Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 15/2003. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 8. ágúst 2003

í máli nr.

15/2003:

Friðrik Gestsson og

Ingólfur Gestsson

gegn

skólanefnd og sveitarstjórnum Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps

Með ódagsettu bréfi sem barst kærunefnd útboðsmála 28.

apríl 2003, kæra Friðrik Gestsson og Ingólfur Gestsson útboð á skólaakstri við Þelamerkurskóla í Eyjafirði.

Kærendur krefjast þess að útboðið verði fellt úr gildi.

Kærðu var gefinn kostur á að tjá sig um kröfu kæranda. Með bréfi dags. 16. maí 2003 kröfðust þeir að kröfum kæranda yrði hafnað. Kærendum var í kjölfarið gefinn kostur á að tjá sig um svar kærða, en þrátt fyrir ítrekanir hefur ekkert svar borist. Málið er því tekið til úrskurðar.

I.

Vorið 2002 auglýsti skólanefnd Þelamerkurskóla útboð á skólaakstri við Þelamerkurskóla. Kom fram að útboðið væri til þriggja ára, þ.e. skólaáranna 2002-2003, 2003-2004 og 2004-2005. Tilboðum skyldi skilað inn fyrir kl. 12.00 föstudaginn 14. júní 2002. Tilboð voru opnuð 18. júní 2002. Eftir að tilboðin höfðu verið lesin upp fóru kærðu afsíðis á lokaðan fund þar sem fjallað var um tilboðin. Var þar komist að niðurstöðu að ganga til samnings við aðra aðila heldur en kærendur.

II.

Kærendur byggja kröfu sína á því að þeir hafi verið með lægstu tilboð á að minnsta kosti tveimur leiðum í hinu kærða útboði. Telja þeir augljóst að ákveðið hafi verið fyrirfram hverjir fengu skólaaksturinn og útboðið hafi aðeins verið auglýst til að fullnægja lagalegri skyldu þar að lútandi. Þegar tilboðin hafi verið opnuð 18. júní 2002 hafi öðrum kæranda verið gert að yfirgefa fundarherbergi skólanefndar en undirritaður hafi verið samningur við aðra aðila um skólaaksturinn.

Kærðu hafna sjónarmiðum kærenda. Er því vísað á bug að búið hafi verið að ákveða fyrirfram hverjir fengu skólaaksturinn. Að auki er vísað til þess að kæra skuli borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Sá frestur sé löngu liðinn.

III.

Svo sem ráða má af gögnum málsins stafar ágreiningur aðila af þeirri ákvörðun kærðu að taka ekki tilboði kærenda sem að mati kærenda voru þau lægstu í hinu kærða útboði. Óumdeilt er að 18. júní 2002 var gengið til samninga við aðra aðila um akstur við Þelamerkurskóla til og með skólaársins 2005. Samkvæmt 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur að brjóti gegn réttindum sínum. Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að þeir hafi þegar 18. júní 2002 vitað af ákvörðun kærðu um að ganga til samninga við aðra aðila um akstur við Þelamerkurskóla. Var því kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um opinber innkaup liðinn þegar kæra barst kærunefnd útboðsmála 28. apríl 2003. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna kröfum kærenda í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Kröfum Friðriks Gestssonar og Ingólfs Gestssonar, vegna útboðs skólanefndar og sveitarstjórna Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps á akstri við Þelamerkurskóla, er hafnað.

Reykjavík, 8. ágúst 2003.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

08.08.03

.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum