Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2006

Þriðjudaginn, 26. september 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. júlí 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 28. júní 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. júní 2006 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Hér með óska ég eftir við úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að endurskoða umsókn mína um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt símtali við lögfræðing Tryggingastofnunar ríkisins (TR) þann 27. júní hefur umsókn minni verið synjað vegna þess að ég hafi ekki flutt heim um leið og ég eignaðist son minn (ég kom heim 9. maí þegar hann var 2 1/2 mánaða).

Ég byrjaði í Mastersnámi árið 2003 og útskrifaðist svo í desember 2005. Þá var ég komin 7 mánuði á leið. Eftir að hafa verið hjá fæðingarlækni í B-landi alla meðgönguna ákvað ég að eiga son minn í B-landi þar sem læknirinn mælti með keisaraskurði vegna áhættu við eðlilega fæðingu (fæðingin var greidd af erlendri heilsutryggingu).

Í desember 2005 hringdi ég í TR (því miður tók ég ekki niður nafn starfsmanns) og var mér tjáð að ég fengi fæðingarstyrk þótt ég kæmi ekki heim strax og yrði þá greitt afturvirkt.

Sonur minn fæddist 23. febrúar og tók ég þá ákvörðun að flytja ekki heim fyrr en ég væri búin að jafna mig eftir keisarann og sonur minn nógu gamall til að þola sólarhrings ferðalag til Islands. Eins og áður hefur komið fram kom ég heim 9. maí þegar sonur minn var 2 1/2 mánaða gamall. Samkvæmt bréfi frá TR, 26. júní 2006 var umsókn minni synjað vegna þess að lögheimili mitt hér á landi hafði ekki verið samfellt s.l. 5 ár. Ástæða þess að lögheimili okkar var flutt til B-lands tímabundið var vegna náms eiginmanns míns þar.

 

Með bréfi, dagsettu 25. ágúst 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 6. september 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks.

Með umsókn, dags. 19. maí 2006, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks í 6 mánuði vegna barns er fæddist 23. febrúar 2006.

Með umsókn kæranda fylgdi yfirlýsing frá D-háskóla, varðandi skólavist kæranda, dags. 15. febrúar 2006, og fæðingarvottorð, dags. 16. mars 2006. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 26. júní, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks þar sem hún taldist ekki uppfylla skilyrði laga um lögheimili hér á landi.

Fyrir liggur í gögnum málsins að kærandi átti lögheimili hér á landi fram til 29. ágúst 2000, frá 22. júlí 2002 til 13. febrúar 2003 og frá 9. maí 2006. Utan þess tíma var kærandi með lögheimili í B-landi.

Í 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, er fjallað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Segir í 1. mgr. að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig. Þá segir einnig að foreldrar eigi sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið geti fengið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Í 2. mgr. segir svo að foreldri skuli að jafnaði hafa átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Undanþága er frá þessari reglu sem er skilyrt við það að foreldri hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis og hafi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Eru þessi skilyrði undanþágunnar einnig tilgreind í 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingar­styrks.

Engin frávik er að finna í lögum frá því að foreldri þurfi að hafa átt lögheimili hér á landi í a.m.k. 5 ár fyrir flutning vegna náms erlendis.

Kærandi hóf nám við D-háskóla í janúar 2003 og hafði flutt lögheimili sitt til B-lands 14. febrúar 2003. Verður því ekki dregið í efa að kærandi hafi flutt lögheimili sitt vegna náms erlendis.

Til að uppfylla framangreint undanþáguskilyrðið hefði kærandi því þurft að hafa lögheimili hér á landi samfellt a.m.k. frá febrúarmánuði 1998. Í þjóðskrá Hagstofu Íslands kemur fram að kærandi flutti lögheimili sitt til B-lands tímabilið 30. ágúst 2000 til 21. júlí 2002. Af þeim sökum taldi lífeyristryggingasvið sýnt að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga fyrir greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og taldi ekki ástæðu til að kanna frekar námsframvindu eða réttindi til greiðslna erlendis.

Í 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, er fjallað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar. Í 1. mgr. 18. gr. segir að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þá segir að auk þessa eigi foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri geti fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér.

Í 2. mgr. segir að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Samkvæmt orðalagi sínu sætir lögheimilisskilyrði 2. mgr. 18. gr. ekki sömu undan­þágu og lögheimilisskilyrði 2. mgr. 19. gr. Er því ljóst að kærandi átti ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar.

Þess ber að geta að í 2. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, er kveðið á um að hægt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á því 12 mánaða tímabili sem um er rætt í 1. mgr. greinanna. Þessi regla kemur þó ekki til skoðunar í málinu þar sem kærandi átti ekki lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins og var auk þess með lögheimili utan Evrópska efnahags­svæðisins.

Í kæru sinni vísar kærandi til afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs á greiðslu fæðingarstyrks til hennar í fyrra fæðingarorlofi vegna barns er fæddist 27. maí 2001.

Hér ber að athuga að þær greiðslur voru afgreiddar til kæranda í gildistíð laganna, fyrir breytingu með lögum nr. 90/2004, sem tóku gildi 1. janúar 2005. Fyrir breytingu laganna var lögheimilisákvæði 18. gr. laganna orðað nokkuð rýmra en það hljómar í dag, og var það túlkað á þá leið að foreldri utan vinnumarkaðar sem flutti lögheimili sitt erlendis vegna náms maka, ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Með breytingu laganna var þessi undanþága felld úr gildi og á hún í dag því aðeins um námsmenn sem flytjast erlendis.

Þá eru aðstæður kæranda einnig breyttar frá fyrri afgreiðslu, þar sem sýnt þykir að hún hafi þá uppfyllt skilyrði laga um a.m.k. 5 ára lögheimili hér á landi fyrir flutning.

Byggja afgreiðslur málanna því á mismunandi grundvelli og lagafyrirmælum og verður ekki stuðst við fyrri afgreiðslu í máli þessu.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 26. júní 2006.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 11. september 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning, sbr. 2. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi ól barn 23. febrúar 2006 og átti hún þá lögheimili í B-landi. Staðfest er að kærandi var við nám í B-landi við D-háskóla frá janúar 2003 til október 2005. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 30. ágúst 2000 og síðan aftur til Íslands 22. júlí 2002. Þann 14. febrúar 2003 skráir hún aftur lögheimili sitt í B-landi og er með lögheimili þar til 9. maí 2006 þegar hún flytur aftur til Íslands.

Kærandi átti ekki lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Með hliðsjón af framangreindu er ekki heimild til að víkja frá skilyrði um lögheimili hér á landi, þar sem kærandi uppfyllir ekki það undanþáguskilyrði að hafa átt lögheimili samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning lögheimilis til B-lands þann 14. febrúar 2003, sbr. 2. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum