Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 53/2003

Þriðjudaginn, 27. apríl 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. júlí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 10. júlí 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. 

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég sótti um fæðingarstyrk til Tryggingastofnunar ríkisins um miðjan maí sl. Ég fékk skriflegt svar í gær (17.7.2003). Í svarbréfinu stóð að mér hafi verið hafnað um fæðingarstyrk á þeim forsendum að ég hafi ekki hafið nám strax og ég flutti til B-lands, sem er ekki rétt þar sem ég hóf nám strax og ég flutti út og var búin að senda Tryggingastofnun vottorð frá skólanum þess efnis. Ég hringi til Tryggingastofnunar til að fá þetta leiðrétt og þá er mér sagt að það sé ekki hin raunverulega ástæða heldur það að ég hafi ekki skilað lágmarks námsárangri eða 75% (þrátt fyrir að ég hafi skilað inn læknisvottorði með umsókninni) og það eina sem ég geti gert er að kæra úrskurðinn.

Samkvæmt reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 915/2002 kemur fram í 4. gr. að heimilt sé að greiða mér fæðingarstyrk eins og námsmanni ef ég hafi ekki getað stundað nám af heilsufarsástæðum. Einnig kemur þar fram að námsmaður skuli hafa fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma. Ég hef hinsvegar ekki sótt um sjúkradagpeninga eða dagpeninga vegna þess að ég vissi ekki að ég hafði rétt á slíku frá Íslandi auk þess sem ég fékk greitt námslán sem ég taldi að myndi duga okkur til framfærslu þar til ég myndi fá fæðingarstyrkinn.

Veikindi mín fólust í vel þekktum fylgikvillum meðgöngunnar, „morgun“ógleði (sem þó varði allan sólarhringinn) og þreytu, sem ollu því að ég gat ekki sinnt náminu að fullum kraft. Ég náði þó að klára einn verklegan kúrs áður en ég veiktist, tvo litla próflausa kúrsa í veikindunum og náði þannig u.þ.b 60% námsárangri þá önn.“

  

Með bréfi, dags. 1. september 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 27. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Með umsókn dags. 3. apríl 2003 sótti kærandi sem hefur skv. þjóðskrá Hagstofu Íslands verið með lögheimili í B-landi frá 15. ágúst 2001 um fæðingarstyrk námsmanna frá 1. maí 2003. Einnig bárust staðfestingar dags. 30. júlí 2002, 7. febrúar og 7. mars 2003 um að hún væri skráð í nám við D-háskóla frá 1. ágúst 2000, afrit af mæðraskýrslu þar sem fram kom að væntanlegur fæðingardagur væri 22. maí 2003, læknisvottorð dags. 27. febrúar 2003 um að kærandi hafi verið óvinnufær frá 30. september 2002 og fæðingarvottorð barns 1. júní 2003.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk og er að jafnaði skilyrði að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. breytingareglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. 

Í 13. gr. reglugerðarinnar segir:

„Tryggingastofnun ríkisins er, þrátt fyrir skilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur í því ríki.

Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þrátt fyrir skilyrði 2. mgr., að greiða mismun sem því nemur.“

Í yfirliti yfir tekin próf kom fram að kærandi hafi á árinu 2001 tekið 5 einingar í september, í fengið metnar 5 einingar október og tekið 5 einingar í nóvember, þ .e. tekið 10 einingar og fengið metnar 5 einingar samtals á árinu 2001, á árinu 2002 hafi hún síðan fengið metnar 5 einingar í febrúar, tekið 7,5 einingar og fengið metnar 7,5 einingar í mars, fengið metnar 5 einingar í maí, tekið 2,5 einingar í júlí, tekið 2,5 einingar í ágúst, tekið 5 einingar í október og tekið 7,5, einingar í nóvember, þ.e. tekið 25 einingar og fengið metnar 17,5 einingar samtals á árinu 2002. Fram kemur að fullt nám við skólann er 60 einingar á ári (eins og almennt mun vera í B-landi) þannig að þær upplýsingar sem liggja fyrir um námsframvindu kæranda sýna að hún hafi stundað fullt nám í samræmi við skilyrði 1.og 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.

Auk þess sem þær upplýsingar sem liggja fyrir um nám kærandi sýni ekki fram á að hún hafi verið í fullu námi skv. skilyrðum 14. gr. reglugerðarinnar hefur ekki framvísað yfirlýsingu um að hún eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar í B-landi. Á bakhlið annarrar blaðsíðu umsóknarinnar er að finna þá athugasemd um þetta frá kæranda að erlendir námsmenn í B-landi hafi engan rétt til greiðslna í fæðingarorlofi og að starfmaður „sveitarfélagsins“ hafi ekki viljað ómaka sig til að útbúa staðfestingarskjal á réttindaleysi vegna þess að starfmenn tryggingastofnunar eigi að vita þetta og viti. 

Í 13. gr. reglugerðarinnar er að finna það skilyrði fyrir því að heimilt sé að greiða foreldri sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms að framvísað sé yfirlýsingu frá almannatryggingum í búsetulandinu um að þar sé ekki réttur á greiðslum í fæðingarorlofi eða að um lægri rétt sé að ræða. Ástæðan fyrir því að kveðið er á um þetta skilyrði í ákvæðinu og nauðsynlegt er að slík staðfesting berist er sú að þó sótt sé um greiðslur á grundvelli þess að umsækjandi sé í námi og ekki sé um að ræða greiðslur í fæðingarorlofi til námsmanna í B-landi þá útilokar það ekki sjálfkrafa að viðkomandi eigi rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þar sem hann getur verið í vinnu með náminu og átt þannig rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í B-landi. Skilyrði fyrir því að fá greiðslur í fæðingarorlofi í B-landi mun vera að foreldri hafi unnið a.m.k. 120 tíma á síðustu 13 vikum.

Með umsókn kæranda fylgdi læknisvottorð um að hún væri óvinnufær vegna sjúkdóms á meðgöngu frá 30. september 2002.

Í 14. gr. a. reglugerðarinnar, sbr. breytingarreglugerð nr. 915/2002, segir:

„Heimilt er að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2. mgr. 7. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Umsókn skal fylgja staðfesting frá viðkomandi skóla um að móðir hafi verið skráð í nám á því tímabili sem um ræðir og vottorð frá lækni. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.“

Í máli þessu liggja ekki fyrir upplýsingar um að kærandi hafi verið skráð í 75-100% nám, hvort kærandi hafi fengið greidda sjúkradagpeninga (eða hugsanlega staðfestingu á synjun á grundvelli þess að námsmenn í B-landi fái ekki greidda sjúkradagpeninga) og í læknisvottorði koma ekki fram læknisfræðilegar upplýsingar um sjúkdóm. Ekki liggja þannig fyrir fullnægjandi upplýsingar til þess að hægt sé að meta hvort ákvæði þetta eigi við í tilviki kæranda.

Kæranda var með bréfi dags. 10. júlí 2003 sem sent var bæði henni maka hennar synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að þau væru bæði sjúkratryggð í B-landi frá 21. ágúst 2001 og þau falli ekki undir undanþágu frá búsetuskilyrði fyrir foreldri sem hafa flutt lögheimili sitt tímabundið til útlanda til náms þar sem nám þeirra hefjist ekki fyrr en u.þ.b. ári síðar. Ástæða þess er líklega sú að þarna hefur komið upp einhver misskilningur með það að þau fluttu til B-lands í ágúst 2001 en í staðfestingum á námi kæranda kemur fram að hún hafi hafið nám í ágúst 2000 og í staðfestingu á námi maka kæranda segir að hann hafi hafið nám í ágúst 2002. Með réttu hefði synjun átt að byggjast á því að kærandi hafi ekki verið í fullu námi og mun kæranda vera kunnugt um það.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. janúar 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 6. febrúar 2004, þar sem hún ítrekar fyrri kröfur. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 16. mars 2004 var óskað eftir frekari gögnum sem bárust nefndinni frá kæranda 7. apríl sama ár.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrk sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks. 

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá segir að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af því að kærandi elur barn 1. júní 2003, er tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu frá júní 2002 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt námsferilsyfirliti frá D-háskóla kemur fram að kærandi lauk 15 einingum haustið 2001, síðan lýkur hún 42,5 einingum árið 2002 þar af 12,5 einingum haustið 2002. Upplýst er að fullt nám við skólann eru 60 einingar á ári. Kærandi lagði fram læknisvottorð, dags. 27. febrúar 2003, þar sem fram kemur að hún sé óvinnufær frá 30. október 2002.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þótt hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og hafa fengið sjúkradagpeninga sem námsmaður eða vera á biðtíma eftir dagpeningum. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist. 

Þar sem kærandi var hvorki í fullu námi á haustmisseri 2002 né á vormisseri 2003 í skilningi laga nr. 95/2000 né uppfyllti hún skilyrði 1. mgr. 14. gr. a. reglugerðar nr. 909/2000 hefur hún ekki öðlast rétt til fæðingarstyrk sem námsmaður.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

   

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum