Endurupptökunefnd

29.11.2016

Hinn 10. nóvember 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 6/2016:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 520/2016

Gunnar Árnason

gegn

Íslandsbanka hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

1. Með erindi dagsettu 19. september 2016 fór Íslandsbanki hf. þess á leit að hæstaréttarmál nr. 520/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 6. september 2016, yrði endurupptekið.

2. Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

3. Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumanns sem lauk með árangurslausu fjárnámi hjá gagnaðila. Gagnaðili, maki hans og þriðji maður gengust í ábyrgð fyrir skuld samkvæmt veðskuldabréfi sem tryggt hafði verið með veði í fasteign. Við vanskil bréfsins var fasteignin seld nauðungarsölu og var kaupandinn endurupptökubeiðandi sem fékk þá úthlutað að hluta upp í kröfu sína. Endurupptökubeiðandi lét fasteignasöluna Hraunhamar verðmeta fasteignina og lagði það verðmat til grundvallar uppgjöri við gagnaðila í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Krafðist endurupptökubeiðandi síðan fjárnáms hjá gagnaðila fyrir eftirstöðvum skuldarinnar sem lauk án árangurs þrátt fyrir andmæli gagnaðila og framlagningu verðmats frá fasteignasölunni Fasteignamarkaðnum þar sem verðmæti fasteignarinnar var metið mun hærra. Undir rekstri þess máls óskaði gagnaðili eftir matsgerð dómkvadds manns um markaðsvirði eignarinnar en sú matsgerð var ekki lögð fram í málinu. Endurupptökubeiðandi krafðist á ný fjárnáms hjá gagnaðila á grundvelli sama skuldabréfs, þar sem frestur samkvæmt 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi gagnaðila á grundvelli eldra fjárnáms var liðinn. Lauk aðfarargerðinni með því að sýslumaður gerði árangurslaust fjárnám hjá gagnaðila. Gagnaðili skaut þeirri ákvörðun til héraðsdóms. Málið var flutt 11. apríl 2016 en flutt að nýju 22. júní sama ár, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2016 var aðfarargerðin staðfest. Gagnaðili skaut málinu til Hæstaréttar og krafðist þess að aðfarargerðin yrði felld úr gildi. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lagði endurupptökubeiðandi fram áðurgreinda matsgerð dómskvadds matsmanns en hún hafði jafnframt verið lögð fram í hæstaréttarmálinu nr. 356/2016 sem rekið hafði verið gegn maka gagnaðila. Í dómi Hæstaréttar kom fram að endurupptökubeiðandi hefði ekki lagt matsgerðina fram í héraði áður en málið hefði verið tekið til úrskurðar, þrátt fyrir að endurupptökubeiðandi hafi fengið hana afhenta. Með framlagningu skjalsins fyrir Hæstarétti væri endurupptökubeiðandi í raun að bera fyrir sig nýja málsástæðu sem honum væri ekki heimilt á grundvelli svonefndrar útilokunarreglu. Gat matsgerðin því ekki komið til álita þegar leyst yrði úr málinu. Báðir aðilar hefðu einhliða aflað álits löggiltra fasteignasala um markaðsverð fasteignarinnar á uppboðsdegi og væri mikill munur á niðurstöðu hvors álits um sig, sem ekki hefði fengist skýring á undir rekstri málsins. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu hvíldi sú skylda á endurupptökubeiðanda að færa viðhlítandi sönnur á hvert hefði verið raunverulegt markaðsverð eignarinnar við sölu hennar. Með vísan til þessa og að teknu tilliti til þess að endurupptökubeiðandi væri fjármálafyrirtæki var ekki talið að hann hefði axlað þá sönnunarbyrði. Þegar af þeirri ástæðu var aðfarargerðin felld úr gildi.

III. Grundvöllur beiðni

4. Endurupptökubeiðandi telur skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins.

5. Endurupptökubeiðandi rekur forsögu málsins en fyrir dómstólum hafa verið rekin fjögur mál á hendur gagnaðila og eiginkonu hans. Öll þessi mál byggi á sömu málsástæðum og málsatvik þau sömu að öllu leyti. Í héraðsdómi hafði gengið úrskurður í máli nr. Y-4/2014 á milli endurupptökubeiðanda og gagnaðila sem hafi varðað sama veðskuldabréf en árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá gagnaðila á grundvelli bréfsins. Í úrskurði héraðsdóms hafi kröfu gagnaðila um að felld yrði úr gildi aðfarargerð hafnað. Í úrskurðinum hafi verið fjallað um það verðmat sem á reyni nú og talið að endurupptökubeiðandi hefði fullnægt 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá hafi verið kveðinn upp dómur hinn 14. júní 2016 í hæstaréttarmáli nr. 356/2016 á milli endurupptökubeiðanda og eiginkonu gagnaðila varðandi gildi aðfarargerðar en árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá eiginkonu gagnaðila á grundvelli sama veðskuldabréfs. Í dómi Hæstaréttar var aðfarargerðin staðfest. Í kjölfar þess dóms var kveðinn upp úrskurður héraðsdóms í máli nr. Y-5/2015 og var aðfarargerð gegn gagnaðila staðfest í samræmi við forsendur dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016. Að lokum hafi Hæstiréttur kveðið upp dóm í máli nr. 520/2016 þar sem aðfarargerð gagnvart gagnaðila hafi verið felld úr gildi. Endurupptökubeiðandi telur þann dóm rangan. Hæstiréttur vísi til þess að endurupptökubeiðandi hefði átt að leggja fram verðmat dómkvadds matsmanns við flutning málsins hinn 22. júní 2016 í héraði en ekki sem nýtt skjal í Hæstarétti.

6. Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 hafi komið fram að framlagning matsgerðar dómkvadds matsmanns fyrir Hæstarétti hafi verið of seint fram komin og að endurupptökubeiðandi hafi því í raun verið að bera fyrir sig nýja málsástæðu. Á grundvelli útilokunarreglunnar hafi matsgerðin ekki komið til álita þegar leyst hafi verið úr málinu. Í umræddu máli hafi gagnaöflun verið lýst lokið 25. janúar 2016. Í greinargerð endurupptökubeiðanda fyrir héraðsdómi hafi verið skorað á gagnaðila að leggja fram þessa tilteknu matsgerð þar sem hann hafi beðið um að matið yrði framkvæmt og væri því eigandi þess. Gagnaðili hafi hins vegar ekki lagt matið fram í málinu. Hafi endurupptökubeiðandi talið að gagnaðili yrði að bera hallann af því. Gagnaðili hafi ekki greitt fyrir matið þar sem hann hafi vitað hver væri niðurstaða matsins. Að mati endurupptökubeiðanda hafi því ekki verið á valdi hans að leggja fram matsgerðina við meðferð málsins.

7. Þegar málið hafi verið flutt 11. apríl 2016 hafi matsgerðin ekki verið komin í hendur endurupptökubeiðanda. Í kjölfarið hafi héraðsdómari ákveðið að kveða upp úrskurð í málinu þegar niðurstaða lægi fyrir í hæstaréttarmáli nr. 356/2016. Málflutningur hafi farið fram á ný 22. júní 2016. Því er mótmælt að endurupptökubeiðandi hafi getað lagt fram ný skjöl á þeim tímapunkti. Endurupptökubeiðandi hafi fengið matsgerð dómkvadds matsmanns 28. apríl 2016 eða rúmlega tveimur vikum eftir að aðalflutningur máls fyrir héraði hafi farið fram. Það hafi því ekki verið möguleiki fyrir endurupptökubeiðanda að leggja matið fram við aðalmeðferð málsins.

8. Hæstiréttur líti svo á að flutningur málsins hafi farið fyrst fram 22. júní 2016 en ekki verið flutt að nýju. Í málsgögnum gagnaðila til Hæstaréttar hafi vantað endurrit þriggja þinghalda og því hafi Hæstiréttur ekki getað gert sér grein fyrir því að um hafi verið að ræða endurflutning hinn 22. júní 2016. Málið hafi verið endurflutt eingöngu vegna ákvörðunar dómara og höfðu aðilar máls ekkert um það að segja. Það hafi verið búið að flytja málið og leggja öll þau gögn fram í málinu sem gátu komist að.

9. Þá hafi ekki verið fjallað um þetta atriði í kæru gagnaðila til Hæstaréttar og hafi hann ekki byggt sérstaklega á því að gögnin hefðu átt að vera lögð fram við endurflutning málsins og hafi þess vegna verið of seint fram komin. Endurupptökubeiðandi hafi ekki getað mótmælt því eða bent á að gögn hafi vantað. Endurupptökubeiðandi telur að ef málsástæðan hefði legið fyrir í kæru gagnaðila hefði hann haft tilefni til að kanna og benda á það í greinargerð sinni að endurrit þriggja þinghalda hafi vantað þar sem fram komi með skýrum hætti að um endurflutning málsins. Hins vegar hafi ekki verið tilefni til þess að fjalla um það atriði. Það hafi verið alfarið á ábyrgð gagnaðila að gera málsgögn og leggja öll gögnin fyrir Hæstarétt sem hafi varðað málið. Ágripið hafi ekki verið borið undir endurupptökubeiðanda áður en þau hafi verið send Hæstarétti og samráðsskyldan hafi ekki verið viðhöfð, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 601/2014 um málsgögn í einkamálum.

10. Með vísan til þess að tilteknum endurritum hafi verið sleppt í málsgögnum án samþykkis endurupptökubeiðanda hafi þannig málsatvik ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar og verði endurupptökubeiðanda ekki um það kennt, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. 

11. Þá er um að ræða stórfellda hagsmuni endurupptökubeiðanda en fyrir héraðsdómi sé rekið gjaldþrotaskiptamál á hendur gagnaðila. Grundvöllur þeirrar beiðni sé sú aðfarargerð sem á hafi reynt í dómi Hæstaréttar nr. 520/2016. Ef málið verði ekki endurupptekið muni það leiða til þess að málið verði fellt niður er varði gjaldþrotaskipti á búi gagnaðila. Þá hafa þessi málaferli tekið óhemju langan tíma en um verulega fjármuni sé að ræða. Um stórfellda hagsmuni bankans sé því að ræða, sbr. c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

12. Loks bendir endurupptökubeiðandi á að í dómi Hæstaréttar hafi ekkert verið fjallað um 116. gr. laga um meðferð einkamála eða þá aðalmálstæðu sem byggt sé á í málinu og sem héraðsdómur byggi sinn rökstuðning á í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 356/2016. 

IV. Viðhorf gagnaðila

13. Gagnaðili gerir þá kröfu að endurupptökubeiðni verði hafnað á grundvelli þess að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt. Þá mótmælir gagnaðili málavaxtalýsingu endurupptökubeiðanda sem rangri og órökstuddri.

14. Gagnaðili telur skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki vera uppfyllt. Gagnaöflun í máli nr. Y-5/2015 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi verið lýst lokið á dómþingi þann 25. janúar 2016. Munnlegur málflutningur hafi farið fram 11. apríl sama ár, en málið hafi verið síðan endurflutt þann 22. júní 2016. Í tölvupósti dómara, dagsettum 20. júní 2016, hafi verið skorað á málsaðila að fjalla um niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 356/2016. Endurupptökubeiðandi hafi ekki fjallað um matsgerð dómkvadds matsmanns og ekki lagt fram nein gögn þegar málið hafi verið endurflutt. Í umræddu hæstaréttarmáli hafi endurupptökubeiðandi verið talinn bera fyrir sig nýja málsástæðu í formi fyrrgreindrar matsgerðar. Gagnaðili tekur fram að hann hafi aldrei fengið umrædda matsgerð afhenta og hafi þar af leiðandi ekki getað haft vitneskju um niðurstöðu hennar og eðli máls samkvæmt ekki orðið við áskorun um að leggja umrætt gagn fram í héraðsdómsmáli nr. Y-5/2015. Gagnaðili mótmælir staðhæfingum endurupptökubeiðanda hvað það varðar sem röngum og órökstuddum.

15. Endurupptökubeiðanda hafi verið í lófa lagið að leggja umrædda matsgerð fram 22. júní 2016 þegar endurflutningur málsins fór fram í héraði og fjalla þá um matsgerðina í tengslum við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 356/2016. Endurupptökubeiðandi verði að bera hallann af því að hafa ekki gert það.

16. Því næst mótmælir gagnaðili því að kærumálsgögn í máli nr. 520/2016 hafi ekki borið með sér að mál hafi verið endurflutt 22. júní 2016. Í málsgögnunum komi afdráttarlaust fram að málið hafi verið endurflutt. Þá er því mótmælt að framsetning hafi verið óskýr hvað það varðar sem hafi valdið því að Hæstiréttur hafi ekki getað gert sér grein fyrir málsatvikum. Jafnframt hafi endurupptökubeiðandi fengið umrædd gögn afhent samtímis því að þau hafi verið send Hæstarétti.

17. Gagnaðili telur skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála jafnframt ekki uppfyllt. Líkt og áður greinir hafi framsetning á kærumálsgögnum og umfjöllun í kæru í hæstaréttarmáli nr. 520/2016 verið í samræmi við kærumálsreglur og ítarlega verið fjallað um fyrrgreinda matsgerð. Umrædd gögn hafi verið send endurupptökubeiðanda og beri með sér að málið hafi verið endurflutt 22. júní 2016. Hæstiréttur hafi vísað til þess í niðurstöðu sinni að endurupptökubeiðandi hafi ekki lagt umrætt gagn fram áður en málið hafi verið tekið til úrskurðar í héraði. Það stoði því ekki fyrir endurupptökubeiðanda að halda því fram að kærumálsgögn hafi ekki borið slíkt með sér og að Hæstiréttur hafi ekki áttað sig á umræddum staðreyndum máls.

18. Að lokum telur gagnaðili skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki vera uppfyllt. Endurupptökubeiðandi vísi til kostnaðar sem hann hafi haft af málarekstri án þess að færa fram nánari skýringar eða gögn því tengt. Með niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 hafi endurupptökubeiðandi verið dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Hæstarétti. Með vísan til gríðarlegs umfangs á rekstri Íslandsbanka verði að telja ágreining vegna máls þessa vera óverulegan hluta af eignasafni, efnahag, hagnaði, rekstrarkostnaði og launakostnaði endurupptökubeiðanda. Jafnframt sé óumdeilt að ekki sé um stórfellda hagsmuni endurupptökubeiðanda að ræða. Þvert á móti sé um að ræða stórfellda hagsmuni gagnaðila.

19. Að lokum tekur gagnaðili fram að í niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 hafi ekki verið fjallað um 116. gr. laga um meðferð einkamála þar sem ákvæðið hafi ekki átt við.  

V.     Niðurstaða

20. Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

21. Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. 

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

22. Endurupptökubeiðandi telur að sterkar líkur séu á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós við meðferð málsins fyrir Hæstarétti þar sem ekki hafi verið upplýst að málið hafi verið flutt að nýju í héraði 22. júní 2016. Telur hann að á því tímamarki hafi hann ekki getað lagt fram ný skjöl. Gagnaöflun hafi verið lýst lokið í héraði 25. janúar 2016 og málið hafi verið flutt 11. apríl sama ár. Af gögnum málsins verður ráðið að kærumálsgögn hafi borið með sér að málið hafi verið flutt að nýju 22. júní 2016. Í efnisyfirliti kærumálsgagna, sem útbúin voru í samræmi við reglur dómstólsins um kærumálsgögn í einkamálum, var þess getið að málið hafi verið endurupptekið umræddan dag með vísan til 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála. Með vísan til þessa lágu umræddar upplýsingar fyrir Hæstarétti þegar leyst var úr málinu.

23. Endurupptökubeiðandi hefur samkvæmt framansögðu ekki tekist að sýna fram á að uppfyllt sé skilyrði a-liðar 167. gr. laga um meðferð einkamála, um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það. Skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er og gerist því ekki þörf á að fjalla um b- og c-liði 1. mgr. 167. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Beiðni Íslandsbanka hf. um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2016, sem kveðinn var upp 6. september 2016, er hafnað.


Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir