Hoppa yfir valmynd
22. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2003

Mánudaginn, 22. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 4. júní 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. júní 2003

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 22. maí 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Fyrirhugaður upphafsdagur fæðingarorlofs míns var um miðjan september næstkomandi. Þá verð ég búinn að vera tæpt ár (frá 1. október 2002) samfellt á innlendum vinnumarkaði og ætti því, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, að eiga rétt á greiðslum um Fæðingarorlofssjóði. Ég tel að sú túlkun Tryggingastofnunar ríkisins að upphafsdagur fæðingarorlofs jafngildi fæðingardegi barnsins (18. febrúar sl.) standist ekki lögin. Orðalag í fyrstu og annarri mgr. 8. gr. laganna bendir til þess að rétturinn til fæðingarorlofs liggi að 18 mánaða aldri barnsins og stofnist við fæðingu. Í þriðju mgr. er móður gert að vera í orlofi fyrstu tvær vikur eftir fæðingardag, en ekki föður. Af þessu má vera ljóst að feðrum er mögulegt að hefja töku fæðingarorlofs hvenær sem er á fyrstu 18 mánuðum barnsins. Túlkunin gengur að mínu mati gegn markmiði laganna sem er að tryggja samvistir við báða foreldra. Ég tel að skilyrði fyrir réttinum til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði séu með þessari túlkun á lögunum þrengd án þess að lögin heimili það sérstaklega.

Þess má að lokum geta að þegar kona mín gerði sér grein fyrir að hún ætti von á barni vann ég hlutastarf með námi. Ég hafði þá í hyggju að hætta vinnu til að fá meiri tíma til að geta klárað námið fyrir fæðingu barnsins og áður en ég hæfi störf á núverandi vinnustað. Við könnuðum sérstaklega lögin til að vera viss um að það myndi ekki skerða rétt minn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði ef ég legði niður störf og helgaði allan tíma minn náminu. Af lögunum að dæma fannst okkur að svo væri ekki, þar sem greiðslur væru miðaðar við 6 mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs en ekki við fæðingardag. Ég tók þá ákvörðun að hætta störfum, sem nú verður til þess, samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar, að ég á aðeins rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður en ekki á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Með bréfi, dags. 20. júní 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 23. október 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags 27. desember 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá 17. febrúar 2003 vegna væntanlegrar fæðingar barns 17. febrúar 2003. Með umsókninni fylgdi tilkynning um fæðingarorlof dags 23. desember 2002 þar sem starfshlutfall seinustu 6 mánuði fyrir töku fæðingarorlofs var tilgreint 100% og að fæðingarorlofið yrði tekið 1. október 2003- 1. janúar 2004.

Við afgreiðslu umsóknarinnar þann 21. janúar 2003 kom í ljós að samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafði kærandi fengið greidd laun frá B, launaafgreiðslu í febrúar, mars, apríl, júlí og nóvember 2002. Þar sem laun frá B koma fram sem laun fyrir mánuðinn á eftir hjá þeim sem, eins og kærandi, greiða í A-deild LSR og fá því eftir á greidd laun hafi hann þannig fengið greidd laun í janúar, febrúar, mars, júní og október 2002 (eðlilegt er að laun síðustu tveggja mánaða hafi ekki verið skráð í staðgreiðsluskrá RSK en launaseðlar fyrir október og desember 2002 fylgdu með umsókn þannig að ljóst var að kærandi hafði verið áfram í starfi).

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 21. janúar 2003 var kæranda tilkynnt að skv. staðgreiðsluskrá RSK uppfyllti hann ekki það skilyrði 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns, sbr. úrskurð í kærumáli nr. 42/2001) þar sem, ekki komi fram tekjur fyrir ágúst og september mánuði árið 2002. Ef þessar upplýsingar væru ekki réttar væri nauðsynlegt að hann sendi innan 15 daga staðfestar upplýsingar um launatekjur þessa mánuði.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001 (sem varðaði að vísu útreikning á greiðslum en ekki hvort réttur til greiðslna væri fyrir hendi), kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. laganna. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns.

21. maí 2003 bárust yfirlit um námsferil kæranda frá D-háskóla dags. 20. maí 2003 og vottorð dags. sama dag um að hann væri skráður stúdent við skólann háskólaárin 2000-2003 og tekið fram að hann hefði stundað fullt nám allan tímann þar til hann hefði hafið störf á E 1. október 2002.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags 22. maí 2003 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki skilyrðið um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingu barns). Jafnframt var honum bent á að hann ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður í 3 mánuði með því skilyrði að hann legði niður störf þann tíma. Ef hann vildi nýta sér þann rétt þyrfti hann að senda staðfestingu undirritaða af vinnuveitenda sínum um að hann óski eftir að fá greiddan fæðingarstyrk og muni ekki þiggja laun meðan á greiðslum stendur. Slík staðfesting hefur ekki borist og á meðan er umsókn kæranda í biðstöðu.

Lífeyristryggingasvið telur ljóst skv. framangreindu að kærandi uppfylli ekki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (sem stofnast í síðasta lagi við fæðingu barns, sbr. rökstuðning fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 42/2001).“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. október 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) stofnast réttur foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Framangreind regla er skoðuð þegar finna á út hvort viðkomandi foreldri á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns, ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. fellur réttur til fæðingarorlofs niður er barnið nær 18 mánaða aldri. Sveigjanleiki til töku fæðingarorlofs breytir ekki upphafsdegi fæðingarorlofs eða grundvelli útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, þann 18. febrúar 2003. Framangreint sex mánaða viðmiðunartímabil telst því frá 18. ágúst 2002 til 17. febrúar 2003. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki á vinnumarkaði í ágúst og september 2002. Með hliðsjón af því hefur hann ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

  

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum