Hoppa yfir valmynd
18. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 22/2008

Fimmtudaginn, 18. september 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 9. júní 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 6. júní 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. mars 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Undirrituð fer fram á að

A) Reikningar á heildartekjum undirritaðrar verði leiðréttir og

B) Að greiðslur til undirritaðrar úr fæðingarorlofssjóði verði endurreiknaðar: Þannig að greiðslur til undirritaðrar úr fæðingarorlofssjóði frá nýliðnu fæðingarorlofi verði teknar með í útreikning á meðalheildartekjum síðustu tveggja ára.

Eða) Að öðrum kosti óskar undirrituð þess, að meðalheildartekjur til undirritaðrar verði reiknaðar út frá því tímabili síðustu tvö ár, þar sem undirrituð var ekki í fæðingaorlofi (frá janúar 2006 - júlí 2006 og frá september 2007 – janúar 2008).

Undirrituð er í fæðingarorlofi (dreift á 10 mánuði) sem hófst í mars sl. og hlýtur greiðslur úr fæðingarorlofssjóði skv. meðfylgjandi greiðsluáætlun frá fæðingarorlofssjóði dagsett 26. mars s.l. Greiðsluáætlunin er byggð á meðaltekjum undirritaðrar frá árunum 2006 og 2007. Á umræddu tímabili var undirrituð í fæðingarorlofi sem dreift var á 12 mánaða tímabil, þ.e. frá ágúst 2006 - ágúst 2007. Á umræddu tímabili fékk undirrituð 50% greiðslur úr sjóðnum á mánuði og starfaði samtímis í skertu starfshlutfalli 30% (sjá meðfylgjandi launaseðla). Í forsendum stofnunarinnar fyrir greiðsluáætlun vegna núverandi fæðingarorlofs eru launagreiðslur vegna hlutastarfs (30%) í fyrra fæðingarorlofi teknar með og þar með viðeigandi mánaðarfjöldi við útreikninga á meðallaunum. Aftur á móti eru greiðslur úr fæðingarorlofssjóði á sama tímabili ekki teknar með í útreikninginn sem leiðir til lægri meðaltalslauna en ella. Undirrituð er afar ósátt við þetta og telur að í tilvikum sem þessum hljóti greiðslur úr fæðingarorlofssjóði að teljast til launa þann tíma sem viðkomandi telst hafa verið á vinnumarkaði í skilningi fæðingarorlofslagana vegna hlutastarfs með dreifðu fæðingarorlofi. Vegna þessa óskar undirrituð eftir því að núverandi ákvörðun um greiðsluáætlun verði afturkölluð og að ný ákvörðun verði tekin í samræmi við framangreint.

Útreikningar fæðingarorlofssjóðs hafa í för með sér að reiknaðar meðaltekjur fyrir þetta tímabil (2006-2007) eru –X krónur á mánuði. Raunverulegar meðal mánaðartekjur undirritaðrar þá síðustu 6 mánuði (sept 2007 - feb 2008) sem undirrituð var starfandi frá því síðasta fæðingarorlofi lauk eru X krónur á mánuði. Það er því um mjög verulega skerðingu á mánaðarlegri innkomu undirritaðrar að ræða, sem hefur í för með sér mjög slæmar afleiðingar fyrir fjárhag heimilisins.

Í dag gefst mæðrum kostur á að vera heima hjá nýfæddu barni sínu í aðeins 6 mánuði eftir fæðingu barns í fullu fæðingarorlofi. Þessi stutti tími er ekki í samræmi við gang mála í nútímaþjóðfélagi og leyfir undirrituð sér að taka svo sterkt til orða og segja að það sé hreinlega ómannúðlegt að slíta móður og barn svo fljótt frá hvort öðru eftir fæðingu. Að þessum orðum sögðum og eins og staðan í þjóðfélaginu er í dag, með sárri vöntun á dagmæðrum og plássi á leikskólum, ætti að vera skiljanlegt hví undirrituð hefur valið, að dreifa fæðingarorlofi yfir lengra tímabil. Ef túlkun sjóðsins á núgildandi lögum og reglum um fæðingarorlof er rétt verður það þess valdandi að venjulegt fólk hefur ekki efni á að eiga börn með svo stuttu millibili líkt og í mínu tilviki og dreifa fæðingarorlofi yfir eins árstímabil fyrir bæði börnin og það getur ekki talist rétt

Skv. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95 frá 22. maí 2000 skulu mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali heildarlauna síðustu tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þar kemur einnig fram að til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingargjald. Í reglugerð nr. 1056 frá 22. des. 2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir í 3. gr. lið a. að til þátttöku á vinnumarkaði teljast orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Undirrituð leggur þann skilning í ofangreindan texta úr umræddum lögum og reglugerð að greiðslur úr fæðingarorlofi falli undir lið a. í umræddri reglugerð og að þær beri því að reiknast með í útreikning á meðaltali heildarlauna síðustu tvö tekjuár á undan fæðingu barns míns. Fæðingarorlof er leyfi samkvæmt lögum og túlkar undirrituð því að greiðslur úr fæðingarorlofssjóði falli undir umræddan lið.“

 

Með bréfi, dagsettu 16. júní 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 1. júlí 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 23. janúar 2008, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 11. mars 2008.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 12. nóvember 2007, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 7. janúar 2008. Bréf frá kæranda, dags. 23. janúar 2008. Launaseðlar fyrir nóvember og desember 2007 og launaseðlar nr. 9 og 10 frá Ríkissjóði Íslands. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 26. mars 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hennar yrði X krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í kjölfar reglugerðarbreytingar nr. 123/2007 er breytti reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, var hætt að taka mið af greiðslum Fæðingarorlofssjóðs með eldra barni við útreikning á meðaltali launa hjá yngra barni.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 11. mars 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar fyrir þá mánuði á árunum 2006 og 2007 sem kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 sbr. og úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 33/2005, 7/2007 og 15/2007.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2006 og 2007. Í október 2006 koma ekki fram laun á kæranda en skv. gögnum málsins urðu mistök í launavinnslu og fékk hún því 60% greiðslu í nóvember sama ár. Frá ágúst 2006 til ágúst 2007 var kærandi í fæðingarorlofi á móti lækkuðu starfshlutfalli, sbr. greiðsluáætlun dags. 8. ágúst 2006. Þar sem hún var í a.m.k. 25% starfshlutfalli í þeim mánuðum skal hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Aðra mánuði á árunum 2006 – 2007 var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og skal því einnig hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar skv. 2. mgr. 13. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga 90/2004.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnt bréf til kæranda, dags. 26. mars 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. júlí 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning meðaltals heildarlauna kæranda árin 2006 og 2007 og greiðslur til hennar úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. mars 2008.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku breytingalaga nr. 74/2008, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla ffl. feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi.

Áætlaður fæðingardagur barns var 11. mars 2008. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna eru því tekjuárin 2006 og 2007. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fæðingarorlofi vegna eldra barns tímabilið ágúst 2006 til ágúst 2007. Fékk hún greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þetta tímabil miðað við 50% og starfaði samhliða fæðingarorlofinu í 30% starfshlutfalli.

Krafa kæranda er að greiðslur til hennar úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrra fæðingarorlofs verði teknar með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar árin 2006 og 2007 eða að öðrum kosti verði meðaltal heildarlauna hennar reiknað út frá því tímabili sem hún var ekki í fæðingarorlofi.

Með 1. gr. reglugerð nr. 123/2007 um breytingu á reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, var fellt niður ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. sem kvað á um að auk launa og þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald teldust til launa greiðslur skv. a-d-liðum 3. gr. reglugerðarinnar. Greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrra fæðingarorlofs verða því ekki taldar til launa við útreikning meðaltals heildarlauna hennar og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem þær mynda ekki stofn til greiðslu tryggingagjalds, sbr. 6. tölul. 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.

Samkvæmt gögnum málsins er óumdeilt að kærandi var í 30% starfi þá mánuði sem hún fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á árunum 2006 og 2007 og því starfandi á vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar nr. 1056/2004. Verður því eigi hjá því komist að reikna með þessum mánuðum og vinnulaunum hennar þá mánuði við útreikning meðaltals heildarlauna hennar og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með hliðsjón af framanrituðu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum