Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2014

Úrskurður

   Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. nóvember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 23/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. desember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem fram komi í fyrirliggjandi gögnum að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra. Hann hafi starfað hjá B frá 2. júlí 2013. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 2. júlí 2013 samtals með 15% álagi 820.088 kr. sem verði innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 20. febrúar 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri þina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 27. desember 2012. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 26. nóvember 2013, var honum tilkynnt að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefði hann verið við störf hjá fyrirtækinu B 24. október 2013 án þess að hafa tilkynnt um störf sín til Vinnumálastofnunar. Kæranda var veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum og 29. nóvember 2013 barst Vinnumálastofnun skýringarbréf kæranda. Þar gerði hann grein fyrir því að hann hefði stofnað fyrirtækið B en hann þiggi ekki laun þaðan. Launagreiðslur frá B. til hans eigi að hefjast í maí 2014 og það sé skjalfest hjá ríkisskattstjóra. Kærandi tók fram að hann væri virkur í atvinnuleit sinni.

Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi Vinnumálastofnunar 27. desember 2013 en fyrir lágu færslur af vefsíðunum D og E og skýringarbréf kæranda, dags. 29. nóvember 2013. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar og var hann birtur kæranda með bréfi, dags. 3. janúar 2014.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann telji ákvörðun Vinnumálastofnunar byggða á röngum forsendum og að stofnunin hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hann hafi stofnað félagið B í apríl 2013 eftir að hafa útskrifast úr námi í hljóðtækni í C í byrjun árs 2013. Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun vitni í nokkrar færslur af Facebooksíðu félagsins og álykti að hann hafi unnið þau verkefni sem vitnað er í en það sé ekki raunin. Einnig sé vitnað í færslu um að B hafi ráðið til sín starfsmann. Það sé heldur ekki rétt því um verktaka hafi verið að ræða og hafi sá aðili unnið umrædd verkefni, sem Vinnumálastofnun haldi fram að kærandi hafi unnið. Enn fremur beri að athuga að Vinnumálastofnun gangi út frá því að hann hafi verið kominn í fullt starf frá 2. júlí 2013 eða þegar fyrsta færsla komi inn á Facebooksíðu B um að félagið hafi verið stofnað. Það sé með öllu röng túlkun á aðstæðum þar sem um launalausa helgarvinnu hafi verið að ræða sem hafi farið fram í október og nóvember 2013.

Kærandi kveðst hafa fengið það staðfest hjá ríkisskattstjóra að hann hafi hvorki verið skráður launþegi né tekið við launagreiðslum frá félaginu frá stofnun þess í apríl 2013 enda komi skýrt fram á umsóknarpappírum félagsins hjá ríkisskattstjóra að engir starfsmenn hafi verið skráðir á launaskrá fyrr en í maí. Auk þess segist Vinnumálastofnun hafa upplýsingar frá ríkisskattstjóra þess efnis að hann hafi verið við störf hjá B 24. október 2013. Það sé ekki rétt. Honum hafi verið tilkynnt af þeim aðilum sem komið hafi í húsnæði félagsins að F að um skatteftirlit væri að ræða og að ástæða heimsóknarinnar hafi verið sú að félagið væri að innskatta töluvert. Hann hafi útskýrt fyrir þeim að ástæða innsköttunar væri mikill framkvæmda- og tækjakostnaður. Það sé ekkert óeðlilegt við það að hann hafi verið í húsnæðinu þar sem hann sé hluthafi í félaginu og félagið sé með húsnæðið á leigu. Hann hafi aldrei verið spurður hvort hann væri við störf eða beðinn um neinar útskýringar á því hvers vegna hann væri staddur í húsnæðinu. Þess megi geta að hann hafi haft samband við ríkisskattstjóra og þar hafi enginn kannast við umrædda tilkynningu til Vinnumálastofnunar.

Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun vísi í úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða nr. 159/2012 máli sínu til stuðnings. Sá samanburður eigi ekki við þar sem hann hafi hvorki þegið laun né verið starfandi á innlendum vinnumarkaði samhliða því tímabili sem hann hafi þegið atvinnuleysisbætur. Hann hafi verið virkur í atvinnuleit og uppfyllt öll þau skilyrði sem þurfi til að teljast að fullu tryggður. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til úrskurða úrskurðarnefndarinnar nr. 135/2011, 140/2011 og 152/2011.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. mars 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna það til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a. eða 10. gr. laganna. Bent er á að annar málsliður 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Fram komi í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi borist ábending frá eftirlitssviði ríkisskattstjóra um störf kæranda hjá fyrirtækinu B í kjölfar eftirlitsheimsóknar á starfsstöð 13. nóvember 2013. Hafi þá hafist athugun af hálfu Vinnumálastofnunar á aðkomu kæranda að fyrirtækinu B, en kærandi hafi ekki tilkynnt til stofnunarinnar um stofnun fyrirtækisins eða vinnu hans í þess þágu. Við þá athugun hafi komið í ljós að kærandi hafi verið við störf samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Á vefsíðunni D komi fram að B sé nýtt framleiðslufyrirtæki sem sérhæfi sig í upptökum og eftirvinnslu á tónlist, hljóðvinnslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni, auglýsingagerð, hljóð og mynd, talsetningu á teiknimyndum og leiknu efni. Þá komi fram að fyrirtækið hafi tekið að sér verkefni fyrir G,  H og I. Af vefsíðunni E megi ráða að fyrirtækið sé í fullum rekstri. Vefsíðan hafi verið sett á fót 12. mars 2013 og af færslum hennar megi ráða að virkni síðunnar hafi hafist 2. júlí 2013. Þann 10. júlí 2013 hafi birst færsla þar sem segi orðrétt: ,,Við hjá B vorum að leggja lokahönd á auglýsingu fyrir útsölumarkað J sem nú stendur yfir“. Þann 18. september 2013 hafi birst færsla þar sem segi orðrétt: ,,K heldur áfram seinna í september! B sér um hljóðvinnslu á seríu 2 af þessum fyndnu sketsum“. Þá megi ráða af færslu frá 18. nóvember 2013 að fyrirtækið hafi ráðið til sín starfsmann. Finna megi margar færslur í umræddri síðu sem gerðar hafi verið í nafni kæranda sjálfs. 

Samkvæmt hlutafélagaskráningu Creditinfo sé kærandi stofnandi, stjórnarmeðlimur, framkvæmdastjóri og handhafi prókúruumboðs fyrir félagið B.

Fram kemur að kærandi greini frá því í rökstuðningi sínum að Vinnumálastofnun gangi út frá því að hann hafi verið kominn í fullt starf frá 2. júlí 2013 eða þegar hin fyrsta facebook færsla hafi verið birt og að það sé með öllu röng túlkun á aðstæðum þar sem um launalausa helgarvinnu hafi verið að ræða sem fram hafi farið í október og nóvember 2013. Þá hafi kærandi einnig greint frá því að við heimsókn eftirlitssviðs ríkisskattstjóra á starfsstöð B hafi kærandi greint frá því að ástæða innsköttunar fyrirtækisins væri mikill framkvæmda- og tekjukostnaðar. Að mati Vinnumálastofnunar megi ráða af fyrirliggjandi gögnum í máli þessu og skýringum kæranda sjálfs að hann hafi verið við störf samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi ekki tilkynnt um störf sín til stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 16. apríl 2014. Úrskurðarnefndinni barst bréf frá kæranda, dags. 15. apríl 2014. Þar bendir kærandi á að greinargerð Vinnumálastofnunar sé dagsett 31. mars 2014, en úrskurðarnefndin hafi gefið stofnuninni frest til að skila greinargerð til 12. mars 2014. Fresturinn hafi því verið útrunninn þegar hún barst og geti greinargerðin ekki talist gild.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Fyrri málsliðurinn á við í máli þessu.

Samkvæmt hlutafélagaskráningu Creditinfo er kærandi stofnandi, stjórnarmeðlimur og handhafi prókúruumboðs fyrir félagið B. Á vefsíðunni D kemur fram að B sé nýtt framleiðslufyrritæki sem sérhæfir sig í upptökum og eftirvinnslu á tónlist, hljóðvinnslu í kvikmyndum og sjónvarpsefni, auglýsingagerð, talsetningu á teiknimyndum og leiknu efni. Þá kemur fram að félagið hefur tekið að sér verkefni fyrir G, H og I. Facebook síða fyrirtækisins var sett á fót 12. mars 2013 en virkni síðunnar hófst 2. júlí 2013. Þann 10. júlí 2013 segir á þeirri síðu að þeir hjá B hafi verið að leggja lokahönd á auglýsingu fyrir útsölumarkað J sem nú standi yfir. Þann 18. september 2013 birtist færsla þar sem fram kemur að K haldi áfram seinna í september og B sjái um hljóðvinnslu á seríu 2 í þeim fyndnu sketsum. Þá má ráða af færslu frá 18. nóvember 2013 að fyrirtækið hafi ráðið til sín starfsmann. Á síðunni eru margar færslur sem gerðar hafa verið í nafni kæranda.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ráðið af fésbókarfærslum kæranda auk skýringa hans sjálfs að hann hafi verið við störf í fyrirtæki sínu B frá 3. júlí til 30. nóvember 2013 samhliða töku atvinnuleysisbóta án þess að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar eins og honum bar að gera. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a. sömu laga, verður því að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og gera honum að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 761.179 kr. auk 15% álags eða samtals 875.356 kr. er staðfest.

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. apríl 2014, bendir hann á að Vinnumálastofnun hafi haft frest til þess að skila úrskurðarnefndinni greinargerð sinni vegna málsins til 12. mars 2014, en hún hafi verið dagsett 31. mars 2014. Fresturinn hafi því verið liðinn og greinargerðin geti ekki talist gild. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er ljós nauðsyn þess og mikilvægi að hraða meðferð og úrlausn mála sem fyrir nefndina eru lögð. Það breytir þó ekki niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli þessu að greinargerð Vinnumálastofnunar hafi borist nefndinni 19 dögum eftir að frestur til þess var liðinn.

 Úrskurðarorð


Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. desember 2013 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Kærandi endurgreiði enn fremur ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 713.120 kr. auk 15% álags eða samtals 820.088 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum