Sía ár


Yfirfasteignamatsnefnd

22.11.2016

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 3. nóvember 2016 í máli nr. 19/2016.

Fasteign: Suðurgata [ ], Reykjavík, fnr. [ ].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2016, 3. nóvember, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 19/2016 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 15. september 2016, kærðu X, kt. [ ], og Y, kt. [ ], álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Suðurgötu [ ], Reykjavík, fnr. [ ], fyrir árið 2016.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 20. september 2016, eftir umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 3. október 2016.

Hinn 5. október 2016 var umrædd umsögn send kærendum og þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 6. október 2016, bárust frekari athugasemdir af hálfu kærenda. Þær athugasemdir voru sendar sveitarfélaginu. Engar frekari athugasemdir bárust. Með tölvubréfi, dags. 17. október 2016, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir frekari gögnum frá kærendum. Umbeðin gögn bárust nefndinni hinn 20. október sama ár. Málið var tekið til úrskurðar 13. október 2016.

Málavextir
Kærendur leigðu íbúð sína að Suðurgötu [ ], Reykjavík, fastanúmer [ ], þann 31. desember 2015, til einkahlutafélags í þeirra eigu, A.  Íbúðin var leigð tímabundið til eins árs, þ.e. til ársloka 2016.

Hinn 2. mars 2016 fékk A, útgefið leyfi til reksturs gististaðar í flokki II í fasteigninni að Suðurgötu [ ], Reykjavík, fnr. [ ]. Kærendur heimiluðu leigutaka að leigja fasteignina til ferðamanna.

Kærendur fengu senda tilkynningu um breytta álagningu fasteignagjalda eignarinnar 19. maí 2016, þar sem fram kom að álagning gjalda hafi verið endurskoðuð frá upphafi ársins 2016.  Var álagningu fasteignagjalda breytt til hækkunar þannig að fasteignaskattur var lagður á eignina eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða.  Kærendur sendu erindi, dags. 19. júlí 2016, til Reykjavíkurborgar þar sem hækkun fasteignagjalda var mótmælt þar sem þau töldu að ekki væru forsendur til breytinga og kröfðust þess að fasteignagjöld eignarinnar yrðu færð til fyrra horfs.

Í kjölfar þessarar ákvörðunar áttu kærendur og sveitarfélagið í tölvupóstssamskiptum vegna málsins. Í tölvupósti kærenda til sveitarfélagsins 28. júlí 2016 ítrekuðu þau kröfu sína um að fasteignagjöldum eignarinnar  yrðu breytt þannig að þau yrðu í samræmi við lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og að fasteignagjöld eignarinnar yrðu ákveðin með sama hætti og fasteignagjöld annarra íbúða sem væru með langtímaleigusamning, og þá samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Með tölvupósti sveitarfélagsins, dags. 12. ágúst 2016, barst kærendum rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir fyrrgreindri ákvörðun og kom þar fram að fasteignagjöld fasteignarinnar að Suðurgötu [ ] bæri að ákvarða samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem gefið hefði verið út leyfi til reksturs gististaðar í fasteigninni og  eignin væri þannig nýtt í ferðaþjónustu.

Kærendur vilja ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hafa því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

Sjónarmið kærenda
Kærendur gera þá kröfu að felld verði úr gildi sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að álagning fasteignaskatts vegna Suðurgötu [ ], fnr. [ ], verði samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Krefjast kærendur þess að álagningu fasteignaskatt eignarinnar verði óbreytt frá því sem áður var, þ.e. samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995  og að oftekin fasteignagjöld verði endurgreidd með dráttarvöxtum.

Kærendur vísa til þess að þau hafi leigt fasteignina til einkahlutafélagsins A  samkvæmt  langtímaleigusamningi , dags. 31. desember 2015, og sem eigendur eignarinnar greiði þau fasteignaskatt af eigninni en ekki A. Það sé því rangt sem haldið sé fram að hálfu Reykjavíkurborgar að kærendur reki ferðaþjónustu í eigninni. Að mati kærenda byggir Reykjavíkurborg á þeim ómálefnalegum sjónarmiðum að þar sem að kærendur séu eigendur A þá sé ekki hægt að fallast á að um langtímaleigusamning á eigninni sé að ræða.

Kærendur taka fram að álögð fasteignagjöld af eigninni skuli vera í samræmi við notkun eigenda af eigninni. Kærendur hafi leigt eignina til langs tíma og því eigi álagður fasteignaskattur að vera samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Vísa kærendur í því sambandi annars vegar til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 11/2003 og hins vegar til hæstaréttarmáls nr. 197/2005. Niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar í fyrrgreindu máli hafi verið sú að langtímaleiga eiganda á fasteign  gæti ekki falið það í sér að eignin væri nýtt til ferðaþjónustu en í málinu hafi eingöngu verið litið til samningssamband eiganda og leigutaka hans en ekki til samningssamband leigutaka og þeirra sem hann hafi síðan leigt, svokallaða skammtímaleigu. Þetta mál hafi farið fyrir dómstóla og hafi niðurstaðan þar verið sú sama og hjá yfirfasteignamatsnefnd.

Að mati kærenda eigi sömu sjónarmið við í því máli sem hér um ræðir og í áðurnefndum dómi Hæstaréttar að breyttum breytanda. Til þess að ársleiga á íbúð verði talin falla undir ákvæði c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga hefði þurft að taka það skýrt fram í ákvæðinu. Slíkt hafi ekki verið gert og því beri að ógilda ákvörðun Reykjavíkurborgar um að álagning fasteignaskatts vegna íbúðar kærenda að Suðurgötu [ ] skuli vera samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Kærendur telja jafnframt að ógilda beri fyrrgreinda ákvörðun Reykjavíkurborgar um breytta álagningu fasteignaskatts þar sem ekki hafi verið gætt að andmælarétti þeirra áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 3. október 2016, er kröfum kærenda mótmælt og vísað til þess að ekki séu forsendur fyrir því að fallast á sjónarmið þeirra í málinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til úrskurða yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2013, 4/2015, 18/2015 og 1-9/2016 og þeirra sjónarmiða sem þar komi fram. Sérstaklega tekur Reykjavíkurborg undir þá afstöðu yfirfasteignamatsnefndar að líta bera á ákvæði a- og b-liða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem undantekningarákvæði frá c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Jafnframt verði af orðalagi greinarinnar ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega séu taldar upp í a- og b-liðum ákvæðisins verði lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum, til dæmis „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Eins og komi fram í framangreindum úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar er hugtakið ferðaþjónusta ekki skilgreint sérstaklega í lögum um tekjustofna sveitarfélaga en hafi hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta samanstandi af mörgum atvinnugreinum, þar á meðal hvers konar gistiþjónustu. Um sölu á gistingu gildi lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi umræddra laga eru þeir staðir þar sem boðin sé gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, til dæmis íbúðir með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna og er sala á gistingu leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna.

Fyrir liggi í málinu að kærendur hafi gert leigusamning um fasteignina fyrir allt árið 2016 við félagiðA, sem sé í eigu kærenda sjálfra. Með umsókn A um rekstrarleyfi til sölu gistingar, dags. 13. mars 2014, hafi fylgt ódagsettur samningur milli kærenda og A um að A væri heimilt að leigja íbúðina að Suðurgötu [ ] til ferðamanna. Í þeim samningi hafi ekki verið afmarkað tiltekið leigutímabil og verði því að telja að ætlun kærenda hafi verið að umrædd fasteign stæði ferðamönnum til boða allt árið um kring. Þannig verði að telja að  kærendur hafa nýtt íbúð sína, sem ella félli undir undanþáguákvæði a-liðar, fyrir ferðaþjónustu hið minnsta allt frá upphafi árs 2016 í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Af framangreindu telur Reykjavíkurborg ljóst að kærendur nýti umrædda fasteign í ferðaþjónustu og engu breyti hvort að svo sé gert í nafni þeirra sjálfra eða fyrir milligöngu lögaðila, burtséð frá því hvort sá lögaðili sé í eigu kærenda sjálfra eða ekki. Með hliðsjón af framangreindu telur sveitarfélagið að heimilt hafi verið  að breyta álagningu fasteignaskatts vegna umræddrar fasteignar að Suðurgötu [ ] frá og með 1. janúar 2016 vegna nýtingar hennar í ferðaþjónustu.

Hvað varðar andmælarétt kærenda við töku ákvörðunar um breytingu fasteignaskattflokkunar eignar þeirra vekur sveitarfélagið athygli á því að útgáfa rekstrarleyfis hafi verið gerð að beiðni og frumkvæði kærenda sjálfra, fyrir hönd A. Kærendum hafi  verið  ljóst að um leyfisskylda starfsemi væri að ræða, og að mál þeirra væri til meðferðar hjá yfirvöldum. Kærendur hafi mátt gera sér grein fyrir því að nýting fasteignar þeirra í gistiþjónustu væri nýting í ferðaþjónustu í skilningi laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sér í lagi með hliðsjón af úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar allt frá árinu 2013. Þeim hafi því verið, eða mátti vera það ljóst að álagning fasteignaskatts vegna íbúðar sem sótt hafi verið um rekstrarleyfi fyrir myndi breytast þannig að fasteignaskattur yrði lagður á samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga en ekki samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindu telur Reykjavíkurborg  að það hafi verið óþarft að gefa kærendum kost á að tjá sig um efni þessa málsins áður en álagningu var breytt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því hafi ekki verið brotið gegn rétti þeirra til andmæla áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Athugasemdir kærenda vegna umsagnar sveitarfélagsins
Í bréfi kærenda, dags. 6. október 2016, er því hafnað að þeir úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar sem sveitarfélagið vísar til í umsögn sinni eigi við í því máli sem hér um ræðir. Ekkert þeirra mála sé sambærilegt því máli sem hér sé til meðferðar, þar sem fyrrgreind mál snúi ekki að eignum sem hafi verið leigðar til langs tíma.

Kærendur telja hins vegar að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 11/2003 sé  fordæmi sem líta beri til. Sveitarfélagið hafi hins vegar ekkert minnst á þann úrskurð í umsögn sinni eða fjallað efnislega um hann á fyrri stigum málsins. Hæstiréttur Íslands hafi staðfest áðurnefndan úrskurð nefndarinnar í hæstaréttarmáli nr. 197/2005.

Niðurstaða
Kærendur gera þá kröfu að ógilt verði sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að álagning fasteignaskatts vegna Suðurgötu [ ], Reykjavík, fnr. [ ], fyrir árið 2016 verði samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Kærendur gera jafnframt kröfu um að fasteignaskattur eignarinnar verði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga og að oftekin fasteignagjöld ársins 2016 verði endurgreidd með dráttarvöxtum. Reykjavíkurborg telur að hafna eigi kröfum kærenda þar sem sveitarfélaginu hafi verið heimilt að ákvarða fasteignaskatt vegna eignarinnar samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, þar sem fasteignin sé skráð með rekstrarleyfi gististaða og þannig nýtt til ferðaþjónustu.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er kveðið á um valdsvið yfirfasteignamatsnefndar. Þar kemur fram að úrskurðum um gjaldstofn samkvæmt 3. gr. sömu laga megi skjóta til yfirfasteignamatsnefndar auk þess sem nefndin skeri úr um gjaldskyldu komi upp ágreiningur þar að lútandi. Með vísan til þessa telur nefndin það utan valdsviðs hennar að úrskurða um endurgreiðslu fasteignaskatts. Þeim hluta kröfugerðar kærenda sem snýr að endurgreiðslu ofgreiddra fasteignagjalda er því vísað frá nefndinni.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um íbúðarhúsnæði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laga nr. 85/2007 eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

Ágreiningur máls þessa snýr fyrst og fremst að því hvort sveitarfélaginu sé heimilt að ákvarða fasteignaskatt vegna fasteignar kærenda að Suðurgötu [ ], Reykjavík, samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 þar sem eignin sé nýtt í ferðaþjónustu eða hvort álagning eigi að vera samkvæmt a-lið sömu lagagreinar þar sem kærendur, sem jafnframt eru eigendur fasteignarinnar, hafa ekki með höndum rekstur í eigninni, heldur einkahlutafélagið A, sem er í þeirra eigu.

Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum málsins að ágreiningur sé um það milli málsaðila að fyrrgreind fasteign kærenda sé nú nýtt til ferðaþjónustu, sbr. fyrirliggjandi leyfi A til reksturs gististaðar í fasteigninni, dags. 2. mars 2016, og ódagsett yfirlýsing kærenda til A um heimild til að leigja fasteignina út til ferðamanna.

Kærendur hafa vísað til þess að þeir leigi fasteignina ekki út til ferðamanna heldur hafi þeir gert leigusamning við A um leigu á eigninni til eins árs. Telja kærendur að við ákvörðun fasteignaskatts beri fyrst og fremst að líta til þess leigusamnings en ekki til útleigu A á eigninni til ferðamanna. Máli sínu til stuðnings hafa kærendur m.a. vísað til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 11/2003 og dóms Hæstaréttar í máli  nr. 197/2005.

Mál það sem lauk með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar snéri að ákvörðun fasteignaskatts vegna sjö sumarhúsa eða frístundahúsa sem voru leigð til stéttarfélaga til eins árs í senn og  stéttarfélögin framleigðu síðan til félagsmanna sinna. Ágreiningur var m.a. um það hvort sumarhúsin væru nýtt fyrir ferðaþjónustu í skilningi laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Að mati Hæstaréttar var ársleiga á orlofshúsum til stéttarfélaga, í þeim tilgangi að framleigja þau áfram til félagsmanna viðkomandi stéttarfélaga, ekki talin fela í sér þjónusta til ferðamanna í skilningi þágildandi b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (nú c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna).  

Framangreindur dómur Hæstaréttar og úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 11/2003 snýr að leigu orlofshúsa til stéttarfélaga sem voru framleigð til félagsmanna viðkomandi stéttarfélaga. Þannig voru afnotin takmörkuð við félagsmenn stéttarfélagsins sem ekki var talin vera þjónusta við ferðamenn. Yfirfasteignamatsnefnd hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum, sbr. til dæmis úrskurð nefndarinnar í  máli nr. 1/2016, að þegar eigandi leigir sumarhús sitt sem er síðan framleigt til ferðamanna falli slíkt undir hugtakið ferðaþjónusta í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, enda er þá ekki um að ræða takmarkaða notkun líkt og í þeim málum sem lauk með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 11/2003 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 197/2005.

Í leigusamningi kærenda og leigutaka, dags. 31. desember 2015, kemur fram að hið leigða sé íbúð að Suðurgötu [ ], íbúð [ ]. Jafnframt kemur fram í samningnum að leigutaka sé óheimil framleiga hins leigða húsnæðis. Hins vegar liggur fyrir í gögnum málsins sérstök heimild kærenda til leigutaka um að leigja umrædda íbúð í svokallaða ,,ferðamannaleigu”. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er umrædd framleiga með engum hætti afmörkuð líkt og í þeim málum sem kærendur vísa til kröfum sínum til stuðnings. Með hliðsjón af framangreindu er að mati yfirfasteignamatsnefndar óumdeilt að leigutaki kærenda nýtir fasteign þeirra að Suðurgötu [ ], Reykjavík, fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og hefur hann til þess tilskilið rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem og heimild kærenda til slíks.

Ekki er fallist á að leigusamningur kærenda við A til eins árs komi í veg fyrir að álagning fasteignaskatts verði samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, einkum þar sem fyrir liggur útgefið rekstrarleyfi og jafnframt heimild kærenda um breytta notkun umræddrar eignar þannig að hún verði nýtt til leigu í ferðaþjónustu. Það er fyrst og fremst raunveruleg nýting eða notkun eignarinnar sem skiptir máli við mat á því hvernig beri að ákvarða fasteignaskatt hennar samkvæmt stafliðum 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 85/2006. Þá verður ekki horft framhjá þeirri staðreynd að kærendum var frá upphafi ljós breytt nýting fasteignarinnar sem eigendum A. Þannig verður að telja að íbúðin, sem ella félli undir undanþáguákvæði a-liðar, sé nú nýtt fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Reykjavíkurborg ákvað að breyta álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar kærenda að Suðurgötu [ ], frá 1. janúar 2016 og vísar til þess í umsögn sinni að það hafi verið heimilt þar sem kærendur hafi á árinu 2014 sótt um rekstrarleyfi til sölu gistingar í fasteigninni. Fyrir liggur í gögnum málsins að leigutaki sótti um umrætt rekstrarleyfi hinn 13. mars 2014. Á þeim tíma var fyrirhugað að leiga fasteignarinnar myndi hefjast 1. maí 2014. Hins vegar var téð rekstrarleyfi ekki gefið út fyrr en 2. mars 2016. Engin óyggjandi gögn liggja fyrir í málinu um að fasteignin hafi verið nýtt fyrir ferðaþjónustu, s.s. með leigu til ferðamanna, fyrir útgáfu rekstrarleyfisins. Að mati yfirfasteignamatsnefndar verður því ekki á því byggt að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að breyta álagningu fasteignaskatts fyrr en frá og með  útgáfu rekstrarleyfisins þann 2. mars 2016 enda hefur sveitarfélagið ekki sýnt fram á að eignin hafi verið nýtt til ferðaþjónustu fyrir þann tíma.

Ljóst er að sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að ákvarða fasteignaskatt af fasteign kæranda að Suðurgötu [ ] samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í stað a-liðar sömu lagagreinar eins og áður hafði verið gert, var íþyngjandi í garð kærenda. Gögn málsins gefa jafnframt til kynna að kærendur hafi fyrst fengið upplýsingar um breytta álagningu þegar þau fengu sérstaka tilkynningu frá Reykjavíkurborg 19. maí 2016 um breytta álagningu fasteignagjalda eignarinnar. Sú tilkynning gaf til kynna verulega hækkun á fasteignagjöldum eignarinnar frá því sem áður hafði verið ákveðið. Ekki verður séð að kærendum hafi verið veittur réttur til andmæla áður en álagningunni var breytt. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið vísað til þess að óþarft hafi verið að veita kærendum rétt til andmæla, þar sem kærendum var, eða mátti vera, ljóst að rekstur gistiheimilis í eigninni fæli í sér nýtingu í ferðaþjónustu í skilningi laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem hefði í för með sér breytta álagningu fasteignaskatts.

Andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ætlað að tryggja að aðili máls, sem er til meðferðar hjá stjórnvaldi, eigi þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður sem ákvörðun stjórnvaldsins muni byggjast á, leiðrétta fram komnar upplýsingar og koma að upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvaldið tekur ákvörðun í máli hans. Frá fyrrgreindri meginreglu eru nokkrar undantekningar svo sem að afstaða og rök málsaðila liggi þegar fyrir í gögnum  málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft.   

Fyrirliggjandi gögn málsins gefa til kynna að við málsmeðferð sveitarfélagsins hafi ekki verið gætt að andmælarétti kærenda. Það er mat yfirfasteignamatsnefndar að sveitarfélaginu hafi borið að tilkynna kærendum um fyrirhugaða ákvörðun og veita þeim rétt til andmæla áður en ákvörðun var tekin. Hins vegar er til þess að líta að kærendur samþykktu að umrædd fasteign yrði leigð út til ferðamanna og þannig nýtt fyrir ferðaþjónustu. Þá verður heldur ekki horft framhjá því að kærendur eru jafnframt eigendur einkahlutafélagsins A sem leigir fasteignina af kærendum og sótti um téð rekstrarleyfi. Þannig mátti kærendum vera það ljóst að álagning fasteignaskatts vegna eignarinnar kynni að breytast í samræmi við breytta nýtingu eignarinnar frá því sem áður hafði verið. Því til viðbótar hefur almennt verið talið að þegar lægra sett stjórnvald hefur brotið gegn andmælareglu stjórnsýslulaga og sú ákvörðun síðan verið kærð til æðra stjórnvalds, sem veitir kæranda andmælarétt um alla þætti máls, sé brotið leiðrétt með málsmeðferð og úrskurði hins æðra stjórnvalds, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 323/2003. Fyrir liggur að kærandi hefur við meðferð málsins hjá yfirfasteignamatsnefnd haft tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum varðandi alla þætti málsins.  

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að leggja til grundvallar að umrædd fasteign hafi verið nýtt sem mannvirki í ferðaþjónustu frá 2. mars 2016 og skuli því skattlögð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga frá þeim tíma en samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga fram til þess tíma.

Úrskurðarorð

Álögð fasteignagjöld vegna íbúðar að Suðurgötu [ ], Reykjavík, fnr. [ ], árið 2016 skulu ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga fyrir tímabilið 1. janúar til 2. mars en samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga fyrir tímabilið 2. mars til 31. desember.

Kröfu kærenda um endurgreiðslu oftekinna fasteignagjalda er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

 ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson