Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2009 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélagið Vogar: Lögmæti uppsagnar. Mál nr. 58/2009

 

Ár 2009, 18. nóvember er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 58/2009

A

gegn

sveitarfélaginu Vogar

 

I.         Aðild, kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru  dags 27. ágúst 2009 kærði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja f.h. A ákvörðun Heilsuleikskólans Suðurvalla, Vogum, (hér eftir nefndur sveitarfélagið) um uppsögn ráðningarsamnings og er gerð sú krafa að viðurkennt verði að ákvörðunin hafi verið ólögmæt.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

nr. 1.     Stjórnsýslukæra dags. 27. ágúst 2009 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

              Umboð til BSRB v. kæru.

              Fundargerð fundar 29. maí 2009.

              Uppsagnarbréf dags. 29. maí 2009.

              Bréf BSRB dags. 30. júní 2009, beiðni um rökstuðning.

              Bréf leikskóla dags. 3. júlí 2009.

              Bréf BSRB dags. 10. júlí 2009, beiðni um frekari upplýsingar

nr. 2.     Bréf ráðuneytisins til A dags. 28. ágúst 2009, staðfest móttaka kæru.

nr. 3.     Bréf ráðuneytisins til sveitarfélagsins Vogar, óskað umsagnar.

nr. 4.     Umsögn sveitarfélagsins Vogar ásamt uppl. úr starfsmannaviðtali í mars 2009.

nr. 5.     Bréf ráðuneytisins til A dags. 18. sept. 2009, veittur andmælaréttur.

nr. 6.     Andmæli A dags. 8. október 2009.

nr. 7.     Bréf ráðuneytisins dags. 12. október 2009, til A og til sveitarfélagsins Vogar, upplýst um afgreiðslu.

nr. 8.     Bréf sveitarfélagsins Vogar dags. 15. september 2009, móttekið hjá ráðuneytinu 19. okt. 2009, viðbótarumsögn.

nr. 9.     Bréf ráðuneytisins til A dags. 20. okt. 2009, upplýst um viðbótarumsögn.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt A þann 29. maí 2009 og var móttekin hjá ráðuneytinu 28. ágúst 2009. Kæran barst því innan þriggja mánaða kærufrests 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um kæruheimild er vísað til 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og ekki er ágreiningur um aðild.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Í apríl 2006 var A ráðin ótímabundið til starfa hjá Heilsuleikskólanum Suðurvöllum en hún hóf störf þar í febrúar s.á. Leikskólinn er rekin af sveitarfélaginu Vogum. 

Árið 2007 fór A í starfsmannaviðtal en aðila greinir nokkuð á hvað þeim hafi farið þar á milli.   Nýr leikskólastjóri tók við í júní 2008 og gekkst fyrir vinnu m.a. um áhersluþætti „viðurkenndra samskipta“ sem allir starfsmenn sammæltust um að tileinka sér. Þá fór A aftur í starfsmannaviðtal í mars 2009 og aftur ber aðilum ekki fyllilega saman um það sem þar var rætt.

Þann 28. maí 2009 var A boðuð á fund með leikskólastjóra þann næsta dag og þá tjáð að fundarefnið væri möguleg starfslok hennar. Á fundinum 29. maí 2009 voru auk A og skólastjóra leikskólans, bæjarritari og trúnaðarmaður A. Samkvæmt fundargerð var fundarefnið möguleg starfslok A og er bókað að frá því A hóf störf hafi, að mati stjórnenda, fljótlega farið að bera á hörkulegri framkomu við börnin. Margoft hafi verið á það bent að börnum skuli sýnd virðing, umhyggja og hlýja og mikil vinna verið lögð í að innleiða „viðurkennandi samskipti“ á leikskólanum. Þá er bókað að í starfsmannaviðtali í mars 2009 hafi A undirritað yfirlýsingu um að tileinka sér þá þætti en hegðun sé enn í ósamræmi við það. Bókað er að síðustu tvær vikur hafi fjórar kvartanir borist frá foreldrum og þeir lýst yfir áhyggjum yfir „hryssingslegri“ framkomu A við börnin. Litið sé svo á að A hafi fengið mörg tækifæri og tilsögn til að bæta hegðunina en lítið áunnist og því fullreynt að hegðun batni.  Stjórnendur telji því eðlilegt, í ljósi hagsmuna barnanna, að A láti af störfum. Bókað er að starfsmanni sé gefinn kostur á andmælum en hann geti ekki dæmt um hvernig foreldrar upplifa framkomu hans við börnin. Þá er bókað að aðspurður hafi starfsmaður ekki getað lagt mat á eigin framkomu. Að lokum er bóka að endanleg ákvörðun um uppsögn starfsmanns verði tekin í framhaldi fundarins og gerð grein fyrir ákvörðuninni innan skamms.

Með bréfi skólastjóra leikskólans þann sama dag var A afhent uppsagnarbréf þar sem henni var sagt upp störfum með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti og tekið fram að ekki væri óskað vinnuframlags á uppsagnartíma. 

A leitaði aðstoðar stéttarfélags síns sem óskaði eftir rökstuðnings þann 30. júní 2009 þrátt fyrir að frestur samkvæmt stjórnsýslulögum væri liðinn. Í bréfinu er vísað til gr. 11.1.6.1 í gildandi kjarasamningi og þess farið á leit að tilgreint sé hvernig uppsögn A hafi verið í samræmi við það ákvæði og er jafnframt óskað afrits af skriflegri áminningu A sé hún fyrir hendi.

Í svari leikskólastjórans þann 3. júlí 2009 kemur fram að þar sem frestur til að óska rökstuðnings sé liðinn séu einungis veittar almennar upplýsingar um aðdraganda uppsagnarinnar. Er þar vísað til fjögurra kvartana frá foreldrum vegna framkomu A við börnin þar sem hún er sögð hafa komið harkalega fram við þau og sýnt þeim vanvirðingu í samskiptum og eru nánar rakin tvö dæmi þess. Þá er vísað til þess að framkoma A hafi ekki verið í samræmi við markmið og ákvæði barnalaga. Einnig að frá því A hóf störf árið 2006 hafi ítrekað verið gerðar munnlegar athugasemdir við framkomu hennar við börnin og henni leiðbeint um betri aðferðir, í samræmi við „viðurkennandi samskipti“ sem fjalli um hvernig komið skuli fram við börnin. Vegna hagsmuna barnanna á leikskólanum hafi verið ákveðið að segja A upp störfum.

Upplýsingar þessar þóttu ekki fullnægjandi og var því óskað frekari upplýsinga frá sveitarfélaginu með bréfi dags. 10. júlí 2009 enda lögmæti uppsagnarinnar dregið í efa. Vakin var athygli á að ákvörðun um uppsögn sé stjórnvaldsákvörðun sem lúti stjórnsýslulögum. Þá kveði kjarasamningur á um skriflega áminningu sem undanfara lögmætrar uppsagnar auk þess sem óheimilt sé að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. Uppsögn án undangenginnar áminningar sé því ólögmæt nema starfsmaður hafi framið alvarlegt brot í starfi. A telur einnig rannsóknarreglu stjórnsýslulaga brotna og vandséð hvernig andmælaréttar skv. 13. – 15. gr. laganna hafi verið virtur.

A kveðst aldrei hafa orðið vör við óánægju með störf sín fyrr en þegar hún var boðuð á fundinn 29. maí sl. Hún kannist því ekki við munnlegar áminningar eða að hafa verið gefin mörg tækifæri til að bæta hegðun sína enda hafði hún ekki haft vitneskju um að úr nokkru þyrfti að bæta. A gagnrýnir einnig að hafa ekki verið upplýst um kvartanir frá foreldrum fyrir fundinn né að fá lýsingu á því atferli eða athæfi sem var til skoðunar á fundinum og því ekki að sjá hvernig hún hafi átt að gæta andmælaréttar. A telur sig fyrst hafa fengið upplýsingar um efni kvartana með bréfi sveitarfélagsins 3. júlí sl. og hafnar alfarið því að atvikin hafi átt sér stað með þeim hætti sem lýst er. Auk þessa telur A ástæður uppsagnar hafa verið til enda þegar verið ráðið í starf A. Er þess farið á leit að sveitarfélagið upplýsi nánar hvernig skyldur samkvæmt stjórnsýslulögum og kjarasamningi voru uppfylltar en ástæður sem áður hafa verið gefnar geti ekki talist lögmætar ástæður uppsagnar. Ekki liggur fyrir að bréfi þessu hafi verið svarað af hálfu sveitarfélagsins.

Kæra barst ráðuneytinu þann 28. ágúst 2009 þar sem kærð er ólögmæt uppsögn á ráðningarsamningi A. Móttaka kærunnar var staðfest af hálfu ráðuneytisins með bréfi þann sama dag og síðan send sveitarfélaginu Vogum til umsagnar þann 31. ágúst sl. Umsögn sveitarfélagsins barst ráðuneytinu 15. september 2009 og var A gefið færi á að gæta andmælaréttar með bréfi þann 18. september sl. Andmæli bárust síðan 8. október 2009.

Ráðuneytið tilkynnt bæði A og sveitarfélaginu, með bréfi dags. 12. október sl., að fyrirhugað væri að ljúka málinu fyrir nóvemberlok. Ráðuneytinu barst síðan þann 19. október sl. bréf sveitarfélagsins þar sem er að finna viðbótarumsögn um kæruna. Það bréf var sent A til upplýsinga þann 20. október 2009.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekin til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök A

A gerir þær kröfur að viðurkennt verði að uppsögn á ráðningarsamningi hennar hafi verið ólögmæt. Telur A að sér hafi verið sagt upp án undangenginnar áminningar og brjóti það gegn 10. gr., 12. gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Auk þess sé um að ræða brot gegn kjarasamningi Starfsmannafélags Suðurnesja við Launanefnd sveitarfélaga. 

A lýsir málavöxtum með þeim hætti að hún hafi þann 28. maí sl. verið boðuð á fund með leikskólastjóra sem skyldi vera daginn eftir og hafi verið upplýst að fundarefni væri möguleg starfslok hennar og henni boðið að hafa með sér trúnaðarmann. Á fundinum hafi hún verið upplýst um hnökra á framkomu við börnin og að hún hafi fengið mörg tækifæri til að bæta sig en ekkert áunnist. Teldu stjórnendur skólans þar af leiðandi rétt að hún léti af störfum. A kveðst hafa verið brugðið við þetta og því lítið tjáð sig á fundinum. Við annars ágæta fundargerð megi bæta að hún hafi óskað nánari skýringa á tilteknum atriðum en ekki verið svarað. Leikskólastjóri hafi síðan afhent henni uppsagnarbréf um hálftíma eftir að fundi lauk og henni tjáð að hún megi fara.

Ástæðu uppsagnar sé ekki getið í uppsagnarbréfi og hafi hún óskað eftir rökstuðningi þrátt fyrir að frestur 21. gr. stjórnsýslulaganna væri liðinn. Henni hafi borist svar þann 3. júlí sl. um að þar sem fresturinn væri liðinn yrðu einungis veittar upplýsingar um aðdraganda uppsagnarinnar. Í bréfinu komi m.a. fram nánari upplýsingar um efni kvartana foreldra. Bendir A á að það sé fyrst með þessu bréfi að hún fái nánari upplýsingar um á hverju kvartanir voru byggðar. Með bréfi 10. júlí sl. hafi verið óskað eftir nánari upplýsingum um aðdraganda uppsagnarinnar og þá sérstaklega hvernig gætt hefði verið að reglum stjórnsýsluréttarins um rannsóknarskyldu, andmælarétt, meðalhóf og réttmæti auk þess sem þeirri skoðun var lýst að uppsögnin hefði verið ólögmæt og hafnað þeim ávirðingum sem settar voru fram. Þá er lýst þeirri skoðun að ávirðingar um meint brot hafi verið til málamynda enda hún ekki upplýst um rök að baki þeim. Leikskólinn hafi ekki svarað þessu bréfi. 

Sem rök fyrir kröfum sínum tekur A fram að hún sé opinber starfsmaður og fari um réttindi og skyldur hennar samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga við Starfsmannafélag Suðurnesja. Uppsögnin sé af mörgum ástæðum ólögmæt.

A hafi ekki verið kynnt með neinum hætti óánægja stjórnenda leikskólans hvað varðar störf hennar fyrr en þann 29. maí sl. Hún hafi ekki fengið að tjá sig um álitaefnið fyrr en þann sama dag og ákvörðunin var tekin.

Þá hafnar A því alfarið að hafa nokkurn tímann fram að fundinum 29. maí sl. fengið ábendingar um að hún þyrfti að bæta hegðun sína eða störf. Hún hafi hvorki viðhaft þá tilburði sem leikskólastjóri lýsir í bréfinu frá 30. júní sl., þvert á móti hafi hún í einu og öllu unnið samkvæmt reglum og stefnu leikskólans. Bendir A á að leikskólastjóri hafi beðið hana um að taka að sér starf öryggisfulltrúa leikskólans og hafi hún sótt námskeið í því skyni um þremur vikum fyrir uppsögn. Hún hafi því enga ástæðu haft til að ætla að óánægja ríkti um störf hennar heldur leit hún svo á að í beiðninni hafi falist viðurkenning á hæfni hennar til starfa. 

A telur að ákvörðun um uppsögn hafi verið tekin fyrir umræddan fund og leikskólinn því að engu leyti gætt að skyldum sínum eða réttindum við töku ákvörðunarinnar. Rökstuðningur hafi verið enginn og ekki tilgreindar ástæður uppsagnar í uppsagnarbréfi. Enginn fótur sé fyrir staðhæfingum leikskólans um ástæður uppsagnar og þótt svo væri sé ólögmætt að segja henni upp án undangenginnar áminningar.

Þá vísar A til ákvæðis gr. 11.1.6.1. í kjarasamningi sínum þar sem m.a. segi að undanfari uppsagnar sé formleg áminning. A hafi verið tilkynnt munnlega um meint brot í starfi og síðar þann sama dag verið afhent uppsagnarbréf. Þá hafi andmælaréttur A samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga ekki verið virtur þar sem hún hafi einungis fengið tækifæri til að andmæla óljósum ávirðingum á fundinum 29. maí sl. Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi þar af leiðandi heldur ekki verið virt þar sem málsatvik hafi á engan hátt verið nægilega upplýst áður en ákvörðun um uppsögn var tekin. Beri atvinnurekanda skylda til að sjá til að starfsmaður geri sér fyllilega grein fyrir þeim ávirðingum sem hann er borinn til að hann geti gætt andmælaréttar. Að öðrum kosti sé málið ekki nægilega rannsakað og upplýst til að atvinnurekandinn geti tekið ákvörðum um áminningu eða uppsögn, sé brotið það alvarlegt að það heimili fyrirvaralausa uppsögn. Í máli þessu liggi fyrir að A fékk ekki nægar upplýsingar fyrr en eftir að ákvörðun um uppsögn var tekin og lágu hennar sjónarmið og rök því ekki fyrir við töku ákvörðunarinnar. 

Þá vísar A til þess að það sé meginregla í stjórnsýslurétti að ákvarðanir stjórnvalda verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Telur A tilgreindar ástæður uppsagnar einungis vera til málamynda en ekki raunveruleg ástæða vegna þess hve litlar upplýsingar A fékk um það sem lá að baki uppsögn. 

Bendir A á að uppsögn starfsmanns er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun en samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga megi stjórnvald einungis taka slíka ákvörðun þegar lögmætum markmiðum sem stefnt er að verður ekki náð með öðru og vægara móti. Því verði stjórnvaldið að gæta þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þær alvarlegu ávirðingar sem bornar séu á A leiði til að ákvörðunin er sérstaklega í þyngjandi. Þá geri búseta hennar það að verkum að hún á erfitt með að ganga í hvaða starf sem er enda langflest atvinna þar á vegum sveitarfélagsins.

Í andmælum er gerð nánari grein fyrir rökum og sjónarmiðum A, einkum hvað varðar upplýsingar sem A hafði ekki fengið vitneskju um áður.

1.  Nánari reifun og rökstuðningur á ástæðum uppsagnar.

Hvað varðar röksemdir í umsögn sveitarfélagsins um samskipti og framkomu A við börnin bendir A á að fyrrverandi leikskólastjóri hafi aldrei borið meintar athugasemdir upp við A eða rætt um að breyta þyrfti hegðum. Í umsögn sé reifað tilvik þar sem eigi að sýna óviðunandi hegðun A gagnvart tilteknu barni en hún hafni því alfarið að það hafi átt sér stað. 

Því sé ranglega haldið fram að í starfsmannaviðtali hafi fyrrum leikskólastjóri gert athugasemdir við störf A, að einu tilviki undanskildu en það átti sér stað skömmu eftir að A hóf störf og var ekki um starfsmannaviðtal að ræða. Það mál hafi verið rætt en hún hafi ekki fengið neinar ávítur vegna þess. 

Í starfsmannaviðtali 2009 hafi A verið bent á að hún þyrfti að efla frumkvæði en ekki var þar rætt um að hún þyrfti að bæta sig í starfi hvað varðar samskipti við börnin.

A telur sig hafa unnið eftir „viðurkenndum samskiptum“ enda henni eins og öðrum starfsmönnum kunnugt um þau og innleiðingu þess. Hún hafi litið svo á að athugasemdir leikskólastjórans í starfsmannasamtali sem snéru að þessum reglum væru almenns eðlis enda kom ekki annað fram í samtali þeirra. Ekki var beint á nein brot á þessum reglum né var A uppýst um að hátterni hennar væri ekki að skapi stjórnenda.

Hvað varðar þau fjögur atvik sem lýst er í umsögn og foreldrar barna eru sagðir hafa kvartað undan, er þeim öllum alfarið hafnað af hálfu A, hún kannist ekki við að hafa hagað sér með þeim hætti sem þar er lýst. Henni sárni þetta sérstaklega þar sem henni þyki mjög vænt um börnin á leikskólanum og hafi talið sig sinna þeim af alúð og kostgæfni.

Í umsögn sé greint frá því að leikskólastjóri hafi rætt við deildarstjóra A sem hafi sagt að hún hafi orðið vör við álíka framkomu. A dregur þetta mjög í efa þar sem deildarstjóri deildarinnar sem hún var á er karlmaður og hafi honum verið mjög brugðið þegar A sagði honum frá uppsöginni. Hann hafi aldrei fært í tal við A að hún þyrfti að bæta sig í starfi. Þau hafi í raun unnið lítið saman enda sinnt mismunandi og ólíkum verkefnum.

A bendir á að þótt unnt sé að taka saman skriflegar staðfestingar á kvörtunum er snúa að starfi A breyti það því ekki að hún fékk ekki andmælarétt og þar með hafi ekki verið gætt rannsóknarskyldu við töku ákvörðunar um uppsögn. Ávirðingarnar séu nú fyrst að koma fram, í umsögn um stjórnsýslukæru, löngu eftir að ákvörðun um uppsögn A var tekin. A hafi því ekki haft tækifæri til að skýra sína hlið málsins og málið því ekki nægilega upplýst. Meðalhófs hafi heldur ekki verið gætt við töku ákvörðunarinnar þar sem ekki var leitað að aðilum sem hugsanlega gætu hafa orðið vitni að meintum atvikum sem uppsögn var byggð á.

A hafnar alfarið því sem sett er fram í umsögn að starf hennar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði leikskólalaga nr. 90/2008 og barnaverndarlaga nr. 80/2002 eða yfirlýsta stefnu leikskólans og „viðurkennandi samskipti“. Þvert á móti telur A sig hafa unnið starf sitt í fullu samræmi framangreint. A hafi ekki brotið gegn skyldum sínum gagnvart börnunum, foreldrum né samstarfsfólki á neinn hátt. Fráleitt sé að A hafi brotið gegn ákvæðum barnalaga enda lögregla ekki til kölluð vegna meintrar refsiverðar háttsemi A en það hafi leikskólanum borið að gera teldist A hafa gerst brotleg við þau lög.

Um sé að ræða mjög alvarlegar og meiðandi ávirðingar í garð A og virðist leikskólinn ekki reyna að uppfylla rannsóknarskyldu sína eða sýna A þá virðingu að leitast við að upplýsa atvikin t.d. með því að leita að vitnum sem gætu þá staðfest meinta framkomu A eða hreinsað hana af ásökunum. A var heldur aldrei gerð grein fyrir efni kvartana foreldra fyrr en með umsögn sveitarfélagsins í máli þessu. Leiðir af þessu að A telur ljóst að ákvörðun um uppsögn hafi verið tekin fyrir umræddan fund þann 29. maí sl.

Því sé ranglega haldið fram að A hafi verið upplýst um efni fjögurra kvartana 28. maí sl. Hið rétt sé að A var boðuð á fund daginn eftir um möguleg starfslok vegna fjögurra kvartana sem borist höfðu á tveimur vikum. Henni var eingöngu greint frá að meintur „hryssingsskapur“ hennar væri ástæða uppsagnarinnar og gæti hún haft trúnaðarmann með sér. Fundurinn hafi staðið í 40 mínútur og er dregið í efa að sá tími hafi nægt til að gera A bæði grein fyrir öllum ávirðingum sem umsögn ber með sér að hafa verið ástæða uppsagnar og veita henni færi á andmælum. Þá sé fundinum ekki rétt lýst í umsögninni og vísar A til málsatvikalýsingu í kæru hvað það varðar. Það eina sem A hafi verið upplýst um varðandi efni kvartana var að hún hefði verið með „hryssingsskap“ við börnin án þess að það hafi verið skýrt nánar þótt hún hafi óskað eftir því. A hafi þótt mjög erfitt að sitja undir því að fyrirhugað væri að segja sér upp vegna kvartana sem A fékk ekki að vita hvers efnis væru. Þetta ætti að geta fengist staðfest hjá trúnaðarmanni leikskólans.

Þótt A hefði verið gefið færi á að lýsa sínum sjónarmiðum á fundinum þá telur A að það hefði ekki dugað til að andmælaréttur hennar samkvæmt stjórnsýslulögum væri virtur. Þegar um slíkar ávirðingar er að ræða og hér um ræðir verði að gefa viðkomandi sem þær beinast að færi á að meta aðstæður og í kjölfarið andmæla. Algengast sé að starfsmaður fái um viku ráðrúm til þess vegna fyrirhugaðrar áminningar áður en starfsmanni er gert að mæta á fund um málið. Þá á starfsmaður rétt á að skila inn skriflegum andmælum nokkru eftir að fundur er haldinn og þá fyrst getur atvinnurekandi tekið ákvörðun um hvort veita skuli áminningu.

Þá sé það frumskilyrði að starfsmaður geri sér grein fyrir hvað yfirmaður telji ábótavant í starfi hans svo unnt sé að vinna í því að bæta úr í samræmi við framkomnar athugasemdir.  Það hafi ekki verið raunin með A. 

2.  Að hvaða leyti var farið eftir ákvæðum gr. 11.1.6.1. í kjarasamningi

A mótmælir því alfarið að það falli ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins að meta hvort farið var eftir ákvæðum kjarasamnings og vísar í því sambandi til úrskurðar ráðuneytisins í máli nr. 15/2008. Ráðuneytið hafi heimild og því beri skylda til að úrskurða um hvort reglum stjórnsýslulaga, kjarasamninga og ráðningarsamninga, sbr. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga, sé framfylgt þegar teknar eru ákvarðanir um uppsagnir starfsmanna sveitarfélaga, stofnana þeirra eða fyrirtækja.

Þá vill A koma því á framfæri að ráðning starfsmanns í stöðu A var mjög skömmu eftir uppsögnina, hann starfi á sömu deild og hafi sama vinnutíma. 

3.  Reglur stjórnsýsluréttar

Vísað er til umfjöllunar í umsögn er varðar rannsóknarregluna og þar sem vitnað er til ummæla deildarstjóra. A dregur í efa að deildarstjóri hafi með þessu verið að staðfesta ávirðingar foreldra í garð A enda tilvitnaðar staðhæfingar í umsögn í mótsögn við hvor aðra. Þá séu eðlilegar læknisfræðilegar skýringar á því af hverju A var „ör“ á þessu tíma og hafi yfirmönnum leikskólans verið um það kunnugt.

4.  Önnur sjónarmið

A vekur athygli á því að á leikskólastjóranum hvílir ekki eingöngu sú ábyrgð og skylda að gæta að hagsmunum barna leikskólans heldur einnig réttinda starfsmanna sem þar starfa. Ef upp koma atvik sem skarast á þá sé skylt að fara að settum reglum í báðum tilvikum. 

Ávirðingum sem bornar eru á A og taldar eru ástæða uppsagnar er alfarið hafnað og bent á að þótt kvartanir berist leikskólastjóra vegna starfsmanns þá hvílir á honum skylda gagnvart starfsmanninum. Ekki dugi að byggja uppsögn á frásögn eins eða fárra einstaklinga heldur skal rannsaka mál með fullnægjandi hætti og upplýsa starfsmanninn um það og veita honum færi á andmælum, sbr. reglur stjórnsýsluréttar. 

 

IV.  Málsástæður og rök sveitarfélagsins Vogar

Sveitarfélagið telur ákvörðun sína um uppsögn A hafa verið réttmæta og lögmæta. Reglum stjórnsýsluréttarins hafi verið fylgt og ákvörðunin í samræmi við þá grundvallarreglu barnaréttar að ávallt skuli líta til þess sem barninu er fyrir bestu.

Sveitarfélagið færir eftirfarandi rök fyrir máli sínu.

1.  Framkvæmd ráðninga starfsfólks sveitarfélagsins

Vísað er til þess að samkvæmt fyrirmælum 6. gr. leikskólalaga nr. 90/2008 og 2. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sé í 61. gr. samþykkt sveitarfélagsins um stjórn og fundarsköp nr. 123/2005 kveðið á um að forstöðumenn stofnana og deilda ráði annað starfsfólk sveitarfélagsins að fenginni staðfestingu bæjarráðs og að sömu tengsl séu milli aðila hvað varðar veitingu áminninga og uppsagnar. 

2.  Nánari reifun og rökstuðningur á ástæðum uppsagnar

Fljótlega eftir að A hóf störf á leikskólanum fór að bera á að hörkulegri framkomu við börnin og fékk þáverandi leikskólastjóri nokkrar athugasemdir um það frá samstarfsfólki A. Er í umsögninni vísað í ákveðið atvik þessu til stuðnings. Í starfsmannaviðtali 2007 hafi A verið bent á að A þurfi að bæta sig í framkomu við börnin. Ekki var um skriflega áminningu að ræða heldur tilmæli um breytta framkomu. Núverandi leikskólastjóri hafi tekið við í júní 2008 og þá hafist handa við bætt samskipti við börnin. Allir starfsmenn leikskólans hafi tekið þátt í að vinna við nýja námsskrá og mótun „viðurkennandi samskipta“ og sammælst um að tileinka sér þau vinnubrögð.

Í mars 2009 fór fram starfsmannaviðtal og hafi A þar aðspurð talið sér ganga vel að tileinka sér „viðurkennandi samskipti“. Leikskólastjóri hafi hins vegar bent A á að hún þyrfti að bæta sig og hafi A í kjölfarið skrifað undir viljayfirlýsingu um að setja sér það markmið að bæta samskiptin. Skólastjórnendum hafi hins vegar í maí sl. orðið ljóst að það hefði ekki gengið sem skyldi heldur hafi oft orðið að grípa inní aðstæður þar sem A var hávær og hvöss við börnin og geti mikill meirihluti starfsmanna leikskólans staðfest það.

Stjórnendur skólans hafi velt fyrir sér hvort unnt væri að færa A til í starfi en sá möguleiki verið útilokaður þar sem börn eru á öllum deildum leikskólans. Næsta skref væri að taka A í viðtal og veita henni skriflega áminningu og tíma og tækifæri til að bæta sig áður en til uppsagnar þyrfti að koma. Á meðan viðtal var undirbúið hafi framkoma A hins vegar farið versnandi og kvartanir farið að berast frá foreldrum. Eru í umsögn nefnd fjögur dæmi þar sem foreldrar báru upp kvartanir vegna framkomu A gagnvart börnunum. Deildarstjóri A hafi einnig staðfest að hafa orðið vör við slíka framkomu hjá A og foreldrar lýstu.

Sveitarfélagið kveður engin skrifleg gögn til um umræddar áminningar eða kvartanir en sé þess óskað af hálfu ráðuneytisins sé unnt að vinna skýrslu um athugasemdirnar og óska eftir skriflegri staðfestingu frá viðkomandi aðilum. 

Sveitarfélagið vísar til 1. mgr. 2. mgr. leikskólalaga um hvað skuli hafa að leiðarljósi í starfi á leikskólum. Einnig er vísað í 7. gr. um framkomu starfsmanna gagnvart börnunum, foreldrum og samstarfsfólki. Þá er vísað til 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um skyldu þeirra sem sinna börnum að sýna þeim virðingu og umhyggju og að bannað sé að beita börn ofbeldi. Einnig er vísað til 1. og 3. mgr. mgr. 99. gr. laganna sem kveður á um refsiverða háttsemi gagnvart börnum. Sveitarfélagið telur af lýsingu á kvörtunum og tilmælum til A að störf hennar hafi ekki verið í samræmi við nefnd lagaákvæði og yfirlýsta stefnu leikskólans um „viðurkennandi samskipti“. 

Þar sem ásakanir voru alvarlegar og með tilliti til hagsmuna barna á leikskólanum var ákveðið að boða A til fundar til umræðu um hugsanleg starfslok. Áminning hefði einnig komið til greina eftir fundinn hefðu skólastjórnendur talið það fullnægjandi. Til fundarins hafi hins vegar verið boðað með möguleika á uppsögn eftir fundinn. 

A var boðuð í viðtal þann 28. maí sl. og þá greint frá kvörtunum frá foreldrum og efni þeirra. Var hún beðin að íhuga eigin framkomu og boðuð til fundar daginn eftir þar sem fundarefni væri möguleg starfslok hennar. Á fundinum þann 29. maí sl. hafi verið farið yfir óánægju með framkomu hennar og A gefinn kostur á andmælum en hún sagst ekki geta dæmt um hvernig foreldrar upplifðu framkomu hennar við börnin eða lagt mat á eigin framkomu. A hafi í engu mótmæli því sem fram kom eða sýnt viðleitni til að bæta sig. 

Þegar litið væri til framangreindra lagaákvæða, yfirlýstrar samskiptastefnu leikskólans og þess að kvartanir voru farnar að berast frá foreldrum, auk þess sem A hafði ekki brugðist við fyrri tilmælum um breytta hegðum eða sýndi löngun til að bæta úr, hafi leikskólastjóri ekki séð annan möguleika í stöðunni en segja A upp störfum.

3.  Ástæða þess að A var boðið starf öryggisfulltrúa

Umrætt starf felst í að athuga hvort slysagildrur séu á leikskólanum og leiksvæðinu og var A boðið starfið þar sem hún hefur góða yfirsýn yfir það sem betur má fara tæknilega séð. Hafi A verið boðið starfið í apríl sl. og vonast til að með aukinni ábyrgð yrði hún betri starfsmaður. Í maí sl. hafi hins vegar verið ljóst að svo var ekki og þá farið að íhuga hvort veita ætti skriflega áminningu.

4.  Að hvaða leyti var farið eftir ákvæðum gr. 11.1.6.1 í kjarasamningi A

Sveitarfélagið telur úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga ekki ná til að meta hvort farið hafi verið að ákvæðum kjarasamnings heldur eingöngu að taka til skoðunar hvort formreglum sem skylt er að fara eftir hafi verið fylgt. Sé ekki á það fallist tekur sveitarfélagið fram að A hafi ítrekað verið áminnt munnlega vegna framkomu sinnar þótt hún hafi ekki fengið skriflega áminningu eins og gert er ráð fyrir í nefndu ákvæði kjarasamningsins. Uppsögn A hafi verið skrifleg og ástæða ekki tilgreind þar sem hún var talin vera augljós eftir fund aðila en ekki sé lagaskylda til skriflegs rökstuðnings nema þess sé óskað. Telur sveitarfélagið að ákvæðum 20. og 21. gr. stjórnsýslulaga hafi verið fylgt.

Í kjarasamningnum segir að ekki sé heimilt að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. Sveitarfélagið telur ástæðu til að benda á að úrskurðarvald ráðuneytisins nái til formlegra atriða við töku ákvarðana en ekki efnisinnihald og þá einkum atriði sem byggjast á frjálsu mati, séu málefnaleg sjónarmið að baki ákvörðuninni. Telur sveitarfélagið engan vafa á að sjónarmiðin að baki uppsögninni hafi verið málefnaleg enda byggð á þeirri meginreglu barnaréttar að komist skuli að þeirri niðurstöðu sem best samrýmist hagsmunum barnsins og markmiðum barnaverndarlaga að börnum séu tryggðar viðunandi uppeldisaðstæður. 

Sveitarfélagið hafnar því að uppsögn hafi verið til að koma að öðrum starfsmanni enda hafi ekki enn verið ráðið í stöðu A. 

Telur sveitarfélagið ekki vafa á því að ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um uppsögn hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Það eina sem út af beri sé að fyrri áminning hafi ekki verið skrifleg. Kjarasamningurinn setji sveitarfélaginu mjög þröngar skorður að þessu leyti og sé ekki gert þar ráð fyrir að vikið verði frá skilyrði um áminningu þótt framið hafi verið alvarlegt brot í starfi eða nauðsynlegt sé af einhverjum ástæðum að starfsmaður láti þegar af störfum. 

Sveitarfélagið bendir á að A var áminnt vegna hegðunar sinnar án þess að úr væri bætt.  Á tveimur vikum fyrir uppsögn hafi framkoma hennar versnað það mikið að fjórar kvartanir bárust frá foreldrum þar sem þess var óskað að börnin væru ekki í umsjá A. Fyrri tilmæli vegna hegðunar höfðu því ekki haft nein áhrif og á fundinum var ljóst að ekki væri að vænta breytinga á framkomu. Ef áminningarferli hefði verið fylgt hefði A verið áfram við störf og væri það ómögulegt vegna barnanna. Með vísan til fyrrgreindra reglna barnaréttar hafi því sá kostur einn verið að líta fram hjá áminningarferlinu og segja A upp störfum og afþakka vinnuframlag í uppsagnarfresti. 

5.  Meint brot gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993

Andmælaréttur – 13. gr.

Sveitarfélagið telur rangt það sem segir í kæru að A hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að frekari upplýsingum eða svörum um meint málsatvik. Þá sé það ekki rétt að A hafi ekki fengið upplýsingar um ástæður uppsagnar fyrr en eftir að ákvörðunin var tekin. Í viðtali þann 28. maí sl. hafi A verið gerð grein fyrir kvörtunum og sama hafi verið gert á fundinum daginn eftir. Þá hafi A verið gefinn kostur á andmælum. Rétt sé hins vegar að A var ekki gefinn kostur á að skoða gögn í málinu enda engin slík til.

Rannsóknarregla – 10. gr.

Áður en ákvörðun um uppsögn var tekin höfðu borist fjórar kvartanir frá foreldrum vegna framkomu A við börnin. Um það hafi A verið upplýst á nefndum fundi en A ekki gert neinar athugasemdir við það né sett fram neinar spurningar. Það geti trúnaðarmaður A sem sat fundinn staðfest. Þá er alrangt að ákvörðun um uppsögn hafi verið tekin fyrir fundinn. Ljóst hafi verið vegna alvarleika málsins að nauðsynlegt væri að A kæmi með mótrök eða útskýrði sína hlið málsins og sýndi viðleitni til að bæta úr. A hafi hins vegar gert hvorugt og því stóðu eftir kvartanir foreldra og áhyggjur samstarfsfólks. Í kjölfar fundarins hafi því verið ákveðið að segja henni upp.

Meðalhófsreglan – 12. gr.

Sveitarfélagið telur að ekki hafi verið unnt að ná markmiði 2. gr. leikskólalaga nema með því að segja A upp störfum. Það myndi ekki ná því markmiði að veita henni eina áminningu enn enda ljóst að fyrri áminningar höfðu ekki skilað neinu. Ólíklegt var því talið að áminning á ný myndi bæta stöðuna. Hið vægara úrræði, að veita formlega áminningu og aðlögunartíma, myndi leiða til að markmiðum um heilbrigt uppeldisumhverfi væri ekki náð og þá verði einnig að líta til þeirrar meginreglu barnaréttar að komast skuli að þeirri niðurstöðu sem best samrýmist hagsmunum barnsins.

Þá telur sveitarfélagið að ekki hafi verið unnt að færa A til í starfi þar sem öll starfsemi sveitarfélagsins snúist með einum eða öðrum hætti um þjónustu við börn. Rangt sé hjá A að einungis eitt einkarekið fyrirtæki sé í sveitarfélaginu heldur séu þau mörg. Ekki komi heldur til greina að halda A í vinnu með þeim rökum einum að A telji sig ekki geta fundið annað starf á staðnum.

Sveitarfélagið telur sig hafa gætt hófs í ákvörðun sinni um að segja A upp störfum og hafi hún fengið þriggja mánaða uppsagnarfrest. Telur sveitarfélagið að kringumstæður allar hefðu hugsanlega réttlætt brottrekstur án réttinda, þ.e. uppsagnarfrests.

6. Önnur sjónarmið

Sveitarfélagið telur ákvörðun sína um uppsögn A hafa verið réttmæta og lögmæta þar sem fylgt var reglum stjórnsýsluréttar og ákvörðun í samræmi við þá grundvallarreglu barnaréttar að ávallt skuli líta til þess sem sé barninu fyrir bestu. 

Í viðbótarumsögn sinni er því nánar lýst hvernig ráðningu starfsmanns eftir uppsögn A var háttað. Segir þar að þegar mál A kom upp hafi verið búið að ákveða að auglýsa eina stöðu þar sem einn starfsmaður væri að fara í fæðingarorlof um haustið og líklegt að hún kæmi ekki til starfa eftir sumarfrí. Þegar A var sagt upp var tekin ákvörðun um að auglýsa eftir leikskólakennurum án þess að tilgreina hversu marga en ljóst hefði verið að ráða þyrfti a.m.k tvo. Tilmæli hafi hins vegar verið að ráða ekki í starf A þar sem hún var á launum fram í október. Í júlí hafi verið ráðið í stöðu þeirrar sem var á leið í fæðingarorlof og var um tímabundið starf að ræða. Ekki hafi enn verið ráðið í stöðu A og standi það ekki til þar sem von er á starfsmanni úr fæðingarorlofi í janúar n.k. Þá er upplýst að við leikskólann starfi tveir starfsmenn við afleysingar og hafi þeir að einhverju leyti sinnt störfum A. 

 

V.  Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1.  Ráðuneytið telur álitaefni þessa máls vera einkum tvö, annars vegar lögmæti áminningar sem sveitarfélagið telur sig hafa veitt A og hins vegar lögmæti uppsagnar A.

2.  Vegna ummæla í málatilbúnaði sveitarfélagsins um að úrskurðarvald ráðuneytisins takmarkist við athugun á formreglum stjórnsýsluréttar og sveitarstjórnarréttar en ekki mat á því hvort farið hafi verið eftir ákvæðum kjarasamnings vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi.

Úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nær til þess að fjalla um hvort ákvarðanir sveitarfélaga hafa verið teknar á formlega réttan hátt, þ.e. að rétt stjórnvald hafi tekið ákvörðunina og gætt hafi verið að þeim málsmeðferðarreglum sem við eiga hverju sinni. Telur ráðuneytið athugun þess á málsmeðferð ekki afmarkast við stjórnsýslulögin heldur komi einnig til álita aðrar reglur sem segja fyrir um málsmeðferð einstakra mála. Ráðuneytið telur sig hafa heimild til að úrskurða um hvort reglum stjórnsýslulaga, kjarasamninga og ráðningasamninga hafi verið framfylgt þegar tekin er ákvörðun um áminningu og/eða uppsögn starfsmanna sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ekki er því fallist á með sveitarfélaginu að það falli utan úrskurðarvalds ráðuneytisins að fjalla um hvort málsmeðferð sveitarfélagsins var í samræmi við ákvæði kjarasamnings um hvernig haga skal veitingu áminninga og uppsagna. Enda er sú niðurstaða í samræmi við fyrri úrskurð félagsmálaráðuneytisins, sem áður fór með sveitarstjórnarmálefni, frá 13. desember 2004 í máli nr. FEL04060029.

3.   Eins og áður sagði telur ráðuneytið ágreining málsins snúa að því hvort A var veitt áminning með lögmætum hætti. Í því sambandi komi til skoðunar hvort sú aðferð og framkvæmd sem viðhöfð var hjá sveitarfélaginu samrýmist reglum sem um slíkt gilda.

3.1.  Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga er fjallað í 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Segir þar að um þessi atriði fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ákvæðum ráðningarsamninga. 

Um kjör A gilti kjarasamningur starfsmannafélags Suðurnesja við launanefnd sveitarfélaga.  Er þar í gr. 11.1.6.1 fjallað um framkvæmd uppsagna starfsmanna og er ákvæðið svohljóðandi:

„Ef ástæða er talin til að veita starfsmanni áminningu er skylt að gefa honum fyrst kost á að tjá sig um málið.  Óski starfsmaður þess skal það gert í viðurvist trúnaðarmanns.

Ef talið er að fyrir liggi ástæður til uppsagnar sem rekja megi til starfsmannsins sjálfs, er skylt að áminna starfsmanninn fyrst skriflega og veita honum tíma og tækifæri til að bæta ráð sitt áður en gripið er til uppsagnar.

Uppsögn skal ávallt vera skrifleg og óski starfsmaður þess skal rökstuðningur einnig vera skriflegur.

Óheimilt er að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna.“

Samkvæmt þessu bar sveitarfélaginu skylda til að áminna A áður en henni var sagt upp störfum með þeim hætti sem tilgreint er í greininni.

Telur ráðuneytið að í ákvæði þessu felist í fyrsta lagi að skylt sé að veita starfsmanni áminningu sem undanfara uppsagnar, í öðru lagi að áminning skuli vera skrifleg og í þriðja lagi að veita skuli andmælarétt, bæði áður en áminnt er og einnig áður en uppsögn fer fram í kjölfar áminningar. Þessum reglum til viðbótar gilda ákvæði stjórnsýslulaga um meðferð málsins enda áminning stjórnvaldsákvörðun í skilningi þeirra laga. 

Réttur A til að fá upplýsingar um ávirðingar sem leiða til áminningar og að fá að tjá sig um þær, áður en hún er áminnt eða henni sagt upp störfum, byggir því bæði á ákvæði kjarasamningsins og stjórnsýslulögum. Enda er almennt talið eitt það mikilvægasta sem þarf að gæta að áður en gripið er til þess ráðs að áminna starfsmann, og eftir atvikum segja honum upp í kjölfarið, að mál sé nægilega upplýst. Til að svo sé þarf að veita starfsmanni upplýsingar um þau atriði sem eru tilefni áminningar og gefa honum færi á að gera athugasemdir og skýra mál sitt.  

3.2.   Í málinu liggur fyrir að A var boðuð til fundar þann 29. maí með dags fyrirvara og var upplýst að tilefni fundarins væri að ræða hugsanleg starfslok hennar. Ekki var því um að ræða að á fundinum ætti að ræða tilefni áminningar sem hugsanlegan undanfara uppsagnar. Því verði að álykta að áminning, sem undanfari uppsagnar, hafi þegar átt sér stað áður en boðað var til nefnds fundar um möguleg starfslok.

Óumdeilt er í málinu að A barst aldrei skrifleg áminning frá sveitarfélaginu. Enda kemur fram í málatilbúnaði sveitarfélagsins að A hafi verið áminnt munnlega og að sveitarfélagið telji að í tilviki A hafi verið heimilt að víkja frá skilyrði um skriflega áminningu.

Ráðuneytið telur ekki unnt að fallast á með sveitarfélaginu að þær athugasemdir sem gerðar höfðu verið við störf A og lýst er í gögnum málsins jafngildi því að vera skriflegar áminningar í skilningi kjarasamningsins enda er þar kveðið skýrt á um skilyrðislausa skyldu þess að áminning sé skrifleg í tilviki eins og mál þetta fjallar um. Mikilvægi skriflegra áminninga felist enda einkum í því að sá sem áminningin beinist að geti gert sér grein fyrir tilefni áminningarinnar. Einnig skiptir miklu að starfsmanni sé leiðbeint um lagalegt gildi áminningar s.s. að hún geti verið undanfari uppsagnar, sé ekki bætt úr því sem áminnt er vegna. Þá telur ráðuneytið atvik málsins heldur ekki hafa verið með þeim hætti að heimilt hafi verið að víkja frá skýrri skyldu um skriflega áminningu.

Ráðuneytið telur því að A hafi ekki verið áminnt með þeim hætti sem gr. 11.1.6.1. í  kjarasamningi kveður á um að skuli gera sem undanfari uppsagnar og þegar af þeirri ástæðu sé uppsögnin ólögmæt. 

3.3  Þótt ráðuneytið telji uppsögn ólögmæta af framangreindri ástæðu telur það rétt að kanna einnig hvort andmælaréttar hafi verið gætt gagnvart A áður en henni var sagt upp störfum. 

Í þessu sambandi skiptir höfuðmáli að sá sem áminning og/eða uppsögn beinist að fái tækifæri til að gera athugasemdir og skýra mál sitt. Á það bæði við um ávirðingar sem eiga að leiða til áminningar og einnig þegar til stendur að segja starfsmanni upp í kjölfar áminningar. Ekki skiptir endilega máli í þessu sambandi hvort athugasemdir eru settar fram munnlega eða skriflega enda gerir 13. gr.  stjórnsýslulaga ráð fyrir að andmæli séu jafngild í báðum tilvikum. Ef fyrir liggur með skýrum hætti að starfsmaður hafi komið athugasemdum og andmælum sínum á framfæri munnlega, telst andmælaréttar gætt með fullnægjandi hætti, sbr. úrskurð félagsmálaráðuneytisins frá 13. des. 2004, mál nr. FEL04060029.

Réttur A til andmæla byggist bæði á kjarasamningi og 13. gr. stjórnsýslulaga. Bar því sveitarfélaginu að upplýsa A um ávirðingar sem bornar voru á hana vegna starfa hennar og veita A færi á að tjá sig hvort sem var um fyrirhugaða áminningu eða uppsögn.

Eins og áður hefur komið fram var A ekki áminnt formlega, hvorki með skriflegum hætti né munnlega, áður en henni var sagt upp. Þá liggur fyrir að henni voru ekki kynntar ávirðingar sem á hana voru bornar skriflega, áður en henni var sagt upp. Ekki er heldur að finna í gögnum málsins neitt um andmæli og athugasemdir A vegna ávirðinganna fyrr en við meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Telur ráðuneytið ljóst af málatilbúnaði öllum að andmælaréttar hafi ekki verið gætt gagnvart A með þeim hætti sem stjórnsýslulög og kjarasamningur gera ráð fyrir. Enda því haldið fram af hálfu A að henni hafi ekki verið að fullu kunnungt um efni þeirra ávirðinga sem á hana voru bornar fyrr en undir rekstri kærumálsins og því aldrei átt þess kost að tjá sig um þær með fullnægjandi hætti. Ekkert liggur fyrir í málinu sem mælir gegn þessari staðhæfingu A enda telur ráðuneytið það vera sveitarfélagsins að sýna fram að það hafi kynnt henni það sem var tilefni, hvort sem var áminningar eða uppsagnar, með fullnægjandi hætti og veitt henni nægan tíma til andmæla.  

3.4  Að virtu öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að sveitarfélagið hafi ekki gætt réttrar málsmeðferðar við uppsögn A. Byggist það einkum á því að A var ekki áminnt með þeim hætti sem skýrt er kveðið á um í kjarasamningi að gera skuli sem undanfara uppsagnar og ekki veittur andmælaréttur. 

Fær þessi niðurstaða jafnframt stoð í áliti umboðsmanns Alþingis frá 27. nóvember 2002 í máli nr. 3494/2002 þar sem komst var að þeirri niðurstöðu að ef réttra aðferða er ekki gætt  við veitingu andmælaréttar vegna áminningar starfsmanns geti það leitt til ógildi áminningarinnar. Í því máli var reyndar fjallað um ferli áminninga opinbers starfsmanns en sömu meginatriði gilda um starfsmenn sveitarfélaga. Í áliti sínu leggur umboðsmaður áherslu á að af úrlausn dómstóla verði dregin sú ályktun að stjórnvaldi væri skylt að veita starfsmanni hæfilegan frest til að undirbúa andmæli sín. Þegar máli væri þannig háttað að ekki lægi fyrir skrifleg lýsing á ávirðingum sem áminning væri byggð á leiddi það almennt til að gera yrði meiri kröfur til þess að viðkomandi starfsmanni væri tryggður hæfilegur tími til að undirbúa andmæli sín. Þegar starfsmaður fengi fyrst vitnesku um atvikin munnlega á fundi sama dag og áminningarbréf var afhent yrði að líta svo á að hæfilegur frestur hefði ekki verið veittur til andmæla. 

Ráðuneytið telur atvik máls þessa að sumu leyti sambærileg við nefnt álit umboðsmanns.  Fyrir liggur að A var með dags fyrirvara boðuð til fundar til að ræða hugsanleg starfslok, án þess að henni væri þá nægilega gerð grein fyrir ávirðingum sem á hana voru bornar. Á fundinum var A heldur ekki upplýst um þau atriði sem síðar kom fram að leiddu til uppsagnar sem henni var tilkynnt um þann næsta dag. A hafi því sannanlega ekki gefist nægur frestur til að undirbúa andmæli sín og koma þeim á framfæri. 

4.  Eins og áður er rakið telur ráðuneytið að sveitarfélagið hafi ekki veitt A áminningu sem undanfara uppsagar eins og skýrt er kveðið á um í kjarasamningi að gera skuli. Uppsögn A með þeim hætti sem hún var framkvæmd hafi því verið ólögmæt. 

Telur ráðuneytið að ef kjarasamningar kveða á um að skylt sé að áminna starfsmann skriflega áður en honum er sagt upp, þegar ástæðu uppsagnar er að rekja til starfsmannsins sjálfs, er ljóst að starfsmanni verður ekki sagt upp nema hann hafi áður verið áminntur, sbr. bls. 169 í skýringarriti um sveitarstjórnarlögin eftir Sesselju Árnadóttur. Skortur á áminningu með þeim hætti sem segir í kjarasamningi leiðir til að uppsögnin er ólögmæt. Koma því ekki til skoðunar í þessu máli hvort í raun lágu málefnaleg sjónarmið að baki uppsögninni. 

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja f.h. A að ákvörðun Heilsuleikskólans Suðurvalla, Vogum, um uppsögn á ráðningarsamningi sé ólögmæt.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Svanhvít Axelsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum