Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

10.11.2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi 

úrskurður nr. 425/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16090001 

Beiðni […]

um endurupptöku á 

úrskurði kærunefndar útlendingamála

 

I. Málsatvik

Þann 21. júní 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2015, um að taka ekki umsókn […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), um hæli hér á landi til efnismeðferðar vegna aðstæðna hans í […], synja honum um hæli vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi, ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga, nr. 96/2002. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 18. ágúst 2016 og þann 23. ágúst 2016 barst kærunefndinni beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 33. gr. laga um útlendinga. Þann 1. nóvember sl. var talsmanni kæranda gerð grein fyrir því með tölvupóstssamskiptum að nefndin teldi koma til greina að taka beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa sem beiðni um endurupptöku á máli kæranda. Var talsmanni boðið að gera athugasemdir við þær fyrirætlanir nefndarinnar. Talsmaður svaraði fyrirspurn kærunefndar og tók fram að hann gerði engar athugasemdir við endurupptöku málsins. 

Má því skilja beiðni kæranda sem svo að hann óski eftir endurupptöku á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að vera endursendur til Ungverjalands. Telur kærandi það vera ómannúðlegt að íslensk stjórnvöld skuli synja honum um efnismeðferð á máli sínu miðað við aðstæður hans. Öll rök bendi til þess að íslenskum stjórnvöldum sé bæði heimilt og gerlegt að taka mál kæranda til efnismeðferðar og veita honum hæli hér á landi, eða a.m.k. dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Bendir kærandi m.a. á að hann eigi á hættu á að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í Ungverjalandi. Jafnframt eigi hann á hættu að verða endursendur til […] þar sem hann hafi yfirgefið Ungverjaland eftir að honum hafi verið veitt viðbótarvernd þar í landi.

Kærandi telur að við ákvarðanatöku sína hafi stjórnvöld látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þær aðstæður sem flóttamenn í Ungverjalandi búi við. Mat hafi því ekki farið fram í samræmi við þær kröfur sem lagðar séu á íslensk stjórnvöld og þau hafi þar með brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, 50. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem þau hafi ekki gengið úr skugga um að Ungverjaland sé öruggt og tryggt þriðja ríki. Endursending hans til Ungverjalands teljist því vera brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr.

flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Kærandi bendir auk þess á að stjórnvöld hafi ekki fylgt ákvæðum 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eða 2. mgr. 12. gr. f sömu laga. 

III.  Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um 1. tölulið:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess. 

Ljóst er af gögnum máls að ferðarskilríki kæranda, útgefið af ungverskum yfirvöldum, féll úr gildi þann 3. júní 2016. Gefur umrætt ferðaskilríki til kynna að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi en í málinu liggja ekki fyrir frekari gögn sem stafa frá stjórnvöldum í Ungverjalandi sem staðfesta vernd kæranda þar í landi. Af þessu er jafnframt ljóst að þegar úrskurður í máli kæranda var afgreiddur af kærunefnd útlendingamála þann 21. júní sl. var ferðaskilríki kæranda þegar á þeim tíma útrunnið. 

Með tilliti til þessa telur kærunefnd að ekki sé hægt að útiloka að ákvörðun í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Hér sé jafnframt um að ræða upplýsingar sem hafi þýðingu við úrlausn málsins. Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. 

IV. Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga

Afmörkun úrlausnarefnis

Úrlausnarefni málsins er að skera úr um hvort að endurupptaka nefndarinnar á máli kæranda kalli á endurskoðun úrskurðar nefndarinnar og breytingu hans á þá leið að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar. 

Málsástæður og rök kæranda 

Um málsástæður og rök kæranda vísast til úrskurðar kærunefndar í máli kæranda, dags. 21. júní 2016. Málsástæður kæranda vegna beiðni um endurupptöku hafa verið raktar hér að framan. 

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Niðurstaða kærunefndar 

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda er byggð á 1. mgr. 46. gr. a, þar sem segir að stjórnvöld geti að uppfylltum ákveðnum fyrirvörum synjað því að taka umsókn um hæli til efnismeðferðar. Til að stjórnvöld geti beitt þessari heimild þarf eitthvert skilyrða a til d liðar ákvæðisins að vera fyrir hendi. Synjun Útlendingastofnunar á því að taka mál kæranda til efnismeðferðar er byggð á því að skilyrði b-liðar ákvæðisins, um að umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði „eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns“.  

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þegar ákvörðun er byggð á því að tiltekin lagaskilyrði séu fyrir hendi þarf af rannsaka með fullnægjandi hætti hvort þau skilyrði séu fyrir hendi í málinu. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. 

Í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. desember 2015 er byggt á því að kærandi sé með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi. Nánar tiltekið er í ákvörðuninni tekið fram að það sé óumdeilt að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Ungverjalandi. 

Um stöðu kæranda í Ungverjalandi hefur kærandi sjálfur gert grein fyrir því að hann hafi fengið viðbótarvernd þar. Kærandi hefur framvísað ungversku persónuskilríki sem er með gildistíma til 15. maí 2025 en ekki kemur fram á skilríkinu hvort umsækjandi sé með vernd í landinu. Kærandi hefur jafnframt framvísað ferðaskilríki fyrir útlendinga sem njóta viðbótarverndar, útgefnu af ungverskum yfirvöldum, með gildistíma frá 3. júní 2015 til 3. júní 2016. Samkvæmt framansögðu er skilríkið eina gagnið í málinu sem stafar frá ungverskum yfirvöldum sem bendir til þess að kærandi hafi fengið vernd í landinu. Í skilríkinu eru engar upplýsingar um hvenær kærandi fékk vernd í Ungverjalandi en það er eingöngu gefið út til eins árs og er nú runnið út. 

Kærunefnd tekur undir þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að gögn málsins gefi til kynna að hann hafi hlotið vernd í Ungverjalandi. Í því sambandi er tekið fram að þegar stofnunin komst að niðurstöðu í málinu var kærandi með gilt ferðaskilríki einstaklings með viðbótarvernd. Aðstæður kæranda eru að þessu leyti breyttar frá því að ákvörðun var tekin hjá Útlendingastofnun.

Ákvörðun um synjun um efnismeðferð umsóknar um hæli er íþyngjandi og almennt verður að gera nokkuð strangar kröfur til þess að gögn málsins sýni ótvírætt fram á að skilyrði synjunar á efnismeðferð umsóknar séu fyrir hendi, sbr. a-d liðir 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Það er afstaða kærunefndar að þar sem ferðarskilríki kæranda er nú runnið út geti það gagn eitt og sér ekki verið fullnægjandi grundvöllur undir ályktun um að kærandi njóti enn verndar í Ungverjalandi. Kærunefnd tekur fram að þótt kærandi hafi sjálfur haldið því fram við meðferð málsins hjá stjórnvöldum að hann njóti slíkrar verndar í Ungverjalandi hefur því jafnframt verið haldið fram við meðferð málsins á kærustigi að verndin sé mögulega ekki lengur til staðar. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé nægjanlega upplýst að kærandi sé í reynd með vernd í Ungverjalandi og þar með að skilyrði b-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga séu fyrir hendi í máli hans. Kærunefnd hefur freistað þess að bæta úr þessum skorti á upplýsingum á kærustigi án árangurs. Í því ljósi og með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að endurskoða beri fyrri úrskurð kærunefndar í máli

kæranda. Kveðinn er upp nýr úrskurður á þá leið að ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að rannsaka að nýju hvort skilyrði þess að synja umsókn kæranda um efnismeðferð eru fyrir hendi en að öðrum kosti taka mál hans til efnismeðferðar.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda fyrir að nýju.

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

Pétur Dam Leifsson                                                                                                           Anna Tryggvadóttir