Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

15.8.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 15. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 447/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050056

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. maí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. maí 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Bretlands.

Kærandi gerir kröfu um að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Til vara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 13. febrúar 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum m.a. í Bretlandi. Þann 2. mars 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Bretlandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 3. apríl 2017 barst svar frá breskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 5. maí 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Bretlands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 29. maí 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 9. júní 2017. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í málinu þann 31. júlí s.á.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Bretlands. Lagt var til grundvallar að Bretland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Bretlands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Bretlands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi alist upp á [...] í heimaríki sínu, [...]. Við 13 ára aldur hafi hann ferðast til Ítalíu einn síns liðs og dvalið þar í nokkur ár en sótt um alþjóðlega vernd í Bretlandi 17 ára gamall. Þar hafi hann glímt við [...] og verið í [...] þegar hann hafi fengið synjun um vernd á fyrsta stigi. Kærandi hafi einungis fengið 35 pund á viku sér til framfærslu og því hafi hann neyðst til að sjá fyrir sér með [...]. Kærandi kveður að hann vilji ekki fara aftur til Bretlands sökum þess að þar eigi hann yfir höfði sér [...].

Í greinargerð kæranda er jafnframt að finna umfjöllun um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Bretlandi. Vísar kærandi í því sambandi til ýmissa alþjóðlegra skýrslna og gagna, þ.á m. skýrslu Asylum Information Database (AIDA) frá árinu 2016. Meðal annars kemur fram að mikið álag sé á breska hæliskerfinu og að einstaklingum sé gert afar erfitt fyrir að sækja um alþjóðlega vernd í landinu við komu. Þá njóti umsækjendur ekki aðstoðar eða þjónustu frá hinu opinbera fyrr en þeir hafi lokið þjónustuviðtali en allt að eins árs bið geti verið eftir því. Þá sé fjárhagsstuðningur við umsækjendur ekki nægilegur til að mæta grundvallarþörfum einstaklings. Enn fremur notist bresk yfirvöld við varðhald í miklum mæli og hafi sú framkvæmd verið harðlega gagnrýnd, m.a. af nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum. Þá standi umsækjendum til boða lögfræðiaðstoð í orði kveðnu en aðgangur að slíkri þjónustu sé verulega takmarkaður.

Til stuðnings aðalkröfu sinni byggir kærandi á því að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Kærandi hafi alist upp á [...] og ekki fengið viðhlítandi stuðning til að þroskast og dafna. Þá eigi hann á hættu að verða hnepptur í varðhald við endurkomu til Bretlands.

Til stuðnings varakröfu sinni um ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar byggir kærandi á því að rannsókn stofnunarinnar hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að bresk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Bretlands er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er kærandi ungur, einhleypur karlmaður. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 13. febrúar 2017, kvaðst kærandi þarfnast [...]. Þá kvaðst kærandi, í viðtali dags. 11. apríl s.á., vera [...] veikur og glíma við [...]. Hann hafi farið einu sinni til sálfræðings en ekkert hafi komið út úr því. Þá hefur kærandi lagt fram gögn frá göngudeild sóttvarna, einnig dags. 21. júlí 2017, sem styðja það sem fram kemur í greinargerð hans um að hann hafi átt við [...] að stríða. Í samskiptaseðlum kemur jafnframt m.a. fram mat sálfræðings eftir komu kæranda til hennar 20. mars 2017, að ekki sé ástæða til þess að hann komi aftur, ekki verði séð að hann nýti sér sálfræðiþjónustu. Það er mat kærunefndar að gögn málsins gefi ekki til kynna að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Bretlandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

·         Freedom in the World 2017 – United Kingdom (Freedom House, 15. apríl 2017);

·         2016 Country Reports on Human Rights Practices – United Kingdom (United States Department of State, 3. mars 2017);

·         Asylum Information Database Country Report: United Kingdom (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017);

·         Amnesty International Report 2016/17 – United Kingdom (Amnesty International, 22. febrúar 2017);

·         BRIEFING: Immigration Detention in the UK (The Migration Observatory at the University of Oxford, 2. maí 2017);

·         Information Note on Directive 2013/33/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 laying down standards for the reception of applicants for international protection (recast) (European Council on Refugees and Exiles, júlí 2015);

·         Information Note on Directive 2013/32/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on common procedures for granting and withdrawing international protection (recast) (European Council on Refugees and Exiles, desember 2014);

·         Upplýsingar af vefsíðu breskra yfirvalda (www.gov.uk).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að bæði í löggjöf og framkvæmd er umsækjendum um alþjóðlega vernd í Bretlandi tryggður réttur til viðtals sem og túlkaþjónusta. Ef umsókn um alþjóðlega vernd er synjað hjá bresku útlendingastofnuninni (e. UK Visas and Immigration) geta umsækjendur borið synjunina undir sérstakan dómstól (e. First Tier Tribunal (Immigration and Asylum Chamber)) og frestar kæra almennt réttaráhrifum. Synjun dómstólsins er hægt að áfrýja til æðri dómstóls, að fengnu leyfi fyrrgreinda dómstólsins. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Kærandi byggir aðalkröfu sína um efnismeðferð einkum á því að vegna [...] veikinda og ungs aldurs sé hann í viðkvæmri stöðu. Þá séu alvarlegir brestir í breska hæliskerfinu og kærandi muni eiga á hættu að sæta varðhaldi við endurkomu til Bretlands. Enn fremur standi umsækjendum aðeins til boða lögfræðiþjónusta í orði kveðnu. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Bretlandi kemur fram að umsækjendum séu tryggð búsetuúrræði og fjárhagsaðstoð í formi peningagreiðslna eða innkaupakorta að upphæð 153-160 pund á mánuði. Umsækjendur hafa ekki aðgang að vinnumarkaðnum en umsækjendur á barnsaldri hafa aðgang að skólakerfinu. Aðgangur umsækjenda að heilbrigðisþjónustu er tryggður með lögum en í framkvæmd glíma umsækjendur við ýmsar kerfislægar hindranir við nýtingu þjónustunnar nema um sé að ræða bráðatilvik. Alþjóðlegar stofnanir og félagasamtök hafa gagnrýnt að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Bretlandi sæti varðhaldi í of ríkum mæli. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er varðhaldi sjaldan beitt í efnismeðferðarmálum en nokkuð tíðar í Dyflinnar- og flýtimeðferðarmálum. Þá er varðhaldi gjarnan beitt þegar umsókn um vernd hefur verið hafnað, í þeim tilgangi að tryggja greiðan flutning umsækjanda til heimaríkis eða ríkis sem ber ábyrgð á umsókn hans samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Umsækjendur geta að eigin frumkvæði fengið skorið úr um lögmæti varðhalds. Lögum samkvæmt skal þeim tryggð lögfræðiaðstoð við rekstur slíks máls en brestir hafa verið á því í framkvæmd. Umsækjendum í varðhaldi hefur þó fækkað frá árinu 2015, bæði tölulega og hlutfallslega, og meirihluti þeirra sætir varðhaldi í skamman tíma.

Samkvæmt breskri útlendingalöggjöf skulu umsækjendur um alþjóðlega vernd í Bretlandi eiga raunhæfan kost á því að útvega sér lögfræðiaðstoð (e. „asylum seekers shall be allowed an effective opportunity to obtain legal advice“). Í framkvæmd er endurgjaldslaus lögfræðiaðstoð til handa umsækjendum þó ekki fyllilega tryggð af hinu opinbera á fyrsta stjórnsýslustigi eða kærustigi, nema í tilvikum fylgdarlausra barna. Fyrir árið 2011 buðu tvenn frjáls félagasamtök upp á gjaldfrjálsa lögfræðiráðgjöf en þeim hefur nú báðum verið lokað. Bretland er ekki aðildarríki að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/32/ESB um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Á meðan ríkið er enn hluti af Evrópusambandinu er það þó bundið af tilskipun ráðsins nr. 2005/85/EB frá 1. desember 2005 um lágmarkskröfur varðandi málsmeðferðir í aðildarríkjunum við veitingu og afturköllun réttarstöðu flóttamanns.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þ.á m. upplýsingum úr greinargerð kæranda, kemur fram að í Bretlandi eigi kærandi rétt á mánaðarlegri peningagreiðslu til uppihalds, þó að um tiltekna lágmarksupphæð sé að ræða.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann óttist að verða settur í varðhald vegna [...], snúi hann aftur til Bretlands. Kærandi byggir m.a. á því að brestir séu í breska hæliskerfinu og að yfirvöld sæti m.a. gagnrýni fyrir að beita varðhaldi í of miklum mæli gagnvart umsækjendum um vernd. [...]. Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til annars en að málsmeðferð við ákvörðun um varðhald í Bretlandi tryggi réttindi aðila með fullnægjandi hætti.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Bretlandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Bretlandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Bretlands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, þ.á.m. ungs aldurs hans og [...] kvilla sem hann kveðst glíma við, er það jafnframt mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 11. apríl 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 13. febrúar 2017.

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar í máli hans, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi að rannsókn málsins og rökstuðningi sé verulega áfátt, þ.á m. sé ekkert fjallað um mögulegt varðhald sem kærandi kunni að sæta við endurkomu til Bretlands. Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem nauðsynleg eru svo að mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Við ákvörðunartöku í máli kæranda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin niðurstöðu sína á gögnum sem aflað var við meðferð málsins og gögnum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í móttökuríkinu, Bretlandi. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur m.a. fram að engin gögn bendi til þess að umsækjandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Bretlandi. Það er afstaða kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um aðstæður í Bretlandi, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við meðferð málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana og alþjóðlegra félagasamtaka, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Vegna athugasemdar kæranda við rökstuðning Útlendingastofnunar ber að nefna að það er mat kærunefndar að betur hefði farið á því að fjalla um mögulegt varðhald kæranda enda hafi það verið ein af meginmálsástæðum í greinargerð sem talsmaður kæranda lagði fram hjá Útlendingastofnun. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu málsins telur kærunefnd þó að þessi ágalli sé ekki þess eðlis að ákvörðunin verði felld úr gildi vegna hans.

Í máli þessu hafa bresk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Bretlands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir