Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

23.5.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 294/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030063

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. mars 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Noregs.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. janúar 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Noregi. Þann 6. janúar 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Noregi, sbr. 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 11. janúar 2017 barst svar frá norskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 3. mars 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Noregs. Kærandi kærði ákvörðunina þann 31. mars 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 18. apríl 2017.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Noregs. Lagt var til grundvallar að Noregur virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Noregs ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga þar sem hann sé fylgdarlaust ungmenni [...]. Það var hins vegar mat stofnunarinnar að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda að sérstakar ástæður væru ekki til staðar í málinu, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og íslenskum lögum er málið varði væri það niðurstaða Útlendingastofnunar að hagsmunum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að senda hann til Noregs. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Noregs, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun bar hann fyrir sig að samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni sé óheimilt að endursenda hann til Noregs þar sem endursendingin stríði gegn hagsmunum hans. Þá byggði kærandi á því að Útlendingastofnun geti ekki byggt rökstuðning sinn á dómi Evrópudómstólsins frá 6. júní 2013, í máli nr. C-648/11. Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að í áðurnefndum dómi hafi komið fram að ekki sé unnt að leggja þá skyldu á aðildarríki að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar sem áður hafi verið synjað í öðru aðildarríki. Um sé að ræða túlkun dómsstólsins á 25. gr. tilskipunar nr. 2005/85/ESB, sem nú er 33. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013, en þar sé vísað til Dyflinnarreglugerðarinnar. Að mati Útlendingastofnunar hafi framangreind sjónarmið þýðingu við túlkun á Dyflinnarreglugerðinni og skilyrðum þess að synja umsókn um efnismeðferð. Jafnframt beri að horfa til þess að fyrir liggur samþykki norskra stjórnvalda á ábyrgð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd.

Þá byggði kærandi á að meta þyrfti hvað barni væri fyrir bestu og að fram hafi komið að kærandi sé sjálfur mótfallinn því að vera endursendur til Noregs. Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kom fram að í viðtali við kæranda hafi komið fram að hann hafi engin tengsl við Ísland. Fjölskylda kæranda sé í [...] en hann kvaðst eiga [...]. Varðandi aðstæður kæranda í Noregi hafi komið fram að hann hafi búið á tveimur stöðum, ásamt öðrum börnum, og gengið í skóla hluta af þeim fimm mánuðum sem hann dvaldi í landinu. Kærandi hafi haft það ágætt í Noregi og eignast vini þar í landi. Þá hafi kærandi haft aðgang að heilbrigðiskerfinu og einnig farið til [...].

Útlendingastofnun tók fram að þá komi til skoðunar hvað sé kæranda fyrir bestu. Fram kom að kærandi hafi fengið lokaniðurstöðu á stjórnsýslustigi í Noregi en í viðtali við kæranda hafi komið fram að hann hafi ekki fengið þá niðurstöðu sem hann óskaði eftir þar í landi og þess vegna hafi hann farið einn síns liðs fyrst til Svíþjóðar og svo til Íslands. Útlendingastofnun tók fram að megintilgangur Dyflinnarreglugerðarinnar sé að tryggja að umsókn um alþjóðlega vernd hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og komi þar með í veg fyrir að umsækjandi fari frá einu aðildarríki til annars í leit að niðurstöðu sem henti viðkomandi. Reglugerðin lyti að því að ákveða hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um umsókn um alþjóðlega vernd og í þessu tilfelli hafi Noregur gengist við ábyrgð á umfjöllun á umsókn kæranda. Þá sé það mat Útlendingastofnunar að það geti verið verulega íþyngjandi fyrir kæranda að ganga í gegnum það ferli að nýju sem fylgi umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Við mat á hagsmunum barns beri meðal annars að hafa til hliðsjónar velferð þess, félagslegan þroska og tækifæri til að sameinast fjölskyldu sinni. Ekki verði séð að dvöl kæranda hér á landi þar sem hann hafi engin tengsl og tali ekki tungumálið stuðli að hagsmunum hans. Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að komi til flutnings kæranda þá fái Noregur tækifæri til að tryggja að hann verði vistaður í viðeigandi úrræðum sem taki mið af þörfum hans. Það væri því mat Útlendingastofnunar að það samræmist hagsmunum kæranda að fara aftur til Noregs.

Útlendingastofnun tók einnig til skoðunar hvort um sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væri að ræða í máli kæranda og komið hafi fram við meðferð málsins að litið hafi verið til þess hvort hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem gæti haft áhrif á niðurstöðu máls hans, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé fylgdarlaust barn og [...]. Hafi þá komið til skoðunar hvort unnt sé að endursenda kæranda til Noregs sem er fylgdarlaust ungmenni og þar af leiðandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar Útlendingastofnun í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A.S. gegn Sviss (nr. 39350/13) frá 30. júní 2015 en þar hafi niðurstaðan verið sú að það yrði ekki brot á 3. eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að flytja aftur sýrlenskan umsækjanda um alþjóðlega vernd til Ítalíu sem hafi þjáðst af alvarlegri áfallastreituröskun sem auk þess átti fjölskyldu í Sviss. Útlendingastofnun telji að með hliðsjón af þessum dómi Mannréttindadómstólsins sé ljóst að unnt sé að endursenda umsækjendur um alþjóðlega vernd, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þrátt fyrir að þeir séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá vísaði Útlendingastofnun í úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 56/2017 en í málinu var það mat nefndarinnar að þrátt fyrir að umsækjandi um alþjóðlega vernd sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu þýði það ekki að sjálfkrafa séu sérstakar ástæður fyrir fyrir hendi sem komi í veg fyrir að umsækjandi verði endursendur til annarra ríkja. Annað og meira þurfi að koma til svo að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verði beitt. Kærandi vísaði máli sínu til stuðnings til fjögurra úrskurða en í öllum málunum hafi verið ákveðið að taka mál til efnismeðferðar vegna þess að sérstakar ástæður væru uppi í hverju máli. Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að allir þessi úrskurðir varði fullorðna einstaklinga sem hafi fengið lokaniðurstöðu í mál sitt og því horfi móttökuskilyrði við endursendingu öðruvísi við heldur en í máli kæranda. Einstaklingsbundnar ástæður hafi verið fyrir hendi sem hafi ráðið niðurstöðunni og geti tæplega haft fordæmisgildi í þessu tiltekna máli.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali við hann hjá Barnahúsi þann 24. janúar 2017 hafi hann greint frá því að hann hafi [...]. Hann hafi búið á eigin vegum í [...] ásamt bróður sínum og þremur öðrum drengjum. Ástæður flótta kæranda frá [...] hafi verið vegna [...]. Kærandi hafi enga aðstoð fengið frá yfirvöldum í [...]. Kærandi hafi farið til Noregs og sótt þar um alþjóðlega vernd en eftir fimm mánaða dvöl þar í landi hafi hann fengið synjun í málinu. Kærandi hafi þá farið til Svíþjóðar í nokkrar vikur [...]. Þaðan hafi kærandi komið hingað til lands í janúar sl. og verið komið fyrir í fóstri hjá fjölskyldu þar sem hann hafi unað hag sínum mjög vel og hafi hann hafið nám í skóla skömmu síðar þar sem hann hafi aðlagast vel og eignast félaga. Kærandi hafi lýst því yfir að hann vilji vera hér á landi.

Kærandi greinir frá því að hann hafi komið hingað til lands [...] án fylgdar foreldris eða forráðamanns. Kærandi teljist því vera fylgdarlaust barn, sbr. 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, en fylgdarlaus börn teljist til einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. sömu laga. Þá hafi kærandi einnig orðið fyrir [...] en einstaklingar sem [...] teljist einnig vera einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi aðeins dvalið í fimm mánuði í Noregi og á þremur mismunandi stöðum, hafi ekki myndað sterk tengsl þar í landi og hafi aðeins gengið í skóla hluta af þeim tíma sem hann dvaldi þar í landi.

Kærandi tekur fram að það sé augljóst í ljósi allra aðstæðna að það samræmist hagsmunum hans best að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar í 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, en í þessum ákvæðum sé kveðið á um að ávallt skuli hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi þegar ráðstafanir séu gerðar er varði börn. Þá bendir kærandi á að í 1. mgr. 22. gr. barnasáttmálans komi fram að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda eða mannúðarmála sem ríki þau sem um ræði eigi aðild að. Kærandi bendir á 3. mgr. 20. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 95/2011 sem kveði á um að við matið á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra barna og hafa skuli það sem barninu sé fyrir bestu að leiðarljósi, sbr. 5. mgr. sömu greinar.

Kærandi bendir á að við mat á því hvað sé barninu fyrir bestu vænti hann þess að kærunefnd fylgi leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um slíkt mat. Í leiðbeiningunum komi fram að viðtal við barnið sjálft, þar sem fram komi hugsanir, tilfinningar og skoðanir þess, sé lykilgagn við mat á því hvaða afleiðingar tiltekin aðgerð eða niðurstaða hafi á velferð barnsins. Kærandi vísi í 3. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þegar lagt sé mat á það sem sé barninu fyrir bestu skuli aðildarríkin einkum taka tilhlýðilegt tillit til velferðar og félagsþroska hins ólögráða barns, öryggissjónarmiða og álits þess, með hliðsjón af aldri þess, þroska og uppruna. Samkvæmt ákvæðinu skuli sjónarmið barnsins sjálfs leggja grundvöllinn að hagsmunamatinu, ásamt öðrum þáttum. Kærandi vísar í skýrslu Caritas, France Terre d‘Asil og Nidos, frá janúar 2015, sem unnin var í samvinnu við Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þar komi fram að leiða megi nokkra meginpunkta af dómi Evrópudómstólsins í máli C-648/11 frá 6. júní 2013 þar sem hagsmunir barns vegi þyngst í ákvarðanatökunni og að það sé aldrei barni fyrir bestu að verða neytt til að flytjast til ábyrgs aðildarríkis. Telji kærandi að með hliðsjón af framangreindu verði að líta svo á að sú afstaða kæranda að vilja ekki verða endursendur til Noregs vegi þyngst við mat á því hvað sé honum fyrir bestu. Þá hafi hann enga tryggingu fyrir því að fá að dvelja í landinu á meðan endurupptökubeiðni hans hljóti afgreiðslu. Þá séu fylgdarlaus börn á flótta sérstaklega berskjölduð gagnvart hvers konar misneytingu og ofbeldi.

Kærandi vísar einnig í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá febrúar 2015 um tillögu á breytingu á 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í umsögninni komi fram það mat stofnunarinnar að flutningur fylgdarlausra barna á milli aðildarríkja hafi alls ekki gefið góða raun hingað til. Ekki sé alltaf tryggt að börnum sé séð fyrir gistingu í kjölfar flutnings, sem leiði til þess að börn verði heimilislaus og lendi á vergangi. Þá hafi skortur á gagnkvæmri viðurkenningu aldursgreininga leitt til þess að börn séu vistuð við óásættanlegar aðstæður og jafnvel sett í varðhald. Jafnframt hafi tafir á skipun tilsjónarmanns leitt til þess að aðgangur barns að umsóknarferlinu hafi ekki verið nægilega greiður. Flóttamannastofnun telji að með því að túlka 8. gr. reglugerðarinnar þannig að það aðildarríki þar sem barnið sé statt skuli að meginreglu bera ábyrgð á vinnslu umsóknarinnar muni leiða til færri endursendinga og það muni minnka líkurnar á vandamálum og mistökum þar sem slík endursending geti aðeins orðið þegar hagsmunir barnsins kalli sérstaklega á hana. Þá sé það afstaða stofnunarinnar að sú tilhögun að taka mið af stöðu málsmeðferðar á umsókn barns í öðru ríki geti gengið gegn hagsmunum barnsins. Staða umsóknar barns í einu ríki ætti ekki að hafa áhrif á niðurstöðu um ábyrgð samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni komi til þess að barnið sæki um alþjóðlega vernd í öðru aðildarríki. Dyflinnarreglugerðin geri ráð fyrir því að endursending á grundvelli 8. gr. megi ekki fara fram gangi þær gegn hagsmunum barna. Það er mat kæranda að endursending hans gangi gegn hagsmunum hans.

Í greinargerð kæranda kemur fram að nýlega hafi orðið breytingar á stefnu Noregs í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem muni geta leitt til þess að stefna landsins verði ein sú strangasta í Evrópu. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International gert fjölmargar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar Noregs á löggjöf í þessum málaflokki. Einnig hafi norsk yfirvöld m.a. tekið upp tímabundið eftirlit á landamærum landsins til að stemma stigu við gríðarlegum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá hafi norsk yfirvöld tekið upp á því að dreifa upplýsingum á helstu samfélagsmiðlum í því skyni að letja fólk frá því að leita alþjóðlegrar verndar í Noregi. Þá hafi í ágúst 2016 nokkrir tugir barna umsækjenda um alþjóðlega vernd verið sett í varðhald ásamt fullorðnum ættingjum sínum í lokuðu vistunarúrræði fyrir útlendinga, Trandum, meðan þau hafi beðið eftir flutningi til heimaríkis. Ráðherra innflytjendamála hafi lýst því yfir opinberlega að sú ákvörðun að hneppa börn í varðhald sé byggð á faglegum og löglegum forsendum. Í ljósi þessa telji kærandi það afar hæpið að halda því blákalt fram, líkt og sé gert í hinni kærðu ákvörðun, að málsmeðferð stjórnvalda sé í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Noregur og aðrar Evrópusambandsþjóðir hafi gengist undir að framfylgja við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.

Þá er vísað til c-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og lögskýringargagna að baki þeim. Vísað er til þess að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði á um heimild til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu og að 2. mgr. ákvæðisins geri kröfu um að mat fari fram í hverju tilviki fyrir sig varðandi hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn verði tekin til efnismeðferðar. Þá er vísað til þess að ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga geri ekki kröfu um  kerfisbundinn galla á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd eða aðbúnaði umsækjenda í móttökuríki til þess að taka megi mál til efnismeðferðar hér á landi þrátt fyrir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar, né heldur geri ákvæðið kröfu um að endursending feli í sér brot á 42. gr. sömu laga eða samsvarandi alþjóðlegum reglum. Í þessu samhengi bendir kærandi máli sínu til stuðnings á fjóra úrskurði, einn frá Innanríkisráðuneytinu og þrjá frá kærunefnd útlendingamála, sem séu sambærilegir máli hans þar sem umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi verið teknar til efnislegrar meðferðar hér á landi jafnvel þótt Ísland hafi ekki borið ábyrgð á slíkri meðferð samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.

Kærandi byggir varakröfu sína á því að niðurstöður Útlendingastofnunar hafi ekki verið studdar nægum gögnum. Stofnunin vísi til fárra heimilda sem séu orðnar úreltar. Verði að gera þá kröfu, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn, að Útlendingastofnun vísi til heimilda máli sínu til stuðnings. Skortur á heimildum geti ekki talist nægur grundvöllur fyrir jafn íþyngjandi ákvörðun og raun ber vitni í máli kæranda. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Í reglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.

Þá telur kærandi að túlkun Útlendingastofnunar á dómi Evrópudómstólsins frá 6. júní 2013, í máli nr. C-648/11, sé byggð á misskilningi. Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu við túlkun dómsins að ekki sé unnt að leggja þá skyldu á aðildarríki að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar sem hafi verið áður synjað í öðru aðildarríki. Kærandi bendir hins vegar á að túlka skuli dóminn á þá leið að þegar sú staða sé uppi sem lýst sé í 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar geti það ríki sem barnið sé statt aðeins synjað að taka umsókn barnsins um efnismeðferð þegar það gangi beinlínis gegn hagsmunum barnsins.

Þá hafi Útlendingastofnun ekki framkvæmt einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda. Hvergi í ákvörðuninni sé að finna heilsteypt mat á því hvað sé hinu fylgdarlausa barni fyrir bestu. Kærandi bendi á að ekki verði séð að neitt mat hafi farið fram á félagslega þroska hans og því erfitt að greina með hvaða hætti Útlendingastofnun telji sig hafa haft félagslegan þroska hans til hliðsjónar við mat á því hvað sé honum fyrir bestu. Kærandi telji að draga megi þá ályktun að ekki hafi farið fram raunverulegt mat á því hvað sé honum fyrir bestu heldur hafi verið látið nægja að skírskota til almennra sjónarmiða sem beri að hafa í huga við umrætt mat án þess að þær aðstæður eigi við í málinu.

Kærandi telur ástæðu til að ítreka að málið snúist um að endursenda hann, [...], sem hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt vegna [...]. Í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar komi m.a. fram að komi til flutnings kæranda fái Noregur tækifæri til að tryggja að hann verði vistaður í viðeigandi úrræði sem taki mið af hans þörfum. Kærandi bendi á að Noregur hafi synjað honum um dvalarleyfi og því fengið næg tækifæri til að aðstoða hann. Að auki sé að finna í norsku útlendingalögunum heimild til að hneppa fylgdarlaus börn í varðhald í þeim tilvikum þegar yfirvöld meti hættu á að viðkomandi láti sig hverfa þrátt fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi lagst gegn varðhaldsvist barna og ungmenna.

Þá gerir kærandi athugasemd við viðbrögð Útlendingastofnunar við fjórum úrskurðum sem hann vísi til í greinargerð sinni til stofnunarinnar máli sínu til stuðnings. Útlendingastofnun hafi tekið fram að í öllum málunum hafi verið um fullorðna einstaklinga að ræða þegar þeir hafi fengið lokaniðurstöðu í mál sitt og því hafi móttökuskilyrði fyrir endursendingu horfið öðruvísi við en í máli kæranda. Sérstakar og einstaklingsbundnar ástæður hafi verið fyrir hendi í hverju máli fyrir sig sem hafi leitt til þess að málin voru tekin til efnismeðferðar og úrskurðirnir geti því tæplega haft fordæmisgildi í máli kæranda. Kærandi telji í ljósi þessara ummæla að Útlendingastofnun líti svo á að gera skuli strangari kröfur við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi þegar um er að ræða fylgdarlaus ungmenni en þegar um sé að ræða einstaklinga sem hafi náð 18 ára aldri þegar endursending er fyrirhuguð. Sú afstaða sé í algjörri andstæðu við hefðbundin sjónarmið í málum þar sem fjallað er um hagsmuni barna og ungmenna. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun skuli vísa í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 30. júní 2015 í máli A.S. gegn Sviss (nr. 39350/13) og úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 56/2017 til stuðnings því að unnt sé að senda kæranda til Noregs. Kærandi telji málavexti í þeim málum engan vegin sambærilega stöðu kæranda í máli þessu.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að norsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Noregs er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Varði mál fylgdarlaust barn eða annan einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu skal reynt að tryggja að starfsmaður með viðeigandi sérþekkingu og reynslu vinni að málinu.

Í tengslum við mál kæranda hefur kærunefnd kynnt sér eftirfarandi skýrslur um málefni barna á flótta:

·         Protecting the best interests of the child in Dublin Procedures - UNHCR's comments on the European Commission's Proposal for a Regulation of the European Parliament and of the Council amending Regulation (EU) No 604/2013 as regards determining the Member State responsible for examining the application for international protection of unaccompanied minors with no family member, sibling or relative legally present in a Member State (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, febrúar 2015);

·         Dublin for Guardians: Manual and Project Report (Nidos í samstarfi við Caritas International and France Terre d’Asile, janúar 2015);

·         General comment No. 14 (2013) on the right of the child to have his or her best interests taken as a primary consideration (art. 3, para. 1) (Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, 29. maí 2013);

·         Guidelines on Policies and Procedures in dealing with Unaccompanied Children seeking Asylum (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, febrúar 1997);

·         Position on Refugee Children (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 1996);

·         Guidelines on International Protection No. 8 (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, 22. september 2009);

·         Children‘s rights in return policy and practice in Europe (Unicef, janúar 2015);

·         Exchange of information and best practices on first reception, protection and treatment of unaccompanied minors (IOM, september 2008) og

·         UNHCR Guidelines on Determing the Best Interests of the Child (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, maí 2008).

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Noregi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

·         Norway 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017);

·         Freedom in the World 2016 – Norway (Freedom House, 12. ágúst 2016);

·         Amnesty Interantional Report 2016-2017 – Norway (Amnesty International, 22. febrúar 2017);

·         Information for asylum seekers in Norway (Norwegian Organisation for Asylum Seekers, 2011);

·         Information Note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (European Council on Refugees and Exiles, október 2015);

·         The Organisation of Reception Facilities for Asylum Seekers in Norway (Utlendingsdirektoratet, 2014);

·         The Case of Norway: The use of detention and alternatives to detention in the context of immigration policies (Utlendingsdirektoratet, 2014);

·         UNHCR Observations on the proposed legislative amendments to Chapter 12 of the Norwegian Immigration Act on the use of coercive measures, including administrative detention of families with children, arrest, directed residence/residence restrictions and regular reporting to the authorities- public hearing/public consultation [Høringsbrev om endringer i utlendingslovens regler om tvangsmidler] (Flóttamannastofnun, febrúar 2017);

·         Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees: For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: NORWAY (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, september 2013);

·         UNHCR Observations on the proposed amendments to the Norwegian Immigration Act and Regulation: Høring – Endringer i utlendingslovgivningen (Innstramninger II) (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, 12. febrúar 2016);

·         UNHCR proposals to address current and future arrivals of asylum-seekers, refugees and migrants by sea to Europe (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, mars 2015);

·         Guidelines on international protection: "Internal Flight or Relocation Alternative" within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (23. júlí 2003) og

·         Upplýsingar af vefsíðum landinfo (www.landinfo.no), norsku útlendingastofnunarinnar (www.udi.no), norsku kærunefndar útlendingamála (www.une.no), norskra dómstóla (www.domstol.no), norskra stjórnvalda (www.regjeringen.no), norska heilbrigðisráðuneytisins (www.legemiddelverket.no), um heilbrigðiskerfið í Noregi (www.helsenorge.no), norskra hjálparsamtaka fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd (www.noas.no og www.seif.no) og norskra laganema (www.jussbuss.no, www.jusshjelpa.no og www.jussformidlingen.no).

Af framangreindum skýrslum og gögnum má ráða að fylgdarlausum börnum sem sækja um alþjóðlega vernd í Noregi er skipaður tilsjónarmaður (n. representant) þegar umsókn er lögð fram hjá lögreglu. Tilsjónarmaðurinn gætir hagsmuna barnsins líkt og um forsjáraðila væri að ræða, þá gætir hann einnig fjárhags- og lagalegra réttinda þess í Noregi. Eftir að fylgdarlaust barn hefur lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá lögreglunni getur umsækjandi þurft að fara á fund hjá móttökuteymi norsku útlendingastofnunarinnar vegna framlagðrar umsóknar svo unnt sé að leggja mat á þarfir og aðstæður fylgdarlausa barnsins. Á meðan umsóknarferlinu stendur á fylgdarlaust barn rétt á viðtali og aðstoð lögfræðings á öllum stigum málsmeðferðarinnar sem kemur fram fyrir hönd barnsins og gætir réttinda þess. Norska útlendingastofnunin sér fylgdarlausum börnum fyrir búsetuúrræði að teknu tilliti til aldurs þeirra. Börn á aldrinum 15-18 ára dvelja í móttökumiðstöð aðeins fyrir fylgdarlaus börn ætluðum ofangreindum aldri. Þá er fylgdarlausum börnum undir 15 ára aldri komið í hendur barnaverndaryfirvalda sem gæta hagsmuna þeirra umsækjenda varðandi búsetuúrræði.

Vegna athugasemda í greinargerð varðandi hugsanlega beitingu varðhalds við endursendingu kæranda til Noregs, þar sem hann hafi áður látið sig hverfa, þá kemur fram í ofangreindum gögnum að ákvörðun um beitingu varðhalds á umsækjendur um alþjóðlega vernd í Noregi er tekin af yfirmönnum lögreglunnar. Þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem settir eru í varðhald við komu til Noregs eiga rétt á lögfræðiaðstoð án endurgjalds og eiga jafnframt rétt á því að skjóta ákvörðun um varðhaldsvist til dómstóla sem skoðar m.a. hvort önnur vægari úrræði séu nægileg til að ná fram sama markmiði og felst í varðhaldi. Þá eru fylgdarlaus börn aðskilin frá fullorðnum í varðhaldsvistinni og lögfræðingur barnsins má heimsækja það daglega.

Útlendingastofnun Noregs (n. Utlendingsdirektoratet) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd þar í landi. Neikvæða ákvörðun útlendingastofnunar er þá hægt að kæra til sérstakrar kærunefndar útlendingamála (n. Utlendingsnemnda). Þá má ráða af framangreindum skýrslum og gögnum að á meðan umsókn um alþjóðlega vernd er til meðferðar hjá norskum stjórnvöldum geta umsækjendur lagt fram gögn í málinu sem styðja við umsóknina. Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd í Noregi synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða kærunefnd á hann möguleika á því að bera málið undir dómstóla eða leggja fram beiðni um endurupptöku á máli sínu hjá kærunefndinni. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða ef verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði endurupptöku verið uppfyllt. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd borið mál sitt undir norska dómstóla sé endurupptökubeiðni þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd, þ.m.t. fylgdarlausra barna, í Noregi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Noregs brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Noregi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Noregs á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Krafa kæranda um að ábyrgð á meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hvíli á íslenskum stjórnvöldum er annars vegar gerð með vísan til 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og hins vegar með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að það samræmist ekki með nokkru móti hagsmunum hans að vera endursendur til Noregs.

Í ákvæði 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er kveðið á um að ef engir aðstandendur, systkini eða skyldmenni, eins og um geti í 1. og 2. mgr. sömu greinar, eru fyrir hendi skuli aðildarríkið, þar sem fylgdarlaust, ólögráða barn lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd, bera ábyrgð á umsókninni, að því tilskildu að slíkt samræmist hagsmunum barnsins. Samkvæmt ákvæðinu, sbr. dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-648/11, er meginreglan sú að það ríki sem barnið er statt í beri ábyrgð á umsókn fylgdarlausa barnsins um alþjóðlega vernd. Ef hins vegar fyrir liggur að það samrýmist ekki hagsmunum barnsins að taka umsókn þess um alþjóðlega vernd til skoðunar í því ríki þar sem það er statt þá skuli endursenda barnið til þess ríkis sem hefur samþykkt ábyrgð á umsókn þess samkvæmt öðrum ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í samræmi við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með samningi um hina svonefndu Dyflinnarreglugerð telur kærunefnd útlendingamála rétt að túlka ákvæði 36. gr. laga um útlendinga til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar. Þegar fyrir liggur endurviðtökusamþykki vegna fylgdarlauss barns á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, skuli mat á því hvort aðstæður barnsins teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga taka sérstakt mið af því hvort endursending til viðtökuríkis samrýmist hagsmunum barnsins. Í samræmi við hina almennu reglu sem leiða má af 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skal ganga út frá því að taka beri umsókn fylgdarlauss barns til efnismeðferðar hér á landi nema flutningur til ríkis, sem samþykkt hefur viðtöku barnsins, sé í betra samræmi við hagsmuni þess, öryggi, velferð, félagslegan þroska og möguleika barns á því að sameinast fjölskyldu sinni, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er [...] ára fylgdarlaust ólögráða barn og liggur því fyrir að hann er einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Hann hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Noregi. Kærandi kvaðst í viðtali í Barnahúsi þann 23. janúar 2017 vera [...]. Þá kvaðst kærandi óttast það að verða sendur til baka til [...] þar sem hann sé hræddur við [...]. Kærunefnd telur að framangreind gögn sýni fram á að heilsa kæranda sé góð og því ekkert sem bendi því til þess að flutningur til Noregs komi til með að hafa í för með sér verulegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar kæranda. Þá komi fram í fyrrgreindum skýrslum og gögnum að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Noregi er tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu í norskum lögum, þ. á m. [...]. Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun á máli sínu í Noregi en dvelja enn þar í landi eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu gegn greiðslu en ef umsækjandi getur ekki greitt fyrir slíka þjónustu er hún greidd af sveitarfélaginu eða opinberum aðilum. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í Noregi.

Fyrir liggur að kærandi hefur dvalið í Noregi í fimm mánuði þar sem hann hafi m.a. gengið í skóla, lært norsku, búið með jafnöldrum sínum og eignast vini þar í landi. Í viðtali við kæranda í Barnahúsi var hann spurður út í aðstæður sínar í Noregi. Þar kemur fram að hann hafi ekki haft neinn sem hann gat leitað til í Noregi en að hann hafi eignast þar vini. Hann óttaðist helst ríkið sjálft í Noregi en að enginn hefði verið vondur við hann þar. Þótt kærandi hafi ekki verið spurður með beinum hætti út í afstöðu sína til endursendingar í viðtali í Barnahúsi liggur fyrir greinargerð frá kæranda þar sem fram kemur að hann sé mótfallinn því að verða sendur aftur til Noregs, m.a. vegna þess að slík endursending stríði gegn hagsmunum hans og hann verði að öllum líkindum sendur til [...] skömmu eftir komuna til Noregs.

Kærandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð norskra stjórnvalda á umsókn hans um alþjóðlega vernd. Þá hafi ekkert komið fram í gögnum kæranda um að hann hafi ekki fengið túlk, viðtal eða réttláta málsmeðferð þar í landi. Þá hafi kærandi greint frá því að ástæða þess að hann hafi farið til Íslands frá Noregi hafi verið sú að hann hafi ekki fengið þá niðurstöðu sem hann sóttist eftir þar í landi. Kærunefnd hefur skoðað þær aðstæður sem bíða kæranda við endursendingu til Noregs en samkvæmt ofangreindum gögnum mun kærandi eiga rétt á tilsjónarmanni, vera vistaður í viðeigandi búsetuúrræði og því allar líkur sem bendi til þess að hann muni geta þroskast eðlilega í Noregi. Þá bendir kærunefnd á að þau sjónarmið sem Flóttamannastofnun hefur lagt til grundvallar varðandi fylgdarlaus börn varðandi hraða málsmeðferð þegar um börn sé að ræða eigi einnig við um endursendingu kæranda en fyrir liggur að kærandi hefur dvalist hér á landi í um fimm mánuði en hafði að sögn áður dvalist í Noregi í um fimm mánuði. Kærunefnd tekur undir það mat Útlendingastofnunar að ný efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd geti verið verulega íþyngjandi fyrir kæranda þar sem ný efnismeðferð hér á landi muni lengja verulega bið kæranda eftir lokaniðurstöðu í máli hans. Þá telur kærunefnd að líta verði til þess að kærandi er heill heilsu og hefur myndað ákveðin tengsl við Noreg. Það er mat nefndarinnar að ofangreind sjónarmið vegi þungt á móti ungs aldurs kæranda, skoðunum hans og vilja. Leggja verði til grundvallar að flutningur kæranda til Noregs sé í betra samræmi við hagsmuni hans, öryggi hans, velferð og félagslegan þroska.

Í ljósi aðstæðna í Noregi og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, meðal annars sérstaklega viðkvæmrar stöðu kæranda sem fylgdarlaust barn, er það því mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að sérstakar ástæður mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Byggir sú niðurstaða kærunefndar á heildarmati á aðstæðum kæranda. Hins vegar beinir kærunefndin því til Útlendingastofnunar að tryggja að fyrir endursendingu kæranda verði norsk stjórnvöld upplýst um aldur kæranda í samræmi við 31. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Barnahúsi þann 23. janúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 4. janúar 2017.

Vegna athugasemdar kæranda um að niðurstöður Útlendingastofnunar hafi ekki verið studdar nægum gögnum og að stofnunin vísi til fárra heimilda sem séu orðnar úreltar tekur kærunefnd fram að rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Kærunefnd gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki stuðst við nýjustu tiltæku gögn um aðstæður í Noregi. Kærunefnd telur að stofnuninni beri að byggja á nýjustu tiltæku gögnum hverju sinni auk þess sem sérstaklega beri að huga að vandaðri málsmeðferð þegar um fylgdarlaus börn er að ræða. Þá áréttar kærunefnd að það sem barninu er fyrir bestu er meginsjónarmið við mat á umsóknum fylgdarlausra barna um vernd. Rannsókn mála sem varðar fylgdarlaus börn skal miða að því að upplýsa með fullnægjandi hætti hvaða skoðun barnið hefur á málinu svo unnt sé að taka tillit til þess í samræmi við aldur og þroska barnsins. Eins og að framan greinir kom kærandi til viðtals í Barnahúsi en þar var hann m.a. spurður nokkurra spurninga um aðstæður sínar í Noregi. Aftur á móti fæst ekki séð að spurningar stjórnvalda hafi með nægilega markvissum hætti tekið mið af því markmiði rannsóknarinnar að upplýsa um skoðun kæranda á málinu, þ.m.t. beina afstöðu hans til endursendingar til Noregs. Þótt slíkri afstöðu sé að einhverju leyti lýst í greinargerð frá kæranda er það afstaða kærunefndar að betur hefði farið á því að meiri áhersla hefði verið lögð á að fá fram afstöðu kæranda til endursendingar til Noregs í viðtali við hann í Barnahúsi.

Hins vegar í ljósi þeirrar niðurstöðu sem kærunefnd hefur komist að varðandi aðstæður kæranda í Noregi og afstöðu hans til endursendingar er það mat kærunefndar að framangreindir ágallar leiði ekki til þess að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar er þetta varðar. Þá hefur kærunefnd jafnframt litið til íþyngjandi afleiðingar endurtekinnar málsmeðferðar fyrir kæranda. Varakröfu kæranda er því hafnað.

Vegna vísunar Útlendingastofnunar til ákvæða tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 32/2013 tekur kærunefnd sérstaklega fram að Ísland hefur ekki með þjóðréttarlegum samningi skuldbundið sig til að fylgja þeirri tilskipun og verður hún ekki notuð við túlkun ákvæða 36. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd tekur aftur á móti undir tilvísun Útlendingastofnunar til þess að fjórir úrskurður kærunefndar, sem vísað er til í rökstuðningi í ákvörðun kæranda, hafi allir varðað einstaklingsbundnar ástæður hvers og eins umsækjanda sem hafi ráðið niðurstöðunni og hafi því takmarkað fordæmisgildi í máli kæranda. Hins vegar gerir kærunefnd athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar varðandi þá niðurstöðu stofnunarinnar að þar sem um fullorðna einstaklinga, sem hafi fengið lokaniðurstöðu í mál sitt, hafi verið að ræða horfi móttökuskilyrði við endursendingu öðruvísi við heldur en í máli kæranda. Kærunefnd tekur undir með kæranda að í ljósi þessara ummæla líti Útlendingastofnun svo á að gera skuli strangari kröfur við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi þegar um er að ræða fylgdarlaus ungmenni en þegar um sé að ræða fullorðna einstaklinga þegar endursending er fyrirhuguð. Sú afstaða sé í andstöðu við hefðbundin sjónarmið um hagsmuni barna og ungmenna.

Í máli þessu hafa norsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Noregs með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir