Endurupptökunefnd

9.1.2017

Hinn 15. desember 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 5/2016:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 658/2007

Ákæruvaldið

gegn

X

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku
Með ódagsettu erindi, mótteknu 12. september 2016, fór X þess á leit að hæstaréttarmál nr. 658/2007, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 23. apríl 2008, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Eyvindur G. Gunnarsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik
Endurupptökubeiðandi var dæmdur fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gegn sex stúlkum. Þá var hann einnig dæmdur fyrir áfengislagabrot. Málið var höfðað gegn endurupptökubeiðanda með tveimur ákærum ríkissaksóknara. Sú fyrri var í sex liðum fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum á árunum 2004 og eða 2005, en einnig áfengislagabrot árið 2006. Sú seinni var í tveimur liðum fyrir kynferðisbrot gagnvart ungu barni á árunum 1988-1994 og gegn öðru ungu barni á árinu 1993 eða 1994. Var ákærði sakfelldur fyrir verulegan hluta þeirrar háttsemi sem honum var gefin að sök. Tekið var fram að hvert brot um sig sætti sjálfstæðu mati og yrði sakfelling af einu, eða það að aðrar kærur hafi verið lagðar fram sem ekki hafi leitt til ákæru, ekki notað til sönnunar um sök af öðru. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um var að ræða mörg brot framin yfir langt tímabil gegn börnum og unglingum og sum þeirra voru mjög alvarleg. Var endurupptökubeiðandi dæmdur í fangelsi í fjögur ár og til greiðslu miskabóta. Í héraðsdómi var hann dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði og til greiðslu miskabóta.

III. Grundvöllur beiðni
Af beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 658/2007 má ráða að hann telji skilyrðum 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vera fullnægt til endurupptöku málsins þótt ekki sé vísað til laganna eða ákvæðisins. Endurupptökubeiðandi telur að hann hafi verið ranglega sakfelldur eða sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann hafi framið. Þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi vikið röksemdum héraðsdóms til hliðar hafi hann þyngt refsingu þar sem brotahrina hafi verið talin standa lengur yfir en fái staðist. Endurupptökubeiðandi telur að byggt hafi verið á röngum staðreyndum og eða upplýsingum sem hvergi hafi komið fram í skýrslum, mikils ósamræmis hafi gætt milli vitna og eða brotaþola og þá hafi sönnunargögn verið rangt metin eða ekki nægilega rannsökuð. Þá telur endurupptökubeiðandi að um óvönduð vinnubrögð hafi verið að ræða af hálfu dómara. Þá telur hann að rannsóknarlögregla hafi ekki fylgt lögbundinni hlutlægni við rannsókn málsins og að sönnunargögnum endurupptökubeiðanda í hag hafi verið haldið eftir. Þar sem að þeim gögnum hafi verið haldið eftir ættu þau að teljast sem ný gögn í endurupptökumálinu. Að lokum telur endurupptökubeiðandi að sönnunarbyrði hafi minnkað verulega í málum er varði kynferðisbrot, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 335/2004 frá 10. mars 2005. Telur hann það brot á 65. gr. Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands að hann njóti minni réttar en sakborningur í hinu eldra máli.

Sem ný gögn leggur endurupptökubeiðandi fram: yfirlýsingu tveggja ættingja varðandi tiltekinn vitnisburð í málinu, vottorð Landspítala-háskólasjúkrahúss um sjúkrahúslegu endurupptökubeiðanda í ágúst 1993, vottorð læknis, samantekt um villur í héraðsdómi, samantekt um vinnuaðferðir rannsóknaraðila, samantekt um ósamræmi í vitnisburði allra vitna í málinu, vinnuskýrslur og fleira frá júlí og ágúst 1993. Með endurupptökubeiðni fylgdi einnig málflutningsræða verjanda.

IV. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Ákvæðið er svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.

Beiðni endurupptökubeiðanda byggir meðal annars á því að fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Meðal þeirra gagna sem endurupptökubeiðandi leggur fram eru gögn og upplýsingar sem lágu fyrir við meðferð málsins fyrir héraði og Hæstarétti. Slík gögn geta ekki talist ný gögn í skilningi a-liðar 211. gr. laga um meðferð sakamála. Önnur gögn sem endurupptökubeiðandi byggir á eru ekki þannig að þau geti talist ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk.

Þá telur endurupptökubeiðandi að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Rökstuðningur endurupptökubeiðanda hvað þetta varðar er reistur á sömu sjónarmiðum og vörn hans fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Í dómi héraðsdóms er framburður stúlknanna ítarlega reifaður, sem og framburður vitna og önnur gögn. Er trúverðugleiki framburða stúlknanna metinn, og þá einnig með tilliti til framburða vitna og annarra gagna í málinu. Með hliðsjón af öllu þessu var enduruppökubeiðandi sakfelldur. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða af einum lið fyrri ákærunnar og öðrum lið hennar að hluta. Hæstiréttur staðfesti einnig sakfellingu ákærða með vísan til forsendna héraðsdóms. Við mat á sönnun sakargifta samkvæmt fyrri ákærunni var talið í Hæstarétti að ekki skipti máli sú röksemd héraðsdóms að nafngreind frænka endurupptökubeiðanda hafði lagt fram kæru á hendur honum um kynferðisbrot, sem hafi þó ekki leitt til ákæru. Við mat á sönnun síðari ákærunnar var jafnframt ekki litið til þess að endurupptökubeiðandi hafði verið sakfelldur fyrir önnur samkynja brot í málinu, svo sem gert var í héraðsdómi. Ekkert verður ráðið af gögnum málsins að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess þannig að fullnægt sé skilyrðum c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Verður endurupptaka málsins því ekki byggð á þessari forsendu.

Þá hefur ekkert komið fram í máli þessu sem sýnir að ætla megi að ákærandi eða dómari hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru. Að sama skapi verður ekki talið að vitni eða aðrir hafi vísvitandi borið ranglega fyrir dómi og það hafi valdið rangri niðurstöðu málsins. Rökstuðningur endurupptökubeiðanda hvað varðar framburð stúlknanna og vitnanna er reistur á sömu sjónarmiðum og haldið var fram af hans hálfu við meðferð málsins fyrir dómstólum og var tekinn afstaða til hans þar. Yfirlýsing tveggja ættingja endurupptökubeiðanda um meintar lygar einnar stúlkunnar gefa ekki tilefni til annarrar niðurstöðu.

Að lokum er ekki hægt að fallast á þann rökstuðning endurupptökubeiðanda að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. áskilnað d-liðar 1. mgr. 211. gr.

Samkvæmt framansögðu er ekkert skilyrða a til d liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt. Þar sem beiðni um endurupptöku þykir bersýnilega ekki á rökum reist er beiðni endurupptökubeiðanda hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Beiðni X um endurupptöku máls nr. 658/2007, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 23. apríl 2008, er hafnað.


Björn L. Bergsson formaður

Eyvindur G. Gunnarsson

Þórdís Ingadóttir