Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði

28.7.1998

YFIRMATSMENN

samkvæmt lögum um

lax- og silungsveiði nr. 76/1970

YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag

Laxár í Borgarfjarðarsýslu

I.

Undirmat. Beiðni um yfirmat

Hinn 15. mars 1996 luku þeir Guðmundur Magnússon bóndi í Leirvogstungu og Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu (Laxár í Leirársveit). Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Vesturlands 17. maí 1995.

Stjórn veiðifélagsins skaut þessu arðskrármati til yfirmats með bréfi 22. maí 1996, sem barst yfirmatsmönnum sama dag. Þær skýringar fylgdu að undirmat hefði borist stjórn veiðifélagsins í hendur 25. mars sama árs. Hefur ekki verið vefengt að erindi veiðifélagsins sé nægilega snemma fram komið.

II.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Laxár í Borgarfjarðarsýslu eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 4. september 1997 að Hlöðum á Hvalfjarðarströnd. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessara jarða: Hurðarbaks, Saurbæjar, Stóra Lambhaga I, Leirár, Hvítaness, Stóra Lambhaga I og II, Tungu, Lækjar, Eystra og Vestra Súluness, Kambshóls, Hóls, Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots, Hlíðar, Svarfhóls, Geitabergs og Eyrar.

Á fundinum var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt og óskað eftir athugasemdum við hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Var fundarmönnum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og athugasemdum vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 1. desember 1997. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Eyjólfur Jónsson vegna Hlíðar, Reynir Ásgeirsson vegna Svarfhóls, Oddur Sigurðsson vegna Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots, Marinó Tryggvason vegna Hvítaness, Ásgeir Kristinsson vegna Leirár, Hallfreður Vilhjálmsson vegna Kambshóls og Samúel Ólafsson vegna Tungu.

Að loknum fundi og viðtölum voru kannaðar aðstæður við Laxá. Var það gert með þeim hætti að tveir leiðsögumenn úr stjórn veiðifélagsins, Helgi Bergþórsson og Reynir Ásgeirsson, fylgdu yfirmatsmönnum um svæðið fram fyrir ólaxgengan foss í Draghálsá og niður úr. Farið var með ósasvæðinu báðum megin árinnar.

Í framhaldi af þessum fundi hafa yfirmatsmönnum borist greinargerðir frá talsmönnum eftirgreindra jarða: Stóra Lambhaga I og II (Guðrún Jónsdóttir og Svandís Haraldsdóttir), Lambhaga og Litla Lambhaga (Ólafur Haukur Óskarsson og Sigríður Vilhjálmsdóttir), Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots (með fylgiskjölum, Oddur Sigurðsson), Hvítaness I og II (með fylgiskjölum, Margrét Magnúsdóttir og Marinó Tryggvason), Saurbæjar (Kristinn Jens Sigurþórsson), Hlíðar og Vestra Miðfells (með fylgiskjölum, Eyjólfur Jónsson og Jón Bjarnason), Kambshóls (með fylgiskjölum, Kristný Vilmundardóttir og Hallfreður Vilhjálmsson).

Eftir þetta var leitað eftir andsvörum vegna nokkurra þeirra skriflegu greinargerða, sem að framan getur. Af því tilefni bárust í maí og júní 1998 athugasemdir frá talsmönnum þessara jarða: Lambhaga og Litla Lambhaga, Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots, Saurbæjar, Svarfhóls og Stóra Lambahaga II. Þá barst greinargerð Guðmundar Gunnarssonar, verkfræðings, sem sögð er vera tekin saman að tilhlutan eigenda eða ábúenda Glammastaða, Kambshóls, Saurbæjar og Geitabergs. Þá barst einnig bréf eiganda Hlíðar, en því fylgdi blað, undirritað af talsmönnum 20 jarða við Laxá varðandi samþykkt frá 1963 um hlut ósasvæðis í arði.

Í lok árs 1997 og fyrri hluta árs 1998 voru gerðar mælingar á bakkalengd, samanber síðar. Yfirmatsmenn fóru aftur á vettvang 30. júní 1998 til að kanna nánar nokkurn hluta árinnar. Þá áttu yfirmatsmenn fund í Borgarnesi sama dag með Sigurði Má Einarssyni, Veiðimálastofnun. Hafa þeir jafnframt leitað margs konar upplýsinga hjá formanni stjórnar veiðifélagsins.

III

Undirmat um afmörkun óss o.fl.

Hinn 21. ágúst 1997 luku matsmennirnir Kristinn Einarsson og Lárentsínus Kristjánsson mati, sem þeir höfðu verið dómkvaddir til að gera 12. október 1996. Var þeim falið að meta hvar um sé að tefla sjó, straumvatn, stöðuvatn, á, ós og ósasvæði á vatnasvæði Veiðifélags Laxár í Borgafjarðarsýslu. Laut matsefnið að afmörkun þessara þátta við þrjú vötn á efsta hluta félagssvæðisins og við árós Laxár.

Stjórn veiðifélagsins mun hafa kynnt veiðiréttareigendum þetta mat eftir fund þann, sem haldinn var með yfirmatsmönnum 4. september 1997. Ekki hafa komið fram óskir um að vísa því til yfirmats. Verður það því lagt til grundvallar um þá þætti, sem áður getur.

Í nefndri matsgerð er tekið fram, að beiðnum hafi verið komið á framfæri við matsmenn um að meta einnig hugsanlega hlutdeild rétthafa í Leirá og jafnvel öðrum ám, sem renna í Leirárvog, í ósasvæðinu. Þar eð dómkvaðning beri ekki með sér að um slíkt hafi verið beðið töldu matsmennirnir ekki fært að verða við þeim óskum, en til þess þyrfti nýja dómkvaðningu.

IV

Um Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu

Félagið heitir Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu og starfar samkvæmt samþykkt nr. 32/1964, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 24. febrúar sama árs. Kom hún í stað eldri samþykktar fyrir sama félag frá 7. júní 1934.

Samkvæmt 2. gr. samþykktarinnar nær félagið til allra jarða, sem land eiga að Laxá og ósum hennar, sem síðan eru taldar upp: Vestra Súlunes, Eystra Súlunes, Bakki, Skorholt, Skipanes, Lækur, Beitistaðir, Vogatunga, Melkot, Leirá, Steinsholt, Tunga, Hóll, Hlíðarfótur, Eyri, Kambshóll, Glammastaðir, Dragháls, Geitaberg, Þórisstaðir, Saurbær, Svarfhóll, Hurðarbak, Vestra Miðfell, Hlíð, Stóri Lambhagi I, Stóri Lambhagi II, Stóri Lambhagi III, Lambhagi, Litli Lambhagi, Fellsaxlarkot, Litla Fellsöxl, Kjalardalur, Arkarlækur, Bekansstaðir, Hvítanes I, Hvítanes II og Vallanes. Í nokkrum tilvikum munu veiðihlunnindi vera sameiginleg með tveimur eða fleiri þessara jarða. Ekki er tekið fram um hliðarár í samþykktinni.

Í 3. grein samþykktarinnar er verkefnum félagsins lýst svo, að það skuli viðhalda góðri fiskgengd á félagssvæðinu og leigja það til stangarveiði. Aðalfundi sé heimilt að leyfa takmarkaða netaveiði á ósasvæði Laxár, enda sé þá tekið tillit til þeirrar veiði við úthlutun arðs.

Í 8. grein samþykktarinnar er svofellt ákvæði: "Arði af sameiginlegri veiði skal skipta niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Félagsmenn greiði gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð."

Fyrir yfirmatsmenn hefur verið lagt ljósrit fundargerðar framhaldsaðalfundar veiðifélagsins 16. apríl 1963. Þar var samþykkt að fella niður leyfi um netaveiði á ósasvæðinu, sem gilt hafi sl. 5 ár, en "í stað þess fái sömu aðilar 31½% af leigu árinnar frá ósum að Eyrarfossi."

Þá hefur verið lagt fram ljósrit fundargerðar aðalfundar veiðifélagsins 4. apríl 1970. Var þar samþykkt samhljóða tillaga stjórnar félagsins um "að láta fara fram heildarmat til arðskrár á vatnasvæði Laxár svo langt sem félagssvæðið nær yfir." Hefur svo verið gert síðan, en fyrsta heildararðskrármatið er dagsett 25. mars 1973. Er fram komið, að áður hafi sérstök arðskrá gilt fyrir þá, sem land áttu að ósnum og Laxá að Eyrarfossi, en önnur fyrir eigendur veiðiréttar þar fyrir ofan.

V.

Rekstur árinnar. Leigusamningar um veiði

Um nokkurt skeið hefur veiðifélagið selt Elisha F. Lee á leigu veiði í allri ánni hluta úr sumri, sem síðustu árin hefur verið sex vikur frá mánaðamótum júní/júlí fram í ágúst. Síðasti samningur við hann er frá febrúar 1998 til tveggja ára. Endurgjald 1998 er 181.500 bandaríkjadalir en 199.650 bandaríkjadalir fyrir 1999. Inni í ársleigunni er fæði og húsnæði fyrir einn veiðimann pr. stöng á dag. Leyft er að veiða með sjö stöngum í ánni á þessum tíma.

Tveir leigusamningar hafa gilt síðustu ár um vötnin þrjú á félagssvæðinu og árnar, sem þau tengja. Annars vegar er samningur við KFUM, sem hefur á leigu syðri hluta Eyrarvatns og greiðir fyrir það 250.000 krónur á ári. Hins vegar er samningur við Starfsmannafélag Ísl. járnblendifélagsins hf. um annan hluta þessa svæðis að Draghálsá undanskilinni, en samkvæmt samningi frá apríl 1998 er leiga 875.000 krónur á ári. Stangafjöldi er ekki takmarkaður í vötnunum.

Samkvæmt reikningum veiðifélagsins 1997 námu tekjur þess af sölu veiðileyfa í ánni samtals rúmlega 16,7 m. kr., en í vötnunum samtals rúmlega 1,0 m. kr.

VI.

Gögn til afnota við matsstörf

Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:

 1. Beiðni um yfirmat (áður getið)

 2. Arðskrármat undirmatsmanna 15. mars 1996

 3. Dómkvaðning undirmatsmanna 17. maí 1995

 4. Ljósrit af veiðikorti fyrir Laxá með merktum veiðistöðum

 5. Matsgerð til ákvörðunar á hvar sé um að tefla sjó, straumvatn, stöðuvatn, á, ós og ósasvæði á vatnasvæði Laxár, dags. 21. ágúst 1997

 6. Samþykkt fyrir Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu (áður getið)

 7. Bréf Ísgrafs ehf. 24. mars 1998 varðandi nýja mælingu á bakkalengd Laxár ásamt niðurstöðum á tveim blaðsíðum

 8. Bréf stjórnar veiðifélagsins til félagsmanna 30. mars 1998 til kynningar á niðurstöðum mælingar

 9. Reikningar veiðifélagsins 1989-1997

 10. Ljósrit fundargerða 16. apríl 1963 og 4. apríl 1970

 11. Leigusamningar um Laxá (áður getið)

 12. Undirmatsgerðir á arðskrá í desember 1971 (ósinn), 25. mars 1973 og 21. maí 1986

 13. Yfirmatsgerðir á arðskrá 25. febrúar 1974 og 21. október 1987

 14. Undirmat á ósasvæði Leirár 26. ágúst 1987

 15. Bréf Veiðimálastofnunar til undirmatsmanna 27. september 1995

 16. Veiðimálstofnun: Ýmsar rannsóknarskýrslur varðandi Laxá og gögn frá árunum 1978-1995

 17. Sigurður Már Einarsson: Mat á hrygningar- og uppeldisskilyrðum í vatnakerfi Laxár, febrúar 1996

 18. Yfirlit yfir veiði og hlutfallslega veiði á einstökum veiðistöðum 1984 - 1995 (bæði ár meðtalin)

 19. Yfirlit yfir skiptingu veiðistaða á jarðir

 20. Sundurliðaðar aflatölur eftir veiðistöðum vegna 1996 og 1997

 21. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (getið í kafla II. að framan)

 22. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til undirmatsmanna (Kambshóll, Saurbær, Akurey/Skorholt, Litli Lambhagi, Melkot, Hlíð/Vestra Miðfell, Steinsholt, Hlíðarfótur, Hóll)

 23. Skýrsla "klakveiðinefndar" um klakveiðar á vatnasvæði Laxár 1986

 24. Bréf yfirmatsmanna 20. apríl 1998 til eigenda og talsmanna Lambhaga og Litla Lambhaga, Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots, Saurbæjar, Hlíðar, Vestra Miðfells og Kambshóls með tilmælum um umsögn varðandi ákvörðun veiðifélagsins 16. apríl 1963

 25. Bréf yfirmatsmanna til eiganda Svarfhóls 5. maí 1998

 26. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns eiganda Stóra Lambhaga II 11. maí 1998

 27. Bréf yfirmatsmanna til ábúanda Saurbæjar 2. júní 1998

 28. Bréf yfirmatsmanna til eiganda Lambhaga 8. júní 1998

 29. Svör talsmanna nokkurra jarða (getið í kafla II að framan)

 30. Bréf yfirmatsmanna til stjórnar Veiðifélags Laxár í Borgarfjarðarsýslu 5. maí 1998 varðandi hliðarár og svarbréf 15. júní 1998

 31. Loftmyndir, teknar 8. september 1997, ásamt leiðréttum mæliblöðum frá maí 1998 (sbr. lið nr. 7)

 32. Línurit til samanburðar yfir veiði í fjórum laxveiðiám 1974-1997

 33. Gögn frá veiðimálastjóra um veiði í ósi Laxár fyrir 1963

 34. Veiðimálastofnun: Rannsóknarskýrslur varðandi Laxá frá apríl 1996 og apríl 1998

 35. Veiðimálastofnun: Búsvæðamat á Laxá. Skýrsla til yfirmats, júlí 1998

 36. Veiðimálastofnun: Uppeldi laxaseiða í stöðuvötnum á vatnasvæði Laxár, júlí 1998

VII.

Mælingar á landlengd

Á fundi 4. september 1997, sem áður getur, kom fram að nokkrir eigendur veiðiréttar vefengdu þær mælingar á landlengd, sem fyrir lágu, og áður var stuðst við. Af hálfu stjórnarinnar var því lýst yfir að hún myndi hlutast til um að ný mæling yrði gerð. Var þess jafnframt óskað að yfirmatsmenn legðu nýja mælingu til grundvallar við störf sín. Fékk stjórnin niðurstöður mælinganna í hendur með bréfi Ísgrafs ehf. dags. 24. mars 1998 og sendi áfram til yfirmatsmanna. Voru þær jafnframt kynntar félagsmönnum og frestur settur til 1. maí 1998 til að koma að athugasemdum til stjórnarinnar. Fengu yfirmatsmenn 11. maí 1998 í hendur loftmyndir, sem lágu að baki mælingunum, ásamt leiðréttum mæliblöðum. Hafði þá verið tekið tillit til athugasemda eigenda Kambshóls, Eyrar og Hlíðarfótar, en aðrar athugasemdir munu ekki hafa komið fram.

VIII.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar

Áður er þess getið, að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum:

Hvítanes I og II:

Eigendur jarðanna hafa komið að því sjónarmiði að arður, sem falli til jarðanna Hvítaness I, Hvítaness II og Vallaness, skiptist að jöfnu milli jarðanna þriggja. Í framkvæmd hafi arði af veiði verið skipt að jöfnu eins og öðrum hlunnindum, sem þeim tilheyri. Þessu til skýringar var vísað til nokkurra afsala frá fyrri tíð og landamerkjalýsinga, sem fylgdu í ljósriti.

Litla Fellsöxl og Fellsaxlarkot:

Eigandi jarðanna hefur skriflega lýst athugasemdum við undirmat, sem varði í meginatriðum þrjú atriði. Í fyrsta lagi sé í matinu ekki tekið fullt tillit til fyrri netaveiði og samkomulags, þegar netaveiði var hætt frá jörðunum. Í annan stað séu í undirmati teknar fleiri jarðir inn í ósasvæðið en áður var, sem sé ástæðulaust. Í þriðja lagi telur hann bakkalengd hafa verið látna ráða í matinu um innbyrðis skiptingu milli bæja á ósasvæðinu, sem sé ekki rétt.

Varðandi hið síðastnefnda er því lýst, að þegar netaveiði var hætt 1963 með samkomulagi við stjórn veiðifélagsins um 31,5% hlut landeigenda á ósasvæðinu, hafi verið gert annað samkomulag um skiptingu milli landeigenda á ósasvæðinu innbyrðis. Sú skipting hafi annars vegar miðast við landlengd hverrar jarðar, en hins vegar við fyrri veiði. Frá sumum bæjum hafi aldrei verið unnt að veiða vegna náttúrulegra aðstæðna. Frá öðrum hafi lítt eða ekki verið veitt, þótt aðstæður hafi leyft. Frá enn öðrum bæjum hafi verið veitt um margra ára skeið, en í þeim hópi séu þessar tvær jarðir. Þessari innbyrðis skiptingu hafi verið hnikað lítillega á næstu árum, sbr. t.d. Fannahlíðarsamkomulag 1965. Telur nefndur veiðiréttareigandi því ljóst, að fullt samkomulag hafi verið um að fyrri veiði frá jörðum á ósasvæðinu skyldi vera þáttur í arðshlutdeild þeirra og því rangt að miða aðeins við bakkalengd. Til þessa beri að taka tillit í yfirmati nú.

Því er lýst, að fyrsta arðskráin fyrir allt vatnasvæði Laxár hafi verið samkvæmt undirmati 1973. Með henni hafi hlutdeild jarðanna tveggja verið skert og enn lengra verið gengið á þeirri braut í síðari matsgerðum. Skort hafi á rökstuðning fyrir þeim breytingum. Netaveiði hafi verið hætt 1963 gegn því að fá 31,5% af arði árinnar frá ósi að Eyrarfossi. Það hafi gert mögulegt að fjölga stöngum í ánni og auka tekjur. Engar forsendur hafi breyst til að meta framlag landeigenda á ósasvæðinu minna nú en var í upphafi. Sú breyting hafi að vísu orðið 1971 að efri deild veiðifélagsins hafi verið steypt saman við neðri deildina og allt svæðið frá ósi til efstu vatna þar með orðið ein heild. Sú breyting ein sér rökstyðji ekki svo mikla skerðingu óssins, sem fram komi í síðari mötum og alls ekki þá vaxandi skerðingu, sem orðið hafi. Framlag ósabænda 1963 hafi allt eins haft áhrif á veiði ofan við Eyrarfoss sem neðan við. Eigi því að staðfesta samkomulagið frá 1963 í yfirmati nú.

Í greinargerðinni er loks gagnrýnt að í undirmatsgerð séu fleiri bæir á ósasvæðinu teknir inn í mat. Með því að taka fleiri jarðir inn og meta til bakkalengdar sé í sumum tilvikum verið að meta inn jarðir, þar sem náttúrulegar aðstæður komu í veg fyrir hugsanlega veiði á fyrri tíma. Þvert á móti eigi þeir landeigendur, sem höfðu veiði á fyrri tíð, að njóta þeirra hlunninda sem þeir lögðu fram til aukins arðs í veiðifélaginu. Þetta síðastnefnda sjónarmið hafði áður verið sett fram á fundi með yfirmatsmönnum 4. september 1997 og þá tilgreindar þær jarðir á ósasvæðinu, sem hér er átt við.

Með greinargerðinni fylgdu þrjár töflur á fylgiskjölum. Sýna þær innbyrðis skiptingu milli landeigenda á ósasvæði Laxár 1963, m.a. vegna landlengdar og hlutdeildar í veiði. Ennfremur sýna þær þróun hlutdeildar jarðanna í arði frá 1954 til 1996.

Í athugasemdum þessa veiðiréttareiganda við greinargerðir nokkurra annarra er því lýst, að í fundarsamþykkt 1970 hafi ekki falist frávik frá fyrri samþykkt um að hlutdeild ósasvæðis í leigutekjum árinnar í heild skyldi vera 31,5%. Með samþykktinni 1970 hafi aðeins verið ákveðið að gera arðskrá, sem miðaði að því að jafna og leiðrétta hlutdeild innan félagsins, þ.e. innan hvers svæðis og um leið milli efra og neðra svæðis árinnar. Hlutdeild ósasvæðis um 31,5% skyldi haldast þar til samið hefði verið um annað. Þá eru áréttuð sjónarmið um innbyrðis skiptingu á ósasvæðinu.

Leirá:

Eigandi jarðarinnar lýsti aðstæðum þar sem jörðin á land að Laxá. Bakkalengd er stutt, en gjöfull veiðistaður þar. Hann skýrði einnig viðhorf sín til uppeldis- og hrygningarskilyrða fyrir landi jarðarinnar.

Lambhagi og Litli Lambhagi:

Eigendur Lambhaga og hluta síðarnefndu jarðarinnar lýstu skriflega viðhorfum sínum til matsefnisins. Í greinargerð þeirra kemur fram afstaða til hlutdeildar ósasvæðisins í heild, sem fellur að mestu saman við þau sjónarmið eiganda Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots, sem áður er lýst. Telja þeir að meta beri hlutdeild ósasvæðisins 31,5% af heild. Í greinargerð þeirra er þó ekki að finna þá athugasemd, sem fram kom í fyrrnefndu greinargerðinni, og lýtur að því að fleiri bæir á ósasvæðinu hafi í undirmati notið hlutdeildar í arði þess en var 1963 og síðar.

Þá kemur fram, að ófullnægjandi sé að láta bakkalengd eina ráða um skiptingu arðs á ósasvæðinu. Lambhagi hafi átt hlutdeild í netaveiði fyrir Lambhaganesi eftir skiptingu hlunninda milli jarðanna tveggja. Taka verði tillit til þess nú, svo sem áður hafi verið gert. Þá er rakið hvernig hlutdeild Lambhaga hafi minnkað með hverju mati, sem gengið hafi, allt frá 1934 til 1996. Þessi skerðing hafi ekki verið rökstudd. Hafa verði í huga að bakkalengd og hrygningar- og uppeldisskilyrði á því svæði, sem Lambhagi njóti arðs af í Laxá sjálfri, séu stöðug og veiði þar hafi ekki sveiflast mikið.

Því er lýst að Lambhagi njóti veiði í Laxá að svonefndri Grænurúst (við merki Stóra Lambhaga II og Stóra Lambhaga I). Ágreiningur sé um staðsetningu örnefnisins. Afstaða bréfritara sé sú, að Grænarúst sé svo ofarlega við ána að hluti veiðistaðar nr. 1, þ.e. Stekkjarnesstrengs, sé á svæði Lambhaga. Því beri að telja þeirri jörð 25% veiðistaðarins. Í þessari afstöðu felst, að veiði á 60 metra kafla í ánni, sem Stóri-Lambhagi II telur til réttar yfir, eigi að tilheyra Lambhaga.

Í niðurlagi segir, að ásættanleg hlutdeild Lambhaga í arðskrá gæti verið í líkingu við það, sem var í fyrri arðskrám, t.d. 1973.

Í síðari athugasemdum talsmanns jarðanna er áréttað, að tjón við að taka upp net hafi á sínum tíma verið metið sem nemi 31,5% af leigutekjum árinnar og hljóti að eiga að metast sem samsvarandi hlutfall nú. Fyrri samþykkt hafi ekki verið vikið til hliðar 1970, og hlutdeild ósasvæðisins eigi því að meta sem 31,5% af leigutekjum árinnar. Áréttuð eru fyrri sjónarmið um innbyrðis skiptingu á ósasvæðinu, sem ekki geti ráðist af bakkalengdinni einni, eins og gert sé í undirmati. Í tilefni athugasemda lögmanns Stóra Lambahaga II hafa talsmenn Lambhaga og hluta Litla Lambhaga komið á framfæri ítrekun á þeirri afstöðu að veiðiréttur Lambhaga nái í Stekkjarnesstreng og hluti afla úr þeim veiðistað tilheyri þar með Lambhaga. Er útskýrt nánar í bréfi þeirra hvernig draga beri línu úr svonefndri Grænurúst í Laxá, þar sem merkt sé á loftmynd "lax 31".

Stóri Lambhagi I og Stóri Lambhagi II:

Í bréfi talsmanna þessara jarða til yfirmatsmanna kemur fram, að eftir 1950 hafi jörðinni Stóra Lambhaga verið skipt upp í þrjár jarðir, þ.e. Stóra Lambhaga I, II og III. Njóti Lambhagi frá fornu fari veiðiréttar fyrir löndum, sem nú tilheyri Stóra Lambhaga I og II. Segir síðan, að settir hafi verið upp svonefndir g.p.s. punktar milli jarðanna. Hafi það verið gert að ósk eigenda Stóra Lambhaga I og II svo skipta megi upp rétti Lambhaga til veiði fyrir löndum fyrrnefndu jarðanna.

Athugasemdir bárust frá lögmanni eigenda Stóra Lambhaga II vegna greinargerðar eigenda Lambhaga. Er því mótmælt að Lambhagi eigi veiðirétt í Stekkjarnesstreng fyrir svonefndri Grænurúst. Hafi Stóri Lambhagi I og II notið arðs af veiði þar í arðskrármati hingað til og er þess krafist að svo verði einnig nú. Er um þetta vísað til landamerkjabréfs frá 1886 og dóms Landsyfirréttar 6. maí 1918. Merki milli Stóra Lambhaga I og II séu rétt á loftmynd, sem yfirmatsmenn hafi fengið til afnota og einnig mörk milli veiðiréttar Stóra Lambhaga II og Lambhaga. Krefst lögmaðurinn 25% hlutdeildar Stóra Lambhaga II af veiði úr Stekkjarnesstreng.

Saurbær:

Ábúandi jarðarinnar sendi yfirmatsmönnum ítarlega greinargerð, þar sem undirmat er harðlega gagnrýnt. Lýtur gagnrýni hans í fyrsta lagi að ákvörðun undirmatsmanna um 30% hlut ósasvæðisins í heildararði árinnar. Hafi sameiginlegar athugasemdir talsmanna Kambshóls og Saurbæjar til undirmatsmanna við meðferð málsins í raun varðað önnur atriði, þ.e. bakkalengd og veiði, sem ráða hafi mátt að matsmennirnir ætluðu að láta vega þungt um niðurstöður. Það hafi því komið algerlega á óvart þegar ljóst varð að þeir hefðu látið samþykktina frá 1963 ráða niðurstöðum matsins og þar með allt aðrar forsendur, en lagðar hafi verið til grundvallar í öllum matsgerðum eftir 1970 á núgildandi félagssvæði.

Í greinargerðinni er í upphafi gerð grein fyrir því, meðal annars með tilvísun í fundargerðabók, hvernig félagssvæðið hafi breyst eftir 1963. Þannig hafi verið samþykkt árið 1970 tillaga stjórnarinnar að láta fara fram heildararðskrármat á öllu vatnasvæði Laxár. Áður hafi gilt sitthvor arðskráin fyrir efri og neðri deild veiðifélagsins, sem skiptist um Eyrarfoss. Hafi tillagan verið samþykkt, einnig með atkvæði ósabænda. Þessi samþykkt hafi þannig falið í sér tvennt, þ.e. sameiningu efra og neðra svæðisins og beiðni um sameiginlega arðskrá á öllu hinu nýja félagssvæði. Með samþykktinni hafi því verið ógiltar allar forsendur fyrir samþykktinni 1963 og hún þannig í raun felld úr gildi. Ókleift sé að sjá hvernig ósabændur geti farið fram á að fá í sinn hlut 31,5% af arði hins gjörbreytta félagssvæðis. Í undirmatsgerð nú sé algerlega horft framhjá því að verulega hafi verið aukið við félagssvæðið, auk þess sem ákvörðun matsmanna um 30% en ekki 31,5% sé augljóslega marklaus með öllu.

Fyrsta sameiginlega arðskráin hafi síðan verið gerð 1973. Hún hafi verið ítarleg og falið í sér frumúttekt á hinu nýja, sameinaða félagssvæði. Hvorki þá né í síðari matsgerðum hafi verið litið til samþykktarinnar frá 1963 við skiptingu arðskrár fyrr en í undirmati 1996. Fram komi í undirmatsgerð 1986 að við yfirmat á arðskrá 1974 hafi krafa ósabænda í þessa veru legið fyrir, en matsmenn þá ekki tekið tillit til hennar. Verði að telja þá þróun eðlilega að hlutur ósasvæðisins hafi lækkað í matsgerðum síðari árin. Því til enn frekari stuðnings er vísað til undirmatsgerðar 1986, þar sem rakið sé hvernig stöðugt hafi verið þrengdar heimildir manna til að veiða lax í net. Eigi það bæði við um áhrifaríkar veiðiaðferðir og tæki, sem áður hafi verið leyfð en séu það ekki lengur sem og um leyfilegan veiðitíma, en hann hafi verið styttur. Þá hafi harðir sjávarfallastraumar og slírek torveldað veiði á þessu svæði, sem hafi verið vinnufrek og kostnaðarsöm. Bendi veiðitölur frá fyrri árum ekki til þess að veiði hafi í reynd verið mikil í ósnum. Netaveiði í ám hafi enda verið almennt á undanhaldi fyrir stangarveiði, sem gefi áreigendum miklu meiri tekjur.

Í ítarlegum athugasemdum vegna framkominna sjónarmiða nokkurra jarðeigenda við árósinn áréttar ábúandi Saurbæjar, að um sé að ræða tvær aðalfundarsamþykktir í félaginu, þ.e. 1963 og 1970. Hafi sú síðari óvefengjanlega hnekkt hinni fyrri, þótt það hafi verið gert með óbeinum hætti. Ósabændur hafi engan fyrirvara gert í umrætt sinn, sem þó hefði verið unnt að gera, s.s. með því að ósasvæðið skyldi vera utan mats þar til samið hefði verið um hlut þess í heildararðskrá fyrir stækkað félagssvæði. Þá sé það beinlínis rangt, sem fram komi í forsendum undirmats, að veiði hafi ekki verið stunduð ofan Eyrarfoss fyrir 1963. Það hafi verið gert allt frá 1950, er fiskvegur var sprengdur framhjá fossinum. Áður var fram komið hjá honum að veiðitölur á efra svæðinu fyrir 1968 séu ekki fyrir hendi. Er í athugasemdunum jafnframt vikið að aðdraganda og forsendum samþykktarinnar 1963.

Annað atriði í greinargerð ábúanda Saurbæjar lýtur að hlut svonefnds vatnasvæðis í arðskrá, sem í undirmati sé 10%. Hafi svæðinu ekki áður verið ætlaður jafn rýr hlutur í arði árinnar. Rök fyrir þessari lækkun sjáist þó ekki í matsgerðinni, auk þess sem mikils misræmis gæti milli bæja á svæðinu innbyrðis. Þá sé flestum bæjum þar ekki metinn neinn arður vegna uppeldis- og hrygningarskilyrða. Í þessum þætti er haldið fram að síðastnefnda atriðið eigi að vega mun þyngra við arðskrármat en verið hafi, og þar séu vötnin og efri hluti árinnar mjög mikilvægur öllu lífkerfi árinnar. Þar séu álitlegir hrygningarstaðir og góð uppeldisskilyrði. Þá er nefnt, að vorflóð í ánni, sem leiði til að afföll verði á seiðum, valdi ekki slíku tjóni í vötnunum. Þá ályktun megi draga, að þegar hrygning bregst neðar í ánni sé það vatnasvæðið, sem tryggi stöðugleika. Til stuðnings framanröktu er vísað til matsgerðar 1973 og rannsóknarskýrslna Veiðimálastofnunar, en mun ítarlegri upplýsingar liggi nú fyrir um mikilvægi svæðisins en var t.d. er matsgerðin 1973 var samin. Séu því forsendur fyrir að taka aukið tillit til þessa þáttar við arðskrármat. Þess er loks getið, að vötnin hafi varanleg miðlunaráhrif á alla ána um fæðu og varma, sem sé meiri þar en í ánni.

Þá er þess getið að laxastigi, sem gerður var í Eyrarfossi 1950 hafi gert alla ána og vötnin að einni líffræðilegri heild, a.m.k. með tilliti til laxagengdar. Hafi geysileg veiðiaukning orðið í stangaveiði í ánni neðan við Eyrarfoss u.þ.b. fimm árum síðar. Nærtæk skýring sé gerð laxastigans og að laxinn hafi þar með fengið aðgang að mun betra hrygningar- og uppeldissvæði en hann hafi áður átt kost á og því náð að fjölga sér svo verulega. Þetta hafi í raun gjörbreytt allri aðstöðu til hins betra.

Laxastiginn og hlutur efsta svæðisins í arðskrá er einnig til umfjöllunar í áðurnefndum athugasemdum ábúanda Saurbæjar til yfirmatsmanna. Áréttað er að veiðiaukning með tilkomu stigans hafi ekki verið stundarfyrirbrigði, heldur haldist áfram í sama horfi. Samhengi milli aukinnar laxagengdar og gerðar stigans sé augljóst, enda hafi búsvæði árinnar nær tvöfaldast við tilkomu hans. Þá telur hann veiði á efsta svæðinu í raun vera a.m.k. 25% af heild, ef tekið sé tillit til allrar veiði í vötnunum sjálfum og enn meiri ef einnig er litið til klakveiði og veiði í Draghálsá. Þá er í athugasemdum hans bornar saman með ýmsum hætti veiðitölur á árunum 1943 til 1963 og nákvæmar töflur settar upp.

Þriðja atriðið í greinargerð talsmanns Saurbæjar varðar klakveiði haustið 1986. Hafi hún þá þegar verið umdeild, en langflestir þeirra 687 laxa, sem teknir voru í þessu skyni, hafi veiðst fyrir landi Saurbæjar. Þessi aðgerð hafi stórlega spillt veiði í mörg ár á Breiðunni og Selósi, sem séu helstu veiðistaðir fyrir landi Saurbæjar. Líklegasta ástæðan sé sú að ónógur fiskur hafi orðið eftir til að sjá um hrygninguna, en veiðin þar hafi farið lægst þegar hrygning 1986 og næstu ár hefðu átt að skila sér. Við gerð undirmats hafi þess verið óskað að klakveiðin yrði skráð sem veiði á viðkomandi veiðistöðum og tekið tillit til þess við mat. Er sú ósk ítrekuð auk þess sem tekið verði tillit til afleiðinga klakveiðanna, sem hafi stórskemmt efsta svæðið í mörg ár. Það sé fyrst nú sem ætla megi að afli geti verið svipaður á efsta svæðinu og var áður en í nefnda klakveiði var ráðist.

Þá er í fjórða lagi umfjöllun í greinargerð og athugasemdum talsmanns Saurbæjar um veiðitölur og misjafnt veiðiálag að baki þeim, þar sem færa megi rök fyrir að sóknarþungi veiðimanna sé mun meiri í neðri hluta árinnar. Þar er einnig getið um hafbeitarlax, sem í nokkur ár hafi leitað upp í ána og veiðst nær eingöngu í neðsta hluta hennar. Gefi þessi atriði mjög villandi mynd af því, hversu mikla hlutdeild efra svæðið eigi í laxaframleiðslu árinnar, en að öllu virtu megi ætla að framlegð efra svæðisins sé ekki undir 45%. Sitthvað hafi því orðið til að skekkja þá mynd, sem veiðitölur síðustu ára gefi, sem beri að taka tillit til og leiðrétta í yfirmati.

Loks er að því vikið að ágreiningur sé milli Saurbæjar og Svarfhóls um skiptingu veiðistaðarins Tjaldhyls, sem liggur um landamerki jarðanna. Hafi hann verið skráður að ¾ hlutum í eigu Saurbæjar en ¼ í eigu Svarfhóls. Er þess krafist að sama skipting verði nú lögð til grundvallar og verið hefur. Með samkomulagi megi hins vegar leysa þetta með öðrum hætti til frambúðar, eins og hann hafi gert tillögu um við eiganda Svarfhóls.

Hlíð og Vestra Miðfell

Í sameiginlegri greinargerð til yfirmatsmanna fara eigendur jarðanna þess á leit að arði verði skipt jafnt milli þeirra í stað þess að meta hann óskiptan í einu lagi, svo sem gert hafi verið í undirmati. Þá eru þar reifuð sjónarmið um áðurnefndar fundasamþykktir frá 1963 og 1970, sem falla efnislega saman við sjónarmið talsmanns Saurbæjar, sem rakin voru að framan. Þessu lýsti talsmaður Hlíðar einnig á fundi 4. september 1997 og að niðurstaða undirmats hafi að þessu leyti komið sem þruma úr heiðskíru lofti. Þá kemur fram, að rannsóknir á uppeldis- og hrygningarskilyrðum hafi einkum beinst að efri hluta félagssvæðisins, en séu engan veginn fullnægjandi fyrir landi þessara tveggja jarða. Telja verði þó að þar séu þau góð á tilteknum kafla, sem skýrt er nánar. Loks er bent á, að tæplega sé rétt að hafa veiðitölur frá 1984 og 1985 inni í grundvelli mats nú, en á þeim hafi verið byggt í mati 1986. Hins vegar sé rétt að taka veiði 1996 og 1997 með.

Eigandi Hlíðar hefur einnig sent yfirmatsmönnum athugasemdir vegna sjónarmiða nokkurra veiðiréttareigenda við árósinn um samþykktina frá 1963. Bréfinu fylgdi ódagsett yfirlýsing, undirrituð af talsmönnum tuttugu jarða við Laxá. Lýsa þeir því sjónarmiði að samþykkt veiðifélagsins hafi fallið úr gildi með samþykkt sama aðila 1970. Enginn fyrirvari hafi þá komið fram um að fyrri hlutdeild eigenda ósasvæðisins skyldi gilda áfram á stækkuðu félagssvæði. Hverjum einstökum landeiganda skyldi ákveðin hlutdeild úr einum sameiginlegum sjóði, og félagssvæðið hafi eftir það verið rekið sem ein heild. Sé bréfriturum ekki kunnugt um að landeigendur á ósasvæðinu hafi gert athugasemdir við mat 1973, sem gilt hafi í mörg ár án athugasemda. Fyrir yfirmat 1987 hafi þeir hins vegar rökstutt ítarlega sjónarmið sín, sem ekki hafi verið fallist á. Séu því liðin um 25 ár frá því horfið var frá 31,5% hlutdeild eigenda ósasvæðis í leigutekjum árinnar neðan Eyrarfoss.

Tunga:

Eigandi jarðarinnar lýsti munnlega veiðistöðum fyrir landi jarðarinnar, sem hefðu verið gjöfulir. Taldi hann hlut jarðarinnar hafa verið heldur lágt metinn í mati til þessa.

Svarfhóll:

Eigandi jarðarinnar lýsti viðhorfum sínum munnlega fyrir yfirmatsmönnum. Hann hefur einnig hefur sent yfirmatsmönnum athugasemdir í tilefni greinargerða ábúanda Saurbæjar og lúta þær að tveim atriðum, sem þar komu fram. Hið fyrra varðar veiðistaðinn Tjaldhyl, en eigandi Svarfhóls telur að veiði úr honum eigi að skiptast að jöfnu milli jarðanna vegna suðurbakka árinnar. Engar skýringar hafi fengist á eldri matsniðurstöðu um að telja veiði þar að þrem fjórðu hlutum hjá Saurbæ. Hafi eftirgrennslan sín og viðræður við nafngreinda menn, sem best þekki til aðstæðna, leitt í ljós að engar forsendur séu fyrir þeirri ójöfnu skiptingu, sem verið hafi. Að auki hafi sömu menn skýrt frá því að fyrir komi að laxi, sem taki agn á næsta veiðistað fyrir neðan í landi Svarfhóls, svokallaðri Holu, sé landað í Tjaldhyl vegna betri aðstæðna. Það bjóði heim þeirri hættu að þeir fiskar séu skráðir á Tjaldhyl og að Saurbær njóti þá einnig þeirrar veiði. Með athugasemdunum fylgdi loftmynd með skýringum á aðstæðum við Tjaldhyl.

Hitt atriðið í athugasemdum þessa veiðiréttareiganda varðar klakveiðar 1986. Hafi 687 laxar verið veiddir í þessu skyni og stór hluti seldur lifandi til fiskeldisstöðva. Þessar veiðar hafi farið fram undir leiðsögn Veiðimálastofnunar, en mikil eftirspurn hafi þá verið eftir klakfiski. Skýrsla klakveiðinefndar fylgdi athugasemdunum.

Því er lýst, að laxagengd sé einkum háð fjölda sjógönguseiða hverju sinni og afdrifum þeirra í sjó. Aðstæður hafi verið þannig 1986 að óvenju margir laxar gengu upp fyrir Eyrarfoss, þótt ekki sé vitað með vissu um fjöldann. Hnígi öll rök að því að svæðið hafi alls ekki verið "hreinsað upp og stórskemmt" með klakveiðum sama haust. Þannig hafi mæling fiskifræðinga á efsta svæði árinnar 1987 sýnt laxaseiði frá hrygningu 1986 alls staðar þar sem mælt var. Þá verði að hafa í huga að hrygningarsvæði á efsta svæði árinnar séu mjög takmörkuð. Lax geti t.d. ekki hrygnt í stöðuvötnum, gagnstætt því sem ábúandi Saurbæjar haldi fram, þótt þau nýtist til seiðauppeldis. Ekki þurfi hundruð hrygna til að nýta hrygningarsvæði í ánni og lækjum á þessu svæði. Þá komi það einnig til að árin 1991-1994 hafi orðið niðursveifla á laxveiði í Laxá. Þetta hafi gerst á sama tíma og laxar úr hrygningu 1986 áttu að koma inn í veiðina, einkum 1991 og 1992. Nákvæmlega hið sama hafi gerst í næstu veiðiám, þ.e. Leirvogsá, Laxá í Kjós og Langá, en alþekkt sé að laxveiði í ám á sama svæði sveiflist til með svipuðum hætti. Samanburður við laxagengd á Hvítársvæðinu á þessum árum eigi ekki við vegna upptöku neta. Er þetta skýrt nánar með línuritum, sem fylgdu athugasemdunum. Það, að þessar ár hafi lent í sömu niðursveiflu í veiði og Laxá, bendi eindregið til að skilyrði í sjó hafi almennt verið óhagstæð laxi á þessum árum. Þá eru gerðar sérstakar athugasemdir við nokkur atriði í greinargerð ábúanda Saurbæjar. Þess sé þar ekki getið að allmargir laxar hafi sloppið aftur eða verið sleppt. Þá hafi enginn lax verið tekinn í klak á svonefndri Breiðu heldur ofar, þ.e. í Eyrarvatni. Sveiflur í veiði á Breiðunni verði ekki skýrðar með þessu, en árið 1985, þ.e. ári fyrir klakveiðarnar, hafi þar aðeins veiðst 15 fiskar. Er algerlega hafnað staðhæfingu ábúanda Saurbæjar að klakveiðar hafi haft skaðlegar afleiðingar fyrir lífkerfi Laxár.

Í niðurlagi athugasemdanna er fjallað um þróun verðs á laxi eftir 1963, sem annars vegar er veiddur í net og hins vegar á stöng. Sýni útreikningar meðal annars að verðmæti stangarveidds lax úr ánni sé í dag rúmlega átján sinnum meira en söluverð á sama laxi á markaði.

Glammastaðir, Kambshóll, Geitaberg og Saurbær:

Guðmundur Gunnarsson verkfræðingur hefur ritað yfirmatsmönnum athugasemdir fyrir hönd ofangreindra jarða. Þar er í upphafi fjallað almennt um skiptingu arðskrár. Er síðan lýst gerð laxastiga í Eyrarfossi 1950 og endurbyggingu hans 1972 og þýðingu þessara framkvæmda fyrir efra svæðið og ána í heild. Fiskgengd jókst stórlega í kjölfarið, sem rakið er í tölum. Kostnaði við endurgerð stigans 1972 hafi að hluta verið mætt með styrk, en að öðru leyti skipt að jöfnu milli þeirra, sem áttu veiðirétt neðan hans og ofan. Segi það sína sögu um mat manna á verðmæti efra svæðisins á þessum tíma og mikilvægis fyrir ána í heild. Það mat sé einnig staðfest af síðari reynslu.

Varðandi veiði er vísað til undirmats 1973, en þar komi fram að hlutfall veiði milli efra og neðra svæðis á árunum 1968-1972 sé að meðaltali 38:62. Gefi þær tölur nokkuð góða hugmynd um veiði í ánni áður en seinni tíma breytinga fer að gæta eftir endurgerð laxastigans. Inni í þessum tölum sé ekki veiði í Eyrarvatni og ofan þess, en meðaltal þar eftir 1975 sé 5,228% af heildarveiði vatnasvæðisins. Raktar eru sveiflur í veiði og líkleg áhrif klakveiði 1986 í því sambandi. Megi ráða, að gengið hafi verið full nærri svæðinu með þeim og að því verði að gefa gaum í mati nú. Göngur hafbeitarfisks í ána hafi einnig orðið efra svæðinu í óhag, en sá fiskur hafi nær eingöngu veiðst neðst í henni. Komi fram í skýrslu Veiðimálastofnunar, að veiði hafbeitarfisks hafi á ákveðnu tímabili orðið 26-31% af heildarveiði í ánni. Megi slík skammvinn utanaðkomandi áhrif ekki valda óeðlilegri röskun á arðskrá árinnar til lengri tíma.

Þá er fjallað um áðurnefndar samþykktir frá 1963 og 1970 og svarað röksemdum talsmanns Akureyjar/Skorholts vegna ágreinings um arðskrármat 1996. Síðasti hluti athugasemdanna lýtur að uppeldis- og hrygningarskilyrðum, og sérstaklega vísað til skýrslu Veiðimálastofnunar frá 1996 í því sambandi. Þar komi glöggt fram að vötnin hafi úrslitaáhrif á frjósemi einstakra svæða vatnakerfisins. Framleiðni svæðisins, þ.e. Eyrarvatns og þar fyrir ofan, sé um 25-30% af gönguseiðaframleiðslu þess alls. Þá eigi eftir að meta áhrif miðlunar vatnsins á varma og í flóðum og til verndunar á fiski í veðurhörkum. Enn komi til næringarframleiðsla þeirra. Framleiði áin ofan við foss mun meira hlutfallslega af seiðum en neðan hans. Er um það vísað til skýrslunnar. Loks þurfi að meta til arðs eða greiða eðlilega leigu fyrir ólaxgeng svæði, sem tekin hafi verið til ræktunar. Jafnframt þurfi að taka eðlilegt tillit til silungsveiði. Í niðurlagi athugasemdanna er lýst því áliti að arður af efri hluta árinnar og vötnunum hafi verið stórlega vanmetinn í eldri arðskrám.

Kambshóll:

Á fundi með yfirmatsmönnum gagnrýndi eigandi jarðarinnar ýmsa þætti undirmatsgerðar, einkum varðandi hrygningar- og uppeldisskilyrði. Séu vötnin án vafa bestu uppeldissvæðin, sbr. skýrslur Veiðimálastofnunar. Hann lýsti því einnig að veiði hafi dottið niður eftir klakveiði 1986. Varðandi silungsveiði séu ekki til veiðitölur, þar sem veiðimenn hafi ekki skráð þá veiði. Þetta hafi þó lagast eftir að Starfsmannafélag Ísl. járnblendifélagsins hf. tók vötnin á leigu.

Í skriflegri greinargerð eigenda jarðarinnar eru ítrekuð og skýrð nánar áður fram komin sjónarmið. Kemur m.a. fram að veiði og þ.m.t. laxveiði hafi ekki verið reglulega skráð í vötnunum, en til hennar beri að taka tillit. Þá hafi silungsveiði minnkað í vötnunum eftir að laxi var hleypt þangað og um leið tekjumöguleikar landeigenda þar. Þessu verði einnig að gefa gaum við skiptingu arðskrár. Þá eru sett fram sjónarmið um samþykkt veiðifélagsins 1963, sem falla efnislega saman við afstöðu ábúanda Saurbæjar, sem áður er lýst. Um fiskgengd á efra svæðið megi fá upplýsingar úr teljara í laxastiga, en klakveiði 1986 sýni með öðru hvílíkur fjöldi laxa sé á þessu svæði. Þá sé vestari hluti Eyrarvatns grynnri en aðrir hlutar vatnsins og því betur fallinn til hrygningar og seiðauppeldis. Er þess krafist í greinargerðinni að hlutur Kambshóls verði ákveðinn svipaður og var samkvæmt síðasta yfirmati.

IX.

Skipting arðs. Almennt.

1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 hefur að geyma ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: "Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."

Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu skal arði af sameiginlegri veiði svo og gjöldum, sem af starfsemi félagsins leiðir, skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Í síðustu arðskrá 1987 hefur arði verið skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 1000. Verður sá háttur einnig hafður á nú. Fara hér á eftir niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig einingar skuli skipast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein getur, og hvernig önnur atriði geti haft þar áhrif á.

X.

Samþykktir funda í veiðifélaginu 1963 og 1970

Að framan eru rakin ólík viðhorf veiðiréttareigenda til þess, hvort taka beri við skiptingu arðskrár mið af samþykkt frá 1963 um 31,5% hlut eigenda við ósinn. Verður ekki hjá því komist að taka í upphafi afstöðu til þessa atriðis. Það er þó ekki vandalaust, enda eru fundasamþykktir frá 1963 og 1970, sem hér skipta máli, fáorðar og um þessar ákvarðanir nýtur mun takmarkaðri upplýsinga en æskilegt væri. Að vissu marki hefur þó verið bætt úr með greinargerðum veiðiréttareigenda sbr. að framan.

Með síðari samþykktinni 1970 runnu saman tvær deildir, sem ráða má að hafi hvor um sig í reynd verið rekin sem sjálfstætt félag væri, um hin mikilvægustu mál, s.s. ráðstöfun veiði og skiptingu arðs. Einungis félagsmenn neðri deildarinnar stóðu að eldri samþykktinni. Eigendur veiðiréttar ofan Eyrarfoss samþykktu hvorki 1970 né síðar að samþykktin frá 1963 skyldi eftirleiðis binda þá á nokkurn hátt við skiptingu arðs. Sjónarmið a.m.k. sumra veiðiréttareigenda við ósinn um að þeir eigi í skjóli samþykktarinnar frá 1963 að fá í sinn hlut 31,5% af öllum arði árinnar eiga því ekki við rök að styðjast.

Til skoðunar kemur þá, hvort taka eigi mið af margnefndri samþykkt að því er varðar tekjur af ánni neðan Eyrarfoss. Samþykktin ber ekki með sér að slík skipun mála hafi verið ákveðin, og ekki fæst heldur séð að neinn áskilnaður eða fyrirvari hafi verið gerður í þá veru við sameiningu deildanna 1970. Þótt ekki verði um það fullyrt kann það að hafa tengst augljósum annmörkum á að slíkt væri yfirhöfuð kleift. Í sameiningu deildanna fólst t.d. beinlínis að áin yrði eftir það leigð út óskipt í einu lagi ef henta þætti, sem og varð reyndin. Ef halda hefði átt í samþykktina frá 1963 við breyttar aðstæður hefði óhjákvæmilega þurft að staðreyna hlutfallslega skiptingu arðs milli efra og neðra svæðis með hliðsjón af öllum þáttum, sem almennt ráða skiptingu arðskrár. Að því er varðar veiði er fram komið að lítilla staðfestra upplýsinga nýtur fyrir 1968 um efra svæðið. Hafa því ekki legið fyrir haldbær gögn um hlutfallslega skiptingu veiði milli svæðanna á tímabilinu 1950-1968 eða öllu fremur 1955-1968, er áhrifa laxastiga í Eyrarfossi var farið að gæta að fullu. Vitneskja um skiptingu veiði milli svæða hefði þó ekki dugað ein sér til að unnt hefði verið að halda í samþykktina frá 1963. Skipting annarra þátta milli svæða, þ.e. landlengdar og uppeldis- og hrygningarskilyrða hefði einnig þurft að eiga sér stað, svo unnt hefði verið að framfylgja eldri samþykktinni við breyttar aðstæður. Síðastnefnda atriðið hefur sýnilega verið fullkominni óvissu háð. Ekki fæst séð að neinar tilraunir hafi verið gerðar þá eða síðar til að ráða fram úr þessu, og því ekki forsendur fyrir hendi til að skipta tekjum milli svæðanna tveggja.

Framkvæmd við skiptingu arðskrár í kjölfar sameiningar svæðanna rennir enn stoðum undir að í reynd hafi verið gengið út frá að eldri samþykkt frá 1963 hafi fallið niður 1970. Fyrsta arðskrármat eftir sameiningu er frá 1973 og er ítarlegt og vandað. Matið ber ekki með sér að samþykktin frá 1963 hafi á nokkurn hátt ráðið skiptingu arðskrár eða að sjónarmið um að svo skyldi vera hafi komið fram. Þeim sjónarmiðum var hins vegar með vissu teflt fram síðar, en ekki á þau fallist fyrr en í undirmati 1996 með þeim óútskýrðu afbrigðum þó, að í hlut ósasvæðisins skyldu falla 30% tekna af allri ánni og vötnunum.

Niðurstaðan af öllu framanröktu er sú, að yfirmatsmenn telja að með ákvörðun veiðifélagsins 1970 hafi eldri ákvörðun frá 1963 í raun verið felld úr gildi. Framkvæmd mats um skiptingu arðskrár í kjölfar hennar styður þá niðurstöðu. Ákvörðun veiðifélagsins frá 1963 er því ekki bindandi við skiptingu arðskrár nú og verður hafnað kröfum um að leggja hana til grundvallar.

XI.

Landlengd

Í VII. kafla að framan er getið nýrrar mælingar á landlengd að Laxá (án hliðaráa), en endanleg mæliblöð eru frá maí 1998. Ekki hafa komið fram gagnvart yfirmatsmönnum athugasemdir um réttmæti mælingarinnar og verður hún lögð til grundvallar, eins og hún liggur fyrir. Á einum stað er ágreiningur um merkjapunkt (Grænurúst), sbr. XII. kafla hér á eftir.

Niðurtaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 280 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Laxá. Falla þær til hins laxgenga hluta árinnar frá óslínu í sjó að ólaxgengum fossi í Draghálsá. Einstökum mældum vatnsbökkum verður gefið jafnhátt vægi frá útfalli Geitabergsvatns að óslínu í sjó. Bökkum eyja og hólma í ósnum, sem mældir hafa verið, verður hins vegar gefið hálft vægi miðað við aðra mælda vatnsbakka. Vegna minna vatnsrennslis verður landlengd við Draghálsá og Geitabergsvatn gefið nokkuð lægra vægi en öðrum ár- og vatnsbökkum.

Í III. kafla að framan er vikið að hugsanlegri hlutdeild rétthafa í Leirá í ósasvæðinu. Slík réttindi hafa engin áhrif á ákvörðun um rétt veiðiréttareigenda í Laxá í þessum sama ósi.

XII.

Aðstaða til stangarveiði

Að framan er í V. kafla getið leigusamninga um Laxá og útleigu veiðifélagsins sjálfs á veiðinni að hluta. Í VI. kafla eru taldar upp skýrslur, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á laxi 1984-1997 að báðum árum meðtöldum. Við mat nú verður tekið mið af veiði þetta tímabil að frátöldum tveim fyrstu árunum, en þau voru tekin með við skiptingu síðustu arðskrár. Á tímabilinu 1986-1997 hafa samkvæmt skýrslunum samtals veiðst 12.686 laxar.

Það sjónarmið hefur komið fram að ekki eigi að taka tillit til hafbeitarlaxa, sem veiðst hafa í Laxá. Rök fyrir því eru að dómi yfirmatsmanna ekki svo þungvæg að ástæða sé til að fallast á þau, auk þess sem illgerlegt væri að tína út með öryggi þá fiska, sem samkvæmt því ætti að fella brott. Verður þessi afli því talinn með eins og önnur veiði. Hafa yfirmatsmenn skipt allri laxveiði milli jarða eftir uppgefnum veiðistöðum. Þar sem veiðistaðir eru í merkjum milli jarða er afla skipt jafnt milli þeirra.

Ágreiningur hefur reynst vera um tvo veiðistaði, sbr. umfjöllun í VIII. kafla að framan um sjónarmið veiðiréttareigenda. Er þar í fyrsta lagi um að ræða veiðistaðinn Tjaldhyl milli Svarfhóls og Saurbæjar. Yfirmatsmenn hafa skoðað staðinn með veiðiréttareigendum og rætt við staðkunnuga, þ.m.t. veiðileiðsögumenn. Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að rétt sé að skipta veiði úr þessum veiðistað jafnt milli jarðanna tveggja vegna suðurbakka árinnar. Varðandi veiðistaðinn Stekkjarnesstreng er ágreiningur milli Lambhaga og Stóra Lambhaga II. Hafa yfirmatsmenn einnig skoðað þann stað með fulltrúum jarðanna. Samkvæmt landamerkjabréfi og dómi Landsyfirréttar, sem áður er getið, nær veiðiréttur Lambhaga "frá Grænurúst" niður eftir ánni. Orðalagið rennir ekki stoðum undir að veiðiréttur fyrir Grænurúst tilheyri Lambhaga. Gögn málsins styðja að Stóri Lambhagi II hafi í reynd notið til þessa veiðiréttar við skiptingu arðs vegna 60 metra kafla í ánni meðfram Grænurúst neðan landamerkja Stóra Lambhaga I og II og jafnframt helmings veiði úr Stekkjarnesstreng vegna suðurbakka árinnar. Er niðurstaða yfirmatsmanna sú að Stóri Lambhagi II en ekki Lambhagi skuli njóta arðs vegna afla úr þessum veiðistað og landlengdar á þessum kafla.

Gagnstæð sjónarmið um klakveiði 1986 eru rakin að framan og hvort taka eigi tillit til hennar. Yfirmatsmenn telja ekki rök til þess að fella fiska, sem teknir eru í þessu augnamiði úr á eftir lok veiðitíma, undir ákvæði 50. gr. laga nr. 76/1970 um "aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði". Laxar, sem teknir voru í klak 1986 verða því ekki taldir með veiði úr ánni. Að því er varðar að öðru leyti mikla klakveiði umrætt ár er niðurstaða yfirmatsmanna sú, að ekki sé við næg haldbær gögn að styðjast svo unnt sé að slá föstu að þær hafi haft skaðlegar afleiðingar í för með sér fyrir veiði á efra svæðinu, þótt fallast megi á að nokkrar líkur séu fram komnar um að þær geti ásamt öðru hafa haft þar áhrif á. Getur þetta atriði ekki haft áhrif á skiptingu arðskrár nú, eins og málið liggur fyrir yfirmatsmönnum.

Lax- og silungsveiði í vötnum á efsta hluta félagssvæðisins og ám, sem þau tengja auk Draghálsár, er lítt skráð. Er því ókleift að úthluta einingum vegna veiði á svæðinu á hefðbundinn hátt í samræmi við afla, sem fengist hefur fyrir landi hvers veiðiréttareiganda. Verður við svo búið að leita annarra leiða við skiptingu arðs vegna veiði á þessu svæði. Fyrir liggur leigusamningur við KFUM og Starfsmannafélag Ísl. járnblendifélagsins hf., sbr. V. kafla að framan. Við arðsúthlutun vegna þessarar veiði hafa yfirmatsmenn litið til þess, hvert er hlutfall tekna af henni miðað við heildartekjur af sölu veiðileyfa á félagssvæðinu. Það hlutfall er sem næst einn á móti fimmtán þegar litið er til síðustu fimm ára. Verður efsta svæðinu í heild úthlutað einingum vegna veiði með hliðsjón af því.

Við skiptingu eininga, sem svara þessum hlut milli jarða er eiga aðild að máli, er við sömu vandkvæði að etja þar eð aflatölur eru ekki fyrir hendi. Að gættum þeim upplýsingum og vísbendingum, sem fyrir liggja, telja yfirmatsmenn hæfilegt að skipta einingum, sem til svæðisins falla vegna veiði þannig, að 35% þeirra komi í hlut eigenda þeirra þriggja áa, sem þar eru, en 65% falli til eigenda vatnanna. Að því er árnar varðar eru engin haldbær gögn fyrir hendi um afla á einstökum veiðistöðum. Verður einingum því skipt eftir bakkalengd ánna, en þó þannig að bakkar Selóss og Þverár fá þrefalt vægi en bakkar Draghálsár einfalt. Er þá einkum litið til þess að veiðivon í síðastnefndu ánni er lítil fyrr en seint á veiðitímabilinu. Einingum vegna veiði í vötnunum verður einnig skipt eftir bakkalengd, en þó þannig að bakkar Eyrarvatns fá 50% hærra vægi en bakkar Glammastaðavatns og Geitabergsvatns auk þess sem sérstakt tillit er tekið til hagstæðari samnings um endurgjald fyrir veiði í suðurhluta Eyrarvatns en annars staðar á svæðinu.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 385 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á félagssvæðinu. Sjónarmið um misjafnt veiðiálag að baki veiði á efri og neðri hluta svæðisins geta hér ekki haft þýðingu við skiptingu arðs.

XIII.

Uppeldis- og hrygningarskilyrði

Í VI. kafla að framan er getið gagna vegna uppeldis- og hrygningarskilyrða, sem fyrir yfirmatsmönnum liggja. Hefur Veiðimálastofnun gert ítarlegar rannsóknar-skýrslur um málsefnið, en þar ber einkum að nefna nýgerðar skýrslur frá júlí 1998 (liðir nr. 35 og 36 í upptalningu gagna). Voru þær samdar að ósk stjórnar veiðifélagsins í tilefni yfirmats á arðskrá. Hafa yfirmatsmenn jafnframt átt fund með sérfræðingi Veiðimálastofnunar og fengið nánari skýringar.

Ljóst er að uppeldis- og hrygningarskilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða svæða í vatnakerfi Laxár er litið. Tekið er fram í skýrslum Veiðimálastofnunar, að vatnakerfið sé mjög víðfeðmt og flókið að uppruna. Skiptir stofnunin Laxá eftir hrygningarskilyrðum og uppeldisskilyrðum seiða frá upptökum árinnar úr Eyrarvatni að efri mörkum ósasvæðis hennar. Er lagt mat á einstaka kafla árinnar sem búsvæði fyrir uppeldi fisks, þar sem gerð botnefna í ánni er gefið vægi á mælikvarða frá 0,0 til 0,6. Er ánni með þeim hætti skipt í sjö mislanga kafla, þar sem reiknaður er út fjöldi svokallaðra framleiðslueininga fyrir hvert svæði. Er efsta svæðið mjög hagstætt að því leyti að þar gætir mest jákvæðra áhrifa lífræns reks úr stöðuvötnunum. Mörkum þessara sjö svæða er lýst, en þó ekki með tilliti til landamerkja milli jarða. Einstakar jarðir geta því átt land að misgóðum búsvæðum. Hafa yfirmatsmenn heimfært landlengd hvers og eins veiðiréttareiganda við ána að einstökum svæðum. Ám á efsta hluta vatnsvæðisins er skipt með sama hætti í búsvæði. Eru hrygningarskilyrði góð í þeim öllum, en skilyrði fyrir uppeldi seiða mjög misjöfn. Í skýrslunum kemur meðal annars fram sú niðurstaða, að af seiðaframleiðslu í straumvatni á vatnasvæðinu er rúmlega 80% í Laxá sjálfri og hliðará hennar, en tæplega 20% í áðurnefndum þremur ám og hliðarám á efsta svæðinu.

Að því er vötnin varðar er með sama hætti lýst hvaða aðstæður í þeim henti best fyrir uppeldi seiða. Er það einkum við strendur vatnanna, þar sem dýpi og botngerð er með nánar tilteknum hætti. Færa seiði sig úr ánum í vötnin bæði ofan og neðan við hrygningarstaðina. Sú niðurstaða er ótvíræð, að í þessu tilliti eru skilyrði hagstæðust í Eyrarvatni en lökust í Geitabergsvatni. Ekki er lagt mat í skýrslum Veiðimála-stofnunar á hlutfall seiðaframleiðslu á vatnasvæðinu í straumvatni annars vegar og stöðuvötnunum hins vegar.

Tekið er fram í nýjustu skýrslu Veiðimálastofnunar að athugun hennar nái ekki til ósasvæðis Laxár. Laxaseiði alist ekki upp í söltu vatni því hrygning og uppeldi þeirra fari einungis fram í fersku og ósöltu vatni. Sé því ekki unnt að taka tillit til þess svæðis vegna mats á hrygningu og seiðaframleiðslu í vatnakerfinu.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 256 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Ný rannsóknargögn gefa betri færi á að taka réttmætt tillit til misjafnlega góðra skilyrða fyrir hrygningu og uppeldi seiða innan svæða en áður hefur verið unnt að gera. Verður þessum einingum skipt milli eigenda Laxár, vatnanna og þriggja vatnsfalla á efsta hluta svæðisins á grundvelli áðurnefndra skýrslna. Í niðurstöðum kemur meðal annars fram sú afstaða yfirmatsmanna, að efsta svæðið (vötn og smáár) eigi verulega hlutdeild í laxaframleiðslu vatnakerfisins í heild, þótt innan þess svæðis séu skilyrði misgóð, sbr. áður. Falla þannig í hlut efsta svæðisins u.þ.b. 30% þeirra eininga, sem til úthlutunar eru að meðtöldum einingum fyrir hliðarár, sbr. næsta kafla á eftir. Gögn málsins gefa ekki tilefni til að úthluta einingum til ósasvæðisins vegna þessa þáttar við skiptingu arðskrár.

XIV.

Hliðarár

Yfirmatsmenn beindu bréflega fyrirspurn að stjórn veiðifélagsins um hliðarár, þ.e. hvort jarðir í félaginu njóti réttinda og beri skyldur vegna þeirra eða ekki. Samþykkt veiðifélagsins getur ekki um þær. Í svari stjórnarinnar 15. júní 1998 kemur fram að hliðarár hafi til þessa ekki verið metnar í arðskrá veiðifélagsins. Þá segir, að álit stjórnarinnar sé að lækir og hliðarár séu hluti af vatnasvæði Laxár, en ef svo sé ekki teldi hún æskilegt að svo væri.

Mæling á bakkalengd tók ekki til hliðaráa. Þegar af þeirri ástæðu verða þeim ekki metnar einingar vegna landlengdar. Í skýrslu Veiðimálastofnunar í júlí 1998 kemur hins vegar fram, að sumar þeirra hafa nokkurt gildi vegna uppeldis- og hrygningarskilyrða. Verður 14 einingum úthlutað til eigenda þessara vatnsfalla og er tekið mið af því, eftir því sem málsgögn gefa kost á, að gildi þessara áa eða lækja er mismikið fyrir hrygningu og uppeldi seiða. Er þessum einingum í samræmi við það skipt milli þeirra eigenda Kúvallarár, Glammastaðaár og Skarðsár, sem aðild eiga að veiðifélaginu. Má ráða, að aðrar hliðarár hafi ýmist ekkert eða nánast ekkert gildi í þessu sambandi.

XV.

Ósinn

Í VIII. kafla að framan er lýst sjónarmiðum eigenda Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots, Lambhaga og Litla Lambhaga um netaveiði, sem áður hafi verið stunduð frá þeim jörðum, en síðar lögð af. Vísast til þeirrar umfjöllunar, en yfirmatsmenn hafa hér að framan hafnað kröfum um 31,5% hlut ósasvæðisins í arði árinnar. Við skiptingu arðskrár er hins vegar jafnan tekið tillit til þess að sérstakar hömlur eru lagðar við allri veiði í árós. Verður svo og gert nú.

Með greinargerð eiganda Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots fylgdu upplýsingar á sérstökum töflum um samninga veiðiréttareigenda innan ósasvæðisins um skiptingu tekna, sem í hlut þess komu. Er í þeim bæði byggt á landlengd og veiði. Síðastnefnda atriðið hefur hér þýðingu, en í töflu nr. 1 (samningur 1963) kemur fram, að veiði hefur vegið rúmlega 60% í þessari skiptingu en landlengd tæplega 40%. Fyrrnefnda atriðið skiptir hér máli, en gögnin sýna hvernig tekjum hefur í reynd verið skipt vegna fyrri veiði á svæðinu. Sú skipting fellur ekki saman við upplýsingar, sem yfirmatsmenn hafa fengið frá veiðimálastjóra um afla hjá einstökum veiðiréttareigendum á svæðinu 1952-1962. Samkvæmt þeim veiðitölum fæst ekki séð að veiði á því tímabili hafi verið stunduð frá sumum þeirra jarða við ósinn, sem í hlut eiga. Verður lagt til grundvallar að í þessum samningum um skiptingu arðs vegna fyrri veiði hafi í senn verið litið til afla og aðstöðu til veiði. Aðrir veiðiréttareigendur við ósinn hafa ekki látið yfirmatsmönnum í té sambærileg gögn og eigandi Litlu Fellsaxlar og Fellsaxlarkots hefur gert, en skipting milli veiði og landlengdar í innbyrðis samningum veiðiréttareigenda við ósinn kemur einungis fram í þessum gögnum varðandi samning frá 1963, sem síðar var hnikað lítillega til. Með þessu eru fram komnar heimildir um hlutdeild einstakra jarða í arði vegna veiði á ósasvæðinu meðan netaveiði var þar enn stunduð.

Almennt hefur verð fyrir lax, sem veiddur er í net lækkað, meðan verðmæti stangarveidds fisks hefur hækkað verulega á síðustu árum. Verður ekki komist hjá að líta til þess við skiptingu arðskrár nú.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 65 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Við úthlutun þeirra verður einkum litið til þeirra upplýsinga um aðstöðu og ástundun veiði fyrir hverri jörð, sem áður er getið.

XVI.

Niðurstöður

Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Hlut Hlíðar og Vestra Miðfells í arðskrá, sem áður hefur verið metinn í einu lagi, verður nú skipt að jöfnu í samræmi við sameiginlega ósk eigenda þar um. Í öðrum tilvikum hafa slík sameiginleg tilmæli hlutaðeigandi veiðiréttareigenda ekki borist.

Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu ber kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá 1. janúar 1999. Arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu skal vera svo sem greinir í XVIII. kafla hér á eftir.

XVIII.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár í Borgarfjarðarsýslu

Jarðir. einingar

1. Vestra Súlunes 12,7

2. Eystra Súlunes 7,9

3. Bakki 12,1

4. Skorholt (þar af Akurey 3,1) 13,1

5. Skipanes 10,5

6. Lækur 13,2

7. Beitistaðir 3,1

8. Vogatunga 36,8

9. Melkot 40,3

10. Leirá 42,0

 1. Steinsholt 19,0
 2. Tunga 51,1
 3. Hóll 18,8
 4. Hlíðarfótur 34,2
 5. Eyri 76,3
 6. Kambshóll 33,8
 7. Glammastaðir 25,1
 8. Dragháls 24,7
 9. Geitaberg 43,3
 10. Þórisstaðir 18,5
 11. Saurbær 51,9
 12. Svarfhóll 98,6
 13. Hurðarbak 21,8
 14. Vestra Miðfell 35,3
 15. Hlíð 35,3
 16. Stóri Lambhagi I 59,3
 17. Stóri Lambhagi II 3,8
 18. Stóri Lambhagi III 32,9
 19. Lambhagi 15,8
 20. Litli Lambhagi 17,1
 21. Fellsaxlarkot 4,3
 22. Litla Fellsöxl 22,5
 23. Kjalardalur 12,5
 24. Arkarlækur 13,7
 25. Bekansstaðir 11,7
 26. Hvítanes I og II 14,0

37. Vallanes 13,0

Samtals: 1000,00

Reykjavík, 28. júlí 1998

_______________________

Gunnlaugur Claessen

________________________ __________________________

Þorsteinn Þorsteinsson Sveinbjörn Dagfinnsson

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsvei›i.