Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2004

Þriðjudaginn, 16. nóvember 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. júní 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 6. maí 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 23. apríl 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Við hjónin ættleiddum son okkar frá B-landi í jan 2004. Ég, eiginkona mín og dóttir okkar héldum til D-lands 10. des. 2003 þar sem ég átti að hefja nám í E-fræði í jan. 2004. Við vildum kanna aðstæður með húsnæði, skólann og leikskólann áður en lengra var haldið. Ég fór í launalaust leyfi frá minni vinnu hjá F 1. des til 14. jan. Ég hafði ekki komið til D-lands áður og vildi því ekki segja starfi mínu lausu og standa uppi atvinnulaus ef hlutirnir myndu ekki ganga upp. Ég tel þetta heilbrigða skynsemi! Og skil ekki hvers vegna það sé ekki trúverðugt! Það er talað um í bréfinu að ég hafi ekki átt lögheimili á Íslandi í 5 ár samfellt fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins, en ég átti lögheimili á Íslandi í 4 ár og 10 mánuði! Og borgaði mína skatta og skyldur. Það tók 12 vikur að fá svör við okkar umsókn og var ég beðinn um ný gögn í hverri viku nánast. Fyrrverandi vinnuveitandi minn skilaði sínu, sem hann var beðinn um s.s. „nýjum“ vottorðum en svo komu þau svör frá G að þau skildu ekki röðina sem var á vottorðunum!! Við vorum auðvitað búin að kanna allan okkar rétt og okkur tjáð að allt væri í fína lagi. Ættleiðing sonar okkar dróst um nokkrar vikur, það var algjörlega úr okkar höndum. Okkur var dæmt forræði yfir syni okkar 15. desember 2003 á B-landi. Hann var ættleiddur á Íslandi 28. jan. 2004. Við hefðum frestað för okkar til D-lands um nokkrar vikur ef okkur hefði verið gefnar réttar uppl.“

 

Með bréfi, dags. 21. júní 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsettu 5. júlí 2004.

Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 21. janúar 2004, sem móttekin var 26. janúar 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá 1. ágúst 2004. Umsóknin varðar barn sem kærandi ættleiddi frá B-landi í janúar 2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu fyrir eftirtalin gögn og upplýsingar. Forsamþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til ættleiðingar, dags. 31. júlí 2002, tilkynning um útgáfu ættleiðingarleyfis, dags. 28. janúar 2004, ættleiðingarleyfi útgefið af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 28. janúar 2004, yfirlýsing Íslenskrar ættleiðingar vegna ættleiðingar, dags. 9. janúar 2004, bréf Íslenskrar ættleiðingar, dags. 5. apríl 2004, staðfestingar frá F, dags. 25. janúar og 2. og 13. apríl 2004, launaseðill vegna desember 2003, staðfesting á innritun í skóla í D-landi, dags. 13. mars 2003, útprentun úr þjóðskrá Hagstofu Íslands, útprentun úr staðgreiðsluskrá RSK, og auk þess tölvupóstssamskipti milli maka kæranda og starfsmanna lífeyristryggingasviðs þar sem m.a. kom fram að kærandi hefði farið til B-lands til að sækja son þeirra þann 14. janúar 2004 og þeir komið heim þann 22. janúar 2004.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 23. apríl 2004, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væri synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki það skilyrði fyrir greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Enn fremur var kæranda í bréfi þessu gerð grein fyrir að kannað hefði verið hvort hann ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks og að sú athugun hefði leitt í ljós að slíkur réttur væri ekki fyrir hendi sökum þess að kærandi hefði ekki átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning hans til D-lands í desember 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 4. mgr. 8. gr. ffl. segir að við ættleiðingu sé miðað við þann tíma þegar barn kemur inn á heimilið, enda staðfesti til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Þurfi foreldrar að sækja barnið til annarra landa geti fæðingarorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 186/2003, er síðan talið upp í fjórum liðum hvað teljist enn fremur til samfellds starfs. Þar segir í a-lið að til samfellds starfs teljist orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Kærandi ættleiddi son sinn frá B-landi. Samkvæmt upplýsingum frá maka kæranda fór kærandi til B-lands 14. janúar 2004 til að sækja drenginn og komu þeir heim þann 22. janúar 2004. Sex mánaða viðmiðunartímabil getur því samkvæmt framangreindu verið frá 14. júlí 2003 til þess dags er kærandi fór til B-lands til að sækja barnið.

Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands hefur kærandi átt lögheimili í D-landi frá 10. desember 2003 þegar fjölskylda hans flutti búferlum vegna fyrirætlana hans um að hefja nám þar í landi í janúar 2004, sbr. framlagða staðfestingu H. Fyrir flutning kæranda til D-lands starfaði hann hjá F. Samkvæmt framlagðri staðfestingu F, dags. 25. janúar 2004, starfaði kærandi óslitið hjá F frá 24. febrúar 1999 til 1. desember 2003. Í framlagðri staðfestingu F, dags. 2. apríl 2004, segir að kærandi hafi verið í launalausu leyfi frá störfum til 14. janúar 2004. Þá segir í yfirlýsingu F, dags. 13. apríl 2004, að þegar kærandi hafi ákveðið að stunda nám í D-landi hafi hann viljað fara að öllu með gát og óskað eftir því að fá að fara í launalaust leyfi, sem honum hafi verið veitt á þeim forsendum að hann hafi þurft að fara til D-lands til að athuga aðstæður og hvort hann gæti fengið húsnæði undir sig og fjölskyldu sína. Hefði ekkert af þessu gengið upp hefði hann komið aftur til vinnu og frestað því að fara í nám og hefði hann þá haldið öllum áunnum réttindum. Mál kæranda hefðu ekki skýrst fyrr en í byrjun janúar og þá hefði hann verið leystur undan þeim kvöðum sem fylgdu hinu launalausa leyfi sem vinnuveitandinn hefði litið á sem uppsagnarfrest. Þá segir í yfirlýsingunni að kærandi hafi verið búin að ávinna sér orlof upp á kr. I. Á framlögðum launaseðli kæranda, dags. 31. desember 2003, sem varðar tímabilið 11. til 24. desember 2003 eru honum greiddir orlofstímar að fjárhæð kr. I.

Með uppgjöri á áunnu orlofi, sbr. framlagðan launaseðil, svo og með vísan til yfirlýsingar F frá 25. janúar 2004, telur lífeyristryggingasvið að ekki verði dregin önnur ályktun en að ráðningarsambandi kæranda og vinnuveitanda hans hafi verið lokið í desember 2003. Styðst sú ályktun jafnframt við þá staðreynd að kærandi flutti til D-lands í desember 2003 til að hefja þar nám í janúar 2004, sem hann í mars 2003 fékk staðfestingu á að hann væri skráður í.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sem fyrir lágu þegar umsókn kæranda var til afgreiðslu hjá lífeyristryggingasviði telur lífeyristryggingasvið að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði í upphafi viðmiðunartímabilsins og alveg fram í desember 2003 en ekki frá þeim tíma. Því telur lífeyristryggingasvið að kærandi uppfylli ekki framangreind skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þá fellst lífeyristryggingasvið ekki á að yfirlýsingar vinnuveitanda kæranda, frá 2. og 13. apríl 2004, sýni fram á að um ráðningarsamband hafi verið að ræða eftir að hann hafði fengið uppgert áunnið orlof sitt og því séu ekki uppfyllt skilyrði fyrir launalausu leyfi skv. lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, sbr. a-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Af þessum sökum telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Eins og áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 23. apríl 2004, ber með sér var eftir að ljóst var orðið að kærandi ætti ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði tekið til athugunar hvort kærandi ætti rétt á fæðingarstyrk.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Í 2. mgr. 19. gr. ffl. segir að að jafnaði skuli foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Síðan segir í 3. mgr. 19. gr. ffl. að vegna ættleiðingar skuli greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið enda staðfesti til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Þurfi foreldrar að sækja barnið til annarra landa geti greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er áréttað að skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks er að foreldri hafi átt lögheimili hér á landi við ættleiðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan.

Í 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er að finna undanþágu frá lögheimilisskilyrði 12. gr. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands hefur kærandi átt lögheimili í D-landi frá 10. desember 2003 þegar fjölskylda hans flutti búferlum vegna fyrirætlana hans um að hefja nám þar í landi í janúar 2004, sbr. framlagða staðfestingu H. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Ísland hafði kærandi í desember 2003 átt lögheimili hér á landi frá 17. febrúar 1999 er hann flutti lögheimili sitt til landsins frá J-landi. Kærandi hafði því ekki átt lögheimili hér á landi samfellt í fimm ár þegar hann flutti lögheimili sitt til D-lands.

Þar sem kærandi uppfyllti hvorki hið almenna skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að eiga lögheimili hér á landi við ættleiðingu sonar hans né skilyrði undanþáguákvæðisins um að hafa átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir tímabundinn flutning vegna náms erlendis telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja kæranda um fæðingarstyrk.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. ágúst 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hinsvegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar eða þjónustu hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sbr. reglugerð nr. 186/2003 er kveðið á um að til samfellds starfs teljist enn fremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum. Hlutaðeigandi úthlutunarnefnd metur hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum, hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. Um rétt til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fer samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysis­tryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. er við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Jafnframt segir þar að ef foreldrar þurfi að sækja barnið til annarra landa geti fæðingarorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.

Kærandi fór til B-lands 14. janúar 2004 til að sækja barn sem hann og konan hans höfðu ættleitt. Hann kom með barnið heim 22. janúar. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 14. júlí 2003 fram að þeim tíma er kærandi fór að sækja barnið.

Kærandi flutti lögheimili sitt til D-lands 10. desember 2003 vegna fyrirhugaðs náms hans sem samkvæmt yfirlýsingu frá H átti að hefjast um miðjan janúar 2004. Fyrir flutninginn starfaði hann hjá F og samkvæmt staðfestingu fyrirtækisins dags. 25. janúar 2004 hafði hann starfað þar óslitið frá 24. febrúar 1999 til 1. desember 2003. Samkvæmt launaseðli dags. 31. desember 2003 fékk hann greidda hjá fyrirtækinu 121 orlofstíma eða I kr. Á launaseðlinum kemur fram að orlofstímar eru greiddir til 24. desember 2003. Kærandi hafði þannig fengið fullnaðaruppgjör vegna starfa sinna hjá F. Hann hafði flutt lögheimili sitt til D-lands og fengið skólavist þar. Með hliðsjón af því verður ekki á það fallist að kærandi hafi verið í launalausu leyfi hjá fyrirtækinu í skilningi stafliðar a í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 eftir að orlofstíma lauk. Samkvæmt því uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingaorlofs þann 14. janúar 2004.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 2. málslið 2. mgr. 19. gr. segir að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Í 3. mgr. 19. gr. segir að vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skuli greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miða við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfi að sækja barnið til annarra landa getur greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. gilda samsvarandi reglur um lögheimili hvað varðar rétt foreldris utan vinnumarkaðar til fæðingarstyrks.

Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns sbr. 2. mgr. 19. gr. ffl. Samkvæmt ákvæðinu gildir skilyrði um lögheimili hér við fæðingu barns einnig um rétt foreldris sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til fæðingarstyrks sbr. 2. mgr. 18. gr. ffl. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðum um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Kærandi átti lögheimili í D-landi þann 14. janúar 2004. Hann hafði flutt lögheimili sitt til D-lands þann 10. desember 2003 vegna fyrirhugaðs náms en þá hafði hann átt lögheimili á Íslandi frá 17. febrúar 1999 er hann flutti frá J-landi þar sem hann hafði átt lögheimili frá árinu 1993. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði, þar sem hann hafði ekki átt lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning til D-lands. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að eiga rétt til fæðingarstyrks hvorki sem námsmaður né sem foreldri utan vinnumarkaðar. Heimild 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 til undanþágu frá skilyrði um sex mánaða nám kemur því eigi til álita í máli þessu.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum