Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði

25.6.1999


YFIRMATSMENN


samkvæmt lögum um


lax- og silungsveiði nr. 76/1970YFIRMATSGERÐ


á arðskrá fyrir Veiðifélag NorðurárI.


Undirmat. Beiðni um yfirmat


Hinn 2. apríl 1997 luku þeir Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómslögmaður og Gísli Ellertsson bóndi á Meðalfelli mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Vesturlands 26. maí 1995.


Stjórn veiðifélagsins skaut þessu arðskrármati til yfirmats með bréfi 7. maí 1997, sem barst yfirmatsmönnum 13. sama mánaðar. Kemur fram í bréfinu, að tillaga þessa efnis hafi verið samþykkt á aðalfundi félagsins nokkrum dögum áður. Er erindið nægilega snemma fram komið sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970. Þá hefur Jómundur Ólason, Skarðshömrum, sent yfirmatsmönnum bréf 29. maí 1997. Óskar hann einnig endurmats á arðskrá undirmatsmanna, en að erindi hans verður nánar vikið í VII. kafla hér á eftir.


II.


Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.


Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.


Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Norðurár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 2. september 1998 í Hreðavatnsskála. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessara jarða: Glitstaða, Flóðatanga, Munaðarness, Hlöðutúns, Hvassafells, Sveinatungu, Króks, Laxfoss og Einifells, Sólheimatungu, Ferjubakka II, Brekku, Veiðilækjar, Dalsmynnis, Klettstíu, Melkots, Háreksstaða, Litla-Skarðs, Skarðshamra, Hreðavatns, Svartagils, Grafarkots, Fornahvamms, Hóls, Stafholts og Upprekstrarfélags Þverárréttar.


Á fundinum var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt og óskað eftir athugasemdum við formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjir væru. Engar athugasemdir komu fram. Var fundarmönnum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og athugasemdum vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 15. nóvember 1998. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum, í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi eða við vettvangsgöngu: Magnús Kristjánsson vegna Veiðilækjar, Hreðavatns og Svartagils, Sturla Friðriksson vegna Laxfoss og Einifells, Elín B. Magnúsdóttir vegna Sveinatungu, Jósef Rafnsson vegna Melkots, Málfríður Kristjánsdóttir vegna Dalsmynnis, Þórólfur Sveinsson vegna Ferjubakka II, Óli R. Jóhannsson vegna Klettstíu, Sigurður Tómasson vegna Sólheimatungu, Birgir Hauksson vegna Litla-Skarðs, Kristján Daníelsson vegna Hreðavatns, Kristján Axelsson vegna Upprekstrarfélags Þverárréttar, Brynjólfur Guðmundsson vegna Hlöðutúns, Jómundur Ólason vegna Skarðshamra, Sveinn Jóhannesson vegna Flóðatanga, Gunnar Jónsson vegna Króks, Katrín Magnúsdóttir vegna Munaðarness og Davíð Magnússon vegna Hvassafells.


Að loknum fundi og viðtölum voru kannaðar aðstæður við Norðurá. Var það gert með þeim hætti að þrír leiðsögumenn úr stjórn veiðifélagsins, Sigurjón Valdimarsson, Davíð Magnússon og Sveinn Jóhannesson, fylgdu yfirmatsmönnum um svæðið, hinir fyrstnefndu fram á Holtavörðuheiði en sá síðastnefndi um neðri hlutann að árósi. Á fundinum fyrr um daginn var mönnum bent á að þeir gætu sjálfir sýnt yfirmatsmönnum aðstæður fyrir sínum löndum, teldu þeir ástæðu til. Nýttu nokkrir veiðiréttareigendur sér það við vettvangsgöngu.


Eftir þennan fund hafa yfirmatsmönnum borist greinargerðir frá eigendum eða talsmönnum eftirgreindra jarða: Dalsmynnis (með fylgiskjölum), Hreðavatns (með fylgiskjali), Króks (með fylgiskjölum), Laxfoss og Einifells (með fylgiskjölum), Sveinatungu, Veiðilækjar og sameiginleg greinargerð fjórtán veiðiréttareigenda við neðri hluta Norðurár (með fylgiskjali).


Leitað var eftir upplýsingum eða andsvörum nokkurra veiðiréttareigenda í tilefni fram kominna sjónarmiða í greinargerðum, sem yfirmatsmenn hafa fengið. Bárust af því tilefni í mars-júní svör frá talsmönnum Veiðilækjar, Laxfoss og Skarðshamra. Þá var haldinn fundur í Borgarnesi 12. mars 1999 með annars vegar Guðmundi Sigurðssyni, sem mældi bakka Norðurár og hliðaráa og hins vegar Sigurði Má Einarssyni, Veiðimálastofnun. Hinn 15. maí 1999 fóru yfirmatsmenn enn á vettvang til að kanna nánar nokkra staði við Norðurá. Þá hefur verið leitað margs konar upplýsinga hjá stjórnarmönnum í veiðifélaginu.


III.


Um Veiðifélag Norðurár.


Félagið heitir Veiðifélag Norðurár í Borgarfirði og starfar samkvæmt samþykkt nr. 443/1996, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 30. júlí sama árs. Kom hún í stað eldri samþykktar nr. 324/1973.


Í 3. gr. núgildandi samþykktar segir að félagssvæðið sé "fiskihverfi Norðurár, frá sýslumörkum á Holtavörðuheiði til óss þar sem hún fellur í Hvítá, að Gljúfurá undanskilinni." Samkvæmt 4. gr. eru félagsmenn ábúendur eða eigendur allra jarða, svo og eigendur eyðijarða auk formanns Upprekstrarfélags Þverárréttar, sem eigi veiðirétt í Norðurá. Síðan segir að þessar jarðir eigi lönd að félagssvæðinu: Ferjukot, Ferjubakki I, Ferjubakki II, Ferjubakki III, Sólheimatunga, Svignaskarð, Haugar, Munaðarnes, Stóra-Gröf, Grafarkot, Litla-Skarð, Laxfoss, Hreðavatn, Brekka, Hraunsnef, Desey, Hvassafell, Dalsmynni, Klettstía, Hreimsstaðir, Dýrastaðir, Hvammur, Sanddalstunga, Fornihvammur, Afréttarland, Sveinatunga, Krókur, Háreksstaðir, Hóll, Hafþórsstaðir, Skarðshamrar, Glitstaðir, Svartagil, Veiðilækur, Einifell, Arnarholt, Hlöðutún, Stafholt, Svarfhóll, Melkot og Flóðatangi.


Samkvæmt 2. gr. samþykktarinnar er félagið stofnað í þeim tilgangi að gera laxveiði í Norðurá sem arðbærasta. Tekur félagið til allrar veiði á félagssvæðinu. Skal tilgangi félagsins náð með því að selja ána á leigu til stangarveiði og koma í veg fyrir allar aðrar veiðiaðferðir nema að því er varðar klakfisk. Silungsveiði er heimil eigendum veiðiréttar á tilteknu svæði neðst í ánni utan samningstíma leigutaka eftir nánari ákvörðun stjórnar og veiðimálstjóra.


Í 10. gr. samþykktarinnar er svofellt ákvæði: „Arði af sameiginlegri veiði skal skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá, sem lögmætur fundur hefur samþykkt. Um gildistíma og endurskoðun fer eins og segir í lögum um lax- og silungsveiði. Kostnað af starfsemi félagsins skulu félagsmenn greiða í sama hlutfalli, sem þeir taka arð."


Fyrir yfirmatsmenn hefur verið lagt ljósrit aðalfundar veiðifélagsins 11. júní 1972. Þar var samþykkt samhljóða tillaga um að „hlutur þeirra jarða, sem nú bætast í veiðifélagið verði aldrei minni en nú er, 23,85%. Verði breyting á verði þeirra tilraunastanga, sem nú eru leigðar í ánni, breytist hlutfallið í samræmi við það." Að þessu atriði verður vikið sérstaklega í VII. kafla hér á eftir.


Þá hafa yfirmatsmenn fengið í hendur tvær arðskrár fyrir Veiðifélag Norðurár, sem báðar eru í gildi. Er önnur samkvæmt undirmati, dags. 20. (eða 21. - óljóst) desember 1978, og gildir fyrir svokallað efra svæði. Er þar miðað við skiptingu 10.000 eininga samtals. Hin er samkvæmt yfirmati, dags. 15. júní 1973 og gildir fyrir svokallað neðra svæði, en þar er miðað við skiptingu 1000 eininga samtals.


IV.


Leigusamningur um veiði.


Veiði í Norðurá hefur um árabil verið á hendi leigutaka, en ekki veiðiréttareigenda sjálfra. Hafa yfirmatsmönnum borist gögn um leigu árinnar frá árinu 1985 til og með 1999. Sami aðili, Stangaveiðifélag Reykjavíkur, hefur haft alla laxveiði í ánni á leigu þessi ár og reyndar mun lengur. Umsaminn leigutími hefur oft verið þrjú ár í senn, en um leigugjald hefur verið samið sérstaklega fyrir eitt ár hverju sinni á því árbili, sem gagna nýtur um. Greiðslur fyrir leigu veiðihúss og tækja hafa verið sérstaklega tilteknar auk þess sem leigutaki hefur tekið þátt í kostnaði vegna upptöku neta í Hvítá. Þá hefur jafnframt verið samið um skiptingu ýmiss annars kostnaðar, svo sem um gerð og viðhald veiðimannavega og nýtt veiðihús á efsta hluta veiðisvæðisins.


Núgildandi samningur milli veiðifélagsins og leigutakans er frá 29. janúar 1997 og viðbótarsamkomulag 26. ágúst sama árs. Síðast umsaminn leigutími er fyrir árin 1998 - 2002. Seld er á leigu öll laxveiði í Norðurá og að auki hliðarám á efsta hluta veiðisvæðisins frá og með Sanddalsá. Samið er um lágmarksgreiðslu (25.550.000 krónur fyrir 1998), en tilgreindur hluti þess er fyrir afnot veiðihúsa og annars búnaðar leigusala. Tekjur af sölu veiðileyfa umfram tiltekna fjárhæð skulu á því ári skiptast með nánar umsömdum hætti milli samningsaðila. Með samkomulagi 14. október 1998 var samið um leigugreiðslur vegna ársins 1999. Er þar gengið út frá sölu veiðileyfa, sem verði ekki lægri en 40.524.000 krónur, sem myndi skila veiðifélaginu 34.650.000 krónum „miðað við fulla sölu", eins og þar segir.


Leyft er að veiða með allt að 15 stöngum í einu í Norðurá og að auki með 2 stöngum á neðsta hluta veiðisvæðisins.


V.


Gögn til afnota við matsstörfin.


Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:
 1. Beiðni um yfirmat (áður getið) 2. Arðskrármat undirmatsmanna 2. apríl 1997 3. Dómkvaðning undirmatsmanna 26. maí 1995 4. Bréf nokkurra veiðiréttareigenda, stjórnar veiðifélagsins og Héraðsdóms Vesturlands fyrri hluta árs 1995 varðandi beiðni um nýtt arðskrármat og dómkvaðningu (sbr. VII. kafla hér á eftir) 5. Samþykkt fyrir Veiðifélag Norðurár frá 1996 (áður getið) 6. Tvær arðskrár fyrir Veiðifélag Norðurár frá 1973 og 1978 (áður getið) 7. Fundargerð aðalfundar Veiðifélags Norðurár 11. júní 1972 og stjórnar veiðifélagsins 13. október 1995 varðandi gerð arðskrármats 8. Leigusamningar um Norðurá (áður getið) 9. Veiðimannakort af Norðurá með merktum veiðistöðum 10. Þrjú handrituð blöð um landlengd jarða með Norðurá, ódagsett (eldri mæling) 11. Mæling Guðmundar Sigurðssonar á landlengd jarða með Norðurá og ellefu hliðarám, dags. 10. maí 1996 og síðari leiðrétting G. Sig., dags. 19. febrúar 1997 12. Samantekt undirmatsmanna á veiði í Norðurá 1978 - 1995, dags. 19. sept. 1996 13. Samantekt á veiði í Norðurá 1996 - 1998 (bæði ár meðtalin, Ársskýrslur SVFR) skipt á veiðistaði og tíma 14. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (getið í II. kafla að framan) 15. Bréf undirmatsmanna til yfirmatsmanna 2. október 1998 16. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til undirmatsmanna vegna: Króks (með fylgiskjölum), Upprekstrarfélags Þverárréttar, Laxfoss og Einifells (með fylgiskjölum), Dalsmynnis (með fylgiskjölum), Klettstíu, Hóls, Flóðatanga, Sveinatungu, Litla-Skarðs, Hreðavatns, sameiginleg greinargerð vegna Arnarholts, Hlöðutúns og Munaðarness (með fylgiskjölum), Hvamms og Hlöðutúns (með fylgiskjölum). Í nokkrum tilvikum bárust fleiri en ein greinargerð eða bréf vegna sömu jarðar 17. Bréfaskipti vegna Bjarnadalsár, ágúst - september 1995 og júní - september 1997 18. Veiðimálastofnun: Mat á hrygningar- og uppeldisskilyrðum í vatnakerfi Norðurár í Borgarfirði, febrúar 1997 19. Loftljósmyndir af félagssvæði veiðifélagsins (Norðurá og hliðarár) 20. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Veiðilækjar 22. febrúar 1999 varðandi veiðistaðinn Eyrina, svarbréf 14. mars sama árs, bréf eiganda Einifells 10. mars með ljósmyndum um sama efni og bréf yfirmatsmanna til framangreindra veiðiréttareigenda 24. mars 1999. 21. Orkustofnun: Rennsli í Norðurá og þverám hennar, 20. febrúar 1997. 22. Bréf yfirmatsmanna til eiganda Skarðshamra 12. apríl 1999 og svarbréf 26. maí sama árs. 23. Tvö bréf eiganda Laxfoss 18. júní 1999 með upplýsingum um gerð laxastiga í Laxfossi og veiðirétt í Nikulásarkeri. 24. Veiðimálastofnun: Rannsóknir á Norðurá 1998, júní 1999. 25. Hafdís Hauksdóttir: Fiskvegir á Íslandi, Hvanneyri apríl 1999.


VI.


Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.


Þess er áður getið, að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum. Verða jafnframt tilfærð eftir þörfum viðhorf, sem birtast í greinargerðum til undirmatsmanna.


Laxfoss og Einifell:


Eigandi jarðanna hefur lýst sjónarmiðum sínum ítarlega varðandi það, til hvers beri að líta við skiptingu arðskrár. Hefur hann gert það bæði munnlega og í skriflegum greinargerðum til yfir- og undirmatsmanna. Í meginatriðum eru þau þessi:


Laxafjöldi á veiðistað sé eitt út af fyrir sig ekki einhlítur mælikvarði við skiptingu arðskrár. Verði jafnframt að taka tillit til þess, hvenær skráður lax er veiddur. Ef litið sé til verðskrár SVFR sé ljóst, að verð fyrir selda stöng á dag í júní-júlí sé hátt, en þá sé einkum veitt fyrir neðan Laxfoss og nokkuð milli fossa. Verð fyrir stöng í ágúst og september sé mun lægra, en þá megi búast við veiði ofan Glanna. Verðmæti veiði síðsumars sé því ekki sambærilegt við verðmæti þeirrar veiði, sem seld sé fram á mitt sumar. Besta matið á verðgildi árinnar verði því fengið með því að leggja til grundvallar útleiguverð hvers stangardags á hinum ýmsu svæðum.


Um þennan þátt bendir nefndur veiðiréttareigandi jafnframt á að fögur náttúra milli fossa og neðan Laxfoss dragi til sín veiðimenn, sem eyði mun lengri tíma þar en á efri svæðum. Sóknartími, þ.e. sá tími, sem dvalið er við veiðar á einhverjum stað, sé því enn einn mælikvarði á gildi veiðisvæða, jafnvel þótt ekki sé unnt að mæla hann í veiddum löxum. Þótt þessi mælikvarði sé erfiður í mati sé þessi þáttur ekki síður þýðingarmikill borið saman við það, sem mælanlegt sé með áþreifanlegum aðferðum.


Meðal fylgiskjala er matsgerð frá 1936, þar sem metin voru veiðiréttindi fjögurra jarða á þessu svæði við ána þegar eigendur þeirra leystu til sín veiðirétt jarðanna, sem frá þeim hafði verið skilinn. Óskar eigandi Laxfoss og Einifells eftir að matið verði notað til viðmiðunar nú, þar sem veiði hafi ekki breyst hlutfallslega á þessu svæði neðan Laxfoss frá því það var gert.


Í greinargerðunum er jafnframt fjallað sérstaklega um Laxfoss og Glanna, sem áður hindruðu fiskför en gera ekki lengur. Segir m.a. að í óþökk sinni hafi veiðimöguleikar verið færðir frá svæðum neðan fossa og fyrir það hafi engar bætur fengist. Kemur fram, að Laxfoss hafi verið sprengdur nokkrum sinnum og í hann settur fiskvegur, enda þótt fossinn hafi áður alltaf verið allvel laxgengur. Núverandi laxastigi sé frá 1992 og allur í landi Laxfoss. Þegar foss er sprengdur sé það gert til að færa upp fyrir fossinn þann lax, sem annars hefði hrygnt neðan hans og gæti veiðst þar sumarlangt. Þarna sé um eignatilfærslu að ræða, og mætti taka tillit til þessa hugsanlega tjóns við endurgerð arðskrár. Munnlega kom fram á fundi með yfirmatsmönnum að fyrstu framkvæmdir við Laxfoss, sem að þessu hafi miðað, hafi verið gerðar árið 1930. Ítarlegri upplýsingar um aðgerðir til að greiða fyrir fiskför upp fyrir fossinn bárust yfirmatsmönnum frá eiganda Laxfoss í júní 1999. Þar kom jafnframt fram að þáverandi eigandi jarðarinnar greiddi fyrir upptöku netalagnar Stafholtskirkju í Nikulásarkeri neðan Laxfoss árið 1934.


Fram kemur að eigandi nefndra jarða er ósáttur við að allur afli á veiðistaðnum Eyrinni skuli í undirmati talinn til Veiðilækjar. Telur hann þennan lax að miklu leyti veiddan í landi Einifells, þar sem fiskur taki agnið iðulega neðan merkjalækjar milli jarðanna. Veiðistaðurinn sé á mörkum milli jarðanna og mætti gefa Einifelli helming þeirrar veiði. Leitað var eftir andsvörum talsmanns eigenda Veiðilækjar af þessu tilefni, sbr. hér á eftir.


Að því er varðar bakkalengd er lýst því viðhorfi, að óhæft sé að nota hana til að bera gildi smákvísla uppi á heiði saman við gjöful veiðisvæði á miðsvæði árinnar. Til að fá raunhæfara mat á þennan þátt matsins mætti e.t.v. gefa bakkalengd misjafnt vægi eftir því hvar í ánni er. Að einhverju leyti mætti þá miða við vatnsmagn, sem hjá bakka rennur, en einnig fjölda laxa sem veiðist á svæðinu. Séu skoðaðar tölur um bakkalengd úr mælingu 1996 sjáist að helmingur árinnar sé ofan Króks. Unnt sé að teygja ána endalaust upp á heiðar og með því að mæla smærri lænur þar mætti enn auka hlutfall bakkalengdar á svæðinu. Sé jafnt vægi lagt á alla bakka árinnar gæti farið svo að afréttarland og Fornihvammur ættu meirihluta arðs árinnar, sem sé fjarstætt.


Eigandi Laxfoss og Einifells víkur loks að því, hvernig hann telji að uppeldis- og hrygningarskilyrði eigi að hafa áhrif á skiptingu arðskrár. Er í því sambandi fjallað um skýrslu Veiðimálastofnunar (sbr. lið nr. 18 í V. kafla að framan) og komist að þeirri niðurstöðu, að í skýrslunni sé uppeldisskilyrðum laxaseiða gert of lágt undir höfði á tilteknum svæðum fyrir landi Laxfoss og Einifells. Einnig er bent á að Hrauná renni í Norðurá úr Hreðavatni og einnig renni fjöldi linda í hana undan hrauninu. Komi fram í skýrslunni að ekki hafa farið fram athugun á Hrauná. Telur nefndur veiðiréttareigandi því vafasamt að leggja mikið upp úr skýrslunni við gerð arðskrár. Leitað var munnlega umsagnar sérfræðings Veiðimálastofnunar vegna þessarar gagnrýni, sbr. XII. kafla hér á eftir.


Því er lýst að vatnið efst í ánni hafi nokkurt gildi, þótt ekki veiðist þar. Þar geti til dæmis verið framleiðsla á fæðu og uppeldi fyrir seiði. Hins vegar sé vatn á efri og hærri hluta árinnar mun kaldara en neðar í henni. Gróðurframleiðsla sé því minni og seiðavöxtur hægari. Þar sé einnig meiri hætta á grunnstingli og seiðadauða en neðar í ánni. Sé því vafasöm bót að því að hleypa laxi upp á efra svæði árinnar. Það, að fossarnir séu nú ekki sú hindrun sem var, hafi leitt til þess að uppeldissvæði neðar í ánni séu nú vannýtt. Loks er nefnt, að veiðifélagið láti árlega sleppa seiðum ofan Glanna, sem hafi enn orðið til að minnka gildi náttúrulegs eldis.


Sveinatunga:


Talsmaður jarðarinnar hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri bæði munnlega og skriflega. Gagnrýnir hann hvernig einstakir þættir eru látnir vega í undirmati. Telur hann veiði vera gert þar allt of hátt undir höfði (64%), en bakkalengd (16%) og uppeldis- og hrygningarskilyrði (16%) að sama skapi vera vanmetin. Eigi þetta sérstaklega við um hið síðastnefnda, en jafnframt sé ljóst að bakkalengd þveráa og Norðurár ofan Leitisfossa sé of lágt metin. Engin skynsamleg rök séu fyrir því að meta veiði svo hátt, sem gert hafi verið, en veiði sé algerlega háð öðrum þáttum, þ.e. lengd veiðivatns, vatnsmagni og uppeldisskilyrðum.


Þá er gagnrýnd sú aðferð undirmatsmanna að leggja til grundvallar alla laxveiði úr ánni allt viðmiðunartímabilið 1978 - 1995. Á þessum árum hafi orðið veruleg breyting á fiskgengd. Fiskvegir hafi verið gerðir og gangi lax nú mun fyrr upp á efri svæðin. Þá hafi miklu magni seiða verið sleppt þar. Veiði hafi hlutfallslega aukist ofan fossa, og megi ætla að sú hlutfallsaukning haldi áfram. Geti liðin ár, einkum löngu liðin ár, því tæpast haft áreiðanlegt forsagnargildi um skiptingu veiði í framtíðinni. Sé sanngjarnt að taka tillit til þess við yfirmatið.


Sérstaklega er fjallað um seiðasleppingar á efra svæðinu, svo sem í Hellisá. Ef viðurkennt sé að góð hrygningar- og uppeldisskilyrði á efra svæðinu geri Norðurá að betri veiðiá sé eðlilegt að álykta að þau beri að meta hærra en gert hafi verið.


Í greinargerð til undirmatsmanna eru ábendingar varðandi veiðistaðina Snagafit og Skógarnef og hver hlutdeild Sveinatungu eigi að vera í þeim. Ekki er að þessu vikið í málatilbúnaði gagnvart yfirmatsmönnum, en fyrir liggur í undirmatsgerð hvernig matsmennirnir skiptu afla á þessum veiðistöðum milli einstakra veiðiréttareigenda (Sveinatunga - Hvammur - Krókur). Er samkvæmt því litið svo á að ekki sé óskað endurskoðunar á þessu atriði af hálfu Sveinatungu.


Hvammur:


Í bréfi talsmanns jarðarinnar til undirmatsmanna er fjallað um nokkra veiðistaði, þ.á.m. Skógarnef og Hólsey, og hlutdeild Hvamms í þeim. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við yfirmatsmenn um niðurstöðu undirmatsmanna varðandi þetta atriði. Er litið svo á að ekki sé óskað endurskoðunar á þessu atriði af hálfu Hvamms.


Hóll:


Talsmaður jarðarinnar lýsti ekki sérstaklega sjónarmiðum sínum gagnvart yfirmatsmönnum. Í bréfi til undirmatsmanna var hins vegar lýst afstöðu til eignarréttar að veiðistöðunum Brekkustrengjum og Hólsey. Engin athugasemd hefur komið fram við niðurstöðu undirmatsmanna um þetta. Er litið svo á, að ekki sé óskað endurskoðunar á þessu atriði af hálfu eiganda Hóls.Krókur:


Eigandi jarðarinnar hefur ítarlega lýst sjónarmiðum sínum um skiptingu arðskrár fyrir yfirmatsmönnum, bæði munnlega og skriflega. Að auki liggja fyrir bréf og greinargerðir til undirmatsmanna.


Þeirri afstöðu er lýst, að jarðir ofan Glanna hafi lengi mátt búa við skarðan hlut vegna þess að gerð fiskvega í fossum hafi verið dregin óeðlilega lengi. Eftir tilkomu laxastiga í Glanna 1985, sem hafi tekist mjög vel, hafi nýting árinnar gjörbreyst og dreifing veiði orðið allt önnur. Verði að líta til þess, að nálægt helmingur viðmiðunartímabils undirmatsmanna á veiði (1978-1995) sé fyrir tilkomu laxastigans. Hlutfall veiði í undirmati sé of hátt, bæði af þessari ástæðu og vegna samanburðar við aðrar ár, þar sem þetta hlutfall sé víðast lægra. Að auki sé veiði iðulega ekki bókuð svo nákvæmlega sem skyldi á veiðistaði. Að sama skapi sé hlutfall bakkalengdar of lágt, en í arðskrám annarra veiðifélaga sé það hærra. Hið sama eigi við um uppeldis- og hrygningarskilyrði, enda liggi fyrir trúverðug rannsókn á þeim þætti málsins.


Áréttuð eru sjónarmið, sem ítarlega var lýst fyrir undirmatsmönnum, að Krókur eigi veiðirétt fyrir landspildu, sem seld var Upprekstrarfélagi Þverárréttar 1924 úr landi Króks og nær frá afréttargirðingu framan Króks að Hellisá. Telur þessi veiðiréttareigandi óljóst, hvernig farið hafi verið með rétt til veiði fyrir þessu landi í arðskrám fram til þessa. Varðandi þetta atriði liggja fyrir tvö bréf stjórnarmanna upprekstrarfélagsins, sem staðfesta rétt Króks til veiði á þessu svæði. Enginn ágreiningur er því til staðar að þessu leyti.


Í bréfum og greinargerðum til undirmatsmanna er fjallað um nokkra veiðistaði, þ.e. Hellisármót, Bakkastrengi, Snagafit og Brúarhyl. Í greinargerð til yfirmatsmanna var ekki hreyft athugasemdum við niðurstöðu undirmatsmanna um rétt til veiði á þessum stöðum, en munnlega var nánar skýrt að lax gengur í Sanddalsá í flóðum og hvar veiði þar sé skráð. Er ekki litið svo á að endurskoðunar sé óskað af hálfu eiganda Króks að þessu leyti.


Afréttarland:


Athygli yfirmatsmanna var vakin á því munnlega, að eigandi þessa lands ætti langan bakka að veiðivatni, allt frá Hellisá að mörkum félagssvæðisins, sem taka yrði sanngjarnt tillit til við skiptingu arðskrár. Uppeldis- og hrygningarskilyrði þar gæfu tilefni til hins sama, sbr. skýrslu í lið nr. 18 í V. kafla að framan. Hækkun, sem fengist hafi með undirmati, sé eðlileg.


Klettstía:


Athugasemdir voru sendar undirmatsmönnum varðandi veiðistaðinn Landengjaodda og er ekki fram komin ósk um endurskoðun á niðurstöðu undirmats um það atriði. Þá var samtímis gerð sú athugasemd við mælingu landlengdar að Búðardalsá hafi ekki verið mæld, en hún skipti löndum Klettstíu og Hreimsstaða.


Dalsmynni:


Talsmaður jarðarinnar lýsti viðhorfum sínum fyrir yfirmatsmönnum munnlega og skriflega. Að auki liggja fyrir bréf sem beint var að undirmatsmönnum auk skrifa, sem farið hafa milli þessa veiðiréttareiganda, stjórnar veiðifélagsins og veiðimálastjóra.


Jörðin á land að Norðurá. Gagnvart undirmatsmönnum var lýst viðhorfum um hvernig skipta beri veiði úr Skarðshamrafljóti og Heyvaði. Þau sjónarmið eru hin sömu og síðar voru lögð til grundvallar í undirmati. Er litið svo á að ekki sé óskað endurskoðunar á undirmati að því leyti.


Sú sérstaða, sem einkum er lýst af hálfu Dalsmynnis, lýtur að hliðaránni Bjarnadalsá. Lax mun ganga í hana í vatnavöxtum síðsumars eða á haustin. Áin hefur ekki fylgt með í leigusamningum við SVFR, en eigendur nýtt veiði sjálfir. Ekki munu vera til skýrslur um veiði í Bjarnadalsá. Mótmælir þessi veiðiréttareigandi því að Dalsmynni sé í veiðifélaginu að því er Bjarnadalsá varðar og vill hafa sérstakt veiðifélag um ána. Að öðrum kosti verði tekið eðlilegt tillit til framlags hennar, sem sé mikilvægt, einkum að því er varðar seiðaframleiðslu.


Litla Skarð:


Í munnlegum athugasemdum talsmanns jarðarinnar kom fram, að rök skorti fyrir lækkun, sem varð á hlutdeild Litla Skarðs í arðskrá með undirmati. Ítrekuð var áður fram komin ábending til undirmatsmanna um að jarðeigandi hefði sjálfur með vegarlagningu kostað bætt aðgengi veiðimanna að veiðistöðum fyrir landi jarðarinnar. Það nýtist í raun einnig eigendum Einifells og Grafarkots. Þá var einnig bent á að veiðihúsið sé á landi þessarar jarðar, sem eðlilegt sé að tekið sé tillit til við skiptingu arðskrár nú.


Hreðavatn:


Tveir talsmenn jarðarinnar lýstu hvor fyrir sig munnlega sjónarmiðum sínum fyrir yfirmatsmönnum. Fram kom sú skoðun að taka ætti tillit til fallegs umhverfis milli fossa, sem veiðimenn sæktust eftir að njóta. Því var einnig lýst að veiði væri bönnuð bæði neðan Glanna og ofan hans, þ.e. á milli Berghyls og Kletthólmastrengs. Það bann næði til lengra svæðis í ánni en krafist væri samkvæmt landslögum, og eðlilegt að taka tillit til þessarar kvaðar við skiptingu arðskrár. Var um þetta vísað til árlegrar söluskrár SVFR, þar sem bannsins væri getið. Varðandi hlutdeild Hreðavatns í arðskrá var þess loks getið, að veiði milli fossa hefði minnkað verulega eftir að laxastigi hefði verið settur í Glanna 1985. Hefði Hreðavatn lækkað nú í undirmati mest allra jarða. Væri nauðsynlegt að bæta veiðiréttareigendum á þessu svæði tjón, sem laxastiginn hefði leitt af sér fyrir þá.


Í greinargerð til undirmatsmanna var tekið fram, að bæta ætti í arðskrá eigendum jarðarinnar þá kvöð, sem landslög setja á veiði ofan og neðan Glanna. Einnig var þar fjallað um nýja mælingu landlengdar, en í því efni yrði að líta til þess að mældar hefðu verið hliðarár, sem sumar hverjar yrðu mjög vatnslitlar í þurrkum. Að auki væru þar hindranir og hitastig lágt. Gildi slíkra hliðaráa væri því í raun ekkert utan þess að flytja vatn til Norðurár. Þá hefði mæling verið þannig gerð, að allar kvíslar hafi veri mældar sérstaklega og bakkalengd fyrir sumum jörðum þannig allt að tvöfölduð. Í raun sé það ekki kostur heldur ókostur að áin kvíslast í ekki stærra vatnsfalli en Norðurá er í stað þess að renna í einum farvegi. Þá þurfi að fá skýringar á mælingu kvísla, sem taldar séu renna í kringum Desey og Hrauney.


Í þessari greinargerð var vikið sérstaklega að veiðistöðunum Breiðunni og Svuntu og hlutdeild Hreðavatns í þeim. Ekki hefur verið hreyft athugasemdum við yfirmatsmenn um niðurstöðu undirmatsmanna varðandi þetta og er litið svo á að ekki sé óskað endurskoðunar að því leyti.


Veiðilækur og Svartagil:


Talsmaður þessara jarða lýsti munnlega viðhorfum sínum fyrir yfirmatsmönnum. Má um það vísa til þess, sem áður er rakið varðandi Hreðavatn og sjónarmiða, sem teflt var fram fyrir þá jörð.


Í bréfi annars talsmanns Veiðilækjar til yfirmatsmanna var gerð sú athugasemd, að verði einingar færðar af miðsvæði Norðurár til efsta svæðisins, þurfi einnig að meta neðsta svæðið, sem til þessa hafi verið samið um að héldi sínum fasta hlut, 23,85%. Ef heimilt sé að neðsta svæðið sé með fastan hlut megi spyrja, hvort ekki sé einnig heimilt að miðsvæðið héldi sínum föstu einingum. Leggur hann til að annað hvort verði allt vatnasvæði árinnar metið eða henni skipt í þrjú svæði, sem síðan skipti sínum einingum innbyrðis.


Í skriflegu svari til yfirmatsmanna vegna framkominna sjónarmiða eiganda Einifells um veiðistaðinn Eyrina er því mótmælt, að sú jörð eigi nokkurt tilkall til veiði á þessum stað. Var jafnframt vísað til dóms Hæstaréttar 1941, bls. 311 í dómasafni réttarins, þar sem skorið hafi verið úr deilu um landamerki jarðanna. Sú niðurstaða hafi verið í samræmi við kröfur þáverandi eiganda Veiðilækjar.


Skarðshamrar:


Frumkvæði að nýju arðskrármati kom frá eiganda þessarar jarðar, sbr. bréf hans til stjórnar Veiðifélags Norðurár 20. mars 1995. Hann hefur einnig óskað yfirmats, sbr. áður. Að þeim þætti málsins verður nánar vikið í VII. kafla hér á eftir.


Auk þess að eiga land að Norðurá tilheyrir lítill hluti Bjarnadalsár einnig Skarðshömrum. Eigandi jarðarinnar lýsti munnlega þeirri afstöðu sinni við yfirmatsmenn að hann væri sammála talsmanni Dalsmynnis um að Bjarnadalsá ætti að vera utan arðskrármats fyrir Norðurá. Hann greindi jafnframt frá þeim veiðistöðum í Norðurá, sem tilheyra Skarðshömrum, og kostum þeirra. Í yfirmatsbeiðni var bent á að jörðinni hafi í undirmati ekki verið talin öll landlengd hennar að Norðurá.


Fjórtán jarðir við neðri hluta Norðurár:


Í III. kafla hér að framan er getið samþykktar aðalfundar Veiðifélags Norðurár 11. júní 1972, þar sem samþykkt var tillaga um að „hlutur þeirra jarða, sem nú bætast í veiðifélagið verði aldrei minni en nú er, 23,85%."


Yfirmatsmönnum hefur borist greinargerð, undirrituð af eigendum eða talsmönnum eigenda fjórtán jarða við neðri hluta Norðurár. Um er að ræða allar jarðir á svokölluðu neðra svæði árinnar, sem eru: Munaðarnes, Haugar, Svignaskarð, Sólheimatunga, Ferjukot, Ferjubakki I, Ferjubakki II, Ferjubakki III, Flóðatangi, Melkot, Svarfhóll, Stafholt, Arnarholt og Hlöðutún. Í greinargerðinni er vísað til þess, að fram til 1972 hafi á neðra svæði árinnar verið stunduð veiði með net og stöng, eftir því sem aðstæður leyfðu. Veiðiréttareigendur þar hafi óskað þess að stofna sérstakt veiðifélag fyrir neðra svæðið, en þeirri málaleitan hafi verið hafnað. Þess í stað hafi þeim verið gert að ganga í Veiðifélag Norðurár, sem ekki hafi þótt góður kostur án einhverrar tryggingar á arðshluta. Fullur skilningur hafi verið á sérstöðu svæðisins innan veiðifélagsins, og því hafi verið samþykkt samhljóða á aðalfundi 1972 sú ályktun, sem að framan er getið. Hafi samþykktin verið virt að fullu, enda sé hún forsenda fyrir því að félagsheildin haldist. Krefjast þessir fjórtán veiðiréttareigendur þess að samþykkt sú, sem gerð var um hlut neðra svæðisins í arði af Norðurá þegar Veiðifélag Norðurár komst í núverandi mynd, verði að fullu virt.


Auk þessarar sameiginlegu greinargerðar hafi nokkrir framangreindra veiðiréttareigenda tjáð sig munnlega við yfirmatsmenn. Voru þar helst höfð uppi þau sjónarmið, sem að framan eru rakin. Var jafnframt vikið að mælingu á landlengd, sem ekki er þó vefengd og auk þess haldið fram að uppeldisskilyrði seiða væru góð frá Norðurárbrú að árósi vegna mikils gróðurs í árbotni þar. Þá kom fram að undirmatsmönnum hafi ekki verið falið að skipta arðskrá að nýju innan svæðisins. Að því er varðar Munaðarnes sérstaklega var lýst þeirri skoðun að stangarveiði þar væri vannýtt. Megi þar meðal annars um kenna að veiðihús, þar sem veiðimönnum sé ætluð aðstaða, sé í landi Hvamms og þar með fjarri neðsta svæðinu.


Í greinargerð eiganda Flóðatanga til undirmatsmanna er að finna nokkrar upplýsingar um veiði í net meðan sú veiði var stunduð til og með ársins 1971. Þá sendu eigendur Arnarholts, Hlöðutúns og Munaðarness undirmatsmönnum sameiginlega greinargerð. Þar segir meðal annars að í samantekt á veiði séu ellefu laxar taldir á Hábrekknavaði, sem liggur frá vegslóða í landi Arnarholts og Hlöðutúns út á Hábrekknaeyri neðan merkja Einifells. Telja þessir veiðiréttareigendur að laxarnir séu veiddir á sínu svæði og eigi ekki að teljast til Einifells. Þessu sjónarmiði hefur ekki verið hreyft gagnvart yfirmatsmönnum og er litið svo á að ekki sé óskað endurskoðunar á undirmati að þessu leyti. Í sömu greinargerð er haldið fram að verulega skorti á að öll veiði í Munaðarnesi sé skráð. Komi það að nokkru leyti til af því að veiðimenn á þessu svæði hafi ekki aðgang að veiðihúsi. Einnig vanti á þessu svæði skiptingu afla milli veiðiréttareigenda. Sérstök mæling verkfræðistofu á bakkalengd fyrir Arnarholt og Hlöðutún fylgdi greinargerðinni.


VII.


Dómkvaðning matsmanna.


Samþykkt veiðifélagsins 1972 um hlut neðra svæðis í arði.


Í framhaldi af ósk Jómundar Ólasonar, Skarðshömrum, um nýtt arðskrármat fór stjórn Veiðifélags Norðurár þess á leit við Héraðsdóm Vesturlands 20. apríl 1995 að matsmenn yrðu dómkvaddir. Kom þar fram sú ósk að „sami háttur verði hafður á og við síðasta endurmat að neðri hluta árinnar verði sleppt við matið en efri hlutinn metinn ... "


Meðal gagna málsins eru nokkur bréf Héraðsdóms Vesturlands og Jómundar Ólasonar áður en matsmenn voru dómkvaddir. Er af þeim ljóst að ágreiningur hefur verið um það, hvort ný arðskrá skyldi ná til beggja svæðanna eða einungis hins efra. Í dómkvaðningu Héraðsdóms Vesturlands 26. maí 1995 segir að þeir menn, sem getið er í I. kafla að framan, séu dómkvaddir „til að gera arðskrá fyrir Norðurá". Í því felst að gerð skyldi ein arðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár í heild sinni. Um þetta segir meðal annars í undirmatsgerð, að matsmenn telji rétt „að viðhalda við núverandi aðstæður sérstöðu neðra svæðis árinnar þrátt fyrir að ein sameiginleg arðskrá sé nú gerð fyrir ána alla í samræmi við dómkvaðningu". Jafnframt segir þar, að enginn veiðiréttareigandi hafi mótmælt því við matsmenn að hlutur neðra svæðisins skyldi vera 23,85% af heildararði árinnar. Engin formleg mótmæli hafi borist stjórninni um þá skiptingu. Töldu undirmatsmenn ófært að víkja án kröfu frá samkomulagi um hlutdeild neðra svæðisins. Jafnframt þótti þeim rétt að innbyrðis skipting rétthafa þar héldist óbreytt.


Í beiðni Jómundar Ólasonar um yfirmat, sbr. I. kafla að framan, er komist svo að orði að hann hafi beðið um „nýja arðskrá af Norðurá en ekki hluta af Norðurá og fer ég enn fram á að öll áin verði metin og jafnt gangi yfir alla í nýrri arðskrá". Þetta var áréttað munnlega við yfirmatsmenn og að hann hafi ekki ætlast til að einhver hluti yrði undanskilinn. Sömu sjónarmið komu fram í svarbréfi hans til yfirmatsmanna eftir að hinir síðastnefndu höfðu óskað umsagnar hans um sameiginlega greinargerð veiðiréttareigenda á neðra svæði árinnar.


Í þessari afstöðu felst í raun krafa um að við skiptingu arðskrár verði margnefndri samþykkt frá 1972 um 23,85% hlutdeild neðra svæðisins vikið til hliðar og að öllum jörðum á efra og neðra svæði verði metin hlutdeild í arðskrá með hliðsjón af þeim atriðum, sem almennt eiga að ráða hlut hvers rétthafa í arðskrá. Á þessa kröfu fallast yfirmatsmenn ekki. Samþykkt aðalfundar veiðifélagsins 1972 er bindandi fyrir félagsmenn meðan henni hefur ekki verið breytt eða hún felld niður með lögmætum hætti. Ekki hefur verið bent á neitt, sem rennt geti stoðum undir að samþykktin sé ekki lengur í gildi, og er krafan ekki studd haldbærum rökum. Verður í samræmi við samþykktina lagt til grundvallar matsniðurstöðum, að hlutur fjórtán jarða á neðri hluta félagssvæðisins skuli samtals nema 23,85% af heildarfjölda eininga, sem úthlutað er. Kemur það fyrir alla þá þætti, sem almennt ráða úthlutun arðs til veiðiréttareigenda. Orðalag samþykktarinnar, sem tekin er upp í III. kafla að framan, sýnist jafnvel benda til að hlutfall fjórtán neðstu jarðanna geti orðið enn hærra, þar sem vísað er til breytingar á verði tilraunastanga, sem þá hafi verið leigðar. Þessi þáttur samþykktarinnar hefur hins vegar ekki verið skýrður við meðferð málsins og kemur ekki frekar til álita. Engin ósk er fram komin um að raskað verði þeirri innbyrðis skiptingu milli jarðanna fjórtán, sem ákveðin var með yfirmati 1973. Verður henni fylgt áfram óbreyttri að því gættu að einingafjöldi þeirra allra lækkar hlutfallslega jafnt, þar eð framvegis gildir ein arðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár í stað tveggja hingað til.


VIII.


Um Bjarnadalsá


Áður er getið sjónarmiða eigenda Dalmynnis og Skarðshamra um hliðarána Bjarnadalsá. Í beiðni stjórnar Veiðifélags Norðurár til Héraðsdóms Vesturlands um dómkvaðningu matsmanna var þess sérstaklega óskað að Bjarnadalsá yrði tekin með við arðskrármatið, enda líti stjórnin svo á að áin tilheyri vatnakerfi Norðurár sem ein af þverám hennar. Eigendur Bjarnadalsár mótmæltu þessu með bréfum til Héraðsdóms Vesturlands og stjórnar veiðifélagsins og að nýju eftir að undirmat lá fyrir. Veiðimálastjóri lýsti þeirri afstöðu sinni að Bjarnadalsá væri ótvírætt eðlilegur hluti félagssvæðisins og því rétt að meta ána til arðs fyrir eigendur hennar innan Veiðifélags Norðurár. Eigendurnir gætu þó fengið rétt til að nýta ána, t.d. með arðgreiðslum í formi stangardaga með nánari skilyrðum. Í undirmati segir, að í samræmi við nýja samþykkt veiðifélagsins sé Bjarnadalsá nú metin til arðs.


Sú samþykkt fyrir Veiðfélag Norðurár, sem þar er vísað til, er nr. 443/1996, sbr. III. kafla að framan. Skilgreining á félagssvæðinu í 3. gr. hennar er skýr um að það nær til Norðurár frá upptökum að ósi og allra hliðaráa hennar að Gljúfurá einni undanskilinni. Verður samkvæmt því ekki komist hjá að meta Bjarnadalsá með í heildararðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár, sbr. nánar í XIII. kafla um hliðarár hér á eftir.


IX.


Skipting arðs. Almennt


Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: „Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."


Samkvæmt 10. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Norðurár skal arði af sameiginlegri veiði skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Kostnað af starfsemi félagsins greiða félagsmenn í sama hlutfalli. Í síðustu arðskrá fyrir efra svæðið var arði skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 10.000. Arðskrá fyrir neðra svæðið miðar hins vegar við samtals 1000 einingar. Sá háttur verður nú hafður á, að miðað verður við að heildarfjöldi eininga, sem kemur til skipta milli allra rétthafa, sé 1000. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Verður jörðum á neðra svæðinu úthlutað 238,5 einingum og óbreyttri innbyrðis skiptingu, að því gættu þó að hlutur Stafholts eykst nú lítilsháttar vegna hliðaráa á efra svæði, sbr. XIII. kafla hér á eftir. Til skipta milli jarða á efra svæði koma 761,5 einingar. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig síðastnefndu einingarnar skuli skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvernig önnur atriði geta haft þar áhrif á. Með skiptingu eininga á efra svæði er ekki tekin afstaða til þess hvernig einingar ættu að skiptast á neðra svæði, ef í það hefði verið ráðist nú.


Til hægðarauka og til að auðvelda samanburð verður hér á eftir miðað við að skipt sé 1000 einingum milli þátta. Allar þær niðurstöðutölur verða að endingu lækkaðar um 23,85% vegna hlutdeildar neðra svæðisins, þannig að eftir standa 761,5 einingar, sem skipt er og koma í hlut jarða á efra svæði veiðifélagsins.


X.


Landlengd


Stjórn Veiðifélags Norðurár ákvað í október 1995 að þörf væri nýrrar mælingar á bakkalengd Norðurár vegna arðskrárgerðar. Var leitað til Guðmundar Sigurðssonar, ráðunautar, til að annast verkið, sem unnið var á fyrri hluta árs 1996. Í undirmatsgerð er þess getið, að mælingamaður hafi leitast við að fá viðkomandi rétthafa með sér á vettvang er árbakkar voru stikaðir. Hafi þverár, kvíslar og hólmar að mestu verið mældir samkvæmt beiðni eigenda. Meðal gagna málsins eru niðurstöður Guðmundar á mælingu 10. maí 1996, þar sem fram kemur lengd bakka árinnar fyrir landi hverrar jarðar. Jafnframt liggur fyrir leiðrétting hans 19. febrúar 1997.


Ekki hafa komið fram gagnvart yfirmatsmönnum haldbærar athugasemdir um réttmæti mælingarinnar og verður hún lögð til grundvallar, eins og hún liggur fyrir, að því gættu þó að ein leiðrétting er gerð á niðurstöðutölum við efsta hluta Norðurár í samráði við mælingamann. Þá er í skýrslu mælingamanns á nokkrum stöðum hermt að mældir árbakkar tilheyri Norðurá, þar sem í raun er um kvíslar að ræða, og er tekið tillit til þess. Ekki hefur komið fram ágreiningur um merki milli jarða, sem áhrif geti haft á rétt einstakra rétthafa.


Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 310 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Norðurá (án hliðaráa) á efra svæðinu norður að mörkum félagssvæðisins (endanlega 236,06 einingar eftir lækkun). Við skiptingu þessara eininga verður einstökum mældum vatnsbökkum frá mörkum efra og neðra svæðis að Króksfossi gefið jafnhátt vægi eða 1,0. Undanskildir eru bakkar kvísla og hólma, sbr. hér á eftir. Vatnsbakkar frá Króksfossi að Efri Leitisfossi fá vægið 0,50. Bakkar Norðurár ofan Leitisfossa fá vægið 0,25.


Við mat á lægra vægi vatnsbakka ofan Króksfoss er bæði litið til minna vatnsrennslis en einkum þó til þess að veiðibækur sýna ótvírætt, að almennt veiðist fiskur á hverju vori seinna ofan Króksfoss en neðan. Augljós munur er hér á, þótt breytilegt sé milli ára hvenær veiði hefst í raun á efsta hluta svæðisins. Er að þessu leyti enn munur á þrátt fyrir tilkomu laxastiga í Glanna. Verður samkvæmt þessu fallist á að efsti hluti félagssvæðisins gefi veiðifélaginu því í raun tekjur seinna á hverju veiðitímabili en svæði, sem neðar liggja. Verður með þessum hætti tekið tillit til sjónarmiða, sem að þessu lúta og rakin eru í VI. kafla að framan. Um Norðurá ofan Leitisfossa, sjá nánar XII. kafla hér á eftir.


Að því er varðar kvíslar í Norðurá er þess áður getið að bakkar þeirra voru mældir eins og aðrir vatnsbakkar. Er einkum um að ræða kvíslar við Desey og norðan hennar, en einnig við Hrauney auk lækjar í eldri farvegi Bjarnadalsár. Yfirmatsmenn telja almennt gildi þeirra fyrir lífríki árinnar óverulegt og sumar þeirra þorna að miklu leyti upp í langvarandi þurrkum að sumri. Telja þeir hæfilegt að 10 af þeim 310 einingum, sem koma fyrir landlengd, falli til eigenda kvísla og hólma, sem mældir hafa verið. Er þá jafnframt tekið tillit til uppeldis- og hrygningarskilyrða í kvíslunum, en um þann þátt er að öðru leyti fjallað í XII. og XIII. kafla hér á eftir. Ekki er tilefni til að útdeila þessum einingum jafnt, heldur er leitast við að líta til allra aðstæðna, s.s. vatnsmagns. Er þannig ljóst að kvísl við Hrauney (að vestan) hefur gildi umfram aðrar mældar kvíslar, bæði vegna meira vatnsmagns og sökum þess að í henni eru þekktir veiðistaðir. Verður litið til þess, sem að framan er rakið, við úthlutun þessara eininga.


Um landlengd að hliðarám vísast til XIII. kafla matsgerðarinnar.


XI.


Aðstaða til stangarveiði


Í IV. kafla er getið leigusamninga um veiði í Norðurá eftir 1985. Í V. kafla eru taldar upp skýrslur, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði 1978-1998 að báðum árum meðtöldum. Hafa samkvæmt því veiðst 31.554 laxar á þessu tímabili á efra svæðinu. Við yfirmat nú verður höfð hliðsjón af veiði allt ofangreint tímabil og þar með allri veiði frá því arðskrá var skipt síðast. Verður samkvæmt því ekki fallist á fram komin sjónarmið um að líta framhjá eða taka síður tillit til afla á fyrri hluta viðmiðunartímans vegna breytinga, sem orðið hafa á fiskgengd í kjölfar þess að fiskvegur var gerður framhjá Glanna 1985.


Ekki verður fallist á að matsgerð frá 1936, sem getið er í VI. kafla að framan, hafi þýðingu við skiptingu arðskrár nú. Verður litið framhjá henni við arðskrármat. Ekki þykir heldur fært að taka mið af fram komnum ábendingum um kostnað veiðiréttareiganda af gerð veiðimannavega eða að veiðihús sé staðsett í hans landi.


Laxar, sem munu hafa veiðst í Bjarnadalsá, eru óskráðir. Getur sá afli því ekki komið eigendum árinnar til góða við skiptingu arðskrár.


Ágreiningur hefur reynst vera um einn veiðistað, Eyrina, sbr. áður. Yfirmatsmenn hafa sérstaklega kannað aðstæður þar í fylgd staðkunnugra. Skorið hefur verið úr um landamerki Veiðilækjar og Einifells á þessum stað með dómi Hæstaréttar frá 1941. Að athuguðu máli leggja yfirmatsmenn til grundvallar niðurstöðu, að ekki séu efni til að skipta veiði, sem kemur á land á þessum stað. Fellur hún öll til Veiðilækjar.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 450 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á efri hluta félagssvæðisins (endanlega 342,68 einingar eftir lækkun). Það sjónarmið hefur komið fram, að taka eigi við skiptingu arðskrár sérstakt tillit til náttúrufegurðar milli fossa og neðan Laxfoss. Þótt staðhæfingar um náttúrufegurð þar verði ekki vefengdar fallast yfirmatsmenn ekki á að slíkt atriði sé þess eðlis, að komið geti veiðiréttareigendum til tekna í arðskrá nema óbeint. Dragi náttúrufegurð svæðisins að sér veiðimenn, njóta viðkomandi veiðiréttareigendur þess vegna aukins sóknarþunga veiðimanna og um leið meiri afla, sem þar er dreginn á land. Til þess er tekið fullt tillit, svo sem áður er fram komið.


XII.


Uppeldis- og hrygningarskilyrði


Í V. kafla að framan er getið gagna um uppeldis- og hrygningarskilyrði, sem fyrir yfirmatsmönnum liggja. Ber þar einkum að nefna skýrslu Veiðimálastofnunar (Sigurður Már Einarsson) frá 1997, sbr. lið nr. 18 í upptalningu gagna í áðurnefndum kafla. Hafa yfirmatsmenn jafnframt átt fund með áðurnefndum sérfræðingi Veiðimálastofnunar og fengið nánari upplýsingar og skýringar.


Sá fyrirvari er gerður af hálfu Veiðimálastofnunar, að skýrslan er ekki samin gagngert og eingöngu vegna arðskrárgerðar, andstætt því sem gert hefur verið í a.m.k. tveim tilvikum öðrum, þar sem nákvæmara búsvæðamat einstakra árkafla er að finna. Skýrslan hefur engu að síður að geyma mikilvægar upplýsingar um uppeldis- og hrygningarskilyrði í Norðurá og hliðarám hennar. Er þar meðal annars tekið fram, að mat á uppeldisskilyrðum fyrir laxaseiði sé flókið og að helstu þættir, sem þar hafi áhrif á, séu botngerð, straumlag, dýpi og frjósemisskilyrði innan hvers vatnakerfis. Er Norðurá með hliðsjón af þessum þáttum skipt í tíu mislanga kafla frá mörkum félagssvæðisins í norðri að ósi við Hvítá. Mörk þessara tíu svæða eru tilgreind, en þau eru ekki dregin með tilliti til landamerkja milli jarða. Er ljóst að uppeldis- og hrygningarskilyrði eru afar misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánni er litið. Fá einstök svæði þá einkunn, að frá 10% af árbotni svæðisins og allt að 100% hans nýtist til hrygningar og uppeldis á laxaseiðum. Fær neðsta svæðið lélegasta einkunn, þ.e. 10%, en það kemur þó ekki til frekari úrlausnar hér af ástæðum, sem áður eru raktar. Af hinum níu fær eitt þessa sömu einkunn, annað fær 30%, hið þriðja 55%, en fimm svæði fá einkunn á bilinu 60-80%. Hið níunda er metið svo að árbotn þess nýtist 100% að þessu leyti.


Að því er varðar efsta svæðið (Holtavörðuvatn - Leitisfossar) er sá fyrirvari gerður í skýrslunni, að náttúrulegt klak sé þar nær ekkert þrátt fyrir ágæt skilyrði frá náttúrunnar hendi. Gangi lax mjög lítið upp á þetta svæði, einkum vegna þess að Leitisfossar séu veruleg hindrun fyrir lax. Svæðið hafi hins vegar verið nýtt í nokkur ár með sleppingum á sumaröldum seiðum, sem hafi þrifist þar ágætlega. Á fundi með sérfræðingi Veiðimálastofnunar 12. mars 1999 kom hins vegar fram, að sl. haust hafi komið fram órækar vísbendingar um að breyting hafi nú orðið á þessu. Hafi þá fundist þar allmikið af seiðum úr náttúrulegu klaki. Samkvæmt því sé lax í einhverjum mæli farinn að ganga fram á þetta svæði andstætt því, sem áður var. Í sama sinn kom fram að laxar hafi sést sl. haust framarlega í Hellisá, þannig að vænta megi að náttúrulegt klak og seiðaframleiðsla sé hafin þar, en aðstæður til þess séu mjög góðar í ánni.


Á sama fundi var Veiðimálstofnun kynnt sú gagnrýni eiganda Laxfoss á skýrsluna, sem getið er í V. kafla að framan og lýtur að svæðinu Paradísarlækur - Laxfoss (einkunn 10%). Kom af því tilefni fram sú afstaða, að svæðið væri ekki alveg einsleitt í þessu tilliti. Gæti gagnrýnin af þeim sökum átt við nokkur rök að styðjast að því er varðar kafla neðst á svæðinu, þ.e. ofan Laxfoss, en ekki um stærsta hluta umrædds svæðis. Gagnrýni eiganda Laxfoss á skýrsluna að því er varðaði Hrauná og svæðið neðan Laxfoss var hafnað af hálfu sérfræðings Veiðimálastofnunar. Þá skýrði hann frá því að í fjögur skipti á sl. fimm árum hefði 10.000 sjógönguseiðum verið sleppt árlega milli fossa, en á sama svæði hefði hins vegar fundist mjög lítið af náttúrulegum seiðum við athugun síðastliðið haust. Ástæður þess væru óþekktar. Síðastnefnda atriðið verður þó í arðskrármati ekki látið raska gildi, sem Veiðimálastofnun hefur gefið svæðinu í skýrslu 1997.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 175 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar (endanlega 133,26 einingar eftir lækkun). Falla þær til veiðiréttareigenda í Norðurá, en um uppeldis- og hrygningarskilyrði í hliðarám vísast til næsta kafla hér á eftir. Skipting þessara eininga tekur mið af því á grundvelli áðurnefndrar skýrslu, að skilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánni er litið. Tekið er tillit til þess, að einstakar jarðir geta átt land að misgóðum svæðum og hafa yfirmatsmenn heimfært landlengd hvers og eins veiðiréttareiganda við ána að einstökum svæðum. Í ljósi skýringa Veiðimálastofnunar er einnig miðað við að kafli ofan Laxfoss sé nokkuð betri en skýrsla stofnunarinnar ber með sér.


XIII.


Hliðarár


Í X. kafla að framan var getið mælingar á landlengd Norðurár. Að auki voru mældir bakkar ellefu hliðaráa, en þær ár og lækir, sem um ræðir eru: Búrfellsá fremri, Búrfellsá neðri, Austurá, Hvassá, Hellisá, Sanddalsá, Mjóadalsá, Litlaá, Dýrastaðaá, Bjarnadalsá og Vesturá. Þá vísast einnig til skýrslu Veiðimálastofnunar um uppeldis- og hrygningarskilyrði, sbr. næsta kafla hér á undan. Auk Norðurár tekur hún einnig til fjórtán hliðaráa og lækja, sem eru: Búrfellsá fremri, Búrfellsá neðri, Hvassá, Sanddalsá, Mjóadalsá, Litlaá, Dýrastaðaá, Bjarnadalsá, Vesturá, Hrauná, Munaðarneslækur, Austurá, Hellisá og Veiðilækur. Nær skýrsla Veiðimálastofnunar þannig til allra þeirra vatnsfalla, þar sem landlengd var mæld, auk Hraunár, Munaðarneslækjar og Veiðilækjar. Loks skal getið skýrslu Orkustofnunar um rennsli í Norðurá og þverám hennar, sbr. lið nr. 21 í upptalningu gagna í V. kafla að framan.


Af gögnum málsins er ljóst, sbr. einkum skýrslu Veiðimálastofnunar, að framantalin vatnsföll hafi mjög misjafnt gildi fyrir lífríki Norðurár. Vatnsmagn er misjafnlega mikið og sumar hliðarár hverfa að miklu leyti í langvarandi þurrkum. Þá eru árnar mislangt fiskgengar og sumar aðeins örstutt. Rannsóknir eru takmarkaðar á sumum þeirra varðandi það, hve mikið klak eða uppeldi seiða er þar í raun, þótt þeim sé engu að síður öllum gefin einkunn fyrir það, hvernig þær geti nýst. Að öllu samanlögðu verður ráðið, að af þessum ám hafi þrjár nokkra sérstöðu og um leið gildi umfram hinar, en það eru Bjarnadalsá, Hellisá og Sanddalsá, en einkum í hinni fyrsttöldu er jafnframt veiði, sbr. áður. Gildi sumra annarra hliðaráa verður að teljast lítið og sumra nánast ekkert. Munaðarneslækur kemur ekki til frekari álita, þar eð hann er á neðra svæði árinnar. Búðardalsá, sem getið er í VI. kafla að framan, kemur heldur ekki til álita, enda er hún hvorki tekin með í skýrslu Veiðimálstofnunar né bakkar hennar mældir.


Við skiptingu arðskrár telja yfirmatsmenn hæfilegt að 40 einingar komi í hlut eigenda framantalinna vatnsfalla (endanlega 30,46 einingar eftir lækkun). Er þá bæði tekið tillit til mældrar bakkalengdar og uppeldis- og hrygningarskilyrða. Tekið er tillit til þess, eftir því sem málsgögn gefa kost á, að gildi ánna er mjög misjafnt. Einingum vegna þessa þáttar er skipt milli annars vegar landlengdar, þar sem jafnframt er horft til vatnsmagns, og hins vegar uppeldis- og hrygningarskilyrða, þar sem jafnframt er litið til þess hvernig árnar nýtast í reynd að þessu leyti.


XIV.


Aðrir þættir, sem þýðingu hafa við skiptingu arðs


Enn er ógetið nokkurra atriða, sem geta gefið tilefni til þess að tekið sé tillit til þeirra við úthlutun arðs af veiði. Þau atriði varða öll fiskvegi, sem gerðir hafa verið vegna náttúrulegra hindrana á fiskför, þ.e. við Glanna, en einnig Laxfoss. Eru áður rakin sjónarmið eigenda veiðiréttar á þessu svæði, sem að þessu lúta.


Hið fyrsta þessara atriða varðar lögbundnar takmarkanir á veiði ofan og neðan fiskvega, sbr. 40. gr. laga nr. 76/1970. Er skv. henni óheimilt að veiða fisk í fiskvegi eða nær neðra mynni hans en 30 metra og eigi nær efra mynni hans en 20 metra. Verður fallist á, að valdi gerð fiskvegar því að veiðibann leggst á svæði, sem áður var veitt á, eigi eigendur veiðiréttarins að fá bætur, sem geti verið ákveðnar í formi arðskrár. Ekki nýtur neinna gagna í málinu um stangarveiði ofan og neðan fossanna fyrir gerð laxastiga miðað við svæði, sem annars vegar er hringmælt 30 metra frá neðra mynni þeirra og hins vegar 20 metra frá efra mynninu, þar sem veiðibann hefur síðan í reynd lagst á vegna áðurnefndra lögbundinna takmarkana. Hins vegar liggur fyrir, að bæði neðan Glanna og Laxfoss (Nikulásarker ) voru áður fyrr veiðistaðir innan þessa svæðis, þar sem veitt var í net. Nánari upplýsingar hafa verið veittar skriflega að því er varðar veiði í Nikulásarkeri.


Annað atriði snýr að ábendingum talsmanns Hreðavatns og Veiðilækjar um að leigutaki árinnar hafi sett enn frekari hömlur á veiði ofan og neðan Glanna en leiðir af landslögum. Var um það vísað til söluskrár SVFR 1998 og nokkurra fyrri ára, þar sem segir að veiði sé „bönnuð í Glanna, þ.e. milli Berghyls og Kletthólmastrengs".


Yfirmatsmenn könnuðu af þessu tilefni afstöðu leigutakans til málsins. Töldu forsvarsmenn hans að í orðalaginu fælist að bannið næði ekki til hinna tveggja nafngreindu veiðistaða og þannig hafi veiðimenn skilið það. Þeir bentu jafnframt á að í söluskrá S.V.F.R. 1999 hefði orðalagi verið breytt til að koma á móts við sjónarmið veiðiréttareigenda.


Alveg er ljóst að orðalag í söluskrám hafi verið til þess fallið að veiðimenn veiddu ekki ofan Berghyls og neðan Kletthólmastrengs. Verður talið að með þessu hafi í reynd verið settar veiðitakmarkanir á stærra svæði í ánni en leiðir beint af 40. gr. laga nr. 76/1970. Bannið tekur til a.m.k. eins veiðistaðar til stangarveiði í Glanna, sem er utan 30 metra svæðis við neðra mynni laxastigans. Ofan fossins hagar svo til að Kletthólmastrengur liggur á að giska 70-100 metrum ofan efra mynnis laxastigans. Þar á milli er Hólabakshylur, sem veiðibann hefur skv. framanröktu verið fellt á.


Þriðja atriðið, sem hér kemur til álita, lýtur að minnkandi veiði milli fossa og neðan Laxfoss vegna gerðar fiskvega. Eru í V. kafla að framan rakin sjónarmið, sem einkum hefur verið teflt fram af hálfu eiganda Laxfoss og talsmanni eigenda Hreðavatns af því tilefni. Vísast þangað um sjónarmið þeirra um áhrif framkvæmdanna á veiði fyrir landi jarðanna og lækkandi hlutdeild þeirra í arðskrá. Ekki nýtur við annarra gagna um þetta atriði frá eigendum veiðiréttarins.


Málsgögn sýna með ótvíræðum hætti að skömmu eftir 1985 lækkar veiði hlutfallslega milli fossa. Engin ástæða er til að vefengja að það verði rakið til gerðar fiskvegar í Glanna það ár. Á þetta við um veiði fyrir löndum Veiðilækjar, en einnig Laxfoss og Hreðavatns, sem skipta með sér löndum milli fossa að vestan. Þá er ljóst að framkvæmdin hefur leitt til þess, að fiskur veiðist jafnar og á mun stærra svæði í ánni en áður og að allt svæðið ofan fossins nýtist betur fyrir uppeldi og þar með til aukinnar fiskgengdar. Verður talið, að eigendur nefndra þriggja jarða fái lægri hlutdeild sína í arðskrá vegna minni veiði að minnsta kosti að hluta bætta með auknum heildartekjum af leigu árinnar vegna betri möguleika til stangarveiði í stórum hluta hennar, sem beinlínis verður rakið til áðurnefndra framkvæmda. Verður því ekki fallist á að enginn ávinningur hafi orðið af framkvæmdinni fyrir þessar jarðir, heldur einungis fyrir aðra veiðiréttareigendur, svo sem virðist felast í rökstuðningi þeirra.


Fiskvegurinn í Glanna skapar öllum landeigendum við ána bætta aðstöðu til veiða eða til að njóta arðs af veiði, sbr. framangreint, en þó minnst þeim jörðum, sem lagt hafa hana til eða orðið að þola veiðitap vegna hennar. Vegna þessarar aðstöðu, sem líta má á sem framlag þessara þriggja jarða til hags fyrir alla, verður tekið tillit við skiptingu arðskrár, svo sem heimilt er samkvæmt lögum nr. 76/1970.


Þau sjónarmið, sem að framan eru rakin, eiga einnig að nokkru leyti við um Laxfoss, þar sem gerður hefur verið fiskvegur. Aðstaðan þar er þó að ýmsu leyti önnur, ekki síst vegna þess að Laxfoss tálmaði aldrei fiskför í sama mæli og Glanni. Þá er langt um liðið frá því fiskvegur var gerður þar og ekki nýtur við aflatalna er sýni með ótvíræðum hætti hvernig hlutfallsleg veiði breyttist neðan Laxfoss sem bein afleiðing af gerð fiskvegar. Engu að síður þykir rétt að taka tillit til þessa atriðis við skiptingu arðskrár, þótt það geti ekki af framanröktum ástæðum orðið í þeim mæli, sem á við um Glanna. Þær jarðir, sem hér um ræðir, eru Laxfoss að vestanverðu, en Veiðilækur og Einifell að austan.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 25 einingum verði úthlutað vegna þeirra þriggja atriða, sem um er fjallað í þessum kafla (endanlega 19,04 einingar eftir lækkun). Skipting þeirra ræðst af heildarmati á því, hvernig réttur jarðanna hefur verið skertur af þessum ástæðum, þar sem síðastgreinda atriðið verður þó látið vega þyngst. Falla þær einingar, sem um ræðir, til Veiðilækjar, Laxfoss, Hreðavatns og Einifells. Ekki þykja efni til að úthluta Svartagili neinu af þessum einingum, þrátt fyrir veiðibann á kafla ofan Glanna, vegna aukinnar fiskgengdar fyrir löndum jarðarinnar vegna gerðar fiskvegar. Til þessa atriðis verður jafnframt litið við úthlutun eininga til Hreðavatns.


XV.


Niðurstöður


Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Ábending um fast hlutfall miðsvæðis Norðurár, líkt og neðsta svæðis, hefur ekki verið rökstudd og kemur ekki til álita.


Veiðifélag Norðurár ber kostnað af mati þessu.


Mat þetta gildir frá 1. janúar 2000. Arðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár skal vera svo sem greinir í XVI. kafla hér á eftir.


XVI.


Arðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár


Jarðir. einingar1. Ferjukot 9,1


2. Ferjubakki I 9,1


3. Ferjubakki II 9,1


4. Ferjubakki III 9,1


5. Sólheimatunga 25,5


6. Svignaskarð 2,4


7. Haugar 19,1


8. Munaðarnes 37,6


9. Stóra Gröf 13,5


10. Grafarkot 30,5 1. Litla Skarð 34,7

 2. Laxfoss 74,0

 3. Hreðavatn 42,1

 4. Brekka 8,0

 5. Hraunsnef 1,0

 6. Desey 1,3

 7. Hvassafell 5,6

 8. Dalsmynni 11,7

 9. Klettstía 6,3

 10. Hreimsstaðir 15,0

 11. Dýrastaðir 18,0

 12. Hvammur 32,4

 13. Sanddalstunga 1,1

 14. Sveinatunga 41,2

 15. Fornihvammur 16,9

 16. Afréttarland 51,7

 17. Krókur 27,0

 18. Háreksstaðir 20,6

 19. Hóll 20,7

 20. Hafþórsstaðir 15,6

 21. Skarðshamrar 32,8

 22. Glitstaðir 56,0

 23. Svartagil 15,8

 24. Veiðilækur 75,5

 25. Einifell 92,1

 26. Arnarholt 31,0

 27. Hlöðutún 21,0

 28. Stafholt (þar af 0,4 ein. vegna hliðaráa á efri hluta) 21,8

 29. Svarfhóll 17,2

 30. Melkot 4,3

41. Flóðatangi 22,6


Samtals: 1000,00


 


Reykjavík, 25. júní 1999


_______________________


Gunnlaugur Claessen


 


________________________ __________________________


Aðalbjörn Benediktsson Sveinbjörn Dagfinnsson


Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.