Hoppa yfir valmynd
28. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 134/2013

Úrskurður

 

.Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 134/2013.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að í bréfi, dags. 11. október 2013, var fjallað um umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur frá 16. október 2012 og ákveðið að stöðva greiðslur til hennar á grundvelli d-liðar 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún hafði ekki óbundið atvinnuleyfi, samkvæmt 17. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, til að ráða sig í vinnu hér á landi án takmarkana. Kæranda var með sama bréfi gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 16. október 2012 til 30. september 2013 samtals með 15% álagi að fjárhæð 1.197.386 kr. Síðar var 15% álagið fellt niður en kæranda eftir sem áður gert að greiða höfuðstólinn að fjárhæð 1.041.205 kr. sem verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. nóvember 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi er útlendingur og er ríkisborgari í B. Í bréfi Vinnumálastofnunar til C, dags. 22. júní 2012, kemur fram að Vinnumálastofnun veitti því fyrirtæki leyfi til að ráða kæranda tímabundið til starfa og var gildistími leyfisins til 16. mars 2013. Kærandi missti vinnuna vegna samdráttar. Hún sótti um atvinnuleysisbætur 16. október 2012 og var bótaréttur hennar metinn 91% og fékk hún greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við það til 1. október 2013. Við eftirlit með greiðslum atvinnuleysisbóta 27. september 2013 kom í ljós að kærandi hafði ekki óbundið atvinnuleyfi og hafði ekki haft slíkt leyfi allan þann tíma sem hún hafði þegið atvinnuleysisbætur. Var kæranda því sent bréf þar að lútandi, dags. 27. september 2013, og henni bent á að hún ætti því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi svaraði ekki þessu erindi og var henni tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar um framangreinda ofgreiðslu atvinnuleysisbóta með bréfi, dags. 11. október 2013.

Vinnumálastofnun barst tölvupóstur frá sambýlismanni kæranda þar sem farið var fram á endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar og meðal annars vísað til reglugerðar um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 339/2005, þar sem það væri mat hans og kæranda að kærandi væri undanþegin atvinnuleyfi samkvæmt reglugerðinni. Málið var í kjölfarið tekið fyrir að nýju og 15% álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hennar fellt niður þar sem kæranda yrði ekki kennt um þá annmarka sem leiddu til niðurstöðu Vinnumálastofnunar. Ekki var fallist á að kærandi hefði verið undanþegin atvinnuleyfi samkvæmt reglugerð nr. 339/2005 og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og hefði því ekki haft óbundinn rétt til að ráða sig til starfa hér á landi í skilningi d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi, dags. 11. nóvember 2013. Vinnumálastofnun veitti umbeðinn rökstuðning í málinu með bréfi, dags. 13. nóvember 2013.

Kærandi hafnar alfarið þeirri kröfu Vinnumálastofnunar að henni skuli gert að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið. Hún telji sig undanþegna atvinnuleyfi skv. b- og c-liðum 3. gr. reglugerðar nr. 339/2005. Samkvæmt því vísar kærandi til c-liðar 3. gr. reglugerðarinnar þar sem hún eigi barn sem sé íslenskur ríkisborgari með sambýlismanni sínum. Kærandi fer því fram á það að þurfa ekki að endurgreiða atvinnuleysisbæturnar og að hún verði undanþegin kröfum um atvinnuleyfi á grundvelli reglugerðar velferðarráðuneytisins.

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til Vinnumálastofnunar, dags. 14. nóvember 2013, var óskað allra gagna málsins og stofnuninni jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Í svari Vinnumálastofnunar, dags. 21. janúar 2014, kemur fram að stofnunin telji að kæruefnið lúti ekki að ákvörðun sem tekin sé á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar heldur að því hvort kærandi geti talist vera undanþegin kröfum um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Úrskurðarnefndin tók málið fyrir í kjölfarið og taldi að ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og óskaði því efnislegrar umsagnar Vinnumálastofnunar um málið. Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2014, er ítrekað að það sé afstaða stofnunarinnar að úrlausn um það hvort kærandi sé undanskilin kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002 og reglugerð nr. 339/2005 falli utan við valdsvið úrskurðarnefndarinnar og kærur vegna ákvarðana Vinnumálastofnunar er varði skyldu kæranda til að fá útgefið atvinnuleyfi falli undir valdsvið velferðarráðuneytisins, sbr. 34. gr. laga nr. 97/2002. Þrátt fyrir þessa afstöðu sína reifaði Vinnumálastofnun röksemdir sínar fyrir því af hvaða ástæðum kærandi sé ekki undanskilin kröfunni um atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002.

Þá kemur fram af hálfu Vinnumálastofnunar að mál kæranda snúi að því hvort hún hafi uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar segir að launamaður sem uppfyllir það skilyrði að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana teljist tryggður samkvæmt lögunum. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er var að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram um 13. gr. laganna að áfram verði gert skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Þar sé um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafi leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafi verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum. Fjallað sé um atvinnuréttindi útlendinga í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 339/2005.

Vinnumálastofnun bendir á að í 1. gr. laga nr. 97/2002 segi að lögin gildi um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi og um undanþágur frá þeim gildi ákvæði III. kafla laganna. Í 22. gr. laganna sé kveðið á um hvaða aðilar séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi og í c-lið 1. mgr. ákvæðisins sé tekið fram erlendir makar íslenskra ríkisborgara. Enn fremur segi í e-lið 3. gr. reglugerðar nr. 339/2005 erlendur maki íslensks ríkisborgara, en skv. 10. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar sé gerður greinarmunur á milli maka og sambúðarmaka. Af framangreindu sé ljóst að löggjafinn hafi tekið ákvörðun um að aðeins makar, þ.e. útlendingur sem sé í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, séu undanþegnir skilyrði um atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002. Á þeim tíma sem kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta hafi framangreint skilyrði ekki verið uppfyllt.

Kærandi vísi í kæru sinni til c-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 339/2005 um að ættmenni launamanns sem sé ríkisborgari í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og maka hans sem skyldir séu að feðgatali séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi. Byggi kærandi þá kröfu sína um að vera undanþegin atvinnuleyfi þar sem hún eigi íslenskt barn, þ.e. barn hennar sé íslenskur ríkisborgari og hún sé ættmenni þess að feðgatali. Vinnumálastofnun vekur athygli á því að í c-lið 3. gr. reglugerðarinnar sé gerð krafa um að sá einstaklingur sem kærandi ætli að byggja rétt sinn á teljist vera launamaður og á framfæri þess einstaklings, þ.e. í tilfelli kæranda yrði hún að vera á framfæri barns síns, sbr. b-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE. Þar sem ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýni fram á það að barn kæranda sé launamaður, þ.e. starfandi á innlendum vinnumarkaði, séu skilyrði c-liðar 3. gr. reglugerðarinnar ekki uppfyllt.

Önnur undanþáguákvæði 22. gr. laga nr. 97/2002 og reglugerðar nr. 339/2005 eigi ekki við í tilfelli kæranda og sé hún því ekki undanþegin kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002. Þar sem kærandi hafi aðeins fengið útgefin tímabundin atvinnuleyfi og sé því ekki komin með óbundið atvinnuleyfi, sbr. 17. gr. laganna, teljist hún ekki hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana samkvæmt d-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. júlí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 18. júlí 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að Vinnumálastofnun telur kæranda hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 16. október 2012 til 30. september 2013 að fjárhæð samtals 1.041.205 kr., þar sem hún hafi á þeim tíma ekki haft heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana skv. d-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Tekin var ákvörðun á fundi Vinnumálastofnunar 9. október 2013 um að kærandi skyldi endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laganna að fjárhæð samtals 1.197.386 kr. með 15% álagi inniföldu. Vinnumálastofnun féll síðar frá þeirri ákvörðun sinni að krefjast endurgreiðslu álagsins og felldi það því niður þar sem kæranda yrði ekki kennt um þá annmarka sem leitt hafi til ákvörðunar stofnunarinnar. Endurgreiðslukrafan nam því 1.041.205 kr.

Kærandi sem er útlendingur fékk tímabundið leyfi til þess að starfa hjá C og var gildistími leyfisins frá 22. júní 2012 til 16. mars 2013. Kærandi missti starf sitt hjá fyrirtækinu vegna samdráttar og sótti um atvinnuleysisbætur 16. október 2012.

Í d-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að launamaður sem uppfyllir það skilyrði að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana teljist tryggður samkvæmt lögunum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir meðal annars um d-lið 13. gr. laganna að áfram verði gert skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Þar sé um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafi leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafi verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum.

Eftir að kærandi missti starf sitt hjá C uppfyllti hún ekki lengur skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þess efnis að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana. Vinnumálastofnun var því rétt að gera kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 1.041.205 kr. fyrir tímabilið 16. október 2012 til 30. september 2013. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 9. október 2013 er staðfest. Kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hún fékk fyrir tímabilið 16. október 2012 til 30. september 2013 að fjárhæð 1.041.205 kr.

Brynhildur Georgsdóttir,formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum