Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

29.10.2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 29. október 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 152/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15010082

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 3. desember 2014, kærði [...], f.h. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2014, að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að veita kæranda leyfi til dvalar hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fékk kærandi afgreidda vegabréfsáritun til Íslands 15. október 2010. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna námsdvalar þann 28. apríl 2014 en með bréfi, dags. 16. september 2014, óskaði kærandi eftir því að umsókn hennar yrði breytt í umsókn vegna sérstakra tengsla við landið. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2014.

Með bréfi, dags. 3. desember 2014, var ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til innanríkisráðuneytisins. Greinargerð kæranda barst samhliða kæru. Kæranda var gefin kostur á að skila frekari greinargerð með bréfi, dags. 9. febrúar 2015, en frekari greinargerð barst ekki.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002 sé undantekningarákvæði sem heimilt sé en ekki skylt að beita og beri að túlka þröngt. Aðeins væri heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins þegar tengsl umsækjanda við landið væru mjög sterk. Stofnunin taldi að kærandi hefði mun sterkari tengsl við heimaríki hvað dvalartíma varðaði. Stofnunin lítur til þess að nánasta fjölskylda kæranda, þ.e. barn hennar, sé búsett í [...]. Jafnframt byggir stofnunin á því að kærandi hafi búið í heimaríki sínu um árabil, fjarri systkinum sínum, sem séu búsett hér á landi. Það var mat stofnunarinnar að ekki væri brotið gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 né 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, með því að synja kæranda um dvalarleyfi. Þá hafi kærandi ekki haft dvalarleyfi á Íslandi á síðustu 10 árum. Útlendingastofnun leit því svo á að kærandi hafi ekki myndað sérstök tengsl við landið. Þá taldi stofnunin að skammvinn dvöl hér á landi, þ.e. undir tveimur árum, hefði ekki vægi við mat á sérstökum tengslum. Umsókn kæranda um dvalarleyfi var því synjað.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi dvalið hér á landi þrisvar sinnum, í tvo mánuði í senn, sem ferðamaður. Kærandi eigi sex systkini hér á landi sem hafi öll íslenskan ríkisborgararétt. Kærandi byggir á því að hún sé ein eftir af nánustu fjölskyldu á [...] og sakni mjög systkina sinna hér á landi. Foreldrar þeirra séu látnir. Kærandi sé [...] og eigi eitt barn sem sé búsett í [...] með föður þess. Það sé hennar heitasta ósk að búa hér á landi og getað umgengist systkini sín, systkinabörn, mága og mágkonu. Kærandi hafi ekki kost á menntun í heimalandi. Kærandi [...] frá systur sinni búsettri hér á landi, en hún annist húsnæði systur sinnar í [...]. Þá hafi hún mikinn áhuga á að læra íslensku og komast í nám hér á landi og hyggist gera það. Kærandi byggir á því að horfa beri til 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi telur rök Útlendingastofnunar fyrir synjuninni léttvæg.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Kærandi heldur því fram að ákvörðun Útlendingastofnunar feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum mannréttindum hennar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en þar er kveðið á um rétt manna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Sá réttur er jafnframt tryggður í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Skylda ríkisins til að virða, vernda og tryggja réttinn til einkalífs, heimilis og fjölskyldu skv. 8. gr. mannréttindasáttmálans, metin í þessu ljósi, felur ekki í sér almenna skyldu til að virða val einstaklinga á dvalarríki. Þá felur 8. gr. sáttmálans almennt ekki í sér skyldu ríkis til að samþykkja umsókn einstaklings um leyfi til dvalar eða búsetu á yfirráðasvæði sínu (sjá t.d. Abdulaziz, Cabales og Balkandali gegn Bretlandi, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, 28. maí 1985). Kærunefnd fær ekki séð að tilgangur 71. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið sá að útvíkka gildissvið friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu umfram inntak 8. gr. mannréttindasáttmálans. Verður samkvæmt ofangreindu ekki talið að höfnun á dvalarleyfi kæranda brjóti á rétti kæranda eða ættingja hennar til friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu samkvæmt 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt 12. gr. f laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt almennum skilyrðum fyrir dvalaleyfi sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið. Í ákvæðinu eru ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu svo sérstök að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hve lengi einstaklingur hefur dvalist löglega á landinu, eða hvort hann eigi hér nákomna ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. eldri útlendingalaga, sem nú er að finna efnislega óbreytt í 12. gr. f útlendingalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008. Þá er einnig horft til annarra tengsla við landið svo sem vegna atvinnu, félagslegrar eða menningarlegrar þátttöku.

Í almennum athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008, er áréttað að um undanþáguheimild sé ræða sem meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort ástæða sé til að beita. Því ber að túlka ákvæðið þröngt. Kærandi hefur aðeins komið hingað til lands sem ferðamaður þrisvar sinnum, skemur en þrjá mánuði í hvert skipti. Kærandi ber því við að hún eigi ættingja hér á landi, þ.e. sex systkini. Kærandi hefur ekki önnur tengsl við landið. Almennt er talið að tengsl á milli fullorðinna systkina geti ekki verið grunnur að því að veita hverjum þeim sem á systkini hér á landi dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Verður þvert á móti að ganga út frá því að hefði sá verið vilji löggjafans hefðu systkinatengsl verið felld undir skilgreiningu á nánustu aðstandendum skv. 2. mgr. 13. gr. laganna. Ljóst er því að eitthvað meira verður að koma til. Við mat á sérstökum tengslum gæti t.d. átt við tilvik þar sem annað systkini væri háð hinu, t.d. vegna líkamlegs eða andlegs ástands eða aðstæður væru á einhvern hátt þannig að með tilliti til mannúðarsjónarmiða væri nauðsynlegt að sameina systkini.

Að öllu framangreindu virtu og vegna þess að ekkert annað er fram komið sem bendir til þess að kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland eða að aðstæður hans í heimalandi séu með einhverjum þeim hætti að fallið geti undir ákvæðið er það mat kærunefndar að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

 

 Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

  

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                      Pétur Dam Leifsson