Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 69/2003

Þriðjudaginn, 31. ágúst 2004

   

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. október 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 10. október 2003 um að synja kæranda framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 lið b), segir að kona eigi rétt á framlengingu fæðingarorlofs vegna sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni.

Umsækjandi kærir úrskurð tryggingayfirlæknis þar sem ljóst er að sjúkdómur hefur versnað á meðgöngu og valdið óvinnufærni. Þessu til rökstuðnings er vísað í læknisvottorð frá B og umsögn D, tryggingayfirlæknis um mat vegna endurhæfingarlífeyris 04.09.2003 ( sem var synjað), þar sem m.a. segir: (sjá meðfylgjandi skjali) „Er nú þunguð og gengin um 7 mánuði og hefur þrátt fyrir sjúkraþjálfun farið heldur versnandi á meðgöngunni“

„Bent er á fæðingarorlofssjóð........“

Umsækjandi er án bóta frá 18. júlí 2003 þar sem þá er liðið eitt ár frá fyrstu greiðslu sjúkradagpeninga.

Ekki er það á færi umsækjanda að meta hvort að meðgangan ein sé orsök þess að verkir séu til staðar og sveiflukenndir í upphafi meðgöngu. Einnig er ekki ljóst hvort umsækjandi væri vinnufær að öllu leyti, hluta til eða alls ekki ef hún væri ekki þunguð. En hafa ber í huga að við aukin þyngsli sem fylgja meðgöngum, breytts álags á hrygg og vöðva auk þess sem liðbönd mýkjast og aðrar líffræðilegar breytingar verða á líkama ófrískrar konu þá hlýtur það að vera ljóst að þessar breytingar hafa versnandi áhrif, að minnsta kosti á síðustu tveimur mánuðum meðgöngu, á þá verki og bakmeiðsli sem fyrir eru. Sérstaklega verkur og doði sem nær niður í fætur.

Þar sem sjúkradagpeningar eru metnir jafnt á við vinnu þegar reikna skal út starfshlutfall hlýtur það sama að gilda um framlengingu fæðingarorlofs. Umsækjandi hefur hvergi rekist á þær reglur að þrátt fyrir að kona sé óvinnufær að öllu leyti eða hluta fyrir þungun eigi hún ekki rétt á lengingu fæðingarorlofs vegna áhrifa meðgöngu á heilsu hennar til hins verra, heldur þvert á móti.

Að lokum ber að nefna að umsækjandi hefur einnig fengið grindargliðnun á þessari meðgöngu eins og staðfestist með vottorði frá B og sækir einnig um framlengingu á þeim forsendum. Ennfremur gætir háþrýstings á þessari meðgöngu en umsækjandi fékk preeclampsia ásamt miklum háþrýstingi á fyrri meðgöngu.“

 

Með bréfi, dags. 20. október 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 22. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Með umsókn dags. 14. ágúst 2003 og umsókn og læknisvottorði vegna lengingar fæðingarorlofs vegna sjúkdóms móður dags. 22. júlí 2003 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og lengingu vegna veikinda á meðgöngu vegna áætlaðrar fæðingar barns 13. nóvember 2003.

Í umsókn og læknisvottorði vegna lengingar fæðingarorlofs vegna sjúkdóms móður tilgreindi kærandi að sjúkradagpeningar hefðu fallið niður 18. júlí og að hún væri að sækja um endurhæfingarlífeyri. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu kom fram að hún hefði lent í aftanákeyrslu í júlí 2002 og hefði verið óvinnufær síðan þá. Væntanlegur fæðingardagur var þar tilgreindur 13. nóvember 2003.

Í 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) segir:

„Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 segir:

„Með heilsufarsárstæðum er hér átt við:

a.  sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b.  sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c.  fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.“

Með bréfi læknasviðs dags. 10. september 2003 var kæranda synjað um lengingu vegna veikinda á meðgöngu á grundvelli þess að óvinnufærni væri tilkomin fyrir meðgönguna.

Eftir að borist hafði að nýju umsókn og læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs vegna sjúkdóms móður dags. 10. október 2003 þar sem væntanlegur fæðingardagur var tilgreindur 21. nóvember 2003 var kæranda að nýju synjað um lengingu á sama grundvelli með bréfi læknasviðs dags. 21. október 2003.

Kærandi hafði fengið greidda sjúkradagpeninga á tímabilinu 19. júlí 2002 – 18. júlí 2003, þ.e. í eitt ár í samræmi við ákvæði 2. mgr. 38. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) um að sjúkradagpeningar séu ekki greiddir lengur en 52 vikur á hverjum 24 mánuðum. Umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri var synjað.

Kærandi hafði fullnýtt sjúkradagpeningarétt sinn að svo stöddu í júlí 2003 og umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri hafði verið synjað með bréfi læknasviðs dags. 4. september 2003. Í ljósi þess að kærandi hafði fengið greidda sjúkradagpeninga á grundvelli þess að hún hefði lagt niður störf vegna veikinda og myndi að öllu óbreyttu öðlast rétt að nýju á sama grundvelli þegar ákvæði 2. mgr. 38. gr. atl. stæði ekki lengur í vegi fyrir því var talið rétt að líta svo á að frá því sjúkradagpeningagreiðslur til hennar féllu niður væri hún á biðtíma eftir því að fá þá greidda að nýju og uppfyllti þannig það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði á grundvelli c.-liðar 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar þar sem kveðið er á um að sá tími teljist til samfellds starfs sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Tilkynnt var um afgreiðslu á umsókn hennar og samþykki á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði með bréfi dags. 24. október 2003.

Með tölvupósti dags. 26. nóvember 2003 óskaði kærandi eftir frestun á töku fæðingarorlofs síns. Það var samþykkt og sama dag var henni send ný tilkynning um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem eingöngu var um að ræða greiðslu þeirra tveggja vikna sem móðir skal skv. 3. mgr. 8. gr. vera í fæðingarorlofi eftir fæðingu barns. Hún tilkynnti síðan með tölvupósti dags. 14. janúar 2004 að hún óskaði eftir að taka fæðingarorlof sitt frá 1. september 2004. Það var samþykkt og henni send ný tilkynning um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóð 19. janúar 2004.

Við yfirferð á máli kæranda vegna greinargerðar þessarar hefur komið í ljós að hún var þann 11. nóvember 2003 metin 75% öryrki fyrir tímabilið 1. ágúst 2003 – 31. ágúst 2004. Upplýsingar um örorkumatið bárust ekki til starfsmanna sem annast afgreiðslu umsókna um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, hvorki frá kæranda né læknasviði stofnunarinnar.

Þar sem umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafði verið samþykkt á grundvelli þess að hún væri á biðtíma eftir því að fá greidda sjúkradagpeninga og uppfyllti þannig skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið á vinnumarkaði á grundvelli c.-liðar 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hafði það að samþykkt væri örorkumat fyrir hana fyrir sama tíma í för með sér að ekki var lengur hægt að líta svo á að hún uppfyllti skilyrði um að vera á vinnumarkaði með því að hún væri á biðtíma eftir því að fá greidda sjúkradagpeninga. Forsendur voru þannig brostnar fyrir því að samþykkja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til hennar og hefur henni verið tilkynnt bréflega um þá niðurstöðu.“

    

Þar sem Tryggingastofnun ríkisins hafði samþykkt greiðslur til kæranda greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, afturkallaði kærandi kæru sína. Tryggingastofnun ríkisins breytti síðan ákvörðun sinni vegna nýrra upplýsinga og synjaði kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála sendi í framhaldi af því tölvupóst þann 5. febrúar 2004 til kæranda, þar sem henni var gefinn kostur á að endurvekja málið. Þar sem engin svör bárust frá kæranda var tölvupóstssendingin endurtekin þann 15. mars 2004. Með tölvupósti þann 21. júní 2004, óskaði kærandi eftir því að málinu verði haldið áfram hjá nefndinni.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. ágúst 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Eins og fram kemur í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar sbr. reglugerðarbreyting nr. 186/2003 telst samfellt starf enn fremur:

a.       orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b.       sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum.

c.       sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d.      sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Kærandi ól barn 21. nóvember 2003. Sex mánaða tímabil samkvæmt framangreindu er því frá 21. maí 2003 til fæðingardags barns. Kærandi hafði fengið greidda sjúkradagpeninga frá 19. júlí 2002 til 18. júlí 2003, en þá féllu þeir niður þar sem ár var liðið frá fyrstu greiðslu, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 117/1993. Kærandi var metin 75% öryrki tímabilið 1. ágúst 2003 til 31. ágúst 2004 og fékk hún greiddan örorkulífeyri á grundvelli matsins. Örorkulífeyrir fellur ekki undir upptalningu 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði né ávann sér rétt á annan hátt frá því að greiðslutímabili sjúkradagpeninga lauk þann 18. júlí 2003, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu átti kærandi ekki rétt á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Ákvæði 17. gr. eiga eingöngu við um konur sem eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Sambærileg heimild til framlengingar á greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda á meðgöngu er ekki fyrir hendi í lögum nr. 95/2000.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, né rétt til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum