Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

26.1.2017

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 26. janúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 35/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16090034

 

Kæra [...]

og barns hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. september 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9. september 2016, um að synja henni og syni hennar, [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér ásamt syni sínum og sambýlismanni.

Kærandi krefst þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og málið verði tekið til afgreiðslu hjá Útlendingastofnun að nýju með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til vara er þess krafist að kæranda og syni hennar verði veitt vernd á Íslandi sem flóttamenn, sbr. 1. mgr. 46. gr. þágildandi laga um útlendinga, viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 44. gr. sömu laga eða dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II.               Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd fyrir sig og son sinn hér á landi þann 3. september 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 9. september 2016 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 9. september 2016, synjaði Útlendingastofnun kæranda og syni hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 27. september 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd. Með bréfi, dags. 14. september 2016, féllst kærunefnd útlendingamála á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 31. október 2016. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 5. janúar 2016 ásamt talsmanni sínum og túlki.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.


III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Þá verði kæranda ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. j þágildandi laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 45. gr. sömu laga stæðu endursendingu til heimalands ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kæranda kom fram að ekkert í framburði móður hans benti til þess að hann gæti átt sjálfstæðan rétt á vernd. Fram kom að móður hans hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hérlendis og var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður hans, að gættum ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, útlendingalaga og barnaverndarlaga að barni kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að hann fylgi móður sinni til [...].

Kæranda og syni hennar var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. c-lið 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

 

III.              Málsástæður og rök kæranda

Kærandi, sambýlismaður hennar og sonur skiluðu sameiginlegri greinargerð í málinu. Í greinargerðinni kemur fram að truflun hafi orðið á viðtölunum sem tekin voru við kæranda og sambýlismann hennar á vegum Útlendingastofnunar sem hafi leitt til þess að þau hafi ekki haft nægilegt tækifæri til að koma á framfæri raunverulegri ástæðu flótta þeirra. Þá er þess aðallega krafist að kærunefndin taki afstöðu til þess hvort rétt sé að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar og senda mál kæranda og sonar hennar til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Ástæða flótta kæranda sé sú að [...], sem sitji í fangelsi fyrir manndráp, [...].

Kærandi hefur áhyggjur af lífi barna sinna vegna fyrrnefndrar [...] snúi hún aftur til [...]. Þá óttist hún einnig um eigið líf vegna ofbeldishneigðar [...] sem hefur haft í hótunum við hana. Í greinargerðinni segir jafnframt að mikil spilling ríki í [...] og réttarkerfið standi höllum fæti. Ekki sé unnt að ganga út frá því að yfirvöld geti veitt þegnum sínum fullnægjandi vernd í ljósi þess að tilraunir stjórnvalda til að uppræta spillingarvandann hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Kærandi bendir á að [...] sé lítið land og því geti hún ásamt fjölskyldu sinni hvergi lifað frjáls. Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun kom einnig fram að ástæða flótta kæranda frá heimalandi sínu séu bágar efnahagslegar aðstæður.

Telji kærunefndin ekki ástæðu til þess að Útlendingastofnun fjalli um málið að nýju er þess krafist í greinargerð kæranda að henni og syni hennar verði veitt vernd á Íslandi, sem flóttamaður, sbr. 1. mgr. 46. gr. þágildandi laga um útlendinga, viðbótarvernd skv. 2. mgr. sömu greinar, eða dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða á grundvelli 12. gr. f. sömu laga vegna almennra erfiðra aðstæðna í heimaríki.


V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hún framvísað [...] vegabréfi fyrir sig og son sinn. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og sonur hennar séu [...] ríkisborgarar.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæða foreldra með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Kærandi er hér á landi ásamt ungum syni sínum. Þó svo að sambýlismaður kæranda sé einnig með í för teljast kærandi og barn hennar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu enda bendir ekkert til þess að sambýlismaður kæranda hafi [...]. Tekur meðferð málsins mið af því.  

Réttarstaða barns kæranda

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Ákvæðið sækir einkum fyrirmynd til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, sjá einkum 3. gr. samningsins. Í 22. gr. samningsins er jafnframt fjallað sérstaklega um ábyrgð ríkja á að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð gagnvart börnum sem leita eftir réttarstöðu sem flóttamaður, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki.

Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. laganna segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Þá er í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sérstaklega áréttað að ákvarðanir sem varða barn skuli teknar með það sem því er fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varðar og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds skal huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Þegar umsókn um alþjóðlega vernd sem varðar hagsmuni barns er tekin til efnismeðferðar leiðir af 5. mgr. 37. gr. að Útlendingastofnun skal við ákvörðun í slíku máli taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða.

Svo sem fram er komið kom sonur kæranda með henni og sambýlismanni hennar hingað til lands. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd móður sinnar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

 

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að [...] stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að [...] hafi miðað áfram í málefnum er snerta réttarkerfið, frelsi og öryggi. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Endurnýjun hafi átt sér stað í lögregluliði landsins og sjálfstæði dómstóla og eftirlit með starfsemi þeirra aukið. Sérstaklega má benda á að [...] stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna vegna [...], t.d. hafi verið gerðar ýmsar stefnubreytingar í þessum málum og sérstök ákvæði verið sett í refsilöggjöf landsins [...]. [...].

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi ber fyrir sig að hafa flúið frá [...] vegna þess að hún óttist um [...]. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun bar kærandi einnig fyrir sig efnahagslegar aðstæður í heimaríki.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geta ofsóknir m.a. falist í:

a.   andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi,

b. löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla sem fela í sér mismunun að efni eða vegna þess hvernig þær eru framkvæmdar,

c.   saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli,

d. synjun um notkun réttarúrræða sem leiðir til óhóflegrar og mismunandi refsingar,

e.   saksókn eða refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu í átökum þar sem þátttaka í slíkri herþjónustu mundi fela í sér glæpi eða athafnir skv. b-lið 2. mgr. 40. gr.

Í 3. mgr. 38. gr. eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar en þar segir:

a.   kynþáttur vísar einkum til hópa sem deila húðlit eða öðrum sameiginlegum líffræðilegum einkennum og þjóðfélagshópa af tilteknum uppruna og ber að túlka í víðri merkingu,

b. trúarbrögð vísa einkum til trúarskoðana og annarra lífsskoðana, þ.m.t. guðleysis, og tjáningar þeirra, þátttöku í hvers konar trúarsamkomum, opinberum eða ekki, eða ákvörðunar um að taka ekki þátt í þeim, aðgerða sem byggjast á trúarskoðunum og frelsis til að skipta um trú,

c.   þjóðerni tekur ekki aðeins til ríkisborgararéttar eða ríkisfangsleysis heldur geta fallið þar undir þeir sem tilheyra tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem talar sama tungumál eða hefur sameiginlega menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegan uppruna, landfræðilega eða pólitískt, eða hópi sem er skilgreindur út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis,

d. þjóðfélagshópur vísar einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hefur áþekkan uppruna, bakgrunn, venjur og félagslega stöðu eða hefur sameiginleg einkenni eða lífsskoðanir, svo sem kyngervi, sem eru svo mikilvæg fyrir sjálfsmynd þess að ekki ætti að gera kröfu til að þeim verði breytt, eða hóps fólks sem er álitinn frábrugðinn öðrum í samfélaginu; þá skulu fyrrverandi fórnarlömb mansals teljast meðlimir tiltekins þjóðfélagshóps,

e.   stjórnmálaskoðanir vísa einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í hans umhverfi eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talin hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Geneva 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussels 2013).

[...]

 

Kærandi byggir einnig á því að hún eigi ekki kost á að leita til lögreglu með vandamál sín þar sem [...] komi í veg fyrir að lögreglan vilji aðstoða hana. Í þeim gögnum sem kærunefndin hefur yfirfarið kemur m.a. fram að stjórnvöld í [...] vinni að því að bæta réttarkerfi landsins og frelsi og öryggi almennings. Þrátt fyrir að réttarkerfið í[...] sé haldið ákveðnum veikleikum hafa átt sér stað umbætur á liðnum árum og er það mat kærunefndar að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita ásjár stjórnvalda. Heimildir styðja því ekki við þá staðhæfingu kæranda að [...] stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda fullnægjandi vernd, óski hún eftir henni. Jafnframt kom fram í viðtali við kæranda hjá kærunefndinni að hún óttist ekki um [...].

Þá hefur kærandi ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu [...] yfirvalda eða annarra aðila í [...] sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Telur kærunefndin að öllu framangreindu virtu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. 

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimalands síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barns hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og barn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og barn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaland kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda og barns hennar. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barns hennar þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37 gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Þá kemur fram í sömu málsgrein að ákvæði þessu megi aðeins beita ef útlendingur er staddur hér á landi og að skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr.

Þrátt fyrir að ákvæðið, samkvæmt hljóðan þess, heimili ekki veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016 og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Þá telur kærunefnd, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærandi hefur auk [...] greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum sínum þar sem efnahagsástand í heimaríki hennar sé óstöðugt. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Kærunefnd telur auk þess, með vísan til þess sem komið hefur fram að framan og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum barnsins, að fjölskyldan geti fengið aðstoð stjórnvalda vegna þeirrar hættu sem að kærandi kveður sig og son sinn vera í og að að það sé barninu fyrir bestu að fylgja móður sinni til heimalands þeirra. Hefur kærunefnd við þetta mat m.a. litið til þeirra aðstæðna sem kærandi hefur lýst að [...].

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og barn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og teljist því ekki flóttamenn. Þegar gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barns hennar í heimalandi, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun, teknu tilliti til hagsmuna barnsins, að aðstæður þeirra í heimalandi séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Málsmeðferð Útlendingastofnun

Í greinargerð kæranda kemur fram krafa um að umsókn kæranda verði tekin til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun þar sem eiginleg rannsókn hafi ekki átt sér stað við vinnslu málsins. Kærandi vísar til þess að henni hafi ekki gefist nægilegur kostur á að gera grein fyrir ástæðum flótta síns frá heimalandi sínu og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings vegna truflunar sem stafaði af viðveru sonar kæranda inn í viðtalsherberginu og fyrr utan herbergið á meðan viðtöl við kæranda fóru fram. Viðtölin hafi verið tekin í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar að Bæjarhrauni í Hafnarfirði og hafi engar ráðstafanir verið gerðar af hálfu stofnunarinnar vegna barnsins.

Kærunefndin hefur hlustað á upptökur af tveimur viðtölum við kæranda dags. 8. og 9. september 2016. Í fyrra viðtali Útlendingastofnunar var barnið ekki á staðnum en í síðara viðtalinu, þar sem kærandi er spurð efnislega út í umsókn sína um alþjóðlega vernd, kemur barnið ítrekað inn í viðtalsherbergið með þeim afleiðingum að truflun verður á viðtalinu.

Þegar viðtal við umsækjanda fór fram var í gildi ákvæði 50. gr. c þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Í 3. málsl. 1. mgr. ákvæðisins var kveðið á um að sá sem tæki viðtal skyldi sjá til þess að upplýst yrði um þær aðstæður umsækjenda sem hefðu þýðingu fyrir umsókn hans eins og kostur væri. Það er mat kærunefndar að þær aðstæður, sem samkvæmt hljóðupptöku voru fyrir hendi í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun hafi ekki verið til þess fallnar að sjá til þess að í viðtalinu yrði upplýst um þær aðstæður umsækjenda sem hefðu þýðingu fyrir umsókn hans. Þá telur kærunefnd að aðstæður í viðtalinu hafi ekki verið fyllilega í samræmi við 28. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, þar sem segir m.a. í 2. mgr. að í slíku viðtali skuli Útlendingastofnun gæta að því hvort taka þurfi sérstakt tillit til umsækjanda vegna persónulegra aðstæðna hans.

Eins og að framan greinir kom kærandi í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála vegna umsóknar sinnar. Eins og sérstaklega háttar til í þessu máli er það afstaða kærunefndar að bætt hafi verið úr þeim annmarka sem var á málsmeðferð Útlendingastofnunar á kærustigi málsins og að annmarkinn hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðanna þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og sonar hennar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og sonar hennar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her son are affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                                      Pétur Dam Leifsson