Hoppa yfir valmynd
19. september 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2006

Þriðjudaginn, 19. september 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. maí 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. maí 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 30. mars 2006 um að synja kæranda um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég uppgötvaði mistök í launavinnslu vinnuveitanda míns þegar ég hóf undirbúning að umsókn um töku fæðingarorlofs í byrjun árs 2006. Mistökin fólust í því að það gleymdist að hækka laun mín um 3,0% þann 1. janúar 2005, þ.e. um almennu launahækkunina skv. kjarasamningi RSÍ. Mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en í janúar 2006, þegar búið var að loka launavinnslu fyrir árið 2005 hjá vinnuveitanda mínum. Því var ekki mögulegt að færa leiðréttinguna inn á árið 2005. Af þeim sökum fékk ég skriflega staðfestingu á ástæðum leiðréttingarinnar svo og sundurliðun hennar fyrir hvern mánuð, sbr. meðfylgjandi skjöl nr. 2 og 3.

Skv. framansögðu óska ég eftir að leiðréttingin verði tekin með í útreikningi á greiðslum í fæðingarorlofi, samtals X kr.

Skv. úrskurði Úrskurðarnefndar um fæðingar-og foreldraorlofsmál nr. 11/2001 var launaleiðrétting sem gerð var utan viðmiðunartímabils tekin með í útreikningi á greiðslum í fæðingarorlofi, að svo miklu leyti sem leiðréttingin tók til viðmiðunartímabilsins.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Mistök vinnuveitanda míns að hækka ekki launin á réttum tíma ætti ekki að leiða til lækkunar greiðslna minna í fæðingarorlofi.

Launafulltrúi hefur staðfest að launabreytingin sé vegna leiðréttingar fyrir árið 2005, en hafi verið afgreidd með launum fyrir febrúar 2006, sbr. meðf. staðfesting á skjali 2. Stærsti hluti leiðréttingarinnar fellur innan þess viðmiðunartímabils sem miða skal við þegar reiknaðar eru út greiðslur mínar í fæðingarorlofi, sbr. skjal 3. Leiðréttingin á rætur að rekja til almennrar launabreytingar skv. kjarasamningi.

Breytingar á ákvæðum 15. gr. ffl. hafa ekki áhrif á viðmiðunartímabil við útreikning á greiðslum í fæðingarorlofi, enda var 13. gr. ffl. aðeins breytt hvað varðar viðmiðunartímabilið, þ.e. lengt úr 12 mánuðum fyrir fæðingarorlof í tvö almanaksár fyrir fæðingarorlof.

Eiga því við sömu sjónarmið og sett voru fram í úrskurði 11/2001, A gegn Tryggingastofnun.“

 

Með bréfi, dagsettu 8. júní 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 19. júní 2006. Í greinargerðinni segir:

Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 25. janúar 2006, sem móttekin var 17. febrúar 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 9 mánuði frá fæðingardegi barns, sem áætlaður var 10. apríl 2006.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 6. febrúar 2006, tilkynning um fæðingarorlof til vinnuveitanda, dags. 25. janúar 2006 og launaseðlar fyrir janúar- og febrúarmánuð 2006. Þá lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda, upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands. Það ber að athuga að röng dagsetning var tilgreind á vottorði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, en á vottorðinu er tilgreind dagsetningin 6. febrúar 2006. Það fékkst staðfest að dagsetningin ætti réttilega að vera 10. apríl 2006, sbr. tilkynning um fæðingarorlof til vinnuveitanda sem barst frá kæranda.

13. febrúar 2006 hafði borist bréf frá vinnuveitanda kæranda, B, dags. 9. febrúar 2006, þar sem staðfest var að laun kæranda sættu leiðréttingu fyrir tímabilið janúar 2005 til janúar 2006. Var tekið fram að launaleiðréttingin yrði greidd til kæranda næstu mánaðarmót frá dagsetningu bréfsins. Bréfinu fylgdi útreikningur á launaleiðréttingu kæranda.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 21. mars 2006, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykktar frá 10. apríl 2006 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2004 og 2005.

28. mars 2006 barst lífeyristryggingasviði umsókn frá kæranda um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna sjúkrahúsdvalar barns í framhaldi af fæðingu. Umsókninni fylgdi læknisvottorð, dags. 24. mars 2006. Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 3. apríl 2006, var kæranda tilkynnt að samþykkt hafi verið 18 daga framlenging fæðingarorlofs vegna sjúkrahúsdvalar barns.

Barn kæranda fæddist 7. mars 2006, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Var kæranda því send bréf, dags. 30. mars 2006, þar sem tilkynnt var að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði myndu hefjast 7. mars 2006. Þá var kæranda gerð grein fyrir afstöðu lífeyristryggingasviðs til framangreinds bréfs frá vinnuveitanda hennar, með bréfi, dags. 30. mars 2006. Var kæranda kynnt að greiðslur til hennar úr Fæðingarorlofssjóði yrðu byggðar á upplýsingum sem lífeyristryggingasvið aflar úr skrám skattyfirvalda, en ekki yrði unnt að taka tillit til launaleiðréttinga sem ekki væru taldar fram á viðmiðunartímabilinu.

Taka ber fram að bréf lífeyristryggingasviðs, dags. 30. apríl 2006, ber með sér að verið sé að svara beiðni um endurreikning á upphæð fæðingarorlofs vegna breyttra tekjuforsendna. Er hér um mistök að ræða þar sem í raun var verið var að taka afstöðu til bréfs frá vinnuveitanda kæranda, sem barst lífeyristryggingasviði 4 dögum áður en kærandi skilaði inn umsókn um greiðslur. Ekki er að sjá að óskað hafi verið endurútreiknings á greiðslum eftir að greiðsluáætlun, dags. 21. mars 2006, var send kæranda.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. segir að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr sjóðnum eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 4. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks með breytingum er svo nánar kveðið á um inntak samfellds starfs.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, og framlögðum gögnum, lá fyrir að kærandi var starfandi á innlendum vinnumarkaði tímabilið 7. september 2005 til 6. mars 2006. Taldist kærandi því uppfylla framangreint skilyrði fyrir greiðslum úr fæðingarorlofssjóði.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er tekið fram að mánaðarleg greiðsla til foreldris skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna, miðað við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Eins er tiltekið að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingargjald. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 90/2004 er tekið fram að með tekjuári sé hér átt við almanaksár.

Um útreikninga á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi fer samkvæmt 3.-4. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004. Er skýrt tekið fram í ákvæðinu að útreikningur skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Hefur lífeyristryggingasvið túlkað umrætt ákvæði sem um tæmandi talningu á heimildum til gagnaöflunar. Sú túlkun sækir sér m.a. stoð í athugasemdum við 5. gr. frumvarps um breytingu á lögum nr. 95/2000, sbr. lög nr. 90/2004. En með breytingu ákvæðisins voru heimildir umsækjenda til að leggja fram viðbótargögn, ef umsækjandi teldi upplýsingar úr ofangreindum skrám ekki réttar, felldar niður.

Þá bendir kærandi í kæru sinni á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 11/2001, sem kvað byggja á aðstæðum, sambærilegum máli þessu. Benda skal á að úrskurðurinn, sem var kveðinn upp 2. júlí 2001, byggði á þágildandi ákvæði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 um heimild foreldra til að leggja fram gögn til að sýna fram á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá væru rangar. Með breytingu á ákvæðinu, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, var þessi heimild felld brott og við það miðað að greitt yrði úr sjóðnum, einungis á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldsskrár skattyfirvalda.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið ákvarðaðar í greiðsluáætlun, dags. 30. mars 2006.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 26. júní 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 10. júlí, þar segir meðal annars:

Öll gögn kæranda sem varða umsókn um fæðingarorlof voru lögð inn á sama tíma hjá Fæðingarorlofssjóði. Það er ekki rétt sem kemur þar fram að bréf frá vinnuveitanda, B, hafi borist fyrir umsókn kæranda um fæðingarorlof. Kærandi beið með að senda inn umsókn um fæðingarorlof þar til bréf vinnuveitanda og útreikningar leiðréttingarinnar voru tilbúin, og lagði þau öll inn saman, enda meira en 6 vikur til væntanlegs fæðingardags barns. Af þeim sökum var ekki þörf á að óska endurútreiknings þar sem hafnað var strax við fyrsta útreikning Fæðingarorlofssjóðs að taka tillit til launaleiðréttingarinnar. Var afstaða Fæðingarorlofssjóðs til launaleiðréttingarinnar ítrekuð með bréfi dags. 30. mars 2006, er fæðingarorlofsgreiðslur voru færðar fram um rúman mánuð vegna fyrirburafæðingar barnsins.

Það hlýtur að skjóta skökku við að launaleiðréttingar sem gerðar eru innan almanaksárs falla inn í stofn til útreiknings fæðingarorlofsgreiðslna, en ekki þær sem gerðar eru utan viðmiðunartímabilsins, þó svo um sé að ræða laun sem áunnin eru fyrir nákvæmlega sama tímabil. Ef mistökin hefðu uppgötvast í desember, og leiðréttingin þá greidd út með desemberlaunum, þá hefðu þær tekjur sjálfkrafa verið reiknaðar með inn í viðmiðunartímabilið. En þar sem mistökin uppgötvuðust í janúar/febrúar þá hafnar Fæðingarorlofssjóður að taka tillit til launaleiðréttingar-innar, þó svo mistökin séu viðurkennd skriflega af vinnuveitanda. Þessi mismunun er varla í anda laganna um fæðingar- og foreldraorlof.

Varðandi úrskurð nefndarinnar í máli 11/2001 þá eru málsatvik mjög sambærileg og hér. Niðurstaða nefndarinnar og úrskurður hennar í máli 11/2001 byggir ekki á 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, sem breytt var með lögum nr. 90/2004, eins og Fæðingarorlofssjóður heldur fram í greinargerð sinni dags. 19. júní 2006. Það rétta er að úrskurðurinn byggir á þá gildandi 2. mgr. 13. gr. ffl. um tekjur sem falla innan viðmiðunartímabils. Þar segir m.a.

„Launahækkun kæranda á rætur að rekja til breytinga á röðun í launaflokk samkvæmt gildandi kjarasamningi. Ljóst þykir að sú launahækkun sem kom til greiðslu í desember 2000 er fyrir tímabil sem fellur að hluta innan þess viðmiðunartímabils sem miða skal við þegar reikna skal út greiðslur kæranda í fæðingarorlofi.

Með hliðsjón af framangreindu ber að telja þann hluta framangreindrar launahækkunar kæranda sem sannanlega fellur innan viðmiðunartímabilsins, þ.e. 1. nóvember 1999 til og með 31. október 2000, til heildarlauna kæranda samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., þrátt fyrir að launahækkunin hafi komið til greiðslu eftir að viðmiðunartímabilinu lauk."

2. mgr. 13. gr. laga 95/2000 var að þessu leyti, ekki breytt efnislega með breytingu á ffl. árið 2004. Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skal byggjast á upplýsingum úr skrám skattyfirvalda, og eiga þær að staðfesta meðaltal heildarlauna síðustu tveggja tekjuára á undan. Hér er ekki lagt bann við því að líta til staðgreiðslu sem greidd er utan viðmiðunartímabilsins, ef teknanna er aflað með vinnu innan viðmiðunartímabilsins. Það ætti því að vera auðsótt mál fyrir Fæðingarorlofssjóð að fá það staðfest hjá skattyfirvöldum að tekjuskatti og tryggingagjaldi hafi verið skilað af launum kæranda í samræmi við launaseðil í febrúar 2006 og staðfesta þar að umrædd launaleiðrétting sé vegna tímabilsins og tekjuársins janúar - desember 2005.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 (ffl.) sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004 skal útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda vegna tekjuáranna skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. ffl. Skal Tryggingastofnun ríkisins leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára. Í 1. mgr. 15. gr. a. sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 segir að hafi breyting orðið á tekjuskattsálagningu foreldris vegna tekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu byggðar á sbr. 3. mgr. 15. gr. skuli Tryggingastofnun ríkisins leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda.

Kærandi ól barn 7. mars 2006. Viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. eru því tekjuárin 2004 og 2005. Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið kjarasamningsbundna 3,0% launahækkun frá 1. janúar 2005. Fyrirtækið sem hún starfar hjá hafi gert mistök, þannig að hún hafi ekki fengið launahækkunina greidda fyrr en í febrúar 2006. Fyrir liggur staðfesting vinnuveitanda um launahækkunina og greiðslu hennar.

Með lagabreytingu nr. 90/2004 á lögum um fæðingar- og foreldraorlof var felld brott heimild foreldra til að leggja fram gögn því til staðfestingar að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá væru rangar. Úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála nr. 11/2001 hefur því ekki fordæmisgildi í máli þessu.

Það er mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 15. gr. a. ffl. að ekki sé að svo stöddu hægt að fallast á kröfu kæranda um leiðréttingu greiðslna þar sem engin breyting hafi verið gerð á tekjuskattsálagningu ársins 2005.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum