Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

10.8.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 10. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 384/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050039

 

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.     Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. maí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. apríl 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 74. og 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd ásamt eiginkonu sinni og barni.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.       Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. apríl 2016. Með ákvörðun, dags. 1. júlí 2016, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála, sem felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurði, dags. 18. október 2016, og lagði fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda þann 16. janúar 2017 að Ísland bæri ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd. Kærandi kom í viðtöl hjá Útlendingastofnun m.a. þann 24. og 31. mars 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. apríl 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 23. maí 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 16. júní 2017. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd í fyrsta lagi á því að hann væri í hættu í [...] vegna átaka í [...]. Í öðru lagi byggði kærandi á því að eftir að hafa flúið innanlands [...] hafi kærandi og fjölskylda hans orðið fyrir fordómum, áreiti og hótunum þar sem kærandi ætti rætur að rekja til [...] . Í þriðja lagi var umsókn kæranda byggð á því að hann óttaðist afleiðingar þess að forðast herkvaðningu í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

IV.     Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í [...]. Eftir að kærandi og eiginkona hans hafi tekið saman árið 2007 hafi hún flust til borgarinnar og þau búið þar til ársins [...]. Kærandi hafi verið í hættu á að vera neyddur til að berjast fyrir [...] og lýsir kærandi því þegar menn í herklæðum hafi í eitt skipti stöðvað bíl fjölskyldunnar og neytt kæranda ofan í farangursrými bifreiðar. Með aðstoð fólks á svæðinu hafi kæranda hins vegar tekist að komast undan. Í kjölfarið hafi fjölskyldan ákveðið að flytja til borgarinnar [...]. Við komuna þangað hafi kærandi tekið íbúð á leigu og reynt að fá vinnu án árangurs. Hafi kærandi að lokum farið að starfa sjálfstætt við kaup og sölu á bifreiðum.

Eftir komu fjölskyldunnar til [...] hafi þau farið að finna fyrir miklum fordómum og mismunun. [...]. Syni kæranda hafi t.a.m. verið neitað um læknisþjónustu vegna uppruna kæranda og þá hafi sonur hans einnig orðið fyrir fordómum og slæmri framkomu í skóla, jafnt af hálfu nemenda sem kennara. Kærandi greinir jafnframt frá því að lögreglustjóri í [...] hafi látið í ljós fordóma í þeirra garð og ekkert aðhafst þegar fjölskyldan hafi leitað til lögreglunnar vegna saknæmra atvika. Nágrannar hafi þar að auki áreitt fjölskylduna, t.a.m. með því að berja á hurðina og skapa hávaða á næturnar svo sonur kæranda gæti ekki sofið.

Eftir því sem fleirum hafi orðið kunnugt um uppruna þeirra hafi áreitið orðið meira og flestir ættingjar eiginkonu kæranda orðið andsnúnir þeim og lokað á samskipti við þau. Þá kemur fram að samstarfsfélagar kæranda hafi veist að honum eftir að þeir hafi komist að uppruna hans. Kveðst kærandi jafnframt hafa verið lokaður inni í bílskúr af samstarfsmönnum sínum og þeir lagt sekt á hann. Kærandi hafi leitað til lögreglu vegna málsins en enga aðstoð fengið og þá hafi hann ekki getað stundað atvinnu sína lengur af þessum ástæðum. Vísar kærandi að lokum til atviks þar sem hópur fólks hafi komið að heimili fjölskyldunnar, m.a. samstarstarfsmenn kæranda og að hans sögn óeinkennisklæddir lögreglumenn, en einhverjir mannanna hafi þar að auki borið vopn. Í fyrstu hafi fólkið gert tilraun til að brjótast inn í húsið en þvingað kæranda að lokum til að fara út þar sem honum hafi m.a. verið hótað lífláti. Kunningjar kæranda hafi síðan komið á vettvang og að endingu hafi fólkið horfið á brott. Eftir þetta hafi kæranda borist hótanir í gegnum síma sem hafi beinst að lífi hans og fjölskyldunnar. Í framhaldi af þessu hafi fjölskyldan ákveðið að flýja land.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að [...] . [...].

[...].

Með vísan til frásagnar kæranda og framangreindrar umfjöllunar telur kærandi að hann hafi flúið ofsóknir á grundvelli þjóðernis. Þjóðerni taki ekki aðeins til ríkisborgararéttar heldur geti fallið þar undir þeir sem tilheyri tilteknum hópi fólks sem tali sama tungumál, hafi sameiginlega menningarlega sjálfsmynd eða sameiginlegan uppruna, t.d. landfræðilega. Almennt verði að telja ótta umsækjanda við ofsóknir ástæðuríkan ef hann getur sýnt fram á, upp að hæfilegu marki, að áframhaldandi dvöl hans í heimalandinu yrði honum óbærileg af ástæðum sem fram koma í skilgreiningunni, eða yrðu óbærilegar ef hann sneri aftur. Með vísan til frásagnar sinnar, framlagðra sönnunargagna og umfjöllunar um ástandið í [...] telur kærandi sannað að ótti hans sé ástæðuríkur og að dvöl hans í [...] yrði honum óbærileg.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé [...] ára gamall og tilheyri þeim hópi sem eigi á hættu herkvaðningu. Kærandi sé hins vegar mótfallinn [...] og að leggja beri til grundvallar að hann forðist herkvaðningu [...] yfirvalda af gildum samviskuástæðum. Sá réttur sé varinn í 18. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 18. gr. samnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ótti við þátttöku í hernaðarátökum geti á grundvelli mats fallið undir skilgreiningu þess að teljast ástæðuríkur ótti við ofsóknir. Slíkur ótti kunni að vera grundvöllur alþjóðlegrar verndar samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Byggir kærandi á því að [...] virði ekki rétt kæranda til að neita herþjónustu af samviskuástæðum eins og lagt sé til grundvallar í leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt leiðbeiningunum geti það líka talist til ofsókna ef refsing við því að neita að gegna herþjónustu sé óhófleg. [...]. Útlendingastofnun hafi metið það svo að möguleg refsing kæranda fyrir að víkjast undan herskyldu sé ekki óhófleg eða handahófskennd og verði því ekki talin jafnast á við ofsóknir. Kærandi mótmælir þessu mati Útlendingastofnunar og telur refsinguna mjög harða, sérstaklega með tilliti til þess að [...]. Í leiðbeiningum flóttamannastofnunar segi einnig að þegar hættan á ofsóknum sé metin í framangreindum tilvikum sé mikilvægt að taka tillit til óbeinna áhrifa þeirrar afstöðu að neita að taka þátt í vopnuðum átökum, sem geti m.a. verið í formi ofbeldis, mismununar eða áreitis frá samfélaginu.

Varakrafa kæranda um að honum verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, byggir á sömu aðstæðum og lýst er að framan. Ákvæðið hafi komið inn í eldri lög um útlendinga nr. 96/2002, en í athugasemdum við ákvæðið hafi sagt að við túlkun ákvæðisins skuli taka tillit til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem reglan um viðbótarvernd byggist á og Ísland sé skuldbundið af, svo sem 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Íbúar í [...] búi við raunverulega hættu á að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum. Vegna þrautavarakröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísar kærandi m.a. til [...] og viðvarandi mannréttindabrota sem yfirvöld verndi hann ekki fyrir.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi Útlendingastofnun komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir þörf kæranda fyrir viðbótarvernd væri með sanngirni hægt að ætlast til þess af kæranda að hann settist að í borginni [...], sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við mat á möguleikum á flótta innanlands beri annars vegar að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist raunhæft úrræði og hins vegar hvort krafa um slíkt sé sanngjörn. Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga segi m.a. að þess skuli gætt að beiting ákvæðisins leiði ekki til þess að grafið sé undan þeim grundvallarmannréttindum sem löggjöf um alþjóðlega vernd byggist á. Þá geti ákvörðun um það hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum landshlutum aðeins farið fram eftir einstaklingsbundið mat á aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem eru í viðkomandi landi. Kærandi mótmælir harðlega framangreindu mati Útlendingastofnunar á möguleikum hans og fjölskyldu hans á flótta innanlands. Telur kærandi sig ekki geta verið öruggan neins staðar í [...] og að fjölskyldan hafi neyðst til að flýja frá [...] vegna ástæðna sem raktar eru að framan.

Þá gerir kærandi athugasemdir við það hvernig Útlendingastofnun hagar mati sínu á möguleikum kæranda á flutningi innanlands. Virðist m.a. sem stofnunin hafi ekki kannað möguleika kæranda á vernd í heimaríki sem hluta af mati á því hvort hann teldist flóttamaður, líkt og áskilið sé samkvæmt athugasemdum við ákvæði 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi enn fremur talið kæranda uppfylla skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, en að því loknu kannað hvort synja mætti honum um alþjóðlega vernd með vísan til möguleika á flutningi innanlands. Kærandi telur þetta vera í andstöðu við framangreind sjónarmið að baki 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærandi uppfylli skilyrði þess að teljast flóttamaður eigi hann, hvað sem öðru líði, rétt á því að flýja eigið land og sækja um alþjóðlega vernd.

Fram kemur að Útlendingastofnun hafi vísað til þess að foreldrar eiginkonu kæranda séu búsett í [...]. Bendir kærandi á að ekki sé um hans fjölskyldu að ræða og að hann hafi ekki lýst því yfir að hann eigi stuðning eða bakland vísan hjá þeim. Þá telur kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar ekki samræmast leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um möguleika á flutningi innanlands enda segi í leiðbeiningunum að við mat á því hvort flutningur sé raunhæft úrræði beri að taka tillit til þess hvort viðkomandi svæði bjóði upp á gildan kost til framtíðar, en [...] hafi ekki reynst slíkur kostur í tilviki kæranda.

Vísar kærandi enn fremur til ákvörðunar Útlendingastofnunar í öðru máli, dags. 6. desember 2016. Aðili málsins hafi verið frá [...] en flúið land og sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Í málinu hafi Útlendingastofnun komist að þeirri niðurstöðu að aðili málsins hafi uppfyllt skilyrði viðbótarverndar og að ekki væri sanngjarnt að gera honum að flytjast búferlum innanlands í [...]. Í ljósi nýjustu heimilda um [...] telur kærandi að ekkert tilefni sé til að ætla að aðstæður [...] hafi batnað frá því umrædd ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið tekin. Stofnunin hafi vísað almennt til [...] og stuðst að meginstefnu til við sömu heimildir í því sambandi og í ákvörðun kæranda. Að lokum byggir kærandi á því að samkvæmt leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um möguleika á flutningi innanlands sé gerð krafa um að umsækjanda um alþjóðlega vernd sé gefin augljós og fullnægjandi tilkynning um að viðkomandi stjórnvald sé að íhuga þann möguleika hvort flutningur innanlands teljist raunhæft og sanngjarnt úrræði. Kæranda hafi ekki verið gerð grein fyrir því sem sé augljós annmarki á hinni kærðu ákvörðun.

V.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[...]

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á ástandinu í [...], ofsóknum á grundvelli þjóðernis eftir flutning innanlands til borgarinnar [...] og ótta við afleiðingar þess að forðast herkvaðningu.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærunefnd lítur svo á að skoða beri tilkall kæranda til stöðu flóttamanns út frá aðstæðum hans á því svæði þar sem hann bjó áður en hann lagði á flótta innan [...] og því svæði sem hann flúði til.

Kærandi kveðst hafa búið í [...], sem er í [...], þar til hann flúði þaðan til borgarinnar [...]. Í alþjóðlegum skýrslum kemur fram að [...] og að átök eigi sér enn stað á svæðinu milli [...]. [...]. Aðilar á vegum Sameinuðu þjóðanna hafi greint frá lögleysi og alvarlegum mannréttindabrotum í [...], m.a. aftökum og pyndingum.

Í 1. mgr. 37. gr. eru tilgreindar þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast til að staða flóttamanns skv. 1. mgr. 37. gr. verði veitt, þ.e. kynþáttur, trúarbrögð, þjóðerni, aðild að tilteknum þjóðfélagshópi eða stjórnmálaskoðanir. Í a-e-lið 3. mgr. 38. gr. eru þessar ástæður skilgreindar nánar. Ekkert í gögnum málsins eða í framburði kæranda bendir til þess að sú hætta sem kærandi var í á meðan hann bjó í [...] hafi verið á grundvelli þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr.

Eftir að hafa flúið frá [...] og sest að í borginni [...] ásamt eiginkonu sinni og barni, hafi kærandi fundið fyrir fordómum í sinn garð vegna uppruna síns. Hafi fordómarnir m.a. lýst sér þannig að fólk hafi sagt þeim að fara aftur til [...]. Kærandi hafi leitað til lögreglu vegna ýmissar háttsemi í sinn garð en fundið fyrir fordómum frá lögreglustjóranum á svæðinu sem hafi ekkert aðhafst. Hefur kærandi jafnframt greint frá því að fyrrum samstarfsfélagar hafi veist að honum með ofbeldi eftir að hafa komist að uppruna hans og lokað hann inni í bílskúr. Þá hafi hópur fólks komið að heimili fjölskyldunnar en horfið á brott eftir að kunningjar kæranda hafi komið til aðstoðar. Í kjölfarið hafi kæranda borist líflátshótanir í gegnum síma.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt má ráða að fólk frá [...], sem lagt hefur á flótta innanlands, hafi fundið fyrir andúð í sinn garð frá íbúum annarra landshluta og verið mismunað, svo sem á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Til þess að um sé að ræða ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga verður hins vegar að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær séu endurteknar, fela í sér brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Hið sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling. Það er mat kærunefndar að mismunun sem er lýst í framangreindum skýrslum og sú meðferð, sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir í heimaríki og nánar er lýst í kafla IV. í úrskurði þessum, nái ekki því alvarleikastigi að hún falli undir ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir jafnframt á því að hann óttist herkvaðningu, sem geti verið grundvöllur fyrir alþjóðlegri vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé mótfallinn stríðinu [...] og að leggja beri til grundvallar að hann forðist herkvaðningu af gildum samviskuástæðum.

Í nóvember 2014 gaf flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna út leiðbeiningarreglur vegna krafna um alþjóðlega vernd í tengslum við herþjónustu (Guidelines on International Protection no. 10: Claims to Refugee Status related to Military Service within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or the 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 12. nóvember 2014). Í leiðbeiningunum segir m.a. að rétturinn til að neita herþjónustu af samviskuástæðum sé afleiddur réttur byggður á túlkun á 18. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttinn til frelsis hugsana sinna, samvisku og trúar og 18. gr. samnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna geti þó á lögmætan hátt krafist þess að ríkisborgarar þeirra gegni herþjónustu eða þjónustu af öðrum toga. Í þeim tilvikum þar sem ríki býður ekki upp á þann möguleika að ríkisborgari gegni annars konar þjónustu verði að kanna hvaða afleiðingar séu af því að hann neiti að gegna herskyldu. Eigi einstaklingur á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir að neita að gegna herskyldu geti komið til athugunar að veita viðkomandi alþjóðlega vernd. Í ríkjum sem bjóða ekki upp á að ríkisborgarar, sem neita að gegna herskyldu, inni af hendi annars konar þjónustu teljist það hins vegar ekki til ofsókna ef þeir geta komist hjá herskyldu með greiðslu stjórnsýslusektar.

Í 4. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um bann við þrældómi og nauðungarvinnu. Samkvæmt greininni tekur þvingunar- eða nauðungarvinna ekki til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er í hennar stað af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna og búa við lög sem heimila slíka synjun, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sáttmálans. Er ákvæðið skýrt í samræmi við 1. mgr. 9. gr. mannréttindasáttmálans, þar sem kveðið er á um rétt manna til að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Til að ákvörðun um að neita að gegna herþjónustu falli undir 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verður að vera um að ræða ástæður af trúarlegum toga eða að viðkomandi hafi lýst yfir sterkum skoðunum um að hann sé mótfallinn hvers kyns stríðsrekstri eða því að bera vopn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 7. júní 2016 í máli Enver Aydemir gegn Tyrklandi frá 2016 (mál nr. 26012/11).

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins um [...]. Að framangreindu virtu telur kærunefnd ljóst að kærandi eigi ekki á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu vegna ákvörðunar sinnar um að forðast herskyldu og að aðstæður hans að þessu leyti séu ekki grundvöllur fyrir veitingu alþjóðlegrar vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefndin samkvæmt öllu framansögðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ákvörðun sinni féllst Útlendingastofnun sem fyrr segir á að kærandi ætti á hættu að verða fyrir meðferð sem lýst er í 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga í heimaborg sinni, [...]. Að virtum framburði kæranda hjá Útlendingastofnun og framangreindum upplýsingum um aðstæður í heimaríki hans er það mat kærunefndar að ekki séu forsendur til þess að hnekkja mati Útlendingastofnunar um að kærandi eigi á hættu að verða fyrir meðferð sem fellur undir 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á því svæði sem hann bjó á [...].

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Í 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga segir að ef útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði getur verið að 1. og 2. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum og hann teljist ekki flóttamaður. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að beiting ákvæðisins geti aðeins komið til sem hluti af mati á því hvort viðkomandi einstaklingur teljist flóttamaður og geti því ekki verið grundvöllur fyrir synjun á því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands geti aðeins verið byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kæranda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hann flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hans þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur fram að átök í [...]. Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að önnur svæði í heimaríki kæranda, [...], séu honum aðgengileg á raunhæfan, öruggan og löglegan hátt.

Með hliðsjón af fyrri umfjöllun um aðstæður í [...] verður heldur ekki talið að flutningur kæranda innanlands, [...], skapi honum hættu á að verða fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að flutningur innanlands komi til álita í máli kæranda. Að uppfylltu fyrra skilyrði við mat möguleika á flutningi innanlands verður því næst að taka afstöðu til þess hvort unnt sé, með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og aðstæðum í heimaríki hans, að ætlast með sanngirni til þess að kærandi setjist að á öðru svæði í [...].

Í viðtali hjá Útlendingastofnun rakti kærandi aðdraganda þess að hann og fjölskylda hans lögðu á flótta frá [...]. Hafi þau ákveðið að flytjast til borgarinnar [...], en eiginkona kæranda mun vera uppalin í borginni auk þess sem foreldrar hennar búa þar. Greinir kærandi frá því að þau hafi byrjað að leigja íbúð en að hann hafi ekki fengið vinnu fyrst um sinn. Kveðst kærandi hafa farið í sjálfstæðan rekstur sem hafi falist í innflutning og sölu á bílum. Eftir því sem liðið hafi á dvöl þeirra í [...] hafi fjölskyldan farið að finna fyrir fordómum frá fólki þar sem þau hafi komist að því að kærandi væri frá [...]. Nágrannar hafi m.a. litið svo á að fólk frá [...]. Þá hafi samskipti kæranda við samstarfsfélaga versnað til muna eftir að þeir hafi komist að uppruna hans og þeir m.a. ráðist að honum. Þá hafi hópur manna, sumir hverjir vopnaðir byssum, gert aðsúg að heimili hans. Hafi kærandi hringt í kunningja sína sem hafi komið á staðinn og í kjölfarið hafi mennirnir yfirgefið svæðið. Kærandi og fjölskylda hans hafi í framhaldinu flutt til guðföður sonar hans en þá þegar tekið ákvörðun um að flýja landið. Í öðru viðtali hjá Útlendingastofnun kom fram að kærandi ætti ekki vini í [...] en að hann ætti kunningja, fólk sem hann þekkti. Í dag vissi kærandi ekki hvar fólkið væri og sambandið væri kannski alveg rofnað. Þá kom fram að guðfaðir sonar kæranda væri fluttur til [...].

Kærunefnd dregur framburð kæranda um fordóma og áreiti í garð hans og fjölskyldu hans ekki í efa. Af fyrrnefndum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að einstaklingar, sem hafa flust innanlands í [...], eiga í mörgum tilvikum erfitt um vik með að aðlagast á nýjum stað. Samkeppni um atvinnu og húsnæði hafi leitt af sér mismunun gegn flóttafólki á húsnæðis- og vinnumarkaði og þá fyrirfinnst gremja í garð flóttafólks af ýmsum ástæðum.

Á hinn bóginn verður að mati kærunefndar að líta til þess í tilviki kæranda að eiginkona hans er frá [...] og að foreldrar hennar eru búsettir í borginni, sem getur haft nokkurt vægi við mat á persónulegum aðstæðum kæranda og fjölskyldu hans samkvæmt áðurnefndum leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kom fram hjá kæranda að hann og eiginkona hans væru stundum í sambandi við foreldra hennar í gegnum Skype og að samband þeirra væri „allt í lagi“. Virðist kærandi enn fremur eiga kunningja í borginni sem hafi m.a. komið honum til aðstoðar vegna áreitis í garð fjölskyldunnar. Þá liggur fyrir að kærandi gat aflað sér leiguhúsnæðis við komuna til [...] og atvinnu með sjálfstæðum rekstri. Þykir því ljóst að efnahagslegar aðstæður kæranda og fjölskyldu hans hafi ekki verið óviðunandi. Þrátt fyrir að kærandi og fjölskylda hans hafi upplifað neikvætt viðhorf og áreiti í sinn garð er það mat kærunefndar, með hliðsjón af framangreindum persónulegum og efnahagslegum aðstæðum kæranda í [...], að hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að kærandi setjist að í borginni, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framansögðu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um þetta atriði staðfest.

Í greinargerð sinni gerir kærandi nokkrar athugasemdir við málsmeðferð og úrlausn Útlendingastofnunar í málinu. Kemur þar m.a. fram að kærandi telji það í andstöðu við sjónarmið að baki 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun hafi talið kæranda uppfylla skilyrði 2. mgr. 37. gr. sömu laga en að því loknu kannað hvort synja mætti honum um alþjóðlega vernd með vísan til möguleika hans á flutningi innanlands. Að mati kærunefndar veltur beiting 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, um möguleika á flutningi innanlands, m.a. á því hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimaríkis síns en hann flúði frá. Af því leiðir að stjórnvöld verða að taka afstöðu til þess hvort krafa um alþjóðlega vernd falli undir aðstæður sem greindar eru í 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og komast að niðurstöðu um hvort viðkomandi hafi þörf á vernd í tilteknum landshlutum heimaríkis áður en 4. mgr. 37. gr. laganna kemur til álita.

Þá vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 6. desember 2016, en í málinu hafi stofnunin talið aðstæður viðkomandi málsaðila, sem hafði búið í [...], falla undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hins vegar hafi Útlendingastofnun ekki talið það sanngjarnt að gera aðila málsins að flytja sig um set innan [...]. Þótt fallast megi á að málsatvik séu nokkuð sambærileg máli kæranda telur kærunefnd að félagslegt stuðningsnet kæranda í [...] hafi töluvert vægi við mat á möguleika hans á flutningi innanlands og að málin séu frábrugðin að því leyti.

Loks telur kærandi það annmarka á ákvörðun Útlendingastofnunar að honum hafi ekki verið veitt augljós og fullnægjandi tilkynning um að stofnunin væri að kanna möguleika á flutningi innanlands. Fyrir liggur að kærandi hefur þegar flust búferlum innanlands í [...] eftir að hafa lagt á flótta frá [...], en af viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun má draga þá ályktun að hann og fjölskylda hans hafi búið í [...] í a.m.k. níu mánuði. Í viðtali hjá Útlendingastofnun var kærandi ítrekað spurður um aðstæður sínar í [...], þ.m.t. hvað hann teldi að myndi gerast ef hann snéri aftur þangað. Þá var hann m.a. spurður hvort hann teldi sig geta búið annars staðar í [...] og verið öruggur. Að því virtu telur kærunefnd ekki tilefni til að gera athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar að þessu leyti.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi möguleika á flutningi innanlands á hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 4. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum um 74. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Málsatvik hafa þegar verið rakin en kærandi byggir á því að aðstæður hans í heimaríki séu erfiðar, einkum félagslega, vegna áreitis í garð hans og fjölskyldu hans auk hótana um ofbeldi. Líkt og fram hefur komið benda gögn til þess að fólk á flótta innanlands upplifi gremju í sinn garð og sæti mismunun, t.a.m. á húsnæðis- og vinnumarkaði. Eins og rakið hefur verið bjó kærandi um nokkurra mánaða skeið í borginni [...], þar sem foreldrar eiginkonu hans eru búsettir. Fyrir liggur að kærandi gat aflað sér húsnæðis við komuna þangað og síðar atvinnu, auk þess sem hann á kunningja í borginni. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum að baki 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er það mat kærunefndar að þótt kærandi upplifi fordóma og áreiti í sinn garð vegna uppruna teljist aðstæður hans ekki félagslega erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kom hingað til lands ásamt eiginkonu sinni og barni. Þá hefur ekki komið annað fram í viðtölum við kæranda en að hann sé við góða heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður hans nái því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Nánar er fjallað um skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla ef umsækjandi hefur áður búið hér á landi í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Þar kemur fram að við heildarmat á aðstæðum umsækjanda skuli sérstaklega horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt er liðið frá dvalartíma, brotaferils umsækjanda hér á landi, fjölskylduaðstæðna og umönnunarsjónarmiða. Þá segir m.a. í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veita nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk.

Í 4. mgr. 78. gr. laganna segir að til sérstakra tengsla við landið skv. 2. mgr. geti ekki talist þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi á grundvelli bráðabirgðadvalarleyfis sem gefið er út til umsækjenda um alþjóðlega vernd, sbr. 77. gr. laganna. Af gögnum málsins liggur fyrir að kærandi hefur dvalið hér á landi í fimmtán mánuði mánuði vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur að dvöl vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, hvort sem umsækjandi hefur fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt 77. gr. laga um útlendinga eða ekki, geti ekki talist til lögmætrar dvalar í skilningi 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Þá hefur komið fram í málinu að [...] kæranda býr hér á landi. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að fyrir hendi séu umönnunarsjónarmið sem taka þurfi tillit til. Þótt kærandi telji sig ekki hafa sterk tengsl við heimaríki er það mat kærunefndar að fjölskyldutengsl hans hér á landi geti ekki verið grundvöllur veitingar dvalarleyfis á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið er því staðfest.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar að öðru leyti en því að rétt þykir að gefa kæranda 15 daga til að yfirgefa landið, enda liggur ekki fyrir rökstuðningur fyrir því að beita skuli skemmri fresti í þessu máli.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest með þeirri breytingu að kærandi hefur 15 daga til að yfirgefa landið.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed with the amendment that the appellant shall have 15 days to leave Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                                              Pétur Dam Leifsson