Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 36/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 Þann 9. apríl 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 36/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010020


 Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru, dags. 8. júlí 2013, kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2013, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

 Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. nr. 96/2002. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að máli hans verði vísað að nýju til Útlendingastofnunar. Til þrautavara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f. laga nr. 96/2002. Að lokum er gerð krafa um málskostnað, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 96/2002.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests skv. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Í gögnum málsins kemur meðal annars fram að kærandi hafi verið stöðvaður þann 13. janúar 2012 í flugstöð Leifs Eiríkssonar við komuna til landsins frá Kaupmannahöfn og hafi óskað eftir hæli hér á landi. Þann 28. júní 2013 synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli hér á landi ásamt því að synja honum dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f. laga nr. 96/2002. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann 8. júlí 2013 og óskaði eftir frestun réttaráhrifa. Þann 15. ágúst 2013 barst innanríkisráðuneytinu greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Þann 25. október 2013 barst ráðuneytinu tilkynning frá kæranda um að hann ætti í ástarsambandi við […]. Þann 24. júní 2014 barst ráðuneytinu tilkynning kæranda um að […].

 Þann 5. nóvember 2012 barst innanríkisráðuneytinu kæra á málshraða Útlendingastofnunar.

 Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa sbr. 3. gr. a. laga nr. 96/2002 með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002 með síðari breytingum. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

 Þann 25. mars 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og greindi nefndinni frá máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b. útlendingalaga. Kvaðst kærandi hafa […] í heimalandi sínu, […], og hafa verið ofsóttur af föður sínum vegna þess. Í kjölfarið hafi hann flúið til Evrópu og dvalið bæði á Ítalíu og Spáni áður en hann kom til Íslands. Eftir að kærandi hafi komið til landsins hafi hann […].

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að í hælisskýrslu kæranda hjá lögreglu kemur fram að hann hafi komið ólöglega til Spánar með báti árið 2004 og dvalið þar ólöglega til loka ársins 2010, þá hafi hann búið á Ítalíu í um eitt ár en síðan snúið aftur til Spánar. Þar hafi kærandi dvalið til 12. janúar 2012 en hafi þá flogið frá Barcelona til Kaupmannahafnar og að lokum til Íslands.

 Þá var tekið fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að framburður kæranda hafi verið að mestu samhljóða hjá lögreglu, í viðtali hjá Útlendingastofnun og í greinargerð frá talsmanni kæranda.

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að skýrslur varðandi […] beri það með sér að […] borgaranna sé almennt virt. Stjórnarskrá og almenn lög kveði á um vernd […]. Árin 2011 og 2012 hafi ekki verið tilkynnt um nein brot af hálfu stjórnvalda gegn þessum réttindum. Þá sé einnig gert ráð fyrir […]. Útlendingastofnun tók fram að þó spenna sé milli […] í landinu þá sé […] samfélag sem almennt sé þekkt fyrir umburðarlyndi […]. Uppgangur öfgafullra múslima í nágrannaríkjunum […] hafa valdið ótta við að sömu hópar dragi úr stöðugleika í landinu. Að lokum tók Útlendingastofnun fram að ekki yrði séð að í […] sæti fólk ofsóknum eða mismunun vegna […]. Þvert á móti virði stjórnvöld í meginatriðum […] borgaranna og almenn sátt ríki meðal þeirra þrátt fyrir […].

 Útlendingastofnun dregur ekki í efa að kærandi hafi […] en telur að frásögn hans um ofsóknir af hendi fjölskyldu hans vegna þessa fái enga stoð í gögnum málsins eða landaupplýsingum öðrum en frásögn kæranda sjálfs. Því sé það mat stofnunarinnar að sá hluti frásagnar hans sé ótrúverðugur og órökstuddur og því sé ekki byggt á þeim hluta við úrlausn málsins.

 Í þeim skýrslum sem Útlendingastofnun hafi farið yfir kom ekkert fram sem gaf tilefni til að ætla að kærandi væri í hættu þar í landi vegna ofsókna þrátt fyrir að einhver spenna sé fyrir hendi […] í landinu. Upplýsingar og skýrslur um gott ástand mannréttinda og […] grafi undan trúverðugleika frásagnar kæranda og einnig að engin gögn hafi fundist sem sýni fram á áhrif fjölskyldu kæranda eða […]. Þá finnast engar upplýsingar um ofríki […] af því tagi sem kærandi greindi frá. Því taldi stofnunin allt benda til þess að kærandi eigi raunhæfan möguleika á að leita aðstoðar yfirvalda í […] telji hann sig þurfa þess, og að yfirvöld séu viljug og fær um að liðsinna honum.

 Að lokum komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að ekki væri um það að ræða að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur vegna […] verði hann sendur til […]. Þá taldi stofnunin heldur ekki vera til staðar raunhæfa ástæðu til þess að ætla að kærandi myndi eiga á hættu að sæta dauðarefsingu eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu yrði hann sendur aftur til […].

 Var það því mat Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda hafi ekki verið með þeim hætti sem greinir í 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og að umsókn hans um hæli sé bersýnilega tilhæfulaus.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var því sú að synja bæri kæranda um hæli hér á landi.

 Þá þótti Útlendingastofnun ekki sýnt fram á að almennt ástand í […] væri þess eðlis, eða raunhæf ástæða væri til að ætla að aðstæður kæranda væru það alvarlegar að honum yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f. útlendingalaga. Þá tók stofnunin einnig fram að fallast mætti á það að kærandi hafi myndað nokkur tengsl við landið, eignast hér vini, verið virkur í atvinnuleit og aflað sér meðmæla. Yrði þó ekki talið að kærandi hafi svo sérstök tengsl við landið að veita beri honum dvalarleyfi með vísan til 12. gr. f. útlendingalaga.

 Útlendingastofnun ákvað að lokum að kæranda skuli vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga og að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Í greinargerð kæranda greinir að kærandi sé fæddur þann […] inn í stóra og mikilsvirta […] fjölskyldu. Kærandi kveður föður sinn vera valdamikinn […].

 Kærandi tekur fram að í […].

 Kærandi kveðst hafa […]. Kærandi hafi ekki haft efni á því að fara að heiman en þó nýtt fyrsta tækifæri til þess. Þegar faðir kæranda hafi komist að því að hann hafi […]. Faðir kæranda hafi komið ásamt fleiri mönnum á heimili kæranda eitt sinn en kærandi hafi ekki verið heima. Kærandi telur að þá hafi staðið til að ráða hann af dögum.

 Í kjölfarið  hafi kærandi flutt til höfuðborgarinnar, […], og skipt um nafn. Fljótlega hafi kæranda hins vegar verið ljóst að vegna stöðu föður síns væri honum hvergi vært í […]. Af sömu ástæðu hafi kæranda ekki verið kleift að sækja sér vernd til lögreglunnar þar sem að það sé mikil spilling innan lögreglunnar í […]. Þá hafi kærandi komist um borð í skip til Spánar. Kærandi kveðst hafa dvalið ólöglega á Spáni og Ítalíu frá því í lok árs 2005. Kærandi hafi hins vegar ávallt þurft að hafa varann á sér og ítrekað verið spurður hvort að hann væri kominn af fjölskyldu kæranda sem […] þekki vel til. Kærandi kveðst hafa verið orðinn verulega hræddur um líf sitt og því hafi hann valið að reyna að komast til Íslands til að sækja um hæli.

 Kærandi tekur fram að […] að jafna megi við tvöfalda ríkisskipan í ríkinu. […] hafi það mikil ítök í ríkinu að hann geti ekki leitað sér verndar lögreglunnar þar í landi. Þá vill kærandi benda á að þrátt fyrir að umburðarlyndi virðist ríkja í landinu þá sé það aðeins á yfirborðinu. Hið rétta sé að afar mikil spenna ríki á milli fólks sem […]. Þá vísar kærandi einnig í myndband á vefsíðunni www.youtube.com en þar má sjá tvo menn sem kærandi segir hafa verið vini sína sem hafi verið barðir til dauða fyrir […].

 Þá tekur kærandi fram að staða hans sé alvarlegri en […], en kærandi óttast ofsóknir af hendi föður síns og að […] stjórnvöld geti ekki veitt honum vernd á grundvelli þess. Þá mótmælir kærandi því einnig að Útlendingastofnun hafi talið frásögn hans varðandi ofsóknir í […] ótrúverðuga og telur umfjöllun stofnunarinnar frekar styðja frásögn kæranda. Kærandi gerir einnig athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að umsókn hans um hæli sé bersýnilega tilhæfulaus. Kærandi telur ekkert fram komið sem geti dregið úr trúverðugleika hans, hann hafi verið samkvæmur sjálfum sér og rannsókn Útlendingastofnunar hafi ekki sýnt fram á að neitt í máli kæranda sé rangt.

 Þá mótmælir kærandi einnig þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi hafi ekki myndað nægilega sérstök tengsl við landið.

 Að lokum telur kærandi Útlendingastofnun einnig hafa brotið gegn 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 VI.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 1. Lagarök

 Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum og alþjóðasamningur um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967. Jafnframt ber að líta til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.


 2. Niðurstaða

 Svo sem fram hefur komið krefst kærandi þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að máli hans verði vísað að nýju til Útlendingastofnunar. Til þrautavara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f. laga nr. 96/2002. Að lokum er gerð krafa um málskostnað, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 96/2002.

Auðkenni

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann verið með […] vegabréf með sínu nafni meðferðis. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

 Landaupplýsingar

 […] er lýðveldi með um […] milljónir íbúa og […]. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna […] og aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu […]. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins […]er rétturinn til frjálsrar farar innan […] tryggður í landslögum og virtu stjórnvöld almennt þann rétt.

 […]

 […]

 a. Aðalkrafa kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

 Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

 Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir flóttamannasamninginn eða 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér landi á grundvelli þess að hann sé ofsóttur af föður sínum og […] sem hann tilheyri á grundvelli þess að hann hafi […].

 Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

 Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur sýnt fram á, upp að hæfilegu marki, að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

 Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir eru sem kalla á alþjóðlega vernd og hvaða aðilar geta verið valdir að ofsóknum. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

 Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

 Í 3. mgr. 44. gr. a útlendingalaga eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

 Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru: 
   a. ríkið,
   b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
   c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

 Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að einhverjar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að hugarástand flóttamannsins skipti ekki meginmáli heldur verður yfirlýsing hans að vera studd hlutlægum ástæðum.

 […] Kærunefndin dregur ekki í efa að […] séu valdamikil í […] en hefur ekki fundið nein gögn um þá […]. Líkt og áður greinir kveður kærandi ofsóknir í hans garð hafa verið af hendi föður síns og […], en ekki af hálfu […] stjórnvalda. Samkvæmt frásögn kæranda eiga ofsóknirnar að hafa hafist vegna þess að hann hafi […]. Kærandi byggir kæru sína á því að faðir hans hafi hótað honum og komið heim til hans í eitt skipti með hóp af mönnum meðan kærandi var ekki heima. Kærandi telur að faðir sinn hafi ætlað að ráða sig af dögum. Fyrir kærunefndinni kvaðst kærandi ekki hafa leitað til lögreglu, en hann taldi hana vera spillta og ekki líklega til að geta eða vilja vernda hann gegn ofsóknum föður síns og […]. Staðhæfingar kæranda um spillingu fá nokkra stoð í gögnum sem aflað hefur verið (t.d. […]). Staðhæfingar um að stjórnvöld hafi ekki getu eða vilja til að rannsaka mál eins og það sem kærandi nefnir fær hins vegar ekki stoð í þeim gögnum sem aflað hefur verið.

 Kærunefndin hefur ekki fundið gögn sem renna nægjanlegum stoðum undir fullyrðingar kæranda um að hann hafi verið þolandi atburða sem virða má sem ofsóknir í skilningi útlendingalaga eða að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur verði hann sendur aftur til […]. Þó að túlka megi vafa um ótta kæranda um ofsóknir honum í vil þá bendir ekkert til að þeir sem kærandi kveður hafi verið valdir að meintum ofsóknum teljist til þeirra aðila sem 3. mgr. 44. gr. a útlendingalaga tekur til. Í ljósi upplýsinga um almennt ástand í […] og um […] þar í landi telur kærunefndin að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita sér ásjár stjórnvalda í […] telji hann þess þörf. Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

 Í ákvæðinu er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd, en þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða.

 Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendi til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt hæli hér á landi hafnað.

 b. Varakrafa kæranda

 Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að máli hans verði vísað að nýju til Útlendingastofnunar. Greinargerð kæranda gefur til kynna að gerð sé athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar í ljósi 10. gr. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Í ákvæðum 11. gr. stjórnsýslulaga (jafnræðisreglan) felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Kærandi útskýrir ekki í hverju hugsanlegt brot á 11. gr. sé fólgið. Skoðun kærunefndar á þessari málsástæðu gaf ekki ástæðu til gruns um brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga

 Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess, að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

 Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað öll gögn varðandi mál kæranda og telur ekki að slíkur ágalli sé á úrlausn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar af ofangreindum ástæðum. Fær nefndin ekki séð að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað mál kæranda nægilega að þessu leyti til að taka ákvörðun í málinu. Er varakröfu kæranda því hafnað.

  c. Þrautavarakrafa kæranda

 Til þrautavara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.

 Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 115/2010, greinir að fara skuli fram heildarmat á öllum þáttum málsins áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er veitt.

 Í 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga er kveðið á um að unnt sé að veita útlendingi sem dvalið hefur hér á landi í tvö ár vegna málsmeðferðar stjórnvalda, dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga ef sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Viðkomandi þarf þó að uppfylla skilyrði a-e liðar 1. mgr 12. gr. g.

 Ljóst er að kærandi hefur dvalið hér á landi frá því 13. janúar 2012, eða í rúmlega þrjú ár. Kærandi lagði fram hælisumsókn samdægurs og hefur mál hans verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum síðan. Í greinargerð kæranda er lögð sérstök áhersla á hversu vel hann hefur tengst íslensku samfélagi og komið sér fyrir hér á landi enda hafi hann dvalið hér lengi á meðan mál hans hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Einnig hefur kærandi eignast […]

 Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a-e-liðar 1. mgr. 12. gr. g laga um útlendinga. Ennfremur telur kærunefndin að engar sérstakar ástæður mæli gegn því að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 12. gr. f. Er það því niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f, sbr. 4. mgr. sömu greinar.   

 d. Málshraðakæra

 Þann 2. nóvember 2012 kærði kærandi málshraða Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins. Það er ljóst að brýnt er að flýta afgreiðslu hælismála svo sem auðið er enda getur langur málsmeðferðartími haft skaðleg áhrif á andlegt sem og líkamlegt ástand hælisleitenda. Mál kæranda hefur tekið langan tíma í meðferð íslenskra stjórnvalda en í heild er málsmeðferðartíminn rúmlega þrjú ár. Verður ekki séð að réttlætanlegar ástæður hafi verið fyrir þeirri löngu bið sem kærandi þurfti að þola og að þessi langi málsmeðferðartími því ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 e. Krafa um málskostnað

 Vegna kröfu kæranda um málskostnað skv. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 96/2002 skal tekið fram að kærunefnd hefur ekki heimild til að úrskurða um málskostnað í kærumálum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda.

 

Niðurstaða

 Með vísan til þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2013, staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli hér á landi. Hins vegar telur kærunefndin rétt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. og 4. mgr. 12. gr. f útlendingalaga.

 Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd hennar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2013, í máli […], fd. […], er staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

 The Directorate of Immigration's decision, dated 28 June 2013, in the case of […], d.o.b. […], is affirmed with regard to his application for asylum. The Directorate of Immigration shall issue the applicant a residence permit based on Article 12 f, paragraph 4, of the Act on Foreigners no. 96/2002.

   

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður                                                                                              Pétur Dam Leifsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum