Hoppa yfir valmynd
31. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2008

Föstudaginn 31. október 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. ágúst 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 6. ágúst 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 4. júní 2008 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég legg hér fram kæru á úrskurð bréfs er mér barst þann 1. ágúst 2008, þess efnis að mér var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, á þeim forsendum að ég hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði frá 01.02.2008 til 31.07.2008, en á því tímabili hef ég verið á endurhæfingarlífeyri.

Þegar ég spurði um nánari ástæðu þess að endurhæfingarlífeyrir væri ekki talinn vera tekjur eða bætur, þá fékk ég það svar að það væri litið á þetta sem styrk og að þar að leiðandi ætti ég ekki rétt á að fá fæðingarorlof.

Í bréfi sem ég fékk frá Fæðingarorlofssjóði kemur fram að ástæða synjunar sé sú að ég uppfylli ekki skilyrði fyrir fæðingarorlofi samkvæmt 1. mgr. 3. gr. og 4. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, en þar stendur að foreldri þurfa að hafa verið í minnst 25% starfshlutfalli á a.m.k. 6 síðustu mánuði fyrir fæðingardag barns.

En í reglugerð (1056/2004) um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, í II kafla, 3. gr. (þátttaka á innlendum vinnumarkaði), stendur; til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur: d. „sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss".

Einnig vil ég benda á þingskjal 1227,135. löggjafarþing 387. mál: fæðingar- og foreldraorlof (viðmiðunartímabil launa o.fl.). Lög nr. 74 11. júní 2008.

Þar sem fram kemur þessi breyting á 13 gr. laganna, c. „Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e-liði 2. mgr. 13. gr. a."

Í 2007 nr. 99 11. maí 7. gr., er þessi skilgreining á endurhæfingarlífeyrir.

Heimilt er þegar ekki verður séð hver örorka einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að tólf mánuði eftir að greiðslu sjúkra-eða slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar lýkur eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í 18 mánuði. Skilyrði er að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar. Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og grunnlífeyrir örorkulífeyris ásamt tekjutryggingu. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum sem um elli- og örorkulífeyri. Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.

Á meðan ég var á endurhæfingarlífeyri var ég í markvissi endurhæfingu hjá B.“

 

Með bréfi, dagsettu 26. ágúst 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 6. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 6. júní 2008 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 8. ágúst 2008.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 11. júní 2008, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 6. júní 2008 og greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 18. maí 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Þann 4. júní 2008 sendi Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður kæranda bréf þar sem henni var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum var ráðið að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki væri ráðið að hún hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið febrúar – júlí 2008. Var kæranda bent á rétt til greiðslu fæðingarstyrks.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna eru skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum telst starfsmaður skv. lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008 segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda er fætt þann X. ágúst 2008. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er frá X. febrúar 2008 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á tímabilinu sbr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra var kærandi með endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu. Endurhæfingarlífeyrir er undanþeginn greiðslu tryggingagjalds, sbr. 1. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald og fellur ekki undir einn af stafliðum 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Því var talið að kærandi hefði ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf til kæranda dags. 4. júní 2008. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks lægri sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. september 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir frá kæranda hafa ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 4. júní 2008 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með umsókn dags. 6. júní 2008 vegna væntanlegrar barnsfæðingar 8. ágúst 2008.

Samkvæmt 1. mgr 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, þarf foreldri að hafa verið á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Skilgreint er í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna hverjir teljast starfsmenn og hverjir sjálfstætt starfandi. Telst starfsmaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði sbr. 2. mgr. 7. gr. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi sbr. 3. mgr. 7. gr.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt     ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda er fætt þann X. ágúst 2008. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá X. febrúar 2008 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á tímabilinu sbr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Fyrir liggur að kærandi var með endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á viðmiðunartímabilinu. Endurhæfingarlífeyrir er undanþeginn greiðslu tryggingagjalds, sbr. 1. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald og fellur ekki undir tilvik sem tilgreind eru í stafliðum a.-e. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Með vísan til þess verður ekki talið að kærandi hafi verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eins og ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. kveður á um.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum