærandi átti kost á að fá mat á vinnustaðnum.

 

Í svarbréfi B hf. dags. 12. desember 2003 segir:

 

„1.  Fastur vinnutími hennar á þessum tíma var frá kl. 12.30-17.00, en þann 21. mars 2002 var áætlað að hún ynni til kl. 22.

2.      Kvöldverðartími var frá kl. 19:30-20:00 og var boðið upp á mat (pizzur) í boði fyrirtækisins.  Ekki var gerð athugasemd við brottför hennar í kvöldverðar­hléinu, frekar en almennt er gert í matarhléum.”

 

Viðbótargögn voru kynnt Tryggingastofnun.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi hafi verið slysatryggð samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar  er hún lenti í umferðarslysi 21. mars 2002.

 

Verður fyrst fjallað um frest til að tilkynna slys til Tryggingastofnunar. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar skal, þegar að höndum ber slys sem ætla má bótaskylt samkvæmt III. kafla laganna, atvinnurekandi eða hinn tryggði, ef ekki er um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust tilkynna um slysið og í síðasta lagi innan árs frá því slysið bar að höndum.  Þeim sem vilja gera kröfu til bóta vegna slyssins ber samkvæmt ákvæðinu að fylgjast með því að tilkynningaskyldunni sé fullnægt.  Heimilt er þó samkvæmt 2. mgr. 23. gr. að greiða bætur samkvæmt nánari reglum sem tryggingaráð setur þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta. 

 

Reglur tryggingaráðs um tilkynningarfrest slysa samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar eru nr. 709/1999.  Í 3. gr. reglnanna segir að skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat  á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða.

 

Slys kæranda sem varð 21. mars 2002 var tilkynnt til Tryggingastofnunar með tilkynningu dags. 26. júní 2003, mótt. 18. júlí 2003.  Það leið því meira en ár frá slysi og þar til tilkynnig barst stofnuninni, en frestur til að tilkynna slys er eins og fyrr segir eitt ár nema í undantekningartilvikum sbr. tilvitnuð lög og reglur.  Undantekningarákvæði ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringar­sjónarmiðum. Ekkert kemur fram í málsgögnum um að Tryggingastofnun hafi fjallað um þetta atriði þ.e. hvort skilyrði undanþágu væru uppfyllt. Í raun virðist sem misskilningur hafi orðið hjá Tryggingastofnun um slysdag þar sem í bréfi og greinargerð stofnunarinnar segir að slysdagur sé 21. mars 2003, en ekki 21. mars 2002.

 

Fyrir liggja ítarlegar skýrslur lögreglu um slysatburð, kærandi leitaði til læknis strax á slysdegi og áverkavottorð læknisins liggur fyrir þar sem fram kemur sjúkdómsgreining og sjúkrasaga. Úrskurðarnefndin sem m.a. er skipuð lækni telur skilyrði til að beita undantekningarreglu 2. mgr. 23. gr. laga nr. 117/1993 sbr. og reglum tryggingaráðs um að víkja frá eins árs tilkynningarfresti í máli þessu.  Því verður málið tekið til efnislegrar meðferðar um bótaskyldu.

 

Kærandi starfaði hjá B hf. er hún slasaðist. Hún hafði farið af vinnustaðnum og var farþegi í bíl sem rann til í hálku og hafnaði á ljósastaur. Slysið átti sér stað um klukkan 19.30. Samkvæmt upplýsingum B hf. var áætlað að kærandi ynni þennan dag til kl 22.00, en kvöldverðartími var milli 19.30 og 20.00. Boðið var upp á mat á vinnustaðnum.

 

Í rökstuðningi með kæru segir að kærandi hafi verið á leið heim til sín í matartíma og hafi ekið fram hjá D á venjulegri leið.

 

Í rökstuðningi Tryggingastofnunar segir að samkvæmt lögregluskýrslu hafi kærandi verið á leið að D í hléi frá vinnu. Ekki sé um að ræða matstað í skilningi almannatryggingalaga. Slík ferð teljist til einkaerinda.

 

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar segir:

 

„ Maður telst vera við vinnu:

a.  þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b.  í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar.  Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.”

 

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 kemur fram að launþegi er tryggður í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, og er þá litið svo á að ferð til og frá vinnustað sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans.  Úrskurðarnefndin telur að ætlan löggjafans hafi verið sú að tryggingavernd næði til þeirrar slysahættu sem fylgir þeim ferðum sem starfsmaður verður að takast á hendur til að sinna vinnunni. Hefur í framkvæmd verið litið svo á að launþegi sé tryggður á beinni og eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar.   

 

Úrskurðarnefndin telur að megin tilgangur slysatryggingar sé að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu og að við beitingu lagaákvæðis verði að áskilja a.m.k. nokkur tengsl ferða við vinnu og framkvæmd hennar.  Þetta megininntak slysatryggingar mæli almennt gegn því að beitt sé lögskýringarkostum sem  leiða til rýmkunar gildissviðs tryggingarinnar fram yfir atvik er eiga sér stað í vinnutíma eða standa að öðru leyti í nánum tengslum við framkvæmd vinnu. 

 

Í bókinni ,,Arbejdsskade forsikringsloven”, eftir Asger Friis og Ole Behn útg. 1997 segir á bls. 207-208 að þar sem mötuneyti sé á vinnustað nái tryggingavernd til slysa sem verða í mötuneytinu eða á leið þangað.

 

Fyrir liggur að þann 21. mars 2002 var boðið upp á mat á kvöldverðartíma á vinnustað kæranda. Engin nauðsyn var því fyrir hana að fara á matsölustað til þess að kaupa sér mat eða heim til sín til að matast. Hún kaus hins vegar að fara af vinnustaðnum. Ferð kæranda telst því hafa verið í einkaerindum og er bótaskyldu hafnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Bótaskyldu vegna slyss A þann 21. nóvember 2002 er hafnað.

 

 

______________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

____________________________                               _________________________

      Guðmundur Sigurðsson                                                       Þuríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum