Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 93/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. apríl 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 93/2014.

  1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. desember 2014, kærði B hdl., hjá C, f.h. A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna kröfu kæranda þess efnis að stofnunin greiddi honum lífeyrisiðgjald ásamt dráttarvöxtum af greiðslu biðstyrks sem honum var greiddur á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013 um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu ,,Liðsstyrkur.“

Kærandi fer fram á endurskoðun framangreindrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi ekki tilkall til mótframlags lífeyrissjóðsiðgjalds af þeim biðstyrk sem honum var greiddur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006.

Kæra þessi snýr að framkvæmd Vinnumálastofnunar á greiðslu biðstyrks. Biðstyrkurinn var greiddur út á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI laga um atvinnuleysistryggingar og bráðabirgðaákvæðis III með reglugerð nr. 12/2009 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir voru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Af biðstyrk til styrkþega voru hvorki dregin 4% af styrk í lífeyrissjóð né greitt 8% mótframlag úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Kærandi þáði greiðslur biðstyrks frá 1. febrúar til 28. júní 2013. Kærandi krafðist þess af Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 14. nóvember 2014, að stofnunin greiddi lífeyrisiðgjald ásamt dráttarvöxtum.

Kæra þessi er efnislega samhljóða kæru frá C til úrskurðarnefndarinnar í máli þar nr. 66/2014, þar sem þess var krafist að greitt yrði mótframlag lífeyrisiðgjalda af biðstyrksgreiðslum. Úrskurðarnefndin vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 30. september 2014, þar sem ekki var talið að C uppfyllti skilyrði þess að teljast aðili að málinu.

 Í kæru kæranda er forsaga málsins rakin og gerð grein fyrir ástæðum þess að svokölluðum biðstyrk var komið á og enn fremur bent á að þáverandi velferðarráðherra hafi sett reglugerð um nánari framkvæmd umræddra styrkveitinga, reglugerð um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu ,,Liðsstyrkur“ nr. 47/2013. 

Af hálfu kæranda kemur fram að hann telji í fyrsta lagi að ákvörðun Vinnumálastofnunar brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Ákvörðunin sé ólögmæt þar sem skýrlega komi fram í 37. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleysisbætur myndi stofn til lífeyrissjóðsaðildar, enda sé bæði viðkomandi einstaklingi og Atvinnuleysistryggingasjóði skylt að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Sú staðreynd að þau viðbótarréttindi sem kveðið sé á um í bráðabirgðaákvæði í 17. gr. laga nr. 142/2012 séu að formi til kölluð ,,sérstakur styrkur“, undanskilji Atvinnuleysistryggingasjóð ekki frá því að viðra þá meginreglu að framfærslutekjur í skilningi 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 myndi ávallt stofn til lífeyrissjóðsaðildar nema skýrlega sé kveðið á um annað í sérlögum. Sérlög þau nr. 142/2012 sem hafi verið ætlað að auka réttindi langtímaatvinnuleitenda kveði ekki á um að réttindaaukningin eða ,,styrkurinn“ eins og hann sé nefndur sé undanþeginn framangreindum meginreglum sem kveði á um að skattskyldar framfærslutekjur myndi stofn til ávinnslu réttinda í lífeyrissjóði. Megi ætla að hafi undanþága frá meginreglu verið ætlun löggjafans að það kæmi skýrlega fram í lögunum eða í lögskýringargögnum. Í raun sé í lögunum talað um ,,styrk sem nemur fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins“ og hið sama sé gert í 3. gr. fyrrgreindrar reglugerðar nr. 47/2013. Kærandi líti svo á að réttur hlutaðeigandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé m.a. að eiga aðild að lífeyrissjóði og að greiðslur úr kerfinu myndi stofn til lífeyrisréttinda, enda beri Atvinnuleysistryggingasjóði að greiða lögbundið 8% mótframlag og að þetta mótframlag sé sannanlega hluti af ,,fjárhæð styrks“ sbr. orðalag 3. gr. nefndrar reglugerðar.

Með vísan til framangreinds telji kærandi að öll viðurkennd lögskýringarsjónarmið geti ekki leitt til annars en að fyrri réttur hlutaðeigandi einstaklinga í atvinnuleysistryggingakerfinu hafi átt að halda sér á framlengingartímabilinu sem kveðið sé á um í 17. gr. laga nr. 142/2012. Framkvæmd Vinnumálastofnunar, f.h. Atvinnuleysistryggingasjóðs með fulltingi velferðarráðuneytisins um að greiða ekki 8% mótframlag í lífeyrissjóð, sé því ólögmæt.

 Í öðru lagi telji kærandi að stjórnvöld hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína. Atvinnuleitendur sem uppfyllt hafi skilyrði um biðstyrk sbr. 17. gr. laga nr. 142/2012 hafi mátt eiga réttmætar væntingar um að halda öllum fyrri réttindum. Leiða megi það af lögum nr. 142/2012 sem kváðu á um framlenginguna. Jafnframt hafi ekkert komið annað frá Vinnumálastofnun sem skilja mætti sem svo að rétturinn samkvæmt svokölluðum biðstyrk væri takmarkaðri en fyrri réttur að því leyti að greiðslurnar mynduðu ekki stofn til réttinda í lífeyrissjóðum. Kærandi telji að það verði að gera þá kröfu til stjórnvalda að upplýsa atvinnuleitendur um svo umfangsmiklar breytingar og hafi Vinnumálastofnun verið í lófa lagið að leiðbeina atvinnuleitendum um framangreint, enda samrýmist það góðum stjórnsýsluháttum sem og skyldu stjórnvalda til leiðbeiningar sem kveðið sé á um í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í þriðja lagi telji kærandi að ákvörðunin um að greiða ekki mótframlag lífeyrissjóðsiðgjalda til hlutaðeigandi einstaklinga, sem hafi þegið svokallaðan biðstyrk, brjóti gegn almennu jafnræðisreglunni sem gildi um samskipti borgaranna við stjórnvöld, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telji ekki málefnaleg sjónarmið fyrir því af hverju ólíkt eigi að gilda um réttindi atvinnuleitenda til aðildar að lífeyrissjóði eftir því hversu lengi atvinnuleysið hafi varað.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. febrúar 2015, kemur fram að mál þetta snúi að því hvort greiðslur biðstyrks til kæranda eigi að mynda stofn til lífeyrissjóðsiðgjalds. Í 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 segi að iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda skuli ákveða í ,,sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti“. Bent er á að í 1. mgr. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða komi m.a. fram að telja skuli til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Af framagreindu sé ljóst að stofn til lífeyrissjóðsiðgjalds teljist laun eða þóknanir fyrir störf sem séu skattskyld skv. 1. mgr. 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Þannig skuli endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu mynda stofn til iðgjalds. Sá biðstyrkur sem um ræði hafi hvorki falið í sér endurgjald fyrir vinnu né þjónustu í skilningi ákvæðisins.

Í ákvæðinu sé einnig tekið fram að það skuli telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar sé meginreglu 3. gr. laga nr. 129/1997 gerð afar rúm skil, með vísan til allra tekna í skilningi 7. gr. laganna. Meginregla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða snúi samkvæmt ákvæðinu einungis að endurgjaldi fyrir vinnu og þjónustu og sé sérákvæði laganna um atvinnuleysistryggingar undantekning frá þeirri meginreglu. Til að leysa úr því álitamáli sem nú sé uppi beri því að horfa til laga um atvinnuleysistryggingar, enda eigi fyrri málsliður ákvæðisins um endurgjald fyrir vinnu, starf og þjónustu ekki við í málinu.

Vitnað er í 1. mgr. 37. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að í athugasemdum með 37. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir að sá sem fái greiddar atvinnuleysisbætur greiði að lágmarki 4% af fjárhæð þeirri í lífeyrissjóð og Atvinnuleysistryggingasjóður greiði 6% mótframlag.

Í athugasemdum frumvarpsins sé því talað um ,,atvinnuleysisbætur“ og í ákvæðinu sjálfu sé vísað til 32. gr. og 33. gr. laganna. Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur og í 33. gr. um grunnatvinnuleysisbætur. Samkvæmt 37. gr. laganna sé Vinnumálastofnun því gert að greiða í lífeyrissjóð atvinnuleitanda af grunnatvinnuleysisbótum og tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Biðstyrkur hafi verið greiddur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 37. gr. laganna um iðgreiðslur til lífeyrisjóða eigi því ekki við um greiðslu biðstyrks. Þá beri einnig að horfa til orðalags áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis.

Í kærunni sé fjallað um orðalag ákvæðisins og sé sérstaklega vísað til þess að styrkur skuli nema fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Með því að vísa til fyrri réttar innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafi bótahlutfall viðkomandi verið gert að viðmiði fyrir þeirri styrkupphæð sem hann hafi átt rétt á. Sú aðferð við að finna út að styrkupphæð feli ekki í sér þá afstöðu að öll önnur skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar eigi við um hagi styrkþega megi nefna að ákvæði biðtíma- og viðurlagakafla laganna hafi því ekki átt við þá sem þegið hafi greiðslur biðstyrks og hafi hafnað starfi eða atvinnuviðtali,  enda hafi Vinnumálastofnun borið að stöðva greiðslur styrks ef viðkomandi hafi boðist starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar í stað þess að beita ákvæðum laganna um biðtíma. Þá hafi sá sem þáði biðstyrk ekki getað nýtt sér VIII. kafla um atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda hafi hann ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Þá beri einnig að horfa til þess að í ákvæðinu sé sérstaklega tiltekið að sá tími sem viðkomandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðum laganna og hins vegar styrk samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu geti aldrei orðið lengri en samtals 42 mánuðir. Því sé í ákvæðinu gerður augljós greinarmunur á atvinnuleysisbótum annars vegar og umræddum styrkgreiðslum hins vegar. Í ljósi þess að skýrt sé kveðið á um það að einungis skuli greiða iðgjald til lífeyrissjóða af grunnatvinnuleysisbótum og tekjutengdum atvinnuleysisbótum í 37. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefði löggjafinn þurft að taka það skýrt fram í bráðabirgðaákvæðinu ef 37. gr. laganna ætti einnig við um þær styrkgreiðslur.

Þegar ákvæðum 37. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sleppi sé ekki fyrir hendi heimild til að greiða lífeyrisiðgjald af greiðslu styrks til kæranda. Hafi kærandi ekki bent á á hvaða grundvelli það iðgjald skuli greitt. Telji Vinnumálastofnun sér ekki heimilt að greiða iðgjald til lífeyrissjóða af biðstyrk.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. febrúar 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. mars 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

  1. Niðurstaða

Kærandi í þessu máli þáði greiðslu biðstyrks á tímabilinu 1. febrúar 2013 til og með 28. júní 2013. Greiðsla þessa biðstyrks studdist við þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi uppfyllti skilyrði þau sem fram kæmu í bráðabirgðaákvæði XI. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. áðurnefndra laga nr. 142/2012. Enn fremur studdist útgreiðsla biðstyrks til kæranda við ákvæði reglugerðar nr. 47/2013 um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“. Af þessum útgreiðslum biðstyrks leiddi að Atvinnuleysistryggingasjóður hvorki dró 4% eigið framlag af kæranda í lífeyrissjóð né heldur greiddi sjóðurinn 8% mótframlag í lífeyrissjóð.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fullyrt að hann hafi gert munnlegar athugasemdir við fulltrúa á þjónustuskrifstofu VMST um að „ekki hafi verið greitt 8% mótframlag af biðstyrknum til hans lífeyrissjóðs sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og 7. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða“. Þessar fullyrðingar kæranda geta ekki haggað því að andmæli hans af þessu tilefni bárust fyrst, með sannanlegum hætti, með bréfi lögmanns hans til Vinnumálastofnunar, dags. 14. nóvember 2014. Þá voru liðnir a.m.k. rúmir 15 mánuðir frá því að síðasta biðstyrksgreiðsla Vinnumálastofnunar hafði borist kæranda.

 Samkvæmt fyrirliggjandi kæru er verið að kæra þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna þeirri kröfu kæranda, sem send var með bréfi lögmanns hans, dags. 14. nóvember 2014, að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði sér vangreitt lífeyrissjóðsiðgjald að fjárhæð kr. 69.400-, auk dráttarvaxta. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 1. desember 2014, og kæra vegna þeirrar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni 10. desember 2014.

Þrátt fyrir fyrrnefnt bréf Vinnumálastofnunar, dags. 1. desember 2014, hafði stofnunin með réttu lagi tekið ákvörðun um þessi efni þegar biðstyrksgreiðslur voru inntar af hendi til kæranda á tímabilinu 1. febrúar 2013 til og með 28. júní 2013. Líta verður því svo á að frestur til að kæra þau atriði sem mál þetta lýtur að, hafi í síðasta lagi hafist 1. ágúst 2013 en þá barst kæranda væntanlega síðasta greiðsla biðstyrks vegna áðurnefnds tímabils frá 1. febrúar til og með 28. júní 2013.

Með vísan til þeirra meginreglna sem fram koma um þriggja mánaða kærufrest í 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ætti því að öðru jöfnu að vísa þessu máli frá. Slík niðurstaða myndi styðjast við þá skipan að ekki sé hægt að fara framhjá meginreglum um kærufresti til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga með því einu að setja fram kröfu um löngu liðin málsatvik og í kjölfarið kæra höfnun Vinnumálastofnunar á slíkri kröfu til úrskurðarnefndarinnar.

Þrátt fyrir þessa meginstafi um fresti til að bera kæru undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, ber til þess að líta að C rekur þetta mál fyrir kæranda en samkvæmt gögnum málsins hefur sambandið andmælt þessari framkvæmd við greiðslu biðstyrkja allar götur síðan Vinnumálastofnun barst tölvupóstur aðstoðarframkvæmdarstjóra samtakanna 14. febrúar 2014. Enn fremur kærðu samtökin framkvæmd þessa til úrskurðarnefndarinnar en þeirri kæru var vísað frá nefndinni, m.a. vegna aðildarskorts, sbr. áðurnefndan úrskurð nefndarinnar frá 30. september 2014 í máli nr. 66/2014.

Með vísan til þessarar forsögu af hagsmunagæslu C gagnvart Vinnumálastofnun og í ljósi mikilvægis þess að úr kærunni sé leyst á efnislegum forsendum, þykir rétt að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. til hliðsjónar 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það styrkir enn fremur þessa niðurstöðu að Vinnumálastofnun hefur ekki byggt á því fyrir nefndinni að vísa eigi þessari kæru frá á þeim grundvelli að hún hafi borist utan lögmæltra kærufresta. Telja verður því, miðað við málavexti alla og hagsmuni kæranda að úr þessu máli sé leyst á efnislegum forsendum, að sú niðurstaða, að taka kæruna fyrir, sé ekki í ósamræmi við 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Skilja verður málflutning kæranda svo að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi að greiða mótframlag í lífeyrissjóð af biðstyrk kæranda af þrem ástæðum. Í fyrsta lagi sé slík skylda í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar eins og beri að beita henni í þessu tiltekna máli. Í öðru lagi hafi þeir sem þegið hafa biðstyrk haft réttmætar væntingar um að halda öllum fyrri réttindum sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu og að stjórnvöld hafi vanrækt skyldur sínar til að leiðbeina þeim með fullnægjandi hætti. Í þriðja lagi að það samrýmist ekki jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar ef þeir sem þiggja biðstyrk fái ekki greitt mótframlag í lífeyrissjóð á meðan almennir atvinnuleitendur fengu slíkar greiðslur inntar af hendi.

Öllum þessum málsástæðum kæranda verður að hafna. Nú verður gerð nánari grein fyrir þessari niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Við úrlausn fyrstu málsástæðu kæranda ber til þess að líta að lög um atvinnuleysistryggingar  með síðari breytingum, hafa byggt á því að atvinnuleitandi geti aldrei fengið greiddar atvinnuleysistryggingar í lengri tíma en 36 mánuði innan hvers bótatímabils, sbr. meginreglu þá sem finna mátti í 1. mgr. 29. gr. laganna á þeim tíma sem hér skiptir mál. Meðal annars í því skyni að draga úr áhrifum þeim sem beiting þessarar meginreglu hefur á réttarstöðu atvinnuleitanda var frumvarp flutt af þáverandi velferðaráðherra sem var útbýtt á Alþingi 11. desember 2012. Frumvarp þetta, með áorðnum breytingum, var samþykkt ellefu dögum síðar og varð að lögum nr. 142/2012, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Af efni áðurnefndra laga nr. 142/2012 má ráða að ekki hafi staðið vilji til þess að lengja hið 36 mánaða bótatímabil, hvorki tímabundið né til lengri tíma. Þessi í stað var til þess ráðs gripið að setja sértækar reglur um biðstyrki sem skyldu gilda almanaksárið 2013. Þetta stefnumið var útfært með setningu a–liðar 17. gr. laga nr. 142/2012, sbr. svohljóðandi ákvæði XI til bráðabirgða við lög um atvinnuleysistryggingar:

Sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á árinu 2013 getur átt rétt á sérstökum styrk sem nemur fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði til viðbótar en þó aldrei til lengri tíma en að því tímamarki að viðkomandi býðst starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Samanlagður tími þar sem viðkomandi hefur annars vegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðum laga þessara og hins vegar styrk samkvæmt ákvæði þessu getur þó aldrei orðið lengri en samtals 42 mánuðir.
Þegar atvinnuleitanda býðst úrræði, sbr. 1. mgr., fellur niður réttur hlutaðeigandi til styrks skv. 1. mgr.

Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2013.

Þetta lagákvæði var skýrt með svofelldum hætti í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum nr. 142/2012:

  „Lagt er til að atvinnuleitendur sem hafa verið tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði miðað við 1. janúar 2013 geti fengið sérstakan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur þeim rétti sem hlutaðeigandi átti áður innan kerfisins þegar hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laganna. Þessir styrkir eru hluti átaksins til vinnu 2013, Vinna og virkni, sem fyrirhugað er að ráðast í á árinu 2013 en um er að ræða átaksverkefni stjórnvalda í samvinnu við sveitarfélög sem og aðila vinnumarkaðarins. Styrkur þessi er háður því að viðkomandi hafi ekki hafnað því starfs- eða námstengda vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar sem honum stóð til boða enda gert ráð fyrir að styrkurinn falli niður bjóðist hlutaðeiganda slíkt úrræði. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að greiða styrkinn í allt að sex mánuði en þó aldrei lengur en að því tímamarki að viðkomandi býðst framangreind úrræði innan atvinnuátaksins. Enn fremur er gert ráð fyrir að samanlagður tími þar sem viðkomandi hefur annars vegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar og hins vegar framfærslustyrk samkvæmt ákvæði þessu geti aldrei orðið lengri en samtals 42 mánuðir. Áætlað er að það reyni á ákvæði þetta á fyrstu mánuðum ársins 2013 meðan verið er að bjóða þeim atvinnuleitendum úrræði innan átaksverkefnisins sem hafa verið hvað lengst án atvinnu en á vormánuðum árið 2013 er gert ráð fyrir að flestum í þessum hópi hafi boðist úrræði. Engu síður þykir rétt að ákvæði þetta gildi allt árið 2013 eða á því tímabili sem gert er ráð fyrir að fyrrnefnt átaksverkefni standi yfir“ (skáletranir eru nefndarinnar).

Það samrýmist í senn orðalagi fyrrnefnds bráðabirgðaákvæðis sem og tilvitnuðum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 142/2012, að líta eigi á biðstyrk sem sérstakan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði er væri ígildi framfærslustyrks að því marki að tilteknar vinnumarkaðsaðgerðir, svokallaður Liðsstyrkur, kæmust að fullu til framkvæmda. Fallast verður því á þann skilning Vinnumálastofnunar að 1. mgr. 37. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við um greiðslu biðstyrks heldur beri að túlka það ákvæði þröngt og það vísi eingöngu í grunnatvinnuleysisbætur og tekjutengdar atvinnuleysisbætur, sbr. 32. og 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt verður fallist á að orðalag bráðabirgðaákvæðisins „sem nemur fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins“ vísi eingöngu til þess hlutfallslega réttar sem rétthafi biðstyrksgreiðslna hafði áður sem atvinnuleitandi í atvinnuleysistryggingakerfinu. Með vísan til þessa, og að öðru leyti til þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu að þessu leyti, verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að brotið hafi verið á rétti hans þannig að í bága fari við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Í öðru lagi er ljóst að með setningu bráðabirgðaákvæðis XI, sbr. 17. gr. laga nr. 142/2012, var gripið til aðgerða sem voru ívilnandi fyrir hóp tiltekinna atvinnuleitenda, þ.e. í stað þess að rétti viðkomandi í atvinnuleysistryggingakerfinu væri lokið í skjóli áðurnefndrar meginreglu 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þá gafst viðkomandi einstaklingum kostur á að fá biðstyrk greiddan úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Ekki er fallist á þá málsástæðu kæranda að viðkomandi einstaklingar, þ.m.t. kærandi, hafi haft réttmætar væntingar til þess að réttarstaða þeirra væri alfarið eins og þegar þeir þáðu greiðslu atvinnuleysisbóta, enda er það mat úrskurðarnefndarinnar að þessi málsástæða kæranda sé ekki í samræmi við það sem kemur fram í lagatexta. Þá hafa hvorki fullnægjandi rök né gögn verið lögð fram sem leiða í ljós að stjórnvöld hafi við framkvæmd greiðslna biðstyrks brotið á skyldu sinni til að leiðbeina biðstyrksrétthöfum um að mótframlag í lífeyrissjóð yrði ekki innt af hendi.

Í þriðja lagi er ljóst að löggjafinn valdi með setningu margnefnds bráðabirgðaákvæðis XI laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 142/2012, að gera greinarmun á atvinnuleitendum og þeim sem áttu rétt til að fá greiddan biðstyrk. Fyrir þessum greinarmun voru færðar þær skýringar að styðja þyrfti tímabundið við bakið á þeim einstaklingum sem væru að missa rétt sinn í atvinnuleysistryggingakerfinu og þangað til að tilteknar vinnumarkaðsaðgerðir kæmu að fullu til framkvæmda. Það er ekki á valdi úrskurðarnefndarinnar að endurskoða þetta mat löggjafans. Jafnræðissjónarmið, hvort sem þau styðjast við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar eða almennra laga, hafa því ekki þýðingu við úrlausn á því hvort krafa kæranda um mótframlag í lífeyrissjóð, eigi fram að ganga.

Með vísan til alls framanritaðs verður kröfum kæranda hafnað.


Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna því að biðstyrksgreiðslur til A myndi stofn til lífeyrissjóðsiðgjalds er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum