Sía ár


Yfirfasteignamatsnefnd

8.3.2018

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 22. febrúar 2018 í máli nr. 10/2017.
Fasteign: Hesthús að Hólum í Hjaltadal, Sveitarfélaginu Skagafirði, fnr. […].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.


Árið 2018, 22. febrúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 10/2017 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 3. október 2017, kærðu Hesthólar ehf. kt. […], álagningu fasteignaskatts vegna húsnæðis á Hólum í Hjaltadal, sem nefnt hefur verið hesthús, Sveitarfélaginu Skagafirði, fnr. […] fyrir árið 2017.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 10. október 2017 eftir umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Umbeðin umsögn frá sveitarfélaginu barst með bréfi, dags. 1. nóvember 2017.

Umsögn sveitarfélagsins var send kæranda með bréfi dags. 8. nóvember 2017 og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 6. desember 2017, bárust athugasemdir af hálfu kæranda. Þær athugasemdir voru sendar sveitarfélaginu 9. janúar 2018 til kynningar.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2018, bárust athugasemdir sveitarfélags við athugasemdum kæranda við umsögn sveitarfélags, dags. 6. desember 2017. Þær athugasemdir voru sendar kæranda til kynningar 22. janúar 2018.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2018, bárust frekari athugasemdir kæranda við athugasemdum sveitarfélags. Þær athugasemdir voru sendar sveitarfélaginu til kynningar 29. janúar 2018.

Engar frekari athugasemdir bárust.

Málið var tekið til úrskurðar 22. febrúar 2018.

I.              Málavextir

Félagið Hesthólar ehf., kt. […], lauk á árinu 2017 byggingu húsnæðis á Hólum í Hjaltadal, Sveitarfélaginu Skagafirði, sem nefnt hefur verið hesthús, fnr. […].

Samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2017, dags. 26. janúar 2017, var lagður fasteignaskattur á fasteign kæranda samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem sveitarfélagið hefur litið svo á að um skólahúsnæði sé að ræða.

Með bréfi, dags. 16. mars 2017, óskaði kærandi eftir endurskoðun á álagningu fasteignaskatts á eign sinni.

Með bréfi, dags. 4. ágúst 2017, tilkynnti Sveitarfélagið Skagafjörður kæranda að álagning ársins 2017 fyrir fasteign hans skyldi standa óbreytt.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.           Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að fasteign hans, hesthús á Hólum í Hjaltadal, Sveitarfélaginu Skagafirði, fnr. […], fyrir árið 2017, verði ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 þannig að álagður fasteignaskattur verði 0,5% af fasteignamati.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hafi álagning fasteignaskatts á umrædda fasteign verið ákvörðun samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem sveitarfélagið líti svo á að um skólahúsnæði sé að ræða. Kærandi mótmælir þeirri túlkun sveitarfélagsins og telur að fasteignaskattur skuli vera ákvarðaður samkvæmt. a-lið sömu lagagreinar, þ.e. sem hesthús.

Hin umrædda eign sé að stærstum hluta byggð og nýtt sem hesthús. Að hluta sé það nýtt sem þjónusturými og að hluta sem reiðhöll. Frá upphafi hafi nemendur Háskólans á Hólum haft forgang að leigu og hafi verið um það samið. Hins vegar sé öllum frjálst að leigja aðstöðuna, enda ljóst að nemendur séu nánast eingöngu að nýta húsnæðið þegar skólinn er starfandi, á tímabilinu september ‒ maí ár hvert. Það sé einnig ljóst að nokkur fjöldi nemanda hafi á þeim árum sem liðin séu frá byggingu hússins ekki séð sér hag í að leigja aðstöðu hjá kæranda og hafi þeir leigt sér aðstöðu á nálægum lögbýlum.

Kærandi bendir á að samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu sé fasteignaskattur á hesthús í sveitarfélaginu almennt lagður á samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Þá hafi verið reistar á allnokkrum stöðum í Skagafirði svokallaðar reiðhallir, eða sýningaraðstöður, fyrir hross og falli þær eignir undir a-lið sömu greinar, þ.e. sem útihús á bújörðum (hesthús).

Kærandi telur að túlkun sveitarfélagsins á því að húsnæði kæranda sé skólahúsnæði byggist líklega fyrst og fremst á því að húsnæðið sé staðsett að Hólum í Hjaltadal í nágrenni Háskólans á Hólum. Að mati kæranda er húsnæðið fyrst og fremst hesthús, nýtt af hverjum þeim sem vilji leigja þar aðstöðu. Kærandi telur það vissulega rétt að töluverður hluti leigjenda séu nemendur við Háskólann á Hólum og hafi þeir forgang að aðstöðunni. Svo sé þó ekki um alla leigutaka að aðstöðunni enda hafi húsið verið notað undir ýmsa tilfallandi viðburði á Hólum, meðal annars hafi töluverður hluti aðstöðunnar verið nýttur af hestamönnum og keppendum á Landsmóti hestamanna sem haldið hafi verið á staðnum sumarið 2016.

Kærandi telur ljóst að eigendur hesthúsa og reiðhalla í sveitarfélaginu sitji ekki við sama borð þegar komi að álagningu fasteignaskatts. Kærandi gerir þá kröfu að jafnræðis verði gætt meðal eigenda hesthúsa og reiðhalla í Skagafirði og álagning fasteignaskatts á fasteign kæranda verði ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

III.        Sjónarmið Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Í umsögn sveitarfélagsins, dags. 1. nóvember 2017, er sjónarmiðum kæranda sem byggja á að fasteign hans teljist vera hesthús í umræddum skilningi hafnað.

Telur sveitarfélagið að í sjónarmiðum kæranda sé ekki dregin upp rétt mynd af sérstöðu umræddrar fasteignar. Húsnæðið hafi verið byggt alfarið með alveg sérstakt hlutverk tengdu skólahaldi í huga og hafi alla tíð verið nýtt í samræmi við það. Krefst sveitarfélagið þess að allt viðkomandi húsnæði teljist falla undir b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Í umsögn sveitarfélagsins er fjallað um einstaka hluta húsnæðisins og notkun þeirra. Húsnæðið skiptist í sex rými, samtals 3.719,9 m2. Tvö rými eru hesthús, annars vegar fyrir 98 hross,1.210 m2 að stærð og hins vegar fyrir 88 hross, 1.085 m2 að stærð. Tvö rými, hvort um sig 200 m2 að stærð, eru haughús, eitt rými, 304,5 m2 að stærð, er þjónusturými og að lokum 720 m2 reiðhöll. Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt óformlegum upplýsingum sem það hafi aflað séu hesthús og haughús að fullu nýtt yfir vetrarmánuði, þ.e. frá ágúst lokum og út maímánuð, undir hross nemenda Háskólans á Hólum og hugsanlega kennara. Í báðum hesthúsunum fari daglega fram kennsla enda sé umhirða á hrossunum metin til einkunnar hjá viðkomandi nemendum. Að mati sveitarfélagsins er eðlilegt að fyrrgreind haughúsrými falli í sama flokk og hesthúsin enda sé notkun þeirra eðli máls samkvæmt óaðskiljanleg.

Samkvæmt teikningunum skiptist þjónusturýmið í hnakkageymslu (135 m2), kaffistofu (45 m2) og móttöku (120 m2). Sveitarfélagið telur að í raun hafi tvö síðastgreindu rýmin verið sameinuð í kaffistofu þar sem daglega fari fram kennsla, líkt og í kennslustofu. Telur sveitarfélagið eðlilegt að kærandi geri grein fyrir því sé þetta ekki rétt. Nýting á hnakkageymslu sé í þágu viðkomandi náms þar sem nemendur eiga hver sinn skáp fyrir reiðtygi. Í þjónusturýminu, eins og í rýmum hesthúsa og reiðhallar þurfi nemendur að lúta reglum skólans. Þegar aðstæður leyfi munu nemendur geta leigt auka pláss fyrir hesta sem ekki séu formlega nýttir til námsins. Slík plássnýting geti þó tæpast verið mikil miðað við hefðbundna nýtingu undir hross tengd náminu. Ekki sé vitað til þess að aðilar ótengdir skólanum fái inni fyrir hesta sína í húsinu.

Rýmið sem greint er sem reiðhöll sé með því sniði sem reiðhallir eru almennt. Sveitarfélagið telur að þar fari fram kennsla, t.d. ef marka megi leigusamning þar um. Að mati sveitarfélagsins sýnist ekki skipta öllu máli fyrir flokkun reiðhallar m.t.t. ákvæða 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hvort hún sé notuð til kennslu eða notuð sem venjuleg reiðhöll enda falli hún í báðum tilvikum undir b-lið 3. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga. Í þessu sambandi telur sveitarfélagið rétt að nefna að í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem liggi fyrir frá því ákvæðum 3. gr. fyrrgreindra laga hafi verið breytt, með lögum nr. 56/2012, segi að færa megi „rök fyrir því að reiðhöll sé hús þar sem íþrótt er stunduð en hús þar sem húsdýr eru geymd falla eðli málsins samkvæmt ekki í þann flokk.“ Af þessi megi draga þá ályktun að nefndin hafi talið reiðhöll til íþróttahúsa sem fella beri undir ákvæði framangreinds b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna.

Sveitarfélagið bendir á að umræddar byggingar séu byggðar árið 2007 á leigulóð þar sem Háskólinn á Hólum á og kærandi sé leigutaki, samkvæmt lóðarleigusamningi, dags. 12. maí 2006. Á lóðinni hvíli meðal annars sú kvöð að leigutaka sé óheimilt að framselja réttindi sín til lóðarinnar nema með samþykki leigusala, þ.e. Háskólans á Hólum. Telur sveitarfélagið að tiltekin atriði í samningnum bendi til þess að um skólahúsnæði sé að ræða. Í 1. gr. samningsins komi fram að lóðin sé leigð „undir hesthús og tilheyrandi kennslu- og æfingaraðstöðu í landi Hóla í Hjaltadal“ ásamt því að leigutaki skuli hafa samráð við Háskólann á Hólum um notkun húsnæðisins er lúti að öðru en starfsemi skólans. Þá sé leigjanda, þ.e. kæranda, óheimilt að ráðstafa réttindum sínum samkvæmt samningnum, þ.m.t. að leigja öðrum eða selja. Sveitarfélagið telur að þessar kvaðir, sem eru strangar og umfram það sem venja er varðandi lóðarleigusamninga, séu vegna sérstakrar stöðu Háskólans á Hólum sem menntastofnunar og þeirrar jarðar sem skólanum tilheyrir.

Þá vísar sveitarfélagið til þess að í apríl 2006 hafi verið gerður samningur, sem hafi borið heitið: „Samningur um leigu á hesthúsplássi“, milli Háskólans á Hólum og kæranda. Þrátt fyrir nafnið sé skólinn ekki leigutaki að húsnæðinu. Hins vegar feli samningurinn í sér skuldbindingu af hálfu skólans til þess að láta nemendur hans leigja aðstöðu fyrir hross sín í húsnæðinu. Samningurinn mæli fyrir um svo að segja óumbreytanlegt fyrirkomulag, sem gildi frá og með 1. janúar 2007, enda sé hann óuppsegjanlegur án samkomulags beggja aðila. Telur sveitarfélagið að tiltekin atriði í þeim samningi bendi til þess að um skólahúsnæði sé að ræða. Fram komi að kærandi skuldbindi sig til þess að „byggja aðstöðu fyrir hesta þeirra nemenda sem stunda nám við Hólaskóla“. Þá bindi skólinn sig til þess að koma til leiðar „útleigu á aðstöðu fyrir hross nemenda við skólann.“ Að lokum sé húsnæðinu lýst sem nýbyggingu fyrir 200 hross auk aðstöðu fyrir verklega kennslu.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í mars 2007 hafi verið gerður húsaleigusamningur milli sömu aðila þar sem Háskólinn á Hólum taki á leigu 720 m2 reiðhöll kæranda. Sá samningur sé með 12 mánaða gagnkvæmum uppsagnarrétti og telur sveitarfélagið að tiltekin atriði styðji að um skólahúsnæði sé að ræða. Í fyrsta lagi sé húsnæðinu lýst í 1. gr. samningsins sem „aðstöðu til reiðkennslu“ og er í sömu grein sagt vera „atvinnuhúsnæði í skilningi húsaleigulaga.“ Í öðru lagi komi fram í 3. gr., sem beri heitið „Heimiluð starfsemi – framleiga“, að húsnæðið verði „nýtt til reiðkennslu og námskeiðahalds á vegum Háskólans á Hólum og að framleiga sé óheimil nema með skriflegu samþykki leigusala. Þá sé í þriðja lagi samkvæmt 6. gr. samningsins heimild til breytinga á húsnæðinu af hálfu leigutaka m.a. bundið því skilyrði að breytingar „séu nauðsynlegar vegna starfsemi hans“. Í því samhengi bendir sveitarfélagið á að starfsemi leigutaka sé nr. 85.42.0, fræðslustarfsemi á háskólastigi, samkvæmt ÍSAT atvinnugreinaflokkun.

Sveitarfélagið vísar til þess að í 40. gr. laga nr. 57/1999 um búnaðarfræðslu, sem gilti þegar umrædd bygging var tekin í notkun, hafi verið mælt svo fyrir að jarðirnar Hólar, Hvanneyri og Reykir væru með gögnum sínum og gæðum lagðar undir tilheyrandi menntastofnanir og að starfsemin á þessum jörðum skyldi þjóna þeim heildarmarkmiðum sem sett hafi verið fyrir hverja stofnun og það hlutverk sem þær gegni í sínu nánasta umhverfi, sem og á landsvísu. Að mati sveitarfélagsins er ekki nóg með að viðkomandi húsnæði tilheyri kennslustofnun, með þeim hætti sem fyrr greinir, heldur sé augljóslega rekinn í því skóli, af námsstofnun sem njóti sérstakra fjárveitinga á fjárlögum til slíks rekstrar. Samkvæmt kennsluskrá hestafræðideildar Háskólans á Hólum sé val um þrenns konar nám og í öllum tilvikum sé nauðsynlegt og í raun skilyrði að nemendur hafi yfir hesti að ráða. Á heimasíðu Háskólans á Hólum er gerð grein fyrir þörfum á hestakosti og kemur þar fram að það húsnæði sem fjallað er um í máli þessu sé fullnýtt og dugi reyndar ekki til starfsemi skólans.

Að mati sveitarfélagsins sanni lýsing, tilurð og ekki síst notkun alls umrædds húsnæðis, sem sé sniðið sérstaklega að nánar tilgreindu skólahaldi og mjög njörvuð niður með óuppsegjanlegum samningsbundnum kvöðum, að sú starfsemi sem rekin sé í umræddum byggingum sé skólastarfsemi. Vilji kærandi byggja á að þar fari fram eitthvað sem ekki sé skólastarfsemi verði hann að sanna slíkt. Sé það ekki gert hafnar sveitarfélagið að það hafi þýðingu að halda því fram að í nokkrum tilfellum hafi nokkrir nemendur á þeim árum sem liðin eru frá byggingu hússins leigt sér aðstöðu á nálægum lögbýlum. Vísar sveitarfélagið til dóms Hæstaréttar í máli nr. 351/2005 þar sem notkun húsnæðis sem skólahúsnæðis var talið skipta máli varðandi flokkun húsnæðis sem skóla.

Ljóst sé að mati sveitarfélagsins að tilgangur með byggingunni sé beintengdur skólahaldi Háskólans á Hólum og notkunin til dagsins í dag sé í samræmi við það. Telur sveitarfélagið að leggja beri framangreindan dóm Hæstaréttar til grundvallar við úrlausn þessa máls.

Hvað varðar túlkun á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga telur sveitarfélagið að við úrlausn þessa máls sé rétt, eins og alla jafna, að líta til raunverulegs eðlis eignarinnar og notkunar, en ekki t.d. skráningar hennar hjá Þjóðskrá Íslands eða skráningar hennar í tengslum við umsókn og afgreiðslu byggingarleyfis. Vísar sveitarfélagið meðal annars til dóms Hæstaréttar í máli 85/2006 hvað þetta varðar.

Ekki sé deilt um að íverustaður hrossanna í þessu máli og haughús þar undir svipi til ýmissa hesthúsa. Telur sveitarfélagið þetta tilvik hins vegar vera gerólíkt öðrum tilvikum yfirfasteignamatsnefndar þar sem fjallað sé um hesthús fyrir þá sök að notkun húsnæðisins sé nú og hafi frá upphafi alfarið verið bundin við skólahald. Þótt talsverðar breytingar hafi orðið á uppbyggingu 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga frá því úrskurður í máli yfirfasteignamatsnefndar nr. 5/1998 hafi verið kveðinn upp hljóti sá úrskurður að hafa verulega þýðingu við úrlausn þessa máls. Í þeim úrskurði hafi verið um að ræða húsnæði sem sannarlega hafi verið byggt sem venjulegt íbúðarhús og hafði enn einkenni íbúðarhúss en hafi verið flokkað sem skóli á grundvelli notkunar húsnæðisins.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að árið 2005 hafi lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga verið breytt með þeim hætti að lagður hafi verið 1,32% skattur á ýmis mannvirki sem voru undanþegin fasteignaskatti. Um var að ræða sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skóla, heimavistir, leikskóla, íþróttahús og bókasöfn. Telur sveitarfélagið að af athugasemdum með því frumvarpi sem varð að viðkomandi lögum hafi ekki verið ætlunin að gera greinarmun á því hvort skólar væru grunnskólar eða framhaldsskólar. Þeim hafi öllum verið ætlað að verða tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Að mati sveitarfélagsins séu því rök til þess að telja að b-liður 3. gr. laganna mæli fyrir um þá meginreglu að allt skólahúsnæði skuli skattlagt. Undanþáguákvæði skattalaga, sem sveitarfélagið telur að a-liður 3. gr. laganna sé gagnvart b-lið sömu greinar í þessu sérstaka samhengi, eigi að vera túlkuð þröngt samkvæmt lögskýringarreglum og dómvenju. Hafi slík lögskýring um þrönga túlkun undantekningarákvæða skattalaga oft komið fram í úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar og vísar sveitarfélagið til fyrrgreinds úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 5/1998.

Sú breyting sem gerð hafi verið á fyrrgreindum lögum árið 2005 hafi tengst beint tilfærslu ýmissa verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Verði þannig að gjalda varhug við því að svipta sveitarfélög þeim tekjustofnum sínum sem reiknað hafi verið með að þau hefðu til þess að standa undir rekstri sínum. Í því sambandi bendir sveitarfélagið á að skólahúsnæði er sveitarfélögum mikilvægur tekjustofn. Við það að flytjast frá ríki til einkaaðila hafi ekki verið ætlunin að viðkomandi verkefnum fylgdu þverrandi tekjustofnar. Jafnframt bendir sveitarfélagið á að það sýnist ekki hafa áhrif í úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar eða í dómum Hæstaréttar Íslands þótt viðkomandi byggingar séu í eigu einkaaðila, enda skipti mestu máli hvernig eignirnar eru notaðar, ekki eignarhaldið, sbr. m.a. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 351/2005. Þá komi fram í athugasemdum með áðurgreindu frumvarpi til breytinga á lögum nr. 4/1995 árið 2005 að ekki hafi verið talin ástæða til þess að takmarka skattheimtu af skólahúsnæði sem rekið er af einkaaðilum.

Sveitarfélagið vísar til bréfs kæranda þar sem bent sé á flokkun reiðhalla í Skagafirði í gjaldflokk a-liðar, sem útihús á bújörðum. Sveitarfélagið bendir á að lögin geri greinarmun á flokkun útihúsa eftir því hvort þau séu á bújörðum eða utan slíkra jarða. Af þeim sökum standi forsendur til þess að flokka svokallaðar reiðhallir með mismunandi hætti eftir því hvort þær eru á bújörðum eða ekki. Þannig sé til dæmis reiðhöllin Svaðastaðir sem stendur á 6.800 m2 lóð að Flæðagerði við Sauðárkrók skattlögð samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Að mati sveitarfélagsins styður tilgangur með byggingu umræddra bygginga, staðsetning þeirra að Hólum, tengsl þeirra við Háskólann á Hólum og notkun þeirra flokkun alls umrædds húsnæðis í gjaldflokk b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Telur sveitarfélagið að fyrrgreind atriði sem og sjónarmið sem komu fram við setningu breytingalaga nr. 140/2005 bendi í þá átt að hvers konar skólahúsnæði skuli vera tekjustofn fyrir sveitarfélög. Því telji sveitarfélagið ekki rök fyrir annarri niðurstöðu þótt eigandi húsnæðisins sé einkaaðili sem stundi leigustarfsemi um eign sína en sé ekki viðkomandi skólastofnun sjálf.

Sveitarfélagið telur upplýsingar um notkun umrædds húsnæðis ekki fullnægjandi og sum staðar villandi. Sé ætlun kæranda að sýna fram á að nýting húsnæðisins, t.d. hluta úr ári, skuli leiða til annarrar flokkunar en þeirrar sem sveitarfélagið byggi á sé eðlilegt að kærandi veiti nákvæmari upplýsingar um notkun umræddra húsa, s.s. um nákvæman fjölda hrossa á vegum Háskólans á Hólum, kennara og nemenda og hvernig þau hross tengist starfsemi skólans. Eins hvernig yfirráðum yfir skólum er háttað, s.s. húsvörslu.

IV.        Athugasemdir kæranda vegna umsagnar sveitarfélags

Í bréfi kæranda, dags. 6. desember 2017, koma fram athugasemdir kæranda við umsögn sveitarfélags, dags. 1. nóvember 2017.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að sveitarfélagið byggi á að ekki hafi verið dregin upp rétt mynd af sérstöðu fasteignar hans og að hún hafi alfarið verið byggð með sérstakt hlutverk tengdu skólahaldi í huga og hafi alla tíð verið nýtt í samræmi við það. Þá vísi sveitarfélagið til ýmissa samninga milli kæranda og Háskólans á Hólum máli sínu til stuðnings og byggi á því að daglega fari fram kennsla í öllum rýmum fasteignarinnar. Kærandi fellst á að það sé hin raunverulega notkun fasteignarinnar sem fasteignaskattur skuli byggður á. Fasteignin sem hér um ræði skiptist í hesthús, haughús, hnakkageymslu, móttöku og reiðhöll. Reiðhöllin sé eina rýmið sem leigt sé til Háskólans á Hólum en skólinn hafi tekið rýmið á leigu með leigusamningi, dags. 23. mars 2007. Kærandi bendir á að annað rými sé hvorki leigt til Háskólans á Hólum né nýtt sem kennslu- og æfingaaðstaða fyrir nemendur og kennara.

Kærandi bendir á að í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sé ekki gerður greinarmunur á nýtingu hesthúsa heldur falli öll hesthús undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, hvort sem þau séu nýtt til einkanota eða í atvinnuskyni. Þegar orðinu hesthús hafi verið bætt við a-lið greinarinnar með lögum nr. 56/2012 hafi komið fram í nefndaráliti að hesthús sé gripahús enda sé sérstaða hestamennsku þó nokkur miðað við aðrar greinar þar sem hún krefjist þess að þeir sem hana stundi hafi aðgang að húsnæði undir hesta sína. Hestar séu lifandi dýr sem þurfi aðhlynningu, fæði og vernd gegn veðri og vindum. Með frumvarpinu hafi verið ætlunin að tryggja að jafnræðis væri gætt, innan sama sveitarfélags, við álagningu fasteignaskatts á hesthús samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga án tillits til staðsetningar eignanna, auk þess sem tryggt sé að stofn til álagningar fasteignaskatts á hesthús sé sá sami á landinu öllu.

Þá bendir kærandi á að nemendur Háskólans á Hólum hafi forgang að leigu á stíum í hesthúsinu en þeir séu ekki skyldaðir til að leigja stíu fyrir hross sín þar. Eðlilegt verði að telja að nemendur njóti forgangs fyrir hross í húsinu enda forsenda námsins að nemendur séu með hross á staðnum. Kærandi innheimti leigugjald af hverjum og einum leigjanda að stíu í hesthúsinu, hvort sem leigjandinn er háskólinn sjálfur, nemendur háskólans eða aðrir. Kærandi vísar til þess að leiga í hesthúsinu sé ekki alltaf fullnýtt og yfir sumartímann standi það nánast autt. Tekjur kæranda komi frá leigjendum og sé innkoma því engin þegar húsið standi meira og minna autt yfir sumartímann. Þó hafi t.d. hestamannafélag Skagafjarðar leigt hesthúsið yfir sumartíma vegna móta á vegum félagsins.

Í 1. gr. lóðaleigusamning, dags. 12. maí 2006, komi fram að um sé að ræða byggingalóð undir hesthús og tilheyrandi kennslu- og æfingastöðu í landi Hóla í Hjaltadal. Telur kærandi að ekki sé hægt að skilja þessa grein samningsins á annan veg en að um sé að ræða annars vegar byggingu hesthúss og hins vegar byggingu reiðhallarinnar sem nota eigi í kennslu og æfingar.

Telur kærandi að samningur hans og Háskólans á Hólum um leigu á hesthúsplássi feli eingöngu í sér að nemendur háskólans hafi forgang á leigu í hesthúsinu fyrir sín hross. Þar sem að Háskólinn á Hólum sé hvorki eigandi hússins né reki hesthúsið sé nauðsynlegt að tryggja nemendum forgang að leigu í hesthúsinu. Telur kærandi að rangt sé að halda því fram að hesthúsið sé notað sem kennslurými og eigi þess vegna að greiða af því fasteignagjöld samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, enda sé hesthúsið raunverulega notað sem hesthús. Þá séu hnakkageymsla, kaffihús og haughús rými sem eðlilegt sé að fylgi hesthúsi enda noti allir leigjendur þau rými í sameiningu.

Kærandi mótmælir þeim sjónarmiðum sveitarfélagsins að dagleg kennsla fari fram í öllum rýmum fasteignarinnar. Eina rýmið sem nýtt sé til daglegrar kennslu sé reiðhöllin en skólinn hafi þó fleiri reiðhallir til afnota. Fyrirlestrar námsins fari fram í Háskólanum á Hólum en ekki á kaffistofu hesthússins eins og sveitarfélagið haldi fram líkt og sjá megi af gögnum málsins. Jafnframt mótmæli kærandi því að dagleg kennsla fari fram í hesthúsinu sjálfu. Hesthúsið sé ekki nýtt sem skólahúsnæði þrátt fyrir að það hýsi hross sem nemendur noti við sitt nám. Tilgangur hússins sé fyrst og fremst aðstaða fyrir hross til að skýla þeim fyrir veðri og vindum. Telur kærandi að það eitt að í hesthúsinu fari fram holdafarsmælingar á skólahrossi í stuttan tíma aðra hvora viku geti ekki orðið til þess að allt húsnæðið sé metið sem skólahúsnæði enda sé það svo lítill hluti af námi nemenda. Almenn nýting þess sé hesthús. Tenging Háskólans á Hólum við hesthúsið sé umhirða hrossanna og að nemendur sjálfir leigi þarna stíur fyrir hross sem þeir nota í náminu. Það eitt og sér geti ekki orðið til þess að hesthúsið sé skóli eða nýtt sem slíkur.

Telur kærandi raunverulega nýtingu fasteignarinnar vera tvíþætta. Annars vegar sé um að ræða reiðhöll sem leigð sé út til Háskólans á Hólum og notuð sem kennslu- og æfingaaðstaða fyrir nemendur. Hins vegar sé um að ræða hesthús ásamt hnakkageymslu, haughúsi og kaffistofu sem séu rými sem raunverulega séu nýtt sem hesthús og eigi því að bera fasteignaskatt samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

V.           Viðbótarathugasemdir Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Í bréfi kæranda, dags. 19. janúar 2018, koma fram athugasemdir Sveitarfélagsins Skagafjarðar við athugasemdir kæranda, dags. 6. desember 2017, við umsögn sveitarfélags, dags. 1. nóvember 2017.

Sveitarfélagið vísar til þess að kærandi bendi á að nemendur séu ekki skyldaðir til að leigja stíu fyrir hross sín í umræddu hesthúsi. Telur sveitarfélagið að það skipulag sem ákveðið hafi verið í upphafi leiði til þess að allir, eða a.m.k. nær allir, nemendur sem þurfi námsins vegna að halda hross í tengslum við nám í Háskólanum á Hólum hafi hross í umræddu hesthúsi. Telur sveitarfélagið ekki skipta öllu máli hvort nemendur séu skyldaðir til þess eða ekki en svör Háskólans á Hólum bendi þó til slíkrar skyldu. Sveitarfélagið ítrekar röksemdir um tilurð og tilgang með byggingu hússins. Bendir sveitarfélagið á að kærandi hafi ekki gert nánari grein fyrir því hve mikil brögð séu að því að nemendur leigi annars staðar en í umræddu hesthúsi eða að aðrir en skólinn eða nemendur hans leigi í hesthúsinu á skólatíma.

Sveitarfélagið bendir á að það sé ekki forgangur nemenda til leigu á stíum í hesthúsinu sem kunni að hafa áhrif á niðurstöðu málsins heldur forgangur kæranda til útleigu á aðstöðu fyrir hross nemenda við skólann. Vísar sveitarfélagið í þessu tilliti til óuppsegjanlegs samnings um leigu á hesthúsplássi.

Að mati sveitarfélagsins skipti það almennt ekki máli varðandi flokkun húsnæðis í gjaldflokk hvort það sé vel eða illa nýtt á einhverju tímabili. Hins vegar kannist sveitarfélagið við að húsnæði sem nýtt sé á einn veg á ákveðnu tímabili geti flokkast með öðrum hætti á öðru tímabili sé það þá nýtt á annan veg.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að það hafi byggt fullyrðingu sína um daglega kennslu í hesthúsum og reiðhöll á svari Háskólans á Hólum sem sé í gögnum málsins. Sveitarfélagið bendir jafnframt á að í nýju svari skólans sem kærandi leggi fram komi ekki fram að rýmin séu ekki notuð til kennslu, einungis komi þar fram að þau séu ekki nýtt til daglegrar kennslu og ekki sett í stundaskrá.

VI.        Viðbótarathugasemdir kæranda.

Í bréfi kæranda, dags. 26. janúar 2018, koma fram frekari athugasemdir kæranda.

Kærandi vísar til tölvubréfs deildarstjóra hestafræðideildar Háskólans á Hólum, dags. 25. janúar 2018, þar sem fram komi hvernig kennslu í hesthúsinu sé háttað. Bendir deildarstjórinn á að kennslu í hesthúsinu sé þannig háttað að um sé að ræða 2 vikur á önn sem nemendur sjái um fóðurgjafir og hirðingu þeirra hrossa sem notuð eru við deildina. Nemendur vinni eitthvað með hrossin í stíum og á gangi hesthússins. Þá fari holdafarsmæling fram í húsnæðinu þar sem stórgripavigt sé og fari það fram í stutta stund á tveggja vikna fresti. Kennsla sem fari fram í hesthúsinu sé því mjög lítill partur af þeirri kennslu sem fram fari við hestafræðideildina. Telur kærandi að sá partur sé svo óverulegur að það réttlæti ekki að hesthúsið sé talið skólahúsnæði og falli þannig undir b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

VII.     Niðurstaða

Kærandi gerir kröfu um að álagning fasteignagjalda af fasteign hans að Hólum í Hjaltadal, Sveitarfélaginu Skagafirði, fnr. […], fyrir árið 2017, verði felld úr gildi og að fasteignaskattur eignarinnar verði að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Þá er það í höndum byggingarfulltrúa að ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka þegar það á við, sbr. 6. gr. sömu laga.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b-lið og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um hesthús er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna sem fjallar meðal annars um skóla. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs. Hefur í því sambandi m.a. verið vísað til 6. gr. laga nr. 4/1995, þar sem fram kemur að ef afnot fasteignar sem metin er sem ein heild er með þeim hætti að greiða skuli fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna þá skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka. Má í þessu sambandi m.a. vísa til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015.

Ágreiningur þessa máls lýtur fyrst og fremst að því hvort fasteign kæranda skuli vera talin skólahúsnæði samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 eða hesthús samkvæmt a-lið sömu greinar. Fasteign kæranda skiptist í sex rými, samtals 3.719,9 m2. Tvö rými eru hesthús, annars vegar fyrir 98 hross, 1.210 m2 að stærð og hins vegar fyrir 88 hross, 1.085 m2 að stærð. Tvö rými, hvort um sig 200 m2 að stærð eru haughús, eitt rými, 304,5 m2 að stærð, er þjónusturými og að lokum er 720 m2 reiðhöll.

Með lögum nr. 56/2012 til breytinga á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga var orðinu hesthús bætt við upptalningu a-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi var m.a. rætt hvort gera skyldi greinarmun á nýtingu hesthúsa í þessu sambandi eftir því hvort þau væru nýtt til einkanota eða í atvinnuskyni. Var niðurstaða þingsins sú að slík aðgreining á álagningu gæti verið flókin í framkvæmd og grafið undan því markmiði um jafnræði sem að baki frumvarpinu byggi. Með frumvarpinu var því ætlunin að tryggja að jafnræðis væri gætt, innan sama sveitarfélags, við álagningu fasteignaskatts á hesthús samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga án tillits til staðsetningar eignanna, sem og að tryggja að stofn til álagningar fasteignaskatts á hesthús væri sá sami á landinu öllu.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar standa ekki forsendur til að líta svo á að sá hluti fasteignarinnar sem er hesthús ásamt þeim rýmum sem því tilheyra, þ.e. haughúsum og þjónusturými, skuli teljast skólahúsnæði þó svo að þar séu hýst hross sem nemendur við Háskólann á Hólum nota við nám sitt. Í því sambandi er meðal annars til þess að líta að nemendur greiða sjálfir leigu á stíum og umræddur hluti fasteignarinnar því ekki á forræði skólans. Nefndin telur hins vegar öðru máli gegna um þann hluta fasteignarinnar sem er reiðhöll. Sá hluti er leigður Háskólanum á Hólum og sannanlega nýttur sem kennslu- og æfingaaðstaða fyrir nemendur. Að sama skapi telur nefndin rök standa til þess að líta svo á að umrædd reiðhöll sé hús þar sem íþrótt er stunduð sem leiðir til sömu niðurstöðu.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar varðandi álagningu fasteignaskatts ársins 2017 fyrir fasteign kæranda, hesthús að Hólum í Hjaltadal, Sveitarfélaginu Skagafirði, fnr. […], felld úr gildi að undanskilinni álagningu fyrir þann hluta eignarinnar sem er reiðhöll. Álagning fasteignaskatts ársins 2017 fyrir hesthús, haughús og þjónusturými skal vera samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Álagning fasteignaskatts ársins 2017 fyrir reiðhöll skal vera samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Úrskurðarorð

Álagður fasteignaskattur vegna fasteignar kæranda, hesthús, haughús og þjónusturými að Hólum í Hjaltadal, Sveitarfélaginu Skagafirði, fnr. […], árið 2017, skal vera samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Álagður fasteignaskattur vegna fasteignar kæranda, reiðhöll, Hólum í Hjaltadal, fnr. […], árið 2017, skal vera samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

    ______________________________           ________________________________

Ásgeir Jónsson                                     Inga Hersteinsdóttir