Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 01070153


Ráðuneytinu hefur borist kæra Óttars Yngvasonar hrl., f.h. eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi og Verndarsjóðs villtra laxa (NASF), dags. 31. júlí 2001, vegna útgáfu starfsleyfis til handa Íslandslaxi hf., vegna fiskeldisstöðvar í Klettsvík við Vestmannaeyjar.



I. Hin kærða ákvörðun


Þann 17. júlí 2001 gaf Hollustuvernd ríkisins út starfsleyfi fyrir fiskeldisstöð Íslandslax hf. í Klettsvík við Vestmannaeyjar. Heimil ársframleiðsla er 1.000 tonn af laxi til manneldis í einni kvíaþyrpingu og gildir starfsleyfið í 3 ár. Drög að starfsleyfinu lágu frammi til kynningar á tímabilinu 17. apríl til 20. júní 2001.



II. Kröfur og málsástæður kæranda


Kærandi gerir þá kröfu að umhverfisráðherra og allir starfsmenn umhverfisráðuneytisins víki sæti í málinu vegna vanhæfis, þar sem ráðuneytið hefur áður kveðið upp úrskurð um matsskyldu fiskeldisins þann 3. júlí 2001. Í þeim úrskurði var staðfest ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. apríl 2001, um að fyrirhugað tilraunaeldi á laxi í sjókvíum í Klettsvík, allt að 1000 tonn á ári, væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.


Efnislega gerir kærandi þá kröfu aðallega, að starfsleyfi Íslandslax hf. frá 17. júlí 2001 verði fellt úr gildi, og til vara að athugasemdir kæranda til Hollustuverndar ríkisins frá 19. júní 2001 verði teknar til greina að öllu leyti.


Í fyrsta lagi heldur kærandi því fram að samkvæmt 16. gr. hafnarreglugerðar fyrir Vestmannaeyjahöfn nr. 377/1985 sé mengandi starfsemi eins og sjókvíaeldi bönnuð. Kærandi telur að framangreind reglugerð geti ekki veitt hafnarstjórninni ráðstöfunarrétt á hafnarsvæðinu nema til reksturs hafnar. Ríkið geti ekki með reglugerð, afsalað sér eignarrétti eða afnotarétti á hafinu og landhelginni utan netalaga, þar sem kvíarnar eiga að staðsetjast, sbr. 40. gr. stjórnarskrárinnar. Að mati kæranda er svæði sjókvíaeldisins í Klettsvík ekki innan marka Vestmannaeyjakaupstaðar.


Í öðru lagi telur kærandi að fyrirhugað tilraunaeldi í Klettsvík feli í sér hættu á erfðamengun villtra laxastofna, þar sem lax geti strokið úr eldiskvíum og blandast hinum náttúrulegu stofnum. Óttast kærandi að verða fyrir tjóni af þessum sökum og gerir fyrirvara um bótakröfur á hendur ríkissjóði vegna þess. Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdaraðila verði í starfsleyfi, gert að taka ábyrgðartryggingu vegna hugsanlegs eignatjóns, sem óviðkomandi þriðji maður kann að verða fyrir af völdum rekstursins.


Að auki gerir kærandi athugasemd við grein 5.5. í starfsleyfinu, þar sem kveðið er á um skyldu Íslandslax hf. til að taka sýni til könnunar á botni á þriggja ára fresti. Í starfsleyfinu segir að niðurstöður þessara mælinga skuli liggja fyrir 1. desember 2001 og 1. desember 2004. Bendir kærandi á að starfsleyfið gildi einungis til 17. júlí 2004 og því sé dagsetningin 1. desember 2004 óeðlileg. Jafnframt telur kærandi að ummæli í greinargerð Hollustuverndar ríkisins með greinum 5.3. og 5.4., um eftirlitsmælingar fimmta hvert ár vera á skjön við þriggja ára leyfistíma.



III. Umsagnir og athugasemdir


1. Almennt


Með bréfum dagsettum 9. ágúst 2001 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum frá Hollustuvernd ríkisins, Veiðimálastjóra, Vestmannaeyjabæ, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Íslandslaxi hf. um framangreinda kæru. Umsögn Hollustuverndar ríkisins barst með bréfi dags. 15. ágúst 2001, umsögn Veiðimálastjóra með bréfi dags. 20. ágúst 2001, umsögn Vestmannaeyjabæjar með bréfi dags. 13. nóvember 2001, umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands með bréfi dags. 5. september 2001 og umsögn Íslandslax hf. með bréfi dags. 3. desember 2001.


Framangreindar umsagnir voru sendar kæranda til athugasemda með bréfi ráðuneytisins dags. 10. desember 2001 og bárust athugasemdir hans með bréfi dags. 27. desember 2001.



2. Staðsetning fiskeldis


2.1. Mengun


Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram að stofnunin telji óæskilegt að matvælaframleiðsla í sjó, svo sem fiskeldi, fari fram á hafnarsvæði, m.a. vegna mengunar fyrir fiskinn og ónæðis frá báta- og skipaumferð. Bendir stofnunin á að í 16. gr. hafnarreglugerðar fyrir Vestmannaeyjahöfn, nr. 377/1985 er almennt fjallað um varnir gegn mengun og óþrifnaði á hafnarsvæðum, og þar er mengandi starfsemi eins og sjókvíaeldi ekki bönnuð. Hafnarstjórn Vestmannaeyja hafi þann 21. september 2000 heimilað Íslandslaxi hf. að hefja sjókvíaeldi í Klettsvík. Sú skylda hvíli á starfsleyfishöfum á hafnarsvæðum að fara eftir þeim réttarreglum sem á slíkum svæðum gilda, þ.á m. 16. gr. hafnarreglugerðar, og eru kröfur í starfsleyfi Íslandslax í Klettsvík í samræmi við þetta ákvæði.


Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram að fyrirhuguð staðsetning eldiskvía í Klettsvík sé innan ytri hafnar Vestmannaeyjahafnar og verði sem slík að teljast síður viðkvæmur viðtaki m.t.t. mengunar. Telur heilbrigðiseftirlitið að ekki sé mikil hætta á mengun afurðanna þar sem fiskurinn sé fluttur lifandi í land og honum slátrað þar. Þá hafi starfsleyfishafa verið gert að fylgjast með mengun bæði í sjónum kringum kvíarnar og botninum undir þeim.


2.2. Umráð yfir hafnarsvæði


Í umsögn Vestmannaeyjabæjar er því hafnað, að sjókvíaeldi sé bannað innan Vestmannaeyjahafnar skv. 16. gr. hafnarreglugerðar nr. 37/1985. Þvert á móti hafi sjókvíaeldi áður verið staðsett þar í gildistíð reglugerðarinnar. Benda bæjaryfirvöld á að hafnarsvæðið sé skýrlega afmarkað í reglugerðinni, sbr. 1. gr., og að fyrirhuguð staðsetning sjókvía Íslandslax hf. í Klettsvík sé án vafa innan þess svæðis. Jafnframt benda bæjaryfirvöld á að skv. 2. gr. reglugerðarinnar sé Vestmannaeyjabær eigandi hafnarinnar og bæjarstjórn fari með stjórn hafnarmála undir yfirumsjón samgönguráðuneytisins. Bæjaryfirvöld hafna því að um framsal á eignar- og afnotarétti á hafinu sé að ræða.


Í umsögn Íslandslax hf. er lögð áhersla á að fyrir liggi skýr heimild hafnarstjórnar til afnota Klettsvíkur í umræddum tilgangi, að því marki sem athafnasvæði eldisins er innan marka hafnarinnar. Bendir fyrirtækið á að samkvæmt úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 3. júlí 2001, þá þurfi að vera fyrir hendi skýr heimild til takmörkunar á heimildum hafnarstjórnar í lögum eða reglugerð, til að unnt yrði að takmarka ráðstöfunarrétt hafnarstjórnar yfir svæði hafnarinnar.


Síðan segir í umsögn Íslandslax hf.:



"Kærandi vísar einnig til vanheimildar í kæru sinni, þar sem látið er að því liggja að ekki liggi fyrir heimild umráðamanns landhelginnar, þ.e. ríkisins, fyrir notum af hafsvæðinu utan netlaga. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að minna á að í 2. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn segir að fullveldisréttur Íslands nái til landhelginnar, hafsbotnsins innan hennar og loftrýmisins yfir henni og að framkvæmd fullveldisréttarins fari eftir íslenskum lögum og ákvæðum alþjóðalaga. Í lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar er ekki að finna ákvæði er snúa að rekstri kvíaeldisstöðva. Þau lög takmarka losun ýmissa úrgangsefna í sjó og leggja viðurlög þar við, en taka ekki til losunar lífræns úrgangs frá kvíaeldisstöðvum. Náttúruverndarlög nr. 44/1999 taka til landhelginnar og efnahagslögsögunnar, en hafa ekki að geyma sérstök ákvæði er lúta að umgengni eða atvinnurekstri í landhelgi. Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 mæla fyrir um forræði forsætisráðherra á leyfisveitingum til nýtingar þjóðlendna, en landhelgin og efnahagslögsagan teljast ekki til þjóðlendna í skilningi þeirra laga. Eftir stendur því að lög nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn mæla svo fyrir að framkvæmd fullveldisréttarins fari eftir íslenskum lögum. Í lögum er mælt fyrir um leyfisveitingaferli vegna kvíaeldis í IX. kafla laga um lax- og silungs[veiði] (innskot ráðuneytisins) nr. 76/1970 og slíkur rekstur er starfsleyfisskyldur skv. lögum um hollustuhætti og mengunareftirlit nr. 7/1998. Telja verður að þar sem löggjafinn hafi mælt á þann hátt fyrir um hvernig leyfi til kvíaeldis skuli háttað, felist í því að kvíaeldi sem uppfylli kröfur fyrrgreindra laga um starfsleyfi og rekstrarleyfi hljóti með því leyfi ríkisins, sem umráðamanns landhelginnar til þeirrar starfsemi. Ekki er því þörf sérstaks leyfis ríkisins til rekstrar kvíaeldis utan netlaga eða marka hafnar, umfram starfsleyfi og rekstrarleyfi þar til bærra stjórnvalda."


Kærandi bendir á það í athugasemdum sínum að skv. 2. tl. 62. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2001, skuli fylgja umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis, skilríki um afnot lands, vatns og sjávar. Samkvæmt þessari grein sé beinlínis gert ráð fyrir því að framkvæmdaaðili leggi fram sérstaka skriflega heimild frá eiganda lands, vatns eða sjávar, hvort heldur einkaaðila, félagi eða ríkinu. Að mati kæranda heimili leyfisveitingaferli laga, sem varða ýmis framkvæmdaatriði, öryggismál og fagþekkingu, ekki afnot lands, vatns eða sjávar, heldur þurfi sérstaka lagaheimild sbr. 40. gr. stjórnarskrárinnar.



3. Erfðablöndun


Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram að stofnunin telur það ekki vera innan starfsviðs stofnunarinnar að fjalla um erfðamengun vegna fiskeldis. Um það fjalli aðrar stofnanir sem lúta yfirstjórn landbúnaðarráðuneytisins. Telur Hollustuvernd ríkisins að hvorki í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, né í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sé að finna heimild til að gera kröfu í starfsleyfi um ábyrgðartryggingar vegna tjóns þriðja aðila af völdum sjókvíaeldis.


Hollustuvernd ríkisins bendir á að aðstæður í Klettsvík gefi tilefni til að aðgæta sérstaklega að styrkleika kvíanna með tilliti til styrkleikaþols. Er í starfsleyfinu sérstaklega kveðið á um að notaðar skuli sjóeldiskvíar og nætur í hæsta gæðaflokki og með hámarksstyrk sem þróaður hefur verið fyrir starfsemina og að gengið skuli tryggilega frá botnfestingum, sbr. grein 4.1. í starfsleyfinu. Jafnframt er kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði 8.1. að áður en starfsemi hefst skuli Íslandslax hf. sýna fram á svo óyggjandi sé, að sjókvíar, vinnu- og fóðrunaraðstaða uppfylli skilyrði 4.1. greinar, ella falli starfsleyfið úr gildi.


Í umsögn Veiðimálastjóra kemur fram að erfitt sé að heimfæra almenna þekkingu varðandi erfðablöndun milli laxastofna á laxeldi í Vestmannaeyjum og í raun ómögulegt að vita hvar lax, sem slyppi út, kæmi fram án tilrauna. Af þessum sökum hafi stofnunin stutt umsókn Íslandslax hf. um tilraunaeldi, sem nauðsynlegan undanfara umhverfismats.


Síðan segir í umsögn Veiðimálastjóra:



"Ljóst er, að hvorki embætti veiðimálastjóra né Veiðimálastofnun mundu fallast á tilraun til laxeldis í Vestmannaeyjum, ef því fylgdi óásættanleg hætta fyrir náttúrulega laxastofna. Í því sambandi má benda á að þriggja ára tilraunatími er mjög stuttur og leyfir í raun ekki eldi á nema tveimur árgöngum af laxi. Áhætta er því í lágmarki en upplýsingar, sem fengjust úr tilraunastarfinu, yrðu ómetanlegar til stefnumótunar fyrir framtíðina."


Veiðimálastjóri bendir á að kvaðir um ábyrgðartryggingu séu ekki lagðar á eldisfyrirtæki í nágrannalöndunum.


Í umsögn Íslandslax hf. er bent á að samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 3. júlí 2001 sé tilraunaeldi Íslandslax hf. ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Af þeirri niðurstöðu megi gagnálykta að ekki séu efni til að fallast á staðhæfingar kæranda um að nánast sé fullvíst að tilraunaeldið endi með ósköpum. Á móti þessum staðhæfingum kæranda mæli jafnframt landfræðileg staðsetning eldisins og fjarlægð þess frá laxveiðiám og öðru eldi. Vísar Íslandslax hf. til fyrri úrskurða umhverfisráðuneytisins um matskyldu eldis á austanverðu landinu og umfjöllun þar um hættu á tjóni þriðja aðila af völdum erfðablöndunar.


Íslandslax hf. mótmælir jafnframt í umsögn sinni, kröfu kæranda um að fyrirtækinu verði gert að taka ábyrgðartyggingu vegna hættu á tjóni af völdum erfðamengunar. Telur Íslandslax hf. að um afar íþyngjandi skilyrði sé að ræða og leggur áherslu á að ekki sé um að ræða meiri hættu á tjóni en gerist og gengur í íslenskum atvinnurekstri. Engin vísindaleg rök bendi til þess að kvíaeldi, með þeim takmörkunum og skilmálum sem gert er ráð fyrir í rekstri Íslandslax hf., geti valdið umfangsmiklu tjóni á villtum laxastofnum.



4. Tímamörk í starfsleyfi


Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram að dagsetningin 1. desember 2004, skv. grein 5.5. í starfsleyfi, sé til komin vegna vöktunar og vísi til þess hvenær niðurstöður mælinga á botnsýnum skuli liggja fyrir. Breyti þar engu þótt starfsleyfið sé runnið út nokkrum mánuðum fyrr. Ummæli í greinargerð um greinar 5.3. og 5.4., þar sem fjallað er um mælingar á fimm ára fresti eru, að sögn Hollustuverndar ríkisins, tilkomin vegna þess að eftirlit með sjókvíaeldi á laxi er í flokki 2, sbr. grein 12.2. í reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit og skal því samkvæmt þeirri grein sæta eftirlitsmælingum fimmta hvert ár.



IV. Niðurstaða


1.


Umsagnir Vestmannaeyjabæjar og Íslandslax hf. í máli þessu bárust ráðuneytinu seint. Af þeim sökum og anna í ráðuneytinu var ekki unnt að kveða upp úrskurð þennan innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.


Þann 3. júlí 2001 kvað ráðuneytið upp úrskurð um matsskyldu sjókvíaeldis Íslandslax hf. í Klettsvík við Vestmannaeyjar, á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þar hafði sami aðili og kærir í máli þessu, kært ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. apríl 2001 um matsskyldu fyrirhugaðs 3 ára tilraunaeldis á laxi í sjókvíum í Klettsvík, Vestmannaeyjum, allt að 1000 tonn á ári. Með úrskurði sínum staðfesti ráðuneytið ákvörðun Skipulagsstofnunar með þeirri niðurstöðu að sjókvíaeldið væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.


Umhverfisráðherra er lögum samkvæmt falið að úrskurða í kærumálum vegna ákvarðana Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og vegna ákvarðana Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda um útgáfu starfsleyfa, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 849/2000 um breytingu á reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, er óheimilt að auglýsa tillögu að starfsleyfi vegna framkvæmda sem taldar eru í viðauka 2 við lög um mat á umhverfisáhrifum, eins og sú framkvæmd sem hér um ræðir, fyrr en ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmdin er matsskyld liggur fyrir. Í 23. gr. reglugerðar nr. 785/1999 segir að í starfsleyfi skuli taka fullt tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Þá segir í 2. mgr. 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt viðauka 2 við lögin fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld.


Þannig gera framangreind lög og reglugerð ráð fyrir því tekin sé afstaða til matsskyldra framkvæmda af hálfu Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra, í þeim tilvikum þegar ákvarðanir eru kærðar, áður en tekin er efnisleg afstaða til útgáfu starfsleyfa.


Með vísan framanritaðs telur ráðuneytið að með úrskurði sínum frá 3. júlí 2001 hafi ráðherra og starfsmenn hans ekki gert sig vanhæfa til að fjalla um kæru í máli þessu. Ráðuneytið telur engar vanhæfisástæður fyrir hendi og gert sé ráð fyrir því í lögum að umhverfisráðherra úrskurði um kærur vegna útgáfu starfsleyfa og ákvarðana um matsskyldu framkvæmda, en um er að ræða tvenns konar og aðskilin ferli eins og að framan greinir sem fjalla um ólíka þætti málsins.


Niðurstaða ráðuneytisins hvað þetta kæruefni varðar var kynnt kæranda með bréfi þann 8. ágúst 2001 og honum tilkynnt að ráðuneytið myndi taka kæruna til efnislegrar meðferðar. Með bréfi þann 11. september 2001 fór kærandi fram á að ráðuneytið endurskoðaði afstöðu sína til kröfunnar og hafnaði ráðuneytið því með bréfi þann 25. september 2001.


2.


Kærandi heldur því fram að samkvæmt 16. gr. hafnarreglugerðar fyrir Vestmannaeyjahöfn nr. 377/1985, sé mengandi starfsemi eins og sjókvíaeldi bönnuð.


Í 2. gr. hafnarlaga nr. 23/1994, er hugtakið höfn skilgreint sem nánar afmarkað svæði þar sem gerð hafa verið mannvirki til lestunar, losunar og geymslu fljótandi fara hverju nafni sem nefnast, enda skal notkun hennar öllum heimil gegn ákveðnu gjaldi. Samkvæmt 13. gr. laganna skal skipulag hafnarsvæðis miðast við þarfir hafnarinnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má engin mannvirkjagerð fara fram á hafnarsvæðinu nema með samþykki viðkomandi hafnarstjórnar. Í 5. gr. laganna er heimild til handa samgönguráðherra til að setja reglugerð m.a. um stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi og um starfs- og valdsvið hafnarstjórnar. Í 1. gr. hafnarreglugerðar fyrir Vestmannaeyjahöfn er hafnarsvæðið afmarkað og er fyrirhuguð staðsetning sjókvíaeldis Íslandslax hf. í Klettsvík innan þeirra marka. Í 1. mgr. 2. gr. hafnarreglugerðarinnar segir að Vestmannaeyjabær sé eigandi hafnarinnar og að bæjarstjórn fari með stjórn hafnarmála undir yfirumsjón samgönguráðuneytisins. Ákvæði um hlutverk og valdsvið hafnarstjórnar eru í 3. gr. reglugerðarinnar, en þar er gert ráð fyrir að hafnarstjórn hafi m.a. umsjón með fjármálum, rekstri, viðhaldi og nýbyggingum hafnarinnar, ákvörðunarvald um rekstur hennar og veiti leyfi til starfsemi á hafnarsvæðinu. Að mati ráðuneytisins gera framangreind laga- og reglugerðarákvæði ráð fyrir því að leitað sé leyfis Vestmannaeyjabæjar fyrir starfrækslu fiskeldisstöðvar innan hafnarinnar.


Í 1. ml. 3. mgr. 16. gr. hafnarreglugerðarinnar segir: "Öllum skipum, farartækjum svo og verksmiðjum og öðrum atvinnurekstri, er stranglega bannað að dæla eða láta renna í höfnina olíu, lýsi, olíusora eða annað sem mengun veldur..." Að mati ráðuneytisins fellst ekki í framangreindu ákvæði bann við því að starfrækja fiskeldi á hafnarsvæðinu, þrátt fyrir að slíkur atvinnurekstur geti haft í för með sér mengun, enda sé sá atvinnurekstur starfræktur með heimild hafnarstjórnar, þ.e. Vestmannaeyjabæjar, og undir eftirliti Hollustuverndar ríkisins í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglur settar samkvæmt þeim.


3.


Kærandi heldur því fram að hafnarreglugerð fyrir Vestmannaeyjahöfn, geti ekki veitt hafnarstjórninni ráðstöfunarrétt á hafnarsvæðinu nema til reksturs hafnar. Ríkið geti ekki með reglugerð, afsalað sér eignarrétti eða afnotarétti á hafinu og landhelginni utan netlaga, þar sem kvíarnar eiga að staðsetjast, sbr. 40. gr. stjórnarskrárinnar.


Hvorki í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir né reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, er gerð krafa um að umsækjandi um starfsleyfi leggi fram skilríki um afnot þess svæðis þar sem starfsemin á að fara fram, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Þessi krafa er hins vegar gerð þegar sótt er um rekstrarleyfi til veiðimálastjóra sbr. 2. mgr. 62. gr. laga um lax- og silungsveiði. Að mati ráðuneytisins var, sérstaklega með hliðsjón af 16. gr. hafnarreglugerðar fyrir Vestmannaeyjahöfn, sem fjallar um mengun á hafnarsvæðinu, sbr. lið 2 hér að framan, eðlilegt að starfsleyfisumsókn Íslandslax hf. til Hollustuverndar ríkisins, fylgdi samþykki Vestmannaeyjabæjar fyrir fiskeldinu. Engin efni eru hins vegar til þess, að mati ráðuneytisins, að Hollustuvernd ríkisins við meðferð starfsleyfisumsóknar, eða eftir atvikum umhverfisráðuneytið, leggi mat á eignarréttarlega heimild landeiganda eða yfirráðamanns lands þar sem atvinnureksturinn á að fara fram, eða ráðstöfunarrétt hans almennt á landinu.



4.


Kærandi gerir þá kröfu að Íslandslaxi hf. verði í starfsleyfinu gert að taka ábyrgðartryggingu vegna hugsanlegs eignatjóns, sem óviðkomandi þriðji maður kann að verða fyrir vegna fiskeldisins.


Ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, setja atvinnurekstri sem haft getur í för með sér mengun ákveðin takmörk. Ákvæði í starfsleyfi um skyldu starfsleyfishafa til að taka ábyrgðartryggingu, væru að mati ráðuneytisins, íþyngjandi og hefðu í för með sér kostnað fyrir starfsleyfishafa. Stjórnvöld geta ekki lagt slíkar kvaðir á einstaklinga eða lögaðila nema fyrir því sé lagastoð. Í 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar er talið upp til hvaða atriða reglugerð um slík starfsleyfi á að taka. Ekki er í framangreindum lögum eða reglugerð að finna heimild til að skylda starfsleyfishafa til að taka ábyrgðartryggingu og hafnar því ráðuneytið kröfu kæranda um slíkt.


Markmið reglna um starfsleyfi skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Með mengun er skv. 5. mgr. 3. gr. laganna átt við það: "...þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta." Hins vegar segir í 3. mgr. 62. gr. laga um lax- og silungsveiði: "Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar skal veiðimálastjóri leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðva." Að mati ráðuneytisins falla því álitaefni er varða hættu á erfðablöndun eldisfisks og náttúrulegra fiskistofna, utan gildissviðs laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og utan starfsviðs Hollustuverndar ríkisins við útgáfu starfsleyfa. Er það hlutverk veiðimálastjóra að meta slíkt við útgáfu rekstrarleyfis, sbr. framangreint ákvæði laga um lax- og silungsveiði.



5.


Kærandi gerir athugasemdir við tímamörk í greinum 5.3., 5.4. og 5.5. í hinu kærða starfsleyfi. Í grein 5.5. er gerð krafa um að niðurstöður mælinga á botnsýnum skuli liggja fyrir eftir að starfsleyfið fellur úr gildi. Í greinargerð með greinum 5.3. og 5.4. er kveðið á um eftirlitsmælingar á fimm ára fresti, þrátt fyrir þriggja ára gildistíma starfsleyfis.


Hvað varðar greinar 5.3. og 5.4. í starfsleyfinu, bendir ráðuneytið á að athugasemdir kæranda beinast að ummælum í greinargerð með starfsleyfinu en ekki að starfsleyfinu sjálfu. Í greinargerðinni vísar Hollustuvernd ríkisins til greinar 12.2. í reglugerð nr. 786/1999, um mengunarvarnareftirlit, þar sem kveðið er á um eftirlitsmælingar fimmta hvert ár. Að mati ráðuneytisins er augljóst að einungis er um skýringu á uppruna framangreindra ákvæða starfsleyfisins að ræða. Í greinum 5.3. og 5.4. í starfsleyfinu sjálfu er skýrt kveðið á um eftirlitsmælingar á 6 mánaða fresti og í lok starfsleyfistíma og því engin efni til að taka til greina athugasemdir kæranda hvað þessar greinar varðar.


Í grein 5.5. er gerð krafa um að niðurstöður mælinga á botnsýnum skuli liggja fyrir eftir að starfsleyfið fellur úr gildi. Ráðuneytið gerir ekki athugasemdir við slíkt fyrirkomulag, enda felur starfsleyfi í sér leyfi til að starfrækja tiltekinn atvinnurekstur í ákveðinn tíma, sbr. skilgreiningu í 15. mgr. 3. gr. og ákvæði 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 og engin ákvæði þeirrar reglugerðar mæla gegn því að niðurstöðum lögmætra eftirlitsmælinga sé skilað eftir að starfsleyfi rennur úr gildi. Þvert á móti getur slíkt verið nauðsynlegt til að tryggja virkt mengunarvarnareftirlit. Ráðuneytið bendir jafnframt á að Íslandslax hf. hefur ekki gert athugasemdir við framangreint ákvæði starfsleyfisins en það er fyrst og fremst íþyngjandi fyrir þann aðila.


Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að taka til greina kröfur kæranda. Starfsleyfi Íslandslax hf., vegna fiskeldisstöðvar í Klettsvík við Vestmannaeyjar, gefið út af Hollustuvernd ríkisins þann 17. júlí 2001 skal því óbreytt standa.



Úrskurðarorð


Starfsleyfi Íslandslax hf., vegna fiskeldisstöðvar í Klettsvík við Vestmannaeyjar, gefið út af Hollustuvernd ríkisins þann 17. júlí 2001 skal óbreytt standa.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum