Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

28.3.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 175/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030019

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.            Málsatvik

Þann 4. október 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. ágúst 2016 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá [...], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Ungverjalandi og synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga. Þann 6. mars 2017 bárust kærunefnd gögn frá lögmanni kæranda er varða heilsufar kæranda. Að mati kærunefndar verður litið á framlagningu gagnanna sem beiðni um endurupptöku málsins, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um 2. tölulið:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Með beiðni kæranda um endurupptöku málsins fylgdu gögn er varða andlega og líkamlega heilsu hans eftir að kærunefnd kvað upp úrskurð sinn þann 4. október 2016. Kærunefnd telur, þegar litið er til eðlis gagnanna og málsins í heild, að fallast beri á að ný gögn hafi komið fram og að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og á þann hátt að tilefni sé til þess að skoða mál hans aftur.

Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III. Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd

Úrlausnarefni málsins er að skera úr um hvort þær nýju upplýsingar sem borist hafa kærunefnd kalli á endurskoðun úrskurðar nefndarinnar og breytingu hans á þá leið að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá [...]. Í málinu liggur fyrir að kæranda var veitt viðbótarvernd í Ungverjalandi þann 21. janúar 2015. Að öðru leyti er vísað í fyrri úrskurð kærunefndar í máli kæranda, nr. 335/2016, frá 4. október 2016.

Í 1. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður að hafa hliðsjón af 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður á Ítalíu brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Ungverjalandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:  

·        Hungary as a Country of Asylum: Observations on the situation of asylum-seekers and refugees in Hungary (UNHCR, 24. apríl 2012),

·        Hungary as a Country of Asylum: Observations on restrictive legal measures and subsequent practice implemented between July 2015 and March 2016 (UNHCR, maí 2016),

·        2016 Country Reports on Human Rights Practices – Hungary (United States Department of State, 3. mars 2017),

·        Country Report: Hungary, 2016 Update (Asylum Information Database (AIDA), febrúar 2017),

·        Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his Visit to Hungary from 1 to 4 July 2014 (Council of Europe, 16. desember 2014),

·        Description of the Hungarian Asylum System (European Asylum Support Office, 18. maí 2015)

og

·        ECRI Report on Hungary (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015).

Af framangreindum skýrslum ráðið að ungversk yfirvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í skýrslu AIDA kemur m.a. fram að árið 2016 hafi stjórnvöld ákveðið að fella úr gildi úrræði er ætluð voru til að styðja við aðlögun einstaklinga með alþjóðlega vernd að ungversku samfélagi, svo sem vegna húsnæðis, menntunar og uppihalds. Þá kemur fram að starfsmenn frjálsra félagasamtaka hafi greint frá miklum erfiðleikum einstaklinga með alþjóðlega vernd við að aðlagast ungversku samfélagi eftir flutning úr móttökumiðstöðvum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi í erfiðleikum með að finna sér húsnæði og eigi á hættu að verða heimilislausir. Þá eigi einstaklingar með alþjóðlega vernd erfitt með að fá vinnu og nýta sér heilbrigðisþjónustu í Ungverjalandi vegna tungumálaörðugleika. Í fyrrnefndri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um Ungverjaland segir að veigamestu mannréttindabrotin í landinu árið 2016 hafi verið aðgerðir stjórnvalda í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd, en stjórnvöld hafi t.a.m. beitt mikilli hörku gegn umsækjendum um alþjóðlega vernd á landamærum við Serbíu. Þá hafa stjórnvöld lýst yfir andúð á umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttamönnum á opinberum vettvangi og hafi forsætisráðherra landsins m.a. sagt flóttamenn ógn við öryggi landsins. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hins vegar ekki lagst gegn endursendingu þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til Ungverjalands.

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga telst einstaklingur í viðkvæmri stöðu ef hann, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hefur sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða getur ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, eða alvarlega veikir einstaklingar. Í gögnum sem lágu fyrir kærunefnd þegar kveðinn var upp úrskurður í máli kæranda 4. október 2016 kemur m.a. fram að hann búi við [...]. Gögn sem kærandi lagði fram þann 6. mars sl. bera með sér að kærandi hefur ítrekað leitað aðstoðar sérfræðinga frá í september 2016 vegna bágrar heilsu, [...]. Þá er greint frá viðtölum kæranda við [...], en að hennar mati sé kærandi með [...]. Að mati kærunefndar og í ljósi hins [...] sem kærandi glímir við telur kærunefnd kæranda í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Eins og áður hefur komið fram skal umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laga um útlendinga tekin til efnismeðferðar nema aðstæður í a-c-lið 1. mgr. 36. gr. laganna eigi við, svo sem ef umsækjandi hefur hlotið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki. Í máli kæranda liggur fyrir að honum var veitt viðbótarvernd í Ungverjalandi ársbyrjun 2015 sem verður samkvæmt upplýsingum kærunefndar endurskoðuð að liðnum þremur árum frá veitingu hennar. Í skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur m.a. fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi eigi í verulegum erfiðleikum með að nálgast heilbrigðisþjónustu í landinu vegna tungumálaörðugleika, svo sem skorts á túlkum og takmarkaðrar enskukunnáttu lækna, og vankanta í stjórnsýslu. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að kærandi talar [...] og litla sem enga ensku. [...] á hann við [...] sem krefjast þess að hann hafi öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Í ljósi alls framangreinds það mat kærunefndar að í málinu séu fyrir hendi sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að fyrir liggi að ungversk stjórnvöld hafi þegar veitt kæranda alþjóðlega vernd er það mat kærunefndar, eins og hér háttar sérstaklega til, að rétt sé að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á viðkvæmri stöðu kæranda, aðstæðum hans og fyrirliggjandi gögnum um stöðu einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að endurskoða beri fyrri úrskurð kærunefndar í máli kæranda. Kveðinn er upp nýr úrskurður á þá leið að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir