Hoppa yfir valmynd
25. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2010

Fimmtudaginn 25. mars 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. janúar 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. janúar 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi sendu 25. nóvember 2010, um að synja kæranda um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 2. febrúar 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. febrúar 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um lengingu á fæðingarorlofi vegna grindarloss á meðgöngu en fengið neitun vegna þess að hún hafi verið síðast skráð á atvinnuleysisbætur þar sem hún hafi misst vinnuna í júní 2009. Í kjölfarið hafi kærandi farið á atvinnuleysisskrá og hafi verið komin með vinnu frá og með 1. október 2009 en hún hafi ekki getað stundað þá vinnu vegna grindarlossins. Kærandi er ósátt við synjunina og telur að hún eigi rétt á lengingu þar sem hún hafi verið komin með vinnu og hefði getað farið að vinna vel launaða vinnu ef hún hefði ekki veikst.

Kærandi kveðst geta sýnt fram á að hún hafi verið komin með vinnu frá 1. október 2009 með vottorði frá vinnuveitanda en hún hafi sent vottorðið til Fæðingarorlofssjóðs með umsókninni. Kæranda finnst að þetta eigi að gilda þar sem hún hafi verið á leiðinni í launað starf á vinnumarkaði þegar hún hafi veikst og telur að hún eigi rétt á að fá lengingu á fæðingarorlofi um tvo mánuði vegna veikinda.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram kærandi hafi með umsókn, dags. 4. nóvember 2009, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 21. janúar 2010. Á umsókn kæranda komi fram að hún sæki um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Auk umsóknar kæranda hafi borist vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 12. nóvember 2009, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 5. nóvember 2009, greiðslusaga frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu, dags. 23. nóvember 2009, greiðslusaga sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 23. nóvember 2009, og önnur greiðslusaga móttekin 29. janúar 2010, læknisvottorð til atvinnurekanda vegna fjarvista, dags. 5. nóvember 2009, læknisvottorð vegna sjúkdóms móður, dags. 12. nóvember 2009, og bréf frá B ehf., ódagsett en móttekið 16. nóvember 2009. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að kæranda hafi verið sent bréf 25. nóvember 2009 ar sem henni hafi verið synjað um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu þar sem hún hafi ekki lagt niður launuð störf vegna veikinda þar sem hún hafi ekki verið í launuðu starfi.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar-og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) þar sem segi meðal annars að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Jafnframt að beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Í 5. mgr. komi fram að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu og í 6. mgr. komi fram að umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

Fæðingarorlofssjóður vísar einnig í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, þar sem fram kemur að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Þá komi fram í 2. mgr. að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram komi hvenær launagreiðslur féllu niður.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið 21. janúar 2010 en barn kæranda hafi fæðst Y. janúar 2010 og samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðaákvæðum hefði kærandi þurft að vera í starfi og leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag vegna heilsufarsástæðna í skilningi 9. gr. reglugerðarinnar til að geta öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu. Jafnframt hefði þurft að koma staðfesting frá vinnuveitanda hennar á því hvenær launagreiðslur féllu niður.

Fæðingarorlofssjóður greinir einnig frá því að kærandi hafi sótt um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu frá 1. október 2009 með umsókn, dags. 4. nóvember 2009, sem hafi borist 9. nóvember 2009. Á tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 5. nóvember 2009, hafi kærandi skrifað ein undir en enginn vinnuveitandi. Á læknisvottorði, dags. 12. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi verið skoðuð þann 5. nóvember 2009 en hún hafi hætt störfum vegna sjúkdóms í þungun þann 1. október 2009 eða rúmum mánuði áður en hún var skoðuð af lækni.

Á ódagsettu bréfi frá B ehf., mótteknu 16. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi ekki getað hafið störf hjá fyrirtækinu frá og með 1. október 2009, eins og ætlað var vegna grindarloss á meðgöngu. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra og greiðslusögu frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu, dags. 23. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi verið á atvinnuleysisbótum frá 10. júlí til 30. september 2009 og því verði hvorki séð að kærandi hafi verið í launuðu starfi né látið af launuðum störfum 1. október 2009 þegar hún sótti um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Á greiðslusögu sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands, móttekinni 29. janúar 2010, komi fram að kærandi fái greidda fulla sjúkradagpeninga frá 15. október 2009 og fram að fæðingardegi barnsins.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, sbr. synjunarbréf sem kæranda var sent þann 25. nóvember 2009.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr., sbr. a-lið 14. gr. laga nr. 74/2008, skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu fæðingarorlofs sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. skal staðfesting vinnuveitanda fylgja umsókn um lengingu. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 17. gr. ffl. skal ráðherra setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd ákvæðisins. Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Þá segir í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram kemur hvenær launagreiðslur féllu niður.

Fyrir liggur læknisvottorð C, dags. 12. nóvember 2009. Samkvæmt því er ljóst að veikindi kæranda á meðgöngu falla undir ákvæði a-liðar 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Á hinn bóginn snýr álitaefni í þessu máli að því hvort kæranda hafi verið nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns í skilningi 4. mgr. 17. gr. ffl. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og greiðsluyfirliti frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu, dags. 23. nóvember 2009, fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 10. júlí 2009 til 30. september 2009. Með hliðsjón af því verður ekki talið að kærandi hafi lagt niður launuð störf í skilningi 4. mgr. 17. gr. ffl., sbr. einnig kröfu 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um staðfestingu launagreiðanda á niðurfellingu launagreiðslna. Með vísan til framangreinds ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum